Fosfór að þrotum komið – en það er allt í lagi

1.FofórJarðefni af ýmsu tagi halda heiminum gangandi:  námur, olíulindir, jarðvarmi og aðrar auðlindir í jörðu.  Lengi höfum við litið á það sem sjálfsagðan hlut, að þær séu flestar óendanlegar: að vandamálið væri leysanlegt bara með því að senda út fleiri jarðfræðinga og námumenn til að finna nýjar námur og grafa upp meiri auðæfi úr jörðu.  Margt bendir nú til þess, að eftirspurn sé nú að fara fram úr framboði á ýmsum jarðefnum.  Ég ætla að fjalla um aðeins eitt efni hér í þessu sambandi, en það er fosfór  (frumefnið er P).   Aðalnæringarefni jurta eru nitur (N), kalí (K), fosfór (P), kalsíum (Ca), magnesíum (Ma) og brennisteinn (S).  Lengi vel notuðu bændur mykju, hland, skít og önnur úrgangsefni búpenings til að bera á akra sína, en svo kom efnaiðnaðurinn til sögunnar. Víðast hvar er nú borinn tilbúinn áburður með þessum efnum á akra heimsins og hráefnið í tilbúinn áburð kemur úr námum, nema nítur, sem er unnið úr loftinu.   2.FosfatMyndin fyrir ofan sýnir hvernig námugröftur eftir fosfór hefur aukist síðustu tvær aldir.  Í dag er eftirspurn eftir fosfati um 148 milljón tonn á ári, og er nú talið að þessar birgðir verði þrotnar eftir 50 til 100 ár. Á nítjándu öldinni voru miklar birgðir af fosfati uppgötvaðar á eyjum undan Kyrrahafsströnd Perú.  Hér var það fugladrit eða gúanó sem innihélt fosfatið. En þær birgðir eru nú fullunnar og þá hófst námugröftur úr jörðu.  Nær allar birgðir og námur af fosfati eru nú í þremur löndum: Marokkó, Kína og Bandaríkjunum.  Marokkó hefur mestar birgðir, en reyndar eru þær alls ekki í Marokkó, heldur í Vestur Sahara, þar sem Marokkó hefur hertekið land.  Eins og er hefur Marokkó einokunaraðstöðu, en hver veit hvað gerist næst í Norður Afríku? Hvenær verður kónginum Mohammed í Marokkó steypt af stóli?  Alla vega er líklegt að þjóðin í Vestur Sahara, Saharawi,  reyni að ná völdum aftur.  Bandaríkjamenn verða búnir með sínar fosfór námur eftir 30 ár, og Kínverjar eru að hætta öllum útflutningi á fosfór til að varðveita sínar verðmætu birgðir af fosfati.  Eftirspurnin er gýfurleg; við mannkynið erum sannarlega fosfórfíklar.  3.HlandEins og myndin til hliðar sýnir, var verð á fosfati lengi mjög stöðugt.  En um 2007 og 2008 óx áhugi á að vinna eldsneyti úr jurtum, og eftirspurn eftir fosfati rauk upp og verðið hækkaði um 800% um tíma.  Það er enn hátt, kringum $400 tonnið, og fer stígandi.   Meiri partur af öllu vinnanlegu fosfati kemur úr fornu sjávarseti.  Í Norður Afríku finnast fosfór-rík setlög á svæðinu frá Atlasfjöllum og til Atlantshafsins.  Setlögin hafa myndast á hafsbotni á Eósen tíma, fyrir um 30 til 50 milljón árum.  Fósfórlagið sjálft er aðeins um 3 metrar á þykkt.  Talið er að fosfór hafi safnast saman hér á hafsbotni sem leifar af lífríki, líkt og olíurík lög myndast einnig í sjávarseti.  Aðal steindin eða mínerallinn í fosfatinu er apatít, Ca5(PO4)3(F,Cl,OH),  en við þekkjum það efni vel, þar sem það er ein aðal uppistaðan í tönnum og beinum okkar.    Ef eftirspurn vex eftir lífrænu eldsneyti er hætt við að fosfór verð hækki mikið í náinni framtíð.  Það er auðvitað ein frekar einföld og ódýr lausn á fosfatvandanum:  byrja aftur að bera mykju, skít og hland á akrana, og nýta allan þann úrgang sem nú rennur til sjávar frá klósettum mannkyns.   Taflan til hliðar sýnir innihald af köfnunarefni (N) og fosfór (P) í hlandi og saur fólks í ýmsum löndum.  Tölurnar eru kíló á ári, á mann.  Meðalborgari framleiðir um 500 lítra af hlandi á ári.  Það er nægilegur áburður á milli 300 og 600 fermetra af ökrum á ári.  Meðalborgari framleiðir um 50 lítra af saur á ári.  Það nægir til að bera á 200 til 300 fermetra af ökrum á ári.   Þarna liggur framtíðin, góður borgari.  Þeir hafa þegar gert tilraunir með slíkt í geimförum, og árangurinn er ágætur. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Var ekki sagt um Njál að hann hafði fundið það út hann fékk betri sprettu ef hann bar skít á túnin og menn gerðu stólpa grín af honum fyrir það og sögðu honum væri nær að bera skít á kjammann á sér þar sem honum yxi ekki grön en synir hans fengu svo viðurnefnið " taðskegglingar."

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.3.2011 kl. 21:46

2 identicon

 Mjög fróðlegt, en sorglegt.

Hvaða einkun ætli kynslóðin sem verður uppi eftir ca 100ár, gefi þeim kynslóðum sem núna eru á lífi í heiminum og hvaða einkun ætli stjórnmála og viðskiptamenn fái? Heimurinn er neyslubrjálaður.

Pálmi (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 12:09

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég held að mikilvægasta staðreynd málsins sé sú, að fólksfjölgun á jörðu er taumlaus og nú nálgumst við hratt þau náttúrulegu takmörk sem plánetan hefur, varðandi birgðir jarðefna, þol loftslagskerfisins, magn auðlina í hafinu og í jörðu. Þegar auðlindir þessar eru að þrotum komnar mun fólksfækkun fylgja í kjölfarið, en það verður ekki fögur sjón.

Haraldur Sigurðsson, 18.3.2011 kl. 12:40

4 identicon

Þetta verður aldrei nógsamlega undirstrikað. Því miður er það svo, að í hvert skipti sem einhver vekur máls á þessum hlutum, rísa upp "spin doctors" alþjóðlega fjármagnsins og gera hvað sem þeir geta til að lítillækka og ómerkja þá sem benda á þessar einföldu staðreyndir. Náttúran hefur síðan sínar eigin aðferðir við að lagfæra ójafnvægi, þegar það verður. Einhverntíma kemur að því að jörðin hristir þessa óværu af sér, sem mannkynið er orðið. Spurningin er líklega fyrst og fremst um hvaða aðferð hún velur.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 18.3.2011 kl. 13:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband