Færsluflokkur: Hafið
Stærsti stormurinn
24.10.2015 | 01:42
Fellibylurinn Patricia er rétt í þessu að skella á vesturströnd Mexikó. Hann er sá stærsti sem mælst hefur, með allt að 300 km á klst. (allt að 90 m á sek.) vind og einnig lægsta loftþrýsting sem mælst hefur. Fylgist með storminum á þessari frábæru vefsíðu, sem sýnir vindinn í rauntíma:
http://earth.nullschool.net/#current/wind/surface/level/orthographic=-104.69,18.92,3000
Vísindamenn eru agndofa yfir þessum ósköpum. Skýringin fyrir hinum mikla styrk er tengd því hvað Kyrrahafið er heitt í dag. Nú er í gangi El Nino, en orkan í fellibylnum kemur úr hita hafsins. Oftast rótar fellibylurinn upp heita yfirborðssjónum og lendir í kaldari sjó undir. Þá dettur krafturinn niður. En nú er dýpri sjórinn einnig mjög heitur, vegna El Nino. Að minnsta kosti 8 milljón manns eru á hættusvæðinu og tjón verður gífurlegt í Mexíkó.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kólnar Norður Atlantshafið?
7.10.2015 | 15:13
Árið 1987 birti Bandaríski vísindamaðurinn Wally Broecker fræga grein í ritinu Nature, sem ber nafnið Unpleasant surprises in the greenhouse? Hann benti á að ein afleiðing af hnattrænni hlýnun gæti verið staðbundin kólnun á Norður Atlantshafi vegna veikari Golfstraums. Síðan greinin birtist fyrir 28 árum hafa stöðugt komið fram meiri upplýsingar sem styrkja kenningu Broeckers. Við félagar fjölluðum um þetta í sambandi við umhverfi Íslands í ítarlegri skýrslu til forsætisráðherrra árið 2006 (ESSI) og sýndum fram á þá að miklar breytingar eru að gerast á hitafari jafnvel djúpsjávar norðan og vestan Íslands. Einnig hef ég fjallað um breytingar í hafinu hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1283642/
Kenningin er sú, að hnattræn hlýnun geti hægt á Golfstraumnum og valdið staðbun dinni kólnun hér í norðri. Margir telja að hringrás hafstraumanna sé þegar byrjuð. Í þessu smabandi við ég benda á mynd, sem fylgir hér með. Stefan Rahmsdorf og félagar hafa nú í ár tekið saman öll gögn sem varða hitafar á yfirborði sjávar í Norður Atlantshafi, eins og myndin sýnir. Þetta er fyrir tímabilið frá 1900 til 2013. Takið eftir bláa blettinum í hafinu rétt sunnan Íslands og Grænlands. Hann sýnir kólnun á þessu svæði sem nemur um háfri til einni gráðu á öld. Þetta svæði er mjög vel kannað og mælingar traustar, ólíkt og blái bletturinn í miðri Afríku, þar sem gögn vantar. Blái bletturinn kemur einnig vel fram í nýjum gögnum sem NOAA hefur tekið saman fyrir tímabilið desember 2014 til febrúar 2015, sýnt á annari myndinni. Þar kemur í ljós að kólnunin á þessu svæði er einstök á heimsmælikvarða. Blái bletturinn eða kólnunin í Norður Atlantshafi er einmitt það sem líkön hafa spáð fyrir um, þegar Golfstraumurinn hægir á sér. Sérfræðingar kalla þennan straum AMOC (Atlantic meridional overturning circulation) eða hringrás Atlantshafsins. Sérfræðingar hafa spáð að það muni draga úr hringrásinni á milli 12 til 54% fyrir árið 2100. Rahmsdorf og félagar hafa notað ýmis gögn (ískjarna, trjáhringi ofl.) til að sýna hvernig hiti í Norður Atlantshafi sunnan Grænlands og Íslands hefur verið undanfarin eitt þúsund ár, eins og sýnt er á mynd númer þrjú. Myndin sýnir mismuninn á hita í bláa blettinum, og hita á yfirborði alls Norður Atlantshafs. Kónunin í bláa blettinum sunnan Grænlands of Íslands síðan um 1975 kemur hér vel fram og að hún fer vaxandi. Hverjar verða afleiðingarnar af þessum breytingum fyrir Ísland, miðin okkar, veðurfar? Enginn veit, og lítið eða ekkert fjallað um málið hér á landi.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Flóttamenn eða ferðamenn?
3.4.2015 | 23:06
Fréttir berast um að varðskipið Týr hafi bjargað 320 manns á báti í Miðjarðarhafi og komu þeim í land á Ítalíu. Skyldu Ítalir nú fagna þessu framtaki íslensku Landhelgisgæslunnar? Ég leyfi mér að efast um það. Það var fyrir rúmu ári að Ítalía hætti að líta á flóttamenn sem ólöglega innflytjendur og byrjaði að bjarga fjölda manna sem lögðu á hafið á litlum bátum frá norður strönd Afríku. Fréttin um að Ítalir tækju flóttafólki opnum örmum barst eins og eldur í sinu um alla Norður Afríku og öllum skekktum er nú ýtt á flot í átt til fyrirheitna landsins. Ítalía er nú orðin gáttin inn í Evrópu fyrir ólöglega innflytjendur. Það er talið að um 200 þúsund manns hafi komið frá Afríku árið 2014 til Ítalíu á þennan hátt, en þeir greiða frá eitt til tvö þúsund evrur til smyglara eða scafisti í Líbíu fyrir ferðina. Ítalska ríkið heldur þeim uppi fyrst í stað þegar þeir koma til fyrirheitna landsins, og er talið að það kosti landið um 43 evrur á hvern mann á dag, eða alls meir en fimm milljón evrur á dag! Þótt þeir hefji ferðina oftast frá Líbíu, þá er þetta fólk frá ýmsum löndum utan Afríku: Afganistan, Sýrlandi, Palestínu og Írak. Þegar til Ítalíu er komið er auðvelt að koma sér áfram í lest eftir stutta dvöl, til dæmis til Frakklands, því Schengen kerfið gerir öllum kleift að ferðast án vegabréfs, eftir að þeir eru komnir einhvers staðar inn í Evrópu. Í einfeldni okkar lítum við flest á svokallaða flóttamenn sem fólk á flótta undan pólitísku ofbeldi. Ég held að það sé rangt. Fólkið er fyrst og fremst í leit að tækifærum, atvinnu og bættum efnahag. Sumir eru einnig einfaldlega á flótta undan yfirvaldinu í heimalandinu vegna glæpastarfssemi. Hvenær verður þolinmæði ítalskra skattgreiðanda á þrotum? Þangað til hefur varðskipið Týr vinnu við þessa björgun.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sléttbakurinn verður elsta spendýr jarðar: um 200 ára
8.1.2015 | 08:40
Elsta dýr jarðar var kúfskel, sem fannst við Grímsey, undan norður strönd Íslands árið 2007. Hún var 507 ára gömul, þegar hún var drepinn í þágu vísindanna. Ég hef bloggað um hana hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1280069/ En elsta spendýr jarðar er einnig að finna í grennd við Ísland og það er sléttbakurinn., en hann getur orðið meir en 200 ára gamall og vigtað um 100 tonn. Honum fækkar nú óðum vegna ofveiði. Í dag telja vísindamenn að í Norður-Atlantshafi séu aðeins um 700 dýr eftir af þessari hvalategund, en stofnarnir sem lifa í Norður-Kyrrahafi telja allt að 8000 dýr. Michael Keane og félagar birtu nú í vikunni merka grein um erfðamengi sléttbaksins í vísindaritinu Cell. Þar koma margar spurningar fram, meðal annars: hvernig getur hann náð svo háum aldri? Hverjir eru helstu ættingar hans? Hvernig hefur hann forðast sjúkdóma eins og krabbamein öll þessi ár? Annar helsti draumur manna er að lifa lengur (hinn er að sjálfsöðu að verða ríkur ) og þess vegna er mikill áhugi á að rannsaka sléttbakinn frekar. Myndin sýnir hvar sléttbakurinn og hvalirnir yfirleitt sitja í keðju tegundanna og hverjir eru næstu ættingjar hans. En hvalir þróuðust frá landdýrum fyrir um 50 milljón árum síðan. Hann virðist vera skyldari nautgripum og hrossum en öðrum tegundum, hvað snertir erfðamengi. Það er merkilegt að stórir hvalir, sem hafa meir en þúsund sinnum fleiri frumur í líkamanum en menn, hafa miklu minni líkur á að sýkjast af til dæmis krabbameini. Stóru hvalirnir virðast hafa einhvern náttúrulegan eiginleika, sem heldur krabbameini í skefjum eða kemur í veg fyrir það. Nú geta sérfræðingarnir skoðað þetta nýbirta erfðamengi sléttbaksins til að reyna að finna þá þætti, sem veita hvalnum lengra og heilbrigðara líf.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Borpallurinn Kulluk á norðurslóðum
7.1.2015 | 06:18
Sumir láta sig dreyma um að finna olíu á norðurslóðum, en aðrir demba sér út í verkefnið og berjast við náttúruöflin. Það er dýrt spaug, eins og olíufélagið Shell hefur komist að nýlega. Árið 2005 keypti Shell olíuborpallinn Kulluk, sem var frekar óvenjulegur í laginu. Hann rís tæpa 80 metra yfir sjó, og er hringlaga, til að standast betur sjó og hafís. Stálið umhverfis borpallinn og í bolnum er um 4 cm á þykkt. Hann getur borað meir en 6 km niður í hafsbotninn. Shell vantaði olíu, sem þá var á háu verði, um $70 tunnan og fór hækkandi. Í dag er tunnan komin niður fyrir $50. Þeir tóku þá ákvörðun að byrja að leita á norðurslóðum, þar sem engin samkeppni var fyrir og Kulluk var hannaður sérstaklega fyrir þær aðstæður. Shell keypti því réttindi til olíuleitar fyrir $73 milljónir í Beuforthafi, fyrir norðan Alaska. Svo settu þeir $300 milljónir í að gera upp Kulluk borpallinn. Svo fóru $400 milljónir í að smíða hjálm til að vernda borpallinn frekar. Svo var hann útbúinn 12 akkerum til að verjast sjó og ís. Svo sigldu þeir með Kulluk norður fyrir Alaska í júní 2012. Margvísleg vandamál urðu á vegi þeirra, hjálmurinn eyðilagðist í hafsjó og áður en varir var komið haust og allt fullt af ís. Kulluk var nú kominn nærri landamærum Alaska og Kanada og hér byrjuðu þeir að bora í Beuforthafi. Kulluk byrjaði að bora í október, en hætti strax aftur vegna veðurs og var dreginn til hafnar í Alaska. Shell vildi koma Kulluk sem fyrst aftur til Seattle til viðgerða, og í desember var lagt af stað. Hér getur oft verið slæmt í sjóinn á þessum árstíma, með ölduhæð 5 til 10 metra. Stundum fór togkrafturinn á vírnum milli dráttarbátsins og Kulluk upp í 228 tonn þegar mestu öldurnar gengu yfir. Hinn 27. desember slitnaði toglínan og Kulluk rak stjórnlaust. Þeir komu annari línu á milli, en skömmu síðar byrjuðu fjórar vélar dráttarbátsins að bila, hver á fætur annari. Það var kominn sjór í díselolíuna. Tveim dögum síðar tókst þyrlum að ná allri 18 manna áhöfn á brott af Kulluk. Nú voru tveir dráttarbátar byrjaðir að draga Kulluk, en fljótlega slitnar önnur línan og hinn dráttarbáturinn hefur ekki undan í 50 hnúta vindi og yfir tíu metra ölduhæð. Þeir berast nær og nær landi og skáru loks á línuna. Kulluk rak upp í fjöru. Tveimur mánuðum síðar tilkynnti Shell að þeir gerðu nú hlé á olíuleit sinni fyrir norðan Alaska. Flakið af Kulluk var dregið til Kína og selt í brotajárn. Nokkrir af forstjórum Shell sögðu af sér, aðrir voru reknir. Enn dreymir þá um að komast aftur á norðurslóðir . Til allrar hamingju gat Kulluk ekkert borað í þessari tilraun. Þið getir rétt ímyndað ykkur olíumengunina og öll vandræðin við að reyna að ráða við virka olíulind undir þessum aðstæðum í norðurhöfum.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Súrnun hafsins
5.1.2015 | 08:05
Sjórinn er saltur, en hann hefur einnig annan mikilvægan efnaeiginleika: sýrustigið. Nú er það að breytast, í samspili við hnattræna hlýnun. Hlýnun í lofti og súrnun hafsins eru afleiðingar af vaxandi útblæstri mannkyns af CO2. Fyrir iðnbyltinguna var CO2 í andrúmslofti um 280 partar úr milljón (ppm), en með vaxandi bruna af kolum, olíu og gasi hefur það aukist í nær 400 ppm og fer vaxandi. Til allrar hamingju fer um einn fjórði af þessu koltvíoxíði niður í hafið og leysist þar upp en það hefur þær afleiðingar að hafið er að byrja að súrna. Súrnun er mæld í einingunni pH. Nú er pH heimshafanna 0,1 pH stigi lægri en var fyrir iðnbyltinguna. En pH skalinn er log skali og er því 0,1 breyting jafnt of 30 prósent hækkun á sýrustigi. Fyrsta mynd sýnir vaxandi CO2 í lofti jarðar (brún kúrva), vaxandi CO2 í hafinu (blá) og vaxandi sýrustig í hafinu (lækkandi pH, græn kúrva). Hvaða máli skiftir það fyrir okkur og annað líf á jörðu? Jú, við hækkandi sýrustig leysast til dæmis upp skeljar, kórall, kalkþörungar og önnur efni lífvera, sem eru gerðar úr kalki (CaCO3). Skelin er fyrst og fremst vörn og um leið og hún þynnist er aumingja skelfiskurinn varnarlaus fyrir kröbbum, steinbítum og öðrum gráðugum tegundum. Hækkandi sýrustig veldur því að kórallar geta ekki þrifist. Kóralrif eru gerð úr kalki og er þegar farið að bera á því að kóralrif til dæmis í Karíbahafi eru farin að láta á sjá. En vaxandi sýrustig hafsins hefur ekki einungis áhrif á kalk og skeljar, heldur á allt líf í sjónum. Fyrir lífríkið í hafinu er það eins og einhver væri að fikta við efnasamsetningu blóðsins í líkama okkar.
Það sem verst er, að sennilega mun sýrustig halda áfram að hækka. Mynd númer tvö sýnir spár um losun CO2 eða koltvíoxíðs út í andrúmsloftið (efsti partur). Það eru margar spár, en tökum þá verstu, sem er sennilega næst lagi (rauða línan). Miðmyndin sýnir áhrif þess á pH eða sýrustig hafsins. Samkvæmt þeirri spá væeri pH heimshafanna komið niður í 7,75 um 2100. Neðsta myndin sýnir hvaða áhrif þetta hefur á mettun (saturation) steindarinnar aragonit, sem er aðal kalktegundin í skeljum og öðrum kalklífverum. Samkvæmt því er hafið mettað, þ.e. kalk getur myndast, þar til um 2060. Eftir þann tíma myndast aragonít eða kalk ekki í hafinu og skeldýrin eru orðin skeljalaus. Eins og alltaf, þá er hér um spá að ræða, en hún byggist einfaldlega á því að gera ráð fyrir að við höldum uppi sama líferni, og dælum stöðugt út koltvíoxíði út í andrúmssloftið eins og ekkert sé að gerast.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Súðir á Grænlandssiglingu
28.12.2014 | 09:38
Afi minn, Oddur Val, lóðs eða hafnsögumaður, stýrði oft strandferðaskipinu Súðinni inn Breiðafjörð og til hafnar í Stykkishólmi. Ég hafði ekki mikið velt fyrir mér þessu sérstaka nafni súðin, fyrr en ég fór að grúska í Grænlandsferðum á miðöldum. Súð er auðvitað gamalt norrænt nafn fyrir skip, sem sum bestu skáld okkar hafa nýtt sér í kveðskap á nítjándu öldinni eins og til dæmis Einar Benediktsson í siglingavísum:
Siglir dýra súðin mín,
sveipuð himinbjarma,
yfir heimsins höf til þín,
hrundin bjartra arma.
Strandferðaskipið Súðin var seld úr landi árið 1949 og var um tíma við Grænland. Það á einkar vel við, því á miðöldum sigldu mörg skip milli Noregs og Grænlands, sem báru súðarnafnið. Sagt er að Ólafssúðin hafi verið stærsta skip sem til Íslands kom á miðöldum, en hún fórst í hafi á leið til Noregs árið 1361 og með henni Gyrðir Ívarsson Skálholtsbiskup. Enn eitt skip sem bar nafnið Ólafssúðin sigldi til Grænlands árið 1381 og sneri aftur til Noregs 1383. Það var meðal síðustu siglinga sem þekktar eru til Grænlands um þær mundir. Nafnið Ólafssúð kemur einnig fram fyrir eldra herskip. Í sjóorustu í Sogni milli Sverris konungs (1151-1202) og Magnúsar konungs voru það Birkibeinar Sverris konungs sem mönnuðu Ólafssúðina. Það mun hafa verið stærsta skipið í þeirri orustu en þá féll Magnús og um 2000 af hans mönnum. Súðarnafnið var því mjög vinsælt á miðöldum. Maríusúðin sem Sverrir konungur lét smíða í Niðarósi veturinn 1182-1183 var með 33 rúm eða áraraðir á borð.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þorskurinn og hlýnun hafsins
24.12.2014 | 14:23
Aflaverðmæti þorsks á Íslandi er enn á bilinu fra 45 til 50 milljarðar króna á ári og er hann því lang mikilvægasta tegundin, sem dregin er hér úr sjó. Við lítum á það sem sjálfsagðan hlut að þorskurinn skili sér áfram á land sem ein meginstoð í hagkerfi landsins, en svo kann ekki að vera. Er þorskurinn nú í hættu vegna hnattrýnnar hlýnunar hafsins? Ef til vill getum við nú lært af afdrifum þorsksins á fjarlægum miðum langt fyrir vestan okkur, einkum á Georgesbánka og Maine flóa. Eins og kunnugt er, þá var þorskur veiddur í miklu magni af Evrópumönnum undan Nýfundnalandi allt frá sextándu öld og miðin í Maineflóa og á Georgesbánka hafa verið nýtt í stórum stíl af Ameríkönum frá átjándu öldinni. Hér voru tekin um 300 þúsund tonn á ári í mörg ár og árið 1968 náði aflinn hámarki í Maineflóa og Gergesbánka, þegar 800 þúsund tonnum var landað. En uppúr því hrundi stofninn og nú er öll þorskveiði bönnuð í Maineflóa og á Georgesbánka. Fyrsta myndin sýnir þessa risastórtu sveiflu í þorskaflanum á þessum slóðum, samkvæmt Kanadamanninum Ghistain Couinard. Það er enginn vafi að ofveiði átti mikinn þátt í hruni stofnsins, en hefur hlýnun sjávar einnig sett strik í reikninginn hin síðustu ár? Önnur mynd er hiti á botni sjávar í Maineflóa, samkvæmt Andy Pershing. Hér hefur átt sér stað langtíma hlýnun, en takið eftir hinni snöggu hlýnun, sem er að gerast nú síðsta áratuginn. Nú virðist sjór hlýna um fjórðung gráðu á hverju ári! Ef til vill er þetta tímabundin sveifla, en ekki er útilokað að hér sé á ferðinni langtíma hlýnun sjávar á þessu svæði. Það getur verið fyrir sterkum áhrifum Golfstraumsins. Það er botnhitinn sem skiftir öllu máli varðandi þorskinn. Blátt er meðal árshitinn á botninum, en rautt er september-október botnshitinn. Ken Drinkwater hefur haldið því fram, að í sjó með bothita um eða yfir 8 stig dragi verulega úr ástandi og fjölgun þorsksins. Þegar hitinn er kominn í 10 til 12 stig þá sérst þorskur varla. Hlýnandi sjór dregur úr framleiðslu á svifi og öðru næringarefni þorsksins. Hvað er að gerast með hitafar í sjó umhverfis Ísland? Vinir mínir, sem synda nær daglega í sjó, telja að hann sé að hitna. Ég hef engin góð gögn um það, en vil til dæmis benda á sjávarhita í hafinu vestan Látrabjargs, sem Ólafur K. Pálsson ofl. (2012) hafa birt. Það er á þriðju myndinni fyrir 0 til 150 m dýpi (rautt er ágúst en blátt er febrúar). Hlýnun hafsins vestan Látrabjargs er hér greinileg síðan 1995. Hvenær fer hún að hafa áhrif á þorskstofninn? Þetta er Atlantssjór en auðvitað er botnhitinn töluvert lægri en þessar yfirborðsmælingar sýna.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hverjum var það að kenna að þessar fornminjar glatast?
23.12.2014 | 02:26
Í dag lesum við í Fréttablaðinu um að fornminjar hafi glatast við Gufuskála á utanverðu Snæfellsnesi vegna ágangs sjávar. Það er dapurt að frétta af þessum skaða, en er ekki rétt að kanna málið frekar? Uppgröftur á þessu svæði hefur afhjúpað fornminjar, sem síðan voru skildar eftir óvarnar. Ef aldrei hefði verið ráðist í þessar aðgerðir þá hefðu þessar minjar varðveist í jörðu. Jörðin geymir best. Það er algjörlega á ábygð fornleifafræðinganna að þessar minjar spilltust og fóru í hafið. Ég fór um þetta svæði í haust og furðaði mig á hvernig rústirnar voru skildar eftir, auðar og óvarnar. Skammist ykkar!
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Einkunnabók Norðurskautsins
23.12.2014 | 02:09
Í lok hvers árs gefa vísindamenn út einkunnabók um ástand norðurskautsins. Sú nýjasta var að koma út fyrir árið 2014, en hana má finna hér: http://www.arctic.noaa.gov/reportcard/sea_ice.html
Hér er magt merkilegt að sjá, en í stuttu máli er ástand norðurskautsins stórvarasamt. Mest áberandi eru breytingar á ísþekju hafíss á norðurslóðum. Eins of fyrsta myndin sýnir, þá hefur hafísþekjan dregist saman um meir en helming síðan mælingar hófust (1978). Þar á ég við flatarmál hafíss á norðurskauti í september (rauða línan á myndinni), en þá er hafísinn í lágmarki á hverju ári. Sama er að segja með mars (svarta línan), en þá er útbreiðsla hafíssins í hámarki ár hvert. Ísinn sem er eftir er yfirleitt ungur og þunnur og getur því horfið fljótt. Hafísinn getur verið horfinn að mestu eftir nokkur ár. Þá mun verða grundvallarbreyting á hitafari jarðar, þegar dökkt yfirborð hafsins drekkur í sig sólarhitann, sem áður endurvarpaðist út í geiminn frá hvítum hafísnum. Við erum nú vitni af stöðugri hlýnun jarðar, en sumir vísindamenn telja að framundan sé mjög hröð hlýnun í vændum þegar hafísinn hverfur, einkum ef hafísþekjan umhverfis suðurskautið fer sömu leið. Við erum öll vitni af einhverjum stórkostlegustu loftslagsbreytingum, sem orðið hafa á jörðu síðan ísöldinni lauk. Hverjar verða afleiðingarnar fyrir fiskveiðar og lífríki í sjónum umhverfis Ísland, fyrir vatnsforða og vatnsbúskap, fyrir akuryrkju? Ég verð varla var við að Íslenskir ráðamenn eða stofnanir sinni þessu mikilvæga máli á nokkurn hátt.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)