Grafið enn dýpra eftir gulli

gullmarkaðurinnGullmarkaðurinn hefur verið á uppleið undanfarin ár. Únsan hefur hækkað frá $400 árið 2003 upp í um $1700 í dag, en nú virðist ef til vill toppnum náð, eins og sjá má á fyrstu mynd til hægri.  Samt grafa menn dýpra og dýpra eftir gula málminum. TauTona náman í Suður Afríku er til dæmis komin niður í um 4 km dýpi.  Þar er hitinn í berginu um 58 stig og þeir nota lyftur sem fara á yfir 50 km hraða á klukkustund til að komst niður í vinnuna.

            En gullgröftur veldur ýmsum vandamálum.  Það eru umhverfisáhrifin af gullnámugreftri, sem valda mestum áhyggjum. Það er talið að vinnsla á 10 grömmum af gulli skapi 20 tonn af námurusli. Í Bandaríkjunum eru námufélög talin orsaka mesta mengun allra iðnfyrirtækja.  Skaðlegast í sambandi við gullnámið er samt notkun blásýru, en þessi baneitraði vökvi er notaður til að leysa upp gullið úr berginu.  Blásýra eða vetnissýaníð HCN er baneitrað efni, sem gufar upp við stofuhita og myndar hættulegt gas.  Sýran hefur alvarleg áhrif á allt lífríki í grennd við gullnámurekstur.

            Nú er vaxandi áhugi fyrir því, að vinna gull úr gömlum raftækjum.  Tölvudrasl, ónýtir farsímar og önnur raftæki innihalda  að jafnaði um 250 til 350 grömm af gulli í hverju tonni, eða miklu meira en þau 2 til 5 grömm af gulli í bergi sem nú er unnið í flestum gullnámum.

Gull kemur fyrir á ýmsan hátt í jarðskorpunni. Það er nokkuð algengt að gull finnist í æðum bergs, þar sem skorpuhreyfingar hafa myndað sprungur eða misgengi. gullæðMyndin sýnir sprungu, sem inniheldur kvarts og gull. Slíkar sprungur myndast að sjálfsögðu við jarðskjálfta. Nýlega kom fram sú kenning, að þegar jarðskjálftar gerast, verði mikið þrýstingsfall í slíkum sprungum, jafnvel að þrýstingur minnki um þúsundfallt á broti úr sekúndu í sprungunni.  Vökvi í sprungunni getur verið a´300 til 400 stiga híta, og þegar þrýstingsfallið verður, þá breytist vökvinn skýndilega í annað ástand, jafnvel í gufu.   Við það falla út ýmsar steindir og nýir kristallar myndast úr vökvanum og jafnvel gull fellur út í sprungunni.  

En það þarf meira til að mynda gull en jarðskjálfta. Að sjálfsögðu verður vökvinn að vera ríkur af gulli í upplausn. Gullríkur vökvi er líklegri að myndast í meginlandsskorpu eða jarðslkorpu sigbeltanna, en síður á svæðum þar sem úthafsskorpa ríkir, eins og á Íslandi.

Kanadískt fyrirtæki, Icelandic Gold, hefur leitað gulls í Þormóðsdal í Mosfellssveit. Hér er kerfi af sprungum í berginu, sem eru um 700 metrar á lengd og ná niður um 450 metra á dýpt. Hér var borað árið 1996, alls 1,4 km í níu borholum til að kanna bergið.  Holurnar sýna að eitthvað af gulli finnst í sprungum, sem eru á um 50 metra dýpi.  Bergsýni úr gryfjum sýna að þa er að meðaltali 4,77 grömm af gulli í hverju tonni í berginu.  Þetta er magnið, sem gefið er upp af fjárfestinum sjálfum Icelandic Gold, en ekki 400 grömm, eins og kom fram í einhverjum fjölmiðlum nýlega.  Fyrirtæki og stofnanir sem lagt hafa fé í þessa rannsókn eru Kísiliðjan, Orkustofnun, Iðntæknistofnun og Rannsóknarráð.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Fjölmiðlar geta verið afar frjálslega með tölum stundum. Nokkrum núllum af og frá skipta sennilega ekki máli.

Úrsúla Jünemann, 21.3.2013 kl. 17:44

2 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Kærar þakkir fyrir þessa ágætu og upplýsandi færslu, Haraldur.

Ómar Bjarki Smárason, 22.3.2013 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband