Finnur málar Surtseyjargosið 1963

Surtsey eftir Sigurgeir JónassonEin frægasta ljósmynd sem tekin hefur verið við Ísland var tekin af Sigurgeir Jónassyni í Surtseyjargosinu 1. desember 1963. Mig grunar að hún sé íkveikjan á bak við málverk sem Finnur Jónsson gerði, og sýnt er í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Þegar Sigurgeir tók myndina af Surtsey var gígur nýju eldeyjarinnar opinn fyrir hafi og sjór streymdi niður í hann. Við það mynduðust stórfenglegar gufusprengingar, sem þeyttu gjósku hátt í loft upp. Gosmökkurinn varð jarðtenging milli andrúmsloftsins of jarðar og sífelldar eldingar blossuðu umhverfis og inní stróknum. Myndin birtist í Mogganum og vakti almenna athygli, ekki síst meðal vísindamanna. Sveinbjörn Björnsson, Sigurgeir og fleiri skrifuðu merkar geinar um uppruna eldinganna og rafstrauma í gjóskustrókum. Það er rafspenna í jörðu, en við slík gos myndast mjög há jákvæð hleðsla í gjóskustróknum og orsakar hún eldingarnar. Mér datt ljósmynd Sigurgeirs strax í hug þegar ég sá málverkið eftir Finn Jónsson á Listasafni Íslands. Mynd Finns er stórkostleg og skemmtileg, enda þótt hún sé ekki jarðfræðilega rétt. Hann sýnir jarðeldinn rísa úr hafi, og notar hamrana í Heimaey sem forgrunn. Finnur nær að lýsa því ótrúlega, að eldur geti risið uppúr sjó.  SurtseyEn gosið er sýnt eins of brenna, þar sem eldtungur úr hafinu sleikja himinn. Finnur fellur í sömu gömlu gildruna og forferður okkar varðandi jarðeld, að eldgos sé bruni. Við vitum nú að auðvitað er enginn eldur í gosi, heldur gýs upp glóandi heit kvika. En mynd Finns er svo falleg og lífleg að við fyrirgefum þótt hún sé ekki alveg samkvæmt jarðfræðilegum lögmálum. Finnur Jónsson (1892-1993) var fæddur í Hamarsfirði á Austfjörðum og var bróðir Ríkharðs Jónssonar myndskera. Þegar hann kom heim eftir í nám í Danmörku og í Þýskalandi þá málaði hann abstrakt og jafnvel kúbisma verk, sem ekki var góður jarðvegur né markaður fyrir á þeim árum í Reykjavík. Hann var fyrstur íslendinga að mála í þeim stíl. Þá snéri hann sér að natúralisma og gerði margar myndir af lífi sjómanna og einnig frábærar landslagsmyndir eins og Beinin hennar Stjörnu (1934).

Að klífa Rinjani

MoskaÍ byrjun desember 2009 fór ég í eina af mínum erfiðustu fjallgöngum á ævinni. Ég kleif Rinjani eldfjall á eynni Lombok í Indónesíu, sem er 3726 metrar á hæð. Jæja, kannske var hún ekki sú erfiðasta; ég kleif Popocatepetl í Mexíkó sem er 5426 metrar á hæð, árið 1982, og Nevado del Ruiz eldfjall í Kolumbíu árið 1985, en það er rúmir 5300 metrar. En þá var ég yngri… Rinjani gaus síðast í maí 2009 og eftir gosið var allur aðgangur að fjallinu lokaður ferðamönnum, en það var nýopnað þegar okkur bar að garði. Ég hafði einkum mikinn áhuga á að sjá öskjuna í Rinjani, sem er ein af yngstu öskjum jarðar. Við hófum ferðina í Bayani þorpi, sem er nálægt norður strönd Lombok eyjar. Af tilviljun rakst ég á mjög merkilega forna byggingu í þorpinu, sem er moska frá fimmtándu öld. Kuno Bayan moskan er sú elsta á eynni Lombok, og er byggð sennilega árið 1470 af fylgjendum wetu telu, sem er frekar frjálslegt afbrigði af múhameðstrú. Það var hér sem múhammeðstrúin barst fyrst til Lombok, en eyjaskeggjar voru allir hindú trúar fyrir þann tíma. Moskan er eins og virki, reist á um tíu metra háum grunni sem er hlaðinn úr stórum steinhnullungum. Þá var reist ferhyrnd grind úr harðviði, sem stendur enn. Klæðning að utan er að mestu gerð með bambus, sem er klofinn eftir endilöngu og vandlega raðað saman til að mynda þétt þak og veggi. Umsjónarmaður leyfði okkur að kanna moskuna, en hún er ekki í notkun heldur varðveitt sem fornminjar, og ein sú elsta í allri Indónesíu. RinjaniTil fjallgöngunnar á Rinjani réðum við leiðsögumann og tvo burðarmenn úr þorpinu. Þetta er nokkra daga ferð og þarf góðan undirbúning, mat og drykkjarvatn. Lagt var af stað klukkan 4 að morgni, og gengið fyrst eftir góðum stíg sem lá um regnskóginn. Burðarmennirnir vildu ekki nota bakpokana, heldur kusu að bera farangurinn í tveimur körfum, sem þeir bera á bambus slá yfir öxlina. Ég ók eftir því að hæna hékk á hvolfi í spotta utan á einni körfunni – lifandi. “Ayam hutan” skógarhæna, sagði leiðsögumaðurinn, “Makan malam” kvöldmatur. Burðarmennirnir eru léttir í spori, þótt öll þyngslin á bambus stönginni hvíli beint á einum púnkti á öxlinni. Fljótt var á brattann að sækja, og undir fæti var ekki lengur eldfjallaska heldur gamalt hraun. Um hádegisbil var numið staðar, og burðarmenn kveiktu fljótt eld, suðu hrísgrjón og hituðu te. Síðan var lagt af stað í síðasta spölinn þann daginn, uppá brún öskjunnar sem hefur myndast í vestur hluta Rinjani eldfjalls. Á leiðinni höfðu burðarmenn safnað eldivið, því nær allur trjágróður hverfur þegar ofar kemur. Eftir mikið erfiði komumst við loks uppá öskjubrúnina um þrjú leytið í um 2000 metra hæð, og við blasti stórfengleg sjón. Askjan er um 8,5 kílómetrar í þvermál og í henni er stórt gígvatn sem ber heitið Segara Anak, eða Barn Hafsins. Í austur hluta vatnsins er gjósandi eyja sem stækkar sífellt og hraun frá eynni hefur nú náð alla leið til austur strandar öskjunnar. Eyjan nefnist Gunung Baru, eða nýja fjallið, en gígurinn, sem hefur verið stöðugt virkur síðan athuganir hófust 1847, er kallaður Barujari, nýji fingur. Við tjölduðum á öskjubrúninni, efst á um 200 metra háum hamri, og hér var útsýni eins stórfenglegt og hugsast getur. En gosið í Barujari sendi frá sér mikið ský og brennisteinsmóða lá yfir vatninu öllu. Það var farið snemma í háttinn, því mikið verk og erfiði var framundan næsta dag. En kuldinn var ótrúlegur, því á nóttinni fer hitinn niður undir frostmark og þá kvarta burðarmenn mikið. Þeir liggja þétt saman í hrúgu í miðju tjaldinu til að halda hita hvor á öðrum. Ég var nokkuð vel útbúinn og með góðan svefnpoka. Um þrjú leytið er þeim orðið of kalt til að sofa og byrja þá að kveikja bál fyrir utan tjaldið til að hita kaffið og sjóða hrísgrjón. Svo drógu þeir fram nokkur hálfúldin síli úr farangrinum, brytjuðu niður og hrærðu saman við hrísgrjónin, ásamt sterkum pipar. Þetta var ekki svo slæmur morgunmatur. Við erum búnir að binda böggla og komnir af stað áður en fyrstu sólareislarnir byrja að skína. Reyndar gengur ferðin best eldsnemma á daginn, áður en hitinn verður óþægilegur. Það var enn myrkur þegar við byrjuðum að klifra niður hamrana og niður í öskjuna, þar til við komum að vatninu. Askjan myndaðist í miklu sprengigosi á þrettándu öld, þegar kvikuþróin tæmdist og fjallið hrundi saman. ASTER VatniðVatnið er yfir 22 stiga heitt vegna jarðhita á botni þess, og yfir 200 metar á dýpt. Það er allt gulbrúnt á lit, og sömu leiðis ströndin umhverfis, vegna útfellinga af járnhydroxíð efnum sem myndast við jarðhitann.   Næstu tveir dagar voru erfiðir, en við fikruðum okkur hægt og sígandi upp úr öskjunni að austanverðu og upp á tind Rinjani, í 3726 metra hæð. Aðal vandamál okkar var stöðugur vindur, og svo kuldinn á nóttinni. Burðarmennirnir urðu eftir í efstu tjaldbúðum á meðan við fórum á toppinn. Til allrar hamingju gekk allt vel, en ekki hafa allir verið svo heppnir og margir orðið úti á Rinjani. Að meðaltali farast um tuttugu manns á fjallinu á hverju ári. Árið 1977 fundust til dæmis fimm lík rétt fyrir neðan toppinn, og árið 2007 fórst sjö manna hópur. Í langflestum tilfellum verða menn einfaldlega úti vegna lélegs útbúnaðar og matarskorts. Annars sagði leiðsögumaður okkar að mesta hættan væru stigamenn eða ræningjar, sem gera ferðamönnum fyrirsátur í tjaldbúðum umhverfis öskjuvanið. Árið 1999 réðust til dæmis sex stigamenn að nóttu til á tjaldbúðir þar sem tólf fjallgöngumenn voru sofandi við öskjuvatnið. Þeir voru vopnaðir stórum sveðjum og hnífum, og rændu öllum verðmætum af hópnum. Þeir voru af sasak ættbálknum, sem er frægur fyrir þjófnað og glæpi. Nú hefur verið aukið eftirlit síðan Rinjani var gerður af þjóðgarði og ræningjum kastað í steininn. En Rinjani er samt varasamt fjall á margan hátt.

Ásgrímur og Eldgosin

SkjaldbreiðurFyrsti íslenski listmálarinn sem reyndi í alvöru að mála eldgos var Ásgrímur Jónsson. Við sýnum þrjár myndir efir hann í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, sem fylgja hér með, en þær eru frá Listasafni Íslands. Í skrá Listasafns Íslands eru samtals 2082 verk talin eftir Ásgrím Jónsson. Þar af eru að minnsta kosti þrjátíu og fimm verk sem eru beinlínis af eldgosum eða áhrifum þeirra. Í viðbót eru allmargar landslagsmyndir eftir hann af eldfjöllum, einkum af Heklu og Öræfajökli, en myndin hér fyrir ofan er af Skjaldbreið frá 1922. Þannig hafa eldgos og eldfjöllin átt ótrúlega ríkan þátt í myndsköpun Ásgríms.  Flótti frá EldgosiÞað er merkilegt að eldgosamyndirnar voru flestar gerðar á tveimur tímabilum. Það fyrra var frá um 1904 til 1908, og síðar á árunum 1945 til 1955. Ásgrímur Jónsson (1876-1958) hefur lengi verið talinn meðal ágætustu málara Íslands. Reyndar er ferill hann ævintýri líkastur, en hann fæddist á bænum Rútsstaðahjáleigu í Flóanum. Sagan segir að hann sá Heklu gjósa þegar hann var tveggja ára og mundi alla ævi eftir eldglæringunum. Það getur nú ekki verið rétt, þar sem Hekla gaus 1845, 1913 og 1947. Katla gaus 1918, Eyjafjallajökull 1823, svo það er ekki ljóst hvaða gos Ásgrímur kann að hafa séð, ef nokkur, en auðvitað hefur hann heyrt mikið talað um fyrri eldgos, einkum Heklugosið 1845 og Skaftárelda 1783.  Skaftáreldar eftir ÁsgrímHann byrjar sem fátækur bóndasonur og sjómaður, og heldur út til Danmerkur til að helga sig listinni. Fyrst vann hann á verkstæði og málaði húsgögn en síðar fer hann í nám í Konunglega listaskólanum í Kaupmannahöfn árið 1899. Hann kynnist einnig listinni í Þýskalandi á þessum tíma. Hann komst alla leið suður til Ítalíu árið 1908 og málaði þar sínar fyrstu eldgosmyndir. Er hann snýr aftur heim 1909 hjálpar hann Íslendingum að sjá land sitt í nýju ljósi, og hann verður fljótt af einum mestu jötnum íslenskrar listasögu, og fyrsti málarinn sem gerði myndlistina að aðalstarfi hér á landi. Einnig var hann virkur kennari og Jóhannes Kjarval var í tímum hjá Ásgrími. Naturalismi og raunsæisstefna eru efst í myndsköpun hans, en það er oft rætt um að Ásgrímur hafi fengið stíl sinn að hluta til frá franska málaranum Jean-Baptiste-Camille Corot (1796-1875). Corot var frægur landslagsmálari af Barbizon skólanum, og er oft talinn forfaðir Impressionismans. Þekktasta eldgosamynd Ásgríms er kölluð Flótti undan Eldgosi, og er máluð frá um 1945 til 1950 (LI-AJ-0017). Tveir menn eru á ferð með hesta og mikill jarðeldur er í bakgrunni. Eru þeir á flótta undan hrauninu í Skaftáreldum? Ásgrímur gerði tvær vatnslitamyndir af eldgosum þegar hann var á ferð á Ítalíu 1908. Mörg eru eldfjöllin á Ítalíu, og Vesúvíus þeirra frægast.  Hann gaus 1906 og hefur enn verið rjúkandi ef Ásgrímur fór þar um. Önnur vatnslitamyndin (LI-ÁJ-527, Eldgos) sem var gerð á Ítalíu árið 1908 er vafalítið byggð á hugmynd Ásgríms um Skaftárelda og þann fræga atburð þegar séra Jón Steingrímsson hélt eldmessuna hinn 20. júlí 1783 sem sagan segir að hafi stöðvað framrás Skaftáreldahrauns og þar með bjargað Kirkjubæjarklaustri. Það er heilmargt að gerast í þessarri vatnslitamynd og mikil hreyfing. Söfnuðurinn stendur óttasleginn við kirkjudyrnar. Séra Jón er hempuklæddur og með bíblíuna undir hendi. Bláklædd kona í skautbúningi stendur í kirkjudyrum og ber hönd að enni, eins og það sé að líða yfir hana. Allir horfa til fjalls, þar sem eldar geisa, væntanlega frá Lakagígum. Mér finnst hin vatnslitamyndin sem var gerð á Ítalíu 1908 (LI-ÁJ-403 Eldgos) vera besta gosmyndin hans Ásgríms og sú djarfasta. Eldský rís yfir fjallinu, og furðulegir bjartir geislar stafa frá því til himins. Snævi þakin sléttan skilur eldfjallið frá fólkinu í forgrunni. Konur með skuplur eða klúta bundna yfir höfuð halda á ungum börnum, og allir stara í áttina til eldfjallsins. Ég hef sett fram hér aðeins nokkra púnkta varðandi eldgosamyndir Ásgríms, en áhugi hans á eldgosum og túlkunin sem kemur fram í myndum hans er mikilvægt verkefni sem er verðugt fyrir listfræðinga að kanna frekar.Eldgos eftir Ásgrím

Vísindi og Trúarbrögð

SólinSólin er að hækka, skína bjartar, heitara og lengur. Stjarnan okkar, þessi kjarnorkuofn af vetni og helíum, sem er í 150 miljón kílómetra fjarlægð, gefur okkur líf og færir okkur nær alla orku. Ég held því uppá vetrarhvörf, og minnist þess um leið að jólin eru sólstöðuhátíð sem á uppruna sinn að rekja langt aftur í heiðni. Eins og flestir íslendingar, þá ólst ég upp við kristnihald yfir jólin í bernsku, en fljótt tók að draga úr áhuga mínum á trúnni. Boðskapurinn var fallegur en jafnvel barn gat séð að margar grundvallarstaðhæfingar biblíunnar gátu ekki staðist. Síðar áttaði ég mig á því hvað trúarbrögðin hafa verið og eru enn beinlínis skaðleg mannkyninu. Við þetta tækifæri kemst ég ekki hjá því að velta fyrir mér andstæðunum í vísindum og trúarbrögðum. Fyrst vil ég minnast á ofsókn kirkjunnar á hendur fræðimönnum sem dirfðust að fara nýjar slóðir. Ítalski vísindamaðurinn Giordano Bruno var bundinn við staur að skipan páfa og brenndur á báli í Róm árið 1600. Kirkjan sá einnig til þess að landi hans Galileo Galilei, einn mesti vísindamaður allra tíma, eyddi tíu síðustu árum ævi sinnar í fangelsi, þar sem hann dó árið 1642. Þeir eru aðeins tveir af fjölda fræðimanna sem þjáðust eða misstu lífið vegna þess að þeir leyfðu sér að leita sannleikans. Giordano BrunoSvona mætti lengi telja, en reynsla mannkynsins af einguðstrúarbrögðunum þremur, kristni, múhameðstrú og gyðingsdómi, sem má öll rekja til Gamla Testamentsins, er vægast sagt afleit. Kristin kirkja staðhæfði að jörðin væri miðja alheimsins og hefði verið sköpuð fyrir manninn. Sköpunarsagan segir að guð gaf manninum vald til að drottna yfir öllum lifandi verum. Það væri þýðingarlaust, og jafnvel brot á reglum kirkjunnar að velta frekar fyrir sér uppruna jarðar, sólkerfisins eða lífs. Aðdáun á náttúru og umhverfi okkar væri einungis truflun frá iðkun kristilegrar trúar. Ítalska skáldið og munkurinn Francesco Petrarch (1304-74) var undantekning, en hann kann að vera sá fyrsti sem kleif fjöll sér til upplyftingar og til að dást að fegurð umhverfisins. En dag einn, er hann stóð á tindi í Ölpunum, skammaðist hann sín yfir því að vera að njóta nátturunnar í stað þess að iðka bænir í klaustrinu og flýtti sér niður aftur. Það er enginn vafi að snjallasta hugmynd tengd trúarbrögðunum þremur er loforðið um eilíft líf eða meðvitund eftir dauðann ef þú gengur í söfnuðinn. Hver getur staðist slíka freistingu? Þetta er mesta blekking og sterkasta auglýsingabrella mannkynsins. Og það snjallasta við hana er að það getur enginn tékkað á því hvort hún er sönn eða ekki. Allir geta lifað í voninni…þar til þeir deyja. Og múhameðstrúarmenn gera einum betur: þér er lofað eilíft líf í himnaríki með 72 hreinum meyjum, ef þú ert einn af píslarvottunum sem missir líf sitt í baráttunni fyrir trúna. Er það von að strákar standi í biðröðum í miðausturlöndum til að fremja sjálfsmorðsárásir? Vitur maður orðaði það svo, að þegar einn maður er á valdi blekkingar, þá er það kallað geðveiki, en þegar fjöldi fólks lætur blekkjast, þá er það nefnt trúarbrögð.Það hefur lengi verið von hugsandi manna, að áhrif trúarbragðanna dofni og hverfi smátt og smátt þegar upplýsing og menntun breiðist út meðal þjóða. Auðvitað er eðlilegt og mannlegt að kalla til yfirnáttúruleg öfl þegar menn standa frammi fyrir fyrirbærum eða atburðum sem þeir skilja ekki. Ég hef áður minnst á í bloggi mínu í september 2009 hvernig stórgosið á eynni Santóríni í Eyjahafi á Bronzöld varð að goðsögn, eins og kemur fram í kvæðinu Theógóníu eftir gríska skáldið Hesiod. Stórkostlegur atburður virðist yfirnáttúrulegur, og kallar á guðlega skýringu. En með tímanum eykst skilningur okkar, og við áttum okkur á að slíkir atburðir eru hluti af jarðkerfinu. Er þá ekki kominn tími til að losa sig við kreddurnar og allt sem fylgir trúnni? Vísindin hafa frelsað okkur frá þeirri blekkingu að örlögum okkar sé stýrt af einhverju æðra valdi. Við erum sjálf við stýri hvað varðar framtíðina.Á Íslandi er sá sem ekki trúir á guð flokkaður sem trúleysingi, aþeisti eða vantrúaður. Þetta eru vægast sagt vandræðaleg og neikvæð heiti, þar sem orðið eða hugtakið er byggt á því sem vantar. Hommar í Bandaríkjunum áttuðu sig á því fyrir nokkrum tugum ára að hommi eða homosexual var ef til vill ekki besta heitið á þeirra ástandi, og kusu að kalla sig gays, eða glaða. Það var ágætt hjá þeim og mjög vel heppnað; mér virðist hommar líka vera oft kátari en hinir. Á svipaðan hátt hafa margir trúleysingjar kosið að kalla sig og samfélaga sína brights, eða snjalla, og myndað sitt samfélag. Því ekki það? Ég er alveg sammála því að sá sem hafnar trúarbrögðum sé sennilega snjallari! Ég þekki mann sem var kallaður Siggi bright í menntaskóla og átti hann það skilið. Ég er næstum því viss um að hann er líka trúlaus.Það er enginn vafi að vísindi og trúarbrögð stangast á í þjóðfélaginu, en í því sambandi er fróðlegt að bera saman aðferðafræði þessa tveggja mikilvægu þátta í þjóðfélaginu í dag. Aðferðir vísindanna og trúbragðanna eru allt aðrar í grundvallaratriðum. Trúarbrögðin gera ráð fyrir að við trúum bókstaflega, án þess að nein rök eða sannanir séu bornar fram. Þetta er einmitt kjarni trúarinnar. Vísindin hvetja okkur til að trúa engu að fyrra bragði og forðast alla sjálfsblekkingu. Að vera skeptískur eða vantrúaður er reyndar einn höfuðkostur góðs vísindamanns. Það er óþarfi að blanda inn efni sem kemur málinu ekkert við. Napóleon keisari las bók franska vísindamannsins Pierre-Simon Laplace. Þegar þeir hittust spyr keisarinn hvernig stærðfræðingurinn frægi hefði getað skrifað heila bók án þess að minnast einu orði á guð. Laplace svarar: “Herra, ég hafði enga þörf fyrir þá keningu.” Nú ríkir millibilsástand á jörðu. Vísindi, tækni og þekking er að þróast mjög ört og eru að gjörbreyta lífi okkar á einni öld. Trúarbrögðin standa í stað, og eru annað hvort að deyja út í mörgum löndum, eða er haldið uppi í þjónustu valdhafa sem sjá sér hag í því. Á meðan við erum að fara í gegnum þetta millibilsástand, þar til vísindin verða allsráðandi, þá verðum við að sýna mátulega mikla þolinmæði. Við verðum þrátt fyrir allt að bera virðingu fyrir trúarbrögðum annars manns, alveg á sama hátt og við berum virðingu fyrir þeirri skoðun hans að konan hans sé einstaklega fögur og að börnin þeirra séu stórvelgefin. En við eigum enn nokkuð langt í land. Fyrverandi forseti Banaríkjanna, George Bush eldri, sagði í ræðu: “Nei, ég held ekki að við eigum að telja trúleysingja meðal borgara, og ekki heldur sem þjóðvini.” En hver skiftir sér nú af skoðunum hans?

Berghlaup úr Drápuhlíðarfjalli - í fortíð og í framtíð

ShastaBerghlaup nefnist það fyrirbæri þegar stór spilda eða fylling fellur eða skríður skyndilega fram úr fjallshlíð og myndar mikla breiðu af stórgrýti og moluðum jarðmyndunum á sléttlendi fyrir neðan. Forfeður okkar kölluðu slíkt fyrirbæri hraun, sem er sennilega dregið af orðinu hrun eða að hrynja. Yfirborð á berghlaupum er reyndar mjög líkt og yfirborð á hraunum þeim sem myndast við eldgos, og hafa forfeður okkar sennilega ekki gert mikinn greinarmun þar á. Sennilega eru Vatnsdalshólar mesta berghlaup á Íslandi, en það hlaup náði fram um 6,5 kílómetra. Eitt stærsta berghlaup á jörðu varð í Kaliforníu fyrir um 300 þúsund árum, þegar hlíð eldfjallsins Shasta hrundi, og þá fór berghlaup í allt að 45 km fjarlægð frá fjallinu og þakti um 450 ferkílómetra svæði. DrápuhlíðarfjallBerghlaup myndast í bröttum hlíðum þegar styrkur bergs eða jarðmyndana er ekki nægilegur til að vinna á móti hallanum og þyngdarlögmálinu. Sennilega hafa flest berghlaup á Íslandi myndast skömmu eftir eða um leið og skriðjöklar hopuðu í lok ísaldarinnar, fyrir um tíu þúsund árum. Úr norðvestur hluta Drápuhlíðarfjalls hefur orðið berghlaup, sennilega rétt eftir að ísöld lauk. Það myndar um eins km langa, bratta og ljósa skriðu út brotnu líparíti, sem er nokkrir tugir metra til eitt hundrað metrar á þykkt. Upptök berghlaupsins er hamar norðan í fjallinu, þar sem tvö þykk líparít lög hafa brotnað fram. GjáinBerghlaupið úr Drápuhlíðarfjalli var lengi notað sem náma fyrir hið landsþekkta Drápuhlíðargrjót: fallegar stórar flögur af gulu eða rauðleitu líparíti, sem voru fluttar í stórum stíl til Reykjavíkur á sjötta og sjöunda áratugnum, til að klæða veggi umhverfis arinninn í stofunni eða við útidyrnar í nýbyggingum í fúnkis stíl hjá efnuðum borgurum. Á þeim tíma var arinn í stofu og Drápuhlíðargrjót stöðutákn hinna nýríku. Nú er fjallið friðað og efnistaka bönnuð, enda hefur tískan víst breytst. Nú virðist að annað berghlaup kunni að falla úr Drápuhlíðarfjalli í framtíðinni. Um eins meters víð sprunga hefur myndast í fjallinu um eitt hundrað metra innar en hamarsbrúnin þar sem fyrra berghlaupið varð. Sjá mynd hér til hægri af sprungunni. Undir hamrinum, sem er mjög þykkt líparít hraun, er um 20 til 30 metra þykkt lag af gjóskuflóði. Það er um 3,5 miljón ára að aldri og hefur með tímanum og vegna áhrifa jarðhita breytst í mjúkan leir.Hamarinn  Í leirlaginu finnast oft leifar af steingerðum trjám, sem bera vitni um gróðurfar á Snæfellsnesi í lok Tertíera tímans. Hamarinn hvílir því á sleipu leirlagi og allar aðstæður eru því tilbúnar að hamarinn kastist fram og myndi nýtt berghlaup. Nú er kominn tími til að fylgjast með sprungunni, til að kanna hvort hér sé hreyfing á bergfyllingunni og hversu hröð hún er.

Stuðlaberg

GerðubergEitt fegursta fyrirbæri á eldfjallasvæðum er stuðlaberg. Við höfum ótal dæmi um fallegt stuðlaberg á Íslandi, til dæmis Dverghamrar á Síðu, Kirkjugólf á Kirkjubæjarklaustri, Gerðuberg á Snæfellsnesi, Elliðaey á Breiðarfirði og mörg fleiri. Stuðlarnir geta verið ótrúlega reglulegir, og oft í laginu eins og tröllvaxnir krystallar. Langflestir stuðlar eru sexhyrndir og eru hornin á þeim því oft mjög regluleg og um 120 gráður. Í gamla daga var haldið að stuðlaberg væri myndað þegar setlög myndast í sjó, og að stuðlarnir væru risavaxnir kristallar. Fræðimenn á sextándu öld voru svo sannfærðir um þetta að þeir sýndu stuðlana með fallega toppa, á teikningum sínum, alveg eins og sexhyrndir kristallar af kvarsi.  GestnerMyndin til hægri er í Eldfjallasafni í Stykkishólmi og er hún úr riti Konrad Gesners frá 1565. Allt fram á miðja nítjándu öldina var deilt um uppruna stuðlabergs, eins og ég hef fjallað um ýtarlega í bók minni Melting the Earth (Oxford University Press 1999). Þeir sem trúðu að stuðlaberg væri myndað sem kristallar í sjó voru kallaðir Neptúnistar, en þeir sem áttuðu sig á því að það væri myndað við storknun á hraunkviku voru nefndir Vulkanistar. Þetta var ein heitasta deilan í jarðfræðinni á fyrri öldum.Stuðlar eru oftast sexhyrningar, en myndun þeirra er tengd kólnun og storknun hrauns eða hraunkviku, annað hvort á yfirborði jarðar eða í innskotum. Þegar kvikan kólnar og storknar þá minnkar rúmmál hennar um 2 til 5% og við það klofnar kvikan í sexhyrnda stuðla. Kvikan, eins og langflest efni, dregst saman eða minnkar rúmmál sitt við storknun og kólnun. Eitt efni gerið þó þveröfugt, og það er vatn. Þegar vatn kólnar og breytist úr fljótandi ástandi í ís, þá eykst rúmmál þess. Þess vegna flýtur ís á vatni, þvert á við nær öll önnur efni. Við könnumst við mörg önnur dæmi um sexhyrninga í náttúrunni. MoldarflagHér til vinstri er mynd af moldarflagi, sem hefur þornað upp. Við það að þorna, þegar vatnið gufar upp úr moldarflaginu, þá minnkar rúmmálið, moldarflagið springur og tíglar myndast. Þegar stuðlar myndast í hraunkviku, þá vaxa þeir alltaf þvert á kólnunarflötinn, sem er flöturinn þar sem mestur hitinn streymir út úr kvikunni. Í hrauni er kólnunarflöturinn aðvitað yfirborðið og einnig botninn á hrauninu. Af þeim sökum eru stuðlarnir flestir lóðréttir. Í berggöngum, sem eru lóðrétt innskot af kviku og aðal aðfærsluæðar eldfjallanna, er kólnunarflöturinn oftast lóðréttur veggur, og liggja því stuðlarnir lárétt í göngum. Stundum getur kólnunarflöturinn verið mjög óreglulegur, eins og þegar hraun rennur í sjó fram. Þá myndast stuðlar sem geisla í allar áttir og stórir sveipir af stuðlum verða til, eins og í hraunum hjá Arnarstapa og víðar með ströndum umhverfis Snæfellsjökul.En hvers vegna eru horn stuðlanna oftast 120 gráður? Það er tengt yfirborðsspennu efnis. Minnsta yfirborðsspenna verður í efni þegar það er kúlulagað, eins og dropi eða sápubóla.  BýkúpaEn ef við röðum mörgum sápubólum saman, þá skerast þær í 120 gráðu hornum og mynda sexhyrnt mynstur. Þetta horn, 120 gráður, er sterkasta hornið í náttúrunni og einnig í arkitektúr. Þeir arkitektarnir Frank Lloyd Wright, Buckminster Fuller og James W. Strutt áttuðu sig snemma á þessu og notuðu sexhyrninginn sem eina höfuð uppistöðu í húsagerð sinni. Þetta vita býflugurnar líka, en býkúpan samanstedur af sexhyndrum einingum, eins og myndin til vinstri sýnir. Já, og ískristallar eru einnig sexhyrndir. Ef til vill er stærsti sexhyrningur í sólkerfinu á norðurpólnum á plánetunni Satúrn. Hér er risastórt ský, og í miðju þss er fallegur sexhyrningur, sem stjarneðlisfræðingar reyna nú að skýra. Þessi sexhyrningur er svo stór, að öll jörðin kæmist fyrir í honum. Saturn

Mayon á Filipseyjum

Mayon 1915Undanfarna daga hefur Mayon eldfjall á Filipseyjum verið í fréttum. Fjallið byrjaði að gjósa 10. ágúst 2009, og virðist krafurinn fara sívaxandi. Mayon, sem er á eynni Luzon, er 2460 metrar á hæð og er sennilega formfegursta eldfjallskeila á jörðu, jafnvel reglulegri en Fuji í Japan. Sjá myndina til vinstri úr Eldfjallasafni, en hún er tekin af Mayon árið 1915. Hér hafa orðið 48 gos síðan sögur hófust (þ.e. eftir að spánverjar komu til Filipseyja). Stærsta gosið var 1814 en þá fórust 1200 manns í gjóskuflóðum. Myndin til hægri sýnir gjóskuflóð í gosinu 1984. Mayon er virkasta eldfjall Filipseyja og gaus síðast 2006. GjóskuflóðNær öll gosin hafa verið út toppgíg fjallsins, og mynda oftast hraunstrauma niður hlíðarnar, en einnig myndast hraungúll í toppgígnum. Gúllinn verður stór og hrynur úr honum mikið af glóandi heitu bergi, sem myndar mjög skaðleg gjóskuflóð niður hlíðarnar og jafnvel niður í byggð, eins og sýnt er á myndinni frá 1984. Gjóskuflóðin eru lang hættulegust, vegna þess að þau fara hratt, eru glóandi heit og ná fjær fjallinu en hraunstraumar. Auk þess verða heitir eðjustraumar eða lahar, þegar mikið rignir á fjallinu. Mayon er aðeins 16 km frá borginni Legaspi. Nú síðustu daga hafa hafist sprenginar og lítil öskugos, sem senda mökk upp í allt að 1 km hæð yfir fjallinu. Hraunstrumurinn nær nú 3 km niður hlíðarnar. Fjöldi jarðskjálfta hefur aukist í um 248 á dag, og sumir þeirra benda til að hraunkvika sé á uppleið í fjallinu. Nú dælir Mayon um 1000 tonnum af brennisteini út í andrúmsloftið á dag. Eldfjallastofnun Filipseyja, PHIVOLC, hefur lagt bann við allri umverð innan 7 km frá fjallinu og vill færa það út til 8 km. 

Filipseyjar  Alls hafa nú um 50 þúsund manns verið fluttir frá hættusvæðinu, en margir bændur hafa snúið aftur til að sinna ökrum sínum og búpeningi. Það er engin leið að spá um framvindu mála, en goskraftur getur vaxið, og stórgos kann að verða á borð við það sem skall yfir byggðina 1814. Nú er mun fleira fólk í þéttbýli sem er í hættu. Þegar Mayon byrjaði að gjósa, þá hvarf hugur minn til gamals vinar míns, Raymundo Punongbayan, sem var forstöðumaður PHIVOLC í mörg ár. Árið 2005 fórst Raymundo í þyrluslysi á einu eldfjallanna í heimalandi sínu, ásamt 4 öðrum eldfjallafræðingum. Það var mikið áfall fyrir rannsóknir á eldfjöllum í Filipseyjum.


Gullið í Drápuhlíðarfjalli?

Loftmyndir ehfAllir eru sammála um að Drápuhlíðarfjall á Snæfellsnesi sé gullfallegt. Svo glóir það stundum eins og gull, í réttu ljósi. Kíkið á myndina hér til vinstri, sem er tekin af Loftmyndum ehf. En það er ekki þar með sagt að það sé gull í því! Árið 1939 hófst gullleit í Drápuhlíðarfjalli. Það voru Magnús G. Magnússon frá Ísafirði, þá útgerðarmaður og skipstjóri í Boston, ásamt Sigurði Ágústssyni kaupmanni í Stykkishólmi sem stóðu fyrir leitinni. Magnús kemur hingað frá Boston með skip sitt og áhöfn, sérfræðinga og allan útbúnað til gullleitarinnar. Þeir fluttu með sér borvél, vigtir, bræðsluofn, kemísk efni og annan úbúnað til að rannsaka bergið í Drápuhlíðarfjalli. Þá stofna þeir Magnús og Sigurður Hartmansfélagið til gullleitarinnar. Magnús útbjó rannsóknarstofu í eldhúsinu í gamla samkomuhúsinu í Stykkishólmi, sem nú er Eldfjallasafn. Mikið var starfað í norðanverðu fjallinu þetta sumar, og aðallega í tveimur giljum fyrir ofan bæinn Drápuhlíð, sem nú er í eyði. Í miðjum klíðum varð Magnús að hætta leitinni í Drápuhlíðafjalli haustið 1939, vegna þess að skipið var kallað aftur til Bandaríkjanna til þátttöku í seinni heimsstyrjöldinni. Magnús varð kapteinn á skipinu Nanok í Landhelgisgæzlu Bandaríkjanna og var við varnir gegn nazistum við strendur Grænlands það sem eftir var af seinni heimsstyrjöldinni. Vitað er að þeir Magnús og Sigurður fengu jákvæðar niðurstöður í gulleitinni. Í sendibréfi frá 1943 segir Magnús að “niðurstöður voru svo góðar að hann taldi að íslenska ríkið gæti greitt allar sínar skuldir með námuhagnaðinum”. Í bréfi Magnúsi frá Bandaríkjunum hinn 20. janúar 1940 ríkir mikil bjartsýni: “Við aðra rannsókn sem ég lét gjöra á því sem ég tók með mér kom í ljós að það er yfir $100 [af gulli] í tonninu.” Ýmsir munir hafa varðveist frá gullleitinni og eru sumir þeirra sýndir í Eldfjallasafni. Það eru vigt, bræðsluofn, panna, deiglur, töng og ýmis kemísk efni sem voru notuð við efnagreiningar á bergi úr Drápuhlíðarfjalli. Einnig er sýndur borkjarni frá borun í fjallið.Magnús var bróðir Kristjáns H. Magnússonar listmálara, en Kristján fór til Boston til náms. Kristján málaði fræga mynd af eldgosi í Vestmannaeyjum, sem einnig er fjallað um í Eldfjallasafni. Sumarið 1941 ferðast bóndinn og jarðfræðingurinn Jakob Líndal um Snæfellsnes og kannar Drápuhlíðarfjall, eins og lýst er í bók hans Með Huga og Hamri (1964). Hann er sannfærður um gullið og lýsing hans er ágæt: “Eins og víða þar sem súrar gufur hafa til lengdar leikið um berg, hefur myndast hér nokkuð af brennisteinskís á dreifingi. En það sér einnig til annarrar bjartari málmíblöndunar, er liggur í örþunnum æðum. Líkt og þær væru ofnar í bergið meðfram ósýnilegum sprungum. Þetta efni er gull, er ég sá nú í fyrsta sinn í bergi, svo ég hefði vissu fyrir. Það hefur leikið orð á gulli á þessum stað, líklega mest vegna brennisteinskíssins, um langan aldur. En nú nýlega hefur verið unnið þarna dálítið af íslenskum málmleitarmanni frá Ameríku, og hafa sum sýnishorn hans gefið góða raun um gullmagn. Við borun hefir komið í ljós að gullmagn þarna niður er mjög mismunandi, á stöku stað allmikið, en með köflum mjög lítið og ekki neitt. Enn mun ekki úr því skorið, hvort tiltækilegt sé að hefja þarna námugröft. Ég veitti því eftirtekt að gullið sést helst þar, sem bergið var hálfsoðið í sundur, en ekkert í því bergi, sem með öllu var ósnert af jarðhitanum, sömuleiðis að gull var engu síður í hnullungum vatnamyndunarinnar en í fasta berginu neðan við, og jafnvel, að þess varð vart í hreinum, lagskiptum vatnaleir, þar sem fannst votta fyrir jurtaleifum og einskonar steinbrandi.” Ég hef kannað Drápuhlíðarfjall töluvert, og er það merkilegt hvað varðar jarðfræðina. Fjallið er myndað að miklu leyti af tveimur þykkum líparít hraunlögum, og eru þau um 3,5 miljón ára gömul, sem sagt frá Tertíera tímanum í jarðsögunni. Neðarlega í norðvestur hluta fjallsins er 20 til 30 metra þykkt lag af völubergi eða mórenu, undir líparítinu. Þetta lag er gegnsoðið af jarðhita, eins og Jakob Líndal benti á, og það er hér sem gullleitin fór aðallega fram 1939, í tveimur giljum fyrir ofan Drápuhlíð. Síðastliðið sumar kannaði ég gilin og tók sýni af berginu, í fylgd með danska námujarðfræðingnum Peter Wolff, en hann er meðal reyndustu gullleitarmanna. Við sendum tólf sýni af bergi og seti til efnagreiningar. GlópagullÍ stuttu máli eru niðurstöður þær, að gull finnst í mælanlegu magni í einu af þessum sýnum, og inniheldur það um 0,1 ppm af gulli (samsvarar einum tíunda úr grammi af gulli í miljón grömmum af grjóti - eða einu tonni af grjóti). Bestu gullnámur í heimi skila allt að 8 til 10 g af gulli í tonni af grjóti. Margar námur eru reknar sem skila aðeins 1 gr á tonnið. Með aðeins um 0,1 g á tonnið er Drápuhliðarfjall greinilega ekki rétti staðurinn til að hefja gullnám, enda fjallið friðað og allt of fagurt til að fara að grafa það í sundur. En hvað þá með athugun Jakob Líndals? Var þetta bara sjálfsblekking og óskhyggja? Það minnir mig á viðkvæði eins vinar míns, sem er þekktur jarðfræðingur: “I would never have seen it if I had not believed it!” Sem sagt, ef þú trúir á eitthvað er öruggt að þú sérð það -- eða heldur að þú sjáir það. Eins og Jakob benti á, þá er mikið af glópagulli í fjallinu. Glópagull er járnkís, FeS2 sem er einnig kallað pýrít eða brennisteinskís. Það myndast við mikinn jarðhita, eins og hefur leikið um rætur Drápuhlíðarfjalls áður fyrr.

Verður afturkippur í virkjun jarðvarma?

 Mikið erum við íslendingar heppnir, að eiga jarðvarma og hitaveitu, sem heldur á okkur hlýju á þessum síðustu og verstu tímum! Reyndar vitum við nú, að virkjanir á jarðvarma eru ekki sjálfbærar, og að neikvæð umhverfisáhrif eru töluverð frá þeim, en þetta eru leysanleg og viðráðanleg vandamál. Framtak íslendinga á sviði nýtingar jarðvarma hefur vakið athygli meðal annara þjóða og hefur verið litið til jarðvarmavirkjana sem eins af mörgum þáttum í orkubúskap sem geta dregið úr losun koldíoxíðs og loftslagsbreytingum. Borun og rannsóknir á jarðhitasvæðum erlendis hefur því aukist til muna. Bandaríkjamenn tala nú til dæmis um að allt að 10% af orkuþörfinni komi frá jarðvarma í framtíðinni. The Geysers í Kaliforníu er stærsta jarðvarmavirkjanasvæði í heimi, með um 2500 MW. Nú hugsa ameríkanar stórt, og vilja beita nýrri tækni í jarðvarmavirkjun, sem nefnist enhanced geothermal systems eða EGS, og telja að þá geti þeir fengið allt að 500.000 MW. Jarðhiti er fyrir hendi víðast hvar í jarðskorpunni um heim allan, en til að nýta hann þarf að koma á hringrás vatns eða gufu milli heita bergsins djúpt í jarðskorpunni og yfirborðsins, og það getur EGS, segja sérfræðingarnir. Ýtarlega skýrslu er að finna hérhttp://www1.eere.energy.gov/geothermal/future_geothermal.html    Enhanced Geothermal SystemEinn af mikilvægum eiginleikum bergs er leki eða lekt. Við ræðum um þétt berg, þar sem vatn kemst treglega eða ekki í gegnum, og hins vegar lekt berg, þar sem vatnið streymir hratt í gegnum jarðlagið. Gott dæmi um lekt berg eru ungu hraunin á Íslandi, eða jarðlög á sprungusvæðum, þar sem mikið er um gjár og glufur. Dæmi um þétt eða ólekt berg er til dæmis granít jarðskorpa meginlandanna. Hitinn er mikilli víða í þéttu bergi, en erfitt að ná honum upp. En það er hægt að gera þétt berg lekt, með því að bora niður í það og brjóta það með háum vatnsþrýstingi. Fyritæki sem vinna að virkjun jarðvarma í Kaliforníu dæla nú skolpi niður um holur undir mjög háum þrýstingi. Þrýstingurinn getur verið allt að 100 MegaPascal, eða 1000 bör, sem samsvarar þrýsting á 10 km dýpi í hafinu. Þrýstingurinn er svo mikill í holunum að bergið klofnar og vatnið kemst þannig dýpra og nær hitanum. Nú er dælt niður yfir 11 miljón gallon af skolpi á dag á virkjunarsvæðum í Kaliforníu, sem er 42 miljón lítrar á dag. Vatnið klýfur bergið og hitnar í sprungunum í grennd við mjög heitt berg, sem myndar innskot af kviku í rótum gamalla eldfjalla. Síðan dæla þeir heitu vatni upp úr öðrum holum, og mynda þannig hringrás sem veitir jarðvarma uppá yfirborðið. En nú kann að vera komið babb í bátinn með EGS aðferðina, ef dæma má af fréttum frá Svisslandi og Bandaríkjunum. Nýlega veitti ríkisstjórn Obama fyrirtækinu AltaRock Energy $6 miljón styrk til að vinna að jarðvarmavirkjun á Geysissvæðinu fyrir norðan San Francisco í Kalíforníu. Auk þess hafði fyrirtækið safnað $30 miljónum hjá ýmsum fjárfestum. Í gær tilkynnti fyrirtækið hins vegar að öllum framkvæmdum væri hætt á svæðinu. Sennilega er það aðallega vegna mótmæla frá íbúum nærri virkjununum. Íbúar í bænum Anderson Springs skammt frá virkjuninni tóku eftir miklum fjölda af jarðskjálftum, en sá stærsti varð 5. september, og mældist 2.8 á Richter skalanum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íbúarnir verða varir við jarðskjálfta, en virkjanir af þessu tagi hafa verið að þróast á Geysissvæðinu síðan 1983, og tíðni jarðskjálfta hefur aukist stöðugt síðan, eins og myndin til vinstri sýnir. Anderson Springs skjálftarNú í mánuðinum um var einnig hætt við $60 miljóna jarðvarmavirkjun í Basel í Svisslandi. Reyndar hafði borun og virkjanaframkvæmdum verið hætt árið 2006, og nú er talið að forystumaður fyrirtækisins, jarðfræðingurinn Markus Haring, verði færður fyrir dómstóla fyrir glæpsamlega starfssemi. Nú er talið sannað að skaðlegir jarðskjálftar í Basel nýlega hafi orðið vegna borana og EGS eða vatnsþrýstings tilrauna í berggrunninum í Svisslandi. Fyrsti skjálftinn, sem var 3.4 á Richter skalanum, varð í desember 2006 og olli töluverðu tjóni og miklum ótta. Yfir 3500 eftirskjálftar fylgdu. Viðbrögð almennings - almenningsálitið - hafa nú valdið því að hætt hefur verið við tvö stór verkefni á sviði virkjunar jarðvarma, beinlínis vegna jarðskjálftahættu. Er hætta á slíkum skjálftum í sambandi við jarðvarmavirkjanir á Íslandi? Tvennt þarf að hafa í huga. Í fyrsta lagi er íslenska jarðskorpan allt önnur, sprungin, margklofin og mynduð á flekamótum sem eru sífellt að gliðna. Í öðru lagi hefur EGS aðferðinni ekki enn verið beitt í neinum mæli hér á landi. Ef íslendingar fara að bora mikið dýpra er hætt við að djúpbergið sé svo þétt, að EGS aðferinni verði beitt, og þá má búast við skjálftavirkni í kjölfar þess. Þá kemur upp stóra spursmálið: hversu langt mun íslenskur almenningur þá beygja sig til að þjóna stóriðjunni og virkjanaframkvæmdum?

Nýja myndin í Eldfjallasafni

RosarEitt af erindum mínum til Indónesíu í nóvember var að finna nýtt listaverk af eldgosi fyrir Eldfjallasafn í Stykkishólmi. Ég var vakandi fyrir slíkum myndum alla ferðina, en leitin byrjaði fyrir alvöru þegar ég kom í bæinn Ubud á eynni Balí. Hér eru bókstaflega hundruðir listamanna og handverksmanna staðsettir, mörg gallerí og úr miklu að velja. Einn daginn kíkti ég inn á Purpa Gallery í Ubud, og viti menn: hér var stórt olíumálverk af gjósandi eldey. Málverkið er eftir B. Rosar (1946), sem er þekktur málari frá borginni Bandung á Jövu. Rosar er alltaf nokkra mánuði í Ubud og málaði þá þessa mynd, sem er um 140 sm á kannt. Ég festi kaup á myndinni og er hún nú á leið til Íslands. Takið eftir að eldeyjan er gjósandi og að hraun rennur niður hlíðint til hægri. Rosar hefur að öllum líkindum orðið fyrir áhrifum af eldgosinu sem hefur staðið yfir í nokkur ár á eynni Anak Krakatau og vekur mikla athygli. Krakatau er eldstöð í Sunda sundi, milli Jövu og Súmötru, en eitt frægasta gos sögunnar varð hér árið 1883.Rosar close up Þá sprakk Krakatau, hrundi saman, hvarf í hafið, en upp reis mikil flóðbylgja sem skall á strandir Jövu og Súmötru sem 35 metra há alda. Yfir 36 þúsund manns fórust. Mikil askja myndaðist neðansjávar, um 10 km í þvermál og yfir 250 m djúp. Eldvirkni hefur haldið áfram á hafsbotni og árið 1928 kom nýtt eldfjall upp á yfirborðið í öskjunni, sem var nefnt Anak Krakatau eða “barn Krakatau”. Anak er nú meir en 300 metrar á hæð yfir sjávarmál, og hækkar stöðugt þar sem sprengingar og hraunrensli bæta sífellt ofaná. Ég hef starfað mikið að rannsóknum á Krakatau síðan 1988 og held þangað væntanlega aftur árið 2010.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband