Færsluflokkur: Loftslag
Hefur Atlantshaf áhrif á Kyrrahafið?
15.8.2014 | 17:20
Síðan á aldamótum árið 2000 hafa óvenu sterkir vindar blásið frá austri til vesturs yfir Kyrrahafið eftir miðbaug (staðvindur eða trade winds). Um árið 2010 var vindstyrkurinn orðinn hærri en nokkru sinni fyrr. Áhrifin voru fyrst og fremst þau að það hlóðst upp mikið magn af heitum sjó umhverfis Filipseyjar, Ástralíu og Indónesíu, eins og Matthew England og félagar hafa sýnt. Þegar sjórinn hitnaði, þá óx uppgufun, selta hafsins hækkaði. Saltur sjórinn var þyngri og sökk í djúpið. Með því barst mikill hiti niður í dýpri lög hafsins. Þessir vindar eru hluti af hringrásarkerfi loftsins, sem nefnist Walker cell, eins og myndin sýnir. Hún er þversnið af Kyrrahafinu, frá vestri til austurs. Vindarnir valda ýmsum öðrum breytingum, svo sem mikilli úrkomu í vestri, til dæmis í Indónesíu, en miklum þurrkum í austri, til dæmis í Kalíforníu. En ef til vill er mikilvægustu áhrifin þau, að mikill hiti flyst nú niður í hafdjúpið og tiltölulega kaldur sjór kemur upp á yfirborðið í austur hluta Kyrrahafs (dökkblár djúpsjór á myndinni). Það kann að skýra hversvegna hafið hitnar nú yfirleitt hraðar en lofthúpur jarðar. Önnur mynd, eftir Matthew England og félaga, sýnir breytingar á styrk staðvinds Kyrrahafsins frá um 1910 til um 2010 og kemur greinilega fram hvað hann hefur breyst síðustu 15 árin. Takið eftir að vegna þess hvernig gögnin eru set upp, þá er frávikið frá langtíma meðaltalinu síðustu 15 árin reyndar sterkari vindur, þótt línan stefni niður á við á myndinni.
En hvers vegna er staðvindurinn yfir Kyrrahafinu svona sterkur og hvað veldur sveiflum hans? Loftslagsfræðingar og haffræðingar stinga nú uppá, að hlýnun Atlantshafsins undanfarna áratugi hafi orsakað fjöldan allan af breytingum, einnig í Kyrrahafi. Þar á meðal breytingar staðvinda Kyrrahafs, breytingar á sjávarmáli og fleira. Grein þeirra Shayne McGregor og félaga kom út nýlega í Nature, einu virtasta vísindariti jarðar og hefur valdið miklum deilum. Þeir telja að orsökina sé að finna í Atlantshafinu. Þeir benda á að Atlantshafið hefur hitnað mikið í meir en áratug og það hefur valdið lágþrýstingi og uppstreymi í lofthjúpnum yfir. Þetta loft berst síðan til vesturs, yfir austur hluta Kyrrahafsins, þar sem það sígur niður og veldur háþrýstingskerfi. Þessi tengsl Atlantshafs of Kyrrahafs styrkja þannig staðvinda Kyrrahafsins að þeirra sögn. Þessi hugmynd er byggð á miklum gögnum og nokkuð góðum rökum, en hún þýkir mjög róttæk. Getur það verið að loftslag í Atlantshafi geti haft svo mikil áhrif í Kyrrahafi? Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.
Þegar staðvindurinn hægir á sér, þá mun fyrirbærið sem kallað er El Nino myndast um miðbaug Kyrrahafs. Það er þegar hiti yfirborðssjávar í Kyrrahafinu hækkar verulega. El Nino hefur ótrúlega víðtæk áhrif á fiskveiðar, landbúnað, veðurfar í Kalíforníu og víðar.
