Rebbi kom hingað til lands miklu fyrr

Þessir erlendu vísindamenn hafa greinilega ekki lesið frétt í Mbl um refabein á Íslandi, sem eru um 3500 ára gömul. Sjá fréttina hér:
http://www.mbl.is/frettir/taekni/2007/12/17/islenska_tofan_kom_thusundum_ara_fyrir_landnam/
Það þarf enga 16. aldar ísb´ru til að skýra tilvist refsins hér. Hann hefur verið hér á landi mun lengur.
mbl.is Refur komst á ísbrú til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olía umhverfis Grænland

Olíuleitarsvæði GrænlandÞað hefur verið töluverður áhugi fyrir olíuleit umhvefis Grænland, og miklar vonir bundnar við það. En ekki hefur þetta reynst alveg eins auðvelt og haldið var í fyrstu. Skoska olíufyrirtækið Cairn Energy hefur eytt um einum milljarð dollara í olíuleit á hafsbotni fyrir vestan Grænland. Svæðið sem þeir hafa kannað er skammt fyrir austan Disko eyju, eins og myndin sýnir. Hér hafa þeir gert víðtækar og dýrar rannsóknir á hafsbotninum og borað átta djúpar holur. Einnig nota þeir jarðeðlisfræðilegar aðerðir til að gegnumlýsa jarðlögin. Myndin til hliðar sýnir til dæmis slíka sneiðmynd af jarðlögunum frá Kanada til Grænlands, um 600 km leið. Sneiðmynd af setlögumÁ slíkum sneiðmyndum kunna að koma fram upplýsingar um olíusvæðin. Engin vinnanleg olía hefur fundist og hefur Cairn nú ákveðið að draga sig í hlé, að minnsta kosti um stundar sakir, en margir telja að Grænlandsævintýri þeirra sé lokið. Cairn Energy varð frægt og ríkt þegar þeir fundu olíu á Indlandi, og sjá borholur þeirra indverjum nú fyrir um 20% af sinni orkuþörf. Það er enginn leikur að bora eftir olíu umhverfis Grænland. Cairn þurfti að hafa dráttarbáta alltaf til taks til að stjaka við eða draga stóra borgarísjaka frá borpöllunum. Einnig eru miklu meiri vandamál varðandi stjórn á mengun, og svo setur veðrið strik í reikninginn. Þegar eða ef Grænlandsolía kemur á markað, þá verður hún örugglega dýr. Hvers vegna er Grænland spennandi svæði fyrir olíuleit? Það er tengt uppruna og þróun Atlantshafsins. Grænland er hlut af fleka Norður Ameríku. Fyrir um 60 milljón árum byrjaði Grænland að rifna frá Norður Ameríku og þá opnaðist sundið sem við nefnum Davis Strait og einnig Labradorhaf, eins og myndin fyrir neðan sýnir. Rek Grænlands frá Norður Ameríku myndaði þannig sigdæld, þar sem setlög söfnuðust fyrir, hugsanlega með lífrænum leifum. Þessar lífrænu leifar gætu myndað olíu. En rek Grænlands frá Norður Ameríku var skammvinnt.  Myndun Labradorshafs og Davis StraitFyrir um 50 milljón árum hætti þetta rek í Labradorhafi en þá byrjar Grænland að reka frá Evrópu, þegar Norður Atlantshafshryggurinn myndast austan Grænlands. Það er semsagt sigdældin undir Labradorhafi og í Davis Strait sem menn einblína á. Einnig eru nokkrar vonir um olíu taldar um olíu undir  hafsbotninum rétt austan Grænlands, og kemur þar Drekasvæðið við sögu, en það er nú önnur saga…

Járn á Grænlandi

JárnmarkaðurinnVerð á járni hefur margfaldast undanfarin ár, eins og fyrsta myndin sýnir, en þessi hækkun er aðallega vegna mikilla framkvæmda í Kína. Breska fyrirtækið London Mining vill nú reisa stóran námubæ á Vestur Grænlandi, Í Isukasia um 150 km fyrir norðaustan Nuuk, þar sem 760 námumenn munu búa. Einnig verður byggð höfn og ymsar aðrar framkvæmdir tengdar námurekstrinum. Afraksturinn af námugreftrinum er talinn verða um 32,3 milljarðar danskra króna, eða jafnt og styrkur Danmerkur til Grænlands í tíu ár. Sennilega verða aðeins um 20% starfsmanna grænlendingar en flestir þeirra verða kínverskir námumenn, sem munu búa í nýju þorpi við námuna. Hér rétt við ísröndina er grænlenska bergið mjög járnríkt, en það inniheldur yfir 70% af járni. Það myndar lag sem er 180 til 450 m þykkt og er það á yfirborði, svo auðvelt er að hefja námugröft. Alls er talið að hér séu um 1,5 milljarðar tonna af magnetíti. Isua járnsvæðiðFramleiðsla er áætluð um 15 milljón tonn á ári, en málmgrýtið verður flutt til strandar um 100 km leið í stálpípu. Diesel rafstöð verður reist á staðnum, en ekki fallvatnsvirkjun þar sem slíkt tæki of langan tíma til undirbúnings. Hér í Isua hefur járnið sennilega myndast sem setlög í sjó, en undir járnlaginu eru mjög forn lög af gosbergi og skyldum setlögum. Jarðlögin á Ísua eru meða elsta bergs á jörðu, eða um 3,8 milljarðar ára að aldri. Enn hefur grænlenska ríkið ekki veit leyfi til að hefja byggingu námubæjarins þar sem ekki hefur enn verið gengið frá rannsóknum varðandi umhvefisáhrif frá námurekstrinum. Það er gífurlegt magn af leir og drullu, sem mun berast til hafs í sambandi við námureksturinn og hafa neikvæð áhrif á lífríki hafsins.

Fjársjóður Grænlands

 GrænlandGrænland er stærsta eyjan, um tuttugu og einum sinnum stærri en Ísland. En hér eru aðeins um 57 þúsund íbúar. Nú virðist allt að verða vitluast á Grænlandi. Forseti Suður Kóreu er í heimsókn, nýlega hefur grænlenski ráðherrann Kuupik Kleist fundað með kínverjum og Hilary Clinton. Ástæðan fyrir þessum mikla áhuga á Grænlandi eru auðlindir eða beinlínis fjársjóðir í jörðu. Hér er næstum allt til: demantar, gull, kopar, platína, úran, ál, títan, járn og hinir verðmætu sjaldgæfu málmar, sem eru ómissandi í tölvuframleiðslu. Nú eru um þrjátíu námufyrirtæki að kanna jarðlögin og undirbúa námuvinnslu, en aðeins ein gullnáma er komin í gang. Nú telja margir að námureksturinn kunni að flýta fyrir sjálfstæði Grænlands undan danskri stjórn. Þeir hafa haft heimastjórn síðan 1979 og árlega veitir danska ríkið Grænlandi styrk sem nemur um 460 milljón evrum. Þetta eru 8070 evrur á mann, eða um 1,3 milljón ísl kr. á hvern einstakling. Til að meta þennan styrk í réttu samhengi skal geta þess, að árið 2010 var útflutningsverðmæti grænlendinga um €350 milljón og innflutningur um €700 milljón. Grænlendinga eru því algjörlega háðir dönum á þessu augnabliki, en það getur allt breyst mjög hratt, ef eða þegar tekjur berast inn frá námurekstrinum. En sumir halda því fram, að Kuupik Kleist sé ekki nægilegur þungavigtarmaður til að leiða þjóðina í gegnum erfið viðskipti við slungin alþjóðafyrirtæki, sem vilja hefja námugröft, og annað hvort sneiða hjá dönum eða reyna að hafa þá góða. Það eru því mjög spennandi tímar fram undan hjá næsta nágranna okkar, en því miður virðast íslendingar ekki hafa nokkurn áhuga á Grænlandi og því sem þar er að gerast. Það er reyndar skammarlegt, að mínu áliti.

Kötlugos eftir Arreboe Clausen

Kötlugos 1918 Arreboe ClausenHér er nýjasta mynd Eldfjallasafns í Stykkishólmi. Hún er olíumálverk af Kötlugosinu árið 1918. Myndin er máluð af mjög sérstæðum manni, sem fæddur var í Stykkishólmi: Arreboe Clausen (1892 -1956). Faðir Arreboe var kaupmaðurinn Holger P. Clausen í Stykkishólmi, en um hann lék evintýraljómi, einkum í sambandi við ferð hans til Ástralíu í leit að gulli. Hann hafði getið sér frægðar á Snæfellsnesi árið 1880, þegar hann bauð sig til framboðs til Alþingis. Holger tók það ráð að reisa tjald á kjörstað, þar sem voru veittar óspart vínveitingar til kjósenda á kostnað Clausensverslunar. Að sjálfsögðu hlaut hann kosningu með miklum meirihluta til Alþingis, en þessi atburður er ávallt kallaður “Brennivínskosningin” síðan. Í þá daga greiddu menn atkvæði sitt í heyrenda hljóði. Siðar kom Holger öllum á óvart og reyndist bæði róttækur og frjálslyndur á þingi. Arreboe Clausen starfaði mörg ár sem einkabílstjóri forsætisráðherra Íslands. Af honum eru margar sögur, tengdar þessu sérstæða starfi. Til dæmis segir Ólafur Thors við Arreboe einkabílstjóra sinn, árið 1942: „Góði minn, nú er ég orðinn forsætisráðherra. Nú verður annar hvor okkar að hætta að drekka! “ Eitt sinn var Arreboe spurður, hvað væri að gerast á bak við tjöldin í stjórnmálum Íslands, og vildi hann ekkert um það segja. „Ert þú ekki innsti koppur í búri allra stjórnmálaflokka?“ Arreboe svaraði snöggt: „Jú, ég er það, en sá koppur lekur ekki.“ Málverkið af Kötlugosinu hefur Arreboe málað eftir frægri ljósmynd, sem Kjartan Guðmundsson tók af gosinu. Að lokum skal geta þess, að Arreboe var faðir þeirra Clausensbræðra, Hauks og Arnar, sem lengi voru fremstu frjálsíþróttamenn Íslands.

Hafís í lágmarki

Hafís 2012Það var stórfrétt í síðustu viku að hafísinn á norður skauti jarðar væri nú í algjöru sögulegu lágmarki, eða aðeins 4,1 milljón ferkílómetrar. Þessi tala á eftir að lækka eitthvað, því bráðnun heldur áfram fram á haust. Bráðnunin er alveg ótrúlega hröð, eða frá 40 til 75 þúsund ferkílómetrar á dag! Línuritið til vinstri sýnir hvernig hafísinn á norðurskauti hefur bráðnað undanfarin ár. En eins og oftast, þá er nauðsynlegt að setja þetta efni í lengra samhengi tímalega en einungis þessi síðustu ár. Það gerum við í annari mynd, sem sýnir útbreiðslu hafíss á norðurhveli síðustu 1450 ár, eða frá því um 600 e.Kr. Hafís hefur fyrst myndast á jörðu fyrir um 47 milljón árum, en breiddist þó fyrst út um heimsskautin bæði aðallega þegar ísöld hófst fyrir um 2,6 milljón árum. Sveiflan á útbreiðslu hafíss hefur verið lítil til þessa, nema árssveiflan. Nú er annað upp á teningnum, eins og önnur myndin sýnir. En það skal tekið fram, að línuritið á annari mynd er byggt á 40 ára meðaltali, og því hverfur stóra breytingin í ár að mestu inn í meðaltöluna, en sveiflan síðustu árin er samt stórkostleg.  Hafís KinnardÞessi hraða breyting á hafís norðursins getur bent til að hann verði allur horfinn um 2030 (sumir segja jafnvel árið 2016), en ekki í lok aldarinnar, eins og fyrri spár sögðu. Minnkandi hafís er alvarlegt mál, sem snertir þróun loftslags og hafsins umhverfis Ísland. Þegar hafís myndast, þá fer saltfrítt vatn í að gera ísinn en mjög saltur sjór með háa eðlisþyngd verður eftir. Þessi salti og þungi sjór sekkur til botns í Íshafinu. Síðan streymir hann suður með hafsbotninum, um, sundið milli Grænlands og Íslands og virkar eins og mótorinn í hringrás heimshafanna. Ef hafís minnkar eða hverfur, þá mun draga úr þessum kalda straumi. Getur það valdið því að Golfstraumurinn hægi á sér? Getur það valdið staðbundinni kólnun á Norður Atlanshafssvæðinu, á Íslandi og á Bretlandseyjum? Það eru engar samfelldar rannsóknir eða mælingar í gangi til að fylgja þessum breytingum.

Aftur um Þúfurnar á Snæfellsjökli

Það hafa orðið fjörug viðbrögð við bloggi mínu í gær um berglögin sem eru að koma í ljós í Miðþúfunni á Snæfellsjökli. Ég benti á að Þúfan er nú auðari en ég hef séð áður og að bráðnun sé óvenju hröð. Aðrir halda því nú fram að þetta sé ekki óvenjulegt síðsumars á seinni árum: sem sagt “business as usual”. Sumir telja hins vegar að hér sé mjög mikil breyting á ferðinni vegna hraðari bráðnunar Jökulsins. Auðvitað er hægt að deila um slíkt, en það eina sem vert er reyndar að fjalla um í því sambandi eru beinar mælingar á Jöklinum. Það vill svo vel til að slík gögn eru til. Veðurstofa Íslands hefur fylgst með Jöklinum og birt gögn þar að lútandi. Sjá til dæmis grein Tómasar Jóhannessonar hér: http://en.vedur.is/weather/articles/nr/1618 Flatarmál Jökulsins minnkarLínuritið til hliðar sýnir breytingar á flatarmáli Snæfellsjökuls og er byggt á slíkum gögnum. Þar kemur í ljós að Jökullinn hefur minnkað um helming á einni öld. Samkvæmt spá sem er byggð á öllum mælingunum væri Jökullinn horfinn í lok þessarar aldar, eins og rauða línan sýnir.  En sennilega eru þrír nýjustu mælipúnktarnir best mældir. Ef svo er, þá væri Jökullinn horfinn um 2050. Aðrar mælingar Veðurstofunnar sýna að á tímabilinu 2000 til 2008 þynntist jökullinn um allt að 40 metra á ytri mörkum hans. Já, sjálfsagt hafa berglögin verið greinileg í Miðþúfunni fyrr á seinni hluta sumars, en hitt er samt staðreynd: Jökullinn minnkar hratt.

Skipsbjallan á HMS Hood

HMS HoodÍ águst 2012 var ég um borð í snekkjunni M/Y Octopus, þegar fjarstýrður kafbátur var sendur niður á flakið af breska herskipinu HMS Hood í Grænlandssundi. Flakið hvílir á um 2848 metra dýpi og þar um borð og á hafsbotninum umhverfis er nær öll 1418 manna áhöfnin. Aðeins þrír komust af þegar stærsta herskipi breta var sökkt hér á örfáum mínútum í orustu við þýska herskipið Bismarck hinn 24. maí árið 1941. Það sökk um 500 km beint vestur af Reykjanesi. Markmið okkar var að kanna flakið og að færa upp á yfirborðið skipsbjölluna, eitt helsta einkenni skipsins. Bygging á HMS Hood hófst í fyrri heimstyrjöldinni árið 1916 og það var fullbúið árið 1920. Hood var hvorki meira né minna en 48 þúsund tonn, og 262 metrar á lengd. Þrátt fyrir stærðina gat þetta tröllvaxna skip samt siglt um heimshöfin á 28 til 31 hnúta hraða. Utan á skrokk skipsins var tólf tommu þykk brynvörn úr stáli, og fallbyssur þess skutu sprengikúlum sem voru fimmtán tommur í þvermál. Bretar vissu að þjóðverjar höfðu hleypt af stokkunum öðru risavöxnu skipi í Hamborg, sem skírt var Bismarck, eftir kanslaranum fræga. Hinn 5. maí 1941 kom sjálfur Adolf Hitler til Hamborgar til að skoða þetta nýja vopn, sem átti að granda skipalestunum milli Norður Ameríku og Rússlands. Aðal hlutverk Bismarck var að ráðast á skipalestirnar sem fóru milli Norður Ameríku og Norður Evrópu. Bretar gerðu sér þetta ljóst og vissu að Bismarck myndi stefna út í Norður Atlantshafið um eitt af þremur sundum í grennd við Ísland, annað hvort Grænlandssund, eða þá sundið milli Færeyja og Íslands eða sundið milli Skotlands og Íslands. Breski sjóherinn vissi þvi ekki hvaða sunds þeir ættu að gæta. Á meðan sigilir Bismarck óséður frá Bergen hinn 21. maí á ofsa hraða 25 til 30 hnútum (56 km á klst.), út á Atlantshafið undan vestur strönd Noregs og beint norður fyrir Ísland. Bismarck kemur inn á Grænlandssund um kl 10 að morgni hinn 23. maí. Það var hér sem breska herskipið Suffolk fyrst sá Bismarck á siglingu. Suffolk hafði verið inni á Ísafirði en var nú kominn út á sundið. Skömmu síðar sá Bismarck breska herskipið Norfolk birtast út úr þokunni og skaut á það en hæfði ekki. Norfolk slapp aftur inn í þokuna og tilkynnti strax flotastjórninni í London um að Bismarck væri fundinn. Nú hófst eltingarleikurinn fyrir alvöru. Hood og fleiri skip sigldu fyrir sunnan Ísland og stefnu á Grænlandssund til að hefja sjórustuna. Hlutverk Bismarcks var að sökkva fragtskipum skipalestanna, en ekki að há orustu við bresk herskip. Bismarck og hitt þýska skipið Prinz Eugen héldu því beint áfram til suðurs og í átt að skipalestunum, en Suffolk elti fast á eftir. Það var skömmu eftir miðnætti hinn 24. maí að Hood sá Bismarck í um 17 sjómílna fjarlægð. Klukkan 0552 var fjarlægðin 23 kílómetrar milli skipanna og fallbysur Hood og breaska skipsins Prince of Wales byrjuðu að skjóta á óvininn. Þessi fyrstu skot höfðu engin áhrif. En fyrstu skotin frá Bismarck lentu hins vegar mjög nærri Hood. Auk þess var aðstaðan erfiðari fyrir breta, sem sigldu beint upp í vindinn. Skot frá Prinz Eugen hæfði Hood og það kviknaði í á þilfari um miðju skipsins. Bjallan á þilfariNú var klukkan 0555 og aðeins þrjár mínútur liðnar frá því að orustan hófst. Það hafði kviknað í birgðum af púðri af þeirri tegund sem nefnist cordite. Fljótlega breiddist eldurinn út og skotfærabirgðir byrjuðu að springa á dekkinu. Nú var bilið milli skipanna um 12 mílur. Þá breytti Hood um stefnu og sigldi nú samhliða Bismarck svo að hægt væri að skjóta af öllum fallbyssum í einu á þjóðverjana. En einmitt þá kemur fallbyssuskothríð frá Bismarck og hittir alveg í mark. Þessar sprengikúlur eru hvorki meira né minna en 38 cm í þvermál.  Myndin fyrir neðan sýnir þversnið af einni slíkri. Risastór sprenging verður nú um miðju á Hood og eldsúlan stendur upp meir en fjórum sinnum hærra en miðmastrið, upp til himins. Skipið veltur strax og skuturinn byrjar að sökkva. Stuttu síðar stendur stafninn beint upp, og Hood hverfur í hafið. Orustunni er lokið. Fjórtan hundrað menn farast og aðeins þrír af áhöfninni komast af. Allt bendir til þess að skotið frá Bismarck hafi farið niður í gegnum þilfarið og beint ofan í skotfærageymslu Hood. Klukkan 0613 siglir Prince of Wales á brott á flótta, aðeins 21 mínútu eftir að orustan hófst. Breska sjóhersstjórnin fær svohljóðandi skeyti: Hood hefur sprungið í loft upp. Þremur sjóliðum af 1418-manna áhöfn Hood var bjargað. Þeir komu til Reykjavíkur með bresku skipi seinni part dags hinn 24. maí.  Fallbyssukúla af þeirri tegund sem grandar HoodAð tapa HMS Hood, flaggskipi breska flotans, var ótrúlega mikið áfall fyrir breska herinn og reyndar þjóðina alla. Churchill forsætisráðherra áttaði sig strax á þessu og skipaði: Sink the Bismarck! Sökkvið Bismarck. Allur sjóherinn var nú gerður út til að ná hefndum. Bismarck hafði orðið fyrir lítilsháttar skemmdum í átökunum á Grænlandssundi og var að tapa töluverðri olíu í hafið. Bismarck stefndi því beint í áttina til Brest í Frakklandi til viðgerðar. Tveimur dögum síðar tókst breskum herflugvélum að varpa tundurskeytum á þýska risann, sem var 251 meter á lengd. Fljótlega tókst að skemma stýri skipsins og var það nú nær stjórnlaust. Önnur tundurskeyti hæfðu í beint mark og Bismarck sökk í hafið hinn 27. maí um 650 km fyrir vestan Brest í Frakklandi. Bismarck hafði verið aðeins 9 daga í þjónustu þýska hersins frá þvi skipið var tekið í notkun og þar til það sökk. Árið 2001 fannst flakið af HMS Hood á Grænlandssundi á um 2849 metra dýpi. Í ágúst 2012 var gerður út leiðangur á M/Y Octopus til að ná upp skipsbjöllunni af Hood, með samþykki og þátttöku breska sjóhersins. Hugmyndin Bjallan á hafsbotnivar að færa bjölluna til minjasafns sjóhersins í Bretlandi. Skipsbjallan hafði verið upphaflega á þilfari skipsins, eins og gamla myndin sýnri. Við sendum fjarstýrðan kafbát niður og fljótlega fannst bjallan, en hún var ofan á haug af miklu rusli úr skipinu og hvíldi undir stálþili, sem slútti yfir. Þetta gerði okkur erfitt að ná til hennar. Kafbáturinn hefur tvo vélarma, sem geta verið furðu fimir. Það tókst að koma járnkrók í gatið efst á bjölluni, en þegar átakið kom á krókinn, þá réttist úr honum og bjallan slapp af og seig lengra niður í ruslið. Nú fór veður versnandi og varð því að hætta fekari köfun þegar vindur fór yfir 30 hnúta og sjór var orðinn nokkuð mikill. Við skildum því við bjölluna á botninum, eins og myndin sýnir. Örin rauða bendir á bjölluna á hliðinni.  Af kafbátnum er það að segja, að hann er tengdur við skipið með rúmlega 3 km löngum kapli, sem sendir rafmagn niður og sendir síðan rafræn gögn, myndefni og annað upp til skipsins. Kafbáturinn hefur tvo arma og ýmiss önnur tæki.  Fylgst er nákvæmlega með staðsetningu kafbátsins um borð í skipinu og reyndar furðulegt hvað kafbátsstjórinn getur stýrt honum nákvæmlega í gegnum allar þær hættur sem verða á vegi hans í grennd við og jafnvel inni í þessu risastóra skipsflaki, þar sem stálvírar, járnbitar og annað brak eru alltaf fyrir hendi sem hættulegar gildrur.

Þúfurnar á Snæfellsjökli

Þúfan á JónsmessunóttHæstu tindar Snæfellsjökuls eru nefndar Þúfurnar. Sú í miðju er hæst, eða 1446 metrar. Þegar ég hef klifið Jökulinn þá hefur Þúfan nær undantekningalaust verið hulin ís og fönn, eins og fyrsta myndin sýnir. Hún var tekin á Jónsmessunótt í sumar. Þá var Þúfan kleif með því að höggva spor í ísinn, en þverbratt niður undir. En þegar ég flaug í þyrlu umhverfis topp Jökulsins hinn 26. ágúst 2012 þá blasti önnur sjón við. Þúfan í miðjunni var nú nær alveg íslaus og jarðlögin komu vel í ljós, eins og kemur fram á seinni myndinni. Ég held að þetta sé ef til vill í fyrsta sinn að Þúfan er svo algjörlega afhjúpuð, enda bráðnar Jökullinn nú hratt.  Nú gefst því tækifæri til að kanna þessi jarðlög og fræðast frekar um gossögu Jökulsins. Þúfan afhjúpuðSennilega eru hér aðallega rauðleit gjall og vikurlög, en ef til vill einnig hraunlög. Lögunum hallar til suðurs, í átt frá stóra gígnum, sem er rétt fyrir norðvestan Þúfurnar. Það eru nokkur áberandi ljós lög í Þúfunni. Það er freistandi að giska á að þau séu ef til vill trakít, en sú bergkvikutegund einkennir stóru sprengigosin þrjú, sem hafa orðið í Snæfellsjökli síðan ísöld lauk.  En nú ber að hætta öllum ágiskunum og bregða sér upp á Jökul til að kanna þetta nánar.

Tagldarhellir

Vatnafell

Vatnafell er gömul eldstöð á  Vatnaleið á Snæfellsnesi,  og  skilur fjallið á milli Hraunsfjarðarvatns fyrir vestan og Baulárvallavatns fyrir austan.  Vatnafell myndaðist í basalt eldgosi fyrir um 400 þúsund árum.  Ég hef áður bloggað hér um myndun þess í sambandi við myndun þriggja stöðuvatnanna á þessu svæði. Er Vatnafell  að mestu gert úr stuðluðu basalti, með móbergskápu undir.  Basaltið er óvenjulegt fyrir að hafa risastóra kolsvarta kristalla af pyroxen, sem geta verið margir cm á lengd.  Undir hömrum austan í Vatnafelli eru þrír hellar og er sá syðsti stærstur. Staðsetning hans er sýnd með rauða hringnum á fyrstu myndinni, sem er tekin yfir Baulárvallavatn.  Til hægri á myndinni er móbergstindurinn Horn.  Hellarnir í Vatnafelli hafa myndast þar sem rof hefur fjarlægt mýkri jarðlög undir basaltberginu.  Það er fremur auðvelt að komast að öllum þessum hellum, upp brattar og mjög grýttar skriður austan í fellinu. Syðsti og stærsti hellirinn nefnist Tagldarhellir og er við hann kennd þjóðsaga.  Sögnin um hellinn er varðveitt í Illuga söguTagldarbana.  

Tagldarhellir

Ein sögupersónan er Helgi, sem bjó á Helgafelli.  Hann fékk til liðs við sig Illuga, hraustan og ungan mann sunnan af Mýrum, til að drepa tröllið Dofra, sem bjó í helli einum á Vatnsheiði og er hann nefndur Dofrahellir  Ekki er mér kunnugt um staðsetningu hans.  Illugi var Þórisson, en faðir hans var Þórir Þorfinnsson og móðir Sæunn, dóttir Skallagríms Kveldúlfssonar og er hann þá systursonur Egils Skallagrímssonar.   Er því ekki að furða að hér var á ferð mikill kappi.  Bardaginn við Dofra leiddi Helga til bana, en Illugi fékk eftir hann jörðina Helgafell og bjó þar.   Síðar háði Illugi mikla baráttu við flagðkonuna Tögld í Tagladarhelli.  Hér skýtur nokkuð skökku við í frásögnum.  Í Illugasögu Tagladarbana fer bardaginn við Tögld fram í einni utanför Illuga, en í sögn sem er varðveitt í þjóðsögum Sigfúsar Eymundssonar (1899) fer orrustan í Tagladarhelli fram á Snæfellsnesi. Illugi kom tröllskessunni fyrir kattarnef að lokum, en sumir telja að skrímslið sem sést hefur í Baulárvallavatni sé Tögld afturgengin. Það er ekki hlaupið að ríma á móti orðinu Tögld, en þessi vísa fylgir þjóðsögninni:

 

Eg er að tálga horn í högld,

hagleiksmenntin burt er sigld.

Illugi deyddi tröllið Tögld,

trúi' eg hún væri brúnaygld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband