Færsluflokkur: Grænland

Norrænir Menn á Grænlandi: Fyrirlestur

Síðasti fyrirlestur Eldfjallasafns í Stykkishólmi að sinni verður laugardaginn 27. október kl. 14. Þar verður fjallað um norræna menn á Grænlandi.  Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Íslenski heiti reiturinn fór undir Grænland: Erindi Eldfjallasafns

Heiti reiturinnNæsta laugardag, hinn 20. október, held ég erindi í Eldfjallasafni í Stykkishólmi kl. 14.  Allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Í þetta sinn fjalla ég um sögu heita reitsins sem er undir Íslandi. Hann mun hafa komið fyrst fram undir Baffinseyju fyrir um 62 milljón árum. Reyndar vilja sumir rekja sögu hans alla leið til Síberíu fyrir 250 milljón árum. Síðan fluttist hann undir vestur Grænland og síðan kom hann fram undan austur Grænlandi og loks í Norður Atlantshafinu, þar sem Ísland myndaðist. Þetta er spennandi saga, sem hefur áhrif á myndun og þróun lands vors.

Auðæfi Grænlands - erindi

Næsta erindi í fyrirlestraröð okkar um Grænland er um auðæfi Grænlands. Fundurinn hefst kl. 14 laugardaginn 13. október í Eldfjallasafni í Stykkishólmi.  Allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Erindaflokkur Eldfjallasafns um Grænland er að hefjast

Haraldur go RAXNæsta laugardag, hinn 29. september, hefst nýr erindaflokkur í Eldfjallasafni í Stykkishólmi kl. 14, og heldur áfram alla laugardaga í október. Aðgangur er öllum ókeypis. Auk mín mun Ragnar Axelsson flytja erindi. Grænland hefur verið mikið í fréttum undanfarið og af nógu er að taka varðandi efni til umfjöllunar: bráðnun Grænlandsjökuls, hopun hafisins umhverfis Grænland, mikil auðæfi í jörðu á Grænlandi og olíuleit á hafsbotni umhverfis, tengsl Grænlands við uppruna heita reitsins sem nú er undir Íslandi, söguna um elsta berg á jörðu, sem finnst á Grænlandi, landnám íslendinga á Grænlandi. Ragnar Axelsson hefur kannað Grænland í meir en tvo áratugi og ljósmyndir hans þaðan eru heimsþekkt listaverk. Hann mun segja okkur frá sýn sinni af Grænlandi og íbúum þess í vel myndskreyttu erindi hinn 6. október.

Sjaldgæfir málmar á Grænlandi

Kvanefjeld námusvæðiðSjaldgæfu jarðmálmarnir eru sautján fremur fágæt frumefni, sem hafa mjög svipaða eiginleika. Ég hef áður fjallað nokkuð um þá hér http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1151653/Þessi sautján efni heita scandium, yttríum, lanthanum, praesodymium, neodymium, promethium, samaríum, europium, gadolinium, terbium, dysprosium, holmium, erbíum, thulium, ytterbíum og lutrtium. Sjaldgæfu málmarnir eru ómissandi í gerð allra raftækja, í tölvur, snjallsím, bíla og flestar eða allar raf- og málmiðnaðarvörur. Til dæmis er neodyníum ómissandi í segul fyrir vindmyllur, og í rafhlöður fyrir rafbíla. Eftirspurnin er því mjög mikil og vaxandi. Verð á sjaldgæfum málmum hefur því tífaldast undanfarið, frá um $20 fyrir kg uppí $200 kílóið. Á sama tima hefur Kína, sem er aðal framleiðandinn (95%), dregið úr utflutningi, frá 65 þúsund tonnum á ári niður í um 30 þúsund. Sjaldgæfu málmarnir eru algengastir í vissum tegundum af graníti. Á Grænlandi eru sjaldgæfu málmarnir til í ríkum mæli í Ilimaussaq bergmyndunum á suður Grænlandi, einkum á Kvanefjeld svæðinu. Hér er mikið berginnskot af þeirri tegund sem nefnist nefelín sýenít. Í þessu bergi er einnig mikið magn af úran. Kvanefjeld er reyndar í Eystribyggð, skammt frá Bröttuhlíð, á svæði sem var vel kunnugt þeim forfeðrum okkar sem sigldu til Grænlands á söguöld og settust hér að. Það er nú talið að í Kvanefjeld sé ein allra stærsta náma af sjaldgæfum málmum og úran á jörðu. Ekki er enn hafinn námurekstur í Kvanefjeld. Tanbreez náman er einnig í Eystribyggð á suður Grænlandi og hér er berg sem er mjög ríkt af sjaldgæfu málmunum og jafnvel ríkara en í Kvanefjeld. Tanbreez er ekki heldur komin í gagnið. Það fer fram hjá engum að heimsókn ráðamanna frá Suður Kóreu til Grænlands í vikunni er nátengd áhuga kóreumanna á sjaldgæfum málmum, sem eru algjörlega nauðsynlegir fyrir ramleiðslu raftækja, bíla og annars hátækniiðnaðar í Suður Kóreu. Nú er dnasinn að hefjast fyrir alvöru milli alþjóða námufyrirtækja og heimamanna. Lobbyistar eða áróðursmenn fyrir námu- og olíufyrirtækin segja að Grænland sé í raun algjör draumur þeirra, þar sem hér sé tiltölulega auðvelt að hafa áhrif. Meðal hinna 57 þúsund íbúa landsins er talið að hér sé yfirstétt, sem er mönnuð af aðeins 44 stjórnmálamönnum, ráðherrum, þingmönnum og borgarstjórum. Lobbyistarnir segja, að hér þurfi þeir því aðeins að hafa áhrif á 25 ráðamenn til að koma máli sínu í gegn varðandi námurétt og umhvefismál. Núverandi stjórn Grænlands var mynduð eftir kosningarnar árið 2009 og er hún samsteypustjórn þriggja flokka: Inuit Atagatigiit, Demokraatit and Kattusseqatigiit Partiat. Inuit Ataqatigiit flokkurinn er stærstur, eða með um 44% atkvæða í síðustu kosningum. Flokkurinn er vinstri sinnaður og stefnir á algjört sjálfstæði Grænlands og skilnað frá dönum. Formaður flokksins er Kuupik Kleist forsætisráðherra og hvílir mikil ábyrgð á honum þessa dagana.

Olía umhverfis Grænland

Olíuleitarsvæði GrænlandÞað hefur verið töluverður áhugi fyrir olíuleit umhvefis Grænland, og miklar vonir bundnar við það. En ekki hefur þetta reynst alveg eins auðvelt og haldið var í fyrstu. Skoska olíufyrirtækið Cairn Energy hefur eytt um einum milljarð dollara í olíuleit á hafsbotni fyrir vestan Grænland. Svæðið sem þeir hafa kannað er skammt fyrir austan Disko eyju, eins og myndin sýnir. Hér hafa þeir gert víðtækar og dýrar rannsóknir á hafsbotninum og borað átta djúpar holur. Einnig nota þeir jarðeðlisfræðilegar aðerðir til að gegnumlýsa jarðlögin. Myndin til hliðar sýnir til dæmis slíka sneiðmynd af jarðlögunum frá Kanada til Grænlands, um 600 km leið. Sneiðmynd af setlögumÁ slíkum sneiðmyndum kunna að koma fram upplýsingar um olíusvæðin. Engin vinnanleg olía hefur fundist og hefur Cairn nú ákveðið að draga sig í hlé, að minnsta kosti um stundar sakir, en margir telja að Grænlandsævintýri þeirra sé lokið. Cairn Energy varð frægt og ríkt þegar þeir fundu olíu á Indlandi, og sjá borholur þeirra indverjum nú fyrir um 20% af sinni orkuþörf. Það er enginn leikur að bora eftir olíu umhverfis Grænland. Cairn þurfti að hafa dráttarbáta alltaf til taks til að stjaka við eða draga stóra borgarísjaka frá borpöllunum. Einnig eru miklu meiri vandamál varðandi stjórn á mengun, og svo setur veðrið strik í reikninginn. Þegar eða ef Grænlandsolía kemur á markað, þá verður hún örugglega dýr. Hvers vegna er Grænland spennandi svæði fyrir olíuleit? Það er tengt uppruna og þróun Atlantshafsins. Grænland er hlut af fleka Norður Ameríku. Fyrir um 60 milljón árum byrjaði Grænland að rifna frá Norður Ameríku og þá opnaðist sundið sem við nefnum Davis Strait og einnig Labradorhaf, eins og myndin fyrir neðan sýnir. Rek Grænlands frá Norður Ameríku myndaði þannig sigdæld, þar sem setlög söfnuðust fyrir, hugsanlega með lífrænum leifum. Þessar lífrænu leifar gætu myndað olíu. En rek Grænlands frá Norður Ameríku var skammvinnt.  Myndun Labradorshafs og Davis StraitFyrir um 50 milljón árum hætti þetta rek í Labradorhafi en þá byrjar Grænland að reka frá Evrópu, þegar Norður Atlantshafshryggurinn myndast austan Grænlands. Það er semsagt sigdældin undir Labradorhafi og í Davis Strait sem menn einblína á. Einnig eru nokkrar vonir um olíu taldar um olíu undir  hafsbotninum rétt austan Grænlands, og kemur þar Drekasvæðið við sögu, en það er nú önnur saga…

Járn á Grænlandi

JárnmarkaðurinnVerð á járni hefur margfaldast undanfarin ár, eins og fyrsta myndin sýnir, en þessi hækkun er aðallega vegna mikilla framkvæmda í Kína. Breska fyrirtækið London Mining vill nú reisa stóran námubæ á Vestur Grænlandi, Í Isukasia um 150 km fyrir norðaustan Nuuk, þar sem 760 námumenn munu búa. Einnig verður byggð höfn og ymsar aðrar framkvæmdir tengdar námurekstrinum. Afraksturinn af námugreftrinum er talinn verða um 32,3 milljarðar danskra króna, eða jafnt og styrkur Danmerkur til Grænlands í tíu ár. Sennilega verða aðeins um 20% starfsmanna grænlendingar en flestir þeirra verða kínverskir námumenn, sem munu búa í nýju þorpi við námuna. Hér rétt við ísröndina er grænlenska bergið mjög járnríkt, en það inniheldur yfir 70% af járni. Það myndar lag sem er 180 til 450 m þykkt og er það á yfirborði, svo auðvelt er að hefja námugröft. Alls er talið að hér séu um 1,5 milljarðar tonna af magnetíti. Isua járnsvæðiðFramleiðsla er áætluð um 15 milljón tonn á ári, en málmgrýtið verður flutt til strandar um 100 km leið í stálpípu. Diesel rafstöð verður reist á staðnum, en ekki fallvatnsvirkjun þar sem slíkt tæki of langan tíma til undirbúnings. Hér í Isua hefur járnið sennilega myndast sem setlög í sjó, en undir járnlaginu eru mjög forn lög af gosbergi og skyldum setlögum. Jarðlögin á Ísua eru meða elsta bergs á jörðu, eða um 3,8 milljarðar ára að aldri. Enn hefur grænlenska ríkið ekki veit leyfi til að hefja byggingu námubæjarins þar sem ekki hefur enn verið gengið frá rannsóknum varðandi umhvefisáhrif frá námurekstrinum. Það er gífurlegt magn af leir og drullu, sem mun berast til hafs í sambandi við námureksturinn og hafa neikvæð áhrif á lífríki hafsins.

Fjársjóður Grænlands

 GrænlandGrænland er stærsta eyjan, um tuttugu og einum sinnum stærri en Ísland. En hér eru aðeins um 57 þúsund íbúar. Nú virðist allt að verða vitluast á Grænlandi. Forseti Suður Kóreu er í heimsókn, nýlega hefur grænlenski ráðherrann Kuupik Kleist fundað með kínverjum og Hilary Clinton. Ástæðan fyrir þessum mikla áhuga á Grænlandi eru auðlindir eða beinlínis fjársjóðir í jörðu. Hér er næstum allt til: demantar, gull, kopar, platína, úran, ál, títan, járn og hinir verðmætu sjaldgæfu málmar, sem eru ómissandi í tölvuframleiðslu. Nú eru um þrjátíu námufyrirtæki að kanna jarðlögin og undirbúa námuvinnslu, en aðeins ein gullnáma er komin í gang. Nú telja margir að námureksturinn kunni að flýta fyrir sjálfstæði Grænlands undan danskri stjórn. Þeir hafa haft heimastjórn síðan 1979 og árlega veitir danska ríkið Grænlandi styrk sem nemur um 460 milljón evrum. Þetta eru 8070 evrur á mann, eða um 1,3 milljón ísl kr. á hvern einstakling. Til að meta þennan styrk í réttu samhengi skal geta þess, að árið 2010 var útflutningsverðmæti grænlendinga um €350 milljón og innflutningur um €700 milljón. Grænlendinga eru því algjörlega háðir dönum á þessu augnabliki, en það getur allt breyst mjög hratt, ef eða þegar tekjur berast inn frá námurekstrinum. En sumir halda því fram, að Kuupik Kleist sé ekki nægilegur þungavigtarmaður til að leiða þjóðina í gegnum erfið viðskipti við slungin alþjóðafyrirtæki, sem vilja hefja námugröft, og annað hvort sneiða hjá dönum eða reyna að hafa þá góða. Það eru því mjög spennandi tímar fram undan hjá næsta nágranna okkar, en því miður virðast íslendingar ekki hafa nokkurn áhuga á Grænlandi og því sem þar er að gerast. Það er reyndar skammarlegt, að mínu áliti.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband