Færsluflokkur: Hafið

Ný Eyja í Rauðahafinu

NASAÞað er ekki á hverjum degi að ný eyja myndast á Jörðu. Einn þekktasti atburður á tuttugustu öldinni var fæðing Surtseyjar árið 1963, og var eldgosið í hafinu undan Vestmannaeyjum mikil lyftistöng fyrir vísindin á margvíslegan hátt. Ný eyja hefur nú komið í ljós í Rauðahafinu, í kjölfar á eldgosi sem hófst um miðjan desember 2011. Fyrsta myndin er frá gervihnetti NASA og sýnir gosmökkinn yfir nýju eynni. Það sama gerðist hér undan ströndum Yemen og við Vestmannaeyjar: það voru sjómenn sem uppgötvuðu gosið. Nú er eyjan orðin um 530 metrar á breidd og 710 metrar á lengd, og heldur áfram að stækka vegna stöðugra sprenginga, sem hlaða upp ösku umhverfis gíginn. Einnig hefur basalthraun runnið frá gígnum. Þessi tegund af spregigosi er nefnd surtseyjan á máli vísindanna, til heiðurs Surtseyjar, þar sem þetta fyrirbæri var fyrst kannað. Önnur mynd sýnir sprengivirknina og gosmökkinn.  surtseyjanHvers vegna er eldgos í Rauðahafinu? Undir hafinu eru um 2000 kílómetra löng flekamót milli Afríkuflekans fyrir vestan og Arabíuflekans í austri. Flekarnir gliðna sundur á um 20 millimetra hraða á ári, eða svipað og hreyfing flekanna undir íslandi. En hreyfingin er ekki eingöngu gliðnun, heldur flóknari, eins og kortið sýnir. redsea-plates-usgs-285Arabíuflekinn mjakast til norður en Afríkuflekinn til vesturs. Fyrir jarðvísindin er Rauðahafið besta dæmið um það, hvernig meginlandsskorpa rifnar og gliðnar, og úthaf myndast. Það er því gliðnun og samfellt gosbelti eftir botni Rauðahafs endilöngum, en beltið kemur upp á yfirborð hafsins aðeins í suður hlutanum, þar sem það myndar Jebel Zubair eyjar. Nýja eyjan sem kom í ljós í desember 2011 liggur á milli Haycock og Rugged eyja, en í suðri er Saddle eyja, sem gaus á nítjándu öldinni. Fjórða myndin er kort af eyjaklasanum. Gosbelti Rauðahafsins er nátengt eldvirkni í vestur hluta Arabíu og alla leið til Sínaí skaga.  Ég hef bloggað um þau eldfjöll áður hér http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/991740/ZubMap

Norðurheimskautið

 GrænlandsjökullVið búum ekki á Norðurheimskautssvæðinu, nema þeir, sem hafa tekið sér ból á nyrsta odda Grímseyjar, í grennd við Köldugjá. Samt sem áður hafa allir íslendingar gagn af fróðleik um næsta nágrenni okkar, norður slóðir og Íshafið. Bandaríska loftslags- og hafrannsóknastofnunin NOAA hefur nýlega birt ítarlega skýrslu um málið. Þetta er ekki skýrsla um áhrif mannkyns á loftslagsbreytingar, heldur ískaldar staðreyndir um sjáanlegar og mælanlegar breytingar umhverfis okkur. http://www.arctic.noaa.gov/reportcard HafísVið skulum byrja á Grænlandi, þar sem gögn eru mjög góð. Fyrsta myndin sýnir breytingar á Grænlandsjöklum síðasta áratug, mælt í gígatonnum af ís (eitt gígatonn = einn milljarður tonna). Breytingarnar eru miðaðar við frávik frá árinu 2007. Yfirleitt minnkar íshellan um 250 gígatonn á ári hverju, en síðasta árið er bráðnunin enn hraðari, eða um 430 gígatonn. Þessi bráðnun síðastliðna tólf mánuði er nægileg til að hækka vatnsborð heimshafanna um 1,1 millimeter. En breytingar á borði sjávar eru háðar mörgum öðrum þáttum, eins og sveiflum á hita sjávar. Næst lítum við á hafísbreiðuna umhverfis Norðurheimskautið. Hún er stærst að flatarmáli í mars hvert ár, en minnst í september. Gervihnettir hafa fylgst náið með þróun hafísbreiðunnar síðan árið 1979. Eins og seinni myndin sýnir, þá heldur hafísbreiðan áfram að minnka stöðugt. Í september er hún um 40% minni en árið 1979 og í mars um 5 til 10% minni.  septAfleiðingin er sú, að nú eru þrjár siglingaleiðir opnar yfir Norðurheimskautið í september, eins og þriðja mynd sýnir: bæði syðri og nyrðri Norðvesturleiðin, og einnig leiðin meðfram strönd Síberíu. Að lokum: auðvitað hefur hlýnað á Norðurheimskautinu.  Fjórða og síðasta myndin sýnir hlýjun í lofti frá árinu 1900. Það eru miklar sveiflur frá ári til árs, en ferlið í heild er greinilega uppávið. temp

Pyttirnir í Álftafirði

 ÁlftafjörðurÁlftafjörður á norðanverðu Snæfellsnesi er fagur og merkilegur fjörður. Það er engin tilviljun að hann ber þetta nafn, því nær daglega má sjá hundruðir eða jafnvel þúsund álftir á firðinum eða í fjörum umhverfis hann.  Það er sennilega mjög góð ástæða fyrir því að fjörðurinn hefur svo mikið aðdráttarafl fyrir álftina, en þar á hafsbotni og á grynningum allt kringum fjörðinn vex mikið magn af marhálmi.  Ef til vill er hér stærsta marhálmssvæði umhverfis Ísland og þá óþrjótandi matarbirgðir fyrir álftina. Marhálmur (Zostera marina)  er óvenjuleg planta í sjó, þar sem hann er blómstrandi háplanta  en ekkert skyld þörungum og þangi. Ég gekk um fjörur Álftafjarðar nýlega með Ragnhildi Sigurðardóttur vistfræðingi og einnig með líffræðingi  frá Portugal, sem er sérfræðingur í marhálmi um heim allan.  Pyttir í ÁlftafirðiÞað var stórkostlegt að sjá hvað marhálmur þrífst hér vel, á leirunum sem koma í ljós þegar vel fjarar út, og utar í grynningum fjarðarins.  Sumstaðar hefur borist mikið magn af leirhálmi upp í fjöruna, þar sem hann rotnar í miklum haugum.  Það sem vakti mesta athygli mína voru mjög undarlegir pyttir á yfirborði leirflatanna í Álftafirði.  Fyrir framan Krákunes er svæði á hafsbotni, um 200 metrar á breidd,  þar sem allur leirbotninn er þakinn pyttum. Þeir eru frá um 50 til 100 cm í þvermál, og um 10 til 30 cm á dýpt.  Sumir líta úr fyrir að hafa myndast nýlega, og hafa upphleypta brún, alveg eins og gosgígar eða gígar sem myndast eftir loftsteinsárekstra á jörðu. Brúnin er þá blanda af leir og sandi.  Aðrir pyttir eru ellilegir,  og öldur hafsins hafa fjarlægt gígbrúnina vegna rofs þegar sjávarfalla gætir.  Hvernig myndast þessir pyttir?  PytturÍ fyrstu héldum við að hross hefðu farið hér um og skilið eftir hófför sín, en það var fljótlega hægt að útiloka þann möguleika.  Þá fórum við að hallast að þeim möguleika, að það væri eitthvað samband milli pyttanna og marhálmsins og annars gróðurs sem vex í firðinum.  Leirinn og annað set sem safnast fyrir framan fjöruna í Álftafirði inniheldur mikið magn af dauðum marhálmi og þangi. Víða sekkur maður til dæmis upp í miðjan kálfa í drullu sem er mest rotinn marhálmur og leir. Alla tíð síðan jökultíma lauk fyrir um tíu þúsund árum hafa plöntuleifar safnast fyrir hér í setinu umhverfis og á botni Álftafjarðar.  Það getur hugsanlega verið tugir metra á þykkt.  Þegar þetta mikla magn af lífrænu efni rotnar í setinu, þá getur myndast jarðgas eða metan gasið CH4 sem brýtur sér leið upp úr setinu.  Ef til vill rísa stórar bólur af gasi upp í gegnum setið öðru hvoru, og springa á yfirborði og mynda þá um leið gíg-laga pyttina.  Við sáum engin merki þess, að gas væri að rísa nú upp úr setinu, og sennilega myndast pyttir aðeins öðru hvoru, ef til vill einn á dag eða einn á viku, og því erfitt að fá sönnun fyrir þessari kenningu.  PytturEn það er vel þess virði að skoða fjöruna í Álftafirði á stórstraumsfjöru, og virða fyrir sér þennan mikla fjölda af hinum dularfullu pyttum.  Best er að ganga niður frá bílvegi númer 54, við norður enda Úlfarsfells, niður að höfða þeim, sem háspennulínan liggur á út yfir Álftafjörð: Krákunes.  Hér var áður vaðið sem riðið var á yfir fjörðinn.  Hér fyrir framan og aðeins norðar sést mikill fjöldi af pyttum á yfirborði leirsins.  Ég tek það fram, að kenningin um að pyttirinir myndist af völdum metan gass er aðeins tilgáta. Frekari rannsóknir þarf til að sanna eða afsanna hana.  En eitthvað óvenjulegt er að gerast í leirnum í Álftafirði.


Lengi tekur sjórinn við - 2

 Í myndinni sem ég sýni fyrir ofan frá Taro Takahashi af flæði koltvíoxíðs milli hafs og lofthjúps, þá er lífríkið einnig tekið til greina.  Ég vil samt skýra það frekar. Ef við gætum flett hafinu ofan af hafsbotninum, þá myndi koma í ljós fjölbreytt landslag eins og myndin sýnir, þar sem há fjöll (úthafshryggirnir) afmarka miðju hafsbotnsins. En alveg eins og á jörðu, þá virðast fjöll hafsbotnsins vera snævi þakin. Snjór á fjallatindum hafsbotnsins Munurinn er sá, að á fjallatoppum hafsins er snjórinn ekki ís, heldur eru þetta ljósleitar leifar skeldýra og einfrumunga,  gert úr kolefninu karbónat, kalsít og aragonít.  Þarna er komið það koltvíoxíð, sem lífverur eins og svif, einfrömungar og skeldýr í efstu lögum hafsins hafa tekið í sig.  Þegar þessar lífverur deyja, þá sökkva þær til botns og mynda þennan „snjó‟ á fjallatoppunum.  En af hverju er þessi „snjór‟  aðeins á fjöllum sem þekja um 30% af botninum, en ekki á öllum hafsbotninum?  Ástæðan er sú, alveg eins og snjór sá sem við könnumst við ofan sjávar, að karbonat snjórinn í hafinu er háður eðlis- og efnaeiginleikum hafsins, aðallega hita og uppleysanleika efna í sjó.  Karbónat steindir eða skeljar lífvera þrífast í efri lögum hafsins, en þegar þessar leifar sökkva dýpra en um fjóra km í hafinu, þá byrja þær að leysast upp og hverfa --  bráðna eins og snjókorn í hlýju lofti.  Af þeim sökum er um 70% af hafsbotninum of djúpur til að þar geti safnast fyrir karbónat set, og þess vegna getum við ekki geymt koltvíoxíð á miklu dýpi eða á djúpum hafsbotni.  Takið eftir að „snjólínan‟ grynnist eða hækkar til heimskautanna.  Það er vegna þess að hún er háð breytingum á hita hafsins.

Lengi tekur sjórinn við - eða hvað?

Flæði koltvíoxíðsVaxandi koltvíoxíð í lofthjúp jarðar kann að valda óæskilegri hlýnun loftslags, en magn af koltvíoxíði í lofthjúpnum hefur vaxið um 30% síðan iðnbyltingin hófst í byrjun nítjándu aldarinnar.  Nú er það hins vegar ljóst að það er meir en fimmtíu sinnum meira koltvíoxíð í hafinu (um 40000 GtC) heldur en í lofthjúp jarðar (um 750 GtC).   Til skýringar skal taka fram að GtC eða eitt gígatonn er skammstöfun fyrir einn milljarð tonna af kolefni.  Það er einnig ljóst að hafið hefur tekið í sig um helming af því koltvíoxíði sem mannkynið og olíu- og kolakynntar vélar okkar hafa gefið frá sér.  Ýmsar spurningar vakna í ljósi þessara staðreynda:  Er hægt að „troða‟ meira magni af koltvíoxíði niður í hafið og draga þannig úr mengun og koma í veg fyrir hnattræna hlýnun jarðar?  Hefur magn af koltvíoxíði í hafinu farið vaxandi  að sama skapi og í loftinu?  Er hafið að mettast af koltvíoxíði?  Verður hafið þá það súrt, að kórallar á hafsbotni, skelfiskur og önnur kalkrík efni leysast upp og lífríki hafsins hnignar?    Fyrsta myndin sýnir flæði af koltvíoxíði mill loftsins og hafsins um heim allan. Fjólubláu og bláu svæðin eru höf þar sem koltvíoxíð streymir niður í hafið úr loftinu, og er flæðið frá 10 til 100 grömm af  kolefni á hvern fermeter hafsyfirborðs á ári.  Á gulu og rauðu svæðunum streymir koltvíoxíð hins vegar upp úr hafinu, á bilinu 10 til 100 grömm af kolefni á fermeter á ári.  Flæðið er að miklu leyti háð hita sjávar.  Kaldur sjór, eins og í Norður Atlantshafi, tekur í sig meira of koltvíoxíði, en heitur sjór, eins og hafið við miðbaug, losar sig hins vegar við koltvíoxíð, sem berst út í lofthjúpinn.    Fáir hafa fylgst jafn vel með þróun koltvíoxíðs í heimshöfunum eins og Bandaríkjamaðurinn Taro  Takahashi og félagar hans.  Nú hafa þeir tekið saman gögn um koltvíoxíð í heimshöfunum frá 1981 til 2009.   Niðurstöður þeirra sýna að töluvert meira kolefni streymir úr lofthjúp jarðar og niður í hafið en uppúr því, eða um 1.37 milljarðar tonna á ári hverju.  En nýjustu gögn þeirra sýna, að nú virðist minna af koltvíoxíði streyma niður í hafið en áður, og er það sennilega vegna þess að heimshöfin eru að byrja að hlýna.  Það eru því ekki  gott útlit fyrir að heimshöfin taki við koltvíoxíð framleiðslu okkar – nema ef við dælum gasinu niður á mikið dýpi þar sem kaldur sjór ríkir.

Andy Warhol og íslenski skurðlæknirinn

hsandwarhol_1093740.jpgMyndin af eldgosi í Vesúvíusi eftir Andy Warhol (1928-1987) vekur alltaf mikla og verðskuldaða athygli í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, enda var Andy einn af frægustu listamönnum heims. Hann var að vísu umdeildur, en það eru allir sammála um, að hann innleiddi alveg nýja stefnu lista í hinn vestræna heim.  Á myndinni hér til hliðar er ég búinn að bregða mér í gerfi Andy Warhol: svarta leðurjakkann, og stend fyrir framan eldgosið hans. Aðeins tveimur árum eftir að þessi mynd var gerð var Andy Warhol allur.  Hann lést eftir uppskurð hinn 21. febrúar árið 1987 í New York Hospital, einum þekktasta spítala stórborgarinnar. Andy hafði verði með miklar kvalir í nokkra daga, og strax og hann lagðist inn var hann skorinn upp.  Gallablaðran var mikið bólgin og stífluð og var hún fjarlægð.  Skurðlæknirinn sem framkvæmdi uppskurðinn var dr. Björn Þorbjarnarson, Íslendingur sem er einn helsti sérfræðingur heims í slíkum uppskurði, og prófessor við Cornell Háskóla. WarholAndy var á skurðborðinu í þrjá og hálfan tíma. Síðan var hann þrjá tíma í sérgæzlu og þá næst í einkasjúkrastofu.  Hann var vakandi, horfði á sjónvarp og hringdi í vini sína. Klukkan 4 að morgni næsta dag, 22. febrúar, var blóðþrýstingur hans eðlilegur.  En klukkan 5:45 um morguninn dofnaði púlsinn og litarháttur hans varð bláleitur.  Einkahjúkrunarkona hans hringdi strax á aðstoð og læknar reyndu að koma honum til lífs aftur í meir en 45 mínútur.  Hann var talinn látinn kl. 6:21 um morguninn.

 

Ættingjar Andy Wahol fóru strax í mál við New York Hospital og lækna hans. Lögfræðingar ættingjanna héldu því fram fyrir réttinum í desember 1991, að Andy hefði látist sökum vanrækslu, og einkum að hann hefði fengið alltof mikið af vökvum inn í líkamann.   Hins vegar lýsti krufningarlæknir því yfir að Wahol hefði látist vegna hjartaáfalls, sem væri ekkert tengt uppskurðinum eða meðferð hans á sjúkrahúsinu.  Tuttugu dögum síðar, á aðfangadag 24. desember árið 1991,  lýstu lögfræðingar ættingja Andys og lögfræðingar New York Hospital því yfir að þeir hefðu komist að samkomulagi og var málið nú látið niður falla.  Sjúkrahúsið greiddi ættingjum og erfingjum Warhols ákveðna summu, en peningaupphæðin var ekki gefin upp.  Ættingjar voru ´very happy´og talsmenn New York Hospital lýstu því yfir að niðurstaðan væri ´fair and equitable.´   Saksóknari New York lýsti því einnig yfir að ekkert benti til þess að um glæpsamlegt athæfi væri að ræða varðandi dauða listamannsins og málið var þá látið niður falla.  Að lokum skal þess getið, að hinn vinsæli rithöfundur, aktivisti og náttúruunnandi, Andri Snær Magnason, er dóttursonur Björns Þorbjarnarsonar, skurðlæknis Andy Warhol. 

Hvernig leit Ísland út á Ísöldinni?

Ísland á ÍsöldÁrið 2007 töldu Van Vliet-Lanoë og félagar að jökulþekjan hefði verið nokkuð takmörkuð yfir Íslandi þegar Ísöld stóð sem hæst. Líkan þeirra er sýnt sem svörtu svæðin á myndinni.  Ísskjöldurinn er yfir miðju landinu, annar skjöldur á Vestfjörðum og svo smærri jöklar í fjöllum á Snæfellsnesi.  Takið eftir að gráa línan markar landgrunnið í dag, eða 200 metra dýpið.   Árið 2006 lögðu þeir Hubbard og félagar til að jökulþekjan hefði verið miklu utar á landgrunninu, og þeirra Ísaldarjökull er afmarkaður af púnktalínunni á myndinni.  Þetta líkan fyrir útbreiðslu jökulsins verður að telja miklu líklegra, ef dæma skal út frá dreifingu jökulgarða eða mórena á hafsbotni. Það eru þrír jökulgarðar sýndir á myndinni, merktir með feitri svartri línu.  Einn er nokkuð langt undan Breiðafirði, annar út af Húnaflóa og sá þriðji undan Suðurlandi.  Jökulgarðar myndast þar sem skriðjökullinn nemur staðar. Samkvæmt þessu virðist Ísaldarjökullinn hafa náð yfir nær allt landgrunnið.   Olex kort

Nýlega birti norska fyrirtækið Olex ný kort af hafsbotninum, sem má nálgast hér: http://www.olex.no/dybdekart_e.html#isofiler  Kortin eru sérstök og mjög nákvæm, en þau eru byggð að miklu leiti á gögnum sem togarar og aðrir fiskibátar senda inn til Olex.  Næmi kortanna er um 5x5 metrar, sem þýðir að stór rúta eða vörubíll myndi sjást á hafsbotninum á slíku korti.  Íslandskortið frá Olex er sýnt hér til hliðar. Hér koma fjölmörg fyrirbæri fram á hafsbotninum, sem við höfðum ekki hugmynd um áður, og þar á meðal margir jökulgarðar sem sýna fyrri stöðu stóra jökulsins yfir Íslandi á Ísöldinni.  Þessi nýju gögn styrkja mjög þá mynd af Íslandi sem ser sýnd af púnktalínunni í fyrri myndinni hér fyrir ofan.  Ískjöldurinn var svo stór að hann náði út á ystu mörk landgrunnsins víðast hvar. En takið eftir að á Ísöldinni var sjávarstaða miklu lægri en hún er í dag og landgrunnið var því um 100 metrum grynnra en í dag, vegna þess að mikið af vatnsforða hafsins var  geymt í jöklum heimsskautanna.


Getur járn í sjónum dregið úr hlýnun jarðar?

blaðgrænaÁrið 1996 varð eldgos í Vatnajökli, með upptök norðan Grímsvatna  og mikið jökulhlaup streymdi til sjávar. Mikið af eldfjallaösku, leir og sandi barst út í hafið sunnan Íslands. Fljótlega kom í ljós á myndum gervihnatta yfir Norður Atlantshafi, að plöntusvif blómstruðu skyndilega í hafinu sunnan lands.  Gat það verið að gróður svifþörunga í hafinu hefði tekið við sér vegna efna sem bárust út í Norður Atlantshafið í jökulhlaupinu?  Var það efni ef til vill járn?   Skyldi askan frá Eyjafjallajökli í fyrra hafa valdið mikilli blómgun svifþörunga í Atlantshafi?  Það er margt sem bendir til að járn geti hjálpað til með að draga koltvíoxóð út úr andrúmsloftinu og niður í hafið.  Ef svo er, þá er möguleiki að aukið járn í hafinu geti hjálpað til með að draga úr eða vinna á móti hlýnun jarðar.  Þetta er tengt hlutverki járns í myndun blaðgrænu, sem er sambærilegt við mikilvægi járns í að mynda haemoglobín í blóði okkar.  Við borðum lifur eða spínat til að taka inn meira járn.  Svifþörungar í hafinu hafa blaðgrænu og nýta sólarorku til vaxtar.  Járn er nauðsynlegt efni í blaðgrænu, en járn er í mjög litlum mæli í sjó, og takmarkar það því mjög mikið bæði vöxt  og fjölgun svifþörunganna.  Fyrsta myndin sýnir dreifingu blaðgrænu í hafinu, en hún er áberandi mest norðarlega á norðurhveli. Hins vegar er sjór umhverfis miðbaug tær og dauður.   SundaÞað var um 1980 að Bandaríski haffræðingurinn John Martin benti á, að ef til vill væri hægt að orsaka mikla fjölgun svifþörunga í hafinu með því að dreifa járni á yfirborð hafsins.   Það merkilegasta sem gerist við fjölgun svifþörunga og plöntusvifs almennt í hafinu er það, að þessar lífverur neyta koltvíoxíðs og lækka þannig koltvíoxíðmagn hafsins of andrúmsloftsins.  Er hægt að draga úr hlýnun jarðar með því einfalda bragði að strá járni á hafið?  Þetta er spennandi spruning, og hafa nú tilraunir hafist til að prófa það í raun.  Það er ótrúlega lítið járn í sjónum, eða um það bil einn partur af milljarði.  Það stafar af því að járn leysist upp mjög treglega í sjó.  Af þeim sökum eru járnbirgðir fyrir svifþörungana mjög takmarkaðar. Eins og seinni myndin sýnir, þá getur sjórinn tekið upp koltvíoxíð úr andrúmsloftinu, sem er bundið í vefji svifþörunga. En til þess þarf járn að vera fyrir hendi.  Svifþörungarnir falla síðan til botns og þar með grefst koltvíoxíðið í setmyndunum á hafsbotni.  Járn-ríka kerfið „pumpar‟ þannig koltvíoxíð niður úr andrúmsloftinu og niður á hafsbotn.  Það gæti á þann hátt dregið úr hlýnun jarðar.  En þetta er kenningin; hver er raunveruleikinn?  Nú eru að hefjast tilraunir með að bera járn á stór svæði hafsins.  Það hafa verið gerðar fjórtán tilraunir síðan 1993,  en það er of snemmt að dæma um árangurinn.  Við skulum fylgjast vel með þessu merkilega máli.  Ég bendi á vefsíðu sem vísindamenn frá tólf háskólum gera út, og veita frekari upplýsingar um dreifingu járns á hafið: http://isisconsortium.org/page.do?pid=46115

Fosfór að þrotum komið – en það er allt í lagi

1.FofórJarðefni af ýmsu tagi halda heiminum gangandi:  námur, olíulindir, jarðvarmi og aðrar auðlindir í jörðu.  Lengi höfum við litið á það sem sjálfsagðan hlut, að þær séu flestar óendanlegar: að vandamálið væri leysanlegt bara með því að senda út fleiri jarðfræðinga og námumenn til að finna nýjar námur og grafa upp meiri auðæfi úr jörðu.  Margt bendir nú til þess, að eftirspurn sé nú að fara fram úr framboði á ýmsum jarðefnum.  Ég ætla að fjalla um aðeins eitt efni hér í þessu sambandi, en það er fosfór  (frumefnið er P).   Aðalnæringarefni jurta eru nitur (N), kalí (K), fosfór (P), kalsíum (Ca), magnesíum (Ma) og brennisteinn (S).  Lengi vel notuðu bændur mykju, hland, skít og önnur úrgangsefni búpenings til að bera á akra sína, en svo kom efnaiðnaðurinn til sögunnar. Víðast hvar er nú borinn tilbúinn áburður með þessum efnum á akra heimsins og hráefnið í tilbúinn áburð kemur úr námum, nema nítur, sem er unnið úr loftinu.   2.FosfatMyndin fyrir ofan sýnir hvernig námugröftur eftir fosfór hefur aukist síðustu tvær aldir.  Í dag er eftirspurn eftir fosfati um 148 milljón tonn á ári, og er nú talið að þessar birgðir verði þrotnar eftir 50 til 100 ár. Á nítjándu öldinni voru miklar birgðir af fosfati uppgötvaðar á eyjum undan Kyrrahafsströnd Perú.  Hér var það fugladrit eða gúanó sem innihélt fosfatið. En þær birgðir eru nú fullunnar og þá hófst námugröftur úr jörðu.  Nær allar birgðir og námur af fosfati eru nú í þremur löndum: Marokkó, Kína og Bandaríkjunum.  Marokkó hefur mestar birgðir, en reyndar eru þær alls ekki í Marokkó, heldur í Vestur Sahara, þar sem Marokkó hefur hertekið land.  Eins og er hefur Marokkó einokunaraðstöðu, en hver veit hvað gerist næst í Norður Afríku? Hvenær verður kónginum Mohammed í Marokkó steypt af stóli?  Alla vega er líklegt að þjóðin í Vestur Sahara, Saharawi,  reyni að ná völdum aftur.  Bandaríkjamenn verða búnir með sínar fosfór námur eftir 30 ár, og Kínverjar eru að hætta öllum útflutningi á fosfór til að varðveita sínar verðmætu birgðir af fosfati.  Eftirspurnin er gýfurleg; við mannkynið erum sannarlega fosfórfíklar.  3.HlandEins og myndin til hliðar sýnir, var verð á fosfati lengi mjög stöðugt.  En um 2007 og 2008 óx áhugi á að vinna eldsneyti úr jurtum, og eftirspurn eftir fosfati rauk upp og verðið hækkaði um 800% um tíma.  Það er enn hátt, kringum $400 tonnið, og fer stígandi.   Meiri partur af öllu vinnanlegu fosfati kemur úr fornu sjávarseti.  Í Norður Afríku finnast fosfór-rík setlög á svæðinu frá Atlasfjöllum og til Atlantshafsins.  Setlögin hafa myndast á hafsbotni á Eósen tíma, fyrir um 30 til 50 milljón árum.  Fósfórlagið sjálft er aðeins um 3 metrar á þykkt.  Talið er að fosfór hafi safnast saman hér á hafsbotni sem leifar af lífríki, líkt og olíurík lög myndast einnig í sjávarseti.  Aðal steindin eða mínerallinn í fosfatinu er apatít, Ca5(PO4)3(F,Cl,OH),  en við þekkjum það efni vel, þar sem það er ein aðal uppistaðan í tönnum og beinum okkar.    Ef eftirspurn vex eftir lífrænu eldsneyti er hætt við að fosfór verð hækki mikið í náinni framtíð.  Það er auðvitað ein frekar einföld og ódýr lausn á fosfatvandanum:  byrja aftur að bera mykju, skít og hland á akrana, og nýta allan þann úrgang sem nú rennur til sjávar frá klósettum mannkyns.   Taflan til hliðar sýnir innihald af köfnunarefni (N) og fosfór (P) í hlandi og saur fólks í ýmsum löndum.  Tölurnar eru kíló á ári, á mann.  Meðalborgari framleiðir um 500 lítra af hlandi á ári.  Það er nægilegur áburður á milli 300 og 600 fermetra af ökrum á ári.  Meðalborgari framleiðir um 50 lítra af saur á ári.  Það nægir til að bera á 200 til 300 fermetra af ökrum á ári.   Þarna liggur framtíðin, góður borgari.  Þeir hafa þegar gert tilraunir með slíkt í geimförum, og árangurinn er ágætur. 

 


Á siglingu með heimsskipinu The World

The WorldÉg hef ekki haft mikið samband við auðmenn um ævina, en en í sumar var ég á sjó í grennd við Ísland á tveimur og mjög einstökum skipum auðmanna.  Hér áður fyrr, á mínum róttæku árum, hefði það ekki komið til mála að vera í slíkum félagsskap örgustu kapítalista, en þar er víst rétt sem sagt er, að maður mildast með árunum.  Fyrri ferðin var tólf daga sigling á glæsisnekkjunni M/Y Octopus, frá 30. júlí til 12. ágúst, en varðandi þá ferð er ég bundinn þagnarskyldu.  Síðari siglingin var á  M/V The World, og hér er stutt frásögn af þeirri sjóferð, sem var dagana 26. til 30. ágúst.    Fyrir um einu ári var mér boðið að halda fyrirlestra um Ísland og eldfjöll á The World.  Ég tók þessu fálega, af því að ég hef alltaf haft lítið álit á svokölluðum skemmtiferðaskipum, sem eru flest fljótandi spilavíti þar sem allt er á floti í áfengi um borð.  Ég afþakkaði því boðið.   Eftir stöðugar hringingar og mikinn straum af upplýsingum var ég loks sannfærður um, að hér væri ekkert venjulegt skemmtiferðaskip, já, reyndar ekki skemmtiferðaskip, heldur eiginlega fljótandi þorp eða samfélag.  The World er í eigu um eitt hundrað manna og kvenna, frá um 40 löndum.  Eigendurnir ráða rekstrinum, ferðaáætlun og öllu skipulagi. Skipið siglir um öll heimsins höf, og hefur öðru hvoru um 2 til 5 daga viðdvöl í höfnum hér og þar.  Ferðaáætlun 2010Landakortið til hliðar sýnir ferðaáætlun þeirra fyrir árið 2010.  Um borð í þessu risastóra skipi, sem er vel yfir 200 metrar á lengd, eru 165 íbúðir sem eru allar í einkaeign. Þær dýrustu og stærstu eru 300 fermetrar, og kostar ein slík íbúð um $13.5 miljónir.  Mánaðargjöld fyrir hverja íbúð eru um $20 þúsund.  Það er því ekki á færi hvers sem er að taka þátt í búskap, lífinu og siglingum  með The World.  Yfirleitt eru um 200 manns um borð, en nokkrir eigendur, einkum kamlir og einhleypir karlar á níræðisaldri, búa um borð allt árið, nema þegar skipið fer í þurrkví einn mánuð á ári.   Skipið var smíðað í Noregi árið 2001 og því var hleypt af stokkunum ári síðar.  Skipstjórinn er norskur, en annars er meiri hluti af áhöfninni, um 200 manns, frá Filippseyjum og Bretlandi.  Um borð er allt sem mann getur dreymt um til að gera lífið þægilegt.  Það var gleðilegt að sjá hvað bókasafnið var stórt og vel skipulagt og greinilega mikið notað.  Fimm veitingahús hafa uppá að bjóða besta mat sem ég hef komist í.  Fólkið var einstaklega viðkunnanlegt og hafði mikinn áhuga á að fræðast um Ísland, um eldfjöll, jarðfræði og reyndar allt sem ég hafði uppá að bjóða, en um borð er auðvitað fyrsta flokks fyrirlestrasalur.  Það vakti sérstaklega eftirtekt mína, að allir kynna sig einungis með fornafni, en eftirnöfn eru ekki notuð.   Ég sá mörg andlit sem ég þóttist kannast við sem frægt fólk úr blöðum og fjölmiðlum, og fékk aðeins að heyra fornafnið,  en á þennan hátt reyna auðmennirnir að vernda sitt einkalíf.  Hér er á ferðinni fólk sem lifir eingöngu í sínum verndaða og vel varða heimi, líður áfram um heimsins höf, situr úti á svölum fyrir utan íbúðina sína og sér Öræfajökul og Surtsey líða framhjá þessa vikuna en síðar grænu eyjarnar í Karíbahafi í næstu viku, um leið og þjónninn kemur með annað glas af kampavíni.  Um leið og ég fer í land við Skarfaklett í Reykjavík þá reyni ég að telja mér trú um, að svona líf  hljóti nú að vera ósköp leiðinlegt til lengdar, en ég er nú bara ekkert svo viss…


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband