Færsluflokkur: Jarðefni

Er heimurinn kominn yfir olíutoppinn?


olíutoppurinnFlestar ef ekki allar auðlindir náttúrunnar ganga til þurrðar fyrr eða síðar.   Svo er einnig með olíu, og nú ríkir deila um hvort jarðarbúar hafi náð olíutoppnum, „peak oil“,  og að nú fari að draga úr olíframleiðslu í heiminum.  Myndin sýnir tvær spár um olíubirgðir í heiminum.  Sú efri er frá IEA, alþjóðaorkustofnuninni, en sú neðri er frá háskólanum í Uppsölum, Svíþjóð.   Svíar telja að olíutoppurinn hafi gerst í kringum árið 2006, en IEA stofnunin er bjartsýn og telur að olíutoppnum verði ekki náð fyrr en um 2030.  Munurinn á milli þessara spáa er fyrst og fremst í sambandi við olíulindir sem ekki eru enn uppgötvaðar (og eru ef til vill ekki til?) og einnig olíulindir sem ekki hafa enn verið þróaðar.  IEA  er The International Energy Agency, en það er að nafninu til sjálfstæð stofnun sem starfar fyrir 28 þjóðir.  Tíminn mun skera úr um hvor hefur rétt fyrir sér, en alla vega erum við komin mjög nærri olíutoppnum. 


Votlendi er mikilvægt

 1.SkurðgröÁrið 1839 kom daninn Japetus Steenstrup kom til Íslands ásamt aðstoðarmanni sínum Jónasi Hallgrímssyni, til að rannsaka brennisteinsnámur.  Tveimur árum áður hafði Steenstrup gert rannsókn á mýrum í Danmörku, sem er fyrsta vísindalega könnunin á mýrum og votlendi.  Íslendingar þekkja mýrar vel, en lengi vildu þeir fyrst og fremst eyða þeim.  Í mörg ár voru meir en þúsund kílómetrar af skurðum grafnir á ári hverju til að ræsa fram mýrar og eyða votlendi í þágu landbúnaðarstefnu þeirra tíma. Myndin til hliðar sýnir þetta sérstaka tímabil í sögu Íslands, frá stríðslokum og fram undir 1990. 2.MýNú hefur málið snúist við, þar sem komið hefur í ljós að votlendi  um allan heim hefur mjög mikið gildi fyrir bindingu kolefnis.  Einnig er votlendi mikilvægt fyrir miðlun vatns, hringrás næringarefna og verndun á fjölbreytni lands og lífríkis. Þegar ég var strákur í sveit á Snæfellsnesi varð ég að ganga um mýrarnar daglega til að sækja kýrnar til mjalta. Ég var í íslenskum gúmmískóm, eins og allir hinir krakkarnir, en þeir voru gerðir úr leifum af gúmmíslöngum úr bíladekkjum. Gúmmískórnir dugðu nokkuð vel í mýrunum.  Eitt af höfuðverkefnum Auðlindar Náttúrusjóðs er verndun og endurheimt votlendis. Sjá vefsíðu Auðlindar hér:  http://www.audlind.org/votlond/   Mýrar þekja um  þrjár og hálfa milljón ferkílómetra lands á jörðu (3%). Önnur myndin sýnir útbreiðslu mýra á norðurhveli jarðar, þar sem þær eru mikilvægastar, einkum norðan við 45. breiddargráðu.   Dökku svæðin eru mýrarnar sem innihalda mest kolefni.  Mýrar og mórinn undir þeim eru að sjálfsögðu plöntuleifar og þar af leiðandi mikill geymir fyrir kolefni. Binding kolefnis í mýrar á jörðu er talin um 600 gígatonn (Gt er einn milljarður tonna). Það er helmingi meira en allt kolefnið í skógum heims og um 75% af öllu kolefni sem er í andrúmsloftinu (CO2).    Votlendi getur því verið mjög mikilvægur þáttur varðandi loftslagsbreytingar, með því að draga niður koltvíoxíð úr loftinu.  Mýrin safnar kolefni, dregur í sig koltvíoxíð CO2  en gefur frá sér bæði koltvíoxíð og metan CH4.  Það er talið að nettó dragi mýrar í sig koltvíoxíð úr loftinu sem nemur 700 kg á hvern hektar, en það er 150 til 250 milljón tonn af kolefni sem fer á ári úr andrúmsloftinu og niður í mýrina um heim allan.   3.MýÞriðja myndin sýnir hvernig kolefni hefur safnast fyrir í mýrum heims síðan ísöld lauk.  Það er á milli 20 til 100 gígatonn af kolefni sem safnast fyrir í mýrinni á hverju árþúsundi (grænt).  Blái ferillinn sýnir að söfnun kolefnis í mýrar hefur verið milli 20 og 40 grömm á fermeter á ári.  En nú eru mýrar heims víða í mikilli hættu.  Vonandi er ekki of seint að bjarga íslensku mýrunum, en  víða í heimi er hættan meiri.  Einn vandinn er sá, að þegar loftslag hlýnar er hætta á því að mýrar tapi kolefni til andrúmsloftsins í meira mæli og vinni því ekki á móti hlýnun jarðar. 

Endalok Vaxtar

 FjöldiVöxtur, einkum hagvöxtur, er kjörorð, einskonar trúarbrögð og sennilega eitt æðsta markmið hagfræðinga og flestra stjórnmálamanna um heim allan.  Hagvöxtur er forsenda velmegunar, segja þeir herrar. En vöxtur er af ýmsum gerðum: einn áberandi vöxtur er fjölgun mannkyns.  Annar vöxtur er aukning koltvíoxíðs og annara úrgangsefna í andrúmslofti.  Hvað getur jörð okkar borið mikinn vöxt? Hvenær eru hin ýmsu jarðefni sem nauðsynleg eru mannkyninu uppurin?  Ég byrja á þeim vexti sem er mest áberandi: fjölgun mannkyns.  Í hvert sinn sem ég sný aftur til landa í þriðja heiminum, þar sem ég starfa, þá er fjölgunin mjög áberandi og áþreifanleg, hvort sem er í Indónesíu, suður Ameríku eða Afríku. Skógar eru að hverfa, ný þorp að rísa af grunni, reykur liggur yfir landinu þar sem frumskógurinn brennur, og umferðin er ótrúleg.  Fyrsta myndin sýnir frjósemi eða mannfjöldaaukningu allrar jarðar (rauða línan), en gögnin eru frá World Bank. Í dag fæðast þrjú  börn á jörðu á hverri sekúndu.  Það hefur eitthvað aðeins dregið úr vextinum, en hann er enn langt fyrir ofan eitt prósent.  Í Bandaríkjunum er hann í kringum eða rúmlega eitt prósent, eins og bláa línan sýnir.  Hvað er þetta með Ísland? Gula línan sýnir að fjölgun hér á landi er mjög skrikkjótt, en alla vega nokkuð yfir einu prósenti. Frjósemi á Íslandi er nú 2,1 barn á hverja konu.  Ég tek eitt prósent sem sanngjarna tölu fyrir fjölgun á jörðu næstu aldir.  SpáVonandi er þetta allt of hátt áætlað, því þessar niðurstöður líta illa út.  Eitt prósent þýðir tvöföldun mannkyns á sjötíu árum, í 13 milljarða árið 2075.  Þess má geta að mannfjöldi á jörðu hefur tvöfaldast meir en 32 sinnum það sem komið er. Önnur mynd sýnir ferlið næstu aldir, reiknað með þessum forsendum. Ég hætti árið 3050, en þá erum við komin með fjarstæðukenndan fólksfjölda, sem samsvarar einum manni á hvern fermeter alls landsvæðis jarðar ofan sjávarborðs.  Séra Thomas R. Malthus benti fyrstur manna á þetta mikla vandamál varðandi fólksfjölgun strax árið 1798, og hélt því farm að hungursneyð og sjúkdómar muni seta takmörk fyrir fólksfjölgun á jörðu.  Hann spáði, reyndar rangt,  að mannkyn yrði orðið fæðulaust á miðri nítjándu öldinni. En bíðum nú við: ég notaði 70 ár sem þann tíma sem tekur að mannkyn tvöfaldist. Tvöföldunartími mannfjölda á Íslandi hefur verið um 54 ár undanfarið.  Flestir vísindamenn sem fjalla um spár um mannfjölda jarðar vilja ekki taka til greina slíkar tölur, heldur skapa þeir líkön sem spá aðeins um 10 milljörðum íbúa á jörðu árið 2050.  Við skulum vona að þeir hafi rétt fyrir sér, en það er merkilegt með slíkar spár, að ferillinn byrjar alltaf að bogna niður strax og spáin kemur inn í framtíðina. Er þetta eðlisbundin bjartsýni, óskhyggja, eða hvað?  Það er eðlilegt að búast við því að fjósemi minnki í þriðja heiminum ÞEGAR eða EF efnahagur og menntun í þeim þjóðum batnar verulega.  En þar á móti vega framfarir í heilsugæslu og hreinlæti, sem draga úr dauðsföllum.  Spurningin er: eru endalok fólksfjölgunar og þá einnig endalok vaxtar, fyrst og fremst tengd byrgðum auðlinda og jarðefna, eða ráða umhverfisáhrif af manna völdum mestu? Ég held að ég sé ekki endilega meir svartsýnismaður en gengur og gerist, en mér finnst vel þess vert að velta þessu mikilvæga máli fyrir mér frekar í seinni færslum á blogginu.

Jarðsköpun - Geoengineering

1.KoltvíoxíðHugtakið jarðsköpun eða geoengineering er tiltölulega nýtt af nálinni, en það er viðleitni mannkyns til að stýra eða breyta umhverfi sínu á allri plánetunni sér í hag.  Ég mun fjalla um ýmsar hliðar á jarðsköpun eða jarðbreytinga í bloggi mínu á næstunni. Allar götur frá því að inbyltingin hófst í lok átjándu aldar, þá hefur maðurinn ósjálfrátt verið að breyta umhverfi sínu.  Myndin til hliðar sýnir hina miklu aukningu á koltvíoxíð innihaldi loftsins, en myndin er byggð á gögnum úr ískjörnum og víðar.  Það er greinilegt að koltvíoxíð hefur sýnt miklar sveiflur í gegnum jarðsöguna, en aldrei því líkt sem nú er, eins og seinni myndin sýnir.  Hún nær aftur um 450 þúsund ár jarðsögunnar.  Nú vitum við, ef til vill of seint,  að þetta eru áhrif sem við vildum helst aldrei hafa haft á jörðina.  Jarðsköpun er sem sagt að breyta einhverri plánetu þannig, að hún líkist jörðu, og sé vistvæn fyrir mannkynið  (terraforming).  Það var bandaríski stjarneðlisfræðingurinn Carl Sagan sem fyrst stakk upp á terraforming aða jarðsköpun fyrir Venus árið 1961, og síðar fyrir plánetuna Marz árið 1973.   Markmið jarðsköpunar eða jarðbreytingar er að hafa áhrif á jörðina á þann veg, að núverandi ástand loftslags varðveitist, í hag fyrir mannkynið.  Þetta á líka við ýmsa aðra þætti umhverfisins, svo sem um verndun jarðar frá árekstrum loftsteina, og hættulegri inngeislun frá sólinni.  2.ÍskjarniJarðsköpun vekur strax upp spurningar um siðferði og siðfræði.  Getum við leyft okkur „að leika guð“ og breyta umhvefinu, með athöfnum sem hafa óvissa útkomu og sem gæti verið skaðlegt fyrir komandi kynslóðir?  Vísindamenn eins og Carl Sagan og hans nemendur hafa leikið sér með hugmyndir um jarðbreytingu á öðrum plánetum, en lengi forðast að fara inn á þessa braut varðandi  jörðina okkar.  Árið 1985 kom út merk bók eftir Bandaríska jarðefnafræðinginn Wallace Broecker: How to build a habitable planet.  Hér  reiknaði hann út að með því að dreifa miklu magni af brennisteinsúða daglega í heiðhvolfi jarðar, þá væri hægt að vega á móti þeirri hlýnun jarðar sem vaxandi koltvíoxíð veldur nú.  En kostnaðurinn við þetta væri um $50 milljarðar á ári.  Wally Broecker gerði þetta meir í gríni en alvöru, en árið 2006 kom út grein eftir Nóbelverðlaunahafann Paul Crutzen, þar sem hann fjallar frekar um hugmyndina að vinna á móti hlýnun jarðar með brennisteinsúða í heiðhvolfi: "Albedo Enhancement by Stratospheric Sulfur Injections: A Contribution to Resolve a Policy Dilemma?"  í ritinu Climatic Change.   Nú er jarðbreyting allt í einu orðin umræðuefni vísindamanna og þá er aðeins spursmál um hvenær gripið verður til aðgerða.   Nú í dag er talið að áhrif mannkyns á loftslag, vegna útlosunar koltvíoxíðs, samsvari um 2 Wöttum á fermeter af yfirborði jarðar.  Það er að segja, hitaaukningin er sú sama og ef 2-watta perur glói á hverjum fermeter jarðar, á sjó og á landi.  Til að vinna á móti þessum aukna varma er stungið upp á að dreifa brennisteinsúða í heiðhvolfi, um 20 til 30 km hæð fyrir ofan yfirborð jarðar.  3.GeoengineeringÞriðja myndin sýnir magnið af brennisteini (sulfur) sem þarf til þessa, eða 2 til 8 milljón tonn af brennistein á ári.  Það kostar um einn til tíu milljarða dollara að dreifa einum milljarð tonna af brennistein á ári, eða allt að $80 milljarða á ári til að vega á móti hlýnun jarðar í dag.  En það eru fleiri hugmyndir á lofti, sem ég mun blogga um síðar.

 

 


Ástæðan fyrir því að Katla er ekki stærsta títannáma heims

TiDollarÞegar Katla gýs, þá þeytir hún upp ógrinni af kviku, sem inniheldur meira títan en nokkur önnur kvika á jörðinni.  Títanríka gjóskan úr Kötlugosum safnast fyrir í miklu magni á suður strönd Íslands, aðallega sem vikur og sandur á Mýrdalssandi og Skógasandi, sem inniheldur á milli 4 og 5% af títanoxýði. Títan er mjög merkilegur og nokkuð dýr málmur.  Árið 2000 keypti ég mér Apple Titanium fartölvu.  Hún hefur reynst mér vel, enda er málmkápan utan um tölvuna úr málminum títan.  Títanmálmurinn er sterkari en stál, og nær helmingi léttari.  Hann hefur hæsta hlutfall af styrk á móti eðlisþyngd af nokkrum málmi. Títan er af þeim sökum notað í allskyns hluti, einkum í flugiðnaðinum, og meðal annars er títanoxyð einnig merginefnið í hvítri málningu.  Birgðir af títan finnast í jörðu í ýmsum löndum, og þar á meðal Ástralíu, Kanada, Kína, Indlandi, Nýja Sjálandi, Noregi og  Úkraínu.  Ársfamleiðslan er um 90 þúsund tonn af títan málminum og um 4,8 milljón tonn af  títan oxýði.   Talið er að birgðir séu um 600 milljón tonn.  Einn stærsti þátturinn er eftirspurn fyrir flugiðnaðinn.  Í eina Boeing 777 flugvél fara um 58 tonn af títan, og ein  Airbus A380 vél þarf 77 tonn.  Til dæmis er um 15% af þyngd nýju Boeing 787 Dreamliner farþegaþotunnar títanmálmur.  Vegna mikilvægi títans í flugiðnaðinum er talið að eftirspurn muni hafa vaxið um 40%  árið 2015.  Verð á títan hefur því hækkað nýlega frá $9 til $12 pundið eins og myndin fyrir ofan sýnir, og mun fara hækkandi.  KatlaGlerÍ stærstu títannámum heims, eins og til dæmis í Tellnes námunni í Noregi og í Kolari námunni í Finnlandi, er um 5 til 7% títanoxíð í berginu.  Það er lítið meira en þau 4 til 5% af títanoxíði sem finnast í gosbergi frá eldstöðinni Kötlu á Íslandi.  Hraunkvikan sem kemur upp úr Kötlugjá, til dæmis í gosinu árið 1918, er títanríkasta kvika sem gýs á jörðinni.  Við verðum að fara til tunglsins til að fá títanríkari hraunkviku, en á tunglinu er basalt sem inniheldur 9 til 13% TiO2.   Mikið af títan er unnið úr sandi meðfram ströndum meginlandanna.  Rútil (TiO2) og ilmenít (FeTiO3 eða ferro-títaníum) mynda korn í sandinum og eru sandkornin af þessum títanríku kristöllum skilin frá sandinum vegna hárrar eðlisþyngdar þeirra.  Eðlisþyngd rútils og ilmeníts er tiltölulega há, eða um 4,3 til 4,7 grömm á hvern rúmsentimetra og geta stórar skilvindur því auðveldlega unnið þessa fágætu kristalla úr sandinum.   Í gjóskunni sem kemur upp úr Kötlu er þessu allt öðru vísi háttað.  Kötluaskan er títanrík, en hér er títan aðallega bundið í glerinu sem myndast þegar hraunkvikan kólnar.  Myndin til hliðar sýnir Kötluösku frá einu stærsta gosi eldstöðvarinnar, sem var fyrir um 11 þúsund árum. Við Christian Lacasse höfum kannað samsetningu kvikunnar sem kom upp í þessu gosi.  Myndin er tekin í gegnum smásjá, og það er strax ljóst að glerið er eins og vel hrærð marmarakaka.  Hér skiftast á lög af ljósgulu líparítgleri, sem er ríkt af kísil, og lög af mjög dökkbrúnu basaltgleri, sem er rikt af títan.  Sem sagt: títanið er bundið í glerinu, en ekki af neinu magni í steindum eða kristöllum.  Af þeim sökum er ekki hægt, með þekktum aðferðum, að ná títani úr Kötluöskunni, þótt mikið sé af því og ógrinni af vikri og sandi meðfram suðurströnd Íslands.  Þetta minnir okkur á, að það er eitt að verðmætu efnin séu fyrir hendi í miklu magni, en það er svo allt annað að mál efnin séu í því formi sem er vinnanlegt með þekktum námuaðferðum.  Þriðja myndin sýnir títan innihald í kvikunni frá Kötlu.  Þar kemur einnig fram, að kvikaTiKatlan er tvennskonar: basalt kvika með hátt títan, og líparítkvika með lagt títan.  Þriðja myndin sýnir títanmagnið í kvikunni úr Kötlu. Þar kemur fram að kvikan er tvennskonar.  Annars vegar er basaltkvika, sem inniheldur allt að 5% TiO2.  Hinsvegar er líparítkvika, sem hefur mjög lágt títaninnihald.

 

 

 

 


Sjaldgæfu jarðmálmarnir eru gulls ígildi

REE1Kína er með nær algjöra einokun á sjaldgæfu jarðmálmunum, og nú eru gömul móðurborð og  önnur rafeindaborð allt í einu orðin gulls ígildi.  Sjaldgæfu jarðmálmarnir eru sautján frumefni í töflu lotukerfisins, frá númer 57 til 71, og þar á meðal efnin skandíum, yttríum,  samaríum og fimmtán lantaníð efnin.  Sjaldgæfu jarðmálmarnir haga sér allir líkt. Þeir hafa meðal annars mjög góða leiðni.   Þessir málmar eru ómissandi í rafeindaiðnaðinum, og nauðsynlegir við gerð á tækjum sem við reiðum okkur mikið á í daglegu lífi.  REE3Þeir eru til dæmis mikilvægir málmar í tölvum, rafhlöðum, farsímum, bifreiðum, seglum, flúrósent ljósum, videódiskum og yfirleitt í öllum tækjum með rafeindaborðum.  Framleiðslan af sjaldgæfu málmunum árið 2009 var 124 þúsund tonn, en eftirspurnin var um 134 þúsund tonn.   Um 97% af öllum sjaldgæfu málmunum eru grafnir úr jörðu í Kína, eins og myndin fyrir ofan sýnir, og það er eiginlega engin samkeppni á þessu sviði.  Verð á öllum sjaldgæfu málmunum hefur rokið upp úr öllu valdi, eins og myndin til hliðar sýnir.  Verð á samaríum hefur til dæmis hækkað úr um $20 á kíló í fyrrasumar, upp í um $120 á kíló nú í febrúar 2011.  Viðbrögð rafiðnaðarins í Japan og á vesturlöndum er “urban mining” eða námugröftur í borgum.  REE2SamariumNú er byrjað að endurvinna í stórum stíl gamlar og úreltar tölvur, farsíma og annan rafbúnað, til að ná úr þeim sjaldgæfu málmunum.  Það er hægt að vinna sjaldgæfu jarðmálmana úr jörðu í öðrum löndum heims, en talið er að það taki um tíu ár að koma því til leiðar, og á meðan stjórna Kínverjar algjörlega markaðnum.  Kínverjar hafa verið skynsamir í þessu máli og stýrt því vel með sínu volduga efnahagskerfi.  Hvað er eiginlega að hinum kapítaliska heimi, að átta sig ekki á slíkum fremur einföldum atriðum, fyrr en allt er komið í strand?  Það getur orðið dýrt fyrir þjóðfélagið til lengdar að  láta berast undan vindi með  illa upplýsta kapítalista undir stýri. Einokun Kínverja á sjaldgæfu jarðmálmunum er sláandi.  Ég held að það komi ef til vill best í ljós ef við skoðum verð á samaríum undanfarið.  Eins og myndin fyrir ofan sýunir, þá hækkaði kílóið af samaríum úr $20 upp í $120 á sex mánuðum frá marz 2010 til febrúar 2011.   Nú eru iðnríkin að byrja að bregðast við.  Námugröftur mun hefjast í Mountain Pass námunni í Kaliforníu á næstunni og gert er ráð fyrir að hún geti framleitt um 20 þúsund tonn á ári.  En framtíðarnáman fyrir sjaldgæfu jarðmálmana er sennilega á hafsbotni.  mángankúlaVíðs vegar um heimsins höf finnast hnefastórar kúlur af mángan, sem liggja á hafsbotni og bíða eftir því að vélmenni komi til að tína þær upp í körfu, sem er hífð upp og um borð í námuskipið.  Mángankúlur eru útfellingar af ýmsum efnum úr sjónum. Mynd til hliðar sýnir eina slíka.  Þær innihalda töluvert magn af dýrum málmum (gulli og platínu) og einnig eru þær ríkar af sjaldgæfu jarðmálmunum.  Ef til vill er verð á þessum málmum nú orðið það hátt  að námugröftur á hafsbotni borgar sig.  Þá er einokun Kína sprungin.

 

 

 

 


Fosfór að þrotum komið – en það er allt í lagi

1.FofórJarðefni af ýmsu tagi halda heiminum gangandi:  námur, olíulindir, jarðvarmi og aðrar auðlindir í jörðu.  Lengi höfum við litið á það sem sjálfsagðan hlut, að þær séu flestar óendanlegar: að vandamálið væri leysanlegt bara með því að senda út fleiri jarðfræðinga og námumenn til að finna nýjar námur og grafa upp meiri auðæfi úr jörðu.  Margt bendir nú til þess, að eftirspurn sé nú að fara fram úr framboði á ýmsum jarðefnum.  Ég ætla að fjalla um aðeins eitt efni hér í þessu sambandi, en það er fosfór  (frumefnið er P).   Aðalnæringarefni jurta eru nitur (N), kalí (K), fosfór (P), kalsíum (Ca), magnesíum (Ma) og brennisteinn (S).  Lengi vel notuðu bændur mykju, hland, skít og önnur úrgangsefni búpenings til að bera á akra sína, en svo kom efnaiðnaðurinn til sögunnar. Víðast hvar er nú borinn tilbúinn áburður með þessum efnum á akra heimsins og hráefnið í tilbúinn áburð kemur úr námum, nema nítur, sem er unnið úr loftinu.   2.FosfatMyndin fyrir ofan sýnir hvernig námugröftur eftir fosfór hefur aukist síðustu tvær aldir.  Í dag er eftirspurn eftir fosfati um 148 milljón tonn á ári, og er nú talið að þessar birgðir verði þrotnar eftir 50 til 100 ár. Á nítjándu öldinni voru miklar birgðir af fosfati uppgötvaðar á eyjum undan Kyrrahafsströnd Perú.  Hér var það fugladrit eða gúanó sem innihélt fosfatið. En þær birgðir eru nú fullunnar og þá hófst námugröftur úr jörðu.  Nær allar birgðir og námur af fosfati eru nú í þremur löndum: Marokkó, Kína og Bandaríkjunum.  Marokkó hefur mestar birgðir, en reyndar eru þær alls ekki í Marokkó, heldur í Vestur Sahara, þar sem Marokkó hefur hertekið land.  Eins og er hefur Marokkó einokunaraðstöðu, en hver veit hvað gerist næst í Norður Afríku? Hvenær verður kónginum Mohammed í Marokkó steypt af stóli?  Alla vega er líklegt að þjóðin í Vestur Sahara, Saharawi,  reyni að ná völdum aftur.  Bandaríkjamenn verða búnir með sínar fosfór námur eftir 30 ár, og Kínverjar eru að hætta öllum útflutningi á fosfór til að varðveita sínar verðmætu birgðir af fosfati.  Eftirspurnin er gýfurleg; við mannkynið erum sannarlega fosfórfíklar.  3.HlandEins og myndin til hliðar sýnir, var verð á fosfati lengi mjög stöðugt.  En um 2007 og 2008 óx áhugi á að vinna eldsneyti úr jurtum, og eftirspurn eftir fosfati rauk upp og verðið hækkaði um 800% um tíma.  Það er enn hátt, kringum $400 tonnið, og fer stígandi.   Meiri partur af öllu vinnanlegu fosfati kemur úr fornu sjávarseti.  Í Norður Afríku finnast fosfór-rík setlög á svæðinu frá Atlasfjöllum og til Atlantshafsins.  Setlögin hafa myndast á hafsbotni á Eósen tíma, fyrir um 30 til 50 milljón árum.  Fósfórlagið sjálft er aðeins um 3 metrar á þykkt.  Talið er að fosfór hafi safnast saman hér á hafsbotni sem leifar af lífríki, líkt og olíurík lög myndast einnig í sjávarseti.  Aðal steindin eða mínerallinn í fosfatinu er apatít, Ca5(PO4)3(F,Cl,OH),  en við þekkjum það efni vel, þar sem það er ein aðal uppistaðan í tönnum og beinum okkar.    Ef eftirspurn vex eftir lífrænu eldsneyti er hætt við að fosfór verð hækki mikið í náinni framtíð.  Það er auðvitað ein frekar einföld og ódýr lausn á fosfatvandanum:  byrja aftur að bera mykju, skít og hland á akrana, og nýta allan þann úrgang sem nú rennur til sjávar frá klósettum mannkyns.   Taflan til hliðar sýnir innihald af köfnunarefni (N) og fosfór (P) í hlandi og saur fólks í ýmsum löndum.  Tölurnar eru kíló á ári, á mann.  Meðalborgari framleiðir um 500 lítra af hlandi á ári.  Það er nægilegur áburður á milli 300 og 600 fermetra af ökrum á ári.  Meðalborgari framleiðir um 50 lítra af saur á ári.  Það nægir til að bera á 200 til 300 fermetra af ökrum á ári.   Þarna liggur framtíðin, góður borgari.  Þeir hafa þegar gert tilraunir með slíkt í geimförum, og árangurinn er ágætur. 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband