Skjálftar í Eyjafjarðarál

EyjafjarðarállÞað er mjög stórt misgengi rétt undan norðurlandi, sem er kennt við Húsavík og Flatey.  Nú kemur það fram í fréttum vegna mikilla jarðskjálfta þar í nótt og einnig í september mánuði.  Misgengið liggur  frá Húsavík, rétt milli Flateyjar og lands, og inn í Eyjafjarðarál og inn á landgrunnið fyrir norðan Tröllaskaga, eins og fyrsta mynd sýnir.  Á henni eru sýndir skjálftarnir sem urðu í hrynunni frá 14. til 21. september í ár, en myndin er frá Veðurstofu Íslands.  Mér virðist að hrinan sem nú stendur yfir sé á svipuðum slóðum, en þó nokkuð sunnar.  Hreyfingar á þessu misgengi eru þannig að landgrunnið norðan misgengisins færist til suðausturs, miðað við jarðskopruna fyrir sunnan misgengið, eins og örvarnar á fyrstu mynd sýna.  EyjafjarðarállHér erum við þá að fjalla um sniðmisgengi.  Vestur endi sniðmisgengisins virðist enda í vestur brún Eyjafjarðaráls.  Skjálftarnir eru ef til vill tengdir gliðnun Eyjafjarðaráls, eins og hinar örvarnar á fyrstu myndinni sýna.  Þessi áll er stórmerkilegt fyrirbæri. Önnur myndin (frá Orkustofnun) sýnir að það er mikill búnki af setlögum í Eyjafjarðarál.  Svörtu brotalínurnar á myndinni sýna að setlögin í Eyjafjarðarál erum 2 til 3 km á þykkt. Állinn er mikill sigdalur, sem hefur verið virkur í nokkrar milljónir ára, og hér hefur dalurinn sigið stöðugt og set safnast hér fyrir. Setið er það þykkt, að í því gætu verið gas eða olíumyndanir, ef hitastigullinn er ekki of hár til að leyfa olíu að þrífast.  Sigið gerist hér á flekamótum, en það eru flekamót án eldvirkni.  Þeyndar kemur eldvirknin fram nokkuð norðar, þar sem Eyjafjarðaráll grynnist og kemur í ljós sem eldeyjan Kolbeinsey. Þar mun hafa síðast gosið árið 1372. 

 


Hvers vegna eru stærstu eldfjöll sólkerfisins á Mars?

Mars og jörðNú er amerískur jeppi á ferðinni á yfirborði plánetunnar Mars og hann er með nægilegt eldsneyti innanborðs til að keyra og kanna í fjórtán ár. Við munum því fá mikið flóð af jarðfræðilegum (marsfræðilegum?) upplýsingum um þessa merkilegu plánetu næstu árin.  Ég bíð spenntur eftir því að þeir senda jeppann upp á Olympus Mons, sem er hæsta og stærsta eldfjall í sólkerfi okkar, um 22 km á hæð.  Já, og flatarmál eldfjallsins er meir en þrisvar sinnum flatarmál Íslands.  Hvernig getur þessi litla pláneta myndað stærstu  og hæstu eldfjöll sólkerfisins?  Mars er að mörgu leyti  allt öðru vísi en jörðin, eins og fyrsta myndin sýnir. Hér er Mars til vinstri og jörðin til hægri.   Ekki er Mars öðru vísi einungis á yfirborði, heldur einnig að innri gerð.  Eðlisþyngd rauðu plánetunnar er aðeins 3,94 g/cm3,  en jörðin er með miklu hærri eðlisþyngd:  5.52 g/cm3.  En Mars er miklu minni en jörðin. Skorpuþykkt MarsÞannig er þvermál Mars aðeins helmingur af þvermáli jarðar og Mars er því aðeins með um 10% af massa jarðar. Lægri eðlisþyngd bendir til að kjarninn í Mars sé annað hvort lítill eða innihaldi lítið járn.  Veikt segulsvið plánetunnar bendir einnig til að kjarninn sé ekki lengur fljótandi og því sennilega orðinn fremur kaldur.  

Flekahreyfingar jarðskorpunnar er eitt af höfuðeinkennum jarðarinnar.  Hins vegar eru flekahreyfingar litlar eða nær óþekktar á Mars.  Ef til vill er risastóra gilið Valles Marineris á Mars myndað við flekahreyfingar, en umdeilt.  Það má skifta plánetunni í tvennt.  Suður helmingurinn hefur helmingi þykkari skorpu (80 km, rauðu svæðin á kortinu fyrir ofan) og meira hálendi eins og myndin fyrir ofan sýnir, en norður helmingurinn er með tiltölulega þunna skorpu (ca. 30 til 40 km, bláu svæðin).  Olympus MonsSkopran á Mars er að mestu gerð úr basalti og hefur eldvirkni því verið mjög mikilvæg á plánetunni áður fyrr.   Það er vísbending um að einhver eldgos hafi orðið síðustu milljón árin, en eldvirkni er nú mjög lítil.   Þar sem flekahreyfingar eru ekki til staðar, þá hafa eldgosin verið mjög staðbundin og mjög há eldfjöll hlaðist upp, eins og Olympus Mons.  Ef til vill eru þá tveir þættir, sem gera Mars kleift að mynda hæstu eldfjöll sólkerfisins:  óvenju þykk skorpa og staðbundin eldvirkni. Talið er, að mikið hafi dregið úr eldgosum á Mars en þó eru mjög ung hraun sjáanleg. Aftur beinist athyglin að Olymus Mons fjallinu, þar sem  askjan í toppnum er engin smásmíði, eins og síðasta myndin sýnir.  Askjan á Olympus MonsÞessi 2 km djúpa askja er um 90 km í þvermál eða heldur stærri en allur Faxaflói.  Það er augljóst að hún hefur ekki myndast við einn atburð, heldur er askjan stóra á Olympus Mons afleiðing af fimm misgömlum öskjumyndunum, sem hver hefur skilið eftir sinn hring.


Íslenski heiti reiturinn fór undir Grænland: Erindi Eldfjallasafns

Heiti reiturinnNæsta laugardag, hinn 20. október, held ég erindi í Eldfjallasafni í Stykkishólmi kl. 14.  Allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Í þetta sinn fjalla ég um sögu heita reitsins sem er undir Íslandi. Hann mun hafa komið fyrst fram undir Baffinseyju fyrir um 62 milljón árum. Reyndar vilja sumir rekja sögu hans alla leið til Síberíu fyrir 250 milljón árum. Síðan fluttist hann undir vestur Grænland og síðan kom hann fram undan austur Grænlandi og loks í Norður Atlantshafinu, þar sem Ísland myndaðist. Þetta er spennandi saga, sem hefur áhrif á myndun og þróun lands vors.

Steinninn Jake á Mars

Jake á MarsJeppinn Curiosity heldur áfram að ferðast um yfirborð plánetunnar Mars og gera merkar athuganir. Nýlega  sáu þeir stóra steininn, sem er sýndur á myndinni fyrir ofan og nefndu hann Jake. Það er mannlegt, jafnvel fyrir vísindamenn,  að fá strax áhuga fyrir stærstu steinunum á hverjum stað. Hann Jake er um 25 cm á breidd.  Þá beindu þeir Röentgen geislum sínum að steininum til að kanna efnasamsetningu hans. Efnagreiningatækið gefur upplýsingar um magn af öllum helstu frumefnum í steininum. Efnarof MarsEfnarofið er sýnt á næstu myndinni.  Þar kemur í ljós að sennilega er steinninn stór hraunmoli.  Kvikan sem hann myndaðist úr er fremur rík af frumefnunum natríum, áli og kalíum, en snauð af járni, magníum og nikkel.  Að öllum líkindum er þetta bergtegund úr kvikuröðinni sem við nefnum alkali basalt seríuna.  Hana má meðal annars finna í Snæfellsjökli og  í Vestmannaeyjum.  Hér er mynd af kvikuröðinni í Snæfellsjökli.  Snæfellsjökull kvikuröðMig grunar að steinninn Jake sé af tegundinni trakíbasalt, hawaiit eða mugearite, þar sem ég hef sett rauða hringinn á myndina. Vel á minnst: trakíbasalt er kvikutegundin sem gaus úr toppgíg Eyjafjallajökuls árið 2010. 

Skálin í Hrossatungum

Hrossatungur gígurÞað hefur aldrei fundist gígur eftir loftstein á Íslandi - ekki enn.  Ég var því spenntur fyrir að kanna skálina sem er sunnan til í Hafnarfjalli, í Hrossatungum.  Skálin er sýnd á fyrstu myndinni, með Skarðsheiði á bak við. Myndirnar tók Ragnar Axelsson einnig í dag.   Hér er greinileg skál eða gígur, á svæði, þar sem ekki hefur gosið eftir ísöld.  Auðvitað hafa loftsteinar fallið á Íslandi, en rof jökla hafa þurrkað út öll vegsummerki eftir þá. Var hér góður kandídat? Ég fór þvi upp í Hafnarfjall í dag, ásamt Birgi Jóhannessyni og fjölskyldu hans. Skálin er mjög falleg og vel þess virði að skoða.  Hún er um 200 m löng frá SV til NA og um 150 m á vídd. Mesta dýpi hennar er um 50 m.  Botninn er sléttur og klæddur mjúkum og þykkum mosa.  Ekkert gil skerst niður í skálina og er hún því mjög regluleg í laginu og reyndar ungleg.  Brúnir skálarinnar eru úr basalti.  Þetta er fremur þykkt basaltlag, og víða með stóra stuðla, sem liggja láréttir, eins og sjést oft í berggöngum. Eystri brún skálarinnar er hæst og þar hefur basaltið verið rofið töluvert, sennilega af yfirgangs skriðjökuls. Það er ekkert að finna hér, sem bendir til loftsteinsáreksturs.  HrossatungurLoftsteinsgígar sýna viss einkenni sem greina þá frá gosgígum. Þar á meðal má nefna sérkennilega sprungumyndun í berginu umhverfis, myndun af tinnu-líku gleri sem verður til vegna bráðnunar, og einnig lag af urð og grjóti, sem hefur kastast upp úr gígnum.  Hér er ekki slíkt að finna.  Skálin er því gosgígur, en hvað er hann gamall? Eldstöðin sem myndaði Hafnarfjall er um 4 milljón ára gömul og hefur Hjalti Franzson meðal annara kannað hana. Gígurinn er því mun yngri en virkni í Hafnarfjallseldstöðinni.  Hann er sennilega tengdur myndun af móbergi og þursabergi, sem finnst her í grennd. Þá er aldur hans sennielga frá lokum ísaldar eða innan við  eitt hundrað þúsund ára.  Á seinni myndinni má sjá hópinn á gígbrúninni,  inni í rauða hringnum. Leitin af loftsteinsgíg á Íslandi heldur því áfram.......

Sánkti Helena gosið árið 1980: Nýtt listaverk í Eldfjallasafni

Roger WerthEinn dag í sumar komu kurteis og vingjarnleg amerísk hjón inn í Eldfjallasafn í Stykkishólmi.  Hann kvaðst vilja færa mér eldgosamynd að gjöf og dró upp úr tösku sinni þetta fágæta og einstæða verk.  Hann er Roger A. Werth, ljósmyndari og blaðamaður í Washington fylki í Bandaríkjunum.  Hinn 18. maí árið 1980 tók hann frægustu eldgosaljósmynd allra tíma, á fyrstu mínútum sprengisossins í Sánkti Helenu eldfjalli.  Næsta dag var myndin á forsíðum allra dagblaða Bandaríkjanna og skömmu síðar á forsíðum Time, Newsweek, Life, National Geographic og fjölda tímarita um heim allan.   Myndin hlaut Pulitzer Prize verðlaunin sem besta blaðaljósmynd ársins. Roger sagði mér alla söguna þennan dag í Eldfjallsafni.  Gosið hófst klukkan 8:32 ð morgni.  Hann starfaði í bænum Longview, skammt frá Sánkti Helenu og stökk strax upp í flugvél til að mynda gosið.  Hann valdi að fljúga sunnan við fjallið, þar sem gjóskustrókurinn sást mun betur.  Að norðan verðu var gjóskuflóð í gangi, sem gerði alla flugumferð hættulega. Þarna horfir hann beint inn í miðjan mökkinn, en hæð hans náði 18 km fyrir ofan eldfjallið þegar gosið náði hámarki. Gosið í Sánkti Helenu er eitt af frægustu gosum seinni tíma.  Frægðin stafar first og fremst af því að þetta er fyrsta gosið innan Bandaríkjanna á meginlandi Ameríku í langan tíma, fyrir utan Alaska.  Samt sem áður var gosið alls ekki stórt. Heildarmagn gosefna, sem kvika, var um 0,5 rúmkílómetrar, sem er heldur minna en Surtseyjargosið árið 1963 til 1968, en um tíu sinnum meira en gosið í Eyjafjallajökli árið 2010.  Nú er mynd Rogers til sýnis á áberandi stað við innganginn í Eldfjallasafni.


Auðæfi Grænlands - erindi

Næsta erindi í fyrirlestraröð okkar um Grænland er um auðæfi Grænlands. Fundurinn hefst kl. 14 laugardaginn 13. október í Eldfjallasafni í Stykkishólmi.  Allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Erindaflokkur Eldfjallasafns um Grænland er að hefjast

Haraldur go RAXNæsta laugardag, hinn 29. september, hefst nýr erindaflokkur í Eldfjallasafni í Stykkishólmi kl. 14, og heldur áfram alla laugardaga í október. Aðgangur er öllum ókeypis. Auk mín mun Ragnar Axelsson flytja erindi. Grænland hefur verið mikið í fréttum undanfarið og af nógu er að taka varðandi efni til umfjöllunar: bráðnun Grænlandsjökuls, hopun hafisins umhverfis Grænland, mikil auðæfi í jörðu á Grænlandi og olíuleit á hafsbotni umhverfis, tengsl Grænlands við uppruna heita reitsins sem nú er undir Íslandi, söguna um elsta berg á jörðu, sem finnst á Grænlandi, landnám íslendinga á Grænlandi. Ragnar Axelsson hefur kannað Grænland í meir en tvo áratugi og ljósmyndir hans þaðan eru heimsþekkt listaverk. Hann mun segja okkur frá sýn sinni af Grænlandi og íbúum þess í vel myndskreyttu erindi hinn 6. október.

Týnda flugvélin

ál partarÍ gær komst ég loks að leifum bresku herflugvélarinnar, sem brotnaði í norður hamri Svartahnúks árið 1941. Vélarpartar og litlar tætlur af ál eru á víð og dreif í skriðunni undir hnúknum á um 100 metra breiðu svæði. Áltætlurnar er allar beyglaðar og sumar bræddar, eins og fyrsta myndin sýnir. Útlit þeirra minnir okkur rækilega á það, að sprengju- og skotfærafarmur hervélarinnar sprakk í loft upp við áreksturinn og mikið bál varð úr. Flugslysið varð hinn 28. nóvember árið 1941 og hefur Karl Smári Hreinsson skrifað ágæta grein um þennan atburð. Eftir að hafa hringsólað um norðanvert Snæfellsnes flaug vélin inn Kolgrafafjörð í afleitu veðri, en náði ekki að komast suður yfir fjallgarðinn og brotnaði í hamrinum, þar sem merkið X er á kortinu hér til hlíðar. KortÉg hef verið að leita að flakinu öðru hvoru í sumar, en það hefur verið hulið snjó þar til nú í september. Þessi Vickers Wellington tveggja hreyfla sprengjuflugvél hafði farið í eftirlitsflug á hafinu milli Íslands og Grænlands hinn 28. nóvember. Það var hvasst að suðaustan þennan dag og mjög láskýjað. Bændur í Kolgrafafirði og Eyrarsveit heyrðu flugvélagný og sáu mikinn blossa í fjallinu, eins og eldgos. En veðrið var afleitt og skyggni ekkert. Einn bóndi tók hvað mestan þátt í leit að flugvélinni, en það var Ingvar Agnarsson bóndi á Kolgröfum. Nokkrum árum síðar var ég part úr sumri sem ungur smali í sveit hjá Ingvari á Kolgröfum. Þá fræddist ég dálítið um atburðinn, en Ingvar hélt merka dagbók. Hinn 1. desember komst Ingvar loks að flakinu undir Svartahnúk, beint fyrir ofan Grenjadal. Leifar af sex líkum áhafnarinnanr fundust og voru þau flutt til byggða. Svartihnúkur er nær þverhníptur. Hann er myndaður úr blágrýtislögum, sem hafa ummyndast vegna háhita. Innskot af granófýr og díórít bergi eru mikilvæg í efri hluta hnúksins.

Sjaldgæfir málmar á Grænlandi

Kvanefjeld námusvæðiðSjaldgæfu jarðmálmarnir eru sautján fremur fágæt frumefni, sem hafa mjög svipaða eiginleika. Ég hef áður fjallað nokkuð um þá hér http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1151653/Þessi sautján efni heita scandium, yttríum, lanthanum, praesodymium, neodymium, promethium, samaríum, europium, gadolinium, terbium, dysprosium, holmium, erbíum, thulium, ytterbíum og lutrtium. Sjaldgæfu málmarnir eru ómissandi í gerð allra raftækja, í tölvur, snjallsím, bíla og flestar eða allar raf- og málmiðnaðarvörur. Til dæmis er neodyníum ómissandi í segul fyrir vindmyllur, og í rafhlöður fyrir rafbíla. Eftirspurnin er því mjög mikil og vaxandi. Verð á sjaldgæfum málmum hefur því tífaldast undanfarið, frá um $20 fyrir kg uppí $200 kílóið. Á sama tima hefur Kína, sem er aðal framleiðandinn (95%), dregið úr utflutningi, frá 65 þúsund tonnum á ári niður í um 30 þúsund. Sjaldgæfu málmarnir eru algengastir í vissum tegundum af graníti. Á Grænlandi eru sjaldgæfu málmarnir til í ríkum mæli í Ilimaussaq bergmyndunum á suður Grænlandi, einkum á Kvanefjeld svæðinu. Hér er mikið berginnskot af þeirri tegund sem nefnist nefelín sýenít. Í þessu bergi er einnig mikið magn af úran. Kvanefjeld er reyndar í Eystribyggð, skammt frá Bröttuhlíð, á svæði sem var vel kunnugt þeim forfeðrum okkar sem sigldu til Grænlands á söguöld og settust hér að. Það er nú talið að í Kvanefjeld sé ein allra stærsta náma af sjaldgæfum málmum og úran á jörðu. Ekki er enn hafinn námurekstur í Kvanefjeld. Tanbreez náman er einnig í Eystribyggð á suður Grænlandi og hér er berg sem er mjög ríkt af sjaldgæfu málmunum og jafnvel ríkara en í Kvanefjeld. Tanbreez er ekki heldur komin í gagnið. Það fer fram hjá engum að heimsókn ráðamanna frá Suður Kóreu til Grænlands í vikunni er nátengd áhuga kóreumanna á sjaldgæfum málmum, sem eru algjörlega nauðsynlegir fyrir ramleiðslu raftækja, bíla og annars hátækniiðnaðar í Suður Kóreu. Nú er dnasinn að hefjast fyrir alvöru milli alþjóða námufyrirtækja og heimamanna. Lobbyistar eða áróðursmenn fyrir námu- og olíufyrirtækin segja að Grænland sé í raun algjör draumur þeirra, þar sem hér sé tiltölulega auðvelt að hafa áhrif. Meðal hinna 57 þúsund íbúa landsins er talið að hér sé yfirstétt, sem er mönnuð af aðeins 44 stjórnmálamönnum, ráðherrum, þingmönnum og borgarstjórum. Lobbyistarnir segja, að hér þurfi þeir því aðeins að hafa áhrif á 25 ráðamenn til að koma máli sínu í gegn varðandi námurétt og umhvefismál. Núverandi stjórn Grænlands var mynduð eftir kosningarnar árið 2009 og er hún samsteypustjórn þriggja flokka: Inuit Atagatigiit, Demokraatit and Kattusseqatigiit Partiat. Inuit Ataqatigiit flokkurinn er stærstur, eða með um 44% atkvæða í síðustu kosningum. Flokkurinn er vinstri sinnaður og stefnir á algjört sjálfstæði Grænlands og skilnað frá dönum. Formaður flokksins er Kuupik Kleist forsætisráðherra og hvílir mikil ábyrgð á honum þessa dagana.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband