Vinkona mín er stjörnufræðingur sem starfar hjá Jet Propulsion Laboratory í Kalíforníu og vinnur að rannsóknum á Io, en það er eitt af fimm tunglum sem svífa umhverfis plánetuna Júpiter. Io er dálítið stærra en tunglið okkar, og hefur ekki neitt andrúmsloft, en Io hefur það sem meira er: mörg virk eldfjöll! Stórkostlegar uppgötvanir voru gerðar á Io eftir að bandarísku geimförin Voyager 1 og Voyager 2 sigldu í grennd við það fyrst 1977 og hafa sent síðan ógrynni af upplýsingum til jarðar. Þessi geimför eru enn virk og á ferðinni um geiminn. Það var í kringum 1995 að vinkona mín sagði mér að fundist hefði fjöldi af áður óþekktum eldfjöllum á Io og nú þyrfti að gefa þeim öllum nafn. Hún vildi endilega skýra eitt í höfuðið á mér, en sú er reglan að á Io verða allir gígar að bera nafn goða eða guða eða þjóðsagnapersóna.
Haraldur gekk ekki upp, en Sigurd gæti gengið, í höfuð á Sigurði Fáfnisbana. Eins og kunnugt er við lestur Völsungasögu, þá er Sigurður ein af stóru hetjunum í fornnorrænum þjóðsögnum. Hann drap til dæmis drekann Fáfnir, baðaði sig í blóði hans, drakk það líka og steikti hjartað og át. Hér með fygir trérista sem sýnir Sigurð drepa drekann Fáfni. Þannig kom til að eldfjall á Io heitir Sigurd Patera og er skýrt í höfuð á mér, og það er bara gott fyrir hégómagindina, ekki satt? Patera er lýsing á eldfjalli sem stjörnufræðingar nota, þegar það er flatt út eins og stór súpudiskur á hvolfi eða það form sem við nefnum dyngja á íslensku. Myndin fyrir neðan sýnir eldfjallið Sigurð á Io.
Nafnið Io er reyndar nokkuð sérsætt, en í grísku goðafræðinni var Io mær sem var ástfangin af Zeus (sem er sá sami og Júpiter), og breyttist Io í kú til að fela sig fyrir Heru, hinni afbrýðissömu eiginkonu Zeusar. Túnglið Io var uppgötvað af sjálfum Galileo Galilei árið 1610, eftir að hann hafði fundið upp og smíðað fyrsta sjónaukann. Önnur íslensk heiti á Io eru Völund og Surtur, og svo auðvitað Loki, sem er ef til vill stærsta og virkasta eldfjall í sólkerfinu okkar. Sigurður hefur ekki gosið síðan athuganir hófust, en aftur á móti er Loki kraftmesta eldfjallið í sólkerfinu, og er stöðugt gjósandi síðan hann var uppgötvaður árið 1979. Mynd tekin af Io að nóttu til er sýnd hér fyrir neðan, og sýnir vel að allt er glóandi í eldgosum. Hitinn sem streymir frá Loka er meiri en frá öllum eldfjöllum jarðar.
Í Loka er risastór askja sem er yfirleitt full af heitum hraunum og er þetta sennilega virk og fljótandi hrauntjörn. Eftir Voyager leiðangrana var tunglið Io kannað af geimfarinu Galileo, sem hafði innrauðan geislahitamæli um borð. Þá kom í ljós að sum hraun sem renna á Io í dag eru 1400 til 1700 stig á celcíus, eða töluvert heitari en hraunkvika sem rennur á yfirborði jarðar (heitasta hraun sem vitað er um á Íslandi var um 1240 stiga heitt). Hvernig stendur þá þessum mikla hita á Io? Á jörðu runnu 1500 stiga heit hraun mjög snemma í jarðsögunni, eða fyrir um einum til tveimur miljörðum ára. Slík hraunkvika er kölluð komatiít, með mjög hátt innihald af magnesíum, og hún er talin myndast við miklu hærra bræðslustig í möttli jarðar. Sem sagt: þegar jörðin var heitari en í dag. Leifar af fornum komatiít hraunum finnast í Suður Afríku og í Kanada í dag. Já, en hvers vegna er Io heitari og með fleiri eldgos en nokkur önnur pláneta eða tungl? Hitaorkan er sennilega tengd breytilegum krafti sem myndast af aðdráttarafli Júpiters á Io. Tunglið Io er á sporöskjulagaðri braut umhverfis risann Júpiter, og í hverri hringferð kreistir Júpiter Io eins og þegar við kreistum safaríka appelsínu milli handanna. Mikill hiti myndast inní Io við þetta, sem veldur hita og eldgosum á yfirborði. En gos á Io eru ekki aðeins mjög tíð, heldur stendur strókurinn hærra en nokkur önnur gos í heimi.
Strókarnir eða gosský frá eldfjallinu Pele á Io hafa mælst 300 til 460 kílómetrar á hæð, en Pele gýs nær stöðugt. Hæsti gosstrókur á jörðu var þegar Tambora í Indónesíu gaus árið 1815, og náði hann 42 kílómetra hæð. Skýringin er að hluta til tengd því að aðdráttarafl Io er aðeins einn sjötti af aðdráttarafli jarðar. Gosin í Geysi mundu fara upp í 20 kílómetra hæð ef aðdráttarafl jarðar væri svo lágt. En strókarnir á Io eru ekki myndaðir við venjuleg sprengigos, heldur eru þeir að mestu leyti brennisteinsefni. Síðan fellur brennisteinn niður á yfirborðið og gefur Io sinn sérkennilega litarhátt, eins og ofbökuð pizza. Eitt merkilegasta atriði varðandi Io er að hér sjást mjög fáir gígar á yfirborði, sem hafa myndast vegna árekstra við loftsteina. Ef við lítum á tunglið okkar, til dæmis, þá finnast loftsteinagígar á öllu yfirborði þess. Skýringin er sú, að yfirborð Io er mjög ungt og alltaf að endurnýjast, eins og yfirborð jarðar, en yfirborð tunglsins er gamalt, og hefur ekki endurnýjast í um þrjá miljarða ára. Tunglið varðveitir alla söguna um loftsteina árekstra, en jörðin og Io eru eins og skólatafla sem er strokin og hreinsuð eftir hvern tíma. Á Io eru það stöðug eldgos sem hreinsa töfluna og endurnýja yfirborðið; á jörðu eru það flekahreyfingarnar.
Uppgötvanir og rannsóknir á Io og öðrum undrum geimsins eru að mestu leyti vegna geimskota sem voru gerð fyrir nokkrum áratugum. Það hefur tekið mörg ár að taka á móti og vinna úr upplýsingunum sem eru enn aðberast til jarðar. Því miður verður nú langt hlé framundan, þar sem mannkynið hefur dregið mikið úr geimrannsóknum undanfarið. Barnabörn okkar munu vafalaust ásaka okkur um vanrækslu á þessu sviði í framtíðinni.