Lengi tekur sjórinn við - 2

 Í myndinni sem ég sýni fyrir ofan frá Taro Takahashi af flæði koltvíoxíðs milli hafs og lofthjúps, þá er lífríkið einnig tekið til greina.  Ég vil samt skýra það frekar. Ef við gætum flett hafinu ofan af hafsbotninum, þá myndi koma í ljós fjölbreytt landslag eins og myndin sýnir, þar sem há fjöll (úthafshryggirnir) afmarka miðju hafsbotnsins. En alveg eins og á jörðu, þá virðast fjöll hafsbotnsins vera snævi þakin. Snjór á fjallatindum hafsbotnsins Munurinn er sá, að á fjallatoppum hafsins er snjórinn ekki ís, heldur eru þetta ljósleitar leifar skeldýra og einfrumunga,  gert úr kolefninu karbónat, kalsít og aragonít.  Þarna er komið það koltvíoxíð, sem lífverur eins og svif, einfrömungar og skeldýr í efstu lögum hafsins hafa tekið í sig.  Þegar þessar lífverur deyja, þá sökkva þær til botns og mynda þennan „snjó‟ á fjallatoppunum.  En af hverju er þessi „snjór‟  aðeins á fjöllum sem þekja um 30% af botninum, en ekki á öllum hafsbotninum?  Ástæðan er sú, alveg eins og snjór sá sem við könnumst við ofan sjávar, að karbonat snjórinn í hafinu er háður eðlis- og efnaeiginleikum hafsins, aðallega hita og uppleysanleika efna í sjó.  Karbónat steindir eða skeljar lífvera þrífast í efri lögum hafsins, en þegar þessar leifar sökkva dýpra en um fjóra km í hafinu, þá byrja þær að leysast upp og hverfa --  bráðna eins og snjókorn í hlýju lofti.  Af þeim sökum er um 70% af hafsbotninum of djúpur til að þar geti safnast fyrir karbónat set, og þess vegna getum við ekki geymt koltvíoxíð á miklu dýpi eða á djúpum hafsbotni.  Takið eftir að „snjólínan‟ grynnist eða hækkar til heimskautanna.  Það er vegna þess að hún er háð breytingum á hita hafsins.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband