Hver er hitastigull á Drekasvæðinu?

 

 

Eins og ég hef fjallað um hér fyrir neðan, þá er lykilatriði í myndun og varðveizlu á olíu og gasi í setmyndunum, að hitinn í jarðskorpunni sé ekki of hár.  Ef svo er, þá brotnar olían fljótlega niður og eyðist, breytist í gas sem streymir upp og út á hafsbotninn. Af þessum sökum er ósennilegt að finna olíu á eldfjallasvæði.  Þó er það ekki alveg útilokað. Það finnst til dæmis olía í fornum hraunlögum á Diskóeyju á vestur Grænlandi.

heatflow_1193325.jpgÞað eru til tvennskonar upplýsingar um hitann í setlögum, sem koma að gagni.   Streymi á hita upp úr setögum á botninum hefur verið mælt víða í Norður Atlantshafi. Mælieiningin sem notuð er fyrir hitastreymi er milliwött á fermeter, eða mWm2.  Fyrsta myndin sýnir gögn um mælingar á hitastreymi umhvefis Ísland, en Drekasvæðið er merkt með rauðu strikunum. Íslandssvæðið og gosmyndanir á hryggnum fyrir sunnan og norðan land er að sjálfsögðu heitt svæði, eins og guli liturinn sýnir (með 100 til 150 mWm2).  En meiri parturinn af Drekasvæðinu, innan rauðu línunnar, er sýnt hvítt á myndinni, með lægra histastreymi, um 75 til 100 mWm2.  Aðeins austasta hornið á Dreka er á grænu svæði, frekar kalt, með 50 til 75 mWm2.

Mynd númer tvö sýnir gögn um hitastreymi í seti sem inniheldur olíu víðs vegar í heimshöfunum. Það er greinilegt að gildi milli 20 og 30 mWm2 er algengast í olíuberandi setlögum, en það er töluvert kaldara en jafnvel köldustu svæðin á Dreka. heatflowseds.jpg

Það er til annar og betri mælikvarði á hitann í setinu, en það er hitastigull.  Hann gefur hitann með vaxandi dýpi í jarðskorpunni og fæst aðeins með fremur djúpum bornunum.  Að mér vitanlega eru ekki til slíkar mælingar á Dreka. Á Íslandi hefur verið mældur hitastigull, sem er allt að 200oC á km, en á landgrunninu, utan virka gosbeltisins, eru til nokkur gögn. Til dæmis er hitastigull í 500 m djúpri borholu á Flatey á Skjálfanda um 50 °C/km.   Hitastigull í Vík í Mýrdal er tæpar 50 °C/km og djúp hola í Vestmannaeyjum er með hitastigul milli 50 og 60 °C/km.  Hitastigull í setlögum þar sem olía er unnin er yfirleitt mun lægri en þessar tölur umhverfis Ísland, eða á bilinu 20 til 30oC/km.

Drekasvæðið er á mörkum úthafsskorpu (eldgosamyndun) í austri og hugsanlegrar meginlandsskorpu í vestri.  Sú síðar nefnda er syðri parturinn af Jan Mayen hryggnum, en hann kann að hafa verið hluti af eystra landgrunni Grænlands. Sennilega er hitastigull á Dreka því töluvert hærri en almennt gerist á svæðum þar sem set inniheldur vinnanlegt magn af olíu, en því miður vantar mig alveg beinar tölur um hitastigul í Drekasvæðinu.  Þriðja myndin sýnir þroskun á olíu í jarðlögum, sem hafa hitastigul um 50oC/km, sem kann að vera viðeigandi fyrir Dreka. Þar væri olían aðeins á 1 til 2 km dýpi, sem er mjög óvenjulega grunnt í samanburði við svæði á jörðu, þar sem olía er unnin.  Á svo litlu dýpi í setinu væri hætt við að olía og gas sé þegar rokið upp og út úr setinu, en aðeins frekari rannsóknir munu skera úr um það.
50ockm.jpg

Árið 1974 voru boraðar einu holurnar sem til eru á Drekasvæðinu, sýndar á þriðju myndinni. Það var alþjóða borstofnunin (Ocean Drilling Project) sem boraði þessar holur (Leg 38). Þær eru því miður fremur grunnar, og aðeins ein þeirra (hola 350) er innan Dreka, en hinar í næsta nágrenni (348, 349, 907, 985). Hola númer 350 er um 400 metra djúp og er eina holan innan Dreka. Hún er í Tertíer setlögum, en endar í basalti, sem er um 44 milljón ára gamalt og frá Eósen tíma.   Hola númer 348, rétt vestan við Dreka, fór í gegnum 500 metra þykk setlög frá Tertíer tíma, en endaði í basalt innskotum sem eru um 19 milljón ára gömul. Innskotin hafa troðist inn í set frá Ólígósen (ca. 30 milljónir ára).  Ekki varð olíu vart í þessum borunum, enda var það ekki tilgangur þeirra rannsókna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Ergo, engin olía. Össur er með eyrnaverk og augnsjúkdóm og tölvan er biluð og hann mun aldrei sjá þetta blogg þitt.

Olía Íslands er þegar til staðar. Hún heitir vatn, bæði í heitu og köldu formi, og nóg er af því. Þeir sem ólmastir vilja bora eftir olíu koma í veg fyrir að "olía" íslands sé nýtt. Þeir vilja heldur virkja ferðamenn. En það eru takmörk fyrir því hve margir vilja ferðast til Íslands, enda landið ekki eins fallegt og t.d. Noregur.

FORNLEIFUR, 6.3.2013 kl. 07:18

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Það er alls ekki hægt að útiloka olíu á þessu svæði. En það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir öllum aðstæðum og að fjalla um málið almennt en ekki eingöngu í opinberum yfirlýsingum stjórnmálamanna.

Haraldur Sigurðsson, 6.3.2013 kl. 15:54

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Fóru ekki þarna fram mælingar fyrir síðustu aldamót? Vinur minn einn vann við það í sumarvinnu, en nú man ég ekki hvaða stofnun sá um þær. Áður höfðu farið fram mælingar með sprengingum. 

FORNLEIFUR, 13.3.2013 kl. 07:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband