Votlendi er mikilvægt

 1.SkurðgröÁrið 1839 kom daninn Japetus Steenstrup kom til Íslands ásamt aðstoðarmanni sínum Jónasi Hallgrímssyni, til að rannsaka brennisteinsnámur.  Tveimur árum áður hafði Steenstrup gert rannsókn á mýrum í Danmörku, sem er fyrsta vísindalega könnunin á mýrum og votlendi.  Íslendingar þekkja mýrar vel, en lengi vildu þeir fyrst og fremst eyða þeim.  Í mörg ár voru meir en þúsund kílómetrar af skurðum grafnir á ári hverju til að ræsa fram mýrar og eyða votlendi í þágu landbúnaðarstefnu þeirra tíma. Myndin til hliðar sýnir þetta sérstaka tímabil í sögu Íslands, frá stríðslokum og fram undir 1990. 2.MýNú hefur málið snúist við, þar sem komið hefur í ljós að votlendi  um allan heim hefur mjög mikið gildi fyrir bindingu kolefnis.  Einnig er votlendi mikilvægt fyrir miðlun vatns, hringrás næringarefna og verndun á fjölbreytni lands og lífríkis. Þegar ég var strákur í sveit á Snæfellsnesi varð ég að ganga um mýrarnar daglega til að sækja kýrnar til mjalta. Ég var í íslenskum gúmmískóm, eins og allir hinir krakkarnir, en þeir voru gerðir úr leifum af gúmmíslöngum úr bíladekkjum. Gúmmískórnir dugðu nokkuð vel í mýrunum.  Eitt af höfuðverkefnum Auðlindar Náttúrusjóðs er verndun og endurheimt votlendis. Sjá vefsíðu Auðlindar hér:  http://www.audlind.org/votlond/   Mýrar þekja um  þrjár og hálfa milljón ferkílómetra lands á jörðu (3%). Önnur myndin sýnir útbreiðslu mýra á norðurhveli jarðar, þar sem þær eru mikilvægastar, einkum norðan við 45. breiddargráðu.   Dökku svæðin eru mýrarnar sem innihalda mest kolefni.  Mýrar og mórinn undir þeim eru að sjálfsögðu plöntuleifar og þar af leiðandi mikill geymir fyrir kolefni. Binding kolefnis í mýrar á jörðu er talin um 600 gígatonn (Gt er einn milljarður tonna). Það er helmingi meira en allt kolefnið í skógum heims og um 75% af öllu kolefni sem er í andrúmsloftinu (CO2).    Votlendi getur því verið mjög mikilvægur þáttur varðandi loftslagsbreytingar, með því að draga niður koltvíoxíð úr loftinu.  Mýrin safnar kolefni, dregur í sig koltvíoxíð CO2  en gefur frá sér bæði koltvíoxíð og metan CH4.  Það er talið að nettó dragi mýrar í sig koltvíoxíð úr loftinu sem nemur 700 kg á hvern hektar, en það er 150 til 250 milljón tonn af kolefni sem fer á ári úr andrúmsloftinu og niður í mýrina um heim allan.   3.MýÞriðja myndin sýnir hvernig kolefni hefur safnast fyrir í mýrum heims síðan ísöld lauk.  Það er á milli 20 til 100 gígatonn af kolefni sem safnast fyrir í mýrinni á hverju árþúsundi (grænt).  Blái ferillinn sýnir að söfnun kolefnis í mýrar hefur verið milli 20 og 40 grömm á fermeter á ári.  En nú eru mýrar heims víða í mikilli hættu.  Vonandi er ekki of seint að bjarga íslensku mýrunum, en  víða í heimi er hættan meiri.  Einn vandinn er sá, að þegar loftslag hlýnar er hætta á því að mýrar tapi kolefni til andrúmsloftsins í meira mæli og vinni því ekki á móti hlýnun jarðar. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband