Færsluflokkur: Berggangar
Skjálftasagan í hnotskurn
24.8.2014 | 03:31
Einar hefur sent okkur kvikmynd af sögu og dreifingu jarðskjálfta undir Bárðarbungu og umhverfi. Takið eftir að aðeins skjálftar með gæði yfir 60% eru sýndir. Guli hringurinn er miðgildi á staðsetningu skjálfta hverrar klukkustundar, svarta línan sýnir sögu á miðgildi. Það er fróðlegt að sjá hvernig virknin hoppar á milli, ýmist í kvikuinnskotinu eða öskjunni og víðar. Rautt eru skjálftar frá 23. ágúst. Takið eftir hvað gangurinn rýkur hratt norður þann dag. Gangurinn er reyndar kominn norður fyrir jökulsporðinn, og ef hann kemur upp á yfirborðið, þá væri það á íslausu landi. Norður endi gangsins er nú kominn á sama stað og upptök Holuhrauns eru, en þar gaus árið 1797, eins og jarðfræðikort ISOR sýnir (sjá síðustu blogg færslu). Hættan á jökulhlaupi minnkar því stöðugt. Svarta línan fylgir hreyfingu þungamiðju skjálftanna. Smellið á hér til að skoða kvikmyndina:
https://dl.dropboxusercontent.com/u/40576923/bardarbunga.gif
Fréttir um gos eru misvísandi. Ef til vill er hafið gos undir jökli, en ekkert bendir þó til þess, ef skoðuð eru gögn um rennsli í Jökulsá á Fjöllum við Upptyppinga. Áin sýnir sína venjulega daglegu sveiflu frá um 220 til 150 rúmmetrum á sekúndu, eins og línuritið sýnir. Engin vöxtur er þar enn. Sóri skjálftinn í nótt, sem var af stærðinni 5,3, var undir öskjubrúninni á Bárðarbungu og á um 5,3 km dýpi. Er hann vegna hreyfinga á hringbrotinu, sem afmarkar öskjuna, eða vegna enn dýpri hreyfinga? Það verður fróðlegt að sjá hvaða tegund af skjálfta þetta er: lóðrétt misgengi eða önnur hreyfing.
Berggangar | Breytt s.d. kl. 04:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Gangurinn undir Vatnajökli
23.8.2014 | 16:17
Öll þjóðin hefur fengist að fylgjast með vexti og þróun berggangsins, sem hefur klofið sér leið í gegnum jarðskorpuna norðaustan við Bárðarbungu. Hvergi á jörðu er jafn almennur áhugi fyrir hegðun jarðar, enda hafa fyrri byltingar íslenskra eldfjalla haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þjóðina. Nú virðist kvika úr ganginum hafa náð yfirborði í Dyngjujökli. ISOR hefur birt ágæta mynda af dreifingu jarðskjálfta undanfarið og tengt virknina nú við fyrri eldvirkni á svæðinu. Þessa mynd má sjá hér: http://www.isor.is/frettir/holuhraun-kvikuflutningar-fra-bardarbungu
ISOR stingur uppá, að eldgosið sem myndaði Holuhraun við norður rönd Dyngjujökuls árið 1797 kunni að vera komið úr Bárðarbungu, á svipaðan hátt og gosið, sem hófst í dag. Það gos, árið 1797, braust út á yfirborðið utan jökulsins og olli því ekki jökulhlaupi.
Þróun nýja kvikugangsins er vel lýst í gögnum, sem Jarðvísindadeild Háskóla Íslands hefur birt. Mynd þeirra er hér sýnd fyrir neðan, en hana má finna hér: http://jardvis.hi.is/uppfaert_kort_stadsetning_jardskjalfta_sil_jardskjalftamaelakerfi_vedurstofu_islands_og_faerslur
Hreyfingar mældar af GPS stöðvum umhverfis jökulinn gera kleift að mynda líkan af kvikuinnskotinu eða þróun kvikugangsins. Þetta bendir til gangs sem er um 1,6 m á breidd og um 20 km langur. Þá vakna spurningar um það, hvaðan kemur kvikan, sem safnast fyrir í ganginum? Kemur hún út úr grunnri kvikuþró, undir öskju Bárðarbungu? Er kvikustreymi í gangi undir Bárðarbungu, sem kemur dýpra að?
Berggangar | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ekström pumpan undir Bárðarbungu
17.8.2014 | 18:06
Megineldstöðin Bárðarbunga er hulin jökli og upplýsingar frá venjulegum jarðfræðiathugunum því ekki fyrir hendi. En jarðeðlisfræðin bregst okkur ekki hér.
Nettles og Ekströms á uppbyggingu Bárðarbungu, en líkan þeirra er byggt á jarðskjálftagögnum. Ég tek það strax fram, að þetta er þeirra líkan, en ekki mitt. Samt sem áður finnst mér það athyglisvert og skýra ýmsa þætti. Við skulum þá líta á það sem working model. Göran Ekström er prófessor við Columbia háskóla í New York og viðurkenndur vísindamaður í sinni grein. Ég hef skreytt mynd þeirra hér fyrir ofan með litum, til að skýra efnið. Í stuttu máli virkar pumpan þannig: (1) Basaltkvika steymir stöðugt uppúr möttlinum, og safnast fyrir neðst í jarðskorpunni (gula svæðið). (2) Vegna léttari eðlisþyngdar sinnar leitar kvikan upp í gegnum jarðskorpuna (rauða örin) og streymir upp í grunnt kvikuhólf undir öskju Bárðarbungu. Ef til vill er þessi þáttur að gerast einmitt nú í dag. Ekki er ljóst nákvæmlega hvar uppstreymið er. Nettles og Ekström setja það undir miðja öskjuna (rauða örin) en það gæti verið víðar. (3) Kvika safnast fyrir í grunnu kvikuþrónni með tímanum. Kvikuþróin pumpast upp. Það veldur þrýstingi á jarðskorpuna fyrir ofan og á tappann fyrir neðan. Fyrir ofan kvikuþróna verður landris þegar öskjubotninn lyftist upp. Því fylgja margir grunnir skjálftar á öskjubarminum, eins og nú gerist. (4) Þrýstingur kvikuþróarinnar niður á við getur komið af stað stórum jarðskjálftum af stærðargráðunni 5, eins og þeim tíu, sem Nettles og Ekström könnuðu í greininni 1998. Slíkir jarðskjálftar gerast því þegar tappinn sígur niður og sprungur myndast meðfram hallandi veggjum hans. Þetta er ekki tappi, sem maður dregur úr flöskunni, heldur tappinn sem maður rekur niður í flöskuna. Hreyfing á þessum hringlaga og bröttu sprungum er eins og litlu örvarnar sýna. En þrýstingur í kvikuþrónni getur einnig leitt til eldgosa á brún öskjunnar, einkum ef svæðisbundið sprungukerfi eldstöðvarinnar er virkt. Það er því samspil milli þrýstings í kvikukerfinu og virkni svæðisbundna sprungukerfisins sem skiftir öllu máli varðandi eldgosin, sem væru að öllum líkindum sprungugos, ef einhver verða.
Líkan Ekströms af Bárðarbungu er styrkt af jarðfræðiathugunum á öðrum fornum eldstöðvum, eins og þriðja myndin sýnir. Þar er þversnið af slíkri eldstöð, þar sem hringgangar og keilugangar myndast. Hringlaga myndanir eru einmitt algengar í rótum megineldstöðva á Íslandi. Keilugangar mynda til dæmis vel afmarkaða hringi umhverfis Setberg eldstöðina á Snæfellsnesi, eins og ég hef bloggað um áður hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1176622/
Þeir verða til þegar kvika þrýstist upp í jarðskorpuna í miðju eldstöðvarinnar eftir keilulaga sprungum. Einnig eru hringgangar (ring dikes) vel þekkt fyrirbæri í eldfjallafræðinni og voru fyrst uppgötvaðir í rótum fornra eldstöðva í Skotlandi, eins og til dæmis á Ardnamurchan skaga. Ef til vill er stórbrotnasta kerfi af hringgöngum að finna í Sahara eyðimörkinni. Þar er Richat hringurinn í Mauritaníu, um 30 km í þvermál, eins og sýnt er á myndinni hér. Hér hefur orðið svo mikið rof, að hringarnir eru komnir fram á yfirborði. Hringgangar myndast einmitt þegar hringlaga spilda eða tappi af jarðskorpu sígur niður, eins og Ekström stingur uppá fyrir Bárðarbungu. Þegar tappinn sígur, þá leitar kvika inn í hringlaga sprungurnar og storknar þar sem hringgangar. En bæði hringgangar og keilugangar geta innihaldið mikið magna af kviku, ekki síður en kvikuþróin, sem kann að vera ofaná tappanum. Stóru gosin verða þegar svæðisbundin gliðnun verður í jarðskorpunni á slíku svæði. Þegar svæðisbundið sprungukerfi verður virkt og sker megineldstöðina, þá er hætt við stórfelldu kvikuhlaupi til hliðar út frá grunnu kvikuþrónni og sprungugosum á láglendi í grennd. Slík sprungugos, sem eru beint tengd Bárðarbungu, eru til dæmis gígaröðin sem nefnist Vatnaöldur og Veiðivötn.
Berggangar - Pípulagnir Eldfjallanna
8.1.2010 | 19:10






Berggangar | Breytt 12.7.2011 kl. 06:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)