Færsluflokkur: Jarðefni

Uppruni Nafnsins Basalt

Krotsteinn touchstoneBasalt er algengasta bergtegund á Jörðu, og hún er einnig útbreitt á tunglinu, á Mars og hinum innri plánetum sólkerfisins. Basalt hraun mynda nær allan hafsbotninn umhverfis Jörðu. Hvaðan kemur þá þetta mikilvæga nafn? Það er sennilega upprunnið í Egyptalandi fyrir meir en fimm þúsund árum. Egyptar nota nafnið basanos fyrir svartar og vel slípaðar steinplötur, sem voru notaðar til að greina gæði málma, einkum gulls. Basanos er krotsteinn (touchstone), en þegar gull eða annar málmur var dreginn yfir svörtu plötuna, þá skildi gullið eftir sig gyllta rák, eins og fyrsta myndin sýnir. Litur rákarinnar sem myndaðist á plötunni var mælikvarði á gæði gullsins.  Kleópatra basaltÚr orðinu basanos í Egyptalandi kom síðan orðið basants í Grikklandi hinu forna og enn síðar orðið basalt í latínu Rómarveldis. Egyptar höfðu annað og mun mikilvægara brúk fyrir basalt, en það var sem hráefni í fagarar höggmyndir, ker og skálar. Hér til hliðar er til dæmis fögur mynd úr basalti af sjálfri Kleópötru frá því um 40 fyrir Krist. Maður skilur vel að hann Markús Antóníus hafi fallið fyrir henni … og einnig Júlíus Keisari. Basalt hefur verið eftirsótt hráefni fyrir listamenn í Egyptalandi, í fyrsta lagi vegna þess að það er nær svartur steinn, og í öðru lagi vegna þess hvað bergið er fínkornótt. Þess vegna verður áferðin óvenju jöfn og vel slípuð, eins og sjá má á styttunni af Kleópötru, þar sem allur búkurinn glansar af fegurð. Haddadin basaltNú er búið að finna grjótnámunar þar sem basaltið var unnið til að skapa þessar frábæru myndarstyttur af Kleópötru og faróum Egyptalands. Námurnar eru flestar í einu basalthrauni, sem er um 25 milljón ára gamalt. Það er Haddadin basalt hraunið, fyrir vestan og norðvestan Kaíró borg, eins og kortið til hliðar sýnir. Engin eldvirkni hefur verið í Egyptalandi síðan þetta hraun rann.

Mesti Fjársjóður Heims

Sri Padmanabhaswamy musteriSem börn lesum við ævintýri og sögur um mikla fjársjóði af gulli og gersemum falda í jörðu eða í hirslum auðugra konunga. Þegar við þroskumst gerum við okkur grein fyrir því að slíkur auður tilheyrir aðeins ævintýrum til. En er það alveg satt? Kannske er eitthvað til í þessu! Nýlega hefur fundist einn mesti fjársjóður sögunnar í indversku musteri. Það er Sri Padmanabhaswamy musterið í Kerala héraði í suðvestur Indlandi, en það var fyrst reist á áttundu öldinni. Siðan var það endurbyggt á sextándu öld, sem sjö hæða stórhýsi úr graníti. Musterið er helgað hindu guðnum Vishnu, og hvílir stórt líknesi af Vishnu inni í musterinu, gert úr hreinu gulli. Enda er talið að Vishnu búi í þessu musteri, og er það þar með eitt hið allra mikilvægasta í Indlandi. Fjölskylda maharaja eða konungsins í Kerala héraði hefur um alda raðir varðveitt og séð um musterið, en Travancore konungsríkið réði lengi yfir öllum syðri hluta Indlands. Það var lengi siður að konungsfjölskyldur gáfu musterinu gull öðru hvoru þegar ungir prinsar fengu meiri tign, og þá var magnið af gulli jafnt og þyngd prinsins.  MusteriAlmúginn hefur stöðugt fært musterinu gjafir, og um alda raðir hefur því ógrynni af gulli og gersemum safnast fyrir hér. Musterin á Indlandi hafa lengi safnað fé. Árið 77 fyrir Krist ritaði Plinius Eldri að til Indlands bærist að lokum allt gull jarðar. Á miðöldum streymdi gull til Indlands einkum vegna kryddverslunarinnar við vesturlönd. En nýlega komst orðrómur á kreik um að konungsfjölskyldan hefði gengið í fjársjóð musterisins og selt gull, silfur og gimsteina. Þá hófst opinber rannsókn á musterinu og þeim sex hirslum eða kjallörum þar sem fjársóðurinn er geymdur. Hirslur þessar eða steinhvelfingar nefnast kallaras á Hindu tungu, og dettur manni þá strax í hug að hér sé kominn fram uppruni íslenska orðsins kjallari (kelder á hollensku og källare á sænsku). Flestar af steinhvelfingunum hafa ekki verið opnaðar í hundruðir ára, en þessar steinhvelfingar eru lokaðar af voldugum og margföldum járndyrum og stálgrindum. Fimm af sex kjallörum musterisins hafa nú verið opnaðir af sérstakri rannsóknarnefnd. Þegar voldugar stálgrindur og járnhurðir voru opnaðar, þá kom í ljós haugar af gulli og gimsteinum á gólfinu.Guðinn Vishnu  Fjársjóurinn hafði verði í trékistum, sem höfðu fúnað og rotnað í sundur og eftir var aðeins mylsna á gólfinu en gullið flóði út um allt. Hefur fjársjóðurinn nú verið metinn sem að minnsta kosti $22 milljarðar dala, eða um 2750 milljarðar króna. Nú hefur hafist vörutalning á fjársjóðnum í fimm af sex kjöllurum, en sá sjötti er enn læstur. Tvö hundruð vopnaðir verðir gæta nú musterisins, til að vernda stærsta fjársjóð jarðar frá frekara hnupli af konugsfjölskyldunni og prestum.

Maðurinn sem uppgötvaði íslandít

Ian CarmichaelHinar ýmsu bergtegundir sem myndast á Jörðu bera hver sitt nafn, og fjallar bergfræðin m.a. um þá nafngift.  Þannig höfum við nöfn eins og basalt, líparít, gabbró, granít ofl. Það er ekki oft að nafn bætist við í þessa mikilvægu nafnaröð vísindanna, en árið 1958 kom út doktorsriterð í Bretlandi með nýtt nafn, icelandite eða íslandít.  Það var jarðfræðingurinn Ian Carmichael sem gaf bergtegundinni þetta nafn, en hann uppgötvaði íslandít auðvitað á Íslandi, í fjallinu Þingmúla uppaf Reyðarfirði.  Ian starfaði við jarðfræðirannsóknir á Þingmúla og nágrenni undir handleiðslu George Walker´s, sem kenndi þá við Imperial College í London. Ian tók eftir því að í Þingmúla voru forn hraun, sem höfðu marga eiginleika andesíts (hraunkvika með um 55 til 65% kísil), en bergið í Þingmúla hafði aðra efnafræðilega eiginleika, svo sem mjög hátt járn innihald, og hann lagði til að það væri svo sérstakt að bergið þyrfti nýtt nafn.  Þessi bergtegund er reyndar nokkuð algeng á Íslandi, til dæmis í Grundarmön á Snæfellsnesi, og hana má einnig finna á nokkrum öðrum eldfjallsvæðum Jörðu, einkum á Galapagos eyjum.  Íslandít er mjög dökkt berg, oftast fínkornótt, næstum eins og gler, og mjög stökkt. En þetta var aðeins ein af mörgum uppgötvunum Ians Carmichael.  Hann átti mjög glæsilegan feril sem vísindamaður, og starfaði í fjölda ára sem prófessor við Berkeley Háskóla í Kalíforníu. Hann gaf út kennslubækur og grundvallarrit í bergfræði, ól upp mikinn hóp af frábærum stúdentum sem nú skipa veglegar stöður bergfræðinga í mörgum háskólum heims.  Ian skifti sér ekki mikið meir af jarðfræði Íslands eftir doktorsritgerðina, heldur rannsakaði lengi eldfjöll í Mexíkó, Nýju Gíneu og víðar.  Hann lést árið 2011, og þar með féll frá einn merkasti jarðvísindamaður tuttugustu aldarinnar ... sem kom nafni Íslands inn í kennslubækurnar á sínu sviði.  Eintök af íslandíti frá Grundarmön má meðal annars skoða í Eldfjallasafni í Stykkishólmi.

Kopar og Gull á Bougainville eyju

Uppreisnarmenn BougainvilleÉg hef áður fjallað um kvikmyndina Avatar eftir James Cameron hér í þessu bloggi http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/998231/ Þetta er eiginlega dæmisaga um baráttu milli gráðugra vesturlandabúa og friðsælla frumbyggja. Í kvikmyndinni Avatar ræðst vel vopnað lið námugrafara inn í friðsælt og fagurt land, til að hefja námugröft. Græðgi, rányrkju og grófustu náttúruspjöllum er hér stillt upp andspænis innfæddum þjóðflokki, en þeir lifa í sátt og samlyndi við náttúruna.  Francis OnaMyndin er listaverk og er mjög áhrifamikið áróðurstól sem mun marka tímamót, að mínu áliti. Boðskapur hennar er hreinn og tær, einmitt nú þegar almenningur um allan heim er að vakna af vondum draumi varðandi spillingu á umhverfi okkar af gráðugum útrásavíkingum. Ég er nú á leið til eyjarinnar þaðan sem James Cameron fékk hugmyndina fyrir kvikmyndina Avatar, en það er eyjan Bougainville, sem er sú nyrsta af Sólomonseyjum. Rio Tinto Zinc hóf námurekstur hér árið 1972, og á örstuttum tíma var Panguna náman orðin ein af þemur stærstu koparnámum á Jörðu. Innan skamms voru opnu námupyttirnir orðnir 600 til 800 metrar á dýpt. Á sautján árum skilaði námugröfturinn 3 milljón tonnum af kopar, 306 tonnum af gulli og 784 tonnum af silfri. En náman gat einungis verið rekin með vernd vel vopnaðs herliðs málaliða, sem Rio Tinto fékk frá heimalandi sínu, Ástralíu. Innfæddum íbúum eyjarinnar Bougainville varð strax ljóst að námurekstrinum fylgdi stórfelld spilling á umhverfi og náttúru eyjarinnar, og að námufyrirtækið var að ræna þá miklum auðæfum án þess að stuðla á nokkurn hátt að þróun og velferð eyjarskeggja. Þeir stofnuðu því byltingarsamtök undir forystu Francis Ona, og hófu skæruhernað á hendur Rio Tinto. Panguna koparnámanÁrið 1989 tókst byltingarsinnum að loka námunni eftir mikinn hernað, með því að sprengja upp möstur og turna sem báru raflínur til námunnar. Talið er að meir en tíu þúsund innfæddra hafi fallið í þessum hernaði. Þar með dró Rio Tinto sig til baka frá Bougainville og náman hefur staðið auð og óvirk síðan. En á meðan hefur verð á kopar og gulli margfaldast á heimsmarkaðinum. Bougainville er því á leið með að verða eitt auðugasta landsvæði jarðar -- strax og þeir hefja námureksturinn aftur. Nú er Ona fallin frá vegna malaríuveiki og miklar líkur eru á að námurekstur hefjist nú aftur að nýju.

Hverir á hafsbotni

Black smokerHér á 1700 metra dýpi á hafsbotni fyrir norðan Nýju Gíneu er mikill fjöldi hvera, sem dæla um 300oC dökkgráum og heitum vökva út í hafið.  Efni í heita vatninu þettast og falla út, og mynda spírur sem eru tugir metra á hæð, en aðeins um einn eða hálfur meter í þvermál. Í vökvanum er mikið magn af bakteríum eða örverum, og þrífast á þeim fjöldi snigla, krabba og einnig rækjur, eins og sést á myndinni.  Hnöttóttu hlutirnir eru kuðumngar, sem eru um 10 til 15 cm í þvermál.  Stórkostleg sjón, og einkum spennandi, þar sem spírurnar eru mjög ríkar af málmum, einkum kopar, blýi, gulli og silfri. Nú stendur til að hefja námurekstur hér á 1700 m dýpi.  Myndina tókum við í nótt, úr fjarstýrðum kafbáti.  Ævintýrið heldur áfram...

Uppruni Lofthjúps Jarðar

HadesHades er hið forngríska goð undirheimanna og ríki Hadesar var helvíti. Þannig var Jörðin í upphafi: glóandi heitur bolti, sem var umlukinn miklum hafsjó af bráðinni bergkviku. Hadean er elsta tímabil jarðsögunnar, og nær það yfir tímann frá myndun jarðar fyrir um 4,568 milljörðum ára og þar til fyrir um 3,85 milljörðum ára, þegar fyrsta jarðskorpan, sem hefur varðveist, myndast. Tímabilið frá 3,85 til 2,5 milljörðum ára nefnist Archean eða Upphafsöld. Elsta bergið frá þessum tíma finnst á Grænlandi, Kanada og í Ástralíu. En þótt við höfum ekki berg frá Hadean tíma, þá höfum við samt litlar steindir eða kristalla frá Hades, sem finnast í yngra bergi. 424px-Zircon_microscopeÞetta eru steindir af zirkon, og nú benda rannsóknir til að ef til vill hafi Hades kólnað fyrr og hraðar en áður var haldið. Þessi kristallategund hefur efnasamsetninguna ZrSiO4, og zirkon er nokkuð algengt í íslensku líparíti. Elstu zirkon kristallarnir sem finnast til dæmis í Ástralíu hafa verið aldursgreindir og eru 4,404 milljarðar ára. Það hefur lengi verið deilt um hvenær súrefni hafi orðið ríkjandi þáttur í lofthjúp jarðar. Lengi ríkti sú skoðun að forni lofthjúpurinn hefði verið mjög súrefnissnauður og því ekki beint lífvænlegur. Nú benda rannsóknir á zirkon kristöllum hins vegar í aðra átt. Inni í kristöllunum finnast litlir dropar af kviku, sem nú er gler, en gefur vísbendingu um efnasamsetningu kviku á þessum tíma. Niðurstöðurnar sýna, að súrefnisástand kvikunnar á Hades tíma var svipað og í kviku í dag. Það bendir til að eftir aðeins 150 milljon ar frá myndun Jarðar hafi verið kominn lofthjúpur ekki mjög frábrugðinn þeim sem nú er á Jörðu. AÐEINS 150 milljón ár kann að virðast nokkuð langur tími, en nú lítur málið þannig út, að ótrúlega hröð þróun á jarðskorpunni og lofthjúp hafi átt sér stað á þessu tímabili, og þær aðstæður myndast hér, sem voru einkar hagstæðar fyrir myndun lífs.

Einn milljarður í viðbót

Fjölgun SÞBergljót dóttir mín á afmæli í dag, hinn 31. október. Í dag er líka dagurinn, þegar mannkynið nær tölunni sjö milljarðar, samkvæmt teljara Sameinuðu Þjóðanna. Sennilega fæðist sjömilljarða barnið í Indlandi, þar sem fimmtíu og eitt barn fæðist á mínútu hverri. Hvernig í ósköpunum hefur mannkyninu fjölgað svona ótrúlega mikið? Fyrir tíu þúsund árum voru aðeins um fimm milljón manns á allri jörðinni. Þegar Jesú Kristur fæddist, fyrir rúmum tvö þúsund árum, var mannkynið komið í tvö hundruð milljón. Við náðum fyrsta milljarðinum í kringum árið 1800. Núna er fólksfjölgunin um einn milljarður í viðbót á hverjum tólf eða þrettán árum, eins og myndin sýnir. Það hefur verið talið, að það ætti að draga úr fjölguninni, vegna þess að í löndum eins og Kína og Japan hefur mannfjöldi að mestu staðið í stað undanfarið. En fyrir nokkrum mánuðum lýstu Sameinuðu Þjóðirnar því yfir, að áætlun þeirra væri of lág, vegna þess að barneignir í Afríku og víðar væru hærri en áætlað var.  Næsta mynd er úr Economist og sýnir lengar tímabil, en þar kemur fram mjög slándi hvað fjölgunin er mikil síðustu aldir.  EconomistEins og ég hef áður bloggað um hér, þá er eðlilegt að búast við því að fjósemi minnki í Afríku og annarstaðar í þriðja heiminum ÞEGAR eða EF efnahagur og menntun í þeim þjóðum batnar verulega. En það hefur ekki gerst enn. Á sextíu árum hefur barneign kvenna lækkað frá 6 til 2,5 í heiminum.  Sameinuðu Þjóðirnar sýndu áður of mikla bjartsýni og gerðu ráð fyrir að barneign eða frjósemi kvenna mundi lækka frekar niður í 1,85 barn árið 2100.  En nú hefur sú ágiskun verið hækkuð upp í 2,1.  Það er því mikil óvissa ríkjandi með þrjóun mannfjölda á jörðu, og efri mörkin hjá Sameinuðu Þjóðunum er til dæmis 15,8 billjón manns árið 2100.  En það er auðvitað ýmislegt fleira en frjósemi sem stýrir þessu.  Eitt mikilvægasta atriðið er langlífi.  Það er ótrúlegt en satt, að ævilengd hefur aukist frá 48 árum til 68 ára frá 1950 og 2011.   Hvernig á að fæða allan þennan fjölda? Það er einkum tvennt sem vinnur nú á móti aukinni framleiðslu á akuryrkjusvæðum heims: hnattræn hlýjun og skortur á vatni og tilbúnum áburði, einkum fosfór. Það er nú lauslega áætlað að við hverja eina gráðu, sem hitinn fer yfir hagstæðustu hitamörk á ökrunum, þá fái bóndinn um tíu prósent minni kornuppskeru. Þetta feyndist rétt spá til dæmis í hitabylgjunni miklu, sem gekk yfir Rússland sumarið 2010, en þá hrundi kornuppskera landsins um 40 prósent. Peak_P_websiteVatnsskortur er líka vandamál. Á Indlandi hafa bændur nú borað um 20 milljón holur til áveitu á akra sína, og er grunnvatnsborðið nú óðum að lækka og borholur að þorna upp. Alþjóðabankinn telur, að um 175 milljón Indverjar séu nú aldir á korni sem er sprottið vegna of mikillar uppdælingar úr þverrandi grunnvantslindum. Já, en er þá ekki hægt að auka kornframleiðsluna í heiminum bara með því að nota meiri áburð? Það er eðlilegt að þú spyrjir, og að vísu er það rétt, en vandinn er sá að nú eru heimsforinn af einu helsta efni í tilbúnum áburði að verða á þrotum: fosfór. Fosfór er eitt algengasta steinefnið í mannslíkamanum, næst á eftir kalsíum. Það er um 1% fosfór í líkama okkar og efnið er okkur nauðsynlegt og svo er einnig með allar plöntur á jörðu. Það þarf um eitt tonn af fosfati til að rækta um 130 tonn af korni, og það er þess vegna, sem 170 milljón tonn af fosfati eru unnin í námum og send um allan heiminn til að halda uppskerunni í lagi á ökrum með tilbúnum áburði. Margir telja að heimurinn sé hratt að nálgast fosfórtopinn, og sennilega verður honum náð árið 2034, með framleiðslu um 28 milljón tonn af fosfór á ári. Eftir það fer að draga verulega úr framleiðslu og skortur verður áberandi. bouCraaEin stærsta fosfór náman er Bou Craa í vestur Sahara, en frá námunni liggur 150 km langt færiband (lengsta færiband í heimi, sjá mynd) þvert í gegnum Marokkó, til hafnarinnar El Ayoun við Atlantshaf. Það er Mohammed hinn sjötti, konungur Marokkó, sem á námuna og námufyrirtækið. Um 80% af öllu vinnanlegu fosfati heims er að fiinna í vestur Sahara, en birgðir í jörðu í Bandaríkjunum eru nær að þrotum komnar. Ódýr tilbúinn áburður er búinn að vera, og verðið rýkur nú upp, með 700% hækkun frá US$50/tonn til US$350/tonn á fjórtán mánuðum. Línuritið sýnir verð á fosfór á heimsmarkaðinum undanfarin ár. Fosfórskortur verður einn af þáttunum, sem munu gera lífið erfitt fyrir komandi kynslóðir, ef fólksfjölgun heldur áfram sínu striki.dollarphosphorusresized

Uppruni Íslands liggur undir Baffinseyju

DonFrancisÞað er ekki oft sem við heyrum minnst á Baffinseyju, en samt er hún um fimm sinnum stærri en Ísland, og rétt vestan Grænlands. Ef til vill komu forfeður okkar við á Baffinseyju á leið sinni vestur til Vínlands hins góða á söguöld, og nefndu eynna þá Helluland. Nálægt suðaustur odda Baffinseyjar er Nanook, en fornleifarannsóknir þar árið 2002 hafa hugsanlega leitt í ljós minjar af norrænum uppruna. Það eru þó ekki þessi fornsögulegu þættir sem tengja okkur íslendinga við Baffinseyju, heldur er það uppruni landsins. Nú hefur nefnilega komið í ljós, að möttulstrókurinn sem liggur undir Íslandi hóf sögu sína undir Baffinseyju fyrir um sextíu og tveimur milljón árum síðan. Eldvirknin á Baffinseyju var basalt kvika sem átti uppruna sinn í möttulstrók djúpt í jörðu. Myndin fyrir ofan sýnir eitt af þeim svæðum á Baffinseyju, þar sem þykkar myndanir af basalthraunum hafa gosið fyrir um sextíu og tveimur milljón árum. Nú hefur komið í ljós, að basaltið hér er upprunnið úr möttulsbergi undir eynni, sem er um 4500 milljón ára gamalt. Þar með er þessi möttull undir Baffin nú elsta berg sem hefur fundist til þessa á jörðinni. Það er mjög ólíklegt að eldra berg finnist nokkurn tíma á jörðu, þar sem aldur jarðar og sólkerfisins er nú talinn 4568 milljón ár, og er skekkjan á þessari aldursgreiningu talin aðeins ein milljón ára, plús og mínus. Það er jarðefnafræðin sem hefur sýnt fram á mikilvægi basaltsins á Baffinseyju. Í basaltinu finnst til dæmis óvenju mikið af gasinu helíum-3. Helíum gas er mjög ríkt í sólkerfinu, en mest af því hefur þegar tapast út úr jörðinni. Varðandi jarðefnafræðina er rétt að geta þess, að atóm eða frumeindir efnis geta haft mismargar nifteindir. Slíkar frumeindir nefnast samsætur. Helíum hefur tvær samsætur: He3 og He4. He3 samsætan einkennir sólkerfið, en nú hefur fundist helíum í basaltinu á Baffinseyju með 3He/4He hlutfall sem er 50 sinnum hærra en í andrúmslofti jarðar. Þetta helíum undir Baffinseyju er því óbreytt allt frá fyrstu milljónum ára jarðarinnar. Frekari greiningar jarðefnafræðinganna sýna að önnur frumefni eða samsætur gefa aldur möttulsins undir Baffinseyju sem um 4500 miljón ár. Þessi hluti möttuls jarðar tók að bráðna fyrir um 62 milljón árum, og bráðin er basaltkvikan, sem þá gaus á Bafinseyju.MeyerMap  Ekki er enn ljóst hvað kom þessum möttli á hreyfingu til að mynda möttulstrók, en hann hefur verið virkur æ síðan, og nú er þessi möttulstrókur staðsettur undir Íslandi. Saga hans er merkileg á ýmsan hátt. Með tímanun færðust flekarnir til vesturs fyrir ofan möttulstrókinn, og Baffinseyja rak frá, en Grænland lenti beint fyrir ofan hann. Þá tók að gjósa á Diskóeyju með vesturströnd Grænlands, og síðar færðist virknin enn austar, þegar möttulstrókurinn var staðsettur undir austur strönd Grænlands fyrir um 50 milljón árum, eins og myndin sýnir. (Á myndina hef ég dregið rauða ör, sem sýnir lauslega feril möttulstróksins sl. sextíu milljón ár, en takið eftir að það er ekki möttulstrókurinn sem hreyfist, heldur jarðskorpuflekarnir fyrir ofan.) Þá klofnar Evrasíuflekinn fyrir ofan möttulstrókinn, og Grænland rekur með restinni af Norður Ameríku flekanum til vesturs, og Norður Atlantshafið opnast. Þótt staðsetning möttulstróksins sé stöðug í möttlinum, þá mjakast flekamótin smátt og smátt til vesturs, og af þeim sökum hefur strókurinn myndað mjög víðtækt belti af basaltmyndunum, allt frá Baffin, til Diskó, undir allt Grænland frá vestri til austurs, og loks undir Norður Atlantshafið og myndað Ísland. Þannig eigum við margt og mikið sameiginlegt með Baffinseyju, þótt það séu meir en sextíu milljón ár líðin síðan við vorum í nánu jarðbundnu sambandi.

Djúpalónsperlur og Benmorít

DjúpalónEinn af vinsælustu viðkomustöðum ferðamanna  undir Snæfellsjökli er Djúpalón.  Þar er náttúrufegurð, sérstakt og stórbrotið landslag – og einn af fáum stöðum umhverfis Jökul þar sem ferðamenn komast á klósett! Djúpalón hefur myndast í dalverpi, þar sem tvö hraun frá Snæfellsjökli hafa runnið saman. Loftmyndin, sem er frá kortasjá Landmælinga Íslands, sýnir Djúpalón, og hraunin tvö. Það eldra er fyrir austan, vel gróið, mjög þykkt og gamalt hraun.  Það yngra er fyrir vestan og norðan, þynnra, og mun minna gróið.  Þetta basalthraun nefnist Beruvíkurhraun, og er talið um 2000 ára, runnið úr toppgíg Snæfellsjökuls.  Hraunið fyrir austan Djúpalón er Einarslónshraun, og er talið vera um 7000 ára gamalt.  Sennilega hefur það einnig runnið úr toppgíg.  Það er þetta hraun sem Atlantshafið brýtur og molar niður við ströndina og slípar í fagurgerða möl, sem ber nafnið Djúpalónsperlur.  DjúpalónsperlaÞær eru nú orðnar vinsælt hráefni í skartgripi, eins og myndin sýnir. Það eru góðar og gildar jarðfræðilegar ástæður fyrir því, að Djúpalónsperlur myndast. Efri hluti hraunsins er kolsvartur, þar sem hann hefur kólnað hratt og orðið glerkenndur. Hinsvegar er innri hluti hraunsins gráleitur og fullkristallaður.  Þetta sérstaka hraun er mjög líkt Hellnahrauni, sem rann úr gíg á Jökulhálsi fyrir um 3900 árum.  Þessi hraun hafa sérstaka efnasamsetningu sem bergfræðinar nefna benmorít.  Það er eitt af mörgum bergtegundum sem hafa runnið sem hraun frá Snæfellsjökli, en eru mjög sjaldgæfar í öðrum eldfjallalöndum. Jarðfræðingar flokka hrauntegundir eftir efnasamsetningu þeirra, og hefur hver tegund vel afmörkuð einkenni. Flokkun bergtegundaLínuritið sem fylgir hér með sýnir  innihald af alkalí málmum (natríum og kalíum oxíð) og kísil (SiO2)  í hraunum frá Snæfellsjökli. Hér eru hraunin flokkuð eftir því í hvaða „kassa‟ þau falla á myndinni samkvæmt efnagreiningu.  Hraunin mynda röð af tegundum, sem byrjar með alkali basalti, þá  hawaíit (trakíbasalt), síðan mugearit og benmorit og að lokum trakít, með hæst kísilmagn.  Háahraun í grennd við Dagverðará er dæmi um trakít, og einnig Ljósuskriður. Eins og að ofan getur er Hellnahraun dæmi um benmorít, Klifhraun í grennd við Arnarstapa er mugearít, Hnausahraun er hawaíit, og Búðahraun er alkalí basalt.   Sum þessi óvenjulegu nöfn á tegundum hraunanna  koma frá Skotlandi, sem var vagga bergfræðinnar í byrjun tuttugustu aldarinnar.  Nafnið mugearít var gefið bergtegundinni árið 1904 af Alfred Harker (1859-1939) eftir þorpinu Mugeary á skosku eynni Skye, þar sem bergtegundin er algeng. Nafnið á bergtegundinni benmorít var hins vegar eftir forna eldfjallinu Ben More á skosku eynni Mull.  Það er enn ráðgáta hvernig hraunkvikan, sem storknar á yfirborði Snæfellsjökuls í þessar bergtegundir, myndast, en þessar kvikur eru greinilega náskyldar.  Jarðefnafræðingurinn Thomas Kokfelt og félagar hans hafa sýnt fram á árið 2009, að hraunkvikan sem hefur hæst magn af kísil og alkalí málmum (trakít, benmorít og mugearít kvika) gýs frá toppgíg eða gígum mjög ofarlega á Snæfellsjökli.  Líkön af SnæfellsjökliHins vegar gýs alkalí basalt kvikan á láglendi umhverfis Jökulinn.  Þeir hafa stungið upp á tveimur líkönum um innri gerð Jökulsins til að skýra þetta merkilega fyrirbæri, eins og sýnt er á þversniðinu í gegnum Snæfellsjökul. Í öðru líkaninu (til vinstri) er sýnd ein stór og lagskift kvikuþró undir Jöklinum.  Þá væru kísilríkari kvikan efst, og alkalí basalt kvikan neðst í þrónni. Þetta líkan verður að teljast sennilegra.  Í hinu líkaninu, (til hægri á myndinni) eru margar litlar kvikuþrær, með mismunandi kviku.  Nú er svo komið, að við vitum töluvert mikið um jarðefnafræði kvikunnar undir Snæfellsjökli, og uppruna hennar.  Hins vegar er nær ekkert vitað um jarðeðlisfræði þessa mikla eldfjalls. Það er mikil þörf á að bæta úr því og setja upp varanlegt kerfi af jarðskjálftamælum og öðrum skynjurum til að fylgjast með innri gerð eldfjallsins.  Það eru um 1750 ár, og ef til vill aðeins 1500 ár, síðan síðast gaus í Jöklinum, og verður það því að teljast virk eldstöð.

Pyttirnir í Álftafirði

 ÁlftafjörðurÁlftafjörður á norðanverðu Snæfellsnesi er fagur og merkilegur fjörður. Það er engin tilviljun að hann ber þetta nafn, því nær daglega má sjá hundruðir eða jafnvel þúsund álftir á firðinum eða í fjörum umhverfis hann.  Það er sennilega mjög góð ástæða fyrir því að fjörðurinn hefur svo mikið aðdráttarafl fyrir álftina, en þar á hafsbotni og á grynningum allt kringum fjörðinn vex mikið magn af marhálmi.  Ef til vill er hér stærsta marhálmssvæði umhverfis Ísland og þá óþrjótandi matarbirgðir fyrir álftina. Marhálmur (Zostera marina)  er óvenjuleg planta í sjó, þar sem hann er blómstrandi háplanta  en ekkert skyld þörungum og þangi. Ég gekk um fjörur Álftafjarðar nýlega með Ragnhildi Sigurðardóttur vistfræðingi og einnig með líffræðingi  frá Portugal, sem er sérfræðingur í marhálmi um heim allan.  Pyttir í ÁlftafirðiÞað var stórkostlegt að sjá hvað marhálmur þrífst hér vel, á leirunum sem koma í ljós þegar vel fjarar út, og utar í grynningum fjarðarins.  Sumstaðar hefur borist mikið magn af leirhálmi upp í fjöruna, þar sem hann rotnar í miklum haugum.  Það sem vakti mesta athygli mína voru mjög undarlegir pyttir á yfirborði leirflatanna í Álftafirði.  Fyrir framan Krákunes er svæði á hafsbotni, um 200 metrar á breidd,  þar sem allur leirbotninn er þakinn pyttum. Þeir eru frá um 50 til 100 cm í þvermál, og um 10 til 30 cm á dýpt.  Sumir líta úr fyrir að hafa myndast nýlega, og hafa upphleypta brún, alveg eins og gosgígar eða gígar sem myndast eftir loftsteinsárekstra á jörðu. Brúnin er þá blanda af leir og sandi.  Aðrir pyttir eru ellilegir,  og öldur hafsins hafa fjarlægt gígbrúnina vegna rofs þegar sjávarfalla gætir.  Hvernig myndast þessir pyttir?  PytturÍ fyrstu héldum við að hross hefðu farið hér um og skilið eftir hófför sín, en það var fljótlega hægt að útiloka þann möguleika.  Þá fórum við að hallast að þeim möguleika, að það væri eitthvað samband milli pyttanna og marhálmsins og annars gróðurs sem vex í firðinum.  Leirinn og annað set sem safnast fyrir framan fjöruna í Álftafirði inniheldur mikið magn af dauðum marhálmi og þangi. Víða sekkur maður til dæmis upp í miðjan kálfa í drullu sem er mest rotinn marhálmur og leir. Alla tíð síðan jökultíma lauk fyrir um tíu þúsund árum hafa plöntuleifar safnast fyrir hér í setinu umhverfis og á botni Álftafjarðar.  Það getur hugsanlega verið tugir metra á þykkt.  Þegar þetta mikla magn af lífrænu efni rotnar í setinu, þá getur myndast jarðgas eða metan gasið CH4 sem brýtur sér leið upp úr setinu.  Ef til vill rísa stórar bólur af gasi upp í gegnum setið öðru hvoru, og springa á yfirborði og mynda þá um leið gíg-laga pyttina.  Við sáum engin merki þess, að gas væri að rísa nú upp úr setinu, og sennilega myndast pyttir aðeins öðru hvoru, ef til vill einn á dag eða einn á viku, og því erfitt að fá sönnun fyrir þessari kenningu.  PytturEn það er vel þess virði að skoða fjöruna í Álftafirði á stórstraumsfjöru, og virða fyrir sér þennan mikla fjölda af hinum dularfullu pyttum.  Best er að ganga niður frá bílvegi númer 54, við norður enda Úlfarsfells, niður að höfða þeim, sem háspennulínan liggur á út yfir Álftafjörð: Krákunes.  Hér var áður vaðið sem riðið var á yfir fjörðinn.  Hér fyrir framan og aðeins norðar sést mikill fjöldi af pyttum á yfirborði leirsins.  Ég tek það fram, að kenningin um að pyttirinir myndist af völdum metan gass er aðeins tilgáta. Frekari rannsóknir þarf til að sanna eða afsanna hana.  En eitthvað óvenjulegt er að gerast í leirnum í Álftafirði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband