Skjálftar í Eyjafjarðarál
21.10.2012 | 09:36
Það er mjög stórt misgengi rétt undan norðurlandi, sem er kennt við Húsavík og Flatey. Nú kemur það fram í fréttum vegna mikilla jarðskjálfta þar í nótt og einnig í september mánuði. Misgengið liggur frá Húsavík, rétt milli Flateyjar og lands, og inn í Eyjafjarðarál og inn á landgrunnið fyrir norðan Tröllaskaga, eins og fyrsta mynd sýnir. Á henni eru sýndir skjálftarnir sem urðu í hrynunni frá 14. til 21. september í ár, en myndin er frá Veðurstofu Íslands. Mér virðist að hrinan sem nú stendur yfir sé á svipuðum slóðum, en þó nokkuð sunnar. Hreyfingar á þessu misgengi eru þannig að landgrunnið norðan misgengisins færist til suðausturs, miðað við jarðskopruna fyrir sunnan misgengið, eins og örvarnar á fyrstu mynd sýna.
Hér erum við þá að fjalla um sniðmisgengi. Vestur endi sniðmisgengisins virðist enda í vestur brún Eyjafjarðaráls. Skjálftarnir eru ef til vill tengdir gliðnun Eyjafjarðaráls, eins og hinar örvarnar á fyrstu myndinni sýna. Þessi áll er stórmerkilegt fyrirbæri. Önnur myndin (frá Orkustofnun) sýnir að það er mikill búnki af setlögum í Eyjafjarðarál. Svörtu brotalínurnar á myndinni sýna að setlögin í Eyjafjarðarál erum 2 til 3 km á þykkt. Állinn er mikill sigdalur, sem hefur verið virkur í nokkrar milljónir ára, og hér hefur dalurinn sigið stöðugt og set safnast hér fyrir. Setið er það þykkt, að í því gætu verið gas eða olíumyndanir, ef hitastigullinn er ekki of hár til að leyfa olíu að þrífast. Sigið gerist hér á flekamótum, en það eru flekamót án eldvirkni. Þeyndar kemur eldvirknin fram nokkuð norðar, þar sem Eyjafjarðaráll grynnist og kemur í ljós sem eldeyjan Kolbeinsey. Þar mun hafa síðast gosið árið 1372.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Hvers vegna eru stærstu eldfjöll sólkerfisins á Mars?
16.10.2012 | 07:44
Nú er amerískur jeppi á ferðinni á yfirborði plánetunnar Mars og hann er með nægilegt eldsneyti innanborðs til að keyra og kanna í fjórtán ár. Við munum því fá mikið flóð af jarðfræðilegum (marsfræðilegum?) upplýsingum um þessa merkilegu plánetu næstu árin. Ég bíð spenntur eftir því að þeir senda jeppann upp á Olympus Mons, sem er hæsta og stærsta eldfjall í sólkerfi okkar, um 22 km á hæð. Já, og flatarmál eldfjallsins er meir en þrisvar sinnum flatarmál Íslands. Hvernig getur þessi litla pláneta myndað stærstu og hæstu eldfjöll sólkerfisins? Mars er að mörgu leyti allt öðru vísi en jörðin, eins og fyrsta myndin sýnir. Hér er Mars til vinstri og jörðin til hægri. Ekki er Mars öðru vísi einungis á yfirborði, heldur einnig að innri gerð. Eðlisþyngd rauðu plánetunnar er aðeins 3,94 g/cm3, en jörðin er með miklu hærri eðlisþyngd: 5.52 g/cm3. En Mars er miklu minni en jörðin.
Þannig er þvermál Mars aðeins helmingur af þvermáli jarðar og Mars er því aðeins með um 10% af massa jarðar. Lægri eðlisþyngd bendir til að kjarninn í Mars sé annað hvort lítill eða innihaldi lítið járn. Veikt segulsvið plánetunnar bendir einnig til að kjarninn sé ekki lengur fljótandi og því sennilega orðinn fremur kaldur.
Flekahreyfingar jarðskorpunnar er eitt af höfuðeinkennum jarðarinnar. Hins vegar eru flekahreyfingar litlar eða nær óþekktar á Mars. Ef til vill er risastóra gilið Valles Marineris á Mars myndað við flekahreyfingar, en umdeilt. Það má skifta plánetunni í tvennt. Suður helmingurinn hefur helmingi þykkari skorpu (80 km, rauðu svæðin á kortinu fyrir ofan) og meira hálendi eins og myndin fyrir ofan sýnir, en norður helmingurinn er með tiltölulega þunna skorpu (ca. 30 til 40 km, bláu svæðin). Skopran á Mars er að mestu gerð úr basalti og hefur eldvirkni því verið mjög mikilvæg á plánetunni áður fyrr. Það er vísbending um að einhver eldgos hafi orðið síðustu milljón árin, en eldvirkni er nú mjög lítil. Þar sem flekahreyfingar eru ekki til staðar, þá hafa eldgosin verið mjög staðbundin og mjög há eldfjöll hlaðist upp, eins og Olympus Mons. Ef til vill eru þá tveir þættir, sem gera Mars kleift að mynda hæstu eldfjöll sólkerfisins: óvenju þykk skorpa og staðbundin eldvirkni. Talið er, að mikið hafi dregið úr eldgosum á Mars en þó eru mjög ung hraun sjáanleg. Aftur beinist athyglin að Olymus Mons fjallinu, þar sem askjan í toppnum er engin smásmíði, eins og síðasta myndin sýnir.
Þessi 2 km djúpa askja er um 90 km í þvermál eða heldur stærri en allur Faxaflói. Það er augljóst að hún hefur ekki myndast við einn atburð, heldur er askjan stóra á Olympus Mons afleiðing af fimm misgömlum öskjumyndunum, sem hver hefur skilið eftir sinn hring.
Íslenski heiti reiturinn fór undir Grænland: Erindi Eldfjallasafns
15.10.2012 | 10:11

Steinninn Jake á Mars
15.10.2012 | 10:03



Skálin í Hrossatungum
14.10.2012 | 18:47


Sánkti Helena gosið árið 1980: Nýtt listaverk í Eldfjallasafni
10.10.2012 | 11:34
Einn dag í sumar komu kurteis og vingjarnleg amerísk hjón inn í Eldfjallasafn í Stykkishólmi. Hann kvaðst vilja færa mér eldgosamynd að gjöf og dró upp úr tösku sinni þetta fágæta og einstæða verk. Hann er Roger A. Werth, ljósmyndari og blaðamaður í Washington fylki í Bandaríkjunum. Hinn 18. maí árið 1980 tók hann frægustu eldgosaljósmynd allra tíma, á fyrstu mínútum sprengisossins í Sánkti Helenu eldfjalli. Næsta dag var myndin á forsíðum allra dagblaða Bandaríkjanna og skömmu síðar á forsíðum Time, Newsweek, Life, National Geographic og fjölda tímarita um heim allan. Myndin hlaut Pulitzer Prize verðlaunin sem besta blaðaljósmynd ársins. Roger sagði mér alla söguna þennan dag í Eldfjallsafni. Gosið hófst klukkan 8:32 ð morgni. Hann starfaði í bænum Longview, skammt frá Sánkti Helenu og stökk strax upp í flugvél til að mynda gosið. Hann valdi að fljúga sunnan við fjallið, þar sem gjóskustrókurinn sást mun betur. Að norðan verðu var gjóskuflóð í gangi, sem gerði alla flugumferð hættulega. Þarna horfir hann beint inn í miðjan mökkinn, en hæð hans náði 18 km fyrir ofan eldfjallið þegar gosið náði hámarki. Gosið í Sánkti Helenu er eitt af frægustu gosum seinni tíma. Frægðin stafar first og fremst af því að þetta er fyrsta gosið innan Bandaríkjanna á meginlandi Ameríku í langan tíma, fyrir utan Alaska. Samt sem áður var gosið alls ekki stórt. Heildarmagn gosefna, sem kvika, var um 0,5 rúmkílómetrar, sem er heldur minna en Surtseyjargosið árið 1963 til 1968, en um tíu sinnum meira en gosið í Eyjafjallajökli árið 2010. Nú er mynd Rogers til sýnis á áberandi stað við innganginn í Eldfjallasafni.
Auðæfi Grænlands - erindi
8.10.2012 | 13:02
Erindaflokkur Eldfjallasafns um Grænland er að hefjast
26.9.2012 | 08:47

Týnda flugvélin
25.9.2012 | 17:59


Sjaldgæfir málmar á Grænlandi
25.9.2012 | 17:40
