Færsluflokkur: Loftslag

Daginn sem Demöntum ringdi yfir Ísland

 HoltasoleyHoltasóley er fallegt blóm, enda er hún þjóðarblóm Íslands.  Hún er mjög harðger og vex uppí allt að 1200 metra hæð.   Latneska heitið á holtasóley er Dryas octopetala,  en jarðfræðingar hafa kallað eitt kalt skeið í lok ísaldar yngra holtasóleyjarstig, eða Yngra Dryas stadial.  Línuritið sýnir hitaferil á norðurhveli samkvæmt mælingum á ískjarna frá Grænlandi og þar kemur holtasóleyjarstigið vel fram sem snögg kólnun og einnig hröð hlýnun í lok stigsins.  Alley 2000 Nú hefur komið fram byltingarkennd en umdeild kenning að þessi snögga kólnun hafi orðið af völdum áreksturs halastjörnu á jörðu.

Áður en við snúum okkur að þeirri kenningu, þá vil ég fjalla aðeins meir um þetta merkilega stig í jarðsögunni.  Fyrir um 15 þúsund árum var ísöld að ljúka og þá tók við hlýtt stig sem nefnist Bolling/Alleröð, með loftslag svipað og er í dag.   Eftir SteffensenEn fyrir um 12.900 árum kólnaði mjög skyndilega aftur á öllu norðurhveli jarðar, og yngra holtasóleyjarstigið gekk í garð, með loftslag líkt og á ísöld.   Nýjustu rannsóknir á ískjörnum frá Grænlandsjökli sýna að kólnunin var ótrúlega hröð, eins og myndin frá Steffensen og félögum (2000) sýnir.  Í gluganum sem er merktur B á myndinni  sést að kólnunin þegar holtasóleyjastigið hefst hefur orðið á aðeins einu eða tveimur árum og þá hefur kólnað um  tíu gráður.  Murray Springs ArizonaGluggi  A á myndinni til vinstri er frá Steffensen og  sýnir að hlýnun í lok holtasóleyjastigsins var einnig mjög hröð, eða sennilega um þrjú ár.   Byrjun og endir á holtasóleyjarstiginu eru dýpstu og hröðustu loftslagssveiflur þem þekktar  eru.  Á Íslandi gengu jöklar fram á þessu stigi og þá mynduðust jökulgarðar á Suðurlandi sem eru nefndir Búðagarðar og kenndir eru við Búðastig.  Skriðjökull mun þá hafa gengið niður Fossárdalinn.

Hvað var að gerast erlendis á þessum tíma?  Myndin fyrir ofan sýnir snið af jarðvegi í Arizona fylki í Bandaríkjunum, en jarðvegurinn er frá yngra holtasóleyjarstiginu.  Undir svarta laginu fannst hér heil beinagrind af fullorðnum mammút eða loðfíl.  Einnig fannst hér eldstóð,  örvaroddar og ýmsar minjar frá Clovis fólki sem var uppi á þeim tíma.  Um þetta leyti verður mikill útdauði á stóru spendýrunum í Norður Ameríku, og tegundir eins og sverðkettir, loðnir nashyrningar, mammútar eða loðfílar, mastódonar og toxódonar hurfu af sjónarsviðinu.  Alls hurfu 35 tegundir af stórum spendýrum á þessum tíma.  Orsök þessa mikla útdauða hefur lengi verið mikil ráðgáta.  Mannfræðingar héldu fram þeirri kenningu að dýrin hefðu orðið veiðimönnum að bráð þegar  menn fluttust fyrst úr Síberíu og yfir landbrúna á Bering sundi milli Alaska og Síberíu í lok ísaldar til Norður Ameríku fyrir um fjórtán þúsund árum.  Þarna á ferðinni voru forfeður Clovis manna, en þeir gerðu einhver fegurstu vopn sem um getur. Örvar og spjótsoddar þeirra voru gerð úr tinnu og eru mikil listaverk, eins og myndin fyrir neðan  sýnir.

Clovis oddar

En snúum aftur af myndinni fyrir ofan, sem sýnir jarðvegssniðið í Murray Springs í Arizona.  Svarta lagið er áberandi, en það finnst víða í jarðvegi í Norður Ameríku.  Rannsóknir sem R.B. Firestone og félagar birtu árið 2007 sýna að svarta lagið er 12.900 ára að aldri, sem sagt frá byrjun yngra holtasóleyjastigsins.  Grein þeirra má finna hérna. Svarta lagið inniheldur sót,  örsmáar glerkúlur,  mikið magn af málminum iridíum,  og einnig af örsmáum demöntum. Það er viðat að árekstrar loftsteina eða halastjarna á jörðu geta myndað svo háan þrýsting að örsmáir  demantar, eða nanódemantar myndast, og þeir hafa einmitt fundist í seti á mörkum Krítar og Tertíera tímabilsins, þegar risaeðlurnar urðu útdauðar vegna loftsteinsáreksturs.  Jöklafræðingurinn Paul Mayewski og félagar héldu næst til Grænlands og tóku sýni af ísnum sem myndaðist á yngra holtasóleyjarstiginu. Viti menn:  í ísnum á Grænlandi fundu þeir töluvert magn af nanódemöntum, alveg eins og þeim sem fundust í Norður Ameríku.

Halastjörnukenningin sem er að þróast meðal vísindamanna er því sú, að fyrir 12.900 árum hafi halastjarna rekist á norðurhvel jarðar, sennilega í Norður Ameríku. Efni sem kastaðist upp í andrúmsloftið við áreksturinn dró úr sólargeislun til jarðar og orsakaði mjög snögga kólnun.  Við áreksturinn breyttist karbon eða kolefni í halastjörnunni í nanódemanta, sem rigndi niður yfir allt norður hveli jarðar, en samkvæmt því ætti að vera mögulegt að fina slíka nanódemanta í jöklum Íslands.  Loftslagsbreytingin og önnur áhrif árekstursins á gróðurfar og umhverfið orsökuðu útdauða stóru spendýranna. Ekki eru allir sáttir við þessa kenningu, langt því frá.  Hvar er gígurinn eftir áreksturinn? Var árekstur, sem ekki skilur eftir sig gís, nógu kraftmikill til að orsaka loftslagsbreytingar og útdauða?  Vísindamenn eru að eðlisfari íhaldssamir, varkárir og tortryggnir gagnvart nýjum kenningum.  Það mun því taka nokkur ár í viðbót að finna gögnin sem kunna að styðja eða þá að rífa niður að grunni halastjörnukenninguna, en  þetta er óneitanlega spennandi tími í rannsóknum á þessu sviði.   Bloggheimurinn er fullur af heitum deilum varðandi yngra holtasóleyjarstigið og halastjörnuna, til dæmis hérna og hérna.


Leyndardómar Búlandshöfða

Búlandshöfði 2Sagan byrjar sumarið 1902. Dag einn reið í hlað í Mávahlíð á norðanverðu Snæfellsnesi ungur og efnilegur jarðfræðingur. Þetta var dr. Helgi Pjeturss (1872-1949), sem hlaut síðar doktorsgráðu í jarðfræði árið 1905, fyrstur íslendinga. Hann fær fjórtán ára pilt frá bænum í fylgd með sér, Helga Salómonsson, sem síðar varð landsfrægur upplesari í Ríkisútvarpinu og rithöfundur, en hann tók sér síðar nafnið Helgi Hjörvar (1888-1965).Búlandshöfði kort  Sveitarpilturinn þekkti vel til í Fróðárhreppi og hann mun hafa bent jarðfræðingnum á forn jarðlög með steingerðum skeljum í fjallinu Búlandshöfða, rétt fyrir ofan Mávahlíð. Þeir byrjuðu að grúska í gilinu beint fyrir ofan bæinn Mávahlíð (sjá mynd) en síðar fóru þeir norður fyrir, upp í sjálfan Búlandshöfðann. Þar með hófst rannsókn Helga Pjeturss á Búlandshöfða og nærliggjandi fjöllum, en hér gerði hann eina af sínum merkustu uppgötvunum. Búlandshöfði 1903Á bergbrún Búlandshöfða í um 130 til 150 m hæð fann Helgi Pjeturss jökulrispur á yfirborði blágrýtismyndunarinnar, og ofar fann hann steinrunna jökulurð, sem var vitnisburður um fyrsta jökulskeið hér. Enn ofar fann hann setslög með skeljaleifum, sem sýndu að sjávarstaða hafði verið miklu hærri. Þar ofaná kom grágrýtishraunlag sem var jökulsorfiða að ofan, og þar með vitneskja um annað jökulskeið. Síðari aldursgreiningar hafa sýnt framá að hraunið er um 1,1 miljón ára gamalt, en setlögun sem liggja undir eru allt að 1,8 miljón ára. Efst fann Helgi móbergsfjöllin eins og Höfðakúlur, sem hafa gosið á síðasta jökulskeiði.Helgi Pjeturss En skeljategundirnar í setinu gefa miklar upplýsingar um loftslag og hita sjávar á þessum tímum. Neðri hlutinn á sjávarsetinu inniheldur skeljategundir eins og skelina jökultoddu Portlandia arctica sem bendir til þess að sjór hafi verið mjög kaldur. Efri hluti setsins í Búlandshöfða er siltkennt, og inniheldur það nútímaskeljar eins og krækling, kúskel og nákuðung, sem hafa þrifist í heitari sjó. Í þessum sjávarsetlögum koma því vel fram miklar loftslagssveiflur á ísöld. Ári seinna, 1903, birti Helgi Pjeturss niðurstöður sínar varðandi Búlandshöfða: “On a shelly boulderclay in the so-called Palagonite formation of Iceland”.  Helgi Hjörvar heilsar KjarvalGreinin kom út í vel þekktu tímariti Jarðfræðafélags Bretlands, en Helgi var metnaðargjarn, og hafði snemma áttað sig á því að það var nauðsynlegt að kynna verk sín í hinum enskumælandi heimi. Fyrir hans daga höfðu flest jarðfræðirit um Ísland verið á dönsku eða þýsku. Helgi teiknaði tvö þversnið til að skýra jarðlagaskipan, annað í fjallinu fyrir ofan Mávahlíð, en hitt af Búlandshöfða, sem fylgir hér með. Í jarðlagasniðinu koma vel fram tvær mórenur eða jökulbergslög í gilinu fyrir ofan Mávahlíð.Doktor Helgi minnist sérstaklega á sveitapiltinn Helga Hjörvar neðanmáls í grein sinni í riti breska jarðfræðifélagssins árið 1903, og tekur fram að Helgi Salómonsson hafi fundið ýmsar skeljar, þar á meðal Portlandia arctica. Þess ber að geta að bræður Helga Hjörvar voru allir mjög sérstakir menn: grásleppubóndinn Pétur Hoffmann í Selsvör, Lárus Salómonsson, frægasta lögga allra tíma, og Gunnar “Úrsus” Salómonsson, sterkasti maður Íslands. Forspil rannsókna Helga í Búlandshöfða hefur sína sögu, sem er tengt þróun jarðfræðinnar. Á nítjándu öldinni uppgötvuðu jarðfræðingar ísöldina, aðallega vegna rannsókna svisslendingsins Louis Agassiz, og lengi var haldið að hún hefði verið eitt samfellt jökulskeið.  Mávahlíð2Myndin vaf mjög einföld: það kólnaði, jökulskjöldur myndaðist yfir norður og suðurhveli jarðar, og varði í langan tíma, en svo hlýnaði og jökulbreiðan hopaði. En þessi mynd var greinilega of einföld. Í bók sinni “The Great Ice Age” (1874) taldi skoski jarðfræðingurinn James Geikie að ísöldin skiftist í fimm jökulskeið. Í miklu og útbreiddu riti, sem kom út í þremur bindum árin 1901 til 1909 (“Die Alpen im Eiszeitsalter”) sýndu þýsku jarðfræðingarnir Albrecht Penck and Eduard Brückner framá að ísöldin var ekki einn samfeldur fimbulvetur, heldur skiftist hún í hlýskeið og fjögur jökulskeið, sem þeir skírðu Günz. Mindel, Riss og Würm það yngsta.  Við vitum ekki hvað Helgi Pjeturss var vel lesinn á þessu sviði eða hvort hann hafði greiðan aðgang að erlendum vísindaritum, en alla vega vitnar hann í rit eldfjallafræðingsins Archibald Geikie, sem var bróðir ísaldar-Geikie. 

Skeljar

Í framtíðinni munu vonandi fara fram ítarlegar rannsóknir á sögu jarðvísindanna á Íslandi, og ég er fullviss um að þær munu sýna að Helgi Pjeturss var langt á undan sinni samtíð varðandi ísöldina. Umhætti dr. Helga í leiðangri á þessum tíma er fróðlegt að lesa nánar hér

http://www.heimaslod.is/index.php/Blik_1969/Sumardvöl_Dr._Helga_Péturss#


Stofnun um Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra - Hugmyndin um ESSI

ESSI skýrslan 2006Eru lofstlagsbreytingar að gerast í dag, eða er þetta bara áróður fárra vísindamanna? Geta lofslagsbreytingar haft afgerandi áhrif á landi og í sjó? Hvaða áhrif hafa loftslagsbreytingar á efnahag þjóðarinnar? Er færi fyrir Ísland að nota tækifærið og hagnast að rannsóknum varðandi loftslagsbreytingar? Spurningarnar eru óteljandi. Árið 2005 byrjaði vinnuhópur að starfa að skýrslu um loftslagsbreytingar á Íslandi og í hafinu umhverfis, og um áhrif þeirra. Þetta var að frumkvæði Halldórs Ásgrímssonar, þá forsætisráðherra. Í fyrsta vinnuhópnum voru Ólöf Guðný Valdimarsdóttir. Björgólfur Thorsteinsson, Hallvarður Aspelund, Haraldur Sigurðsson, Ívar Jónsson, Jónas Guðmundsson. Vinnuhópurinn lagði fram skýrslu í nóvember 2005, þar sem rætt var um loftslagsbreytingar og þörf fyrir rannsóknir á því sviði. Að lokum var lagt til að sett væri á lagirnar ný stofnun nefnd rannsóknastofnun um jarðkerfisfræði, eða Earth Systems Science Institute, ESSI. Allt leit vel út, en skömmu síðar var skipt um ríkisstjórn. Nýr vinnuhópur hélt ótrautt áfram með hugmyndina, með fjárhagslegan stuðning frá alþingi og í nóvember 2006 kom út ítarlegri skýrsla sem var lögð fram fyrir ríkistjórn: The Earth Science Systems Institute of Iceland, Science and Business Plan. Höfundar þeirrar skýrslu eru Björn Erlingsson, Haraldur Sigurðsson og Björgólfur Thorsteinsson. Leiðarljósið í þeirri skýrslu er sú staðreynd, að ef loftslagsbreytingar eru að gerast á Íslandssvæðinu, þá er mikilvægasta og þarfasta verkefni íslenskra vísinda að rannsaka loftslagsbreytingar, og orsakir og afleiðingar þeirra fyrir umhverfi, náttúru, lífríki og ekki síst fyrir efnahag þjóðarinnar. Viðbrögð við ESSI hugmyndinni voru --- engin. Dauðaþögn! Ef til vill stafar það af þeirri staðreynd að höfundar skýrslunnar voru utan kerfisins, utan þeirra stofnana sem hafa mesta hagsmuna að gæta í status quo, eða kyrrstöðu. Ég læt fylgja hér með ESSI skýrsluna frá 2006, og mun blogga frekar um þetta efni.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vatn í Heiðhvolfi og Áhrif þess á Loftslag

Mynd 1Þrátt fyrir alla umræðuna undanfarið varðandi koldíoxíð og loftslagsbreytingar, þé hefur það lengi verið vitað, að gufa eða H2O er sú gastegund sem hefur mest gróðurhúsaáhrif. Sumir telja að gufa valdi um 50 til 60% af gróðurhúsaáhrifunum, koldíoxíð um 30% og metan og nokkrar aðrar gastegundir sjá um afganginn. Ef til vill er rifrildið mest útaf koldíoxíði vegna þess að við getum haft áhrif á það gas, en varðandi vatnið í andrúmsloftinu getum við gert hreint ekki neitt. En við getum alla vega fylgst með hvað er að gerast. Fyrsta myndin hér sýnir breytingu fyrir jörðina í heild á vatnsmagni í veðrahvolfi, sem er sá hluti lofthjúpsins sem nær frá yfirborði jarðar og upp í um 10 til 15 kílómetra hæð. Ferlarnir eru fyrir 700 millibör (um 3050 metra hæð), 600 (um 4000 metrar), 500 (5000 m), 400 (7000 m) og 300 millibör (um 9100 metra hæð). Það er nokkuð greinilegt að neðri hluti lofthjúps jarðar hefur tapað vatni stöðugt frá 1948 til 2008. Þetta er meir en 20% minnkun á vatni í efri hluta veðrahvolfsins (300 mb eða 9000 m) á þessum tíma, sem er stórkostleg breyting. Nú í vikunni hafa Susan Solomon og félagar hjá NOAA birt nýjar niðurstöður í ritinu Science varðandi vatnsmagn í heiðhvolfi, og mun sú grein vekja mikla athygli. Mund 2Niðurstöður þeirra eru þær, að undanfarin tíu ár hefur magnið af gufu eða vatni í neðra borði heiðhvolfs, um 16 km fyrir ofan jörðu, minnkað um tíu prósent. Þau telja að þessi lækkun á vatnsmagni í heiðhvolfi hafi dregið töluvert úr hlýun sem hefði orðið ella. Gervihnöturinn URLS hefur fylgst með vatnsmagni í heiðhvolfi frá 1993 til 2005 yfir hitabeltinu, og mynd 2 sýnir niðurstöður úr því verkefni. Litirnir sýna vatnsmagnið, en rautt er blautast og blátt er þurrast, eins og kvarðinn lengst til hægri sýnir. Neðra borð myndarinnar er í um 13 km hæð, en efra borð er í um 31 km hæð í heiðhvolfi. Takið eftir hvað blái bletturinn myndast og vex eftir 2000 og heldur áfram að stækka, en það sýnir þurrara og þurrara loft í neðri mörkum heiðhvolfsins. Solomon og félagar telja nú að þessi mikla minnkun á vatnsgufu í neðri hluta heiðhvolfs hafi dregið úr gróðurhúsaáhrifum sem nemur allt að 30%. Nú er stóra spurningin hvernig vatn berist upp í heiðhvolf og hvað verður svo um það þarna uppi? Það er ljóst að loftslagsmálin eru lóknari en menn grunaði, en það er einmitt það sem gerir vísindin svo spennandi: alltaf eitthvað nýtt að koma fram, og alltaf nóg af verkefnum fyrir barnabörn okkar að vinna að í framtíðinni.

Koldíoxíð, Saga Loftsins og Loftslag

Loftbólur í ísLoftið á jörðu er nokkuð gamalt. Fyrst var andrúmsloftið nær eingöngu koldíoxíð, en þá gerðist stökkbreyting þegar lífríki kom á vettvang á yfirborði jarðar. Jarðfræðin sýnir að súrefnisríkt andrúmsloft hafði byrjað að myndast fyrir um 2,5 miljörðum ára. Vitneskja um það finnst í jarðmyndunum í Ástralíu, þar sem járnsteindir hafa ryðgast vegna oxunar á þessum tíma. En hver er saga loftsins á síðari tímabilum jarðsögunnar? Ýmsum aðferðum hefur verið beitt til að kanna það, jafnvel hafa sumir vísindamenn fengið rannsóknastyrki til að mæla og efnagreina loftið í gömlum flöskum af frönsku víni, sem hafa aldrei fyrr verið opnaðar. CO2 og hiti í VostokBesta skráin yfir gamalt loft er í ískjörnum frá borunum á heimsskautunum. Fallega bláa myndin hér fyrir ofan er af ískjarna, sem inniheldur mikinn fjölda af loftbólum. Hér er loft sem hefur lokast inn í ísnum og varðveist lengi, jafnvel um hundruðir þúsunda ára. Í hjarninu, á milli snjókorna sem hafa nýlega fallið til jarðar, er bil fyllt af lofti. Vinur minn Michael Bender hefur sýnt að loftið streymir inn og út úr hjarninu fyrir ofan 0,5 til 1,2 metra dýpi, en þar fyrir neðan er loftið lokað inni og varðveitt um aldur og ævi, þegar snjór breytist í ís. Loftið í ískjarnanum á hverju dýpi er því aðeins yngra (um það bil tíu til fimmtíu árum yngra) en ísinn sjálfur, en það er auðvelt að taka það inn í dæmið, þar sem við vitum ákomuna. Ákoma á Suðurheimsskautinu er aðeins um 3 cm á ári, en á Grænlandi er hún um 30 cm á ári. Bender og fleiri hafa rannsakað efnasamsetningu loftsins í ískjörnum langt aftur í tímann, og mælt það allt að 800 þúsund ár í Vostok ískjarnanum. Þeir bræða lítinn ísmola og safna loftbólunum til efnagreiningar. Þarna er ótrúlegur sjóður af fróðleik um þróun andrúmsloftsins á ísöld. Auðvitað spyr fólk fyrst: hvernig hefur koldíoxíð í andrúmsloftinu hagað sér öll þessi ár? Myndin fyrir ofan sýnir breytingar á koldíoxíð og hitastigi í ískjarna frá Vostok á Suðurheimsskautinu síðustu 400 þúsund árin. Rauða línan allra lengst til hægri er koldíoxíð breytingin á síðustu áratugum, eins og hún mælist á Hawaí. Háu topparnir eru hlýskeið (eins og það sem við lifum við í dag) á milli jökulskeiða. Það er slándi hvað koldíoxíð og hitaferill fylgjast vel saman í myndinni og sama sagan sést í ísborunum á Grænlandi. CO2 í sjóEn ég vil strax benda á, að koldíoxíð breytingin í ískjörnum fylgir á EFTIR hitanum, og er koldíoxíð sveiflan um 500 til eitt þúsund árum á eftir hitasveiflunni. Það er því ljóst að koldíoxíð getur ekki verið orsökin fyrir þessum sveiflum. Þegar jökulskeiði líkur, þá er hlýun ekki af völdum koldíoxíðs, heldur af Milankovitch breytingum á magn sólarorku sem fellur á yfirborð jarðar, eins og ég fjallaði um í síðasta pistli. Hlýunin orsakar það hinsvegar, að koldíoxíð streymir upp í andrúmsloftið, úr hafinu. Skoðum myndina hér fyrir ofan, sem sýnir uppleysanleika koldíoxíðs í sjó við mismunandi hita. Hlýr sjór inniheldur minna koldíoxíð og afgangurinn fer upp í andrúmsloftið þegar sjórinn hlýnar. co2 og hitiÍ andrúmsloftinu byrjar vaxandi koldíoxíð nú að hafa gróðurhúsaáhrif og heldur við hlýun, en á meðan dregur úr Milankovitch áhrifum. Þannig orsakar koldíoxíð hlýun um leið og hlýun veldur flutningi af meira magni af koldíoxíði úr hafinu. Ég tek það aftur fram, að aukning koldíoxíðs í andrúmsloftinu er um 500 til 1000 árum á EFTIR hlýun, og að vaxandi koldíoxíð orsakar ekki lok jökulskeiða, heldur eru það breytingar á innbyrðis afstöðu jarðar og sólar. Það er fróðlegt að líta á feril hita og koldíoxíðs í ísnum á tíma síðasta hlýskeiðs, Eemian, sem var fyrir um 130 þúsund árum. Myndin fyrir ofan sýnir það tímabil og jökulskeiðið sem fylgdi. Það jökulskeið er einmitt það síðasta á ísöldinni. Hér er mjög greinilegt að þegar Eemian byrjar, þá er það hitinn (blái ferillinn) sem rís á undan koldíoxíð magni andrúmsloftsins (guli ferillinn). En síðan seinkar koldíoxíð magnið kólnuninni. Í jarðsögunni er það koldíoxíð sem yfirleitt eltir hitann, og er ekki aðal orsökin fyrir hlýun. En lítum nú á tímabilið sem okkur er enn nær, eða síðustu átta þúsund árin, eins og myndin fyrir neðan sýnir. Hér er eitthvað allt annað að gerast varðandi koldíoxíð magn andrúmsloftsins. Það rýkur upp, langt á undan hitabreytingunni, eins og sést í fyrri myndinni frá Vostok ískjarnanum fyrir ofan.co2 8000 ár  Það var aldrei ætlun vísindamanna að halda því fram, eins og margir virðast misskilja, að koldíoxíð skýrði allar fyrri hitasveiflur jarðsögunnar, en þær eru að miklu leyti skírðar af breytingum á innbyrðis afstöðu jarðar og sólar. Hins vegar benda vísindin nú á þetta gífurlega frávik í koldíoxíð magni andrúmsloftsins og vekja athygli á hugsanlegum afleiðingum þess. Jarðsagan er komin inn á nýtt kerfi, nýtt tímabil, sem er tíminn eftir að síðasta jökulskeiði lauk, og áður hét Hólosen. Sumir vilja nú nefna þeta tímabil Anþrópósen, eða tímabil mannkynsins, þar sem maðurinn virðist vera að skapa nýtt og annað loftslag og breyta hinu og þessu í leiðinni.

Er Næsta Ísöld að Koma? Eða ekki?

Milankovitch og hiti í VostokÁgúst H. Bjarnason hefur fjallað ýtarlega um kenningu serbans Milutin Milankovitch (1879-1959) varðandi hitasveiflur og uppruna þeirra http://agbjarn.blog.is/ Milankovich sýndi að innbyrðis afstaða jarðar og sólar kynni að hafa mikil áhrif á hitastig á jörðu, og reiknaði út að þrjár aðalsveiflur væru á hitaferli jarðar sem kæmu með 19 til 20, 41, og 100 þúsund ára millibili. Það er talið að Milankovitch hafi unnið að þessu mikla verkefni í Belgrad í þrjátíu ár, en hann hlaut því miður lítinn eða engann heiður eða viðurkeningu fyrir störf sín á meðan hann var á lífi. Samkvæmt kenningunni þá breytast hitunaráhrif sólar reglulega, og nú er komið tækifæri til að bera spá hans sman við hitaferli jarðar, eins og það hefur verið mælt í ískjörnum frá borholum á Suðurheimsskautinu og Grænlandi. Myndin fyrir ofan sýnir sveiflur í geislun sólar til jarðarinnar síðustu 250 þúsund árin, samkvæmt kenningu Milankovitchs (svarta línan). Takið eftir að inngeislun er frá um 400 til um 500 wött á fermeter, en það er hitaorkan sem fellur á yfirborð jarðar. Sólin og hitinnSem sagt, eins og fjórar 100-watta ljósaperur á fermeter. Rauða línan á myndinni er hitaferill á yfirborði jarðar eins og hann hefur verið ákvarðaður í ísnum frá Vostok borholunni á Suðurheimskautinu. Hvernig finnst ykkur samræmið? Mér finnst það nokkuð gott. Flestir topparnir á Milankovitch kúrvunni fylgja toppum á hitaferlinum sem ísborunin gefur. Þetta er hughreystandi, og gefur von um að við skiljum einn aðalþáttinn í loftslagssveiflum á ísöld. Ef við fylgjum Milankovitch fram á okkar daga, þá er ferill hans greinilega í átt að ísöld, sem er reyndar þvert á móti því sem loftslagsmælingar sýna í dag. Það er greinilegt að Milankovitch skýrir ekki allt, og sumir telja að kenning hans skýri kannske 50 % af sveiflunni. En hvað með breytingar í sólinni sjálfri? Myndin til hlíðar er samanburður á inngeislun sólarinnar til jarðar frá 1880 til 2010 (bláa línan) og meðal hita á yfirborði jarðar (rauða línan). Undanfarna áratugi hefur hýjun orðið á jörðinni, en frekar hefur dregið úr sólinni á sama tíma. Síðustu 35 árin hefur sólin farið í öfuga átt við loftslagið á jörðu. Það eru því einhverjir aðrir kraftar, annað en Milankovitch og annað en sólin, sem skýra þessar seinni loftslagsbreytingar. Eru þessar breytingar það mikilvægar að þær seinki, dragi úr eða stoppi næstu ísöld?

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband