Takið sinnaskiptum því að dómsdagur er í nánd!
22.6.2014 | 11:58
Fjármálaráðherra Bandaríkjanna í valdatíð George Bush var Hank Poulson. Hann var við stjórnvölinn þegar efnahagshrunið mikla varð á Wall Street árið 2008 og kreppan hófst. Hann er hinn dæmigerði kapítalisti, auðkýfingur og repúblikani og er alltaf talinn fremstur í röð þeirra sem orsökuðu hrunið árið 2008. En á seinni árum hefur Poulson iðrast og sýnt á sér nýjar hliðar. Í grein sem hann skrifar í New York Times í gær hefur Poulson algjörlega snúið við blaðinu. Reyndar er greinin ein sprengja. Hann spáir enn stærra efnahagshruni af völdum loftslagsbreytinga ef ekki er tekið strax í taumana. Helsta ráð hans við vandanum er að koma á kolefnisskatti sem leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er reyndar furðulegt en auðvitað mjög gleðilegt að maður í hans stöðu og með slíkan bakgrunn skuli nú koma fram úr röðum repúblikana og horfast í augu við staðreyndir í loftslagsmálum. Takið sinnaskiptum því að dómsdagur er í nánd!
En tekur almenningur nokkuð mark á tali um loftslagsbreytingar? Okkur, sem fylgjumst vel með breytingunum, finnst þær gerast hratt og óttumst afleiðingarnar. En hættan er að almenningur og kjósandinn sé eins og froskurinn í potinum á eldavélinni. Ef kveikt er undir og hitað rólega, þá stekkur froskurinn ekki uppúr pottinum og soðnar að lokum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Hvað var jökullinn þykkur?
21.6.2014 | 07:11
Ég fjallaði hér fyrir neðan um jökulgarðinn á Látragrunni á ísöld. Íshellan, sem myndaði hann hefur náð allt að 130 km frá landi og líkist því íshellum þeim, sem streyma frá Suðurheimskautinu í dag. En þessi íshella út úr Breiðafirðinum var botnföst og ekki fljótandi. Líkön af ísþykktinni byggjast á því að ísinn hagi sér eins og parabóla, en þykktin er mikið háð því hvað viðnám er mikið milli jökulsins og landsins sem hann fer yfir. Myndin sýnir nokkrar niðurstöður um ísþykkt, sem Eggert Lárusson (1983) hefur sett fram fyrir Vestfirði. Hér er jökullinn inn á landi allt að 2 km þykkur, en sennilega um 1,2 km. Síðan þynnist hann jafnt og þétt úti á landgrunninu, en er alltaf meir en nokkur hundruð metrar (lárétti ásinn er km).
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 07:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jökulgarðurinn á Látragrunni segir merka sögu
20.6.2014 | 16:44
Árið 1975 uppgötvaði Þórdís Ólafsdóttir stóran jökulgarð á Látragrunni. Garðurinn er um 120 km út af Bjargtöngum, en liggur í boga, sem umlýkur mynni Breiðafjarðar, eins og myndin sýnir (bláa svæðið). Ekki hefur garðurinn fengið formlegt nafn, en hefur ýmist verið kallaður Kattarhryggur eða brjálaði hryggurinn. Sjómenn þekkja hann vel, enda er hryggurinn eitt aðal hrygningarsvæði steinbítsins. Hryggurinn hefur myndast af risastórum skriðjökli, sem fyllti allan Breiðafjörð og skreið út til vesturs. Til að hlaða upp slíkum hrygg, þá þarf jökullinn að vera botnfastur. Kattarhryggur er um 100 km á lengd og nær allt suður af Kolluál. Þar endar hann og er það sennilega vísbending um, að þar hafi skriðjökullinn flotið í sjó, enda mikið dýpi hér. Hryggurinn er um 2030 m hár og 800-1000 m breiður. Dýpi umhverfis hrygginn er um 200 m að norðan verðu en dýpkar til suðurs í 250 m skammt frá Kolluál. Myndin sýnir þversnið af garðinum, sem er brattari að vestan en að austan.
Látragrunn og reyndar nær allt landgrunnið hefur verið myndað á einn hátt eða annan af skriði jökla til hafsins á ísöld. Garðurinn er ein skýrasta sönnun um það. En hann minnir okkur vel á hvað ísaldarjökullinn hefur verið duglegur að grafa út landið og móta það landslag, sem við köllum firði í dag. Sjálfsagt hafa verið stór fjöll og sennilega samfelld háslétta fyrir ísöld milli Vestfjarða og Snæfellsness. Stöðug hreyfing skriðjökulsins og útgröftur hans hefur fært ógrynni efnis út á brún landgrunns, þar sem því var sturtað niður í hafdjúpin. Þessi tröllvaxna jarðýta hefur unnið hægt og stöðugt, en gleymum því ekki, að hún hafði þrjár milljónir ára (alla ísöldina) til að klára verkið og moka út Breiðafjörð.
Stutt gos í Etnu
19.6.2014 | 19:20
Etna eldfjall á Sikiley byrjaði að gjósa síðastliðinn sunnudag, 15. júní. Það er alltaf viðburður þegar Etna gýs, af því að hún er annað virkasta eldfjall jarðar. Kilauea á Hawaíi er númer eitt. Í fyrstu voru sprengingar í suðaustur gíg fjallsins og síðan tók basalt hraun að streyma niður hlíðar fjallsins. Lokað var flugvöllum á Sikiley um tíma vegna ösku. Gosið náði strax hámarki næsta dag. Myndin sýnir línurit fyrir tvær jarðskjálftastöðvar, sem eru staðsettar í hlíðum Etnu. Þetta er órói eða titringur, sem verður beinlínis vegna streymis á kviku upp um gíginn. Það er góður mælikvarði á goskraftinn. Ég fékk útkall frá félaga mínum, sem á stóran bát með tvær þyrlur og tvo kafbáta um borð. Hann var staddur á Miðjarðarhafi. En ég varð að benda honum á, að þann dag, 17. júní, var þegar byrjað að draga úr goskraftinum og gosið því sennilega komið á lokasprettinn. Því miður of seint að bregðast við. Hinn 19. júní var óróinn kominn í venjulegt horf og gosinu að mestu lokið. Eins og venjulega, þá er goskrafturinn nær alltaf mestur fyrstu tvo dagana og því verða menn að bregðast snöggt við ef skoða skal slíkar hamfarir jarðar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Obama ætlar að friða Kyrrahafið
18.6.2014 | 19:05
Við gleymum því víst oftast að Banadríkin stjórna risastóru svæði í mið og vestur hluta Kyrrahafsins síðan 1944. Kortið sýnir þetta svæði, sem er um tvær milljónir ferkílómetra á stærð (tuttugu sinnum stærra en Ísland) og verður nú friðað. Obama forseti tilkynnti þetta í gær á alþjóðaráðstefnuni Our Ocean, eða Hafið Okkar, í Washington um verndun hafsins. Ráðstefnunni er stýrt af utanríkisráðherra Bandaríkjanna John Kerry, og þar er saman kominn mikill fjöldi vísindamanna, áhrifamanna og stjórnmálamanna heims. Höfuð markmið ráðstefnunnar er að kanna ástand hafsins og bæta hvernig mannfólkið umgengur hafið og auðlindir þess, einkum lífríkið. Hollywood stjarnan Leonardo di Caprio er mikill áhugamaður um verndun hafsins og hefur þegar á ráðstefnunni veitt styrk sem nemur $8 milljón dölum til þessa.
Hér eru fulltrúar allra landa saman komnir nema Íslands! Það er smán, skömm og aumingjaskapur að íslenska ríkið skuli halda svo illa á spöðunum að við erum útilokaðir frá slíkum fundum vegna sóðalegra hvalveiða, sem skila nær engum tekjum til þjóðarinnar. Það er reyndar furðulegt að fjölmiðlar skuli ekki gera meir úr þessu máli og krefja ríkisstjórnina skýringar á þessu ástandi. Reyndar slapp einn íslendingur inn á ráðstefnuna, en það er Árni M. Mathiesen, sem vinnur hjá Sameinuðu Þjóðunum, og fékk að fljóta með. Merkilegt hvernig gamlir kreppuvaldar skjóta aftur upp kollinum í útlöndum
Grænland dökknar
18.6.2014 | 10:06
Grænland er auðvitað ekki grænt, og ekki er það heldur hvítt. Myndin sem við berum flest í huga okkar um Grænland er mjallhvít jökulbreiða. Hún er ekki lengur rétta myndin. Ísinn er að verða skítugur, eins og við Rax rákum okkur á í ferð á innlandsísinn fyrir tveimur árum. Fyrst var haldið að yfirborð Grænlandsjökuls væri að verða dökkara vegna bráðnunar, en þá renna ískristallar saman og mynda stóra kristalla, sem virðast dekkri. En nú kemur í ljós að jökullinn er að verða dekkri vegna ryks, óhreininda, mengunar og eldfjallaösku. Þar hafa einnig áhrif aska frá sprengigosunum í Eyjafjallajökli árið 2010 og Grímsvötnum ári síðar. Einnig hefusót frá skógareldum í Síberíu mikil áhrif. Sumt af rykinu kemur frá strandlengju Grænlands, þar sem bráðnun jökla skilur eftir auð landsvæði. Vindar lyfta síðan rykinu og leirnum af þessu nýja landi og bera inn á ísbreiðuna.
Þegar ísinn dökknar, þá drekkur hann í sig meiri hita frá sólargeislum og bráðnar hraðar. Endurskin sólarljóss frá jökulyfirborðinu minnkar. Mælieiningin fyrir endurskin er albedo. Fyrir hreinan og mjallhvítan snjó er albedo nálægt 0.8 eða 0.9. Fyrir dökkt yfirborð hafsins er albedo hins vegar um eða undir 0.1. Myndin sýnir hvernig albedo breytist eftir árstíðum, en einnig hvernig albedo í heild hefur lækkað á Grænlandsjökli frá 2009 til 2013. Talið er að dökknun Grænlands og fallandi albedo jökulsins auki bráðnun hans að minnsta kosti 10% í viðbót við þá bráðnun sem orsakast beint af hlýnun jarðar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hafið inni í jörðinni
17.6.2014 | 11:07
Var þetta rétt hjá Jules Verne? Er stór hafsjór inni í jörðinni? Nýjar rannsóknir benda til að það sé miklu meira vatn í iðrum jarðar en haldið var, en það er ekki í fljótandi formi, heldur bundið inn í kristöllum. Hér er mynd af demant sem fannst í Brazilíu árið 2008. Hann er frekar ljótur, og var seldur á aðeins $10, en hann hefur reynst vera fjársjóður fyrir vísindin. Demanturinn, sem barst upp á yfirborð jarðar í eldgosi, er ekkert sérlega merkilegur að sjá, en innan í honum finnast fagurbláir kristallar af steindinni ringwoodite. Myndin sýnir einn slíkan ringwoodite kristal.
Þessi kristaltegund hefur áður verið búin til í tilraunum vísindamanna við mjög háan hita og þrýsting sem er jafn og á 400 til 600 km dýpi inni í jörðinni. Nú er loksins búið að finna ringwoodite í náttúrunni og sú uppgötvun er að bylta mynd okkar um innri gerð jarðar og um magnið af vatni inni í jörðinni. Ringwoodite kristall getur innihaldið allt að 2.5% vatn og þess vegna kann að vera mikill vatnsforði djúpt í jörðu, þar sem þessir kristallar þrífast.
Myndin sýnir þversnið af jörðinni. Vegna flekahreyfinga sígur jarðskorpan niður í möttul jarðar í svokölluðum sigbeltum, einkum umhverfis Kyrrahafið. Bergið í jarðskorpunni er blautt og inniheldur töluvert vatn þegar það sígur niður í möttulinn að iðrum jarðar. Á dýpinu í möttlinum myndast vatns-ríkt ringwoodite í þessari fornu jarðskorpu, á um 400 til 600 km dýpi.
Hingað til hefur vísindaheimurinn haldið að meginhluti vatnsins á jörðu væri í höfunum. Heimshöfin og vatn á yfirborði jarðar eru um 1,36 miljarðar rúmkílómetrar, en það er aðeins um 0,023% af öllu rúmmáli jarðar. Nýju niðurstöðurnar varðandi ringwoodite benda til að þrisvar sinnum meira vatn en öll heimshöfin kunni að vera bundin í ringwoodite á um 400 til 600 km dýpi. Nú munu koma fram nýjar kenningar um hringrás vatnsins í jarðkerfinu, milli bergsins sem inniheldur ringwoodite í iðrum jarðar, og hafsins. Það sem keyrir þessa hringrás eru flekahreyfingar og sigbeltin, og það er einmitt þessi hringrás sem gerir jörðina alveg sérstaka og skapar nauðsynlegar aðstæður fyrir lífríkið sem við þekkjum og elskum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gagngata og vörður í Berserkjahrauni
16.6.2014 | 12:54
Þrjár götur liggja um Bererkjahraun: Skollagata, Berserkjagata og Gagngata. Síu síðarnefnda liggur frá Hraunsfirði og þvert yfir hraunið til austurs fyrir norðan Gráukúlu. Forna gatan er nokkurn veginn eins og þjóðvegur númer 558, sem nú nefnist Berserkjahraunsvegur. Við vestur jaðar hraunsins hefur verið hlaðið upp töluvert mannvirki fyrr á öldum, til að gera kleift að komast upp í bratt hraunið.
Vörður eru mjög áberandi í Berserkjahrauni, enda getur hér legið yfir þoka og slæmt skyggni. En eitt er mjög merkilegt við þessar vörður: þær hafa flestar einskonar vegvísi. Það er langur og mjór steinn, sem skagar út úr vörðunni miðri og vísar veginn í áttina að næstu vörðu. Þetta er reyndar mjög skynsamlegt fyrirkomulag. Í blindbyl er ekki nægilegt að komast bara til næstu vörðu. Ferðamaðurinn þarf einnig að vita í hvaða átt hann á að fara til að finna næstu vörðu. Þetta er einkum mikilvægt þar sem vegurinn er krókóttur eins og hér.
Ég hef ekki séð svo merkar vörður annars staðar á ferðum mínum. En vil þó geta þess, að vörður á Skógaströnd hafa einnig vegvísi, til dæmis í grennd við Hvallátur. Þessi vegvísir er á annan hátt. Það er ferhyrnt gat í miðri vörðunni, og með því að sigta í gegnum gatið sér maður næstu vörðu, eða alla vega áttina til hennar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Elsta jarðskorpan er eins og Ísland
13.6.2014 | 21:16
Í norðvestur hluta Kanada eru bergmyndanir, sem eru um 4.02 milljarðar ára að aldri. Þetta berg nefnist Idiwhaa Gneiss og er meðal elsta bergs, sem finnst á jörðu. Til samanburðar er aldur jarðar talinn vera 4.54 milljarðar ára. Mikið af þessu bergi í Kanada er kallað greenstone, eða grænsteinn, en það er ummyndað basalt. Ummyndunin er af völdum jarðhita, eins og gerist í jarðskorpunni undir Íslandi. Reyndar er grænsteinn bergtegund sem er algeng á Íslandi. Við finnum til dæmis grænstein í Hafnarfjalli á móti Borgarnesi og í fjöllunum fyrir ofan Staðarsveit á Snæfellsnesi. Ransóknir á jarðefnafræði og steinafræði þessara fornu myndana í Kanada sýna að þessi jarðskorpa hefur myndast á alveg sama hátt og Ísland. Frumkvikan er basalt, sem hefur myndast við bráðnun í möttli jarðarinnar. Basalt gosin hafa hlaðið upp miklum stafla af hraunum, sem er margir kílómetrar eða jafnvel tugir km á þykkt. Basalt hraunstaflinn varð svo þykkur, að neðri hluti hans grófst djúpt og breyttist vegna jarðhitans í grænstein. Á vissum svæðum í djúpinu bráðnaði ummyndaða bergið og þá varð til líparítkvika. Jarðefnafræði gögnin á forna berginu frá Kanada eru nauðalík niðurstöðum á jarðskorpunni frá Íslandi. Þetta skýrðist allt þegar Kanadískir jarðfræðingar beittu skilningi á myndun Íslands við að túlka Kanadíska fornbergið. Það má segja að myndun Íslands skýri á nokkurn hátt myndun meginlandsskorpu af vissri tegund. Myndin sem fylgir er túlkun Kanadamanna á þeirra elstu jarðskorpu. Takið eftir að jafnvel landakortið, sem þeir teikna á yfirborðið er hermt eftir útlínum Íslands. Það er langt síðan að jarðfræðingar fóru að bera saman gömlu jarðskorpuna í Kanada og Ísland. Robert Baragar var þegar kominn á sporið í kringum 1970.
Ljósmynd Howells af Hrauni
13.6.2014 | 16:10
Ég hef fjallað töluvert um Berserkjahraun hér í blogginu, en hér er ein frábær mynd af gamla bænum. Um aldamótin 1900 tók breski ljósmyndarinn Frederick W.W. Howell yfir 400 myndir á Íslandi. Þær eru nú í safni Cornell Háskóla í Bandaríkjunum og aðgengilegar á netinu. Ein þeirra er merkt þannig í safni Cornell: Hraun. Styr's home. Howell, Frederick W. W. ca. 1900. Styr er að sjálfsögðu Víga-Styrr, sem bjó undir Hrauni eða í Berserkjahrauni. Fjölskyldan raðar sér upp fyrir ljósmyndarann, með pabba og strákinn á aðra hönd og mæðgurnar við bæjardyrnar. Húsmóðirin er búin að setja á sig tandurhreina og hvíta svuntu. Gamli bærinn er að sjálfsögðu alveg eins og á teikningu Collingwoods frá 1897.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)