
Ég vann lengi við rannsókn á virku eldfjalli í þriðja heiminum.
Íbúar í þorpum umhverfis fjallið kölluðu mig eldfjallsdoktorinn.
Ég var maðurinn sem hafði menntun, tæki og útbúnað til að fylgjast með fjallinu.
Þeir spurðu mig oft á förnum vegi:
Er ekki allt í lagi með fjallið okkar?
Ég svaraði alltaf: Jú, allt í lagi núna.
Nema einn daginn, þá glopraði ég þessu því miður út úr mér: Já, það er allt í lagi meðan ég er hérna.
Nokkrum dögum síðar þurfti ég að skreppa frá og var rétt að stíga upp í litla flugvél, sem lenti á túni við eitt þorpið.
Allt í einu vorum við umkringdir stórum hóp, sem spurði:
Af hverju ert þú að fara burt? Er fjallið að fara að gjósa?
Ég hafði brotið af mér siðferðilega gagnvart fólki sem treysti mér.
Hvaða ábyrgð hvílir á vísindamönnum, sem kunna að hafa upplýsingar varðandi vá eða hættu sem getur stafað af náttúruhamförum? Yfirleitt höfum við litið á þetta mál sem siðferðilega ábyrgð hingað til, en nú kann málið að snúast í þá átt í framtíðinni að jarðvísindamenn beri lagalega ábyrgð.

Tökum dæmið um jarðskjálftann í grennd við miðaldaborgina L´Aquila á Ítalíu,
rétt fyrir norðaustan Rómarborg.
L´Aquila jarðskjálftinn 6. apríl 2009 var af stærðinni 6,3.
Hann var á aðeins 9,5 km dýpi og að minnsta kosti 308 manns fórust, og borgin var lögð í rúst, eins og fyrsta myndin sýnir. Myndin til hliðar er gerð með radar, og er tekin úr gervihnetti nokkrum dögum eftir skjálftann.
Hún sýnir hvernig jörðin í grennd við L´Aquila hreyfðist í sambandi við skjálftann.
Stóri græni kassinn sýnir upptökin.
Ítalskur vísindamaður, Giampaolo Giuliani,
gaf út tilkynningu mánuði áður að hætta væri á stórum jarðskjálfta á þessu svæði í Ítalíu.
Myndin til hliðar er af Giuliani, með rústirnar af borginni á bakvið.
Hann byggði spá sína á radon gas mælingum.
Fyrri reynsla sýnir, að radon gas streymir í auknu magni upp úr jörðinni rétt fyrir jarðskjálfta.
Myndin sem er neðst er línurit fyrir radon gas í grennd við Japönsku borgina Kobe. Þar varð stór skjálfti árið 1995, um 7,0 að stærð.
Það er ljóst að radon gasið gat í þessu tilfelli gefið aðvörun um yfirvofandi skjálfta.

Mælingar Giulianis á Ítalíu sýndu að vaxandi magn af radon gasi streymdi upp úr jarðskorpunni í grennd við L´Aquila dagana áður en skjálftinn skall á.
Hann lét vini og nágranna vita af yfirvofandi hættu, en yfirmenn hans og stjórnendur jarðskjálftarannsókna á Ítalíu höfðu sett bann á það að hann gæfi út formlega yfirlýsingu um yfirvofandi skjálfta, af ótta við að algjört öngþveiti yrði á svæðinu. Sex dögum fyrir skjálftann héldu sjö vísindamenn opinberan fund um ástandið, en gáfu ekki út viðvörun, þrátt fyrir upplýsingar Giulianis. Tveimur mánuðum síðar sakaði ítalskur dómstóll þessa sjö jarðskjálftafræðinga um manndráp, fyrir það að hafa ekki sent út viðvörun um yfirvofandi hættu.
Aðeins viku fyrir skjálftann höfðu þessir vísindamenn gert allt til að róa fólk á svæðinu og telja því trú um að halda sig heima í borginni L´Aquila.

Félagar sjömenninganna um allan heim söfnuðu þá 5165 undirskriftum þeim til stuðnings (þar á meðal á lista eru tuttugu íslenskir jarðvísindamenn), og staðfesta í bréfi sem sent var til forseta Ítalíu að það sé enn engin vísindaleg aðferð til að gefa út spá um yfirvofandi jarðskjálftahættu.
Réttarhöldum var frestað þar til hinn 28. febrúar 2011, en ég hef ekki frétt frekar af gangi málsins, né hvað hefur orðið um hetju fóksins: Giancampo Giuliani.