Ykkur er boðið í bíó

TamboraNú þegar hausta tekur er réttí tíminn til að koma sér fyrir í sófanum og horfa á bíó. Í þetta sinn býð ég ykkur upp á að sjá myndina Year Without a Summer, eða Árið Sumarlausa.  Þessi heimildamynd var gerð árið 2005 og hún fjallar um stærsta eldgos jarðar, þegar Tambora á Indónesíu gaus í apríl árið 1815.  Þar kom upp um eitt hundrað rúmkílómetrar af kviku.  Til samanburðar komu upp um 15 rúmkílómetrar þegar Skaftáreldar brunnu árið 1783.  Nú er kominn upp um hálfur rúmkílómeter í Holuhrauni.  Í myndinni er fjallað um eldfjallarannsóknir mínar á þessu eldfjalli, en ég hóf störf þar árið 1986.   Bein afleiðing gossis var sú, að um 117 þúsund létust, en óbein afleiðing var að loftslag kólnaði um heim allan í tvö til þrjú ár.  Kólnunin varð vegna þess að mikið magn af brennisteinsgasi barst upp í heiðhvolf, þar sem brennisteinsslæðan endurkastaði sólarljósi frá jörðu og kældi jörð alla.  Sjón er sögu ríkari: hér má sjá myndina á Vimeo:  https://vimeo.com/100239205

Sláið inn lykilorðinu tambora til að komast inn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir fróðlega en um leið ógnvekjandi mynd.

Hvernig falla hin stóru öskugos Heklu inn í þetta, svona út frá því hvað hún hefur gert fyrir landnám, við hverju meiga menn búast af henni ef hún tæki upp á risagosi?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 29.9.2014 kl. 14:07

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Stórgos Heklu eru af stærðargráðunni 1 til 2% af magni því af kviku, sem kom upp í Tambora gosinu árið 1815.  Ekki veit ég hvað þú meinar með risagosi, en ég tel ólíklegt að næsta Heklugos verði stærra en þau, sem undan eru gengin á 20. öldinni.  Þar var gosið 1947 stærst.

Haraldur Sigurðsson, 29.9.2014 kl. 15:50

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Gaman að sjá þetta aftur. Mikið hefði mig langað til að vera með í uppgreftri á Tamboru. Bróðir afa míns var í stjórnunarstarfi í hollenskri sykurverksmiðju á Surabaju og Sarawak.

FORNLEIFUR, 29.9.2014 kl. 16:50

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Þú hefur greinilega einhver Hollensk tengsl í ættinni.

Haraldur Sigurðsson, 29.9.2014 kl. 17:00

5 identicon

Ég er að tala um gos eins og Sigurður Þórarinsson kallaði öskulögin H5, H4 og H3 eftir.http://is.wikipedia.org/wiki/Hekla

Hvaða áhrif myndu slík gos hafa á byggðir á Suðurlandi í dag?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 29.9.2014 kl. 17:23

6 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Slík gos valda miklu ösku- og vikurfalli á Suðurlandi öllu.  Alþekkt er að eitt slíkt gos lagði Þjórsárdal í eyði árið 1104.  En ekki er vitað að gos af þessari tegund valdi gjóskuflóði í neinum mæli og af þeim stafar því ekki bein lífshætta. 

Haraldur Sigurðsson, 29.9.2014 kl. 17:47

7 Smámynd: FORNLEIFUR

Haraldur, Gosið lagði ekki Þjórsárdal í Eyði árið 1104. Um það eru fornleifafræðingar og jarðfræðingar sammála í dag, þó svo að ég hafi til fjölda ára mátt drattast með fordæmingu ákveðinna jarðfræðinga fyrir að halda öðru fram. Fullt er af upplýsing um endanlega eyðingu byggðar í Þjórsárdal á Fornleifi.

Til Gamans: Eitt sinn kom rithöfundurinn Gro Sandemo í heimsókn að Stöng, þegar við rannsökuðum þar. Við grafararnir vorum í kaffi á hólnum og íslenskur leiðsögumaður, nokkuð auðtrúa, sem var með Gro í eftirdraginu tjáði okkur að hún væri líka skyggn. Hún fór nærri því í trans við einn prófílinn 2,5 m. yfir kirkjurúst sem ég fann og sagði að hún fyndi fyrir ungri konu sem farist hefði í hraunflóðinu. Hún sagði "her under i fjøsset døde den unge kvinden". Ég gat þá ekki setið á mér og sagði henni að hún stæði beint ofan á kirkjunni og að enginn hefði dáið því ekkert hefð hraunið verið.

FORNLEIFUR, 29.9.2014 kl. 21:25

8 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Þeir hafa þá verið þrautsegir, bændurnir á Stiklastöðum, Sámsstöðum og Stöng, ef metra-þykkt lag af vikri yfir öllum högum og túnum var ekki nóg til að fæla þá á brott frá þessari byggð.

Haraldur Sigurðsson, 29.9.2014 kl. 21:40

9 Smámynd: FORNLEIFUR

Lagið  var ekki metra þykkt alls staðar í dalnum. Á Stöng er lagið mjög misjafnt og náttúrlega mikið blandað. En greinilega hefur það ekki verið mikið vandamál uppi á hólnum. Menn grófu það sums staðar niður í holur. H1 hefur blásið mikið til í skafla a ákveðnum stöðum í dalnum og oft þar sem gróður hefur haldist; Sumir skaflanna hafa orðið til af manna völdu og sums staðar blandast H3.  Isopach mælingar og áætlanir Sigurðar í Heklueldum er ekki rétt fyrir sjálfan dalinn.  Hinsvegar er ljóst að einhverjir bæjanna fóru í eyði eftir gosið. En með breyttum búskapaháttu tórði fólk á Stöng og nokkrum öðrum bæjum í Þjórsárdal fram yfir 1200.

Fyrir nokkrum árum hafa jarðfræðingurinn Andy Dugmore og Orri Vésteinsson komist að sömu niðurstöðu og ég, og reyndu meira að segja að taka heiðurinn fyrir "umbreytinguna" á tímasetningu eyðingarinnar.  Samt er víst, að enn er okkur ekki trúað.

FORNLEIFUR, 29.9.2014 kl. 21:58

10 identicon

 Svo Tambora hafði greinilega áhrif hér líka.

Annál frá 1800

http://www.vedur.is/hafis/frodleikur/nr/326

 1817. Mikið ísaár. Þá rak hafís að Norðurlandi í miðjum janúarmánuði, og hjeldust hafþök fram eftir öllu vori, svo kaupskip komust ekki á Akureyri fyrr en undir miðjan júlímánuð og var þá enn töluverður ís á hrakningi. {Sleppt hér allítarlegri lýsingu á hafís á Ólafsfirði og Eyjafirði.} Þann vetur var einnig mikill ís fyrir austan og vestan, svo yfir Ísafjarðardjúp var farið með hesta fram eftir vori og eins sumstaðar um firði á Austur- og Norðurlandi. Hafíshroða rak þá að austan út fyrir Eyjafjöll og Vestmannaeyjar. Hvali rak víða á Norðurlandi og í Aðalvík kom á ísnum grúi vöðuselskópa og var hver bátur fyltur eftir annan. Fyrir Austurlandi var hafísinn á hrakningi frá nýári til bænadags.

Áhugasamur (IP-tala skráð) 29.9.2014 kl. 22:07

11 identicon

Nú er talað um að "strókfall" (pyroclastic flow) hafi átt sér stað í Heklugosinu árið 2000. Geta menn samt sagt með einhverri vissu að slíkt hafi ekki gerst í stórgosum eins og þau sem settu af sér h5,h4 og h3 öskulagið?

Einhversstaðar sá ég að mikið vikurgos hefði stíflað Þjósá svo húnn rann yfir í Hvítá ofarlega á Skeiðum og skildi eftir sig sand meðfram Stóru-Laxá og bæjarhóla t.d. í Vorsabæ. Þessi sandur er ofan á Þjórsárhrauninu svo þetta hefur gerst eftir að það rann. Veistu eitthvað um þennan atburð og mögulega flóðahættu í stórgosi?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 29.9.2014 kl. 22:50

12 identicon

Kærar þakkir Haraldur fyrir tengilinn á myndina.

Stórfróðleg og vel gerð. Erfitt er samt að ímynda sér þessar hamfarir með 100 rúmkílómetra af kviku, þegar stærstu eldgos á Íslandi síðan ég fæddist eru a.m.k. tveimur stærðargráðum minni.

Það er gaman að finna svona efni á netinu þegar ég bý í Colorado og mínar helstu áhyggur eru að Bárðarbunga fari sjálf af stað áður en ég kemst í heimsókn til Íslands í lok vikunnar.

Aftur kærar þakkir,

/Heimir

Heimir Þór Sverrisson (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 01:18

13 identicon

Takk fyrir bíósýninguna, fróðleg og áhugaverð mynd.

Dagur Bragason (IP-tala skráð) 11.10.2014 kl. 16:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband