Færsluflokkur: Jarðskjálftar

Stutt gos í Etnu

Órói í EtnuEtna eldfjall á Sikiley byrjaði að gjósa síðastliðinn sunnudag, 15. júní. Það er alltaf viðburður þegar Etna gýs, af því að hún er annað virkasta eldfjall jarðar. Kilauea á Hawaíi er númer eitt. Í fyrstu voru sprengingar í  suðaustur gíg fjallsins og síðan tók basalt hraun að streyma niður hlíðar fjallsins.  Lokað var flugvöllum á Sikiley um tíma vegna ösku. Gosið náði strax hámarki næsta dag.  Myndin sýnir línurit fyrir tvær jarðskjálftastöðvar, sem eru staðsettar í hlíðum Etnu. Þetta er órói eða titringur, sem verður beinlínis vegna streymis á kviku upp um gíginn. Það er góður mælikvarði á goskraftinn. Ég fékk útkall frá félaga mínum, sem á stóran bát með tvær þyrlur og tvo kafbáta um borð.  Hann var staddur á Miðjarðarhafi. En ég varð að benda honum á, að þann dag, 17. júní, var þegar byrjað að draga úr goskraftinum og gosið því sennilega komið á lokasprettinn.  Því miður of seint að bregðast við.  Hinn 19. júní var óróinn kominn í venjulegt horf og gosinu að mestu lokið.  Eins og venjulega, þá er goskrafturinn nær alltaf mestur fyrstu tvo dagana og því verða menn að bregðast snöggt við ef skoða skal slíkar hamfarir jarðar. 


Grafið enn dýpra eftir gulli

gullmarkaðurinnGullmarkaðurinn hefur verið á uppleið undanfarin ár. Únsan hefur hækkað frá $400 árið 2003 upp í um $1700 í dag, en nú virðist ef til vill toppnum náð, eins og sjá má á fyrstu mynd til hægri.  Samt grafa menn dýpra og dýpra eftir gula málminum. TauTona náman í Suður Afríku er til dæmis komin niður í um 4 km dýpi.  Þar er hitinn í berginu um 58 stig og þeir nota lyftur sem fara á yfir 50 km hraða á klukkustund til að komst niður í vinnuna.

            En gullgröftur veldur ýmsum vandamálum.  Það eru umhverfisáhrifin af gullnámugreftri, sem valda mestum áhyggjum. Það er talið að vinnsla á 10 grömmum af gulli skapi 20 tonn af námurusli. Í Bandaríkjunum eru námufélög talin orsaka mesta mengun allra iðnfyrirtækja.  Skaðlegast í sambandi við gullnámið er samt notkun blásýru, en þessi baneitraði vökvi er notaður til að leysa upp gullið úr berginu.  Blásýra eða vetnissýaníð HCN er baneitrað efni, sem gufar upp við stofuhita og myndar hættulegt gas.  Sýran hefur alvarleg áhrif á allt lífríki í grennd við gullnámurekstur.

            Nú er vaxandi áhugi fyrir því, að vinna gull úr gömlum raftækjum.  Tölvudrasl, ónýtir farsímar og önnur raftæki innihalda  að jafnaði um 250 til 350 grömm af gulli í hverju tonni, eða miklu meira en þau 2 til 5 grömm af gulli í bergi sem nú er unnið í flestum gullnámum.

Gull kemur fyrir á ýmsan hátt í jarðskorpunni. Það er nokkuð algengt að gull finnist í æðum bergs, þar sem skorpuhreyfingar hafa myndað sprungur eða misgengi. gullæðMyndin sýnir sprungu, sem inniheldur kvarts og gull. Slíkar sprungur myndast að sjálfsögðu við jarðskjálfta. Nýlega kom fram sú kenning, að þegar jarðskjálftar gerast, verði mikið þrýstingsfall í slíkum sprungum, jafnvel að þrýstingur minnki um þúsundfallt á broti úr sekúndu í sprungunni.  Vökvi í sprungunni getur verið a´300 til 400 stiga híta, og þegar þrýstingsfallið verður, þá breytist vökvinn skýndilega í annað ástand, jafnvel í gufu.   Við það falla út ýmsar steindir og nýir kristallar myndast úr vökvanum og jafnvel gull fellur út í sprungunni.  

En það þarf meira til að mynda gull en jarðskjálfta. Að sjálfsögðu verður vökvinn að vera ríkur af gulli í upplausn. Gullríkur vökvi er líklegri að myndast í meginlandsskorpu eða jarðslkorpu sigbeltanna, en síður á svæðum þar sem úthafsskorpa ríkir, eins og á Íslandi.

Kanadískt fyrirtæki, Icelandic Gold, hefur leitað gulls í Þormóðsdal í Mosfellssveit. Hér er kerfi af sprungum í berginu, sem eru um 700 metrar á lengd og ná niður um 450 metra á dýpt. Hér var borað árið 1996, alls 1,4 km í níu borholum til að kanna bergið.  Holurnar sýna að eitthvað af gulli finnst í sprungum, sem eru á um 50 metra dýpi.  Bergsýni úr gryfjum sýna að þa er að meðaltali 4,77 grömm af gulli í hverju tonni í berginu.  Þetta er magnið, sem gefið er upp af fjárfestinum sjálfum Icelandic Gold, en ekki 400 grömm, eins og kom fram í einhverjum fjölmiðlum nýlega.  Fyrirtæki og stofnanir sem lagt hafa fé í þessa rannsókn eru Kísiliðjan, Orkustofnun, Iðntæknistofnun og Rannsóknarráð.

 

 


Óvissustig

Tjörnes brotabletið MetzgerÞá er Ríkislögreglustjóri búinn að lýsa yfir óvissustigi Almannavarna í dag vegna jarðskjálfta fyrir Norðurlandi. Þessi tilkynning kemur reyndar fjórum dögum eftir stóra 5,6 skjálftann hinn 21. október.  Af hverju ekki fyrr?  En tilkynningin kemur daginn eftir dóminn yfir jarðvísindamönnum á Ítalíu, en það er nú auðvitað bara tilviljun.  Aðal ástæðan  fyrir því að setja svæðið á hærra stig er svissnesk kona að nafni Sabrina Metzger.  Þessi jarðeðlisfræðingur og félagar hennar hafa fyrir einu ári birt greinar, þar sem fjallað er um ástand og spennu í jarðskorpunni undan Norðurlandi. Það eru því ekki nýjar niðurstöður, sem kalla á þessi nýju viðbrögð.  Metzger og félagar hafa nýtt sér einkum GPS mælinga á hreyfingum jarðskorpunnar yfir tímabilið frá 1999.  Tjörnes brotabeltið er sýnt á mynd númer eitt.  Á myndinni er mikill fjöldi lítilla rauðleitra púnkta, sem sýna upptök jarðskjálfta.  Jarðskjálftadreifingin teiknar vel fram útlínur Tjörnes brotabeltisins.  Syðri línan af jarðskjálftum er Húsavíkur-Flateyjar misgengið, sem er nú virkt þessa vikuna.  Hin þyrpingin af jarðskjálftum er norðar og teiknar út þann hluta brotabeltisins sem er kennt við Grímsey. Ártöl og svartar stjörnur sýna þekkta stóra skjálfta á svæðinu, ásamt stærð þeirra.  Takið eftir að síðasti stóri skjálftinn á meiri hluta Húsavíkur-Flateyjar misgengisins varð árið 1872.  Síðan hefur spenna hlaðist upp í þessum hluta flekamótanna í 140 ár, en á meðan hafa flekarnir í heild fjarlægst um 18 mm á ári.  Það má segja, að flekarnir séu læstir saman á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu, en á meðan hleðst upp spenna þar til hún yfirvegar lásinn og skorpan rifnar. Metzger og félagar hafa reiknað að spennan samsvari stórskjálfta sem er 6,8 að stýrkleika.  Hann er enn ókominn.  Reyndar hefur töluverð orka losnað úr læðingi nú þegar, eins og önnur myndin sýnir.  Þar eru sýndir skjálftar stærri en 2 á þessu svæði síðan um miðjan október.  Þar á meðal er skjálftinn sem var 5,6 hinn 21. október.  En það er minna en einn þrítugasti af orkunni, sem Metzger of félagar telji vera geymda sem spennu í skorpunni og gæti komið fram sem 6,8 skjálfti, ef öll spennan losnar.  SkjálftarHvað getur gerst, þegar (eða ef) lásinn fer af svona sneiðmisgengi eins og Húsavíkur-Tjörnes misgenginu?  Jú, það verður stór skjálfti, en getur það einnig haft áhrif á norður hluta eystra gosbeltisins, sem liggur í gegnum megineldstöðvarnar Þeistareyki, Kröflu, Öskju og fleiri?  Kynni það að valda gliðnun á gosbeltinu þarna nyrðra, ef til vill með kvikuhlaupi og eldgosi, eins og gerðist í Kröflu árið 1975 og í Öskju árið 1875.  Bíðum og sjáum til. Við lifum í spennandi landi!

Sjö Ítalskir jarðvísindamenn dæmdir sekir um manndráp

L´AquilaÍtalir hafa aldrei farið vel með sína vísindamenn og gera ekki enn. Á Ítalíu býr þjóðin, sem brenndi Giordano Bruno á bálkesti árið 1600  vegna hugmynda hans um heimsmyndina og um grundvallaratriði í stjörnufræði, sem braut í bága við kenningar kaþólskrar kirkju.  Árið 1633 var stjörnufræðingurinn Galileo Galilei dæmdur í fangelsi fyrir að aðhyllast kenninguna að sólin væri hin rétta miðja kerfisins, sem jörðin snýst um.  Í gær dæmdi ítalskur dómstóll sjö jarðvísindamenn seka um manndráp í tengslum við jarðskjálftann undir borginni L´Aquila árið 2009. Það var hinn 6. apríl árið 2009 að jarðskjálfti varð beint undir L´Aquila, en hann var af stærðinni 6,3.  Hann var á aðeins 9,5 km dýpi og að minnsta kosti 308 manns fórust og borgin var lögð í rúst.  Ég hef bloggað um skjálftan og umdeild viðbrög jarðvísindamanna áður hér:

http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1154541/

 Smáskjálftar voru tíðir undir L´Aquila í byrjun ársins 2009 og sjö manna nefnd dæmdir sekirjarðvísindamanna var skipuð til að rannsaka málið.  Íbúar voru mjög órólegir og áhyggjufullir, einkum þegar jarðeðlisfræðingurinn Giampaolo Giuliani spáði stórum jarðskjálfta á grunni radon gas mælinga sinna. Sjömanna nefndin hélt almennan fund með borgurum hinn 31. mars 2009 og birti yfirlýsingu þess efnis, að það væri engin hætta á stórum skjálfta. Sex dögum síðar reið stóri skjálftinn yfir, 6,3 að stærð, með hörmulegum afleiðingum, eyðileggingu og dauða.   Nú hafa meðlimir nefndarinanr verið fundnir sekir um manndráp og fengið sex ára fangelsisdóm fyrir að hafa ekki varað íbúana við yfirvofandi hættu.  Sjömenningarnir sem hlutu fangelsisdóminn voru öll ítalska ríkisnefndin um spá og forvörn frá jarðvá.     Ég þekki vel einn af hinum dæmdu.  Hann heitir Franco Barberi og er eldfjallafræðingur, sem hefur á seinni árum orðið einn áhrifamesti jarðvísindamaður á Ítalíu.  Við höfum áður starfað saman að málum sem snerta eldgos og eldgosahættu frá Vesúvíusi.   Dómurinn í L´Aquila vekur margar spurningar og þær snerta okkur hér á Íslandi einnig. Er hægt að ætlast til að jarðvísindamenn geti spáð fyrir um stóra jarðskjálfta eða eldgos? Eiga vísindamenn yfirleitt að vera að gefa út yfirlýsingar til almennings um mál sem snerta hættuástand, þegar þeir hafa ekki nægileg gögn í höndum?  Þessi dómur mun vafalaust hafa mikil áhrif á hegðun jarðvísindamanna á Ítalíu varðandi jarðvá á næstunni. Ég tel líklegt að enginn ítalskur fræðimaður fáist nú til að gefa yfirlýsingar eða spá um jarðvá í kjölfar þessa dóms.    Allir aðilar þurfa nú að hugsa vandlega sinn gang og ákvarða hvaða ráðgjafar er óskað eftir frá jarðvísindamönnum og hvaða ábyrgð henni fylgir.   Enn er ósvarað stórum spurningum varðandi vísindin og skjálftann mikla undir L´Aquila. Var radon gasið sem Giampaolo Giuliani mældi góð vísbending um yfirvofandi hættu? Voru smáskjálftarnir undan þeim stóra einnig góð vísbending, sem nefndin tók ekki með í reikninginn? Jarðskjálftafræðingar telja almennt, að smáskjálftar séu ekki áreiðanleg vísbending um yfirvofandi stórskjálfta. Á Ítalíu eru smáskjálftar áberandi á undan um helmingi af öllum stórskjálftum, en aðeins í um 2% af öllum tilfellum fylgir stórskjálfti í kjölfarið á smáskjálftahrinu. Ég mun nú samt halda ótrauður áfram að birta mínar skoðanir á jarðvá, enda er Kvíabryggja hér alveg í næsta nágrenni við Stykkishólm og virðist vistin þar vera nokkuð góð.


Skjálftar í Eyjafjarðarál

EyjafjarðarállÞað er mjög stórt misgengi rétt undan norðurlandi, sem er kennt við Húsavík og Flatey.  Nú kemur það fram í fréttum vegna mikilla jarðskjálfta þar í nótt og einnig í september mánuði.  Misgengið liggur  frá Húsavík, rétt milli Flateyjar og lands, og inn í Eyjafjarðarál og inn á landgrunnið fyrir norðan Tröllaskaga, eins og fyrsta mynd sýnir.  Á henni eru sýndir skjálftarnir sem urðu í hrynunni frá 14. til 21. september í ár, en myndin er frá Veðurstofu Íslands.  Mér virðist að hrinan sem nú stendur yfir sé á svipuðum slóðum, en þó nokkuð sunnar.  Hreyfingar á þessu misgengi eru þannig að landgrunnið norðan misgengisins færist til suðausturs, miðað við jarðskopruna fyrir sunnan misgengið, eins og örvarnar á fyrstu mynd sýna.  EyjafjarðarállHér erum við þá að fjalla um sniðmisgengi.  Vestur endi sniðmisgengisins virðist enda í vestur brún Eyjafjarðaráls.  Skjálftarnir eru ef til vill tengdir gliðnun Eyjafjarðaráls, eins og hinar örvarnar á fyrstu myndinni sýna.  Þessi áll er stórmerkilegt fyrirbæri. Önnur myndin (frá Orkustofnun) sýnir að það er mikill búnki af setlögum í Eyjafjarðarál.  Svörtu brotalínurnar á myndinni sýna að setlögin í Eyjafjarðarál erum 2 til 3 km á þykkt. Állinn er mikill sigdalur, sem hefur verið virkur í nokkrar milljónir ára, og hér hefur dalurinn sigið stöðugt og set safnast hér fyrir. Setið er það þykkt, að í því gætu verið gas eða olíumyndanir, ef hitastigullinn er ekki of hár til að leyfa olíu að þrífast.  Sigið gerist hér á flekamótum, en það eru flekamót án eldvirkni.  Þeyndar kemur eldvirknin fram nokkuð norðar, þar sem Eyjafjarðaráll grynnist og kemur í ljós sem eldeyjan Kolbeinsey. Þar mun hafa síðast gosið árið 1372. 

 


Katla skelfur

Mýrdalsjökulsaskja skjálftarTíðni smáskjálfta á Kötlusvæðinu eða í Mýrdalsjökulsöskjunni hefur verið mjög mikil í ár og í fyrra. Fyrsta myndin hér sýnir fjölda skjálfta í Mýrdalsjökulsöskjunni á fyrri hluta árs (janúar til júlí) hvert ár frá 1991 til 2012. Toppurinn í tíðni skjálfta í ár kemur vel fram og ástandið alls ekki venjulegt. Eru þetta ísskjálftar, sem orsakast vegna hreyfingar og bráðnunar jökulsins, eða eru þetta skjálftar í jarðskorpunni undir, tengdir eldfjallinu sjálfu? Það er nú einmitt þess vegna, að ég valdi að sýna aðeins fyrri hluta ársins á þessari mynd. Það er vel þekkt, einkum á Goðabungu, rétt vestan við Kötlu, að það eru miklar árstíðasveiflur í fjölda smáskjálfta á þessu svæði, eins og til dæmis Kristín Jónsdóttir hefur ritað um.  Árstíðasveiflur skjálftaÖnnur myndin sýnir þessa árstíðabundnu sveiflu í fjölda smáskjálfta fyrir árin 1998 til 2000. Það verður stökk í fjölda skjálfta um september eða október ár hvert, eins og myndin sýnir og hefur það verið túlkað sem svörun við bráðnun og þynningu jökulsins, sem léttir þunga af skorpunni. En nú er þessi háa tíðni smáskjálfta í ár og í fyrra ekki tengd slíkum fyrirbærum, og því ef til vill tengd eldfjallinu sjálfu. Eða er það jarðhiti í Kötluöskjunni, undir íshellunni, sem veldur meiri fjölda ísskjálfta? Katla heldur þannig áfram að valda töluverðum taugaspenningi meðal okkar allra.

Hver uppgötvaði Kjarnann?

KjarninnEf til vill er ykkur farið eins og mér, þegar þið drekkið kaffibollann á morgnana, að þið veltið fyrir ykkur hver uppgötvaði kjarna jarðarinnar. Nú vitum við að kjarninn er engin smásmíð, því hann er um 30% af þyngd jarðar. Sagan um uppgötvun hans hefst reyndar í Egyptalandi fyrir Krists burð. Þar var það gríski fræðimaðurinn Eratosþenes (276 til 195 f.Kr.) sem reiknaði út ummál og þar með stærð jarðarinnar. Hann fékk út töluna 39690 km, sem skeikar aðeins um 1% frá réttri tölu, sem er 40075 km. Næst kemur við sögu enski lávarðurinn Henry Cavendish (1731–1810), en hann vigtaði jörðina. Vigtin sem við hann er kennd er reyndar dingull, sem mælir aðdráttarafl jarðar og út frá því má reikna þyngd plánetunnar, þar sem rúmmálið er þekkt frá mælingu Eratosþenesar. Cavendish fékk þá niðurstöðu, að eðlisþyngd allrar jarðarinnar væri 5.48 sinnum meiri en eðlisþyngd vatns, en niðurstaða hans er mjög nærri réttu (5.53). Nú er eðlisþyngd bergtegunda á yfirborði jarðar oftast um 2.75, og það var því strax ljóst að miklu þéttara og mun eðlisþyngra berg leyndist djupt í jörðu, sennilega í einhverskonar kjarna. Hitaferill jarðarNú líður og bíður þar til árið 1906, þegar framfarir í jarðskjálftafræði gera kleift að kanna innri gerð jarðar. Þeir Emil Wiechert og Richard Dixon Oldham komast að raun um það að hraði jarðskjálftabylgna breytist mikið á um 2900 km dýpi, og að S bylgjur komast ekki í gegnum jarðlögin þar fyrir neðan og þar hlyti því að vera efni í kjarnanum í fljótandi ástandi: sem sagt bráðinn kjarni. Wiechert hafði stungið upp á því árið 1896 að innst í jörðinni væri kjarni úr járni. Einn af nemendum Wiecherts var Beno Gutenberg, sem kannaði frekar ytri mörk kjarnans árið 1914. Það kom eiginlega ekkert annað efni til greina, sem hefur þessa eðlisþyngd og væri bráðið við þennan þrýsting. Til þess að vera bráðinn á þessu dýpi og undir miklum þrýstingi og gerður úr járni, þá hlaut hitinn í kjarnanum að vera að minnsta kosti fimm þúsund stig! Önnur myndin sýnir hitaferil inni í jörðinni. En undir enn meiri þrýstingi þá kristallast járn, jafnvel undir þessum hita, og svo kom í ljós, árið 1936 að jarðskjálftabylgjur endurköstuðust af einhverju kristölluðu yfirborði á um 5100 km dýpi. Það var danski jarðeðlisfræðingurin Inge Lehman sem uppgötvaði innri kjarnann. Nú vitum við að kristalliseraður innri kjarninn snýst dálítið hraðar en fljótandi ytri kjarninn, sem kann að hafa áhrif á segulsvið jarðar, en ytri kjarninn er svo þunnfljótandi við þetta hitastig að hann líkist helst vatni. Hitinn í kjarnanum er um það bil sá sami og á yfirborði sólarinnar, en þar er hitinn um 5500 oC. Eins og önnur myndin sýnir, þá eru ofsaleg hitaskil á milli heita kjarnans og kaldari möttulsins fyrir ofan. Þarna breytist hitinn um þrjú þúsund stig á nokkrum kílómetrum! Mikið af hita kjarnans er arfleifð frá myndun jarðar og frá árekstrum af stórum loftsteinum snemma í sögu jarðar. Einnig er nú talið að eitthvað sé enn af geislavirkum efnum í kjarnanum, sem gefa frá sér hita, og auk þess er dálítill (1 til 3%) kísill og brennisteinn í kjarnanum. D lagiðEn hvað gerist þá á þessum miklu hitaskilum á um 2900 km dýpi? Þriðja myndin sýnir að það er um 100 til 200 km þykkt lag, sem jarðskjálftafræðingar kalla D” lagið, utan um kjarnann og á botni möttulsins. Hér viðrist vera mikið um að vera. Hér rísa heil fjöll upp í möttulinn, og ef til vill myndast straumar af heitu bergi hér, sem rísa hátt upp, jafnvel alla leið að yfirborði jarðar. Sumir jarðfræðingar halda því fram, að hér í D” laginu sé að finna uppruna á möttulstrókum, eins og þeim sem kann að hafa myndað Hawaii og jafnvel þeim möttulstrók sem sumir telja að rísi undir Íslandi. Alla vega er kjarninn og einkum ytri mörk hans eitt mest spennandi vandamál jarðvísindanna.

Ítalskir jarðskjálftar

Afríka færist norðurSex eru látnir í jarðskjálftanum sem reið yfir Ítalíu í dag nálægt Bologna. Hann var af stærðinni 6.0. Flestum er enn í minni jarðskjálftinn undir borginni l´Aquila á Ítalíu árið 2009, er 150 manns fórust. Þrjú þúsund fórust einnig í skjálfta í suður Ítalíu árið 1980. Og enn verra var árið 1908, þegar að minnsta kosti 70 þúsund fórust í jarðskjálfta sem jafnaði borgina Messina við jörðu. Hvaða öfl eru það sem hrista Ítalíu með svo miklum krafti og hörmulegum afleiðingum? Það eru vitaskuld flekahreyfingar Afríkuflekans í suðri og Evrasíuflekans í norðri. Fyrir mörgum milljónum ára var mikið haf milli Afríku og Evrópu, sem tengdi Atlantshaf í vestri og Kyrrahafið í austri. Það nefndist Tethyshaf. Síðan hefur Afrikuflekinn stöðugt rekið norður á bóginn á hraða sem nemur um 2 cm á ári, í átt til Evrópu. Flekahreyfingin hefur þannig lokað Tethyshafi og er sú hreyfing nú í þann veginn að þurrka Miðjarðarhafið út, en það eru síðustu leifarnar af Tethyshafi. Fyrsta myndin sýnir hvernig norður strönd Afríku hefur stöðugt mjakast norður á bóginn síðastliðin 175 milljón ár. ÍtalíaEin afleiðing af þessum árekstri Afríku og Evrópu eru Alpafjöllin. Önnur afleiðing er sú mikla felling í jarðskorpunni sem myndar Ítalíu skagann. Mynd númer tvö sýnir helstu þætti í jarðskorpuhreyfingum á Ítalíu. Rauða línan eru mótin þar sem flekarnir mætast, í miklu sigbelti. Þetta eru mjög flókin flekamót, og hlykkjast þau eins og snákur eftir Ítalíu endilangri. Bláu línurnar eru hins vegar svæði þar sem gliðnun á sér stað á flekamótunum, en hafsbotninn rétt fyrir vestan Ítalíu er að gliðna í sundur. Heildaráhrif af þessum flekahreyfingum eru algengir jarðskjálftar og einnig eldvirkni í Vesúvíusi, Strombólí, Etnu og fleiri eldfjöllum.

Skjálftar við Herðubreið

Herðubreið skjálftar

Skjálftahrina er í gangi í grennd við Herðubreið. Sumir skjálftarnir hafa verið nokkuð stórir, eða rúmlega 3 af stærð. Hrinur hér eru ekkert til að kippa sér upp við, þar sem þær eru tíðar.  Myndin er unnin úr Skjálftavefsjá Veðurstofunnar, og sýnir  hún okkur að hrinur eru árlegur viðburður á þessum slóðum. Það vekur eiginlega furðu hvað hrinur hér gerast með reglulegu millibili, eins og myndin sýnir. Seinni myndin sýnir að það er lítilsháttar órói á óróamælinum í Öskju, sem virðist vera samfara þessum skjálftum. 

Órói undir Öskju

 Enginn óróamælir er staðsettur nær. Samt sem áður getur slíkur órói verið tengdur veðurfari.  Herðubreið hefur ekki gosið síðan í lok ísaldar, fyrir um tíu þúsund árum, og engar ungar virkar eldstöðvar eru hér í næsta nágrenni. 


Nýtt erindi: Skjálftavirkni undir Snæfellsjökli

ErindiLaugardaginn 28. apríl kl. 14 held ég erindi í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Efnið eru nýar niðurstöður um jarðskjálftavirkni undir Snæfellsjökli. Aðgangur er ókeypis.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband