Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015
Hvers vegna þykknar Holuhraun?
29.1.2015 | 07:55
Nýjar mælingar sýna að flatarmál Holuhrauns breytist hægt en hins vegar þykknar hraunið töluvert. Er það nú orðið um 40 metra þykkt umhverfis gígana. Hver er ástæðan fyrir þessari hegðun gossins? Af hverju dreifist það ekki út en hleðst upp í staðinn? Ég tel að það séu þrjár skýringar á þessu. Í fyrsta lagi hefur dregið úr goskraftinum og minna magn af kviku berst upp á yfirborð. Í öðru lagi er landslag fyrir norðvestan hraunið með brekkum og lágum klettastöllum, sem draga úr hraunrennsli í þá áttina. Í þriðja lagi er það Jökulsá á Fjöllum. Þegar hraunið kemur í snertingu við ána þá kólnar það hraðar og þá hleðst upp kantur af hrauni meðfram ánni. Þetta er ekki ósvipað vatnskælingunni á hrauninu í Vestmannaeyjum árið 1973. Þannig er hraunið nú að nokkru leyti rammað inn af ánni með austur brúninni og landslaginu fyrir norðvestan og vestan. Þegar hraunrennslið er orðið lítið, þá nær hraunið ekki að brjótast út úr þessum fjötrum umhverfisins. Myndin sem fylgir er tekin nið norður totu hraunsins 11. september 2014. Hún sýnir tvo af þessum þáttum, sem nú eru að fjötra útbreiðslu hransins. Her sést bergstallur að norðaustan verðu, sem stoppar úbreiðslu hraunsins í þá áttin. Einnig sést vel hvað hraunkannturinn er hár á áreyrunum, þar sem árvatnið kælir hraunið hratt, hleður því upp og hægir á rennsli þess.
Möskvastærð er ekkert mál!
27.1.2015 | 18:05
Hort vilt þú deyja úr hungri, eða úr malaríu? Í Afríku er þetta ekkert grín, heldur alvöru mál. Í Zambíu og mörgum öðrum löndum Afríku eru moskítónet algeng vörn gegn malaríu, en nú eru margir íbúar búnir að taka netið niður fyrir ofan rúmið og farnir með það út á vatn eða út í ána, sem rennur í nágrenninu. Húsbóndinn er búinn að taka öll netin ur heimilinu, sauma þau saman og notar þau til að trolla eftir fisk í ánni eða vatninu. Það er ekkert spursmál um möskvastærð hér. Netið fangar bókstaflega allt sem lifir í vatninu, ungviði sem fullorðinn fisk og ekkert er skilið eftir. Þessi dásamlegu moskítónet, sem hjálparstofnanir færa heimamönnum ókeypis eru að bjarga þeim, ekki frá malaríunni, heldur frá hungri. Netin eru ókeypis, en þau eru menguð af permethin, sem drepur moskító flugur en einnig mikið af lífriki vatnanna. Hjálparstofnanir dreifa hundruðum milljóna moskítónetja á hverju ári í Afríku, sem öll eru menguð efnum til að fæla frá moskító flugur. En nú eru þessi efni að fara í vatnið. En þessi aðferð er ekki bundin við Afríku. Myndin sem fylgir er reyndar frá Kambódíu, þar sem þeir nota sömu aðferð með moskító net.
Sigurfari á haugana?
27.1.2015 | 08:49
Þegar ég heimsæki Akranes, þá kem ég gjarnan við hjá Sigurfara, síðasta kútternum á Íslandi. Ég hef alltaf litið á hann sem merkilegustu menningarminjar sem Akurnesingar hafa í sínum fórum. Hann er nú reyndar aðeins svipur hjá sjón og nú hafa yfirvöld tilkynnt að hann veri rifinn og kastað á hauga, í staðinn fyrir að ráðast í dýra viðgerð. Þetta er ótrúleg skammsýni hjá bæjarfélagi sem kastaði hins vegar um 150 milljónum króna í að semja sögu bæjarins. Ef þetta væri gamalt hús, þá væri það lögbrot að rífa það. Er engin hreyfing á Akranesi, sem hefur áhuga á að halda utan um svo merkilegan grip? Hvar er metnaður bæjarbúa í menningarmálum?
Steve Sparks fær verskulduð verðlaun
24.1.2015 | 11:50
Það eru engin Nóbelsverðlaun gefin í jarðvísindunum, en alveg sambærileg verðlaun eru Vetlesen verðlaunin. Þau eru veitt annað hvort ár við hátiðlega athöfn í Columbia Háskóla í New York og verðlaunaupphæðin er nokkuð rífleg, eða 25 milljón krónur. Nú í sumar verða verðlaunin veitt Steve Sparks. Hann er tvímælalaust jarðvísindamaðurinn, færði eldfjallafræðina inn í nútímann, en Steve er einnig það sem við viljum gjarnan kalla Íslandsvinur. Það má með réttu segja að Steve sé fyrsti vísindamaðurinn, sem beitti aðferðum elisfræðinnar og stærðfræðinnar til að rannsaka eldfjöll og virkni þeirra. Reyndar hafði kennari hans, George Walker, hafið síkar rannsóknir og einnig samstarfsmaður hans Lionel Wilson. Steve byggði á síðan þeim grunni, sem þeir reistu og hóf eldfjallafræðina upp á veglegan stall meðal raunvísindanna. Við Steve hittust fyrst á þilfari hafrannsóknaskipsins Trident í austur hluta Miðjarðarhafsins í september árið 1975. Ég var þá að hefja rannsóknir á dreifingu eldfjallaösku í setlögum á botni Miðjarðarhafsins, sem leiddu til starfa minna á eldeynni Santorini í Eyjahafi. Steve var að ljúka doktorsgráðu sinni um þessar mundir, en það var strax augljóst að hér var topp maður í vísindunum á ferð, þrátt fyrir strákslegt útlit. Leiðangrinum lauk í Napólí á Ítalíu og þar sem sú höfn er steinsnar frá Pompeii, þá tókum við þá ákvörðun að fara saman í heimsókn í borgina frægu, sem grófst undir ösku og vikri frá gosinu mikla í Vesúvíusi árið 79 e.Kr. Það leiddi til þess að Steve kom í heimsókn til mín í Rhode Island og úr því spannst margra ára samvinna um rannsóknir á Íslandi, Vestur Indíum, Miðjarðarhafi og víðar. Þá kom strax í ljós, að Steve er ekki aðeins gættur þeim hæfileikum að hafa alla eðlisfræðina og stærðfræðina á fingrum sér, heldur er hann einstaklega samvinnuþýður og hefur lag á því að mynda sterka starfshópa. Ofan á allt saman, þá er Steve einn gjafmildasti maður, sem ég þekki í vísindunum: hans kappsmál er að niðurstöður rannsókna birtist sem fyrst og ekkert atriði fyrir hann hvar hans nafn er í röð höfundanna á greininni. Enda er hann þá og þegar með nokkrar aðrar greinar í smíðum. Afkastageta hans er ótrúleg og ekkert hefur dregið úr því. Ég veit ekki hvað rís hæst þegar litið er yfir vísindaferil Steve Sparks, enda of snemmt að dæma slíkt. Mig grunar að hann myndi velja uppgötvunina um blöndun kviku. Við rákumst fyrst á þetta fyrribæri þegar við vorum að kanna vikurlögin í Öskju frá gosinu mikla árið 1875. Þar voru algengir vikurmolar, sem voru greinilega blanda af ljósu líparíti og dökku basalti. Þessar tvær kvikur höfðu sem sagt blandast fyrir gos. Í grein í Nature árið 1977 sýndum við fram á hvernig slík blöndun getur hleypt elgosum af stað. Það er of langt að fjalla um hin mörgu verkefni sem við Steve höfum unnið saman, en ég er hreykinn af að hafa átt slíkan frábæran félaga við rannsóknir eldfjallanna.
Sukk og svínarí
20.1.2015 | 09:01
Ég var að ljúka vikudvöl minni í fornu borginni Marrakesh í Marokkó. Borgin er stórmerkileg, en hún var stofnuð af Berbum árið 1062. Marrakesh situr við rætur hinna fögru og snævi þöktu Atlasfjalla, sem ná meir en 4000 metra hæð. Hús, hallir og moskur borgarinnar er nær öll byggð úr rauðum sandsteini og einnig borgarmúrarnir, sem gefur borginni sérstakan rauðan lit. Berbar settu strax á laggirnar markað eða souk hér á elleftu öld og reyndar eru í borginni einir átján souks starfandi í stígum og götum, sem eru svo þröngar að engir bílar fara þar um, aðeins fótgangandi og asnakerrur með farangur á markaðinn. Karlar sitja við störf sín úti á götu eða í þröngum sundum, en konur eru lítt áberandi. Hér er hægt að kaupa bókstaflega allt sem þér dettur í hug. Krydd er áberandi, einnig fatnaður, teppi, grænmeti, ávextir. Ég rakst jafnvel á nokkra karla sem voru eingöngu að selja steingervinga og kristalla af ýmsu tagi, enda er jarðfræði Marókkó stórmerkileg. Aðrir selja forngripi frá ýmsum kynþáttum Norður Afríku, einkum Tuareg fólki. Það er enginn vandi að eyða mörgum dögum í souk, en maður stoppar öðru hvoru til að fá sér heitt te með mintu. Þeir taka fersk mintublöð og hella sjóðandi vatninu yfir þau, sem gerir hinn besta drykk. Svo setja þeir tvo stóra sykurmola út í. Einn daginn, á leið í souk áttaði ég mig allt í einu á því að reyndar var ég að fara í sukkið! Ég tel að það sé enginn vafi á því að íslenska orðið sukkið er dregið af souk. Sennilega hefur það borist okkur í gegnum dönsku. Eina souk í Evrópu sem ég veit um er í Marseille í suður Frakklandi, enda eru Arabar í meirihluta í þeirri borg. Að fara í sukkið getur að vissu leyti verið neikvætt, enda er maður hér til að eyða tímanum, á flækingi, og þar á meðal er hætta á að dragast út í einhverja óreglu. En það er ekki hættan í Marrakesh. Þar hjá múslimum er ekkert áfengi selt í sukkinu.
Rætur hryðjuverkamanna
19.1.2015 | 07:25
Hvað segir félagsfræðin og mannfræðin um uppruna hryðjuverkanna? Ekki mikið, en þó er ýmislegt að koma fram. Til dæmis er bent á eitt athyglisvert í sambandi við samanburð á innflytjendum í París og Bandaríkjunum. Bandaríski mannfræðingurinn Scott Atran hefur kannað þetta mál. Í Bandaríkjunum er talið að innflytjendur nái þeirri menntun og efnahag, sem einkennir meðalmanninn í landinu eftir aðeins eina kynslóð. Í Frakklandi eru innflytjendur fimm til tuttugu sinnum líklegri að vera fátækari og minna menntaðir en miðstéttin, jafnvel eftir þrjár kynslóðir í landinu. Stéttaskiftingin er, þrátt fyrir allt, miklu lífseigari í Frakklandi en í Ameríku. Uppruni fanga í fangelsum þessara landa segir einnig sína sögu. Í Frakklandi eru múslimar á bilinu 8 til 10% af allri þjóðinni, en þeir eru um 60 til 75% af öllum föngum landsins. Það er svipað hlutfall og hjá ungum svertingjum í Bandaríkjunum. En í Frakklandi sitja margir í steininum vegna hugmyndafræði sinnar. Í Bandaríkjunum er það öðruvísi. Þar eru svertingjarnir fangar aðallega vegna smáglæpa, tengdum neyslu og verslun með eiturlyf. Skoðanakannarnir sýna að í Frakklandi hafa 27% af öllu ungu fólki (milli 18 og 24 ára) frekar jákvæða skoðun á ISIS. Meðal þeirra eru margir atvinnulausir utangarðsmenn, sem líta á ISIS sem samtök, þar sem þeir séu velkomnir og sjá jihad sem aðferð til að breyta heiminum sér í vil. Þannig tókst þremur fyrrum föngum í París að ná heimsathygli í síðustu viku og breyta heiminum á sinn hátt, þótt það kostaði þá lífið. Mannfræðingarnir telja að milli 7 og 14% allra múslima í heiminum styðji árás Al Quaeda á Bandaríkin árið 2001. Ef svipað hlutfall styður ISIS nú, þá er það hvorki meira né minna en um 100 milljón manns. En hve margir þeirra væru tilbúnir að berjast og deyja fyrir slíkan málstað? Það veit enginn. Slíkt hugarfar myndast aðeins við sérstakar aðstæður, eins og til dæmis í litlum klíkum múslima í fangelsi, þar sem þeim finnst að allur hinn vestræni heimur vinni á móti sér. Mannfræðingarnir telja því að klíkurnar myndist ekki í moskunum heldur fyrst og fremst í fangelsum, eða þá á fótboltavellinum. Ekki í moskum, því að þar er þögn og menn talast ekki við. Ræturnar eru fátækt, misrétti, atvinnuleysi og félagsleg vandamál, sem hafa að mestu leyti skapast vegna auðvaldsskipulagsins sem stýrir heiminum í dag.
Gosið heldur áfram
18.1.2015 | 14:19
Íslendingar eru nú orðnir svo vanir gosinu í Holuhrauni að það er varla minnst á það lengur í fjölmiðlum. En það heldur samt áfram og einnig heldur sigið áfram í Bárðarbungu. Reyndar var sambandsleysi við GPS mælinn í Bárðarbungu um tíma, en hann komst aftur í samband á gamlársdag og hefur sent frá sér gögn þar til í síðustu viku, en þá datt hann út aftur, samkvæmt vef Veðurstofunnar : "Ekkert samband nú sem stendur". Eins og ég hef fjallað hér um áður, þá er sigið á 800 metra þykku íshellunni, sem fyllir öskju Bárðarbungu bein afleiðing af rennsli kviku út úr kvikuþrónni og inn í kvikugang, sem nær meir en 50 km til norðurs. Þar kemur kvikan loks upp á yfirborðið í Holuhrauni. Eldstöðin sem er að gjósa er Bárðarbunga, þótt athyglin hafi mest beinst að virkninni á yfirborði í Holuhrauni. Línuritið sem fylgir hér með sýnir að sig Bárðarbungu hefur verið ótrúlega reglulegt frá upphafi. Jafnan sem fylgir línuritinu sýnir að það er mjög nærri því að vera hrein lína, með R2 = 0,99968. Það gerist ekki betra í náttúrunni. Samkvæmt þessu verður línan orðin lárétt (sig hættir) eftir um 160 daga frá því að mælingar hófust (12. september 2014), eða í byrjun mars mánaðar 2015, eins og við höfum áður spáð hér í blogginu. Þá er líklegt að gosinu ljúki, því að þrýstingur í kvikuþrónni verður kominn í jafnvægi. Bláu púnktarnir eru allir af athugunum á siginu, nema síðasti punkturinn við dag 160, sem ég leyfi mér að setja inn sem líkleg goslok í mars.
Hvernig Grænlandsjökull myndaðist
18.1.2015 | 11:00
Ísöldin hófst fyrir um 2,7 milljón árum síðan, en þá hafði norðurhvel jarðar verið ísfrítt í meir en 500 milljón ár. Hvers vegna myndaðist þessi mikli jökull á Grænlandi? Var það eingöngu vegna þess að það tók að kólna, eða voru einhverjir aðrir þættir að verki? Það voru þrír þættir, sem virkuðu allir saman til að skapa aðstæður fyrir myndun Grænlandsjökuls. Í fyrsta lagi varð jarðskorpa Grænlands að lyftast upp þar til fjallatopparnir tóku að safna á sig snjó og ís í kaldara lofti. Í öðru lagi varð Grænland að reka nægilega langt norður, þar sem geislun sólar gætti minna að vetri til. Í þriðja lagi varð breyting á snúningsás jarðar, sem færði Grænland enn nær norðurpólnum. Þetta hafa Bernhard Steinberger og félagar hans í Þýskalandi rannsakað rækilega og birt í tímaritunum Terra Nova og Nature. Þeir hafa reynt að sameina þessi þrjú atriði á myndinni, sem fygir hér með. Sagan hefst fyrir um 60 milljón árum, þegar Grænland rak norðvestur á bóginn, yfir heita reitinn, sem nú er undir Íslandi (rauði hringurinn á myndinni). Af þeimn sökum þynntist jarðskorpa Grænlands og mikið magn af basalt hraunum safnaðist fyrir á yfirborði Grænlands frá vestri til austurs. Síðar streymdi möttull frá heita reitnum norður á bóginn (bleikar örvar) undir skorpu Grænlands, lyfti henni upp og þynnti skorpuna. Þetta möttulefni streymdi aðallega til austur Grænlands og lyfti upp svæðinu sem nú er Scoresbysund og Gunnbjarnarfjall, hæsti tindur Grænlands (rúml. 3700 metrar). Þá rak Grænland norðvestur á bóginn vegna þess að Norður Atlantshafið tók að opnast (dökkbláir hringir sýna hreyfinguna frá 60 milljón árum til okkar tíma). Að lokum hefur snúningsás jarðar mjakast töluvert (um 12 gráður), eins og grænu hringirnir sýna, frá 60 milljón og til okkar daga, en við það hefur Grænland færst enn nær norður pólnum. Í heildina hefur færslan norður á við verið um 18 gráður, nóg til að færa Grænland inn á svæði þar sem loftslag veldur jökulmyndun.
Heitasta árið
16.1.2015 | 18:28
Það er varla fréttnæmt lengur, en árið 2014 er hið heitasta á jörðu síðan mælingar hófust árið 1880. Við tökum það nú sem sjálfsagðan hlut að hnattræn hlýnun haldi áfram sínu striki uppá við. Loftslagsfræðingar telja það einnig merkilegt að þetta met var sett í fyrra án þess að El Nino væri í gangi, en sá hafstraumur Kyrrahafsins dembir miklu magni af hita úr sjónum og upp í lofthjúp jarðar. Allir vita að það er fyrst og fremst losun okkar manna af miklu magni af CO2, sem hefur valdið hnattrænni hlýnun. Nú þegar verð á olíu og jarðgasi heldur áfram að falla á heimsmarkaðinum, þá eru mjög litlar líkur á að mannkynið dragi úr losun á koltvíoxíði á næstunni. Komandi ár munu því verða enn hlýrri. Fyrsta línuritið sýnir hitaferli jarðar fyrir bæði land og haf, frá NASA. Önnur myndin sýnir hvernig hafís hefur dregist saman frá 1979, en hafís á norðurslóðum minnkar rúmlega 13% á hverjum áratug. Það eru töluverðar sveiflur í hafís og mest áberandi er hvað hann minnkaði mikið árið 2007, en 2012 var enn verra. Þriðja myndin sýnir hegðun íshellunar, sem þekur Grænland. Grænlandsjökull minnkar nú á ári hverju sem nemur 258 milljörðum tonna af ís.
Hvernig kóngur Marókkó tók á hryðjuverkamönnum
16.1.2015 | 10:15