Færsluflokkur: Eldfjallagas
Eldfjallagas spáir fyrir um Eldgos
23.11.2016 | 12:46
Eldfjallafræðinga hefur lengi dreymt um aðferð til að spá fyrir um eldgos, en þetta hefur satt að segja ekki gengið vel. Við vitum að jarðskjálftavirkni undir ldfjalli eykst fyrir gos, og varar okkur við að órói er í gangi, en spáir ekki beint um hvenær gos verði. Ein aðferð er sennilega sú besta, en það er InSAR (Interferometric Synthetic Aperture Radar). Sú tækni er byggð á tíðum mælingum frá radar í gervihnöttum og mælir breytingar á yfirborði jarðar. Þannig er mál með vexti að þegar kvika leitar upp í eldfjallið úr möttlinum, þá þenst fjallið út, það lyftist upp og radar í gervihnöttum mæla breytinguna. Fjallið verður ólétt og það ger á sjá á henni. En InSAR er mjög dýr aðferð og ekki á allra færi að komast yfir slík gögn. Nú er önnur aðferð, sem kann að reynast vel, en það er eldfjallagas. Það er algengt að gasútstreymi eykst rétt fyrir gos, en nýjar mælingar sýna að ef til vill breytist efnsasamseting á gasinu fyrir gos, og gefur möguleika til að spá gosi. Undanfarin þrjú ár hefur eldfjallið Turrialba í Costa Rica í Mið-Ameríku sýnt óróa og smá gos. Myndin sýnir mælingar á gasi sem streymir upp úr eldfjallinu. Það er hlutfallið C/S eð hlutfallið milli kolefnis og brennisteins, sem er mælt og sýnt blátt á myndinni. Gulu svæðin á myndinni sýna gos. Takið eftir að C/S hlutfallið eykst yfir fimm og upp undir tíu rétt fyrir gos. Þessar mælingar eru gerðar með tæki sem er stillt upp á gígbrúninni og sendir gögnin til rannsóknarstöðvar í öruggri fjarlægð. Þótt við vitum að það verður breyting á C/S rétt fyrir gos, þá vitum við satt að segja ekki hvers vegna það gerist. Gasið sem streymir upp er mikil blanda af efnum, sem hafa ýmiskonar uppruna. Sumt er gas sem losnar út úr kvikunni, sumt er gas sem losnar úr berginu umhverfis, þegar það hitnar osfrv. En samt sem áður er hér að finna góða aðferð til að spá fyrir um gos. Ekki er mér kunnugt um að þessari aðferð hafi verið beitt á Íslandi enn.
Hvað olli mesta útdauða jarðar?
3.1.2015 | 17:47
Ég hef nýlega fjallað um mesta útdauða eða aldauða lífríkis jarðar, í lok Perm tímabilsins. Þá dóu út um 96% af lífverum og mjög litlu munaði að jörðin yrði líflaus með öllu. Í fyrri pistlum benti ég á, að þessi útdauði, fyrir um 252 milljón árum, er nokkurn veginn á sama tíma og stórgosin urðu í Síberíu, þegar heiti reiturinn sem nú er undir Íslandi fyrst kom upp á yfirborð jarðar. Margir hafa því tengt útdauðann við eldgosin miklu. Þá hafa þeir vitnað til áhrifa frá gastegundum, sem fylgja gosunum. Brennisteinstvíoxíði frá eldgosum hefur verið kennt um að kæla jörðina og valda útdauða. Klórgasi frá eldgosum hefur verið kennt um að eyða ósón laginu og valda stökkbreytingum. Koldíoxíði frá eldgosum hefur verið kennt um að valda gífurlegum gróðurhúsáhrifum og mjög háum hita. Þetta eru allt góðar uppástungur, en þær eru á engum rökum reistar. Hvað er það sem við vitum um þessi tímamörk? Ekki svo mikið. En nú vitum við að minnsta kosti að útdauðinn gerðist mjög hratt. Seth Burgess og félagar hafa nú ákvarðað mjög nákvæmlega hvenær þessi mikli útdauði varð. Það hafa þeir gert með aldursgreiningum á geislavirkum efnum frá þessum tímamótum í jarðsögunni. Þá kemur í ljós að útdauðinn varð fyrir um 252 milljón árum og hann stóð yfir tímabil sem er ekki lengra en um 2,1 til 18,8 þúsund ár! Þetta er sýnt á fyrstu myndinni. Þar er einnig sýnt að mjög miklar breytingar urðu á efnafræði heimshafanna, sem byrjuðu rétt fyrir útdauðann og kunna að hafa valdið honum. Þetta er sýnt sem hlutfall á tveimur samsætum eða ísótópum kolefnis, C12 og C13. C12 er mjög algengt, en C13 er yfirleitt í eða um 1%. Þetta bendir til að mjög mikið magn af CO2 hafi borist út í andrúmsloftið og í hafið rétt fyrir útdauðann, og orsakað súrnun og hlýnun hafanna áður en CO2 barst dýpra eða veðraðist út. Slík súrnun getur beinlínis hafa orsakað útdauðann. En hvaðan kom allt þetta CO2? Er það úr eldgosum eða af öðrum rótum? Það er alls ekki ljóst. Sumir halda fast við loftsteinskenningu um þennan útdauða, en engar heimildir eru enn fyrir hendi sem styðja það. Næsta skref er að gera einnig nákvæmar aldursgreiningar á blágrýtismynduninni í Síberíu og sjá hvort hún passar við aldur útdauðans mikla. Ef til vill orskaðist þessi mesti útdauði lífríkis á jörðu af einhverjum þáttum, sem við vitum all ekkert um -- ennþá.
Eldfjallagas | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mesti útdauði jarðar markar uppruna Íslenska heita reitsins.
29.12.2014 | 19:40
Eins og ég hef fjallað um hér í pistlum á undan, þá er það álit margra jarðvísindamanna að heiti reiturinn sem nú er virkur undir Íslandi eigi sér langa sögu, sem byrjar undir Síberíu fyrir um 250 milljón árum. Hann er þá langlifasti heiti reiturinn á jörðinni í dag. Enn merkilegra er sú kenning að þegar heiti reiturinn fyrst kom upp á yfirborðið í Síberíu, þá hafi hann orskað mesta útdauða lífríkis á jörðu, á mótum Perm og Trías timabila í jarðsögunni. Það er almennt talið að heitir reitir séu kraftmestir í fyrstu en síðan dragi úr gosmagninu og raftinum. Það getur vel passað í þessu tilfelli.
Lífríki jarðar hefur verið að þróast í um 500 milljón ár. En það hefur ekki alltaf verið dans á rósum, því á þessum tíma hafa orðið fimm stóratburðir, sem hafa eytt nær öllu lífríki á jörðu í hvert sinn. Sá þekktasti varð fyrir um 65 milljón árum, þegar risaeðlurnar og mest allt lífríki jarðar dó út í risastórum loftsteinsárekstri. Fyrsta mynd sýnir fjölda tegunda sem dóu út við hvern útdauða jarðsögunnar. En stærsti og mesti útdauði lífríkis jarðar varð fyrir um 252 milljón árum, þegar um 96% af öllu lífríki fórst. Áhrifin voru svo djúptæk að jafnvel kóralrifin í hafinu dóu og engir kórallar þrifust í um tíu milljón ár á eftir. Allt lífríki sem nú lifir á jörðu eru afkomendur hinna útvöldu 4% sem lifðu þessar hamfarir af. Þessi mikli útdauði markar skilin milli Perm og Trías tímabila í jarðsögunni.
Hvað er það sem gerðist í jarðsögunni á þessum tíma, sem kynni að hafa valdið þessum mikla útdauða? Var það stórkostlegur loftsteinsárekstur, mikil eldgos eða einhverjar aðrar náttúruhamfarir? Vísindamenn hafa lengi velt því fyrir sér og ekki enn komið með nægilega sannfærandi svör.
Það hefur ekki fundist nein vitneskja um stóran loftsteinsárekstur á þessum tíma, en hins vegar verður útdauðinn eiginlega nákvæmlega á sama tíma og mesta eldgosatímabil jarðar tekur yfir, þ.e.a.s. gos blágrýtismyndunarinnar í Síberíu. Þessi blágrýtismyndun nær yfir meir en 2,5 ferkílómetra, er víða meir en 3 km á þykkt og með rúmmál um eða yfir 4 milljonir rúmkílómetra. Myndin til vinstri sýnir hraunstaflann. Ofan á allt saman bætist að þetta ótrúlega magn af basaltkviku gubbaðist upp á mjög stuttum tíma. Steingervingafræðin sýnir að útdauðinn varð á mjög stuttum tíma, sennilega innan 200 þúsund ára. Um 90% af öllum tegundum í hafinu fórst og um 70% af öllum tegundum á landi. Sömu leiðis sýna steingervingarnir að útdauðinn varð samtíma eldgosunum. Það tók meir en 5 milljón ár áður en lífríkið tók að ná sér.
Þetta er nú gott og blessað, en hver eru þá tengslin milli eyðingu lífríkis og eldgosanna ? Eða er það einungis tilviljun? Hraunrennslið hefur auðvitað haft engin áhrif, en þá er að leita skýringa í sambandi við magn og tegundir af gasi, sem kom upp í þessum gosum. Það eru fyrst og fremst gastegundirnar CO2, H2O, SO2 HF og HCl. B,A, Black og félagar (2012) hafa mælt magn þessara gastegunda í kvikunni sem gaus í Síberíu á þessum tíma.
Þeir finna að kvikan sem kom upp í sumum gosunum hefur ótrúlega hátt magn af gastegundum, með allt að 0,5% S (brennistein), upp undir 1% Cl (klór), og nær 2% F (flúór). Magnið af þessum gastegundum sem kann að hafa borist út í andrúmsloftið skiftir þúsundum gígatonna (Gt), en eitt Gt er einn milljarður tonna. Þeir telja að magnið af brennisteinsgasi hafi verið um 5300 til 6100 Gt S, af klóri 100 til 2700 Gt Cl og af flúóri á bilinu 3800 til 5400 Gt Cl. Brennisteinn veldur kólnun á loftslagi jarðar ef gasið berst hátt upp í heiðhvolf. Klór gasið gæti eytt ósón laginu í heiðhvolfi, sem ver jörðina fyrir hættulegum geimgeislum. Það kann þá að orskaka stökkbreytingar og ill áhrif á erfðefni í öllu lífríki. Flúór orsakar gadd eða flúorósis og fall búpenings, eins og við þekkjum vel hér eftir Skaftárelda 1783. Það er því af nógu að taka í þessu dæmi varðandi hugsanlegar hættur út af þessum stórgosum.
Koldíoxíð frá Bárðarbungu
7.11.2014 | 13:16
Nýlega var sagt frá því að tveir verðir laganna hefðu átt í erfiðleikum með að anda í grennd við gosstöðvarnar í Holuhrauni. Ég tel líklegast að það hafi verið koldíoxíð gas sem olli því, en ekki brennisteinstvíoxíð. Koldíoxíð er algeng gastegund í eldgosum. Hún er ekki eitrandi, en ef koldíoxíð eða CO2 er fyrir hendi í miklum mæli, þá dregur úr súrefni í loftinu og af því orsakast vandi við öndun og jafnvel köfnun. Þannig fórst einn maður í kjallara sjúkrahússins í Vestmannaeyjum í gosinu árið 1973.
Þetta verkur spurningar um magnið af koldíoxíði, sem berst upp í gosinu í Holuhrauni. Mér er ekki kunnugt um neinar beinar mælingar á því, en við getum samt farið nærri um útlosun á þessu gasi í gosinu til þessa. Til samanburðar var magnið af CO2 í basalt kvikunni sem gaus á Fimmvörðuhálsi árið 2010 um 0,15%. Magn af koldíoxíði er nokkuð þekkt í basalt kviku almennt, en uppleysanleiki þess er háður þrýstingi eða dýpi. Fyrsta myndin sýnir uppleysanleika á CO2 í kvikum af ýmsum gerðum við mismunandi þrýsting. Lóðréti ásinn sýnir CO2 í ppm (partur úr milljón), en sá lárétti sýnir þrýsting í kílóbörum. Eitt kílóbar er þrýstingurinn á um 3 km dýpi niðri í jarðskorpunni. Það er viðeigandi að álíta að kvikan undir Bárðarbungu, sem nú kemur upp í Holuhrauni hafi verið á um 8 til 10 km dýpi, samkvæmt dýpi jarðskjálfta. Þá er magn af CO2 í kvikunni um 1500 ppm eða 0,15% af kvikunni. Það er á bilinu milli kvikutegundanna basanít og þóleíit, eins og rauði hringurinn sýnir.
Nú er talið að um einn rúmkílómeter af basalt kviku hafi komið upp í Holuhrauni. Það mun vera um 2,8 gígatonn af kviku (gígatonn er einn milljarður tonna). Ef kvikan inniheldur 0,15% CO2, þá er útlosun af koldíoxíði í gosinu því orðin um 4 milljón tonn (0,004 gígatonn). Hvað er þetta mikið, miðað við útblástur allra eldfjalla á jörðu af CO2 á einu ári? Nú er áætlað að heildarútblástur allra eldfjalla á jörðu sé um 300 milljón tonn á ári (0,3 gígatonn). Gosið í Holuhrauni er því búið að losa meir en eitt prósent af árlegum skammti eldfjallanna.
Er þetta mikið magn, í samhengi við útblástur mannkyns af koltvíoxíði vegna bruna á olíu, kolum og jarðgasi? Mannkynið losar um 35 gígatonn af CO2 á hverju ári. Eldfjöllin losa aðeins um eitt prósent af þessu magni á ári hverju, til samanburðar. Þetta er vel þekkt staðreynd, en samt sem áður koma stjórnmálamenn og sumir fjölmiðlar oft fram með alvitlausar staðhæfingar um, að eldgos dæli út miklu meira magni af koldíoxíði en mannkynið. Hvar fær slæikt fólk þessar upplýsingar? Eða eru þær ef til vill einungis heimatilbúnar, til að henta stjórnmálamönnum í hvert sinn?
Seinni myndin sýnir hvernig CO2 hefur vaxið stöðugt (rauða línan) í lofthjúp jarðar, frá 1960 til dagsins í dag. Blái ferillinn sýnir stærstu eldgosin á þessu tímabili, en sýndar eru breytingar á brennisteinstvíoxíði í lofthjúpnum. Er það ekki alveg augljóst, að eldgosin hafa ekki haft nein áhrif á CO2 í lofthjúpnum?
Magn og flæði gosefna frá Holuhrauni
16.10.2014 | 20:11
Blámóðan, sem kemur upp í gosinu í Holuhrauni inniheldur mikið magn af brennisteinstvíoxíði (SO2). Þessi móða berst yfir landið og getur verið hvimleið þegar hún berst í byggð. Hvað er mikill brennisteinn í basalt kvikunni? Ég hef ekki séð neinar greiningar á því ennþá, en við getum farið nærri um það út frá efnasamsetningu kvikunnar. Fyrsta myndin sýnir hlutfallið milli járns í basalti og brennisteins. Basalt af því tagi, sem nú gýs í Holuhrauni inniheldur yfirleitt um 13% járn oxíð, en það bendir til að brennisteinsmagn uppleyst í kvikunni sé um 1500 ppm S, eins og myndin sýnir, eða 0,15%. Til að áætla flæði af brennisteini, þá þurfum við að vita hraunflæðið.
Meðalhraunflæðið hefur verið áætlað á bilinu 230-350 m3/s. Þetta getur verið nærri lagi. Við vitum að flatarmál hraunsins er um 56 ferkílómetrar, og gosið hefur staðið yfir í um 46 daga. Þá ætti að vera komið upp á yfirborðið um eða yfir 914 milljón rúmmetrar. Samkvæmt þessum tölum ætti þykkt hraunsins að vera um 16 metrar að meðaltali. Þetta er nokkuð há tala fyrir hraunþykkt, en sennilega er hraunflæði um 230 m3 á sekúndu samt nærri lagi.
Eðlisþyngd kvikunnar er um 2,75 g/cm3, en eðlisþyngd hraunsins er töluvert minni, vegna holrýmis og gasblöðrumyndunar. Sennilega er eðlisþyngd hraunsins um eða rétt rúmlega 2 g/cm3. Þá er hraunrennsli um 500 til 700 tonn á sekúndu. Hraunrennsli er því um 500,000 til 700,000 kg á sekúndu. Brennisteinn S, sem leysist úr læðingi úr kvikunni þegar hún kemur upp á yfirborðið í gosinu er sennilega um helmingur af öllum brennisteini. Þá berst út í andrúmsloftið um 0,08% af 500 til 700 þúsund kg af kviku á sekúndu. Þá er brennisteinsmagnið S sem fer út í andrúmsloftið í mesta lagi 0,37 til 0,5 þúsund kg á sek., eða 0,7 til 1 þúsund kg af SO2. Það er um 60 til 86 þúsund tonn af SO2 á dag.
TOMS gervihnötturinn frá NASA mælir SO2 magn í lofthjúpnum daglega yfir Íslandi og síðan gosið hófst eru tölurnar eins og myndin sýnir, frá 5 og upp í 20 þúsund tonn af SO2 á dag. Vefsíða Veðurstofunnar og Háskóla Íslands telur hinsvegar að SO2 sé allt að 35 þúsund tonn á dag. Við höfum því tölur um flæði á brennisteinstvíoxíði frá þremur stöðum: (1) líklegu brennisteinsmagni í kvikunni, (2) frá TOMS gervihnetti, (3) frá áætlun Veðurstofu og Háskólans. Tölurnar sýna að losun brennisteinstvíoxíðs er tugþúsundir tonna á dag. Ég treysti tölunni, sem er byggð á uppleysanleika brennisteins í kvikunni, best: losun af SO2 um 60 þúsund tonn á dag.
Gasið brennisteins tvíoxíð (SO2) breytist á endanum í brennisteinssýru (2 H2SO4), eins og þessi jafna sýnir:
2 SO2 + 2 H2O + O2 → 2 H2SO4
En það er flókin keðja af efnahvörfum og þar á meðal myndast brennisteins þríoxíð (SO3) á þeirri leið. Þessi keðja efnahvarfa tekur eina til þrjár vikur í lofthjúpnum, en að lokum myndast svifryk eða aerosol af ögnum eða dropum af brennisteinssýru H2SO4 sem getur svifið nokkuð lengi, valdið sárindum í augum og fleiri vandamálum.
Eldfjallagas | Breytt s.d. kl. 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Bláa móðan frá Holuhrauni
15.10.2014 | 15:33
Hvers vegna er móðan frá eldstöðvunum í Holuhrauni blá? Myndin fyrir ofan er dæmi um blámóðuna, eins og hún lítur út frá geimnum. Hún er reyndar blá á sama hátt og himininn er blár. Litur á efni eða hlut er að mestu leyti ákvarðaður af því hvernig efnið drekkur í sig litrófið. Rauður bolti er rauður vegna þess að hann drekkur í sig alla liti litrófsins NEMA þann rauða. Rauða ljósið endurkastast frá boltanum og það er því liturinn sem við sjáum. Ljósið sem kemur frá sólinni er hvítt, en er reyndar í öllum regnbogans litum, eins og Isaac Newton sýndi fram á, fyrstur manna. Lofthjúpurinn inniheldur margar tegundir gaskenndra efna. Þegar sólarljósið berst inn í lofthjúpinn, þá dreifist hluti af ljósinu, en efni í lofthjúpnum drekka í sig annan hluta ljóssins. Aðeins um 75% af ljósinu berst alla þeið niður að yfirborði jarðar. Himinninn er blár vegna þess að gas og frumefni í lofthjúpnum drekka í sig flestar bylgjulengdir litrófsins nema bláa litinn. Sá blái er á þeim hluta litrófsins sem hefur mun styttri bylgjulengd (um 400 nm) en til dæmis rautt og grænt. Hvort það eru mólekúl, agnir eða gas frumefni í lofthjúpnum, þá hafa þau sömu áhrif á litróf sólarljóssins. Móðan frá eldgosinu samanstendur af bæði dropum, mólekúlum og gaskenndum frumefnum, sem dreifa og drekka í sig itróf sólarljóssins á ýmsan hátt. En eldfjallsmóðan drekkur ekki í sig bláa hluta litrófsins og því er móðan bláleit.
Ykkur er boðið í bíó
29.9.2014 | 11:31
Nú þegar hausta tekur er réttí tíminn til að koma sér fyrir í sófanum og horfa á bíó. Í þetta sinn býð ég ykkur upp á að sjá myndina Year Without a Summer, eða Árið Sumarlausa. Þessi heimildamynd var gerð árið 2005 og hún fjallar um stærsta eldgos jarðar, þegar Tambora á Indónesíu gaus í apríl árið 1815. Þar kom upp um eitt hundrað rúmkílómetrar af kviku. Til samanburðar komu upp um 15 rúmkílómetrar þegar Skaftáreldar brunnu árið 1783. Nú er kominn upp um hálfur rúmkílómeter í Holuhrauni. Í myndinni er fjallað um eldfjallarannsóknir mínar á þessu eldfjalli, en ég hóf störf þar árið 1986. Bein afleiðing gossis var sú, að um 117 þúsund létust, en óbein afleiðing var að loftslag kólnaði um heim allan í tvö til þrjú ár. Kólnunin varð vegna þess að mikið magn af brennisteinsgasi barst upp í heiðhvolf, þar sem brennisteinsslæðan endurkastaði sólarljósi frá jörðu og kældi jörð alla. Sjón er sögu ríkari: hér má sjá myndina á Vimeo: https://vimeo.com/100239205
Sláið inn lykilorðinu tambora til að komast inn.
Af hverju er meiri kvika á ferðinni en nemur sigi öskjunnar?
26.9.2014 | 19:11
Einfaldsasta líkan af virkni í Bárðarbungu er eftirfarandi:
1. Kvika streymir út úr kvikuþró á einhverju dýpi undir öskjunni og út í ganginn til norðurs.
2. Askjan sígur niður í samræmi við rennsli út úr kvikuþrónni og jarðskjálftar verða við sigið. Ef kvikustreymi út úr kvikuþrónni er jafnt og sigið, þá er það um 0,8 rúmkílómetrar.
3. Kvika streymir út í kvikuganginn til norðurs, en hann inniheldur um 1,0 rúmkílómeter af kviku.
4. Hluti af kvikunni kemur upp á yfirborð í hinu nýja Holuhrauni, sem er nú um 0,5 rúmkílómetrar.
Samkvæmt þessum tölum er sigið og þar með kvikurennsli út úr þrónni aðeins um helmingur af rúmmáli kviku, sem hefur komið upp í gosinu og plús þeiri kviku, sem er í ganginum. Dæmið gengur því ekki upp. En það er alls ekki óvenjulegt, og reyndar næstum regla í hegðun eldfjalla. Rúmmál kviku sem fer út úr kvikuþróm er oftast aðeins hluti af rúmmáli kviku sem kemur upp á yfirborð og er eftir í ganginum. Margir jarðvísindamenn hafa fjallað um þetta vandamál eða ráðgátu, til dæmis Eleonora Rivalta, og það má kalla þetta ráðgátuna um aukakvikuna. Af hverju virðist vera meiri kvika í gangi og hrauni til samans, en hefur komið út úr kvikuþrónni? Tvær tilgátur koma fram til að skýra málið. Önnur er sú, að kvikan komi upp úr kvikuþrónni á miklum þrýstingi, þar sem hún er þjöppuð saman. Hér er átt við gaslausa kviku. Síðan þenst hún út nær yfirborði við minni þrýsting. Þetta dugar ekki, því kvika þenst út um til dæmis aðeins 2% þegar hún berst frá 100 km dýpi og upp á yfirborð. Hin kenningin er sú, að gas þenjist út í kvikunni við lágan þrýsting nær yfirborði. Við þær aðstæður losnar gasið úr læðingi, bólur af gasi myndast í kvikunni við lægri þrýsting (minna dýpi í jarðskorpunni) og rúmmál kvikunnar vex mikið. Þetta er líklegasta skýringin á því, að rúmmál kvikunnar í ganginum er miklu meiri en hefur streymt út úr kvíkuþrónni. Þetta sýnir okkur að það er eiginlega villandi að ræða um kvikuflæði í einingum rúmmáls. Við eigum að fjalla um það í einingum massa, eins og til dæmis vigt, kíló eða tonn (milljónir tonna í þessu tilfelli). En rúmmálið er eina einingin sem við höfum upplýsingar um, þar sem við vitum ekki um eðlisþyngd kvikunnar í ganginu, þegar gasbólur byrja að myndast. Það er augljóst að það er töluvert gas í kvikunni, sem styrkir þessa kenningu. Gasið er sennilega blanda af koltvíoxíði, brennisteinstvíoxíði, vatnsgufu, klór og flúorgasi. Mig grunar að koltvíoxíð sé þó mikilvægast en greiningu vantar.
Stafar mesta hættan af brennisteinsgasinu?
7.9.2014 | 07:09
Brennisteinsgas er eitt af aðal gastegundunum, sem streymir út við eldgos. Í Skaftáreldum árið 1783 streymdi út í andrúmsloftið um 150 milljón tonn af SO2 eða brennisteinstvíoxíði, ásamt miklu magni af flúórgasi og orsakaði það Móðuharðindin. Þá féll um 75% af öllum búpening á Íslandi og þjóðinni fækkaði um 24%. Sauðfé og nautgripir átu gras, sem var mengað af flúórefnum úr gosinu og olli það dauða þeirra. Gosið og Móðuharðindin eru mestu náttúruhamfarir, sem Íslendingar hafa orðið fyrir. EKKERT annað land hefur tapað svo stórum hluta þjóðarinnar. Einnig verður útblástur af gastegundinni H2S eða brennisteinsvetni við eldgos, en það er eiturgas ef það er fyrir hendi í miklum mæli. Stöðug virkni gíganna í Holuhrauni dælir nú út miklu magni af brennisteinsgasi í dag. Nú er hægt að fylgjast með útblæstrinum á vefsíðu NASA hér: http://so2.gsfc.nasa.gov/index.html
Myndin fyrir ofan er frá Aura gervihnettinum, en hún sýnir SO2 eða brennisteins oxíð magn í lofthjúpnum umhverfis Ísland hinn 4. september 2014. Aura mælir mökkinn einu sinni á degi hverjum. Magnið er mælt í Dobson units (DU). Brennisteinsgasið er sennilega mest fyrir neðan veðrahvörf, eða undir 10 km hæð yfir jörðu og rignir því út þegar gasið gengur í efnasambönd við raka í andrúmsloftinu. Vonandi fellur það súra regn að mestu yfir hafið, en eitthvað af því getur haft áhrif á landi. Ef það berst hærra, yfir veðrahvörf, þá er það komið upp í heiðhvolf (stratosferuna) og getur haft áhrif á loftslag (kólnun). En yfirleitt berst brennisteinsgas ekki upp í heiðhvolf nema í kröftugum sprengigosum, sem bera gjóskumökk uppfyrir um 15 km hæð. NASA hefur mælt heildarmagn af brennisteinsgasi SO2 í mökknum frá útblæstrinum í Holuhrauni með Aura gervihnettinum og er það sýnt á annari myndinni. Rauða línan sýnir magn brennisteinsgassins í kílótonnum (1 kílótonn = 1 þúsund tonn). Hinn 5. september var magnið í mekkinum því um 12 þúsund tonn. Þetta er enn bara upp í nös á ketti, en ef gosið heldur áfram með þessum krafti, mánuðum eða árum saman, þá er brennisteinsgas og móðan mjög mikið umhverfisvandamál fyrir Ísland og nágrannalöndin.
Eldfjallagas | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Óvissustig
10.7.2014 | 05:34