Loftslag | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Íslenska landgrunnið kortlagt af Olex
11.8.2014 | 00:08
Togarar eru útbúnir mjög góðum tækjum, sem ákvarða staðsetningu og botnlag hafsins. Skipstjórar varðveita slík gögn, sem eru að sjálfsögðu mikilvæg til að kanna miðin og finna þau aftur síðar. Undanfarin ár hafa margir skipstjórar haft það fyrir reglu, að senda inn slík gögn til norksa fyrirtækisins Olex. Þar er gögnum safnað til að gera nákvæm kort af hafsbotninum. Kortin hafa staðsetningu, sem er betri en tíu metrar og hæðartölur, sem eru á milli 0,1 til 1 meter. Þannig hefur nú verið safnað gögnum af nær öllu (80%) íslenska landgrunninu. Árið 2006 kom út ritgerð eftir Matteo Spagnolo og Chris Clark um íslenska landgrunnið. Hana má finna hér: http://www.journalofmaps.com/article_depository/europe/spagnolo_glaciallandforms_1222426647.pdf
Þeir túlka Olex kortið á þessu svæði og sýna fram á að þar ríkja áhrif jökla ísaldarinnar í myndun botnsins, ásamt myndunum sem tengjast eldvirkni og skorpuhreyfingum hafsbotnsins á gosbeltum neðansjávar. Á ísöld þakti jökulskjöldur allt landgrunnið og jökullinn var botnfastur. Sönnun þess eru jökulgarðar eða endamórenur, sem finnast úti á brún landgrunnsins, til dæmis jökulgarðurinn á Látragrunni út af Breiðafirði, sem ég hef áður fjallað um hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1400703/
Á þessum Olex kortum kemur margt fróðlegt fram, til dæmis Djúpáll út af Ísafjarðardjúpi. Hann er U-laga í þversniði og um 150 m dýpri en hafsbotninn umhverfis. Í mynni Djúpáls hefur hlaðist upp mikil keila af seti, þar sem állinn fer fram af landgrunnisbrúninni. Einnig er myndin af Jökuldjúpi í mynni Faxaflóa merkileg og fróðlegt að sjá hvað landslag á þessu svæði er mikilfenglegt undir hafinu. Myndin sem fylgir hér með er af Kolluál, norðvestur af Snæfellsnesi. Það er áberandi hvað botninn er skafinn hér og hvað jarðlögin koma greinilega fram sem línur með norðaustur stefnu. Þetta eru að öllum líkindum forn blágrýtislög, eins og bergið í grunni Snæfellsness og eyjum Breiðafjarðar. Vestast á myndinni, um 20 km norðvestur af Jökli, er svæði með allt aðra og óreglulega áferð botnsins. Er það einfaldlega framhald blágrýtismyndunarinnar eða er það ef til vill ungt gosberg, tengt gosbelti Snæfellsness? Ef til vill finna sjómenn hraun botn hér? Rauða línan á kortinu sýnir staðsetningu þversniðs, sem sýnt er efst á myndinni. Takið eftir hvað botninn er úfinn. Alun Hubbard og félagar (Quaternary Science Reviews 2006) hafa notfært sér upplýsingar um útbreiðslu jökulsins á hafsbotni þegar ísöldin náði hámarki og gert líkan af útbreiðslu jökulskjöldsins yfir og umhverfis Ísland. Það er sýnt á seinni myndinni, í líkani sem á við Íslandssvæðið fyrir um 21 þúsund árum. Á myndinni eru sýnd ytri mörk jökulsins á landgrunninu og einnig útlínur Íslands við hæð, sem samsvarar sjávarmáli þá, samkvæmt líkani þeirra. Það gefur því góða mynd af því hvað jarðskorpan seig mikið undir fargi íssins. Hvítir blettir á Tröllaskaga og Flateyjarskaga sýna svæði eða jökulsker, sem hugsanlega stóðu uppúr jöklinum.
Loftslag | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Útgeislun sólar er nokkuð stöðug
10.8.2014 | 02:34
Útgeislun sólar er samt ekki alveg stöðug. Getur þessi óstöðugleiki skift máli í hnattrænni hlýnun? Einn mælikvarði um breytileikann í útgeislun er fjöldi sólbletta, sem sjást á yfirborði sólarinnar en fjöldi þeirra breytist nokkuð reglulega á ellefu ára fresti. Það var víst Galileo Galilei sem byrjaði að telja sólbletti með nýja stjörnukíki sínum árið 1610 en síðan hafa þeir verið taldir reglulega. Sólblettirnir geta verið allt að 200 á mánuði. Eins og myndin sýnir, þá er góð fylgni milli sólbletta og útgeislunar sólarinnar: fleiri blettir = meiri útgeislun. Bláa línuritið er fjöldi sólbletta, en rauða línuritið fyrir ofan eru breytingar á útgeislun sólar. Tímabilið sem er sýnt er frá 1978 til 2004. Munurinn í ellefu ára sveiflunni er um 2 W/m2 eða tvö wött á hvern fermeter sem sólin skín á. Við könnumst öll við hitann, sem streymir frá venjulegri ljósaperu, sem er oftast um 40 wött, til samanburðar. En þessi breytileiki á útgeislun sólar er samt aðeins um 0,1% á því tímabili, sem fylgst hefu verið með sólinni. Er 0,1% nóg til að hafa áhrif á loftslag? Við sjáum engar ellefu-ára sveiflur í loftslagi, sem gætu verið af þessum völdum.
En það eru tímabil í sögunni þar sem sólblettum hefur fækkað eða þeir jafnvel horfið. Lengsta sólblettalausa tímibilið er nefnt Maunder minimum, frá 1645 til 1715. Það gerðist á kuldatímabilinu, sem við nefnum Litlu Ísöldina, en strax skal bent á að Litla Ísöldin var byrjuð löngu áður en sólblettir hurfu, eða um 1400. Er einhver fylgni milli hnattrænna hitabreytinga og virkni sólarinnar? Neðra línuritið fjallar um það. Árlegt hnattrænt meðaltal á hita (rauða línan) er hér borið saman við útgeislun sólar (bláa línan). Frá um 1880 til um 1950 virðist útgeislun og hlýnun fara hönd í hönd, en síðustu hálfa öld hlýnar þrátt fyrir minni útgeislun. Sérfræðingarnir sem hafa skoðað þetta einna mest telja að breytileiki í útgeislun sólar hafi orsakað aðeins um 11% af hnattrænni hlýnun á tímabilinu frá 1880 til 2006 og aðeins 1,6% af hlýnuninni frá 1955 til 2005. Breytingar í sólinni skýra því ekki loftslagsbreytingar, eins og þá hnattrænu hlýnun, sem nú ríkir.
Loftslag | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hafið umhverfis Bretlandseyjar er orðið volgt
9.8.2014 | 06:16
Bretar hafa til þessa ekki gert mikið af því að synda í sjónum umhverfis Bretlandseyjar. Í staðinn hafa þeir helst sótt í Miðjarðarhafið. En nú kann þetta að vera að breytast: hafið umhverfis Bretlandseyjar er að hlýna. Línuritið sýnir árlegt meðaltal fyrir hita í yfirborði hafsins umhverfis Bretlandseyjar, frá 1870 til 2007. Það er gífurlegt magn af gögnum, sem felst í þessu línuriti, sem nær yfir stórt svæði og allar árstíðir. Meðaltalið fyrir árin frá 1961 til 1990 var 11,09 oC. Rauða línan er meðaltal sem eyðir litlum sveiflum og sýnir feril hlýnunarinnar vel. Síðasti áratugurinn sker sig alveg úr. Hitinn á sjónum hefur hækkað um 1,6 gráður síðan 1980. Eins og ég hef oft bent á, þá er hiti hafsins mun mikilvægari en lofthitinn. Aðeins efstu 260 cm af heimshöfunum innihalda jafn mikinn hita og allur lofthjúpurinn! Þessi mikla hlýnun umhverfis Bretland er auðvitað tengd því að þeir fá stóran skerf af Golfstraumnum. En hlýnunin er einnig vegna þess hvað grunnt er á þessum slóðum, einkum í Norðursjó. Hlýnun hafsins hefur einnig mikil áhrif á fiskstofna umhverfis Bretlandseyjar. Nú er rætt um, að fish-and-chips fari út af matseðlinum hjá Bretum. Alla vega verður fiskurinn í réttinum ekki þorskur, heldur einhver ömmur tegund, sem þolir betur heitari sjó. Þorskurinn þolir nokkuð vel að svamla í heitari sjó, en hann vill ekki hrygna, nema sjávarhitinn sé á bilinu 1 til 8 oC samkvæmt mælingum í Norðursjó. Þess vegna færir hann sig norðar, til okkar og áfram til Grænlands. Kenneth F. Drinkwater og fleiri fiskifræðingar hafa kannað áhrif hlýnunar á fiskstofnana í Norður Atlantshafi. Síðastliðin 35 ár hafa 15 af 36 tegundum í Norðursjó flutt sig norðar, og að meðaltali hafa þær flutt sig 300 km norðar á þessum tíma. Þorskur finnst varla umhverfis Bretland en í hans stað eru komnar nýjar tegundir eins og ljóti fiskurinn sem nefnist John Dory (pétursfiskur). Hvað vitum við hér um áhrif hnattrænnar hlýnunar á fiskstofna og reyndar allt umhverfi okkar á Íslandi? Ég held að málið hafi ekki verið mikið rannsakað. Árið 2006 starfaði ég í vinnuhóp á vegum forsætisráðherra, sem fjallaði um áhrif loftslagsbreytinga. Höfuð niðurstaða okkar var sú, að rannsóknir á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra væri langmikilvægasta verkefni íslenskra vísinda í dag og náinni framtíð. Skýrslunni var skilað. Síðan gerðist ekki neitt í þessu máli og hið opinbera virðist ekki hafa neinar áhyggjur né neinn áhuga á rannsóknum á þessu mikilvæga máli.
Loftslag | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Særými vex á Íshafinu og öldur birtast
6.8.2014 | 05:25
Það er nýtt haf að opnast. Hnattræn hlýnun er að svifta hafíshulunni af Íshafinu. Ein afleiðing þess er að nú myndast öldur á Íshafinu, þar sem áður var samfelld breiða af hafís. Ölduhæð er háð vindstyrk og einnig særými, eða fjarlægðinni, sem vindurinn getur blásið yfir hafið. Nú vex særými með ári hverju á norðurslóðum, vegna þess að hafísinn er að hverfa. Hafsvæði, sem áður voru hulin hafís mikinn hluta ársins, eru nú opið haf og vindurinn nær að koma af stað miklum öldugangi. Allt í einu er særými orðið eitt til tvö þúsund km og öldur rótast upp, sjólag versnar þar sem áður var kyrr sjór. Myndin sýnir til dæmis áhrif storms, sem gekk yfir norðurslóðir árið 2012. Rauðu og gulu svæðin sýna háar öldur, allt að 5 metrar. Hinar nýju siglingaleiðir í norðri, þar á meðal norðan Íslands, geta verið erfiðar af þeim sökum, einkum á ágúst og september, þegar hafísinn er minnstur og særými er mest.
Þergar kýrnar valda sprengingu
2.8.2014 | 00:25
Síðastliðin janúar varð dálítið sérstæð sprenging í fjósi í Rasdorf í Þýskalandi. Níutíu kýr fórust, en orsök sprengingarnar var að það kviknaði í metan gasi í fjósinu. Loftræsting var lítil eða engin og metan sem kýrnar gáfu frá sér í báða enda safnaðist fyrir, þar til einhver rafmagnsneisti kveikti í og þakið fauk af. Myndin sýnir fjósið í ljósum logum. Já, nautgripir gefa frá sér mikið metan gas, bæði þegar þeir ropa og reka við. Það er talið að venjuleg kýr gefi frá sér milli 100 og 500 lítra af metan á dag, eða sambærilegt við magnið af mengun frá einum bíl. Útlosun á metan gasi er alvarlegt mál, því þessi gas tegund hefur 21 sinnum meiri áhrif á hlýnun heldur en sambærilegt magn af koltvíoxíði. Öll dýr, sem eta gras (kýr, sauðfé, geitur, úlfaldar ofl.) hafa fjóra maga, þar sem melting fóðurs fer fram. Það eru bakteríur eða örverur (methanogens) í maganum, sem stuðla að rotnun. Afleiðing þess er að mikið magn af metan og koltvíoxíð gasi myndast í maganum, sem kýrnar losa sig við úr báðum endum metlingarvegsins. Þetta er oft nefnt biogas. Taflan sýnir efnagreiningu þess.
Það er heilmikið gas, sem myndast. Til dæmis í Ástralíu er talið að nautgripir og skyld húsdýr gefi frá sér rúmlega 13% af öllu gasi, sem berst út í andrúmsloftið. Þar við bætist mikið magn af metan gasi, sem myndast í mykjuhaugum. Þetta er ekkert grín lengur, þegar við höfum í hug að það eru yfir 1,5 milljarður nautgripa á jörðu. Sennilega gefur kýrin frá sér um 70 til 120 kg af metan á ári. Það jafngildir loftslagsáhrifum frá 2300 kg af koltvíoxíði á ári. Það er jafn mikið magn af koltvíoxíði og það sem losnar úr læðingi við að brenna 1000 lítrum af bensíni. Ef bíllinn eyðir um 8 lítrum á 100 km, þá samsvara það 12500 km á ári. Það eru ekki til nákvæmar tölur um biogas, en FAO stofnun Sameinuðu Þjóðanna segir að nautgripir og landbúnaður yfirleitt losi um 18% af öllum gróðurhúsagösum á ári. Málið er orðið svo alvarlegt, að Hvíta Húsið gaf út skipan í júní um að nú beri að draga úr metan útblæstri frá landbúnaði um 25% fyrir árið 2020.
Loftslag | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hlýnun heldur áfram
1.8.2014 | 06:47
Þegar ég er að kenna, þá reyni ég að forðast að endurtaka efni, jafnvel þótt það sé mjög mikilvægt. Mér finnst það sýna lítilsvirðingu gagnvart nemendum, ef maður er að endurtaka. En auðvitað er það oft gert. Ég minnist til dæmis á Ríkisútvarpið. Þeir kalla endurtekið efni Útvarpsperlur og þeim fer nú mjög fjölgandi. Hér fyrir neðan fylgja nokkrar perlur varðandi hlýnun. Nú þarf ég því miður að endurtaka atriði sem ég hef fjallað um varðandi hnattræna hlýnun, reyndar nokkrum sinnum áður. Mér virðist að lesendur hafi alls ekki tekið eftir þessu. Ég sé að allmargir lesendur telja að hlýnun á jörðu hafi stöðvast fyrir um tíu til fimmtán árum. Það er rétt, ef þú velur þér viss gögn, eða notar svokallaða cherry picking aðferð, en lítur ekki á heildina. Heildin er meðalhiti í lofthjúpnum á yfirborði jarðar OG meðalhiti í yfirborði og efri hluta heimshafanna. Reyndar eru heimshöfin miklu mikilvægari mælikvarði á hitafar en lofthjúpurinn. Skoðið til dæmis efni, sem ég setti inn á bloggið hinn 1. júlí 2014: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1404256/
Þar kemur fram, að meðalhiti, bæði haf og lofthjúpur, hefur verið stígandi ár hvert. Takið einnig til dæmis færslu mína frá 25. júni 2014: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1402441/ Þar kemur fram að hafið hefur verið að hitna stöðugt, og hlýnun hafsins nær niður á meir en 400 m dýpi. Takið færslu, sem ég gerði 23. janúar 2013 einnig um hlýnun hafsins: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1278537/
En ef til vill er samt athyglisverðast að skoða færslu mína frá 29. nóvember 2012 http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1270732/
Þar bendi ég á þá einföldu staðreynd, að aðeins efstu 260 cm af heimshöfunum innihalda jafn mikinn hita og allur lofthjúpurinn! Sjórinn er nær þúsund sinnum eðlisþyngri en loftið (1030 kg/m3 á móti 1.20 kg/m3 við 20ºC). Eitt kíló af vatni getur innihaldið 4,18 sinnum meiri hita en sambærilegur massi af lofti. Og enn frekar: sama rúmmál af vatni getur innihaldi 3558 sinnum meiri hita en jafnt rúmmál af lofti. Þessar einföldu staðreyndir kenna okkur, að hlýnun hafsins er mörgum sinnum mikilvægari hvað varðar hnattræna hlýnun en hitafar lofthjúpsins. Við vitum ekki hvers vegna hafið hlýnar nú hraðar en lofthjúpurinn, en við vitum að þegar á heildina er litið, þá heldur hnattræn hlýnun áfram.
Loftslag | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Holurnar í Síberíu
31.7.2014 | 12:26
Fyrir nokkrum dögum fann þyrla dularfulla holu í auðnum Síberíu, eins og myndin s ýnir. Nú hafa hreindýrahjarðmenn fundið tvær holur í viðbót á Yamal skaga, sem eru um 15 metra víðar. Fyrsta holan er um 30 metrar í þvermál og meir en 80 m djúp. Fast við brún holunar er uppkast af leir, ís og jarðvegi. Veggir hennar eru nær lóðréttir og sléttir. Sennilega eru þessar holur ekki vegna loftsteina. Slíkar holur eru fremur gígar, grunnir og með miklu jarðefni sem dreifist víða umhverfis. Starfsmenn rússnesku vísindaakademíunnar telja hins vegar að holan sé vegna losunar á metan gasi úr sífreranum. Eða er það metan gas, sem kemur dýpra úr jörðu? Stóra holan er um 40 km frá Bovanenkovo, en þar er að finna mestu metan gas birgðir rússa djúpt í jörðu. Ef gasið er úr sífreranum, þá kann það að benda til áhrifa hnattrænnar hlýnunar. Þegar sífrerinn bráðnar, þá leysist metan gas úr jarðvegi í og undir ísnum og streymir upp á yfirborð. Metan í andrúmslofti hefur verið að aukast ár frá ári.
Fyrra línuritið sýnir metan í Alaska, og þar kemur vel fram að það hækkar gífurlega í ár. Seinna línuritið er frá mælingarstöðinni Tiksi í Síberíu. Ekki eru til nýjustu mælingar þar, en takið eftir mjög háum tölum í fyrra (rauður hringur). Ef til vill var það vegna myndunar á gasholu, sem enginn tók eftir og er ófundin. Metan gas hefur um tuttugu sinnum meiri áhrif á hnattræna hlýnun en koltvíoxíð.
Menn hafa óttast að það losni úr sífreranum á öllum norðurslóðum og þá er voðinn vís.
Loftslag | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hetjan mín er Árni Thorlacius
30.7.2014 | 19:36
Ég er fæddur í Norska Húsinu í Stykkishólmi og þar ólst ég upp. Forvitni mín um ævi og störf Árna Thorlacíus (1802-1891) er því eðlileg, en hann reisti þetta merka hús milli 1828 og 1832 og bjó þar til dauðadags. Það er elsta tvílyfta húsið á Íslandi. Árni var af ætt útgerðarmanna og kaupmanna. Faðir hans, Ólafur Thorlacíus, var einn umfangsmesti kaupmaður á Íslandi í lok átjándu aldar. Einnig stundaði hann stórútgerð. Hann lét til dæmis eitt skipa sinna sigla beint með saltfiskfarm til Spánar en hin sigldu með kaupstaðavörur til Kaupinhafnar. Vegna dugnaðar hans hófst Bíldudalsfiskur til vegs og virðingar á mörkuðum erlendis. Árið 1807 festi Ólafur kaup á Stykkishólmsverslun og reiddi kaupverðið út í hönd: 5622 ríkisdali. Hann lést skyndilega árið 1815 á besta aldri. Þá voru eignir hans taldar 100,000 ríkisdalir silfurverðs. Tveir synir hans, ómyndugir, tóku nú við auðnum. Bogi Benedictsen hafði starfað sem factor fyrir Ólaf Thorlacíus og eftir andlát Ólafs tók hann við rekstrinum fyrir hönd ekkjunnar og hinna ungu sona. Árni var því kaupmannssonur, sem hafði úr miklum auði að spila. Hann var settur til mennta í Danmörku og Noregi, í tungumálum, verslunarmennsku og skipstjórnar- og siglingafræðum. Hann var því menntaður sem endurreisnarmaður og vel falinn til að stýra verklegum framförum. Árni var sendur fyrst til náms í menntaskóla í Kaupmannahöfn árið sem faðir hans deyr, 1815. Í þessum sama skóla var spekingurinn Georg Brandes síðar við nám. Árni útskrifast árið 1818, aðeins 16 ára. Þá snýr hann til Björginar í nám í sjómannafræðum og tók stöðu sem sjómaður í siglingum milli Noregs og Danmerkur um tíma. Árið 1821 er hann kominn með skipstjóraréttindi, einn af mjög fáum Íslendingum á þeim tíma. Árni var nú fær að stýra sínum eigin hafskipum milli Íslands og Evrópu. En hann var einnig bæði vísindamaður, heimsborgari, kaupmaður, bóndi, farmaður og áhugamaður um fornminjar og sögu landsins. Þarna togast á sjómennskan, fræðin og bóndinn. Árni var talinn hreystimenni, sægarpur og mikill á velli. Myndin sem fylgir er tekin á efri árum hans. Hann var skotfimur og einnig skutlari, sem var flínkur við selveiðar og í návígi við hvali. Hann var einn af stofnendum lestrarfélags í Stykkishólmi árið 1841 og síðar varð úr því Amtsbókasafn árið 1847 eða Bókasafn Vesturamtsins. Bókasafnið var til húsa fyrst um sinn í Norska Húsinu. Árni var einnig öflugur í sjálfstæðisbaráttunni og starfsemi hans var hluti af félagsvakningu og sjálfstæðishrefingu Jóns Sigurðssonar. Milli Árna og Jóns barst mikill fjöldi sendibréfa um ýmiss málefni. Hann studdi einnig við skáld og rithöfunda, sem áttu erfitt uppdráttar, einkum þau Sigurð Breiðfjörð og Júlíönu Jónsdóttur. Í nóvember árið 1845 hefur Árni veðurathuganir og byrjar að halda veðurbók sína, sem nú er á Þjóðminjasafni. Hann mældi í fyrstu bæði hita og loftþrýsting nokkurm sinnum á dag, en árið 1856 hóf hann einnig úrkomumælingar og sjávarhitamælingar ári síðar. Það er almennt talið að mælingar Árna í Stykkishólmi mega réttilega teljast hornsteinn íslenska veðurstöðvakerfisins. Þær eru einnig ómetanlegur þáttur í heildarmynd veðurlags á Norður Atlantshafi til lengri tíma. Árni hélt áfram reglubundnum veðurathugunum til ársins 1889, en þá tók sonur hans við. Síðan hafa veðurathuganir verið gerðar í Stykkishólmi óslitið.
Loftslag | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Klofajökull var aldrei klofinn
29.7.2014 | 06:40
Sumir lesendur virðast hafa þá skoðun, að á landnámsöld og söguöld hafi Vatnajökull verið mun minni og að hið forna nafn jökulsins, Klofajökull, styrki það. Þessir lesendur vísa á þetta sem sönnun þess, að þá hafi loftslag verið gjör ólíkt því, sem nú ríkir á 21. öldinni. Að þá hafi jökullinn verið klofinn af miklu skarði sem Gnúpa-Bárður fór um er hann fluttist frá Bárðardal og suður í Fljótshverfi. Það er ljóst að nafnið Klofajökull hefur ekki þann uppruna og er á engan hátt vísbending um að Vatnajökull hafi verið mun minni. Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá árinu 1772 er fjallað um uppruna nafnsins Klofajökull: Klofajökull dregur nafn af tveimur geysimiklum jökulálmum, sem skapa skarð eða bug á milli sín, en úr jökulkrók þessum koma þrjár stórár. Hér vísa því Eggert og Bjarni til klofans sem kemur í Vatnajökul vegna Kverkfjalla. Sveinn Pálsson tekur í sama streng, en hann gerði fyrsta uppdrátt af Klofajökli eða Vatnajökli árið 1794: Heitir hann Klofajökull vegna hinna fjölmörgu rana, sem út frá honum kvíslast í ýmsar áttir, og allmargra fjallgarða, sem skerast upp í hann. Hér er mynd af korti Sveins. Allir sem hafa séð Vatnajökul úr norðri átta sig á nafngiftinni, því Kverkfjöll virðast algjörlega kljúfa norður rönd hans. Í merku riti sínu, Jöklar á Íslandi (2009), hefur Helgi Björnsson gert líkan af myndun og vexti Vatnajökuls (bls. 372).
Það er ekkert sem kemur þar fram, sem gæti stutt þá hugmynd að jökullin hafi verið klofinn frá norðri til suðurs á landnámsöld. Mynd Helga af sennilegri útlínu Vatnajökuls fyrir um eitt þúsund árum fylgir einnig hér með. Var loftslag mun mildara á þjóðveldistímanum en nú í dag? Töluvert hefur verið deilt um það, en þetta er tímabil, sem loftslagsfræðingar nefna Medieval Warm Period. Ég fjalla um það síðar.