Eru leyndardómar Snæfellsjökuls að skýrast?

Snæfellsjökull eftir LarsenHér fylgir mynd af Snæfellsjökli, gerð af danska listamanninum Carl Emanuel Larsen árið 1845. Hana má sjá í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Þetta er koparstunga en sama myndform er til sem olíumálverk af Snæfellsjökli eftir Larsen og hangir það uppi í öndvegi á Bessastöðum. Larsen (1823-1859) sigldi til Íslands árið 1845 og málaði hér víða, einnig málaði hann Heklugosið 1845. Snæfellsjökull er nær einstakt meðal íslenskra eldfjalla að vera í laginu eins og hrein keila, úr hvaða átt sem litið er til fjallsins. Því svipar á þann hátt til Fuji eldfjalls í Japan. Ástæðan fyrir hinu fagra formi er sú, að eldfjallið situr ekki á eiginlegu sprungusvæði, eins og flest eldfjöll hérlendis, heldur hleðst það upp í kringum staðbundna kvikurás í miðri eldstöðinni. Hið fagra form Snæfellsjökuls virðist hafa einskonar aðdráttarafl og dulbúna töfra fyrir marga sem koma þar nærri. Fjallið hlaut heimsfrægð sem gáttin á leið til miðju Jarðarinnar í skáldsögu Jules Verne. Snæfellsjökull er merkilegt fjall á margan hátt. Jökulsins er getið strax við landnám, þegar Bárður Dumbsson nemur hér land. Kokfelt sniðÁ efri árum gekk Bárður í jökulinn en var mönnum minnistæður og varð eini heitguð íslendinga. “Var hann tröllum og líkari að afli og vexti en mennskum mönnum og var því lengt nafn hans og kallaður Bárður Snjófellsás því að þeir trúðu á hann nálega þar um nesið og höfðu hann fyrir heitguð sinn. Varð hann og mörgum hin mesta bjargvættur.” Síðan hefur haldist sú trú meðal almennings að sérstakur kraftur búi í Snæfellsjökli, jafnvel himneskur. Eitt er víst, að mikill jarðneskur kraftur býr í jöklinum, enda er hann virkt eldfjall. Síðustu gos hér urðu fyrir um 1750 árum, og ef til vill eru nokkur hraun eins og Væjuhraun jafnvel yngri. Þrátt fyrir heimsfræð sína, þá hefur eldfjallið Snæfellsjökull ekki enn verið rannsakað sem skyldi. Nú hefur verið bætt úr því að hluta til, með merkri grein eftir þýska og bandaríska jarðfræðinga, þar sem þeir fjalla um jarðefnafræði hrauna sem runnið hafa frá Snæfellsjökli. Greinin birtist í Geochimica et Cosmochimica Acta (73, 2009, 1120–1144). Það er ein eða fleiri kvikuþró undir eldfjallinu. Kvika eða glóðheitt bráðið berg streymir upp úr möttli jarðarinnar og safnast fyrir í þrónni, en sú kvika myndar bergtegundina ólivín basalt þegar hún storknar. Með tímanum breytist efnasamsetning heitu kvikunnar í þrónni. Við skulum kalla kvikuna sem kemur beint úr möttlinum frumkviku, en eftir langan tíma (sennilega um 66 þúsund ár) breytist hún í kviku sem er ríkari af kísil og við köllum þróaða kviku, en undir Snæfellsjökli myndar hún bergtegund sem er nefnd trakít. Þeir félagar mældu fimmtíu frumefni í yfir tuttugu hraunum og öðrum gosefnum frá Snæfellsjökli. Snaefellsjokull póstkortEitt merkilegt atriði sem kemur fram við þessar rannsóknir er, að þróaða kvikan gýs oftast úr toppgíg, en frumkvikan gýs fjær fjallinu. Myndin til vinstri sýnir tvö hugsanleg líkön af kvikuþrónni eða kvikuþróm Snæfellsjökuls, sem eru byggð á þessum niðurstöðum úr jarðefnafræðinni. Annars vegar er líkan af stórri kvikuþró, sem er lagskift. Hins vegar er likan af nokkrum smáum kvikuþróm, sem hafa mismunandi efnasamsetningu. Jarðefnafræðin hefur því fært okkur anzi langt í ráðgátunni með innri gerð Snæfellsjökuls, en næsta stig er auðvitað að beita jarðeðlisfræðilegum aðferðum til að leysa leyndardóma Snæfellsjökuls. Á því sviði hefur nær ekkert berið gert, og má til dæmis benda á að enginn jarðskjálftamælir er staðsettur í grennd við jökulinn og reyndar enginn á öllu Snæfellsnesi! Það er mikil nauðsyn að bæta úr því nú, þegar spurninga vakna um hvort ein eða fleiri kvikuþrær séu undir fjallinu og hvort kvikuþróin sé nú storknuð.

Glereldfjallið og Móses

GlereldfjalliðEitt af listaverkunum sýnt í Eldfjallasafni í Stykkishólmi er litríkur steindur gluggi af gjósandi eldfjalli. Listaverkið á langa sögu, en ég sá það fyrst fyrir um sex árum, þegar vinur minn Mike Westman ók í hlað hjá mér í Rhode Island veð myndina í skottinu á bílnum. Hann hafði rekist á verkið norðarlega í New York fylki og þar sem honum var vel kunnugt um áhuga minn á myndum af eldgosum, þá sló hann til og keypti myndina. Auðvitað varð ég að kaupa hana af Mike, því maður eyðileggur ekki svona sambönd í antík bransanum. Það sem vitað er um myndina er, að hún er einn af steindum gluggum sem voru í bænarhúsi eða synagogue gyðinga í New York fylki. Bænarhúsið var rifið, og myndin fór á flakk. Myndin er sennilegTiffanya frá um aldamótin 1900 og gerð í New York borg, af öllum líkindum af hinum fræga glersmið Louis Comfort Tiffany.   En hvað eru annars gyðingar að gera með mynd af eldgosi í bænarhúsinu?  Ástæðan er einföld: þetta er mynd af Sínaí fjalli, þar sem Móses tók á móti boðorðunum tíu frá guði, samkvæmt Gamla Testamentinu. Ég veit um aðra mynd af steindum glugga sem sýnir gjósandi eldfjall í bænarhúsi gyðinga í Bandaríkjunum (hún er sýnd hér til vinstri), og sennilega eru slíkar myndir nokkuð algengar í bænarhúsum þeirra. Sú mynd er í Ahabah gyðingamusterinu í Richmond í Virginíu, í Bandaríkjunum, og er saga þeirrar myndar vel skráð en hún er frá 1923 og einnig eftir Tiffany. En hvers vegna er Sínaí fjall sýnt sem gjósandi eldfjall í báðum myndunum? Við verðum að lesa Gamla Testamentið frekar til að skilja það, og reyndar einnig að athuga hvað sjálfur Sigmund Feud hefur að segja. Árið 1939 kom út merk bók eftir hinn fræga austurríska sálfræðing og faðir sálgreiningarinnar, Sigmund Freud: Der Mann Moses und die monotheistische Religion (“Móses og trúin á einn guð”). Freud var gyðingur, en eins og kunnugt er þá leikur Móses lykilhlutverk í Gamla Testamentinu (Torah) og er því mikilvæg persóna fyrir bæði gyðinga og kristna.  SinaíÁ bls. 55 setur Freud fram þá kenningu að eftir flóttann frá Egyptalandi hafi gyðingar tekið sér guðinn Jahve eða Jéhóva, sem hafi verið eldfjallsguð. Eins og kunnugt er, þá fékk Móses boðorðin tíu frá guðshendi á Sínaífjalli, en athöfnin ber mörg einkenni sem líkjast eldgosi, eins og Freud og fleiri hafa bent á. Önnur Mósesbók (19) í Gamla Testamentinu hefur þetta að segja um atburðinn:“Þá sagði Drottinn við Móse: "Sjá, ég vil koma til þín í dimmu skýi, svo að fólkið heyri, er ég tala við þig, og trúi þér ævinlega." “Á þriðja degi mun Drottinn ofan stíga á Sínaífjall í augsýn alls lýðsins. En þú skalt marka fólkinu svið umhverfis og segja: ,Varist að ganga upp á fjallið eða snerta fjallsræturnar.' Hver sem snertir fjallið, skal vissulega láta líf sitt.” “Á þriðja degi, þegar ljóst var orðið, gengu reiðarþrumur og eldingar, og þykkt ský lá á fjallinu, og heyrðist mjög sterkur lúðurþytur. Skelfdist þá allt fólkið, sem var í búðunum. Þá leiddi Móse fólkið út úr búðunum til móts við Guð, og tóku menn sér stöðu undir fjallinu. “Sínaífjall var allt í einum reyk, fyrir því að Drottinn sté niður á það í eldinum. Mökkurinn stóð upp af því, eins og reykur úr ofni, og allt fjallið lék á reiðiskjálfi.”En vandinn er sá að enginn hefur nokkra hugmynd um hvar Sínaífjall Gamla Testamentisins er raunverulega staðsett! Fjallið sem er kallað Sínaí í dag er ekki eldfjall, heldur úr graníti. Freud hélt því fram að atburðurinn hefði gerst í Meribat-Qades í noðrvestur hluta Arabíu, við austur strönd Aqaba flóa, þar sem Midianitar búa, en Móses var hér fyrrum í útlegð í 40 ár. Eitt af eldfjöllunum sem hafa verið nefnd í þessu sambandi er Hala-'l Badr í norðvestur hluta Saudi Arabíu. Harral KhaybarÞað eru átján eldfjöll í Arabíu og sum þeirr hafa verið virk nýlega. Það má til dæmis benda á Harrat Lunayyir, sem gaus í kringum 1000 AD, og Harrat Khaybar, sem myndin er af til vinstri. Engin alvarleg rannsókn hefur verið gerð ennþá á því, hvaða eldfjall í Arabíu gæti passað við þjóðsöguna um Sínaí. Er það ekki dálítil kaldhæðni að gyðingar – og margir kristnir – séu að gera sína pílagrímsferð á vitlaust fjall í Egyptalandi, en rétta fjallið er í Arabíu?

Liang Bua og Hobbitarnir á Flores

HomosÉg var ákveðinn í því að komast alla leið austur til eyjarinnar Flores á ferð minni um Indónesíu í nóvember 2009. Hvað er svona spennandi við Flores? Eyjan er um 375 km á lengd, hálend, og full af eldfjöllum. Eini vegurinn sem nær eftir eynni endilangri er ótrúlega krókóttur, holóttur og seinfarinn, en samt þurfti ég að fara austur til Flores. Jú, þar bjuggu hobbitarnir áður fyrr. Ég skal skýra þetta frekar. Þangað til í september árið 2003 var það álit vísindamanna að mannkynið, þ.e. fólk eins og við, Homo sapiens, hefðum verið ein í heiminum síðan Neanderthal maðurinn (Homo neanderthalensis) varð útdauður fyrir um 30 þúsund árum.Hellir Í september 2003 breyttist allt þetta, þegar leifar af áður óþekktum mannverum fundust í hellinum Liang Bua á Flores. Hellirinn var fyrst rannsakaður í kringum 1955 af hollenskum kaþólskum presti sem bjó lengi á Flores, Theodor Verhoeven að nafni. Hellirinn er í kalksteini frá Tertíera tímanum, en hann er um 14 km fyrir norðan bæinn Ruteng, þar sem ég fékk ágæta næturgistingu hjá nunnum í kaþólska klaustrinu. Það eru um 25 km frá hellinum og til strandar fyrir norðan Flores. Frá hellisopinu er litið yfir fagran dal, sem er þakinn hrísökrum, og yfir Wae Racang ána, í um 500 metra hæð yfir sjó. Hlið við hliðHellirinn er um 30 m á breidd, 25 m á hæð og 40 m langur. Það er um 12 metra þykkt lag af sandi, leir og mannvistarleifum í hellisgólfinu í Liang Bua og enn er aðeins lítill hluti þess kannaður. Beinagrindin sem fannst árið 2003 er af konu, sem var rétt um einn meter á hæð, en síðan hafa fundist leifar af alls 14 einstaklingum í hellisgólfinu. Yngstu beinin eru um 17 þúsund ára gömul, og ofan á þeim hvílir ljóst lag af eldfjallsösku. Fornleifafræðingarnir hafa gizkað á, að útdauði hobbitanna hafi ef til vill orsakast af áhrifum frá þessu eldgosi. Einnig fundust steinaldar tól af ýmsu tagi við uppgröftinn, sem flest voru unnin úr tinnu eða hraunsteini. Það er ljóst að hobbitarnir voru gáfaðir og hagir og bjuggu til og notuðu verkfæri, og nýttu sér einnig eldinn til matreiðslu. Þeir voru því greinilega þróaður kynþáttur. KortSamt var heilabú þeirra mjög smátt, eða aðeins um 400 rúmsentimetrar. Til samanburðar er heilinn hjá okkur Homo sapiens í kringum 1100 rúmsentimetrar. Ferðalagið var strembið. Fyrst tók það okkur tvo daga að komast til bæjarins Ruteng, eftir krókóttum vegum. Síðan var ekið norður um hálendi, og þá niður í fagran dal þar sem hellirinn er. Það er áhrifarík stund þegar maður kemur inn í Liang Bua hellinn. Hvelfingin yfir höði manns virðist risastór, en niður úr henni hanga hundruðir af leirsteinskertum, sem gefa hellinum skrautlegt útlit. Gólfið er nokkuð slétt, en góð birta fellur inn í hellinn innum stóra opið. Afmarkaðir reitir á gólfinu sýna hvar fornleifafræðingar hafa grafið, og svæðin eru ferhyrnd, um 2 til 4 metrar á kannt. Að loknum uppgreftri er mokað ofaní aftur. Það er ljóst að mikið svæði er enn ókannað, og er spennandi að bíða frekari uppgötvana hér. Aðgangur var greiður, og ekkert eftirlit var haft með því hvort við værum að grúska, grafa eða bara taka myndir. En samt er byrjað að undirbúa Liang Bua sem ferðamannasvæði og er líklegt að fjöldi fólks leggi leið sína hingað í framtíðinni. Ferðin er vel þess virði, ekki bara fyrir landslagið og dalinn fagra. TólÍbúar Flores eyjar hafa þjóðsögur og sögusagnir um lítið fólk sem býr í frumskógum eyjarinnar. Umsjónarmaður Liang Bua sagði mér að hann gæti farið með mig heim til lifandi fólks í þorpinu sem væri alveg eins og hobbitarnir, og aðeins rúmlega meter á hæð. Þegar ég sýndi málinu áhuga, þá tjáði hann mér að það myndi kosta mig $20 að sjá konuna og $30 manninn. Ég áttaði mið þá á að ferðaiðnaðurinn er kominn vel af stað í Liang Bua, og hætt við að hér verði kominn sirkus eftir nokkur ár. Ég afþakkaði boðið.Í fyrstu var deilt mikið um eðli og uppruna hobbitanna meðal mannfræðinga og fornleifafræðinga. Sumir héldu því fram að þeir væru bara dvergvaxnir menn, Homo sapiens, og ekki ný tegund. Þeir sem voru á þessari skoðun bentu á að dvergvaxið fólk og dýr kunna að þróast á eyjum þar sem framboð fæðu er takmarkað og þar sem litlir einstaklingar komast betur af en stórt fólk - þeir þurfa minna í matinn. Nú virðast langflestir vera hins vegar á þeirri skoðun að hobbitarnir séu ný og óþekkt tegund, Homo floresiensis, sem á engan sinn líka. Það er því fróðlegt að skoða hobbitana í samhengi við Homo sapiens og aðra fjarskylda ættingja okkar manna, eins og myndin fyrir neðan sýnir:Ættingjarnir 1: Homo habilis (verkamaðurinn), var uppi fyrir 1.6 til 2.4 miljón árum.2: Homo sapiens (nútímamaðurinn), hefur ríkt á jörðu sl. 200 þúsund ár.3: Homo floresiensis (hobbitinn), var uppi frða um 95 þúsund til 13 þúsund árum.4: Homo erectus (uppréttur maður), var uppi fyrir 1.8 miljón til 100 þúsund árum.5: Paranthopus boisei (hnetubrjóturinn), var uppi fyrir 2.3 til 1.4 miljón árum.6: Homo heidelbergensis (Golíat), var uppi fyrir 700 til 300 þúsund árum.7: Homo neanderthalensis (Neanderthal), var uppi frá um 250 þúsund til 30 þúsund árum.


Bromo - Eldfjall Guðanna

BromoÉg kleif Bromo eldfjall nýlega, en til að kunna að meta mikilvægi þess fjalls, þarf að hafa stuttan formála varðandi mannkynssöguna. Á miðöldum var mikið ríki á eynni Jövu í Indónensíu sem kallað var Majapait keisaraveldið. Áhrifa þess gætti um allar eyjarnar, en hornsteinn Majapait voru hindú trúarbrögðin. Senilega hefur Majapait ríkið átt uppruna sinn að rekja til Indlands, en trúin, siðir og hættir voru allir á indverska vísu. Hápúnktur Majapai veldisins var undir stjórn Hayam Wuruk, frá 1350 til 1389, en þá náði veldið yfir alla Indónesíu, Filipseyjar, Malaísíu, Singapore, og víðar. Á elleftu öld fóru kaupmenn frá Arabíu fyrst að verzla í Indónesíu og byrjuðu að setjast að í helstu hafnarborgum eyjanna. Með þeim barst múslimatrúin og breiddist ótrúlega hratt út.  Caldera 2Á sextándu öld voru áhrif múslima orðin svo mikil, að Majapait veldið hrundi. Aðallinn flúði til eyjarinnar Bali, en þar er hindú trúin og menning Majapait veldisins enn varðveitt meðal 95% eyjarskeggja. Á Jövu tóku múslimar öll völd, en lítill hópur frá gamla Majapait og hindú trúandi manna flúði til fjalla og setist að í grennd við eldfjallið Bromo og þar eru þeir enn. Þjóðsagan segir, að Majapait prinsessan Roro Anteng og maður hennar Joko Seger hafi stofnað þar lítið ríki undir nafninu Tengger, sem er samansett úr nöfnum þeirra hjóna, en hálenda svæðið Tengger er eitt stærsta eldfjall í Indónesíu. Veldi þeirra hjóna í Tengger var í miklum blóma en í fyrstu var þeim ekki barna auðið. Þau klifu þá eldfjallið Bromo og báðu guðina að veita þeim frjósemi. Guðirnir urðu við bæninni, en með því skilyrði að þau fórnuðu síðasta barninu í gíginn. Þau eignuðust 25 börn, og þegar hið síðasta fæddist, þá varð prinsessan ekki við skipan guðanna. Guðirnir hefndu sín með miklu eldgosi, sem varði þar til hún fórnaði barninu. SemeruSíðan færa Tengger búar árlega fórnir á barmi Brómo gígsins enn í dag, þar sem þeir varpa nautum, geitum og öðru góðgæti niður í hyldýpið. Enn búa afkomendur Tengger fólksins umhverfis Bromo og stunda aðallega akuryrkju og reka ferðaiðnað. Þeir leigja út hesta fyrir reiðtúra um öskjuna, og veita leiðsögn um fjöllin. Tengger askjan er 16 km í þvermál, en hún er óvenjuleg, þar sem hún er ekki hringlaga, eins og flestar öskjur, heldur eins og tígull í laginu. Sjá loftmynd og gervitunglsmynd sem hér fylgir. Askjan hefur myndast í kjölfar á miklu sprengigosi, og er talið að það hafi orðið fyrir um 2000 árum. Myndin til hliðar sýnir jarðlag á öskjubrúninni, sem er aska og vikur frá sprengingunni. Bromo er virkt eldfjall, og er stöðugt strókur af gufu og brennisteinsgasi uppúr gígnum. Bromo gýs með fárra ára millibili. Öðru hvoru verða stærri sprengingar, en sú síðasta varð í júní 2004. Þá fórust tveir sem voru á gígbrúninni og sjö aðrir særðust illa. Skammt fyrir sunnarn Tengger öskjuna er eldfjallið Semeru sem er hæsta fjall á Jövu, eða 3676 metrar.  BatokSemeru er einnig virkasta eldfjall Indónesíu og gýs með um 20 mínútna fresti. Semeru er mikilvægasta fjall í Indónesíu að áliti hindú trúarmanna. Hér er mynd sem sýnir hindú dýrkun í hlíðum Semeru, á meðan á gosi stendur. Oft farast prestarnir við þesskonar athöfn. Eldfjallið Agung á Bali er mikið dýrkað, en Smeru er talið vera faðir Agung, og því lang merkast. Það er ógleymanleg sjón að sjá sólina koma upp yfir Tengger öskjunni, en þa gerist um kl. 5 að morgni. Smátt og smátt breiðist birtan yfir gígana, hvern á eftir öðrum, fyrst Semeru, þá Batok, og síðan Bromo. Við hliðina á Bromo er útkulnað eldfjall sem nefnist Batok. Eins og sjá má á myndinni til hliðar er Batok óvenjulegt fjall, vegna rofs og veðrunar sem hefur myndað djúpar rákir og rennur í hlíðar fjallsins. Það stafar af því að Batok er myndað af eldfjallsösku, sem regn og vindar veðra og rífa niður á skipulegan hátt. Hér fyrir neðan er mynd af Bromo og Tengger öskjunni sem ég tók í nóvember, 2009. Það var ógleymanleg sjón að sjá sólaruppkomu yfir eldfjöllunum. Besta mynd sem ég hef séð af öskjunni var reyndar tekin af John Stanmeyer 2007, og má finna hana hér:http://ngm.typepad.com/our_shot/november-30-2007.html

Leirgos á Jövu

Sidoarjo Mud FlowÍ lok nóvember 2009 átti ég leið um eyna Jövu í Indónesíu, en hún er töluvert stærri en Ísland (um 133 þúsund ferkílómetrar) og hér búa að minnsta kosti 150 miljón manns. Eitt af mörgum furðuverkum á Jövu er leirgosið sem hefur kaffært bæinn Sidoarjo síðan 2006 og heldur stöðugt áfram að ausa út heitum leir. Myndin til vinstri er tekin úr geimfari.  Leirgosið í Sidoarjo er klassískt dæmi um hamfarir af manna völdum, orsakaðar af algjörum klaufaskap, en djúptæk spilling meðal yfirvalda Indónesíu hefur leyft sökudólgunum að sleppa til þessa. Forsagan er sú, að olíufyrirtækið og gasrisinn Lapindo Brantas boraði holu eftir jarðgasi í maí 2006 nálagt bænum Sidoarjo á austur hluta Jövu. Þegar holan var orðin rúmlega einn km á dýpt, þá fóðruðu þeir holuna með stálpípum. Borun hélt áfram og enn dýpra, en án fóðrunar á neðri hluta holunnar. Þá streymdi heitt vatn, leðja og gas upp holuna, bæði innan stálrörsins og utan þess og þeir misstu alveg stjórn á holunni.  Gos 3Auk þess byrjaði að gjósa leir og gasi 200 m frá holunni og siðar einnig í um 800 metra fjarlægð.Holan víkkaði mikið og er nú orðin stór gígur, þar sem gýs stöðugt upp heitt vatn og gufa, leðja, gas og olía. Gufustrókarnir ná nokkur hundruð metra hæð, og svartar leðjuslettur kastast tugi metra í loft upp. Talið er að um ein miljón rúmmetrar af leðju komi upp úr gígnum á degi hverjum. Allt umhverfið er þakið leðju, sem hefur myndað leirlag sem er meir en tuttugu metrar á þykkt. Leðjan hefur umlukið íbúðarhús í bænum og fært mörg þeirra í kaf. Ennig eru margar verksmiðjur farnar undir leirinn. Meir en fimmtíu þúsund manns hafa orðið að yfirgefa heimili sín og leirfjallið er nú orðið meir en tuttugu metrar á hæð, og þekur svæði sem er meir en 24 ferkílómetrar. Yfir áttatíu þúsund manns búa rétt utan við varnargarðana og eru í stöðugri hættu ef þeir bresta. Tjón og kostnaður við aðgerðir er nú metið á um $4 milljarða.Garður  Allt hefur veri reynt til að stöðva leirgosið og sumt örvæntingarfullt. Ein tilraunin var að láta þúsundir af meter-stórum steinsteyptum kúlum síga niður í gíginn, í von um að það kynni að reka tappann í gosið, en ekkert breyttist við það. Flóðgarðar hafa verið reistir allt í kringum svæðið, og eru þeir tíu til tuttugu metrar á hæð. Það er furðuleg sjón að líta á risastóra leirtjörnina liggja fast að brúnum garðanna, en íbúðarhús í næstu þorpum eru rétt við vegginn, og eru miklu lægri en varnargarðarnir.Framkoma stjórnvalda í þessu máli hefur verið mjög umdeild í Indónesíu og er gott dæmi um spillingu hér í landi. Aðal eigandi olíu og gas félagsisns Lapindo Brantas er Aburizal Bakrie, en hann er einn af fremstu ráðherrum í stjórn Indónesíu. Forseti landsins vill að Lapindo greiði allan kostnað sem hefur orðið af leirgosinu, varðandi byggingu varnargarða, aðstoð við flóttafólk og fleira.EJ20090930 overview p40  En Lapindo harðneitar og segir að hér sé um náttúruhamfarir að ræða, og að gosið hafi orsakast af jarðskjálfta sem var í meir en 300 km fjarlægð. Jarðfræðingar telja það fráleitt og hafa sýnt framá að leirgosið orsakaðist af lélegum aðferðum við borun, en yfirvöldin hafa ekki enn gengið hart á eftir Lapindo með greiðslu. Aðgangur að svæðinu er mjög takmarkaður, en flóttafólk úr þorpunum sem eru farin í kaf hafa reist búðir við þjóðveginn. Reyndar er þjóðvegurinn lokaður, þar sem um 10 km kafli er kominn undir leir. Þegar við nálguðumst svæðið, þá vorum við strax umkringdir af flóttamönnum, sem voru reiðir, illir viðureignar og heimtuðu greiðslu fyrir að hleypa okkur inn á svæðið. Þegar við nálguðumst flóðgarðinn þá tók á móti okkur öryggisverðir Lapindo Brantas félagsins og neituðu okkur um frekari inngang. Yfirmaður öryggisvarðanna var þó viljugur að fara með mig einan á mótorhjóli inná svæðið til að taka myndir, þegar hann frétti að ég væri jarðfræðingur. Við ókum eftir slóða í sleipum leirnum efst á varnargarðinum og inn á þann hluta svæðisins þar sem leirinn hefur þornað og harðnað eins og steinsteypa. Þegar nær kom gígnum þá var leirdrullan rennandi blaut, og streymdi fram 60oC heit blanda af vatni, olíu og leir. LoftmyndUSGSÞað var strek lykt af brennisteinsgasinu H2S. Mér skildist að hver fjölskylda flóttamanna af svæðinu hafi fengið um $200 í bætur, sem er skammarlega lítið. Nú hafa fjögur þorp farið undir leirinn, og fjórtán manns hafa farist. Mér var sagt að 25 verksmiðjur hefðu farið í kaf, og atvinnuleysi er mjög mikið. Ekkert lát virðist enn vera á leirgosinu og jarðfræðingar spá að það muni vara í um 30 ár. Nú er miðjan á leirfjallinu byrjuð að síga niður, vegna þess að svo mikið magn af jarðefnum hefur komið upp á yfirborðið.

Brennisteinsnáman í Ijen

Ijen eldfjallÁ ferð minni um eyna Jövu í Indónesíu í síðastliðinni viku komst ég í kynni við námurekstur af brennisteini sem á engann sinn líka í heiminum, en þetta minnti mig á brennisteinsnámur sem voru reknar á Íslandi fyrir um tvö hundruð árum. Brennisteinn var eftirsótt hráefni í Evrópu strax á miðöldum, bæði til framleiðslu á byssupúðri og sprengiefni og ekki síður sem brennisteinssýra sem var nauðsynlegur þáttur í efnaiðnaðinum sem þá var að hefjast. Helstu brennisteinsnámurnar var þá að finna í eldfjallaeyjunum undan ströndum Ítalíu og á Sikiley. Danakonungar háðu styrjaldir við svía og aðra nágranna sína í Evrópu um þetta leyti og höfðu því mikla þörf fyrir brennistein, en hann er ein aðal uppstaðan í byssupúðri, sem er blanda af 75% saltpétri, 15% koli og 10% brennisteini. Þegar kveikt er í þessari blöndu verða efnahvörf sem breyta púðrinu í þrjár gastegundir sem hafa mörgum sinnum meira rúmmál en púðrið og valda því sprengingu:2 KNO3 + S + 3 C → K2S + N2 + 3 CO2Brennisteinn var lengi unninn á Íslandi, og fyrstu heimildir um það eru frá þrettándu öld. Þannig er til dæmis getið um brennistein og kol í Konungsskuggsjá um 1250, sem mikilvægt efni í sjóorustum. Haraldur í gígnum  Danakonungur áttaði sig snemma á verðmæti þessarar auðlindar á Íslandi og reyndi að ná undir sig einkarétti á námurekstri, útflutningi og verslun með brennistein frá Íslandi. Brennistein er að finna á háhitasvæðum Íslands en þar myndar hann skán við eða rétt undir yfirborði jarðar umhverfis hverasvæðin og var hann þar grafinn úr jörðu við mjög erfiðar aðstæður. Niels Horrebow, danskur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn: 
"Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína, því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt." Aðal námusvæðin voru í Þingeyjarsýslu og á Reykjanesi, eins og fjölmörg örnefni benda til í dag. Í Þingeyjarsýslu eru Reykjahlíðarnámur á sléttu fyrir neðan Námafjall og einnig nokkrar utan í fjallinu og fyrir vestan það. Við Kröflu er og nokkuð af brennisteini, einnig við Þeistareyki, og Fremri Námur uppi á Öræfum, fyrir sunnan Mývatnssveit. Í námuniÁ Reykjanesi eru til dæmis Brennisteinsfjöll og Brennisteinsnámur. Um 73 tonn af brennisteini frá Krísuvík voru flutt út á árunum 1755-1763, og árin 1764 til 1786 voru 24 skipsfarmar af brennisteini fluttir út á ári frá Húsavík. Yfirmaður brennisteinsverksins á Húsavík frá 1783 til 1791 var norðmaðurinn Nikulás Arent Buck, einn forfaðir minn. Mér var hugsað til Nikulásar þegar ég kannaði brennisteinsnámuna í Ijen eldfjalli á eynni Jövu í lok nóvember 2009. Austast á Jövu er mikil eldstöð með nokkrum gígum og raða gígarnir sér upp á brúnir öskju sem er um 20 km í þvermál, en hæsti gígurinn er 2799 m. Austast er gígurinn Ijen, sem gaus síðast 1999 og er 2386 metrar yfir sjó. Í Ijen er gígvatn sem er um einn km í þvermál og um 200 metra djúpt, en vatnsborðið er um 200 metrum fyrir neðan gígbrúnina og mjög bratt niður að fara. NámanVatnið er heitt, oftast um 40oC, marglitt og gruggugt, en sýrustig vatnsins er um 0.5 pH. Vatnið er nokkuð sterk blanda af brennisteinssýru, sem tærir flesta málma og brennir strax göt á fatnað og húð. Á einum stað niður við vatnið er mikið háhita hverasvæði, þar sem fjöldi hvera myndar stóran mökk af gufu og brennisteinsgasi. Hitinn í hverunum er frá 150 til 500oC. Námumenn hafa komið fyrir rörum úr eldföstum leir á hverasvæðinu og leiða heita gasið nokkra metra frá stærstu hverunum. Gasið þettist í rörunum og út úr þeim rennur bráðinn brennisteinn, rauður eins og blóð, á um 200oC hita. Hann storknar strax og myndar skæra gula skán umhverfis hverasvæðið. Hér ráðast námumennirnir á kólnandi brennisteininn með járnkarla, brjóta hann upp og hlaða stykkjunum í körfur, sem þeir bera síðan upp úr gígnum og niður af eldfjallinu. Aðstæður við námuna eru mjög erfiðar og reyndar stórhættulegar. Mesta hætta námúmannanna eru eldgos, en það síðasta var 1999. BurðarmennGasmökkurinn sem námumennirnir vinna í daglega er heitur og erfitt að ná andanum. Einnig er mikið af SO2 gasi, sem fer í andfærin og brennir slímhúðina í nefinu og lungum og augum. Sumir eru með gas grímu en flestir eru bara með vasaklút fyrir vitum. Ég þoldi ekki við lengur en fimm mínútur hjá þeim í mökknum. Þeir eru flestir ungir, og segja að þeir elstu, em eru um fertugt, séu orðnir slappir og veikir. Allir eru síhóstandi og á stígnum upp úr gígnum má víða sjá blóðbletti vegna blæðinga í lungum. Hver þeirra ber tvær körfur fylltar af brennisteini á bambus slá yfir öxlina. Farmurinn er oftast 60 til 80 kíló á mann, en sumir taka allt að 100 kíló í ferð. Það tekur um einn tíma að komast upp úr gígnum, og aðra tvo tíma niður af fjallinu til að afhenda farminn og reykja nokkrar sígarettur fyrir næstu ferð. Þeir fara tvær ferðir á dag, en vinna yfirleitt annan hvorn dag.  BurðarmaðurAlls munu vera um 300 námumenn starfandi í Ijen, og að meðaltali flytja þeir alls um 20 tonn af brennisteini á dag upp úr gígnum. Þegar niður af fjallinu kemur, fær námumaðurinn 600 rupia eða um $0.06 fyrir kílóið af brennisteini. Það er um 7 krónur, og tekjur yfir daginn hjá þeim sterkustu og hraustustu, sem burðast með allt að 100 kg í hverri ferð, eru þá í mesta lagi um 700 krónur. Okkur íslendingum finnst þetta ótrúlega lág laun, en þau eru samt betri en kennari í barnaskóla fær í Indónesíu. Einnig er atvinnuleysi mjög mikið, og þegar tekið er tillit til þess, þá er námuvinnan í Ijen gígnum bara góð uppgrip fyrir unga menn. Gasið sem streymir út úr Ijen gígnum losar um 300 tonn af SO2 á dag út í andrúmsloftið, um 720 tonn af CO2 og 4000 tonn af vatnsgufu. Eldfjallið er því fljótt að bæta upp það magn af brennisteini sem námumenn fjarlægja yfir daginn, og náman er með öðrum orðum sjálfbær og ótæmandi. Á leiðinni niðurÉg dvaldi einn dag í gígnum og fylgdist með starfinu. Mér var strax ljóst að enginn staður á jörðu er sennilega líkari hugmyndum manna um víti eða Inferno. Hér niðri í iðrum jarðar fór saman ofsalegur hiti, stækja, sífelldur reykmökkur, hávaði frá hvæsandi hveraholum, og mikill fjöldi fáklæddra manna sem gengu inn og út úr reyknum, vopnaðir löngum járnkörlum sem þeir brutu brennisteininn með. Jörðin umhverfis okkur var algjörlega skærgul á lit, og ég hef aldrei séð svo mörg afbrigði af gula litnum. Öðru hvoru glitti í blóðrauðann leka, þar sem bráðinn brennisteinn rann frá hvernum, kólnaði, storknaði og varð gulur. Við fætur okkar var rjúkandi heitt og undarlega litað gígvatnið, sem er hvorki hægt að drekka úr né að baða sig í. Mér fannst ég vera kominn í annan heim.  WeighingHér var hinn sanni raunveruleiki, en tilveran utan eldfjallsins var eitthvað fjarstætt og langt í burtu. Mennirnir unnu látlaust, og eyddu engum tíma í hangs, því enginn vildi vera lengur í mökknum og á hættusvæðinu en nauðsyn krefur. Strax og körfurnar voru fullar, þá var lagt af stað upp þverbratta brekkuna og uppúr gígnum. Eins og áður getur, þá hefur brennisteinn verið mikilvægt hráefni um alda raðir. Það var árið 1777 að Antoine Lavoisier sýndi fram á að brennisteinn er eitt af frumefnunum en brennisteinn var þá þegar orðinn nauðsynlegur í ýmsum iðnaði. Í dag er framleiðsla á brennisteini um 40 milljón tonn á ári, og er eftirspurnin mest í háþróuðum löndum. Brennisteinn er ekki bara í byssupúðri, en er mikið notaður við hreinsun á olíu, til gerðar á þvottaefni og sem mikilvægur þáttur í áburði. Um 85% af brennisteini fer í að búa til brennisteinssýru, sem er nauðsynleg í pappírsgerð og öllum efnaiðnaði. Í Bandaríkjunum er um 38 milljón tonn af brennisteinssýru framleidd á hverju ári. Í upphafi var allur brennisteinn unninn úr eldfjöllum, eins og í Námaskarði eða á Ijen á Jövu. Nú er öldin önnur, og lang mest af brennisteini er unnið uppúr borholum, þar sem heitu vatni er dælt niður til að bræða brennisteinsrík jarðlög, og bráðinni síðan dælt upp á yfirborðið. Jarðlögin eru að mestu leyti gifs (CaSO4) sem hefur myndast við uppgufun á sjó. En á meðan vinnuaflið á Jövu er enn ódýrt, þá borgar sig fyrir Indónesíu að vinna brennisteininn á hefðbundinn hátt, með námugreftri í Ijen eldfjallinu.

Drekarnir á Komodo

Það Komodo 1mennt álitið, að risaeðlurnar hafi orðið útdauðar fyrir 65 miljón árum síðan, þegar loftsteinn ekki minni en 10 km í þvermál skall á jörðina. Ef dæma skal út frá því sem ég sá á eyjunum Rinca og Komodo í Indónesíu nú í vikunni þá mætti halda að ekki séu þær nú allar horfnar. Komodo eyjaklasinn er einn þekktasti þjóðgarður Indónesíu og ég ferðaðist milli eyjanna á bátnum Binteng Laut í för með Lukman Hidayat, forstöðumanni þjóðgarðsins. Við lögðum upp í ferðina frá bænum Labuhan Bajo ("Krókódílahöfn”) vestast á eynni Flores í Indónesíu, og héldum til eyjarinnar Rinca, sem er gamalt eldfjall eins og reyndar allar eyjar hér um slóðir. Hér var mér afhentur 3 metra langur stafur, sem er klofinn eins og forkur í annan endann, og síðar kom í ljós að þetta er er nauðsynlegt vopn í návígi við Komodo drekana. Mér fannst þetta vera óþarfi, en Lukman fullyrti að drekarnir væru stórhættulegir og miklu verri en krókódílar í viðureign. “Notaðu stafinn til að halda þeim frá þér, og ef þeir ráðast á þig, þá er best að reka forkinn í augun” sagði Lukman. Lukman sagðist aðeins einu sinni hafa komist í hættu og orðið alvarlega hræddur á eyjunum. Hann var einn á ferð í skóginum og tók ekki eftir dreka sem leyndist á bak við tré. Drekinn hljóp á hann og Lukman hafði ekki tíma til að bregða stafnum góða fyrir sig, en tók til fótanna í staðinn, klifraði upp í tré og slapp. Lukman  Hann fullyrðir að drekarnir geti hlaupið á 14 km hraða á klst. Þá hætta þeir að skríða og lyftast frá jörðu og skeiða yfir völlinn eftir bráð sinni.Það eru mörg dæmi þess að drekar hafi drepið menn. Einkum eru það börnin í þorpunum tveimur á Rinca og Komodo sem hafa orðið þeim að bráð. Síðast var það 9 ára strákur á Komodo hinn 4. júní árið 2007. Honum blæddi einfaldlega út eftir árás drekans. Hinn 24. mars 2009 réðust tveir drekar á sjómann, Muhamad Anwar, á Komodo. Hann var að ná sér í ávexti úti í skógi þegar hann varð fyrir árás. Hann var látinn þegar hann barst loks á sjúkrahús á eynni Flores. Eitt þekktasta tilfellið varð árið 1974, en þá var svissneskur barón og náttúruunnandi, Rudolf Biberegg, étinn af drekum. Á fjallsbrún á eynni Komodo stendur hvítur kross, og á honum er eftirfandi áletrun: Til minningar um Baron Rudolf Von Reding Biberegg, fæddur í Svisslandi 8. ágúst 1895 og hvarf hér á eynni hinn 18. júlí 1974. “Hann unni nátúrunni allt sitt líf.”Baróninn var í drekaskoðun með félögum sínum en dróst aftur úr hópnum, og varð viðskila. Eftir mikla leit fannst hatturinn hans, myndavélin og einn blóðugur skór þar sem krossinn stendur. Drekinn hafði étið allt hitt. Einnig hefur drekinn þann leiða sið að grafa upp lík í grafreitum hinna innfæddu í eina þorpinu á Komodo, þar sem um 500 manns búa. Buffalo 2   Af þeim sökum hafa íbúarnir hlaðið stórum hnullungum af kóral og öðru grjóti ofan á grafirnar til að vernda leifar liðinna ættingja. Þegar ég kom í land á Rinca fór Lukman með mig beint til miðstöðvar þjóðgarðsins í Loh Buaya. Við komum fyrst að litlu húsi og Lukman segir: “Hér inni á skrifstofunni varð einn af starfsmönnum mínum fyrir árás nýlega. Hann sat við störf við skrifborðið þegar drekinn greip utan um báða fæturna og særði hann illa, og klippti í sundur slagæðar á báðum fótum. Næst beit drekinn hann á handlegg. Hjálp barst að og maðurinn lifði þetta af, en þetta var bara ungur dreki, innan við tíu ára.” Við fórum inn í skrifstofuna og þar tók á móti okkur ung og falleg kona sem hefur nýlega hafið störf. Ég spurði hana hvort hún kíkti ekki alltaf undir skrifborðið þegar hún kæmi í vinnuna. Hún sagðist alltaf loka útidyrunum. Reyndar voru þær opnar þegar okkur Lukman bar að garði. Þjóðgarðsstöðin í Loh Buaya eru nokkur timburhús í þyrpingu, og eitt þeirra er eldhúsið sem stendur á meir en eins meters háum stultum eða staurum. Þar í skuganum, undir húsinu lágu nokkrir stórir drekar, sumir meir en tveir metrar á lengd. Sumir voru steinsofandi en hinir lágu rólegir og fylgdust með okkur. Lukman var búinn að úthluta mér löngum staf með klofnum enda, og ég var við öllu búinn. “Það er allt í lagi, þeir eru alltaf hérna út af matarlyktinni frá eldhúsinu” sagði Lukman. Ég fór nú að taka Lukman alvarlega og gætti þess að fylgja honum fast á eftir. Mér til léttis, þá rak einn aðstoðarmaður hans lestina á ferð okkar um frumskóginn, svo ég þurfti ekki að líta alltaf um öxl. Við gengum upp gilskorning á Rinca, í áttina að vatnsbóli. Hér rennur stórfljót um regntímann, en nú í lok þurrkatímans í nóvember og desember var árfarvegurinn alveg þurr. Lukman fór varlega og steig mjúkt til jarðar og við forðuðumst að gera hávaða eða tala saman. Eftir háltíma göngu vorum við komnir í grennd við vatnsbólið og strax mátti sjá vitnisburð um verknað drekanna: hauskúpur af öpum, dádýrahorn, og stór hauskúpa af buffaló, prýdd svörtum hornum, lá í árfarveginum. “Þetta er það eina sem þeir skilja eftir, en þeir éta allt hitt” sagði Lukman. “Stundum finnum við dauðann dreka, með dádýrshorn sem stendur út úr maganum. Hann hefur þá gleypt hausinn með hornum og öllu, og beittur broddurinn á horninu gert gat á magann.”Allt í einu stöðvast Lukman og bendir mér á dreka sem liggur flatur í mölinni. Hann er ekki undir 3 metrar á lengd, steinsofandi, og belgurinn úttroðinn af mat. Hér rétt hjá er stór pollur í árfarveginum, og í honum tveir risastórir og kolsvartir buffalóar, á stærð við stærstu naut. Annar var að drekka í rólegheitum, og lagðist í drullupollinn öðru hvoru til að kæla sig. Hinn lá alveg kyrr í pollinum. “Hann er særður af drekabiti, og vill ekki standa upp” sagði Lukman. “Ef hann stendur upp úr vatninu þá finna drekarnir lyktina af rotnandi holdi og koma strax og klára hann.” Rannsóknir sýna að drekinn getur þefað upp bráð sína í meir en 10 kílómetra fjarlægð, en það er ekki bara nefið, heldur einnig langa og klofna tungan sem er þeffærið. Við héldum áfram upp farveginn, og komum að öðrum stórum polli þar sem mikill fjöldi af drekum var saman kominn til að rífa í sig dauðan buffaló. Ég taldi hér sextán dreka, af ýmsum stærðum. Litlu drekarnir voru að rífa út augun úr hausnum, en þeir stóru voru komnir á kaf í kviðholið. Fullsaddir drekar lágu á jörðinni allt í kringum okkur, en Lukman gætti þess að hafa alltaf klofna stafinn tilbúinn á meðan ég var að taka myndir, ef þeir gerðu sig líklega til að ráðast á okkur. Eitt af höfuð einkennum í byggingarstíl húsa í austur hluta Indónesíu er, að þau eru alltaf byggð á stultum eða stólpum, og er gólfið þá um 1.5 metra fyrir ofan jörðu. Er þessi gamli siður í húsagerð ef til vill til þess að vera óhultur frá drekanum í rúminu á nóttinni? Áður fyrr var Komodo drekinn á öllum eyjum í austur hluta Indónesíu, og þar er einmitt þessi húsagerð ríkjandi. Lukman var mjög hrifinn að þessari nýju kenningu minni varðandi hugsanleg áhrif drekans á arkitektúr. Ég benti honum á að skrifstofan á þjóðgarðsstöðinni, þar sem einn starfsmaður Lukmans varð nýlega fyrir árás, er eina húsið í stöðinni sem er ekki á staurum.Komodo drekinn er algjör kjötæta og étur annað hvort hræ, eða veiðir sér í matinn, sem er algengara. Aðal fæðan eru dádýr, sem eru mjög algeng á Komodo, viltur buffalo, villisvín, villtir hestar, fuglar, apar (einig mjög algengir hér), og reyndar allt sem hreyfist. Hann er svo gráðugur að hann étur einnig afkvæmi sín. Af þeim sökum forða ungu drekarnir sér strax upp í tré, um leið og þeir skríða úr egginu. Þeir eru óhultir í trjánum, og lifa fyrstu árin á skordýrum og öðrum smádýrum sem þeir finna í trjánum. Eftir tvö til þrjú ár dirfast þeir að stíga niður til jarðar en eru varir um sig fyrst í stað gagnvart fullorðnum drekum. Lukman sagði mér að drekinn sé alveg stórkostlegur veiðimaður. Hann er mjög vel falinn, þolinmóður að bíða við vatnsbólið og ótrúlega snöggur í hreyfingum þegar bráðin er komin í færi. “Hann er miklu hættulegri en krókódílarnir” fullyrti Lukman, og hann ætti að vita það, eftir margra ára dvöl á eynni Borneó. Komodo drekinn er tegundin Varanus komodoensis og er kallaður ora á máli hinna innfæddu. Hann getur verið allt að 170 kg. Þessi eðlutegund er reyndar fjarskyld risaeðlunum, en tilheyrir monitor eðlutegundinni. Drekarnir drepa bráð sína á tvennan hátt. Ef þeir komast í nágvígi þá geta þeir klippt af útlimi með einu biti, eða rifið dýrið á hold. Hin aðferðin sem þeir nota er að sýkja bráðina með blóðeitrun og éta hana síðar þegar bráðin drepst af sýkingunni eftir um það bil eina viku. Komodo 3Munnvatnið er eitt aðal vopn drekans. Það er oftast blóðlitur á slefanum eða munnvatninu, vegna þess að mikil sár myndast í kjaftinum af brotnum beinum á meðan á matarhöldum stendur. Þetta myndar frábærar aðstæður fyrir bakteríugróður í kjaftinum og er þar að finna að minnsta kosti 57 tegundir. Þar eru til dæmis bakteríurnar Escherichia coli, Staphylococcus, Providencia, Proteus morgani, Pasteurella multocida og P. mirabilis. Bakteríurnar eru svo skæðar að það tekur ekki nema átta tíma að valda blóðeitrun í líkamanum eftir bit. En það er ekki nóg með það. Nýjustu rannsóknir sýna að munnvatnið inniheldur einnig eiturefni sem geta leitt til dauða. Tennurnar er margar og flugbeittar eins og rakvélablöð og einnig eru klærnar langar og hættulegar.Drekarnir eru vel syndir og hafa sést á sundi allt að 1 kílómeter frá landi, og geta kafað niður á amk. 2 m dýpi, þar sem þeir ná sér í fisk í matinn. Sporðurinn er mjög kraftmikill til sunds, og einnig sem vopn á landi. Þeir verpa oftast í september, og eru hreiðrin miklar holur sem þeir grafa í jarðveginn. Þeir verpa um tuttugu til þrjátíu eggjum, sem ungast út eftir um 7 til 8 mánuði, oftast í apríl, þegar einmitt er mest af skordýrum, en ungviðið lifir í fyrstu aðallega á skordýrum. Mikill hluti af eggjunum er étinn af villisvínum og viltum hundum og jafnvel móðurinni sjálfri. Drekarnir lifa í meir en 50 ár, og er talið að aðeins um 3000 drekar séu nú á lífi á Komodo eyjum. Stofninn er því lítill og í mikilli hættu.Það er furðulegt að Komodo drekinn var ekki uppgötvaður af vísindamönnum fyrr en 1910, en það sýnir hversu afskekktar Komodo eyjar eru. Auðvitað hafa innfæddir þekkt ora í margar aldir, en byggð hefur aldrei verið fjölmenn á eyjunum, vegna vatnsskorts. Þorpið á Komodo var stofnað fyrir um þrjú hundruð árum sem fanganýlenda, og voru afbrotamenn frá Sumbawa og Flores sendir þangað til refsingar. Vafalaust hefur mannkynið komist í tæri við Komodo drekann í mörg þúsund ár, þegar hann var miklu útbreiddari í Austur Indíum. Í kínverskri menningu er til dæmis drekinn mjög mikilvægt fyrirbæri, bæði í myndlist og sögnum, og hafa menn velt því fyrir sér að Komodo drekinn sé fyrirmynd kínverska drekans.Mér létti þegar Lukman stakk uppá því fyrsta kvöldið að við svæfum á þilfari bátsins, frekar en að tjalda í landi. Næsta dag könnuðum við eyna Komodo, sem er töluvert stærri og hálend. Íbúar þorpsins lifa nær eingöngu á fiskveiðum og þurrka aflann í sólinni. Þefurinn var ótrúlegur og er spursmál hvort fiskurinn rotni ekki áður en hann þornar. Hér rákumst við á stærsta drekann, sem var einn á ferð í fjörunni. Mér fannst hann varla geta verið mikið minna en tæp 200 kg og vel yfir 3 metrar á lengd. Hann var á hraðferð og sennilega vel saddur því hann leit ekki við okkur í þetta sinn.

Eldfjöllin í Indónesíu kalla

Map1

 Á mánudag 12. oktober flýg ég frá Bandaríkjunum til Indónesíu. Það eru orðnar æði margar ferðir mínar í þetta fjarlæga land síðustu 23 árin, en alltaf bíð ég þess með spenningi að komast til Austur Indía. Íslendingar og flestir vestrænir menn vita nær ekkert um Indónesíu, þótt þetta sé fjórða stærsta þjóð í heimi, með yfir 240 miljón íbúa. Indónesíu má með sönnu kalla eyland, en hér eru 6000 eyjar í byggð, sem þekja um tvær miljónir ferkílómetra á miðbaug. Einnig er athyglisvert að hér búa fleiri múslimar en í nokkru öðru landi jarðar. Við heyrum nær daglega fréttir af eldgosum og jarðskjálftum í Indónesíu, enda er þetta mesta eldfjallaland jarðar og stórir jarðskjálftar eru tíðir. Indónesía markar flekamót, eins og myndin fyrir ofan sýnir. Að sunnan er það Indó-Ástralíuflekinn sem skríður stöðugt til norðurs, á um 9 sm hraða á ári. Hann sígur niður undir meginlandsskorpu Asíuflekans, og markar sigbeltið flekamótin. Hér er röð af eldfjöllum, sem eru eins og perlur á streng, um þrjú þúsund km á lengd. Í vestri er Krakatau, sem er fræg af endemum af gosinu mikla 1883, og í austri er Tambora, fræg af stærsta eldgosi jarðar, árið 1815. Ég hef starfað á báðum þessum vígstöðvum og heimsæki þær nú rétt einusinni í viðbót. Það hefur töluvert verið birt á vefnum varðandi rannsóknir mínar á gosinu mikla í Tambora árið 1815 og hér eru nokkur dæmi:http://www.npr.org/templates/story/story.php?storyId=15448607http://www.uri.edu/news/tambora/http://www.npr.org/templates/transcript/transcript.php?storyId=15448607

TamboraTanguy1989

Gosið í Tambora árið 1815 er merkilegt á margan hátt. Það er stærsta gosið, en upp kom um eitt hundrað rúmkílómetrar af kviku. Gjóskuflóð og önnur áhrif frá gosinu drápu um 117 þúsund manns í Indónesíu, sem er mesta dauðsfall í einu gosi. Svo mikið efni barst upp í heiðhvolf jarðar að loftslag breyttist um alla jörðina í þrjú ár, eða mikil kólnun. Við gosið fór um 1.5 km af toppnum og ný askja, 9 km í þvermál og um 1400 metra djúp myndaðist. Myndin til vinstri er eftir franska jarðfræðinginn Jean-Claude Tanguy, tekin árið 1989 úr lofti yfir öskjunni á Tambora.  Myndin til hægri fyrir ofan er úr gervihneti og sýnir öskjuna. Það var vitað að fjöldi fólks bjó í hlíðum fjallsins, og þar var bær eða þorp með um tíu þúsund manns. Það hvarf algjörlega í gosinu 1815, og enginn komst af. Árið 2004 fann ég þorpið loks aftur, en það er undir um 3 til 4 m af vikri og ösku. Myndin fyrir neðan sýnir störf okkar við uppgröft 2004.

Excavation

Nú hefur uppgröftur hafist á þessum merku minjum, og munum við halda því áfram í haust með fornleifafræðingum frá Bali.Árið 1883 gaus Krakatau eyja, sem er í sundinu milli eyjanna Súmötru og Jövu. Þetta mikla sprengigos myndaði flóðbylgju sem dreifðist í allar áttir. Þegar bylgjan gekk á land á Jövu í austri þá var hún um 30 metrum hærri en venjuleg sjávarstaða. Alls fórust um 36 þúsund manns í flóðbylgjunni. Nær allt gosefnið frá Krakatau er á hafsbotni og á árunum 1990 til 1992 starfaði ég við rannsóknir á hafsbotninum til að fá betri skilning á þessu merka gosi. Við beittum margskonar tækni, og köfuðum á um 65 stöðum til að kanna hafsbotninn og taka sýni. 

KrakatauBathymetry

Kortin tvö hér til hliðar sýna hafsbotninn fyrir (til vinstri) og eftir gos (til hægri), og hefur landslag hafsbotnsins greinilega breytst mikið við gosið. Þar sem áður var stór eyja, er nú djúp askja á hafsbotni. Krakatau hrundi algjörlega 1883, en nýtt eldfjall, Anak Krakatau, hfur vaxið frá borttni öskjunnar og myndar nú nýja eyju. Anak er mjög virk eins og stendur, og ég hlakka til að fylgjast með nýja gosinu þar.Þessi leiðangur verður um tveir mánuðir, og víða komið við. 

Krakatau

Vonandi get ég bloggað öðru hvoru, en ég verð meiri hluta tímans í tjaldbúðum og fjarri netsambandi. Aðalmiðstöð mín í leiðangrinum verður á eynni Bali, þar sem hollenskur vinur minn Rik Stoetman býr með fjölskyldu sinni í þorpinu Ubud. Á Bali eru einnig nokkur eldfjöll, og er Agung frægast þeirra, enda dýrkað mjög af íbúum, sem eru nær allir hindútrúar á Bali. Gosið í Agung árið 1963 var með stærri gosum á sínum tíma. 

Girl

Dr Atl – Eldfjallafræðingur, byltingarsinni og listmálari

 

DrAtlSketch

 

Einn vinur minn á litla málmstungu eftir Rembrandt. Hún er ekki stór, svona eins og eitt blað í bók, en myndin er samt mesti fjársjóður hans. Auðvitað eru málverk eftir Meistarann langt fyrir utan efnahag hans, en alla vega á hann sína Rembrandt mynd, þótt lítil sé. Ég á eina litla mynd sem er líka gömul og gulnuð, og hún er í álíka uppáhaldi hjá mér. Sú mynd er pennateikning eftir Dr Atl eða Gerardo Murillo frá Mexíkó. Myndin, sem er sýnd hér fyrir ofan, er nú í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Hún er frá því þegar Parícutin eldfjall gaus í Mexíkó árið 1943. Mig langar til að segja ykkur frá honum Dr Atl, en hann er meðal merkustu listamanna Mexíkó, og auk þess var hann eldfjallafræðingur! 

DrAtlLjósmynd

Mexíkó er land mikilla eldfjalla og landskjálfta, en skorpuhreyfingar þar orsakast af því að Cocos flekinn í Kyrrahafi mjakast til austurs, og sígur undir meginlandsskorpuna í Mexíkó á um 8 sm hraða á ári. Það er því fjöldi virkra eldfjalla í landinu, og sprengigos algeng, en hér verða líka oft sprengingar af öðru tagi, sem sagt af pólítískum uppruna. Dr Atl var sérfræðingur í fremstu röð á báðum þessum sviðum, eldfjallafræðingur og byltingasinni og einnig framúrskarandi málari. Þegar hann fæddist í Guadalajara árið 1875 þá hlaut hann nafnið Gerardo Murillo. Hann var flótt þjóðernissinni og dáði forna menningu innfæddra mexíkana, en hataði allt sem minnti á nýlendustjórn spánverja. Strax í æsku losaði hann sig því við spánska nafnið, og tók að kalla sig Dr Atl, en atl þýðir vatn í Nahuatl, sem er tungumál Aztec indíánanna í Mexíkó. Það var strax ljóst að hann hafði óvenju mikla hæfileika sem listamaður og árið 1896 var hann kominn til náms á Ítalíu. Árið 1904 snéri hann heim til að taka þátt í baráttunni gegn spillta einvaldinum Porfirio Diaz. Á þeim tíma stofnaði hann fyrstu akademíu listamanna í Mexíkó, Centro Artistico. Í akademíunni hélt hann fyrirlestra um listastefnur sem hann hafði fræðst um á Evrópuferð sinni, og hvatti nemendur sína til að fara út í náttúruna og mála, þar á meðal sjálfan Diego Rivera, e meðal annara nemenda hans voru margir fremstu listamenn Mexíkó, svo sem David Alfaro Siqueiros og José Clemente Orozco. En brátt varð Dr Atl að flæmast úr landi vegna stjórnmálaskoðanna sinna árið 1911 og hélt nú aftur til Ítalíu, í þetta sinn til að hefja nám í eldfjallafræði. Á ferðum sínum um heimalandið hafði Dr Atl orðið hugfanginn af eldfjöllunum í Mexíkó og ásetti sér að fræðast nú meir um eðli þeirra. En Ítalía var einmitt vagga eldfjallafræðinnar á þessum tíma. Hér var hann við nám í eldfjallafræði hjá Immannuel Friedlander og Frank A. Perret við háskólann í Napólí. Hann ferðaðist mikið um Evrópu á þessum tíma, hitti Vladimir Lenin, og gaf út blað sósíalista með Benito Mussolini. 

Atl Paricution 1948

Dr Atl var brautryðjandi og hinn sanni frumkvöðull mexíkanskar listar, sem var í senn innfædd og fjarlæg evrópskri hefð og árifum. Hann var ekki aðeins mjög virkur í stjórnmálabaráttunni, til að frelsa þjóð sína frá tengslum við einræðisstjórn og neikvæð áhrif nýlendustjórnarinnar, heldur vann hann að því að skapa nýja og einstaka mexíkanska list. Hann gekk svo langt, að hann bjó til nýja liti sem hentuðu betur litrofi og landslagi heimalandsins. Í fjallgöngum og á ferðum sínum um Mexíkó þótti Dr Atl oft óþjált að fást við venjulegan útbúnað landslagsmálarans, eins og trönur og olíuliti. Til að gera málið einfaldara þá fann hann upp nýja liti, sem hafa verið nefndir Atlcolors. Þeir eru stífir litir, sem hægt er að mála með beint á hvaða efni sem er, og gerðir úr blöndu af vaxi, benzíni, olíulit og kvoðu, en úr varð stykki eða stöng sem málað var með. Langflest verk Dr Atls eru gerð með þessum litum.Dr Atl skipulagði hóp nemenda sinna og annarra ungra listamanna til að hrinda af stað herferð í fjölmiðlum og í veggplakötum í þágu byltingarinnar. Þeir gáfu út tímarit, bæklinga og gerðu veggmálverk, sem deildu hart á einveldið og hvöttu almenning til átaka í þágu byltingarinnar. Skerfur þeirra var mikill við að koma á auknu lýðræði í Mexíkó á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar, en vegna mikillar spillingar meðal stjórnmálamanna hefur orðið afturför á þessu sviði hin síðari árin. 

Paricutin2

Á tímum byltingarinnar, á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar, má segja að eldgos hafi verið einskonar tákn byltingarinnar, einkum sem tákn stórkostlegra breytinga. Einn byltingarsinna sagði: “Ég elska byltinguna eins og ég elska eldgos; ég elska eldfjallið af því að það er eldfjall, og byltinguna af því að hún er bylting!”Það gerist öðru hvoru, að eldgos brýst út á auðu landi og nýtt eldfjall rís. Við þekkjum þetta fyrirbæri vel á Íslandi, en einnig eru ný eldfjöll nokkuð tíð í Mexíkó. Það var í febrúar 1943 að nýtt eldfjall varð til í Michoacan fylki í Mexíkó. Það var um fjögur leytið einn daginn að bóndinn Dionisio Pulido var að ljúka að plægja akur sinn, þegar hann tók eftir því að aska og reykur gusu upp úr plógfarinu og gjall fór að safnast fyrir í hrauk umhverfis sprunguna. Næsta dag var gígurinn orðinn 8 metra hár, og 60 m eftir þrjá daga. Síðan tók hraun að renna, en gjallkeilan hækkaði stöðugt þar til gosinu lauk árið 1952 en þá var eldfjallið 424 m á hæð yfir umhverfið. Undir hraunið fóru þorpin Paricutin (733 íbúar) og San Juan Parangaricutiro (1895 manns), og auðvitað allir maísakrarnir hans Dionisio Pulido, en enginn lét lífið. Dr Atl fór strax á staðinn og var mörg ár við Parícutín við rannsóknir og sköpun listaverka. Árangurinn var fjöldi listaverka og merkileg bók eftir hann, sem lýsir sköpun eldfjallsins: Como nace y crece un volcan? sem kom út árið 1950. Hann gerði alls 130 teikningar og 11 málverk af gosinu. 

Paricutin3

 Í bókinni setur Dr Atl fram hugmyndir sínar um uppruna eldgosa. Hann afskrifar úreltar hugmyndir um að hitinn í jörðinni stafi af efnahvörfum milli járns og brennisteins, sem Isaac Newton hafði set fram, eða vegna bruna eldfimar efna í jörðinni. Í staðinn legur hann til að eldvirkni séu leifar af upprunalegum hita jarðar, en við það bætist hiti frá geislavirkum efnum í iðrum jarðar. Hann hlynntist kenningu Alfred Wgeners um landarek og taldi að eldvirkni í Mexíkó væri afleiðing af hreyfingum mikilla skorpufleka. Þannig voru skoðanir hans mjög í stíl við það sem við vitum í dag.Á efri árum, þegar hetjan var orðin slitin og búinn að missa annan fótinn, þá tók Dr Atl upp þá aðferð að mála eldfjöllin sín úr lofti. Hann fékk lánaðar þyrlur hjá mexíkanska olíufélaginu PEMEX og málaði stórkostleg verk þar sem hann sveif yfir eldfjöllunum. Þessa nýjung kallaði hann aeropainting. Hann var kominn svo hátt að sjóndeildarhringurinn er boginn, og eldfjöllin koma fram sem vel aðgreind jarðfræðileg fyrirbæri. Sumar myndirnar voru gerðar að nóttu til og sýna jörðina sem hluta af himingeimnum og sólkerfinu. Um tíma átti Dr Atl í eldheitu ástarsambandi við fögru listakonuna Carmen Mondragon, og gaf henni innfædda nafnið Nahui Olin. Samband þeirra einkenndist af ofsalegum tilfinningum, ofbeldi og dramatískum atburðum, en í lokin kallaði Dr Atl hana græn-eygða snákinn. Dr Atl dó árið 1964. Nemandi hans, frægi málarinn Diego Rivera, sagði að hann hefði verið einn merkasti og sérkennilegasti maður sem fæðst hefði á meginlandi Ameríku. 

Dratl

Andy Warhol lætur Vesúvíus gjósa

Warhol

Hér fyrir ofan er ein uppáhalds myndin mín í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, sem ég keypti í Bandaríkjunum árið 1999. Hún er eftir Andy Warhol, og sýnir Vesúvíus gjósandi. Hér er stutt lýsing á því hvernig myndin varð til. Árið 1985 var haldin sýning á verkum Andy Warhol (1928-1987) í borgini Napólí á Ítalíu, sem hlaut nafnið “Sterminator Vesevo” eða Ógnvaldurinn Vesúvíus. Napólí er við rætur eldfjallsins fræga. 

Andy

Andy var þá þegar orðinn heimsfrægur. Hann var listamaðurinn sem tók eitthvað auðkennt og vel þekkt myndrænt efni, eins og miðann utan á súpudós, eða ljósmynd af Marilyn Monroe eða Mao Tse Tung, og vann úr því ógleymanlegt listaverk á einfaldan máta. Þannig urðu mörg verk hans strax hluti af nútímamenningunni og birtust reglulega í fjölmiðlum sem eins konar vörumerki, íkon eða stimplar sem voru æðstu fullrúar Pop Art hreyfingarinnar. Höfuðeinkenni Pop Art hreyfingar Andy Warhols var að taka þekkta mynd úr fjölmiðlum og veita henni nýtt gildi. Í því sambandi er mynd af eldgosi alþekkt fyrirbæri úr fjölmiðlum og Andy vildi notfæra sér það, en þetta var í fyrsta og eina sinn sem hann valdi landslag sem myndefni sitt, og tókst stórkostlega að leysa verkefnið.

MSH1980

 Árið 1980 var Andy í Napólí á Ítalíu um tíma og snéri aftur til borgarinnar árið 1985 til að vinna að myndinni af Vesúvíusi. Í viðtali frá þessum tíma segir Andy: “eldgos er algjörlega yfirþyrmandi myndefni, sem einstakt og stórkostlegt fyrirbæri sem jafnast á við stórkostlega höggmynd.”Árið 1980, þegar Andy var að vinna að Vesúvíusi, varð einmitt mikið sprengigos í Sánkti Helenu eldfjalli í Washington fylki í Bandaríkjunum, og varð Andy tvímælalaust fyrir áhrifum af því mikla gosi. Allir fjölmiðlar voru fullir af myndefni frá Sánkti Helenu og gjóskustrókurinn upp úr fjallinu var ógleymanleg sjón. Ýmsir listamenn brugðu strax við og máluðu ameríska gosið, og þar á meðal Roger Brown (1941-1997) í Chicago, sem nefndi sýna mynd First Continental Eruption, eða Fyrsta meginlandsgosið. Titillinn er mikilvægur, og vísar til þess að ameríkanar voru ekki vanir því að eiga við eldgos svo að segja heima hjá sér, heldur sem eitthvað fjarlægt fyrirbæri langt úti í heimi eða í Hawaii eyjum. 

BrownRoger

Myndin eftir Roger Brown er sýnd hér til vinstri, en hún er í Art Institute of Chicago.Afköst Andy Warhol í Napólí voru mikil. Hann lauk við sextán málverk og tuttugu og sex silkiþrykk myndir af Vesúvíusi gjósandi, og var hver mynd með mjög sérstakt litaval. Grundvallarmynin er mjög lík í flestum útgáfunum af silkiþrykkinu, þar sem formföst eldkeila Vesúvíusar rís upp yfir rústir gamla eldfjallsins Monte Somma, sem sést lengst til vinstri á myndinni. Við lítum hér til eldfjallsins frá vestri til austurs. Andy sá aldrei gos í Vesúvíusi, þar sem síðasta gosið þar var árið 1944, eins og sýnt er á ljósmyndinni fyrir neðan frá stríðsárunum.  

Vesuvius 1944  WWII

En honum tókst samt sem áður að skapa mjög kraftmikið sprengigos. Hann notaði tímann vel í Napólí og byrjaði á því að skoða mikið af málverkum af eldgosum Vesúvíusar frá sautjándu og átjándu öldinni, sem eru til í hundraða vís á söfnum borgarinnar, og notaði þau sem fyrirmynd af gosinu. Listamaðurinn Martin Creed tók þátt í að setja upp sýningu á verkum Warhols í Napólí og hafði þetta að segja: "Mér datt strax í hug Mozart og Andy Warhol. Þeir eru tveir uppáhaldslistamenn mínir, og mér finnst verk þeirra vera mjög lík. Í verkum þeirra beggja er allt á yfirborðinu. Þau eru stórkostlega grunn, og yfirborðskennd í besta skilningi. Ég gleymi því aldrei þegar ég sá fyrst málverk Andy Warhol af Vesúvíus gjósandi, en mér fannst það fallegt eins og rjómaís. Það var upplyftandi og léttir að dást að því.”Það er freistandi að bera mynd Warhol saman við verk annara stórmeistara sem hafa málað Vesúvíus gjósandi. Einn þeirra er sjálfur Joseph Mallord William Turner (1775-1851), en hann gerði gosmynd af Vesúvíusi árið 1817. Myndin, sem er í Yale Center for British Art, er hér fyrir neðan, en hún er ekki ein af bestu myndum Turners. Hún ber samt með sér höfuðeinkenni listamannsins, mikið ljós og birtu. Alveg það sama má einmitt segja um mynd Warhols af eldfjallinu. 

Turner

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband