Verður afturkippur í virkjun jarðvarma?
16.12.2009 | 20:01
Mikið erum við íslendingar heppnir, að eiga jarðvarma og hitaveitu, sem heldur á okkur hlýju á þessum síðustu og verstu tímum! Reyndar vitum við nú, að virkjanir á jarðvarma eru ekki sjálfbærar, og að neikvæð umhverfisáhrif eru töluverð frá þeim, en þetta eru leysanleg og viðráðanleg vandamál. Framtak íslendinga á sviði nýtingar jarðvarma hefur vakið athygli meðal annara þjóða og hefur verið litið til jarðvarmavirkjana sem eins af mörgum þáttum í orkubúskap sem geta dregið úr losun koldíoxíðs og loftslagsbreytingum. Borun og rannsóknir á jarðhitasvæðum erlendis hefur því aukist til muna. Bandaríkjamenn tala nú til dæmis um að allt að 10% af orkuþörfinni komi frá jarðvarma í framtíðinni. The Geysers í Kaliforníu er stærsta jarðvarmavirkjanasvæði í heimi, með um 2500 MW. Nú hugsa ameríkanar stórt, og vilja beita nýrri tækni í jarðvarmavirkjun, sem nefnist enhanced geothermal systems eða EGS, og telja að þá geti þeir fengið allt að 500.000 MW. Jarðhiti er fyrir hendi víðast hvar í jarðskorpunni um heim allan, en til að nýta hann þarf að koma á hringrás vatns eða gufu milli heita bergsins djúpt í jarðskorpunni og yfirborðsins, og það getur EGS, segja sérfræðingarnir. Ýtarlega skýrslu er að finna hérhttp://www1.eere.energy.gov/geothermal/future_geothermal.html Einn af mikilvægum eiginleikum bergs er leki eða lekt. Við ræðum um þétt berg, þar sem vatn kemst treglega eða ekki í gegnum, og hins vegar lekt berg, þar sem vatnið streymir hratt í gegnum jarðlagið. Gott dæmi um lekt berg eru ungu hraunin á Íslandi, eða jarðlög á sprungusvæðum, þar sem mikið er um gjár og glufur. Dæmi um þétt eða ólekt berg er til dæmis granít jarðskorpa meginlandanna. Hitinn er mikilli víða í þéttu bergi, en erfitt að ná honum upp. En það er hægt að gera þétt berg lekt, með því að bora niður í það og brjóta það með háum vatnsþrýstingi. Fyritæki sem vinna að virkjun jarðvarma í Kaliforníu dæla nú skolpi niður um holur undir mjög háum þrýstingi. Þrýstingurinn getur verið allt að 100 MegaPascal, eða 1000 bör, sem samsvarar þrýsting á 10 km dýpi í hafinu. Þrýstingurinn er svo mikill í holunum að bergið klofnar og vatnið kemst þannig dýpra og nær hitanum. Nú er dælt niður yfir 11 miljón gallon af skolpi á dag á virkjunarsvæðum í Kaliforníu, sem er 42 miljón lítrar á dag. Vatnið klýfur bergið og hitnar í sprungunum í grennd við mjög heitt berg, sem myndar innskot af kviku í rótum gamalla eldfjalla. Síðan dæla þeir heitu vatni upp úr öðrum holum, og mynda þannig hringrás sem veitir jarðvarma uppá yfirborðið. En nú kann að vera komið babb í bátinn með EGS aðferðina, ef dæma má af fréttum frá Svisslandi og Bandaríkjunum. Nýlega veitti ríkisstjórn Obama fyrirtækinu AltaRock Energy $6 miljón styrk til að vinna að jarðvarmavirkjun á Geysissvæðinu fyrir norðan San Francisco í Kalíforníu. Auk þess hafði fyrirtækið safnað $30 miljónum hjá ýmsum fjárfestum. Í gær tilkynnti fyrirtækið hins vegar að öllum framkvæmdum væri hætt á svæðinu. Sennilega er það aðallega vegna mótmæla frá íbúum nærri virkjununum. Íbúar í bænum Anderson Springs skammt frá virkjuninni tóku eftir miklum fjölda af jarðskjálftum, en sá stærsti varð 5. september, og mældist 2.8 á Richter skalanum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íbúarnir verða varir við jarðskjálfta, en virkjanir af þessu tagi hafa verið að þróast á Geysissvæðinu síðan 1983, og tíðni jarðskjálfta hefur aukist stöðugt síðan, eins og myndin til vinstri sýnir. Nú í mánuðinum um var einnig hætt við $60 miljóna jarðvarmavirkjun í Basel í Svisslandi. Reyndar hafði borun og virkjanaframkvæmdum verið hætt árið 2006, og nú er talið að forystumaður fyrirtækisins, jarðfræðingurinn Markus Haring, verði færður fyrir dómstóla fyrir glæpsamlega starfssemi. Nú er talið sannað að skaðlegir jarðskjálftar í Basel nýlega hafi orðið vegna borana og EGS eða vatnsþrýstings tilrauna í berggrunninum í Svisslandi. Fyrsti skjálftinn, sem var 3.4 á Richter skalanum, varð í desember 2006 og olli töluverðu tjóni og miklum ótta. Yfir 3500 eftirskjálftar fylgdu. Viðbrögð almennings - almenningsálitið - hafa nú valdið því að hætt hefur verið við tvö stór verkefni á sviði virkjunar jarðvarma, beinlínis vegna jarðskjálftahættu. Er hætta á slíkum skjálftum í sambandi við jarðvarmavirkjanir á Íslandi? Tvennt þarf að hafa í huga. Í fyrsta lagi er íslenska jarðskorpan allt önnur, sprungin, margklofin og mynduð á flekamótum sem eru sífellt að gliðna. Í öðru lagi hefur EGS aðferðinni ekki enn verið beitt í neinum mæli hér á landi. Ef íslendingar fara að bora mikið dýpra er hætt við að djúpbergið sé svo þétt, að EGS aðferinni verði beitt, og þá má búast við skjálftavirkni í kjölfar þess. Þá kemur upp stóra spursmálið: hversu langt mun íslenskur almenningur þá beygja sig til að þjóna stóriðjunni og virkjanaframkvæmdum?
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Jarðhiti, Jarðskorpan | Breytt 21.3.2010 kl. 14:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.