Færsluflokkur: Loftslag

Hvernig leit Ísland út á Ísöldinni?

Ísland á ÍsöldÁrið 2007 töldu Van Vliet-Lanoë og félagar að jökulþekjan hefði verið nokkuð takmörkuð yfir Íslandi þegar Ísöld stóð sem hæst. Líkan þeirra er sýnt sem svörtu svæðin á myndinni.  Ísskjöldurinn er yfir miðju landinu, annar skjöldur á Vestfjörðum og svo smærri jöklar í fjöllum á Snæfellsnesi.  Takið eftir að gráa línan markar landgrunnið í dag, eða 200 metra dýpið.   Árið 2006 lögðu þeir Hubbard og félagar til að jökulþekjan hefði verið miklu utar á landgrunninu, og þeirra Ísaldarjökull er afmarkaður af púnktalínunni á myndinni.  Þetta líkan fyrir útbreiðslu jökulsins verður að telja miklu líklegra, ef dæma skal út frá dreifingu jökulgarða eða mórena á hafsbotni. Það eru þrír jökulgarðar sýndir á myndinni, merktir með feitri svartri línu.  Einn er nokkuð langt undan Breiðafirði, annar út af Húnaflóa og sá þriðji undan Suðurlandi.  Jökulgarðar myndast þar sem skriðjökullinn nemur staðar. Samkvæmt þessu virðist Ísaldarjökullinn hafa náð yfir nær allt landgrunnið.   Olex kort

Nýlega birti norska fyrirtækið Olex ný kort af hafsbotninum, sem má nálgast hér: http://www.olex.no/dybdekart_e.html#isofiler  Kortin eru sérstök og mjög nákvæm, en þau eru byggð að miklu leiti á gögnum sem togarar og aðrir fiskibátar senda inn til Olex.  Næmi kortanna er um 5x5 metrar, sem þýðir að stór rúta eða vörubíll myndi sjást á hafsbotninum á slíku korti.  Íslandskortið frá Olex er sýnt hér til hliðar. Hér koma fjölmörg fyrirbæri fram á hafsbotninum, sem við höfðum ekki hugmynd um áður, og þar á meðal margir jökulgarðar sem sýna fyrri stöðu stóra jökulsins yfir Íslandi á Ísöldinni.  Þessi nýju gögn styrkja mjög þá mynd af Íslandi sem ser sýnd af púnktalínunni í fyrri myndinni hér fyrir ofan.  Ískjöldurinn var svo stór að hann náði út á ystu mörk landgrunnsins víðast hvar. En takið eftir að á Ísöldinni var sjávarstaða miklu lægri en hún er í dag og landgrunnið var því um 100 metrum grynnra en í dag, vegna þess að mikið af vatnsforða hafsins var  geymt í jöklum heimsskautanna.


Flugslóðir valda hlýnun jarðar

FlugslóðÞegar við lítum upp til himins á björtum degi má oftast sjá hátt í lofti eina eða fleiri flugvélarslóðir eftir þoturnar sem fljúga milli meginlandanna.   Flugsamgöngur hafa töluverð áhrif á andrúmsloftið og lengi hefur leikið grunur á að flugið kunni að hafa áhrif á loftslag á jörðu.  Þoturnar dæla út miklu magni af koltvíoxíði, köfnunarefnissamböndum, vatnsgufu og sóti.  Magnið af koltvíoxíði sem þotan losar á flugi er talið um það bil 100 til 200 grömm á kílómeter á farþega.   Flugslóð eða flugvélarslóð nefnist contrail á ensku, dregið af orðinu condensation, eða þétting.  Það minnir á að slóðin myndast aðallega vegna þettingar á gas útblæstri úr þotuhreyflinum, sem myndar ljósgráa eða hvíta gufu rétt fyrir aftan vélina, eins og fyrsta mynd sýnir.  Þétting í gufu verður á örsmáum sótkornum í útblæstrinum, eða á smáum ískristöllum.  Í upphafi þotualdarinnar var litið á slíkar flugslóðir sem skemmtilegt og saklaust fyrirbæri, en nú eru slóðirnar víða orðnar áberandi hluti af himninum,  sjónmengun og farnar að hafa veruleg áhrif.   Þar sem umferð er mikil mynda flugslóðirnar cirrus eða klósiga ský.  Flugslóðir2004Nýjustu ransóknir sýna að slík ský geta þakið 1 til 2% af himninum yfir Evrópu og Norður Ameríku og allt að 10% yfir mið Evrópu.   Önnur mynd er frá NASA og sýnir hvernig suðaustur hluti Norður Ameríku er þakinn af flugslóðum árið 2004. Nú kemur í ljós, samkvæmt rannsóknum Ulrike Burkhardt og Bernard Kärcher áhrifin á loftslag og hlýnun jarðar frá þessum flugslóðum og skyldum skýjum eru miklu meiri en frá  því koltvíoxíði sem þoturnar dæla frá sér.  Skýin draga í sig langbylgjugeislun sem berst frá jörðinni og orsaka með því óæskilega hlýjun.  Vandinn er þessir örsmáu ískristallar, sem myndast í útblæstrinum og skapa aðstæður fyrir myndun á klósiga skýjum.  Ef til vill verður hægt að hanna þotuhreyfla sem mynda stærri dropa eða kristalla, sem falla hratt til jarðar og mynda ekki ský.  Það er merkileg uppgötvun að átta sig á því að flugslóðirnar hafa meiri áhrif á hlýjun jarðar en útblástur koltvíoxíðs frá þotuhreyflum.  En áhrifin eru ekki beint sambærileg.  Koltvíoxíð varir í loftinu tugi eða hundruðir ára, en flugslóðin og skyld ský hverfa eftir nokkra klukkutíma. 

Votlendi er mikilvægt

 1.SkurðgröÁrið 1839 kom daninn Japetus Steenstrup kom til Íslands ásamt aðstoðarmanni sínum Jónasi Hallgrímssyni, til að rannsaka brennisteinsnámur.  Tveimur árum áður hafði Steenstrup gert rannsókn á mýrum í Danmörku, sem er fyrsta vísindalega könnunin á mýrum og votlendi.  Íslendingar þekkja mýrar vel, en lengi vildu þeir fyrst og fremst eyða þeim.  Í mörg ár voru meir en þúsund kílómetrar af skurðum grafnir á ári hverju til að ræsa fram mýrar og eyða votlendi í þágu landbúnaðarstefnu þeirra tíma. Myndin til hliðar sýnir þetta sérstaka tímabil í sögu Íslands, frá stríðslokum og fram undir 1990. 2.MýNú hefur málið snúist við, þar sem komið hefur í ljós að votlendi  um allan heim hefur mjög mikið gildi fyrir bindingu kolefnis.  Einnig er votlendi mikilvægt fyrir miðlun vatns, hringrás næringarefna og verndun á fjölbreytni lands og lífríkis. Þegar ég var strákur í sveit á Snæfellsnesi varð ég að ganga um mýrarnar daglega til að sækja kýrnar til mjalta. Ég var í íslenskum gúmmískóm, eins og allir hinir krakkarnir, en þeir voru gerðir úr leifum af gúmmíslöngum úr bíladekkjum. Gúmmískórnir dugðu nokkuð vel í mýrunum.  Eitt af höfuðverkefnum Auðlindar Náttúrusjóðs er verndun og endurheimt votlendis. Sjá vefsíðu Auðlindar hér:  http://www.audlind.org/votlond/   Mýrar þekja um  þrjár og hálfa milljón ferkílómetra lands á jörðu (3%). Önnur myndin sýnir útbreiðslu mýra á norðurhveli jarðar, þar sem þær eru mikilvægastar, einkum norðan við 45. breiddargráðu.   Dökku svæðin eru mýrarnar sem innihalda mest kolefni.  Mýrar og mórinn undir þeim eru að sjálfsögðu plöntuleifar og þar af leiðandi mikill geymir fyrir kolefni. Binding kolefnis í mýrar á jörðu er talin um 600 gígatonn (Gt er einn milljarður tonna). Það er helmingi meira en allt kolefnið í skógum heims og um 75% af öllu kolefni sem er í andrúmsloftinu (CO2).    Votlendi getur því verið mjög mikilvægur þáttur varðandi loftslagsbreytingar, með því að draga niður koltvíoxíð úr loftinu.  Mýrin safnar kolefni, dregur í sig koltvíoxíð CO2  en gefur frá sér bæði koltvíoxíð og metan CH4.  Það er talið að nettó dragi mýrar í sig koltvíoxíð úr loftinu sem nemur 700 kg á hvern hektar, en það er 150 til 250 milljón tonn af kolefni sem fer á ári úr andrúmsloftinu og niður í mýrina um heim allan.   3.MýÞriðja myndin sýnir hvernig kolefni hefur safnast fyrir í mýrum heims síðan ísöld lauk.  Það er á milli 20 til 100 gígatonn af kolefni sem safnast fyrir í mýrinni á hverju árþúsundi (grænt).  Blái ferillinn sýnir að söfnun kolefnis í mýrar hefur verið milli 20 og 40 grömm á fermeter á ári.  En nú eru mýrar heims víða í mikilli hættu.  Vonandi er ekki of seint að bjarga íslensku mýrunum, en  víða í heimi er hættan meiri.  Einn vandinn er sá, að þegar loftslag hlýnar er hætta á því að mýrar tapi kolefni til andrúmsloftsins í meira mæli og vinni því ekki á móti hlýnun jarðar. 

Komu sumir frumbyggjar Nýja Heimsins frá Evrópu?

ÍsröndinÞegar ísöldin stóð sem hæst fyrir um 18 til 20 þúsund árum, var heimur okkar hér í Norður Atlantshafi töluvert ólíkur því sem nú er.  Eins og myndin til hliðar sýnir, þá var hafísþekja yfir meiri hluta Norður Atlantshafs á þessum tíma, frá vestur strönd Frakklands og alla leið til Maine á austur strönd Norður Ameríku.  Ísland var langt inni í ísbreiðunni.  Á þessum tíma var þjóðflokkur í vestur hluta Evrópu sem er kenndur við fellið Solutré í Frakklandi: Solutrean menningin.  Minjar þeirra finnast einnig á Spáni og í Portúgal.  Helsta einkenni þeirra voru glæsilegir örvaroddar og spjótsoddar úr tinnu, sem gerðir voru af miklum hagleik, eins og önnur myndin sýnir.  Oddarnir líkjast mjög þeim sem Clovis menningin skildi eftir á meginlandi Norður Ameríku fyrir um þrettán til fjórtán þúsund árum, sem ég hef nýlega bloggað um hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1153257/   Eru Clovis og Solutrean menningarnar skyldar?  Fóru Solutre menn meðfram hafísröndinni, og lifðu eins og eskimóar á því sem hafið gaf, þar til þeir komust alla leið til austur strandar Norður Ameríku? Hittu þeir þar fyrir fók sem hafði komið til Nýja Heimsins frá Asíu tvö þúsund árum áður?  SolutreanÞetta eru spennandi spurningar, og margir hafa vellt þessu fyrir sér undanfarið.  Þessu til stuðnings hefur verið bent á að fundist hafa í Norður Ameríku þrjár eða fjórar hauskúpur af fólki sem hefur cro-magnon einkenni Evrópubúa, ólík einkennum Asíumanna.  Ein er til dæmis hauskúpa af konu í Minnesota, sem er talin um 15 til 20 þúsund ára. Önnur er hauskúpa af konu í Mexíkó sem er frá því um 13600 árum.  Mannfræðingar og fornleifafræðingar munu halda áfram rannsóknum á þessu sviði, og deila um niðurstöður.  En málið er sérstaklega viðkvæmt fyrir índíánana í Norður Ameríku, sem vilja alls ekki taka til greina neinar tilgátur um frumbyggja frá Evrópu á þessum tíma.  Nýlega fannst beinagrind af karlmanni í Washington fylki, um níu þúsund ára gömul: Kennewick maðurinn. Fornleifafræðingar bentu á ákveðin cro-magnon einkenni hans. Indjánar á svæðinu náðu eignarhaldi á beinagrindinni og bönnuðu frekari sýnatöku sem var nauðsynleg til að gera greiningu á erfðarefni.  Samkvæmt lögum er þessi beinagrind elsti indíáninn, en vísindin fá hvergi nærri að koma til að prófa málið. 

Getur járn í sjónum dregið úr hlýnun jarðar?

blaðgrænaÁrið 1996 varð eldgos í Vatnajökli, með upptök norðan Grímsvatna  og mikið jökulhlaup streymdi til sjávar. Mikið af eldfjallaösku, leir og sandi barst út í hafið sunnan Íslands. Fljótlega kom í ljós á myndum gervihnatta yfir Norður Atlantshafi, að plöntusvif blómstruðu skyndilega í hafinu sunnan lands.  Gat það verið að gróður svifþörunga í hafinu hefði tekið við sér vegna efna sem bárust út í Norður Atlantshafið í jökulhlaupinu?  Var það efni ef til vill járn?   Skyldi askan frá Eyjafjallajökli í fyrra hafa valdið mikilli blómgun svifþörunga í Atlantshafi?  Það er margt sem bendir til að járn geti hjálpað til með að draga koltvíoxóð út úr andrúmsloftinu og niður í hafið.  Ef svo er, þá er möguleiki að aukið járn í hafinu geti hjálpað til með að draga úr eða vinna á móti hlýnun jarðar.  Þetta er tengt hlutverki járns í myndun blaðgrænu, sem er sambærilegt við mikilvægi járns í að mynda haemoglobín í blóði okkar.  Við borðum lifur eða spínat til að taka inn meira járn.  Svifþörungar í hafinu hafa blaðgrænu og nýta sólarorku til vaxtar.  Járn er nauðsynlegt efni í blaðgrænu, en járn er í mjög litlum mæli í sjó, og takmarkar það því mjög mikið bæði vöxt  og fjölgun svifþörunganna.  Fyrsta myndin sýnir dreifingu blaðgrænu í hafinu, en hún er áberandi mest norðarlega á norðurhveli. Hins vegar er sjór umhverfis miðbaug tær og dauður.   SundaÞað var um 1980 að Bandaríski haffræðingurinn John Martin benti á, að ef til vill væri hægt að orsaka mikla fjölgun svifþörunga í hafinu með því að dreifa járni á yfirborð hafsins.   Það merkilegasta sem gerist við fjölgun svifþörunga og plöntusvifs almennt í hafinu er það, að þessar lífverur neyta koltvíoxíðs og lækka þannig koltvíoxíðmagn hafsins of andrúmsloftsins.  Er hægt að draga úr hlýnun jarðar með því einfalda bragði að strá járni á hafið?  Þetta er spennandi spruning, og hafa nú tilraunir hafist til að prófa það í raun.  Það er ótrúlega lítið járn í sjónum, eða um það bil einn partur af milljarði.  Það stafar af því að járn leysist upp mjög treglega í sjó.  Af þeim sökum eru járnbirgðir fyrir svifþörungana mjög takmarkaðar. Eins og seinni myndin sýnir, þá getur sjórinn tekið upp koltvíoxíð úr andrúmsloftinu, sem er bundið í vefji svifþörunga. En til þess þarf járn að vera fyrir hendi.  Svifþörungarnir falla síðan til botns og þar með grefst koltvíoxíðið í setmyndunum á hafsbotni.  Járn-ríka kerfið „pumpar‟ þannig koltvíoxíð niður úr andrúmsloftinu og niður á hafsbotn.  Það gæti á þann hátt dregið úr hlýnun jarðar.  En þetta er kenningin; hver er raunveruleikinn?  Nú eru að hefjast tilraunir með að bera járn á stór svæði hafsins.  Það hafa verið gerðar fjórtán tilraunir síðan 1993,  en það er of snemmt að dæma um árangurinn.  Við skulum fylgjast vel með þessu merkilega máli.  Ég bendi á vefsíðu sem vísindamenn frá tólf háskólum gera út, og veita frekari upplýsingar um dreifingu járns á hafið: http://isisconsortium.org/page.do?pid=46115

Jarðsköpun - Geoengineering

1.KoltvíoxíðHugtakið jarðsköpun eða geoengineering er tiltölulega nýtt af nálinni, en það er viðleitni mannkyns til að stýra eða breyta umhverfi sínu á allri plánetunni sér í hag.  Ég mun fjalla um ýmsar hliðar á jarðsköpun eða jarðbreytinga í bloggi mínu á næstunni. Allar götur frá því að inbyltingin hófst í lok átjándu aldar, þá hefur maðurinn ósjálfrátt verið að breyta umhverfi sínu.  Myndin til hliðar sýnir hina miklu aukningu á koltvíoxíð innihaldi loftsins, en myndin er byggð á gögnum úr ískjörnum og víðar.  Það er greinilegt að koltvíoxíð hefur sýnt miklar sveiflur í gegnum jarðsöguna, en aldrei því líkt sem nú er, eins og seinni myndin sýnir.  Hún nær aftur um 450 þúsund ár jarðsögunnar.  Nú vitum við, ef til vill of seint,  að þetta eru áhrif sem við vildum helst aldrei hafa haft á jörðina.  Jarðsköpun er sem sagt að breyta einhverri plánetu þannig, að hún líkist jörðu, og sé vistvæn fyrir mannkynið  (terraforming).  Það var bandaríski stjarneðlisfræðingurinn Carl Sagan sem fyrst stakk upp á terraforming aða jarðsköpun fyrir Venus árið 1961, og síðar fyrir plánetuna Marz árið 1973.   Markmið jarðsköpunar eða jarðbreytingar er að hafa áhrif á jörðina á þann veg, að núverandi ástand loftslags varðveitist, í hag fyrir mannkynið.  Þetta á líka við ýmsa aðra þætti umhverfisins, svo sem um verndun jarðar frá árekstrum loftsteina, og hættulegri inngeislun frá sólinni.  2.ÍskjarniJarðsköpun vekur strax upp spurningar um siðferði og siðfræði.  Getum við leyft okkur „að leika guð“ og breyta umhvefinu, með athöfnum sem hafa óvissa útkomu og sem gæti verið skaðlegt fyrir komandi kynslóðir?  Vísindamenn eins og Carl Sagan og hans nemendur hafa leikið sér með hugmyndir um jarðbreytingu á öðrum plánetum, en lengi forðast að fara inn á þessa braut varðandi  jörðina okkar.  Árið 1985 kom út merk bók eftir Bandaríska jarðefnafræðinginn Wallace Broecker: How to build a habitable planet.  Hér  reiknaði hann út að með því að dreifa miklu magni af brennisteinsúða daglega í heiðhvolfi jarðar, þá væri hægt að vega á móti þeirri hlýnun jarðar sem vaxandi koltvíoxíð veldur nú.  En kostnaðurinn við þetta væri um $50 milljarðar á ári.  Wally Broecker gerði þetta meir í gríni en alvöru, en árið 2006 kom út grein eftir Nóbelverðlaunahafann Paul Crutzen, þar sem hann fjallar frekar um hugmyndina að vinna á móti hlýnun jarðar með brennisteinsúða í heiðhvolfi: "Albedo Enhancement by Stratospheric Sulfur Injections: A Contribution to Resolve a Policy Dilemma?"  í ritinu Climatic Change.   Nú er jarðbreyting allt í einu orðin umræðuefni vísindamanna og þá er aðeins spursmál um hvenær gripið verður til aðgerða.   Nú í dag er talið að áhrif mannkyns á loftslag, vegna útlosunar koltvíoxíðs, samsvari um 2 Wöttum á fermeter af yfirborði jarðar.  Það er að segja, hitaaukningin er sú sama og ef 2-watta perur glói á hverjum fermeter jarðar, á sjó og á landi.  Til að vinna á móti þessum aukna varma er stungið upp á að dreifa brennisteinsúða í heiðhvolfi, um 20 til 30 km hæð fyrir ofan yfirborð jarðar.  3.GeoengineeringÞriðja myndin sýnir magnið af brennisteini (sulfur) sem þarf til þessa, eða 2 til 8 milljón tonn af brennistein á ári.  Það kostar um einn til tíu milljarða dollara að dreifa einum milljarð tonna af brennistein á ári, eða allt að $80 milljarða á ári til að vega á móti hlýnun jarðar í dag.  En það eru fleiri hugmyndir á lofti, sem ég mun blogga um síðar.

 

 


Hvað Kemur Mikið Koltvíoxíð upp í Eldgosum?

  Hringrás koldíoxíðsÞað er eitt gas sem allir kannast við, en það er koltvíoxíð.  Bólurnar í kókinu eru til dæmis koltvíoxíð. Mikið af gasinu sem myndar gjóskustrókana nú á Fimmvörðuhálsi er koltvíoxíð.  Þetta er líka gasið í andrúmsloftinu sem kann að vera að valda loftslagsbrytingum.  Þetta er  gasið sem myndast við bruna á eldsneyti af lífrænum uppruna (benzín, kol, dísel, eldiviður), hvort sem það er í vélinni í bílnum þínum eða í kolakynntum raforkuverum í Evrópu eða í verksmiðjum í Kína. 

Koltvíoxíð streymir milli hinna ýmsu hluta jarðkerfisins. Það streymir niður úr andrúmsloftinu og inn í sjóinn, og einnig frá landinu upp í andrúmsloftið, eins og til dæmis myndin fyrir ofan sýnir.  En takið eftir því að eldgos eru aldrei sýnd í slíkum myndum!  Hvernig stendur á því?  Er ekki einmitt koltvíoxíð að streyma upp í gjóskustrókunum á Fimmvörðuhálsi og út í andrúmsloftið  og reyndar í öllum eldgosum?  Jú, vissulega, en hvað mikið magn af koltvíoxíð gasi kemur uppúr eldfjöllum?  Er verið að blekkja okkur með öllu þessu tali um loftslagsbreytingar af manna völdum,  af því að eldgosin eru ekki tekin með í reikninginn?  Við skulum athuga það nánar, og kanna hvort það sé satt, eins og sumir vilja halda fram, að eldfjöllin séu miklu verri mengunarvaldur en sjálft mannkynið, með alla sína bíla og gas-spúandi verksmiðjur. Það er skylt að benda á að Loftslag.is hefur áður bloggað fróðlega um þetta efni.  Útlosun heimsins

Það er nokkuð auðvelt að reikna út heildarlosun eða það magn af koltvíoxíði sem streymir út í andrúmsloftið af völdum mannkynsins um heim allan.  Markaðurinn gefur okkur áreiðanlegar tölur yfir  magna af eldsneyti sem er selt um heim allan á hverju ári, og útkoman er sú, að nú er heildarlosun í heiminum um það bil 30 miljarðar tonna á ári af CO2. Myndin sýnir hvernig það skiptist milli landa, en Kína og Bandaríkin eru auðvitað lang stærst.  Heildarlosun á Íslandi af koltvíoxíði var 4235 þús. tonn árið 2006 en er nú komin yfir 5200 þúsund tonn, samkvæmt spá Umhverfisstofnunar. Koldíoxíð frá Íslandi

Það er ekki eins einfalt að áætla heildarlosun af koltvíoxíði frá eldfjöllum heimsins.  Þess ber að gæta að um 80% af öllum eldgosum eru neðansjávar, á úthafshryggjum, og  þvi tiltölulega óþekkt fyrirbæri. Samt er nú nokkuð gott samræmi á tölum um heildarútlosun koltvíoxíðs frá öllum eldfjöllum, bæði á landi og í sjó. Það er nú talið á bilinu 130 til 250 miljón tonn af koltvíoxíði á ári um allan heim.  Framlag eldfjalla er því aðeins 1/120 til 1/230 af heildarlosun koltvíoxíðs á jörðinni, eða vel innan við eitt prósent.  Sem sagt: það er ekki hægt að kenna eldgosum um loftslagsbreytingarnar, amk. ekki ío þetta sinn.  Hins vegar geta stór sprengigos orsakað mikla kólnun á jörðu, en það er nú önnur saga.

 


Fleiri Hitamet en Kuldamet segja sína Sögu

 HitametÞið kannist öll við tilfinninguna.  Tvö skref áfram og svo rennur þú eitt skref til baka þegar þú gengur upp bratta skriðu.   Er það svona með hægfara loftslagsbreytingar?   Þótt það hlýni, þá eru alltaf kuldaköst öðru hvoru.  En ef til vill er hægt að sjá heildarferilinn ef maður lítur á hitametin í lángri röð af veðurfarsgögnum.  Veðurfræðingurinn sem flytur veðurfréttirnar í sjónvarpinu bendir alltaf á ný hitamet: “Hitinn í gær, 24. júlí, setti nýtt met á þessari veðurstöð.”  Eða: “Dagurinn í gær, 12. janúar, mældist kaldari hér en nokkru sinni fyrr.”  Nú hefur verið gerð samantekt á öllum hita- og kuldametum í Bandaríkjunum fyrir allar veðurstöðvar þar í landi sem hafa verið reknar síðan 1950 (utan Alaska).  Gerald Meehl og félagar birtu grein nýlega í ritinu Geophysical Research Letters um þetta efni, sem eru byggðar á athugunum frá um 1800 veðurathuganastöðvum í Bandaríkjunum síðan 1950.  Niðurstöðurnar eru nokkuð fróðlegar.  Frá árinu 2000 til þessa árs sýna þær  alls 291237 hitamet en aðeins 142420 kuldamet.  Ef hitafar eða loftslag væri stöðugt, þá væru auðvitað jafn mörg hitamet og kuldamet í skránni, en svo er ekki, og telja höfundarnir það góða vísbendingu um hýjun jarðar, a.m.k. í Bandaríkjunum.  Myndin sem fylgir sýnir hlutfallið á hita- og kuldametum í Bandaríkjunum fyrir áratugina frá 1950 til 2009.  Það er greinilegt að hitametin eru fleiri á seinni áratugum, og fer munurinn vaxandi. Hlutfallið síðasta áratuginn sýnir að hitamet eru meir en tvisvar sinnum fleiri en kuldamet. 

Það væri auðvitað fróðlegt nú að sjá hver hlutföllin milli hita- og kuldameta hafa verið á Íslandi.  Hjá Veðurstofu Íslands er til tafla á vefnum yfir hæsta hita á öllum veðurstöðvum á Íslandi, en því miður ekki fyrir lægsta hita, og er því ekki hægt að gera samanburð við þessa fróðlegu greiningu í Bandaríkjunum. 


Metan Gas frá Hafsbotni

Ég las nýlega blogg grein þar sem fyrirsögnin var á þessa leið:  Nýjustu rannsóknir sýna að hættulegt gas lekur nú uppúr sífreranum á heimskautasvæðnunum. Undirfyrirsögnin segir: En hafið engar áhyggjur – þetta eru bara vísindi.   Svona er tortryggni varðandi vísindin komin á hátt stig í dag.  Ég leyfi mér nú þrátt fyrir það  að fjalla um þetta gas, sem heitir metan eða mýragas.   Einu sinni var ég að vinna á hafrannsóknaskipi við að taka sýni af setinu á hafsbotni í Norður Atlantshafi. Við notuðum bor eða kjarnarör til að ná sýninu. Eitt sinn þegar rörið kom upp, þá var ís í setinu.  En þetta var ekki venjulegur vatnsís heldur ís af metan hydrat, sem er blanda af vatni og efninu sem við nefnum oft mýragas: CH4.  Metan gas sem er unnið með jarðborunum djúpt niður í gamlar myndanir af setlögum er eitt mikilvægasta eldsneyti á jörðu. Til dæmis í Bandaríkjunum er það gas um einn fjórði af allri orkuneyslu.  Metanbirgðir í hafsbotni

Metan myndast þegar lífræn efni rotna, hvort sem er í setinu á hafsbotni, í mýrum eða í maganum á kúm. Það eru bakteríur sem þrífast við þessi skilyrði, sem brjóta niður lífræn efni og framleiða gasið.

Hvernig myndast metan hydrat ísinn í setinu á hafsbotni?  Það er háð því hvað sjórinn er oft ískaldur, eða rétt fyrir ofan frostmark, við hafsbotninn í norðurhöfum.  Kortið fyrir ofan sýnir að metan hydrat setmyndanir eru mjög útbreiddar í heimshöfunum.  Ástand metansMyndin til hliðar er “fasa diagram” sem sýnir ástand efnis eins og metans við mismunandi hita og þrýsting eða dýpi. Við ástand eins og ríkir fyrir neðan feitu línuna er metan hydrat í jafnvægi.  En ef botnsjórinn hlýnar, þá leysist metan hydrat upp og metan gas streymir út, upp í sjóinn og að lokum upp í andrúmsloftið.   Í dag kom út merk grein í vísindaritinu Science um metan eftir hóp vísindamanna frá Alaska og Rússlandi.  Mælingar á botnsjó á landgrunninu fyrir utan austur hluta Síberíu sýna að hann er mettaður af metan gasi, og er hér miklu meira ústreymi af metan gasi en áður var talið.  Þessi nýuppgötvaða losun af metan undan Síberíu er jafn mikil og var þekkt áður í öllum heimshöfunum.  Metan streymir upp við Svalbarða Breskir og þýskir vísindamenn hafa gert svipaða uppgötvun á hafsbotninum í 150 til 400 m dýpi fyrir vestan Svalbarða.  Þar fundu þeir að metan gas streymir upp um litil göt úr botninum og upp í hafið, eins og myndin til hægri sýnir.  

Metan getur haft 30 sinnum meiri áhrif á hlýnun jarðar en koldíoxíð, og er því mikilvægt að fylgjast með magni þess í andrúmslofti. Myndin til hliðar sýnir að metan hefur stöðugt vaxið í andrúmslofti jarðar.  Það er talið að í dag séu gróðurhúsaáhrifin af völdum metan gass í lofthjúpnum um fimmti hluti, en koldíoxíð afgangurinn.  Vaxandi metan í loftiByrgðir af metan, bæði í sífreara á landi og í setinu á hafsbotni, eru gífurlegar, og ekki þarf mikla breytingu á hita botnsjávar til að þær birgðir sleppi út í lofthjúpinn og valdi mikilli hlýjun um jörð alla.  Enn ein ástæðan til að fylgjast vel með hvað er að gerast í vísindunum í dag. 


Vísindamenn eru Mannlegir og geta verið Hættulegir

Pons og FleischmannSumir vísindamenn geta verið slæmir, eins og annað fólk,  gráðugir, jafnvel ræningjar, morðingjar og svikarar, sem sagt mannlegir.  Stundum reyna þeir að blekkja fólk, eins og til dæmis í sambandi við svokölluðu uppgötvunina um “cold fusion” árið 1989, þegar eðlis-efnafræðingarnir Martin Fleischmann og Stanley Pons reyndu að telja heiminum trú um að þeir gætu komið af stað kjarnaklofa við venjulegan herbergishita og framleitt óendanlega og ódýra orku.  Engum vísindamanni tókst að endurtaka tilraunir þeirra.  Læknarnir sem gerðu tilraunir á föngum nazista í Þýskalandi voru sannir glæpamenn vísindanna.   Albert Einstein vissi að til voru hætulegir vísindamenn og hann varaði Roosevelt forseta Bandaríkjanna  í sendibréfi árið 1939 við hættunni af því að hugmyndin um kjarnorkusprengjuna kæmist í hendur illvilja vísindamanna.  R. Pachauri

Vísindin sem varða lofslagsbreytingar og hugsanleg áhrif þeirra eru mikilvægur snertiflötur milli mannkynsins og vísindanna, og geta niðurstöðurnar haft áhrif á allt mannkyn.   Nú hafa nokkrir vísindamenn sem stunda loftslagsrannsóknir verið óvarkárir í bréfasendingum  sín á milli og tölvupóstur þeirra lekið út.  Afleiðingin er algjör tortryggni almennings gagnvart kenningunni um loftslagsbreytingar af völdum losunar koldíoxíðs út í andrúmsloftið.  Í einu tilfellinu eru það um eitt þúsund tölvupóstsendingar breska vísindamannsins Phil Jones, sem er forstöðumaður við Loftslagsrannsóknastöðina í East Anglia háskóla í Bretlandi.  Tölvupósturinn sem lak út er ósmekklegur, en gögn stofnunarinnar, sem hafa verið birt í vísindaritum eftir viðeigandi ritrýni, eru á engan hátt í vafa, og  því full áreiðanleg heimild um loftslagsbreytingar. 

Annað tilfelli varðar indverska verkfræðinginn Rajendra Pachauri, sem er formaður IPCC nendarinnar (Intergovernmental Panel on Climate Change) og reyndar störf nefndarinnar allrar.  Nefndin var sett á laggirnar árið 1988 af Alþjóða Veðurstofunni (WMO) og Sameinuðu Þjóðunum  til að rannsaka hættuna á því að verk mannsins kynnu að orsaka loftslagsbreytingar.   Myndin til hliðar er af Pachauri formanni, og nú getur hver spurt sjálfan sig: treysti ég þessum manni? Mundi ég kaupa bíl af honum?  Hann tók við Nóbelsverðlaunum fyrir hönd nefndarinnar árið 2007.   Sama árið birtist ný skýrsla frá IPCC nefndinni og annað hneyksli spratt upp úr henni.  Nú kom í ljós að í skýrslunni voru ýkjur um hraðann á bráðnun jökla í Himalayafjöllum.  Einnig kom í ljós að sá sem veitti rangar upplýsingar um jöklana starfaði við rannsóknarstofnun í Indlandi sem var í eigu Pachauri, formanns nefndarinnar.

Það er ljóst að traust nenfdarinnar er horfið eins og dögg fyrir sólu.  Það er einnig greinilegt að nefndin hefur starfað meir sem pólitískur þrýstihópur en vísindaleg rannsóknarnefnd.  Dagar hennar eru sennilega taldir.

Hverjum og hverju má þá trúa í heimi vísindanna?  Mín reynsla er sú, að ekki sé alltaf hægt að trúa yfirlýsingum frá nefndum, og er IPCC gott dæmi um það.  Þótt á þriðja þúsund vísindamenn hafi komið nærri skýrslunni, þá hefur hún ekki verið ritrýnd á vísindalegan hátt og er því tortryggileg.  Aftur á móti er hægt að taka fullt mark á flestum vísindagreinum.  Yfirleitt eru ritgerðir sem birtast í merkustu vísindaritunum, eins og til dæmis í Nature og Science,  áreiðanlegar vegna þess að þær hafa gengið í gegnum strangt ritrýni. Aðferðin varðandi birtingu vísindaathugana er venjulega sú, að ritstjóri, ef hann telur ritgerðina áhugaverða, sendir hana í ritýni til þriggja til fimm vísindamanna til að dæma um það  hvort handritið sé birtingarhæft og fara þeir yfir styrkleika og veikleika rannsóknarinnar og handritsins.  Þeir sem eru valdir sem ritrýnar eru oftast þeir vísindamenn sem starfa á sama sviði og því oft keppinautar höfundsins.  Það er því þeim í hag að  benda á allar villur og bókstaflega reyna að rífa greinina niður og helst að koma í veg fyrir að hún sé birt.  Ég sendi handrit til Nature sem var 6 síður á lengd.  Ég fékk til baka fax með ummælum fimm ritrýna sem voru fjórtán síður á lengd. Mér tókst þó að sannfæra ritstjórann um að ég hafði á réttu að standa.  Þannig er samkeppnin oft blóðug, en sannleikurinn og áreiðanleg gögn komast oftast í gegnum þessa eldraun og birtast, stundum um seint og síðir, í merku og virtu vísindariti. Ólíkt er með skjöl sem koma frá nefndum, og auðvitað allt sem birtist á netinu, en í báðum tilfellum er ekkert ritrýni.  Verið ávalt tortryggin, og kannið hvaðan upplýsingarnar koma, áður en þið trúið á gildi þeirra. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband