Færsluflokkur: Grænland

Barst Jaspis frá Íslandi til Grænlands og Vínlands?

jaspis SnæfellsnesGengu allir fornmenn á Íslandi með jaspis í vasanum eða pyngjunni til að kveikja með eld?  Steinninn jaspis er fremur algengur á Íslandi.  Hann myndast þegar jarðhitavatn berst upp sprungur í jarðskorpunni og ber með sér mikið magn af kísil (SiO2) í upplausn í vatninu.  Við vissar aðstæður fellur kísillinn út úr heita vatninu og myndar jaspis í sprungum og holum í berginu.  Jaspis er nær hreinn kísill, en með dálitlu af þrígildu járni, sem gefur því rauða, brúnleita eða græna litinn.  Jaspis er mjög þétt efni, sem brotnar næstum eins og gler og er með gljáandi og fallega brotfleti.  Hann er mjög harður og mun jaspis hafa hörkuna 7 á Mohs skalanum.   Jaspis er alls ekki gegnsær.  jaspisEf slíkur steinn er gegnsær, þ.e.a.s. hleypir einhverju ljósi í gegn, þá er hann nefndur agat, sem hefur nokkuð sömu efnasamsetningu og jaspis.   Það er margt sem bendir til að jaspis hafi verið notaður áður fyrr til að kveikja eld  hér á landi.  Sennilega er það jaspis sem átt er við, þegar tinna er nefnd.  Til dæmis skrifa Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson (1772) um jaspis í Ferðabókinni og segja hann líkjast  „tinnu að hörku, og eins hrökkva auðveldlega neistar úr honum.“  Jaspis var sleginn með eldjárninu til að mynda neista og kveikja eld.  Árið 2000 kom út mikil bók í Bandaríkjunum (Vikings, the North Atlantic Saga), sem fjallaði um víkingana og ferðir þeirra  til Grænlands og Vínlands. Þar kom Kevin Smith fram með upplýsingar um jaspis mola, sem höfðu fundist í víkingabúðum í L´Anse aux Meadows á Nýfundnalandi í Kanada.  Samkvæmt efnagreiningu taldi hann að fimm þeirra væru frá Íslandi, en fjórir frá bergi á Nýfundnalandi.  Því miður hafa gögnin um þessa efnagreiningu aldrei verið birt, svo við hin getum ekki metið hvaða rök Smith og félagar hafa fyrir því að sumir jaspis steinarnir í L´Anse aux Meadows séu íslenskir.  En það er vissulega spennandi að velta því fyrir sér hvort norrænir menn hafi flutt með sér í vasanum jaspis frá Íslandi, til Grænlands og svo síðar til Vínlands.  En leyfið okkur lesendum að sjá gögnin sem eru á bak við slíkar staðhæfingar!  Árið 2004 fannst fornt eldstæði í Surtshelli.  Hellirinn er í hrauni, sem rann sennilega á tíundu öld. Við eldstóna fundust brot af jaspisflögum, sem er sennilega vitneskja um að jaspis hafi verið notaður við að kveikja eld í stónni.   jaspis KanadaÁrið 2008 fundust fleiri jaspis steinar skammt frá rústum norrænna manna í  L’Anse aux Meadows.  Þeir reyndust vera frá bergi í Notre Dame Bay, þar skammt frá.  Seinni myndin sýnir þann jaspis stein.  Jaspis er nokkuð algengur í elstu bergmyndunum Íslands, eða blágrýtismynduninni frá Tertíer tíma. Jaspisinn myndar holufyllingar í gömlum basalt hraunlögum og finnst oft á Vesturlandi og víðar.  Sumir jaspis steinar geta verið allstórir eða allt að 50 kg, eins og sjá má til dæmis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. 


Úran námugröftur í nágrenni okkar á Grænlandi

IlimaussaqSést Grænland frá Íslandi? Jón Dúason (1947) taldi að svo sé, en sumir stærðfræðingar eru ekki á sama máli. Stysta vegalengdin milli landanna er aðeins um 280 km, frá fjöllunum við mynni Ísafjarðardjúps (Rytur, Deild, Göltur) og til austurstrandar Grænlands.  Nálægasta austurströndin er Blossevilleströnd, fyrir norðan Kangerlussuaq. Þetta er mikið hálendi, en þar fyrir ofan er Gunnbjarnarfjall, sem er hæsta fjall Grænlands, hvorki meira né minna en 3694 m á hæð.  Gnípurnar við Ísafjarðardjúp eru um 500 m á hæð,  svo ef maður tyllir sér á tá þar í björtu veðri, þá má vel vera að sjáist milli landanna yfir Grænlandssund.  Á landnámsöld rak Gunnbjörn af leið vestan Íslands.  Langt í vestri sá hann það sem hann taldi eyjar í fjarska, er hann nefndi Gunnbjarnarsker og telja má að hér hafi hann séð hæstu toppa austurstrandar Grænlands.  Sennilega varð sögnin um Gunnbjarnarsker til þess, að Eiríkur rauði leitaði lands langt vestan Íslands um 982.  Þótt stutt sé á landakortinu milli Íslands of Grænlands, þá virðist Grænland vera alveg hinu megin á hnettinum í huga flestra íslendinga.  Samskifti þjóðanna eru undarlega lítil, þótt grænlendingar séu okkar næstu nágrannar.  Það eru ýmsar ástæður fyrir því að við ættum að fylgjast betur með þessum nágrönnum okkar.  Ein þeirra er fyrirhugaður námugröftur grænlendinga á úran og öðrum geislavirkum efnum í suður Grænlandi.  Í október árið 2013 kom Hammond forsætisráðherra Grænlands í gegnum þingið nýjum lögum, sem veita heimilt að hefja námugröft á geislavirkum efnum, þar á meðal úran.  tugtupite-lujavrite.jpgAðal ástæðan fyrir þessum nýju lögum er þó ekki úran, heldur fylgiefnin, hin svokölluðu “rare earth elements” lanthanum, yttrium, europium, samarum og þrettán önnur), en þau eru ómissandi í rafeindaiðnaðinum. Kínverjar eru mjög ákafir í að grafa þessi efni úr jörðu á Grænlandi.   En ráða grænlendingar við geislavirk efni?  Getur það valdið mengun, sem jafnvel gæti haft áhrif á Íslandi?  Það er námufyrirtæki í Ástralíu, sem rekur á eftir: Greenland Minerals and Energy Limited.  Þeir vilja hefja úran námugröft í Kvanefjeld, en þar fá þeir einnig þóríum, rare earths of flúoríð.  Bergið er fagurt en hættulegt vegna geislavirkni.  Kvanefjeld er um 1200 km frá Íslandi. Þar er stórt berginnskot af sjaldgæfu tegundinni lujavrite, nálægt bænum Narssaq.  Í Kvanefjeld er úran aðallega í kristöllum af tegundinni steenstrupine, sem inniheldur um 0,5% af úran og mikið magn af þóríum.  En  námugröftur á þessu svæði veldur því að mikið magn af radon gasi losnar út í andrúmsloftið.  Radon er geislavirkt gas og hættulegt á stóru svæði umhverfis.  Hollendingurinn Jan Willem Storm van Leeuwen er einn að þeim fáu, sem hafa fjallað að viti um þær hættur, sem stafa af slíkum úran námum á Grænlandi.  Ég hef ekki enn séð minnst einu orði á grænlensku úrannámurnar í íslenskum fjölmiðlum.  Eigum við eftir að vakna upp við vondan draum einn daginn, þegar það er orðið of seint? 


Særými vex á Íshafinu og öldur birtast

SærýmiÞað er nýtt haf að opnast.  Hnattræn hlýnun er að svifta hafíshulunni af Íshafinu.  Ein afleiðing þess er að nú myndast öldur á Íshafinu, þar sem áður var samfelld breiða af hafís.  Ölduhæð er háð vindstyrk og einnig særými, eða fjarlægðinni, sem vindurinn getur blásið yfir hafið.  Nú vex særými með ári hverju á norðurslóðum, vegna þess að hafísinn er að hverfa. Hafsvæði, sem áður voru hulin hafís mikinn hluta ársins, eru nú opið haf og vindurinn nær að koma af stað miklum öldugangi.  Allt í einu er særými orðið eitt til tvö þúsund km og öldur rótast upp, sjólag versnar þar sem áður var kyrr sjór.  Myndin sýnir til dæmis áhrif storms, sem gekk yfir norðurslóðir árið 2012. Rauðu og gulu svæðin sýna háar öldur, allt að 5 metrar.  Hinar nýju siglingaleiðir í norðri, þar á meðal norðan Íslands,  geta verið erfiðar af þeim sökum, einkum á ágúst og september, þegar hafísinn er minnstur og særými er mest.


Olíudraumurinn við Grænland fjarlægist meir og meir

Leiv EirikssonSkoska olíufélagið Cairn Energy er fyrsta og eina félagið, sem hefur gert alvarlega olíuleit umhverfis Grænland. Eftir miklar mælingar á hafsbotninum í nokkur ár, þá tóku þeir það afdrifaríka og kostnaðarsama skref að hefja djúpborun árið 2010 og héldu áfram 2011. Við borun notuðu þeir risaborpallinn Leiv Eiriksson, sem sést á myndinni hér.  Kostnaðurinn er mikill, þegar slík stór tæki  eru tekin á leigu.  Áður en varir var kostnaður við borun kominn upp í $1,9 milljarða.  En engin olía fannst í 5 holum, sem boraðar voru í Baffinflóa, vestan Grænlands.  Nú hefur Cairn tilkynnt að þeir séu hættir í bili.  Nú segjast þeir vera of uppteknir annarstaðar í heiminum.  Sumir halda að Cairn, eins og mörg önnur félög með áhuga á Grænlandi, séu að bíða og sjá hvað setur með þróun stjórnmála á Grænlandi.   Stjórnarandstaðan hefur lýst vantrausti á stjórnina og sumir erlendir fjárfestar telja að nú sé ekki gott ástand innanlands fyrir miklar erlendar fjárfestingar.  En hvað sem stjórnmálunum líður, þá er greinilegt að olíuleit við Grænland hefur ekki heppnast. Hugsanlega er Grænlandssvæðið, eins og Drekasvæðið, dottið út úr olíuglugganum, eins og ég hef áður bloggað um hér:

http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1286368/

og einnig hér:

http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1285658/


Þegar Færeyjar voru við Grænland

FæreyjarNorður Atlantshafið er hlutfallslega ungt á jarðsögulegum tíma.  Fyrir um 55 milljón árum var Grænland hluti af meginlandi Evrópu og þá samfellt land með Skandinavíu og með því landsvæði sem nú eru Bretlandseyjar.  Fyrsta myndin sýnir legu landanna á þeim tíma.  Fyrr hafði landrek eða flekahreyfingar rifið sundur meginlandsskorpuna fyrir vestan Grænland og skilið Baffinseyju frá Grænlandi, en úr því varð nú ekki mikið haf heldur aðeins Davis Sund.  Af einhverjum örsökum hætti gliðnun í Davis Sundi og myndaðist þá mikil sprunga í jarðskorpunni, sem skildi Grænland frá Skandinavíu og Bretlandseyjum. Það var upphaf Norður Atlantshafsins.  Gliðnunin var samfara mikilli eldvirkni eftir flekamótunum öllum.  Eldvirknin myndaði úthafshrygg á hafsbotni þar sem flekarnir skildust að, en einnig gubbaðist mikið magn af basalt kviku upp á jaðra meginlandanna unhverfis.  Þá varð til blágrýtismyndunin sem er útbreidd á austur strönd Grænlands og einnig á Bretlandseyjum. Á sama tíma hlóðst upp blágrýtismyndunin sem hefur skapað Færeyjar. Önnur mynd sýnir staðsetningu Færeyja á þessum tíma, fyrir um 55 milljón árum, skammt undan austur strönd Grænlands.  Grænland-FæreyjarÞar eru blágrýtismyndanir sýndar með rauðum lit. Eins og myndin sýnir voru Færeyjar þá aðeins um 150 km undan strönd Grænlands.  Nú hefur einnig verið sýnt framá með efnafræði greiningu basalt myndananna að hægt er að rekja sömu myndanirnar milli Færeyja og Grænlands.  Ísland var auðvitað ekki til á þessum tíma, en myndaðist svo miklu síðar (sennilega hefur það byrjað að koma uppúr sjó fyrir um 20 milljón árum) á hafsvæðinu, sem var og er síbreikkandi milli Færeyja og Grænlands.


Þegar möttull Íslands var undir Grænlandi

Basaltsvæði Grænland ÍslandBasaltkvikan, sem veldur eldgosum, myndast við bráðnun í möttli jarðar. Hér á landi er yfirborð möttulsins á um 20 til 40 km dýpi undir jarðskorpunni.  Basaltkvikan, sem kemur upp úr möttlinum og gýs á yfirborði Íslands, er í stórum dráttum allstaðar á landinu mjög keimlík hvað snertir efnasamsetningu.  En þegar jarðefnafræðingar greina viss snefilefni, einkum samsætur eða ísótópa þeirra, þá kemur í ljós að viss svæði á Íslandi hafa séreinkenni hvað snertir ísótópa af efnunum neódiníum og blýi.   Fyrsta myndin sýnir niðurstöður Abigail Barker og félaga um efnafræði basaltkvikunnar á þessum svæðum á Íslandi.  Þar eru þrennskonar svæði afgreind: Reykjanes (rautt),  Snæfellsnes og syðri hluti eystra gosbeltisins (blátt), og að lokum nyrðri hluti eystra gosbeltisins (grænt).  Auðveldasta skýringin er sú, að basaltkvikan á þessum þremur svæðum komi uppúr þrennskonar möttulefni.  Það þýðir að möttullinn undir Íslandi er alls ekki allur eins, heldur ríkja þar nokkrar vel aðgreindar bergtegundir, sem bráðna og gefa af sér mismunandi basalt.  Eftir þennan fremur langa inngang snúum við okkur loks að Grænlandi.  Möttullinn, sem nú er undir Íslandi á sér langa sögu, sem er miklu lengri en aldur Íslands (16 milljónir ára).  Möttullinn “okkar” er fremur óvenjulegur, ef til vill óvenju heitur, og honum er oftast lýst sem “hot spot” meðal jarðfræðinga.  Vegna flekahreyfinga hefur þessi heiti reitur ferðast víða.  Þannig var hann undir Baffin eyju fyrir um 65 milljón árum, síðan ferðaðist hann undir allt Grænland, frá vestri til austurs og var undir Scoresby sundi í austur Grænlandi fyrir um 55 milljón árum. Önnur mynd sýnir dæmigert landslag á austur Grænlandi, þar sem blágrýtismyndunin er alveg eins í útliti og á til dæmis Vestfjörðum.   Takið eftir að heiti reiturinn í möttlinum er reyndar staðbundinn, hreyfist ekki, en jarðskorpan fyrir ofan hreyfist og rekur stöðugt til vesturs.  Ef sami möttullinn var undir austur Grænlandi fyrir 55 miljón árum, þá ætti hann hafa gosið þar samskonar basalti og nú gýs á Íslandi.  Geikie PlateauOg einnig, þar ætti að koma fram sama dreifing basalttegunda hvað snertir bý og neódiníum ísótopa eins og á Íslandi.  Ungfrú Barker og félagar hafa einmitt kannað þessa hugmynd, eins og kemur fram á fyrstu mynd.  Það er mikill stafli af basalt hraunum í og fyrir sunnan Scoresby sund á austur Grænlandi.  Efnafræðirannsóknir á þessum hraunum sýna, að þau hafa sama innihald af bý og neódiníum ísótopum og basaltsvæðin á Íslandi.  Hér í grennd við og fyrir sunnan Scoresby sund eru vel afmörkuð basaltsvæði, sem hafa sömu efnaeinkenni og svæðin á Íslandi, eins og litirnir sýna.  Þetta er reyndar stórmerkilegt, og sýnir að sami heiti reiturinn var forðum undir Grænlandi og er undir okkur nú, og sýnir einnig að vel aðgreind svæði möttulsins koma fram  bæi hér og á Grænlandi.  Að lokum:  Á fyrstu mynd er Ísland og Grænland sýnt í sama stærðarskala.


Hvers vegna vex hafísinn á Suðurskautinu?

MeginlandsíshellaÍsbreiðan sem þekur Suðurskautið heldur áfram að minnka, eins og fyrsta myndin sýnir. Á myndinni er magn jökulksins sýnt í gígatonnum, en einn miljarður gígatonna er einmitt einn rúmkílómeter af ís.  Jökullinn á Suðurskautinu minnkar að meðaltali um 100 rúmkílómetra á ári hverju síðan 2002, sennilega vegna hnattrænnar hlýnunar.  Þetta er svipuð bráðnun og á íshellunni sem þekur Grænland.  Til samanburðar er rúmmál allra jökla Íslands um 3600 rúmkílómetrar. En meginlandsjökull og hafís eru tvö ólík fyrirbæri. Hafísinn umhverfis Grænland minkar á sama hátt og íshettan á meginlandinu, en hafísinn umhverfis Suðurskautið hagar sér hins vegar allt öruvísi og hefur STÆKKAÐ  ár frá ári, allt frá því að mælingar hófust árið 1980. Zhang 2007 Þetta kemur fram á annari myndinni, en hún sýnir einnig að meðalhiti í lofthjúpnum á Suðurskautinu hefur vaxið á sama tíma.  Hvað er að gerast?  Reyndar er stækkun ísbreiðunnar ekki hröð, en samt vel mælanleg og vex um 2,6% á áratug.  Nú í apríl náði hafísbreiðan yfir 9 milljón ferkílómetra.  Eins og kemur fram á þriðju mynd er þetta algjört met.  Þeir, sem leggja ekki trúnað á að hlýnun jarðar sé staðreynd, vitna nú oft í hinn vaxandi hafís umhverfis Suðurskautið máli sínu til stuðnings.  Er þetta ef til vill þá Akillesarhæll kenningarinnar um hnattræna hlýnun?   Ég held ekki.   Suðurskaut of Norðurskaut eru auðvitað ólíkir heimar.  Það er ekki einungis munur á mörgæsum og ísbjörnum, heldur er stóri munurinn að annar póllinn er á hafinu en hinn í miðjunni á stóru meginlandi.  Hafís SuðurskautHafísinn, sem myndast á Norðurskautinu er umkringdur meginlöndum á alla kanta, nema út í Noregshaf, og útbreiðsla hans takmarkast af því.  Hér í norðri hrannst ís upp oft í hryggi af þeim sökum.   Hinsvegar getur hafís Suðurskautsins breiðst út frjálst og óhindrað í allar áttir og beiðist því einnig hraðar út.  Suðurskautshafísinn er yfirleitt um 1 til 2 metrar en ísinn er tvöfalt þykkari umhverfis Norðurskaut.  En tölurnar fyrir ofan um vaxandi útbreiðslu hafíssins eru að sumu leyti villandi og betri mælistika er að skoða rúmmál hafíss. Þá kemur í ljós að hafís á Suðurskautinu hefur vaxið um 30 rúmkílómetra á ári, sem er aðeins einn tíundi partur af bráðnun hafíss á Norðurskauti og um helmingur af magninu af ferskvatni sem fer í hafið umhverfis Suðurskaut vegna bráðnunar innlandsíssins.   

Suðurpólfarar hafa fjórar kenningar, sem þeir rannasaka nú til að skýra hegðun hafíss syðra:  (1)  Vaxandi vestanátt í suðurhafinu, sem dreifir ísbreiðunni til norðurs, frá Suðurskautinu. Þetta er kenningin, sem flestir vísindamenn hallast að sem aðal þátt í drefingu íssins. (2)  Vaxandi úrkoma á hafið, sem dregur úr streymi af hita úr dýpri lögum hafsins og minkar bráðnun hafíss.  (3)  Úrkoma gerir yfirborð hafsins minna salt og hækkar frostmark og örvar hafísmyndun.  (4)  Vaxandi straumur af ferskvatni til hafsins þegar innlandsísinn bráðnar hefur sömu áhrif og (3).   

Grænland dökknar

Ísinn dökknarGrænland er auðvitað ekki grænt, og ekki er það heldur hvítt.  Myndin sem við berum flest í huga okkar um Grænland er mjallhvít jökulbreiða. Hún er ekki lengur rétta myndin.  Ísinn er að verða skítugur, eins og við Rax rákum okkur á í ferð á innlandsísinn fyrir tveimur árum.   Fyrst var haldið að yfirborð Grænlandsjökuls væri að verða dökkara vegna bráðnunar, en þá renna ískristallar saman og mynda stóra kristalla, sem virðast dekkri.  En nú kemur í ljós að jökullinn er að verða dekkri vegna ryks, óhreininda, mengunar og eldfjallaösku.  Þar hafa einnig áhrif aska frá sprengigosunum í Eyjafjallajökli árið 2010 og Grímsvötnum ári síðar.  Einnig hefusót frá skógareldum í Síberíu mikil áhrif. Sumt af rykinu kemur frá strandlengju Grænlands, þar sem bráðnun jökla skilur eftir auð landsvæði.  Vindar lyfta síðan rykinu og leirnum af þessu nýja landi og bera inn á ísbreiðuna.

Endurskin er albedoÞegar ísinn dökknar, þá drekkur hann í sig meiri hita frá sólargeislum og bráðnar hraðar.  Endurskin sólarljóss frá jökulyfirborðinu minnkar. Mælieiningin fyrir endurskin er albedo. Fyrir hreinan og mjallhvítan snjó er albedo nálægt 0.8 eða 0.9.  Fyrir dökkt yfirborð hafsins er albedo hins vegar um eða undir 0.1.  Myndin sýnir hvernig albedo breytist eftir árstíðum, en einnig hvernig albedo í heild hefur lækkað á Grænlandsjökli frá 2009 til 2013.  Talið er að dökknun Grænlands og fallandi albedo jökulsins auki bráðnun hans að minnsta kosti 10% í viðbót við þá bráðnun sem orsakast beint af hlýnun jarðar.


Rostungstennur voru Fílabein Norðursins

 

RostungurÍ fyrrasumar fór eg í gönguferð út á Hítarnes á Mýrum og gekk alla leið suður að Akraósi. Þetta er falleg og skemmtileg gönguleið.  En erindi mitt var mjög markvisst: ég var að leita að rostungstönnum.  Ekki fann ég nú annað merkilegt í fjörunni en myndarlegt hvalbein, en ástæðan fyrir ferð minni á þessar slóðir var lýsing á skipsbroti í Kongungsannál frá árinu 1266.  Þar segir svo: 1266 IV. Konungsannáll: Þá braut Grænlandsfar á Hítarnesi, xli menn létust.”  Ég geri ráð fyrir að þetta séu 41 menn, sem fórust.  Aðrar heimildir telja að hér hafi verið biskupsskip á ferð, hlaðið dýrmætum farmi frá Grænlandi og að lengi á eftir hafi fundist rostungstennur í fjörunni í grennd við Hítarnes.   

Rostungstennur frá Grænlandi urðu snemma dýr og eftirsótt verslunarvara, en þær voru taldar gersemar á miðöldum. Þá er sýna átti erlendum þjóðhöfðingjum og höfðingjum mikla sæmd voru þeim færðar rostungstennur að gjöf. Bæði Hákon konungur gamli og Magnús lagabætir sendu til dæmis Englakonungi slíkar gjafir.  Hrafn Sveinbjarnarson færði hinum heilaga Tómasi Becket  í Kantaraborg á Englandi rostungstönn að gjöf á ferð sinni til suðurlanda í byrjun þrettándu aldar.   Rostungstennur eru einnig nefndar sem útflutningsvörur í réttarbót Hákonar konungs frá árinu 1316.  Verðið var talið um hálf mörk silfurs hver rostungstönn.  Mörk silfurs er talin um 214 grömm, en til samanburðar má geta þess að árslaun vinnumanns voru 1 mörk silfurs. Auk rostungstanna voru auðvitað ýmsar aðrar dýmætar vörur frá Grænlandi, sem verslað var með á miðöldum. Þar á meðal feldir hvítabjarndýra, fálkar og tennur náhvela, sem sumir Evrópumenn töldu vera horn einhyrninga. 

Á Grænlandi munu norrænir menn hafa fangað rostung fyrst og fremst í Norðursetu, sem er svæðið umhverfis og fyrir norðan Diskóeyju.  Þessi frægi veiðistaður er allangt fyrir norðan Vestribyggð, en þar fengu þeir rostung eða romshval, nærri ísröndinni.  Hér munu norrænir menn hafa stundað veiðar í grennd við inúíta eða eskimóa, sem veiddu hér sel á ísröndinni. 

Rostungar koma fyrir við strendur Íslands, en rostungalátur hafa ekki verið mikilvæg hér við land. Síðast kom rostungur inn í Rifshöfn á Snæfellsnesi árið 1983.  Þá finnast tennur öðru hvoru hér, einkum á ströndum Snæfellsness.  Þrjár rostungstennur fundust við fornminjauppgröft í skálanum í Aðalstræti 14-16  í Reykjavík og sennilega voru þær verslunarvara. Brimill

Romshvalur eða rostungur var greinilega mjög mikilvægur fyrir norræna menn á Grænlandi og sennilega hafa sumir þeirra safnað auði vegna verslunar með þetta fílabein norðursins. Þar voru veglegar og vandaðar steinkirkjur reistar, eins og til dæmis dómkirkjan að Görðum og Hvalseyjarkirkja.  Engar slíkar kirkjur voru reistar á Íslandi á miðöldum. Tíundin fyrir kristna menn á Grænlandi var greidd í Páfagarð í rostungstönnum, selskinnum og húðum. Árið 1327 veitir til dæmis páfalegur legáti móttöku 260 rostungstönnum úr Garðabiskupsdæmi.

Á fyrri hluta miðalda kom rostungstönnin í stað hins eiginlega fílabeins.  Fílabein hefur verið í miklum metum meðal hástéttarinnar alla tíð frá Egyptum til forna og sennilega enn lengra aftur í tímann. En efnið sem við köllum ivoire, ivory eða fílabein er tannvara, sem kom ekki eingöngu frá fílum. Tennur náhvela, rostunga, flóðhesta og jafnvel svína voru einnig seldar sem fílabein. Einnig tennur háhyrninga og búrhvela. Besta fílabeinið er talið koma úr flóðhestatönnum. 

Í Kína er saga fílabeinsins enn lengri, eða aftur til um 5000 f.Kr.  og einnig á Indlandi.  Til forna voru það Fönikíumenn sem fluttu fílabein frá Indlandi til Evrópu. Eftir fall Rómarveldis lagðist þessi verslun af og í nokkur hundruð ár var erfitt að fá fílabein í Evrópu.  Á þessu tímabili kom rostungstönnin þá í stað fílabeins og naut strax mikilla vinsælda allar miðaldirnar.  Þetta kunna að hafa verið uppgripatímar fyrir norræna menn á Grænlandi í nokkur hundruð ár. Þeir gátu komist yfir mjög dýrmæta vöru, sem þeir versluðu með suður í Evrópu.

Það var ekki fyrr en á fimmtándu öld að Feneyjakaupmenn hófu viðskifti við þjóðflokka í austur Afríku og í löndum sunnan Sahara. Þá dró úr eftirspurn eftir rostungstönnum, enda samband við Grænland orðið mjög slitrótt vegna loftslagsbreytinga á norðurslóðum: litla ísöldin var gengin í garð. Á sautjándu öldinni hófst svo verslun Evrópumanna í vestur Afríku, á Fílabeinsströndinni.  Á nítjándu öldinni var fílabein orðið mikilvægt hráefni fyrir vissan iðnað.  Aðal eftirspurnin fyrir fílabein var sem hráefni til að framleiða billiardkúlur, hvíta píanólykla, hnappa, hnífsköft og hárkamba og greiður.  Þetta var fyrir daga plastíksins og eftirspurnin eftir fílabein var nú gífurleg. 


Bráðnunin mikla á Grænlandi

 

Bráðnun Grænlands júlí 2012Dagurinn 12. júlí árið 2012 var merkisdagur á Grænlandi. Þá í fyrsta sinn bráðnaði yfirborðið á um 98,6% af íshellunni, sem þekur Grænland.  Fyrsta myndin sýnir Grænland eins og bráðnunin kom fram á mælingum frá gervihnetti NASA.  Ég kom til Grænlands þrisvar á síðastliðnu sumri og var vitni af stórkostlegum atburðum, sem fylgdu í kjölfar bráðnuninnar: stór stöðuvötn voru á víð og dreif um yfirborð jökulsins, stórfljót runnu yfir jökulinn milli vatnanna og steyptust niður í hyldjúpar jökulsprungur, jökulhlaup brutust út undan jöklinum og eyddu brúm og vegum. Bráðnun af  þessu tagi hefur ekki gerst síðan árið 1889, og þar á undan fyrir um 700 árum.  Jöklafræðingar sjá vitnesku um slíka bráðnun í ískjörnum við borun í jökulinn. Í kjörnunum koma gömul bráðnunarlög fram mjög greinilega, sem lag af hreinum og tærum ís, alveg eins og sá ís, sem þú færð út úr kæliskápnum og inniheldur enga loftbólur.  Bráðnunin fyrir 700 árum gerðist á hlýskeiði. Loftslag Grænlands

Eins og önnur mynd sýnir, þá hafa verið miklar sveiflur á loftslagi á Grænlandi í gegnum aldirnar. Skömmu eftir Krists burð var hlýskeið, sem er kennt við Rómverja (Roman Warm Period RWP). Því fylgdi kuldatími, sem varði í nokkur hundruð ár (DACP á myndinni).  Þá í kringum 800 til 900 eKr. tók við annað hlýskeið sem kennt er við Miðaldir (MWP).  Í byrjun þessa hlýskeiðs hófst landnám á Íslandi  og íslendingar settust að á Grænlandi í kjölfar landnáms Eiríks Rauða. Þetta hlýskeið gerði löndum okkar fært að nema land hér á Grænlandi. En seint á miðöldum kólnaði aftur og í kringum 1450 var byggðin komin í eyði vegna loftslagsbreytinga.  Litla ísöldin gekk nú í garð (LIA á myndinni).

Það þarf ekki að leita lengra til að fá skýringu á hvarfi byggðar norrænna manna á Grænlandi. Hnignandi veðurfar gerði þeim illmögulegt að heyja fyrir sauðfé og annan búpening og forfeður okkar vildu ekki aðlaga sig að háttum eskimóa, sem kunnu að nýta sér sel, hval og annað sem hafið hefur uppá að bjóða.  Af þeim sökum varð einangrun, hnignun samfélagsins, samdráttur, fólksfækkun og að lokum útdauði og endir á hinni merkilegu tilraun Eiríks Rauða að gera bólfestu hér á nyrsta útjaðri hins byggilega heims.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband