Stafar mesta hættan af brennisteinsgasinu?

brennisteinsgas SO2

Brennisteinsgas er eitt af aðal gastegundunum, sem streymir út við eldgos. Í Skaftáreldum árið 1783 streymdi út í andrúmsloftið um 150 milljón tonn af SO2 eða brennisteinstvíoxíði, ásamt miklu magni af flúórgasi og orsakaði það Móðuharðindin.  Þá féll um 75% af öllum búpening á Íslandi og þjóðinni fækkaði um 24%.  Sauðfé og nautgripir átu gras, sem var mengað af flúórefnum úr gosinu og olli það dauða þeirra.  Gosið og Móðuharðindin  eru mestu náttúruhamfarir, sem Íslendingar hafa orðið fyrir. EKKERT annað land hefur tapað svo stórum hluta  þjóðarinnar.  Einnig verður útblástur af gastegundinni H2S eða brennisteinsvetni við eldgos, en það er eiturgas ef það er fyrir hendi í miklum mæli.  Stöðug virkni gíganna í Holuhrauni dælir nú út miklu magni af brennisteinsgasi í dag. Nú er hægt að fylgjast með útblæstrinum á  vefsíðu NASA hér: http://so2.gsfc.nasa.gov/index.html

Myndin fyrir ofan er frá Aura gervihnettinum, en hún sýnir SO2 eða brennisteins oxíð magn í lofthjúpnum umhverfis Ísland hinn 4. september 2014.  Aura mælir mökkinn einu sinni á degi hverjum.  Magnið er mælt í Dobson units (DU).  Brennisteinsgasið er sennilega mest fyrir neðan veðrahvörf, eða undir 10 km hæð yfir jörðu og rignir því út  þegar gasið gengur í efnasambönd við raka í andrúmsloftinu.  Vonandi fellur það súra regn að mestu yfir hafið, en eitthvað af því getur haft áhrif á landi.  Aura brennisteinnEf það berst hærra, yfir veðrahvörf, þá er það komið upp í heiðhvolf (stratosferuna) og getur haft áhrif á loftslag (kólnun).  En yfirleitt berst brennisteinsgas ekki upp í heiðhvolf nema í kröftugum sprengigosum, sem bera gjóskumökk uppfyrir um 15 km hæð.  NASA hefur mælt heildarmagn af brennisteinsgasi SO2 í mökknum frá útblæstrinum í Holuhrauni með Aura gervihnettinum  og er það sýnt á annari myndinni. Rauða línan sýnir magn brennisteinsgassins í kílótonnum (1 kílótonn = 1 þúsund tonn).  Hinn 5. september var magnið í mekkinum því um 12 þúsund tonn.  Þetta er enn bara upp í nös á ketti, en ef gosið heldur áfram með þessum krafti, mánuðum eða árum saman, þá er brennisteinsgas og móðan mjög mikið umhverfisvandamál fyrir Ísland og nágrannalöndin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir enn einn fróðlegan pistilinn. Eftir þessu að dæma þyrfti að gjósa í á annað hundrað ár til að sama magn af brennisteinslofti losnaði og í móðuharðindum, miðað við núverandi losun.

Varðandi fólksfækkunina í móðuharðindunum:

" ...og þjóðinni fækkaði um 24%. Það eru mestu náttúruhamfarir, sem Íslendingar hafa orðið fyrir. EKKERT annað land hefur tapað svo stórum hluta þjóðarinnar."

Þá má nefna að kínverjum fækkaði um 50% á 13. öld af völdum plága og mongóla en vissulega er þetta svolítið háð forsendunum sem menn gefa sér.

"The population of China decreased from 123 million in 1200 to 65 million in 1393,[31] which was presumably due to a combination of Mongol invasions, famine and plague."

Sömuleiðis fækkaði Evrópubúum um 50% á 7. og 8. öld.

http://en.wikipedia.org/wiki/World_population

En kanski má segja að móðuharðindin hafi verið einn viðburður á fárra ára tímabili og því sé þetta enn eitt íslands/heimsmetið svona að gefnum réttum forsendum! Met sem vonandi verður ekki slegið í bráð!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 7.9.2014 kl. 10:33

2 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Þetta eru nýjar fréttir, eins og reyndar Páll Bergþórsson bendir á ...

Hingað til hefur verið talið að það hafi verið flúorinn sem drap búfénaðinn en hann veldur eins og kunnugt er ofvöxt í beinum. Grasbítarnir missa einnig tennurnar sem gerir það að verkum að þeir geta ekki etið og drepast því að sjálfsögðu ...

Torfi Kristján Stefánsson, 7.9.2014 kl. 11:38

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Það er alveg rétt að fúorgas er einnig mikilvægur þáttur í eldfjallagasi og hefur haft afgerandi áhrif á búpening í Skaftáreldum, eins og Páll hefur bent á.  Flúorgas er ekki mælt á sama hátt og brennisteinstvíoxíð frá gervihnöttum og við vitum því ekki enn um útbreiðslu þess.  Yfirleitt er talið að flúrogas þéttist  mjög fljótt í gosmekkinum og falli hratt til jarðar á yfirborði öskukorna. Þannig fellur það á beitilönd og berst inn í sauðfé og annan búpening.  Einnig er hugsanlegt að flúor falli til jarðar með úrkomu.  Nú fara réttir í hönd og gott að fjarlægja sauðféð frá heiðum Austurlands.

Haraldur Sigurðsson, 7.9.2014 kl. 11:48

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Nú í dag mælist hækkandi brennisteinstvíoxíð í andrúmslofti í Reyðarfirði, allt að 660 einingar. Það er vafalaust frá eldgosinu og er það farið að hafa áhrif á fólk í bænum, sem hefur öndunarvandamál.

Haraldur Sigurðsson, 7.9.2014 kl. 12:26

5 identicon

Og ekki má gleyma hamförum svartadauða í Noregi um miðja 14. öld þegar amk. 50% þjóðarinnar féllu á 4 árum eða svo.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 7.9.2014 kl. 16:03

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já. Móðuharðindin: http://www.ruv.is/frett/mengun-fra-gosi-getur-had-folki

Sumir vilja meina að víða hafi aska og eiturgufur skilið eftir sviðna jörð þarna rétt fyrir 1800.

Sagt er að flúormengun hafi orðið svo mikil að skepnur hafi fengið svokallaðan gadd og fallið í stórum stíl af þeim völdum. þegar skepnurnar féllu - þá féll fólkið og þá sérstaklega börn og fátækir.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.9.2014 kl. 16:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband