Færsluflokkur: Jarðefni

Markarfljót og Bakkafjara

a_sa_1192790.jpgÞakka marar góðar hugmyndir varðandi Landeyjahöfn.  Set og annar árframburður fellur til botns þegar straumhraði lækkar. Einnig fellur set til hafsbotns þegar dregur úr ölduhæð. Myndin sýnir ölduhæð undan Landeyjahöfn í austan og suðaustan átt. Gula svæðið er þar sem ölduhæð dettur laveg niður vegna skjóls frá vestmannaeyjum. Þetta er svæðið þar sem dregur úr hreyfingu sets og þar sem set fellur á botninn og myndar rif og setlög. Þessi öldugangsskuggi hefur meðal annars myndað og haldið við sandrifinu sem liggur beint fyrir framan Landeyjahöfn.

Það dregur mikið úr straumhraða þar sem Markarfljót  breiðist út yrir áreyrar og mætir hafinu. Staðsetning hafnar á slíkum stað er því sennilega ekki gott ráð.  Vonandi fáum við að heyra frekar um niðurstöður dana varðandi strauma og set á þessu svæði, áður en frekari ´kvarðanir verða teknar um að kasta krónum í sjóinn hér.


Þeir vilja færa Markarfljót í öfuga átt

 

 

2006.jpgNú hefur Siglingastofnun sett fram tillögu um að færa farveg Markarfljóts til austurs, um 2,5 km leið, að ráði danskra sérfræðinga. Þetta á að draga úr aurburði inn í Landeyjarhöfn, sem aldrei hefur virkað sem skyldi, eins og ég hef til dæmis fjallað um áður hér http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1092129

Það er ljóst að sandrifið sem myndast vegna aurburðar frá Markarfljóti til hafs er fyrst of fremst fyrir vestan Landeyjahöfn, eins og fyrsta myndin sýnir.  Sandrifið er gult á myndinni. Ríkjandi straumar og tilfærsla efnis eru hér frá austri til vesturs, alla jafna, og þessi hreyfing efnis heldur sandrifinu við fyrir sunnan og vestan Landeyjahöfn.  Árlegur framburður Markarfljóts er um 100 þúsund rúmmetrar af sandi og aur á ári.  

Þetta er og verður alltaf vandræðamál, enda var höfnin upprunalega staðstett með aðeins einu markmiði: að fá styttstu siglingaleið til Vestmannaeyja.  Flutningur mynnis Markarfljóts til ausutrs mun aðeins kaupa tíma og seinka fyllingur hafnarinnar, en það verður dýrkeypt.  Viturlegri ráðstöfun, ef yfirleitt á að halda þessari höfn við, væri að flytja Markarfljót til vesturs.


Er kjarnorkan lausnin?

 

LosunVið íslendingar höfum nokkra sérstöðu í orkumálum, með fremur hreinar orkulindir í vatnsorku og jarðhita. En við erum ennþá undantekningin, þar sem virkjun jarðvarma er enn stutt á veg komin í hinum stóra heimi.  Á meðan halda nær allir jarðarbúar áfram að brenna olíu, gasi og kolum og spúa miklu magni af koltvíoxíði út í andrúmsloftið, menga lofthjúpinn og orsaka hnattræna hlýnun.  

Nýlega kom út merk skýrsla frá þeirri alþjóðastofnun vísindamanna, sem nefnist Global Carbon Project (GCP).  Í skýrslunni Global Budget 2012 er tekinn saman mikill fróðleikur um bruna kolefna og losun koltvíoxíðs.  Eins og fyrsta myndin sýnir, þá vex losun koltvíoxíðs í heiminum stöðugt, og er nú um tíu petagrömm á ári (petagramm er sama og gígatonn, sem er sama og einn milljarður tonna).  Þetta er ógnvænlegt og ekkert virðist hægja á, þar sem meðal hnattræn aukning losunar er um 3% á ári. Evrópulönd

En það sem kom mér mest á óvart í skýrslunni er það, að í nokkrum löndum (Belgíu, Frakklandi, Svíþjóð, Bretlandi) hefur dregið töluvert úr losun koltvíoxíðs undanfarinn áratug, eins og kemur fram á mynd númer tvö hér til hliðar.  Hið sama er að sega í Bandaríkjunum, eins og þriðja myndin sýnir, þar sem minna koldíoxíð losnar út í andrúmsloftið vegna þess að kolanotkun hefur dregist saman en hagkvæmara og umhverfisvænna jarðgas komið í staðinn.  En hvers vegna hefur þá heildarlosun á koltvíoxíði í heiminum vaxið svo mikið, eins og sýnt er á fyrstu myndinni? Jú, það er auðvitað vegna kola- og olíunotkunar í Kína (og að nokkru leyti í Indlandi), eins og kemur fram á fjórðu myndinni. USA Í Kína er árleg aukning losunar  koltvíoxíðs langmest, eða um 10%.  Kínverjar munu að sjáfsögðu halda áfram að brenna sínum kolum til að keyra verksmiðjur sínar, á meðan vesturlandabúar halda uppi mikilli eftirspurn á kínverskum vörum.

Snúm okkaru aftur að mynd númer tvö, sem sýnir losun koltvíoxíðs í Evrópulöndunum fjórum: Belgíu, Frakklandi, Svíþjóð og Bretlandi.  Hér er smá vonarneisti sjáanlegur. Í þessum löndum hefur tekist að draga úr losun koltvíoxíðs til andrúmsloftsins um 1 til 5% á ári. Það er kraftaverki líkast og þessari staðreynd þarf að halda á lofti. En hvað er það sem gerðist? Í öllum þessu löndum hefur notkun kjarnorku vaxið til muna, sem mikilvæg orkulind.

 Ég hef lengi haft þá skoðun, að kjarnorka verði megin orkugjafi á jörðu í framtíðinni, en auðvitað mun nýting jarðhita, sólar og vinda vaxa samhliða því.  Það eru mörg vandamál, sem þarf að leysa varðandi kjarnorkuverin og eitt það stærsta er: hvað gerir maður við geislavirka úrganginn af cesíum, strontíum og öðrum hættulegum efnum? Hann er geislavirkur í allt að því tíu þúsund ár!  Japanir fengu skrekk,  þegar jarðskjálftinn mikli  skall yfir í marz árið 2011. Flóðbylgja sem fylgdi í kjölfar skjálftans lamaði Fukushima kjarnorkuverið, enda var það byggt fast við ströndina.  Slík slys valda afturkipp í nýtingu kjarnorku, en það er að mínu áliti óhjákvæmilegt fyrir margar þjóðir að kanna betur þennan kostinn í orkumálum sínum, ef við viljum halda loftslagsbreytingum í skefjum.  Kína

Kjarnorka er enn mjög dýr og ekki samkeppnishæf við olíu og kol, nema þar sem ríki hafa niðurgreitt kjarnorkuna með stórum fjárframlögum. Samt sem áður er talið að kjarnorkuver sé ódýrari lausn fyrir framleiðslu raforku en vindorkustöðvar.   Og svo er það hráefnið: málmar eins og úraníum eru fremur sjaldgæfir og alls ekki óþrjótandi í jarðskorpunni.  Nú eru um 439 kjarnorkuver á jörðu og þar af 104 í Bandaríkjunum.  Ég er því sammála hinum þekkta breska umhverfisvini og vísindamanni James Lovelock, en hann sagði árið 2004: "only nuclear power can now halt global warming".


Skortur á Helíum Gasi

 

blo_776_rur.jpgHelíum (He) er annað algengasta frumefnið í veröldinni (hitt er vetni, H).   Við þekkjum öll helíum, sem gasið í partý-blöðrum, enda er það léttasta frumefnið.  Nú er verð á helíum gasi að rjúka upp úr öllu valdi. Gasið var uppgötvað árið 1814, þegar þýski eðlisfræðingurinn Joseph Fraunhofer fann helíum í litrófi sólarinnar.  Helíum kom fyrst á markaðinn árið 1928, og varð vinsælt snemma á tuttugustu öldinni, sem staðgengill fyrir vetni í loftbelgjum og mönnuðum loftförum.  Megin kostur helíums fram fyrir vetni er að helíum er alls ekki eldfimt og gengur reyndar ekki í nein efnasambönd.   Meiri parturinn af helíum framleiðslu jarðar er í Amarillo í Texas.   Þar er gasið unnið úr borholum með jarðgasi, en metan jarðgasið hér í Texas inniheldur allt að 7% helíum.  Línuritið sýnir að verð á helíum er sífellt að hækka og spáð er mikilli hækkun næstu mánuðina.  Reyndar er ekkert vit að vera að nota þetta dýrmæta frumefni til að fylla partýblöðrur, sem  rísa til himins. Þar springur blaðran og helíum er svo létt að það streymir út í geiminn. Þannig minnkar helíumforði jarðarinnar smátt og smátt.  Nafnið Helíum er dregið af gríska heitinu á sólinni: helios.  Enda er helíum um 27% af sólinni sjálfri og um 23% af sólkerfinu er helíum.  Það er reyndar dálítið furðulegt að annað algengasta efnið í veröldinni skuli vera svona dýrt og stöðugt hækka í verði.  helium_prices.jpgDjúpt í jörðu myndast helíum vegna geislavirkni á frumefnum í möttli og jarðskorpu, einkum geislavirku þóríum og úran.  Framleiðslan heldur áfram, en birgðir minnka stöðugt.   Margir vísindamenn vilja setja bann á partý-blöðrur sem eru fylltar með helíum.  Gasið er ómissandi í heilsugeiranum og í iðnaði og allt of vermætt til að kasta því út í geiminn.  Á Íslandi kostar ein áfylling á 10 lítra helíumhylki nú kr. 18457,-  Í Bandaríkjunum kostar nú partý-blaðra fyllt með helíum $5.

Steinninn Jake á Mars

Jake á MarsJeppinn Curiosity heldur áfram að ferðast um yfirborð plánetunnar Mars og gera merkar athuganir. Nýlega  sáu þeir stóra steininn, sem er sýndur á myndinni fyrir ofan og nefndu hann Jake. Það er mannlegt, jafnvel fyrir vísindamenn,  að fá strax áhuga fyrir stærstu steinunum á hverjum stað. Hann Jake er um 25 cm á breidd.  Þá beindu þeir Röentgen geislum sínum að steininum til að kanna efnasamsetningu hans. Efnagreiningatækið gefur upplýsingar um magn af öllum helstu frumefnum í steininum. Efnarof MarsEfnarofið er sýnt á næstu myndinni.  Þar kemur í ljós að sennilega er steinninn stór hraunmoli.  Kvikan sem hann myndaðist úr er fremur rík af frumefnunum natríum, áli og kalíum, en snauð af járni, magníum og nikkel.  Að öllum líkindum er þetta bergtegund úr kvikuröðinni sem við nefnum alkali basalt seríuna.  Hana má meðal annars finna í Snæfellsjökli og  í Vestmannaeyjum.  Hér er mynd af kvikuröðinni í Snæfellsjökli.  Snæfellsjökull kvikuröðMig grunar að steinninn Jake sé af tegundinni trakíbasalt, hawaiit eða mugearite, þar sem ég hef sett rauða hringinn á myndina. Vel á minnst: trakíbasalt er kvikutegundin sem gaus úr toppgíg Eyjafjallajökuls árið 2010. 

Sjaldgæfir málmar á Grænlandi

Kvanefjeld námusvæðiðSjaldgæfu jarðmálmarnir eru sautján fremur fágæt frumefni, sem hafa mjög svipaða eiginleika. Ég hef áður fjallað nokkuð um þá hér http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1151653/Þessi sautján efni heita scandium, yttríum, lanthanum, praesodymium, neodymium, promethium, samaríum, europium, gadolinium, terbium, dysprosium, holmium, erbíum, thulium, ytterbíum og lutrtium. Sjaldgæfu málmarnir eru ómissandi í gerð allra raftækja, í tölvur, snjallsím, bíla og flestar eða allar raf- og málmiðnaðarvörur. Til dæmis er neodyníum ómissandi í segul fyrir vindmyllur, og í rafhlöður fyrir rafbíla. Eftirspurnin er því mjög mikil og vaxandi. Verð á sjaldgæfum málmum hefur því tífaldast undanfarið, frá um $20 fyrir kg uppí $200 kílóið. Á sama tima hefur Kína, sem er aðal framleiðandinn (95%), dregið úr utflutningi, frá 65 þúsund tonnum á ári niður í um 30 þúsund. Sjaldgæfu málmarnir eru algengastir í vissum tegundum af graníti. Á Grænlandi eru sjaldgæfu málmarnir til í ríkum mæli í Ilimaussaq bergmyndunum á suður Grænlandi, einkum á Kvanefjeld svæðinu. Hér er mikið berginnskot af þeirri tegund sem nefnist nefelín sýenít. Í þessu bergi er einnig mikið magn af úran. Kvanefjeld er reyndar í Eystribyggð, skammt frá Bröttuhlíð, á svæði sem var vel kunnugt þeim forfeðrum okkar sem sigldu til Grænlands á söguöld og settust hér að. Það er nú talið að í Kvanefjeld sé ein allra stærsta náma af sjaldgæfum málmum og úran á jörðu. Ekki er enn hafinn námurekstur í Kvanefjeld. Tanbreez náman er einnig í Eystribyggð á suður Grænlandi og hér er berg sem er mjög ríkt af sjaldgæfu málmunum og jafnvel ríkara en í Kvanefjeld. Tanbreez er ekki heldur komin í gagnið. Það fer fram hjá engum að heimsókn ráðamanna frá Suður Kóreu til Grænlands í vikunni er nátengd áhuga kóreumanna á sjaldgæfum málmum, sem eru algjörlega nauðsynlegir fyrir ramleiðslu raftækja, bíla og annars hátækniiðnaðar í Suður Kóreu. Nú er dnasinn að hefjast fyrir alvöru milli alþjóða námufyrirtækja og heimamanna. Lobbyistar eða áróðursmenn fyrir námu- og olíufyrirtækin segja að Grænland sé í raun algjör draumur þeirra, þar sem hér sé tiltölulega auðvelt að hafa áhrif. Meðal hinna 57 þúsund íbúa landsins er talið að hér sé yfirstétt, sem er mönnuð af aðeins 44 stjórnmálamönnum, ráðherrum, þingmönnum og borgarstjórum. Lobbyistarnir segja, að hér þurfi þeir því aðeins að hafa áhrif á 25 ráðamenn til að koma máli sínu í gegn varðandi námurétt og umhvefismál. Núverandi stjórn Grænlands var mynduð eftir kosningarnar árið 2009 og er hún samsteypustjórn þriggja flokka: Inuit Atagatigiit, Demokraatit and Kattusseqatigiit Partiat. Inuit Ataqatigiit flokkurinn er stærstur, eða með um 44% atkvæða í síðustu kosningum. Flokkurinn er vinstri sinnaður og stefnir á algjört sjálfstæði Grænlands og skilnað frá dönum. Formaður flokksins er Kuupik Kleist forsætisráðherra og hvílir mikil ábyrgð á honum þessa dagana.

Olía umhverfis Grænland

Olíuleitarsvæði GrænlandÞað hefur verið töluverður áhugi fyrir olíuleit umhvefis Grænland, og miklar vonir bundnar við það. En ekki hefur þetta reynst alveg eins auðvelt og haldið var í fyrstu. Skoska olíufyrirtækið Cairn Energy hefur eytt um einum milljarð dollara í olíuleit á hafsbotni fyrir vestan Grænland. Svæðið sem þeir hafa kannað er skammt fyrir austan Disko eyju, eins og myndin sýnir. Hér hafa þeir gert víðtækar og dýrar rannsóknir á hafsbotninum og borað átta djúpar holur. Einnig nota þeir jarðeðlisfræðilegar aðerðir til að gegnumlýsa jarðlögin. Myndin til hliðar sýnir til dæmis slíka sneiðmynd af jarðlögunum frá Kanada til Grænlands, um 600 km leið. Sneiðmynd af setlögumÁ slíkum sneiðmyndum kunna að koma fram upplýsingar um olíusvæðin. Engin vinnanleg olía hefur fundist og hefur Cairn nú ákveðið að draga sig í hlé, að minnsta kosti um stundar sakir, en margir telja að Grænlandsævintýri þeirra sé lokið. Cairn Energy varð frægt og ríkt þegar þeir fundu olíu á Indlandi, og sjá borholur þeirra indverjum nú fyrir um 20% af sinni orkuþörf. Það er enginn leikur að bora eftir olíu umhverfis Grænland. Cairn þurfti að hafa dráttarbáta alltaf til taks til að stjaka við eða draga stóra borgarísjaka frá borpöllunum. Einnig eru miklu meiri vandamál varðandi stjórn á mengun, og svo setur veðrið strik í reikninginn. Þegar eða ef Grænlandsolía kemur á markað, þá verður hún örugglega dýr. Hvers vegna er Grænland spennandi svæði fyrir olíuleit? Það er tengt uppruna og þróun Atlantshafsins. Grænland er hlut af fleka Norður Ameríku. Fyrir um 60 milljón árum byrjaði Grænland að rifna frá Norður Ameríku og þá opnaðist sundið sem við nefnum Davis Strait og einnig Labradorhaf, eins og myndin fyrir neðan sýnir. Rek Grænlands frá Norður Ameríku myndaði þannig sigdæld, þar sem setlög söfnuðust fyrir, hugsanlega með lífrænum leifum. Þessar lífrænu leifar gætu myndað olíu. En rek Grænlands frá Norður Ameríku var skammvinnt.  Myndun Labradorshafs og Davis StraitFyrir um 50 milljón árum hætti þetta rek í Labradorhafi en þá byrjar Grænland að reka frá Evrópu, þegar Norður Atlantshafshryggurinn myndast austan Grænlands. Það er semsagt sigdældin undir Labradorhafi og í Davis Strait sem menn einblína á. Einnig eru nokkrar vonir um olíu taldar um olíu undir  hafsbotninum rétt austan Grænlands, og kemur þar Drekasvæðið við sögu, en það er nú önnur saga…

Járn á Grænlandi

JárnmarkaðurinnVerð á járni hefur margfaldast undanfarin ár, eins og fyrsta myndin sýnir, en þessi hækkun er aðallega vegna mikilla framkvæmda í Kína. Breska fyrirtækið London Mining vill nú reisa stóran námubæ á Vestur Grænlandi, Í Isukasia um 150 km fyrir norðaustan Nuuk, þar sem 760 námumenn munu búa. Einnig verður byggð höfn og ymsar aðrar framkvæmdir tengdar námurekstrinum. Afraksturinn af námugreftrinum er talinn verða um 32,3 milljarðar danskra króna, eða jafnt og styrkur Danmerkur til Grænlands í tíu ár. Sennilega verða aðeins um 20% starfsmanna grænlendingar en flestir þeirra verða kínverskir námumenn, sem munu búa í nýju þorpi við námuna. Hér rétt við ísröndina er grænlenska bergið mjög járnríkt, en það inniheldur yfir 70% af járni. Það myndar lag sem er 180 til 450 m þykkt og er það á yfirborði, svo auðvelt er að hefja námugröft. Alls er talið að hér séu um 1,5 milljarðar tonna af magnetíti. Isua járnsvæðiðFramleiðsla er áætluð um 15 milljón tonn á ári, en málmgrýtið verður flutt til strandar um 100 km leið í stálpípu. Diesel rafstöð verður reist á staðnum, en ekki fallvatnsvirkjun þar sem slíkt tæki of langan tíma til undirbúnings. Hér í Isua hefur járnið sennilega myndast sem setlög í sjó, en undir járnlaginu eru mjög forn lög af gosbergi og skyldum setlögum. Jarðlögin á Ísua eru meða elsta bergs á jörðu, eða um 3,8 milljarðar ára að aldri. Enn hefur grænlenska ríkið ekki veit leyfi til að hefja byggingu námubæjarins þar sem ekki hefur enn verið gengið frá rannsóknum varðandi umhvefisáhrif frá námurekstrinum. Það er gífurlegt magn af leir og drullu, sem mun berast til hafs í sambandi við námureksturinn og hafa neikvæð áhrif á lífríki hafsins.

Fjársjóður Grænlands

 GrænlandGrænland er stærsta eyjan, um tuttugu og einum sinnum stærri en Ísland. En hér eru aðeins um 57 þúsund íbúar. Nú virðist allt að verða vitluast á Grænlandi. Forseti Suður Kóreu er í heimsókn, nýlega hefur grænlenski ráðherrann Kuupik Kleist fundað með kínverjum og Hilary Clinton. Ástæðan fyrir þessum mikla áhuga á Grænlandi eru auðlindir eða beinlínis fjársjóðir í jörðu. Hér er næstum allt til: demantar, gull, kopar, platína, úran, ál, títan, járn og hinir verðmætu sjaldgæfu málmar, sem eru ómissandi í tölvuframleiðslu. Nú eru um þrjátíu námufyrirtæki að kanna jarðlögin og undirbúa námuvinnslu, en aðeins ein gullnáma er komin í gang. Nú telja margir að námureksturinn kunni að flýta fyrir sjálfstæði Grænlands undan danskri stjórn. Þeir hafa haft heimastjórn síðan 1979 og árlega veitir danska ríkið Grænlandi styrk sem nemur um 460 milljón evrum. Þetta eru 8070 evrur á mann, eða um 1,3 milljón ísl kr. á hvern einstakling. Til að meta þennan styrk í réttu samhengi skal geta þess, að árið 2010 var útflutningsverðmæti grænlendinga um €350 milljón og innflutningur um €700 milljón. Grænlendinga eru því algjörlega háðir dönum á þessu augnabliki, en það getur allt breyst mjög hratt, ef eða þegar tekjur berast inn frá námurekstrinum. En sumir halda því fram, að Kuupik Kleist sé ekki nægilegur þungavigtarmaður til að leiða þjóðina í gegnum erfið viðskipti við slungin alþjóðafyrirtæki, sem vilja hefja námugröft, og annað hvort sneiða hjá dönum eða reyna að hafa þá góða. Það eru því mjög spennandi tímar fram undan hjá næsta nágranna okkar, en því miður virðast íslendingar ekki hafa nokkurn áhuga á Grænlandi og því sem þar er að gerast. Það er reyndar skammarlegt, að mínu áliti.

Eðalmálmurinn Gull

GullverðÉg hef fjallað áður hér um stærsta fjársjóð jarðar, sem er í Sri Padmanabhaswamy musteri í Kerala héraði í suðvestur Indlandi. Hann er talinn vera um $22 milljarða virði, en vörutalningu í kjallaranum undir musterinu er ekki lokið. Hvað er þetta mikið gull í vikt og rúmmáli? Gull er nú keypt á um $1580 á hverja únsu, eða um $55.727 á hvert kíló. Línuritið til vinstri sýnir hvað gull hefur rokið upp í verði frá 1993 til þessa árs. Samkvæmt því væru um 394.781 kg í þessum fjársjóði, ef hann er eingöngu gull. Auðvitað eru þarna einnig gimsteinar og gullmunir, sem eru mun verðmætari en óunnið gull. Hvað tekur slíkur fjársjóður mikið pláss? Gull hefur mjög háa eðlisþyngd, eða 19.320 kg á rúmmeter. Eitt tonn af gulli myndar þá tening sem er aðeins 37 cm á hvern kant. Fjársjóðurinn tekur því ekki mikið pláss, en hann mun þá vera um 20,4 rúmmetrar. Í gullgeymslu Bandaríska ríkisins í hervirkinu Fort Knox í Texas eru geymd 4.577 tonn af gulli, en þær birgðir eru talda um 2.5% af öllu gulli sem hefur verið grafið úr jörðu af mannkyninu (áætlað um 165 þúsund tonn). (mynd) Þessar birgðir eru um 237 rúmmetrar.  Gullvirkið Fort KnoxSamt sem áður er gullforði Ríkisbankans í kjallara djúpt undir Manhattan eyju í New York enn stærri, eða 7.000 tonn af gulli. Gullforði Bandaríkjanna er sá mesti í heimi, eða nær þrisvar sinnum stærri en forði Þýskalands. Efnafræðiheiti gulls er Au sem er skammstöfun fyrir orðið aurum á grísku. Auðvitað er íslenska orðið aurar degið af því. Myndin til hliðar sýnir hvað hin ýmsu frumefni eru algeng eða sjaldgæf í jörðinni, miðað við kísil, Si, sem er eitt algengasta efnið. Frumefnin merkt með gulum lit, þar þa meðal gull eða Au, eru lnag sjaldgæfust í jörðinni, en algengust eru þau á græna svæðinu á myndinni. Gull er dýrt vegna þess að það er eðalmálmur sem endist að eilífu, sem ekki gengur í efnasambönd og einnig mjög sjaldgæft. Magnið af gulli í jarðskorpunni er talið vera að meðaltali aðeins um 0,005 grömm á hvert tonn af bergi. Sennilega er innihald af gulli í allri jörðinni (möttull, kjarni og skorpa) um 0,16 grömm í hverju tonni af bergi. Frumefni í jörðuÞað borgar sig ekki að hefja námugröft eftir gulli nema þegar bergið inniheldur um eða yfir 5 grömm á hvert tonn af bergi. Á slíkum námusvæðum hefur gull safnast saman í berginu vegna afla eða jarðkrafta, svo sem til dæmis jarðhita á hafsbotni. Eitt af þeim svæðum er hafsbotninn fyrir norðarn Nýju Gíneu, þar sem gull hefur safnast fyrir á mjög virku hverasvæði á um 1700 metra dýpi, eins og ég hef bloggað um hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1236949/Hér er um 20 til 200 grömm af gulli í hverju tonni af bergi, og er því Kanadíska námufyrirtækið Nautilus Minerals nú að hefja námugröft á þessu dýpi. Það er fyrsta tilraun til að vinna málma á hafsbotni, og gefur það mikla von um slíkan námugröft í framtíðinni.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband