Færsluflokkur: Hafið
Ísbjarnastofninn hrynur
19.11.2014 | 06:43
Þeir eru ósköp sætir og feldirnir eru seldir dýrum dómum, en stofn ísbjarna er í mikilli hættu. Þeir eru líka mannætur, ef ekkert betra býðst. Á hafísnum norður af Alaska (Beauforthaf) hefur stofninn dregist saman um 40% á tíu árum. Það eru húnarnir, sem fara verst út, en stofninn af ísbjörnum á þessu svæði er nú aðeins um 900 dýr. Ein ástæðan fyrir hruni stofnsins er talin vera að hafísinn er veikur og þunnur, sem gerir selveiðar bjarnanna erfiðar. Hnattræn hlýnun er að eyða hafísnum og ísbjörninn er nú að verða strandaður á þurru landi, þar sem hann getur lítið veitt og leitar þá til mannabyggða. Sérfræðingarnir telja að stofninn verði horfinn af Beaufort svæðinu um miðja þessa öld með sama áframhaldi. Alls munu vera eftir um 25 þúsund ísbirnir í heiminum, allir umhverfis norðurskautið.
Nú dvelja ísbirnir lengur á landi á öllu norðurskautssvæðinu vegna þess hvað hafísinn er veikur. Þess vegna eru árekstrar við fólk í byggð orðnir algengir og þá eru birnirnir tafarlaust skotnir. Ísbirnir eru sérhæfðir í að veiða sel á hafísnum. Þetta sést vel á annari myndinni, sem er gervihnattarmynd af Hudsonflóa í norður Kanada. Lituðu slóðirnar eru eftir ísbirni, sem eru útbúnir með GPS tækjum. Það kemur vel í ljós að þeir eyða nær öllum sínum tíma á hafísnum. Þar eru þeir kóngar í sínu ríki, veiða vel og hafa algjörlega aðlagað sig að þeirri náttúru og ísnum. Nú eru þeir neyddir til að eyða nokkrum hluta ársins á landi vegna þess að ísinn er veikur. Talið er að 700 til 900 bjarndýr séu veidd á ári hverju á norður slóðum. Þessi veiði er að lang mestu leyti vegna eftirspurnar af bjarnfeldum meðal auðmanna í öðrum löndum. Feldur af ísbirni er nú seldur á um $20 til 30 þúsund, eða um tvær til þrjár milljónir króna. Eftirspurn er einkum mikil í Kína og Rússlandi. Í sumar heimsótti ég þorpið Ittoqqortoormiit í mynni Skoresbysunds á austur Grænlandi, en hér hefur lengi verið ein mesta ísbjarnaveiðstöð Grænlands. Hér hafa verið drepnir milli 50 til 100 birnir á ári. Þeir eru aðallega drepnir í febrúar og mars og svo aftur í byrjun vetrar í september og október. Heimamenn kvarta yfir því að birnir séu ágengnir, en lítið eða ekkert er vitað um fjölda bjarna á þessu svæði.
Hafið | Breytt s.d. kl. 06:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hafísinn í haust
7.9.2014 | 12:34
Fjölmiðlar greina frá því að hafísþekjan á norðurhveli sé að stækka. Fréttin er því miður ekki sett fram í samhengi við sögulegan raunveruleika, heldur einblínir fréttin á eitt ár. Myndin til vinstri er línurit frá gervihnetti NSIDC. Það sýnir flatarmál hafísbreiðunnar á norðurhveli í ágústmánuði ár hvert, i milljónum ferkílómetra. Gögnin ná aftur til ársins 1979, en þá var hafísþekjan um 8,5 milljón ferkílómetrar. Nú er hún komin niður í um 5,5 til 6 milljón ferkílómetra. Hafísbreiðan er yfirleitt í lágmarki í lok ágúst. Það er ljóst að töluverðar sveiflur koma fram ár frá ári, en það er einnig öllum ljóst, að þegar á heildina er litið, þá minnkar hafísbreiðan hratt.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hefur Atlantshaf áhrif á Kyrrahafið?
15.8.2014 | 17:20
Síðan á aldamótum árið 2000 hafa óvenu sterkir vindar blásið frá austri til vesturs yfir Kyrrahafið eftir miðbaug (staðvindur eða trade winds). Um árið 2010 var vindstyrkurinn orðinn hærri en nokkru sinni fyrr. Áhrifin voru fyrst og fremst þau að það hlóðst upp mikið magn af heitum sjó umhverfis Filipseyjar, Ástralíu og Indónesíu, eins og Matthew England og félagar hafa sýnt. Þegar sjórinn hitnaði, þá óx uppgufun, selta hafsins hækkaði. Saltur sjórinn var þyngri og sökk í djúpið. Með því barst mikill hiti niður í dýpri lög hafsins. Þessir vindar eru hluti af hringrásarkerfi loftsins, sem nefnist Walker cell, eins og myndin sýnir. Hún er þversnið af Kyrrahafinu, frá vestri til austurs. Vindarnir valda ýmsum öðrum breytingum, svo sem mikilli úrkomu í vestri, til dæmis í Indónesíu, en miklum þurrkum í austri, til dæmis í Kalíforníu. En ef til vill er mikilvægustu áhrifin þau, að mikill hiti flyst nú niður í hafdjúpið og tiltölulega kaldur sjór kemur upp á yfirborðið í austur hluta Kyrrahafs (dökkblár djúpsjór á myndinni). Það kann að skýra hversvegna hafið hitnar nú yfirleitt hraðar en lofthúpur jarðar. Önnur mynd, eftir Matthew England og félaga, sýnir breytingar á styrk staðvinds Kyrrahafsins frá um 1910 til um 2010 og kemur greinilega fram hvað hann hefur breyst síðustu 15 árin. Takið eftir að vegna þess hvernig gögnin eru set upp, þá er frávikið frá langtíma meðaltalinu síðustu 15 árin reyndar sterkari vindur, þótt línan stefni niður á við á myndinni.
En hvers vegna er staðvindurinn yfir Kyrrahafinu svona sterkur og hvað veldur sveiflum hans? Loftslagsfræðingar og haffræðingar stinga nú uppá, að hlýnun Atlantshafsins undanfarna áratugi hafi orsakað fjöldan allan af breytingum, einnig í Kyrrahafi. Þar á meðal breytingar staðvinda Kyrrahafs, breytingar á sjávarmáli og fleira. Grein þeirra Shayne McGregor og félaga kom út nýlega í Nature, einu virtasta vísindariti jarðar og hefur valdið miklum deilum. Þeir telja að orsökina sé að finna í Atlantshafinu. Þeir benda á að Atlantshafið hefur hitnað mikið í meir en áratug og það hefur valdið lágþrýstingi og uppstreymi í lofthjúpnum yfir. Þetta loft berst síðan til vesturs, yfir austur hluta Kyrrahafsins, þar sem það sígur niður og veldur háþrýstingskerfi. Þessi tengsl Atlantshafs of Kyrrahafs styrkja þannig staðvinda Kyrrahafsins að þeirra sögn. Þessi hugmynd er byggð á miklum gögnum og nokkuð góðum rökum, en hún þýkir mjög róttæk. Getur það verið að loftslag í Atlantshafi geti haft svo mikil áhrif í Kyrrahafi? Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.
Þegar staðvindurinn hægir á sér, þá mun fyrirbærið sem kallað er El Nino myndast um miðbaug Kyrrahafs. Það er þegar hiti yfirborðssjávar í Kyrrahafinu hækkar verulega. El Nino hefur ótrúlega víðtæk áhrif á fiskveiðar, landbúnað, veðurfar í Kalíforníu og víðar.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Íslenska landgrunnið kortlagt af Olex
11.8.2014 | 00:08
Togarar eru útbúnir mjög góðum tækjum, sem ákvarða staðsetningu og botnlag hafsins. Skipstjórar varðveita slík gögn, sem eru að sjálfsögðu mikilvæg til að kanna miðin og finna þau aftur síðar. Undanfarin ár hafa margir skipstjórar haft það fyrir reglu, að senda inn slík gögn til norksa fyrirtækisins Olex. Þar er gögnum safnað til að gera nákvæm kort af hafsbotninum. Kortin hafa staðsetningu, sem er betri en tíu metrar og hæðartölur, sem eru á milli 0,1 til 1 meter. Þannig hefur nú verið safnað gögnum af nær öllu (80%) íslenska landgrunninu. Árið 2006 kom út ritgerð eftir Matteo Spagnolo og Chris Clark um íslenska landgrunnið. Hana má finna hér: http://www.journalofmaps.com/article_depository/europe/spagnolo_glaciallandforms_1222426647.pdf
Þeir túlka Olex kortið á þessu svæði og sýna fram á að þar ríkja áhrif jökla ísaldarinnar í myndun botnsins, ásamt myndunum sem tengjast eldvirkni og skorpuhreyfingum hafsbotnsins á gosbeltum neðansjávar. Á ísöld þakti jökulskjöldur allt landgrunnið og jökullinn var botnfastur. Sönnun þess eru jökulgarðar eða endamórenur, sem finnast úti á brún landgrunnsins, til dæmis jökulgarðurinn á Látragrunni út af Breiðafirði, sem ég hef áður fjallað um hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1400703/
Á þessum Olex kortum kemur margt fróðlegt fram, til dæmis Djúpáll út af Ísafjarðardjúpi. Hann er U-laga í þversniði og um 150 m dýpri en hafsbotninn umhverfis. Í mynni Djúpáls hefur hlaðist upp mikil keila af seti, þar sem állinn fer fram af landgrunnisbrúninni. Einnig er myndin af Jökuldjúpi í mynni Faxaflóa merkileg og fróðlegt að sjá hvað landslag á þessu svæði er mikilfenglegt undir hafinu. Myndin sem fylgir hér með er af Kolluál, norðvestur af Snæfellsnesi. Það er áberandi hvað botninn er skafinn hér og hvað jarðlögin koma greinilega fram sem línur með norðaustur stefnu. Þetta eru að öllum líkindum forn blágrýtislög, eins og bergið í grunni Snæfellsness og eyjum Breiðafjarðar. Vestast á myndinni, um 20 km norðvestur af Jökli, er svæði með allt aðra og óreglulega áferð botnsins. Er það einfaldlega framhald blágrýtismyndunarinnar eða er það ef til vill ungt gosberg, tengt gosbelti Snæfellsness? Ef til vill finna sjómenn hraun botn hér? Rauða línan á kortinu sýnir staðsetningu þversniðs, sem sýnt er efst á myndinni. Takið eftir hvað botninn er úfinn. Alun Hubbard og félagar (Quaternary Science Reviews 2006) hafa notfært sér upplýsingar um útbreiðslu jökulsins á hafsbotni þegar ísöldin náði hámarki og gert líkan af útbreiðslu jökulskjöldsins yfir og umhverfis Ísland. Það er sýnt á seinni myndinni, í líkani sem á við Íslandssvæðið fyrir um 21 þúsund árum. Á myndinni eru sýnd ytri mörk jökulsins á landgrunninu og einnig útlínur Íslands við hæð, sem samsvarar sjávarmáli þá, samkvæmt líkani þeirra. Það gefur því góða mynd af því hvað jarðskorpan seig mikið undir fargi íssins. Hvítir blettir á Tröllaskaga og Flateyjarskaga sýna svæði eða jökulsker, sem hugsanlega stóðu uppúr jöklinum.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hafið umhverfis Bretlandseyjar er orðið volgt
9.8.2014 | 06:16
Bretar hafa til þessa ekki gert mikið af því að synda í sjónum umhverfis Bretlandseyjar. Í staðinn hafa þeir helst sótt í Miðjarðarhafið. En nú kann þetta að vera að breytast: hafið umhverfis Bretlandseyjar er að hlýna. Línuritið sýnir árlegt meðaltal fyrir hita í yfirborði hafsins umhverfis Bretlandseyjar, frá 1870 til 2007. Það er gífurlegt magn af gögnum, sem felst í þessu línuriti, sem nær yfir stórt svæði og allar árstíðir. Meðaltalið fyrir árin frá 1961 til 1990 var 11,09 oC. Rauða línan er meðaltal sem eyðir litlum sveiflum og sýnir feril hlýnunarinnar vel. Síðasti áratugurinn sker sig alveg úr. Hitinn á sjónum hefur hækkað um 1,6 gráður síðan 1980. Eins og ég hef oft bent á, þá er hiti hafsins mun mikilvægari en lofthitinn. Aðeins efstu 260 cm af heimshöfunum innihalda jafn mikinn hita og allur lofthjúpurinn! Þessi mikla hlýnun umhverfis Bretland er auðvitað tengd því að þeir fá stóran skerf af Golfstraumnum. En hlýnunin er einnig vegna þess hvað grunnt er á þessum slóðum, einkum í Norðursjó. Hlýnun hafsins hefur einnig mikil áhrif á fiskstofna umhverfis Bretlandseyjar. Nú er rætt um, að fish-and-chips fari út af matseðlinum hjá Bretum. Alla vega verður fiskurinn í réttinum ekki þorskur, heldur einhver ömmur tegund, sem þolir betur heitari sjó. Þorskurinn þolir nokkuð vel að svamla í heitari sjó, en hann vill ekki hrygna, nema sjávarhitinn sé á bilinu 1 til 8 oC samkvæmt mælingum í Norðursjó. Þess vegna færir hann sig norðar, til okkar og áfram til Grænlands. Kenneth F. Drinkwater og fleiri fiskifræðingar hafa kannað áhrif hlýnunar á fiskstofnana í Norður Atlantshafi. Síðastliðin 35 ár hafa 15 af 36 tegundum í Norðursjó flutt sig norðar, og að meðaltali hafa þær flutt sig 300 km norðar á þessum tíma. Þorskur finnst varla umhverfis Bretland en í hans stað eru komnar nýjar tegundir eins og ljóti fiskurinn sem nefnist John Dory (pétursfiskur). Hvað vitum við hér um áhrif hnattrænnar hlýnunar á fiskstofna og reyndar allt umhverfi okkar á Íslandi? Ég held að málið hafi ekki verið mikið rannsakað. Árið 2006 starfaði ég í vinnuhóp á vegum forsætisráðherra, sem fjallaði um áhrif loftslagsbreytinga. Höfuð niðurstaða okkar var sú, að rannsóknir á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra væri langmikilvægasta verkefni íslenskra vísinda í dag og náinni framtíð. Skýrslunni var skilað. Síðan gerðist ekki neitt í þessu máli og hið opinbera virðist ekki hafa neinar áhyggjur né neinn áhuga á rannsóknum á þessu mikilvæga máli.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Særými vex á Íshafinu og öldur birtast
6.8.2014 | 05:25
Það er nýtt haf að opnast. Hnattræn hlýnun er að svifta hafíshulunni af Íshafinu. Ein afleiðing þess er að nú myndast öldur á Íshafinu, þar sem áður var samfelld breiða af hafís. Ölduhæð er háð vindstyrk og einnig særými, eða fjarlægðinni, sem vindurinn getur blásið yfir hafið. Nú vex særými með ári hverju á norðurslóðum, vegna þess að hafísinn er að hverfa. Hafsvæði, sem áður voru hulin hafís mikinn hluta ársins, eru nú opið haf og vindurinn nær að koma af stað miklum öldugangi. Allt í einu er særými orðið eitt til tvö þúsund km og öldur rótast upp, sjólag versnar þar sem áður var kyrr sjór. Myndin sýnir til dæmis áhrif storms, sem gekk yfir norðurslóðir árið 2012. Rauðu og gulu svæðin sýna háar öldur, allt að 5 metrar. Hinar nýju siglingaleiðir í norðri, þar á meðal norðan Íslands, geta verið erfiðar af þeim sökum, einkum á ágúst og september, þegar hafísinn er minnstur og særými er mest.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Olíudraumurinn við Grænland fjarlægist meir og meir
4.8.2014 | 04:35
Skoska olíufélagið Cairn Energy er fyrsta og eina félagið, sem hefur gert alvarlega olíuleit umhverfis Grænland. Eftir miklar mælingar á hafsbotninum í nokkur ár, þá tóku þeir það afdrifaríka og kostnaðarsama skref að hefja djúpborun árið 2010 og héldu áfram 2011. Við borun notuðu þeir risaborpallinn Leiv Eiriksson, sem sést á myndinni hér. Kostnaðurinn er mikill, þegar slík stór tæki eru tekin á leigu. Áður en varir var kostnaður við borun kominn upp í $1,9 milljarða. En engin olía fannst í 5 holum, sem boraðar voru í Baffinflóa, vestan Grænlands. Nú hefur Cairn tilkynnt að þeir séu hættir í bili. Nú segjast þeir vera of uppteknir annarstaðar í heiminum. Sumir halda að Cairn, eins og mörg önnur félög með áhuga á Grænlandi, séu að bíða og sjá hvað setur með þróun stjórnmála á Grænlandi. Stjórnarandstaðan hefur lýst vantrausti á stjórnina og sumir erlendir fjárfestar telja að nú sé ekki gott ástand innanlands fyrir miklar erlendar fjárfestingar. En hvað sem stjórnmálunum líður, þá er greinilegt að olíuleit við Grænland hefur ekki heppnast. Hugsanlega er Grænlandssvæðið, eins og Drekasvæðið, dottið út úr olíuglugganum, eins og ég hef áður bloggað um hér:
http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1286368/
og einnig hér:
http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1285658/
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hverjum eigum við að trúa?
3.8.2014 | 05:11
Í dag er þessi fyrirsögn í frétt hjá RUV: Útbreiðsla makríls við Ísland lítið breyst. Útbreiðsla makríls við Ísland virðist svipuð og síðustu ár að sögn Sveins Sveinbjörnssonar leiðangursstjóra á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni.
Í sama fjölmiðli er þessi frétt: Miklar breytingar á lífríki. Lífríkið í Norður-Atlantshafi hefur tekið miklum breytingum vegna hækkunar sjávarhita. Nýjar rannsóknir norskra sjávarlíffræðinga í sumar sýna að síld og markríll færa sig norður í höf. Norskir vísindamenn hafa nú í fyrsta sinn kortlagt mörk útbreiðslu makríls til norðurs. Í ljós kom að makríllinn færir sig æ lengra til norðurs meðan norski síldarsofninn hefur nú þrýstst út á ytri kant markílsvæðisins í norðvestri. Makrílnum heldur áfram að fjölga en ástand síldarstofnsins heldur áfram að versna, lítið finnst af fullorðinni síld. Við hækkandi hitastig í sjónum flytur átan sig sem makríll og síld lifa á. Kenningar eru um að þegar makrílnum fjölgi éti hann meira af síldarseiðum og því fækki síldinni. Búist er við hækkun hitastigs sjávar síðsumars og þá er búist við að makríllin fari enn norðar, allt til Svalbarða. Allt bendi til að hlýnun hafsins haldi áfram næstu árin og makríll og ýmsar aðrar fisktegundir fari þá enn norðar.
Hvers vegna sér Hafró engar breytingar, en norðmenn leggja höfuðáherslu á gögn sem sýna miklar breytingar? Eru þeir kannski ekki á sömu blaðsíðunni?
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hlýnun heldur áfram
1.8.2014 | 06:47
Þegar ég er að kenna, þá reyni ég að forðast að endurtaka efni, jafnvel þótt það sé mjög mikilvægt. Mér finnst það sýna lítilsvirðingu gagnvart nemendum, ef maður er að endurtaka. En auðvitað er það oft gert. Ég minnist til dæmis á Ríkisútvarpið. Þeir kalla endurtekið efni Útvarpsperlur og þeim fer nú mjög fjölgandi. Hér fyrir neðan fylgja nokkrar perlur varðandi hlýnun. Nú þarf ég því miður að endurtaka atriði sem ég hef fjallað um varðandi hnattræna hlýnun, reyndar nokkrum sinnum áður. Mér virðist að lesendur hafi alls ekki tekið eftir þessu. Ég sé að allmargir lesendur telja að hlýnun á jörðu hafi stöðvast fyrir um tíu til fimmtán árum. Það er rétt, ef þú velur þér viss gögn, eða notar svokallaða cherry picking aðferð, en lítur ekki á heildina. Heildin er meðalhiti í lofthjúpnum á yfirborði jarðar OG meðalhiti í yfirborði og efri hluta heimshafanna. Reyndar eru heimshöfin miklu mikilvægari mælikvarði á hitafar en lofthjúpurinn. Skoðið til dæmis efni, sem ég setti inn á bloggið hinn 1. júlí 2014: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1404256/
Þar kemur fram, að meðalhiti, bæði haf og lofthjúpur, hefur verið stígandi ár hvert. Takið einnig til dæmis færslu mína frá 25. júni 2014: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1402441/ Þar kemur fram að hafið hefur verið að hitna stöðugt, og hlýnun hafsins nær niður á meir en 400 m dýpi. Takið færslu, sem ég gerði 23. janúar 2013 einnig um hlýnun hafsins: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1278537/
En ef til vill er samt athyglisverðast að skoða færslu mína frá 29. nóvember 2012 http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1270732/
Þar bendi ég á þá einföldu staðreynd, að aðeins efstu 260 cm af heimshöfunum innihalda jafn mikinn hita og allur lofthjúpurinn! Sjórinn er nær þúsund sinnum eðlisþyngri en loftið (1030 kg/m3 á móti 1.20 kg/m3 við 20ºC). Eitt kíló af vatni getur innihaldið 4,18 sinnum meiri hita en sambærilegur massi af lofti. Og enn frekar: sama rúmmál af vatni getur innihaldi 3558 sinnum meiri hita en jafnt rúmmál af lofti. Þessar einföldu staðreyndir kenna okkur, að hlýnun hafsins er mörgum sinnum mikilvægari hvað varðar hnattræna hlýnun en hitafar lofthjúpsins. Við vitum ekki hvers vegna hafið hlýnar nú hraðar en lofthjúpurinn, en við vitum að þegar á heildina er litið, þá heldur hnattræn hlýnun áfram.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Olíuleit í Atlantshafi hefst aftur
20.7.2014 | 07:35
Á föstudag tilkynnti Bandaríkjastjórn að hún mun nú á ný veita leyfi til olíuleitar í Atlantshafi. Reyndar verður leyfi aðeins veitt til jarðeðlisfræðilegra rannsókna á hafsbotninum, en ekki borunnar fyrst um sinn. Þessar rannsóknir fela í sér olíuleit, þar sem tíðar sprengingar eru gerðar í hafinu. Við það kastast hljóðbylgjan niður í hafsbotninn og sendir til baka upplýsingar um gerð og lögun setlaga undir hafsbotninum. Fysta mynd sýnir slíkar mælingar, sem eru gerðar frá skipshlið. Höggbylgjurnar gegnumlýsa hafsbotninn og gera sneiðmynd líkt og þeim sem eru gerðar á sjúkrahúsum. Dæmi um slíka sneiðmynd af hafsbotnssetinu er á annari mynd, en með þessari aðferð er hægt að kanna setið niður á nokkra kílómetra dýpi. Slíkar mælingar eru nauðsynlegar til að fara á næsta stig við olíuleit: borun. Sprengingar af þessu tagi hafa verið bannaðar í nokkur ár vegna þess að þær eru skaðlegar lífríki í hafinu, einkum hvölum. Það er fullsannað að spendýr eins og hvalir þola ekki höggið frá sprengingunum, sem gerast á nokkra sekúndna fresti. Höggbylgjan getur sprengt hljóðhimnu í eyrum spendýra og valdið öðrum meinum. En Obama hefur brotið hér blað og fer ámóti umhverfisverndarsinnum í Bandaríkjunum með þessari ákvörðun. Svæðin eru undan austur strönd Bandaríkjanna, í Mexíkóflóa og í hafinu norðan Alaska, eins og myndin sýnir. Það má svo búast við að leyfi til borana á botni Atlantshafsins verði síðan veitt í kringum 2020. Á þessu svæði er mjög þykk og gömul setmyndun, sem nær alla leið aftur til tímabils fyrir um 180 milljón árum síðan. Þá byrjaði Norður Ameríka að klofna frá vestur Afríku og Evrópu og Atlantshaf byrjar að myndast.
Hafið | Breytt s.d. kl. 07:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)