Þyngdarmælingar spáðu gosi í Öskju 2010

ÞyngdarmælingarÞegar kvika færir sig úr stað eða streymir inn eða út úr kvikuþró undir eldfjalli, þá kunna að verða miklar breytingar á massa, og ef til vill má mæla slíkar breytingar með þyngdarmælingum á yfirborði. Aðdráttarafl Jarðar er breytilegt á hverjum stað, vegna mismunandi bergtegunda og breytilegrar eðlisþyngdar í jarðskorpunni, og þyngdaraflið getur því breytst þegar kvika færist til undir eldstöðinni. Breski jarðeðlisfræðingurinn Hazel Rymer og félagar hafa gert þyngdarmælingar í Öskju síðan árið 1985. Allt til ársins 2007 voru breytingarnar í eina átt. Á þeim tíma minnkaði þyngdaraflið stöðugt undir Öskju, sem þau töldu benda til þess að kvika væri að streyma út úr eða frá kvikuþrónni og inn í jarðskorpuna í kring um Öskju. Árið 2008 breyttist ferlið verulega, eins og myndin fyrir ofan sýnir, en þá byrjaði þyngdaraflið undir miðjunni á Öskju að hækka, sem sennilega var merki um að kvika streymdi nú inn í kvikuþrónna undir Öskju. Þessu hélt áfram árið 2009 og 2010. Það ár spáði Hazel Rymer í fjölmiðlum að gos yrði á næstunni í Öskju. Myndin sýnir niðurstöður Rymer og félaga á þyngdarmælingum, en ekki er mér kunnugt um niðurstöður mælinga á síðasta ári. Það er rauða brotalínan sem skiftir okkur máli, en hún er í miðju öskjunnar. Þar kemur greinilega fram breytingin sem varð árið 2007.  SkjálftarViðbót af nýrri kviku sem steymt hefur inn í kvikuþrónna undir Öskju síðan 2007 er talin vera 70 milljarðar kílógramma, á um 3 km dýpi samkvæmt þyngdarmælingunum. En hvað með jarðskjálftavirkni undir Öskju? Önnur myndin er gerð með gögnum í Skjálftavefsjá Veðurstofunnar, og sýnir tíðni og dreifingu á dýpi jarðskjálfta frá síðustu aldamótum og til dagsins í dag. Eitt virðist vera augljóst: djúpu skjálftarnir voru ríkjandi frá 2007 til 2010 en eru ekki fyrir hendi síðan. Það er ekkert sem bendir til að grynnri skjálftar séu algengari síðustu tvö árin, heldur virðast þeir vera færri. Ég tek það fram að hér eru aðeins sýndir skjálftar af stærðinni 3 og meira.  Að lokum er þess vert að benda á, að óróamælingar Veðurstofunnar í Öskju sýna engar breytingar undanfarna daga.   

Skjálftavirkni undir Öskju

Askja kortÞað hefur verið fylgst náið með jarðskjálftavirkni á svæðinu í grennd við Öskju undanfarin ár. Í fyrsta lagi var sett upp stórt net af skjálftamælum í sambandi við Kárahnjúkavirkjun, og í öðru lagi voru það umbrotin árið 2007 undir Upptyppingum fyrir austan Öskju, sem hvöttu jarðeðlisfræðinga til dáða. Hvað segja þessi gögn um kvikuþróna undir Öskju? Janet Key og félagar frá Cambridge háskóla hafa nýlega gefið út skýrslu sem fjallar um skjálftavirkni undir Öskju undanfarin ár, en þau hafa keyrt mikið net af skjálftamælum umhverfis Öskju samfellt frá árinu 2008. Fyrsta myndin er kort af Öskjusvæðinu, og sýnir dreifingu skjálftanna. Eins og kemur fram á mynd númer tvö, þá eru skjálftar  á fremur litlu dýpi í jarðskorpunni sýndir með grænum lit, eða frá 2 til 8 km. Hins vegar eru skjálftarnir á  miklu dýpri sýndir með gulum lit, eða frá 12 til yfir 30 km. Þannig eru skjálftar á tveimur vel afmörkuðum svæðum, og þeir dýpri eru tengdir flæði af kviku upp úr möttlinum og inn í jarðskorpuna undir eldstöðinni.  Grynnri skjálftarnir á 2 til 8 km dýpi kunna að vera tengdir kvikuþrónni. Þriðja myndin sýnir þversnið í gegnum jarðskorpuna undir Öskju, á norðaustur línu sem liggur undir Herðubreið (lína A-A´ á fyrstu myndinni).  Dýpi skjálftaÍ þversniðinu sést greinilega að mikið er um grunna skjálfta undir Öskjuvatni, á um 2 til 6 km dýpi, en engir djúpir skjálftar hér. Djúpu skjálftarnir virðast koma fyrir norðar í Öskju, einkum undir Öskjuopi, þar sem sprungugosið árið 1961 brautst út. Samkvæmt túlkun jarðeðlisfræðinga benda djúpu skjálftarnir til að kvikuhreyfingar hafi verið í gangi djúpt undir Öskju í mörg ár. Á sama tíma hafa Freysteinn Sigmundsson og félagar safnað radar gögnum úr gervihnetti (InSAR) frá 2000 til 2009 um hreyfingar jarðskorpunnar í Öskju. Þar kemur í ljós að botninn á Öskju hefur stöðugt verið að síga um 3 cm á ári, sennilega vegna streymis af kviku út úr kvikuþró á um 3 km dýpi. Þversnið skjálftaEn árið 2010 komu fram breytingar á þyngdarmælingum yfir Öskju, sem Hazel Rymer og félagar hafa framkvæmt, en þær gefa til kynna að þetta ferli sé að snúast við. Meira um það í næsta bloggi, og spá Rymer´s um gos á næstunni.

Þegar Öskjuvatn myndaðist

Myndun ÖskjuvatnsÁrið 1875 hófst eldgos í Öskju.  Það voru bændur í Mývatnssveit sem fyrst tóku eftir eldsumbrotum inni í Dyngjufjöllum í ársbyrjun. Hinn 16. febrúar fóru fjórir menn úr Mývatnssveit yfir Ódáðahraun og komu í Öskju. Þeir sáu stóran gíg í suðri en þá hafði ekki enn sigið sú stóra landspilda sem nú myndar Öskjuvatn.  Skömmu síðar hófst sprungugos í Sveinagjá, um 50 km norðan Öskju, en gjáin er hluti af sprungusveim Öskjueldstöðvarinnar. Gosið í Sveinagjá var vegna kvikuhlaups ofarlega í jarðskorpunni, úr kvikuþrónni undir Öskju og til norðurs, alveg eins og Krafla gerði hvað eftir annað frá 1975 til 1984.  Sennilega hefur landspildan yfir kvikuþrónni í Öskju þá sigið til að mynda Öskjuvatn.  Hinn 20. mars 1875 hófst mikið sprengigos í Öskju, sem dreifði ösku og vikri yfir allt Austurland.  Askan barst einnig til Noregs og Svíþjóðar.  Öskufallið um vorið hafði mikil áhrif á beitarland á Austurlandi, bæir fóru í eyði og gosið ýtti þannig undir flutning vesturfara til Norður Ameríku.

Öskjuvatn er yngsta caldera eða askja á Jörðu og er því mjög merkilegt fyrirbæri fyrir vísindin. Hún er lítil askja inni í stórri öskju.  Við vitum dálítið um gang mála í Öskju og myndun sigdældarinnar sem nú inniheldur Öskjuvatn. Myndin sem fylgir er línurit um myndun Öskjuvatns, byggt á ýmsum kortum og teikningum ferðamanna sem Ólafur Jónsson tók saman.  Myndin er úr nýútkominni bók minni Eldur Niðri (2011).  Lóðrétti kvarðinn er flatarmál nýju öskjunnar, í ferkílómetrum.  Á myndinni kemur fram að sigdældin myndaðist ekki í einum hvelli, heldur hefur hún myndast á nokkrum mánuðum.  Sigið hefur sennilega verið að mestu búið árið 1880, eða innan fimm ára frá gosi. 

Varðandi umræður um það, hvort Öskjuvatn sé að hitna, þá er vert að hafa það í hug að skjálftavirkni hefur verið fremur lítil á svæðinu enn sem komið er.  En næsta blogg mitt fjallar um skjálftana.


Er Öskjuvatn að hitna?

Dýptarkort af ÖskjuvatniÞað vekur athygli í fjölmiðlum, að nú er Öskjuvatn íslaust. Vatnið er um 4,4 km á breidd og um 220 m djúpt, en það myndaðist við mikið ketilsig í kjölfar Öskjugossins árið 1875. Öskjuvatn var mælt af Sigurjóni Rist og félögum árið 1975, en Jón Ólafsson efnafræðingur birti merka grein um eðli og efni vatnsins árið 1980.  Svörtu púnktarnir á kortinu sýna mælistöðvar hans. Kort Sigurjóns af vatnsbotninum er hér til hliðar. Volgrur á botni og við ströndina vestan og suðvestan vatnsins mældust allt að tíu stig og yfirborðshiti vatnsins um 7 stig árið 1980. Á eða við vatnsbakkan eru víða volgrur með allt að 84 stiga hita. Það er því ljóst að vatnið hefur lengi verið óvenju heitt og að jarðhiti er töluverður. Guðmundur Sigvaldason benti á 1964 að sum svæði væru íslaus á vatninu yfir veturinn, en að öðru leyti kortir upplýsingar um ísalög á þessu afskekkta vatni. Það kemur því ekkert á óvart að vatnið sé íslaust nú í byrjun apríl. Nú verður fróðlegt að sjá hvort mælingar sýni hærri hita en árið 1980, eða hvort það er mælikvarði um hlýnandi veðurfar að Öskuvatn er nú laust við ísinn snemma vors. En svarið við spurningunni hér fyrir ofan: Er Öskuvatn að hitna?  er þá þessi: Það hefur alltaf verið heitt frá upphafi.Öskjuvatn

Ef Jörðin væri Hnöttótt

Jörðin okkar er ekki alveg hnöttött. Þvermál jarðar á milli pólanna er 12713,5 km, en um miðbaug er þvermálið töluvert meira, eða 12756,1 km. Munurinn á þvermálinu er því 42,6 kílómetrar. Þetta er reyndar aðeins 0,3%, en munurinn hefur samt sem áður mjög mikla þýðingu fyrir jarðvísindin og allt lífríki á jörðu. Jörðin er því alls ekki alveg hnöttótt, og það er töluverð bunga við miðbaug. Þversnið af jörðu, frá norðri til suðurs, er því ekki hringur heldur sporbaugur.  mapÁstæðan fyrir því að jörðin er flatari til pólanna og „feitari‟ um miðbaug er möndulsnúningurinn. Jörðin snýst einn hring á sólarhring, og hraðinn á snúningnum er um 1670 km á klst. við miðbaug, en hér norðan til á jörðu er snúningshraðinn minni, eða um 950 km á klukkustund. Það er snúningurinn og tog tunglsins sem veldur bylgjunni á jörðinni umhverfis miðbaug. Orkan sem fer í tog tunglsins og flóðkraft tunglsins veldur því að möndulsnúningur jarðar hægir á sér og einnig að tunglið færist fjær jörðu um 4 cm á ári. Þótt jörðin sé stöðugt að hægja á sér, þá er hér engin hætta á ferðum á næstunni. Það mun taka milljarða ára að stoppa möndulsnúninginn með sama áframhaldi. En samt sem áður er fróðlegt að velta því fyrir sér hvernig heimur okkar mundi líta út ef (þegar) jörðin hætti að snúast. Myndin er eftir Witold Fraczek og sýnir kort af jörðinni eftir að hún hættir að snúast og þegar jarðskorpan og hafið er búið að ná jafnvægi aftur. Þá hefur miðflóttaafl eða miðsóknarkraftur ekki lengur áhrif á lögun jarðar, og smátt og smátt breytist form hennar í alveg hnöttótta kúlu. Þar með breytist þyngdarafl jarðarinnar. Hafið gjörbreytist, streymir til pólanna og flæðir inn á landssvæði á norður og suðurhveli. Umhverfis allan miðbaug myndast samfellt meginland, sem nefna má Hringland. En ef jörðin hættir að snúast, þá er önnur og enn alvarlegri afleiðing sem kemur í ljós: önnur hlið jarðar snýr að sólu í hálft ár, en á meðan er hin hliðin er í myrkri. Lengd dagsins verður sem sagt hálft ár. Á hliðinni sem snýr að sólu verður hitinn óbærilegur, en á myrkvuðu hliðinni er eilífur fimbulkuldi. Slíkar vangaveltur um framtíð jarðar eru ekki alveg út í hött, en hafa rök við að styðjast í vísindunum. Mælingar sýna að snúningur jarðar er að hægja á sér. Það er þess vegna sem við bætum við einni sekúndu við árið örðu hvoru, svokallaðri hlaupsekúndu. Fyrir 400 milljón árum snérist jörðinn fjörutíu sinnum oftar á möndulásnum á meðan hún fór eina hringferð umhverfis sólu. Þá voru sem sagt um 400 dagar í árinu. Dögum í árinu fækkar á meðan möndulsnúningurinn hægir á sér, þar til allt stoppar …. eftir nokkra milljarða ára.

Silfurberg -- sólarsteinn?

IcelandSparÞegar ég var að alast upp, þá man ég eftir þvi að það var stór og vænn kristall af tæru silfurbergi í stofuglugganum á mörgum heimilum. Í hinum stofuglugganum var oft stytta af rjúpu eftir Guðmund frá Miðdal, sem fullkomnun af íslenskri gluggalist. Silfurberg er merkilegur steinn, enda ber þessi kristall nafn Íslands á alþjóðamáli vísindanna og heitir þar Iceland spar. Nú má vera, að silfurberg hafi verið enn merkilegra á söguöld en nokkurn hefur grunað og er það tengt siglingafræðinni. Leiðarsteinn eða seguljárn var þekktur á þrettándu öld, samkvæmt Hauksbók, sem er rituð um 1300. Seguljárn áttavitans var því þekkt á söguöld um 1300 en óþekkt á landnámsöld. Hverju beittu landnámsmenn til að finna áttir á leið sinni yfir Atlantshaf þegar ekki naut sólar? Í fornbókmenntum er nokkrum sinnum getið um sólarstein í sambandi við siglingar. Þekktast er tilfellið í Ólafs sögu helga, en einnig er getið um sólarstein í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar og í Biskupasögum. Árið 1956 birti Kristján Eldjárn grein í Tímanum um sólarstein. Hann benti á að í máldögum kirknanna í Saurbæ í Eyjafirði, Haukadal, Hofi í Öræfum, Reykholti, Hrafngili og Reynistaðarklaustri, að þær ættu sólarstein og hefur hann greinilega verið dýrmætur kirkjugripur. Elzti máldaginn sem fjallar um sólarstein er frá 1313, en hinn ymgsti frá 1408. Ekki er ljóst hvernig eða hvers vegna sólarsteinn varð kirkjugripur á Íslandi á miðöldum, en Kristján Eldjárn telur að sólarsteinn hafi verið brennigler, nýtt til þess að safna sólargeislum og kveikja þannig eld. Í Ólafs sögu helga er þess getið hins vegar að með sólarsteini væri hægt að finna sólina þótt himinn væri hulinn skýjum. Sólin er auðvitað besti áttavitinn, en hvað gerir maður ef himinn er hulinn miklu skýjaþykkni? Árið 1967 stakk danski fornleifafræðingurinn Thorkild Ramskou upp á að sólarsteinn víkinga hefði verið kristall sem skautar sólarljós.  F1.mediumLjós frá skýjuðum himni er skautað („pólaríserað“) og skautunin er breytileg eftir því hve nærri sólu er horft. Skautun ljóssins getur því gefið upplýsingar um hvar sólin er á bak við skýin. Er hægt að greina hvar á himni sólin er bak við skýin með því að horfa í gegnum sólarstein? Margar tegundir kristalla skauta ljós, og þar á meðal er kordíerít, sem er nokkuð algengt á Norðurlöndunum, einnig feldspat og svo silfurberg. Nýlega birtu frakkinn Guy Ropars og félagar hans grein í riti breska Vísindafélagsins, þar sem þeir fjalla um rannsókn á silfurbergi og notkun þess sem sólarsteinn. Þeir sýna framá að með silfurbergi er hægt að ákvarða átt til sólarinnar þegar skýjað er, og að skekkjan er um eða innan við fimm gráður. Nú hefur merkilegur fundur í skipsflaki frá sextándu öld aftur vakið umræðu á silfurbergi og siglingalistinni. Það gerðist þegar fallegur silfubergskristall fannst í flaki frá bresku skipi við Alderney, sem er nyrsta eyjan í Ermasundi.  alderneySkipið mun hafa sokkið hér árið 1592, og er talið að silfurbergið hafi verið notað sem sólarsteinn. Skipið er frá dögum Elísabetar I drottningar, og var vel vopnað með stórum fallbyssum. En fallbyssur orsaka segulskekkju á áttavitum sem er allt að 90 gráður, og er talið að sólarsteinn hafi verið mikilvægur til siglinga á skipum vopnuðum fallbyssum, þar sem áttavitinn var gagnlaus. Sólarsteinninn frá Alderney er á myndinni hér til hliðar. Silfurbergsnáman að Helgustöðum í Reyðarfirði er frægasti fundarstaður silfurbergs á Íslandi, en einnig hefur silfurberg verið unnið í Hoffellslandi í Hornafirði. Silfurberg er afbrigði af kalkspati, og er algent í gömlum blágrýtislögum á Íslandi þar sem jarðhiti hefur myndað kristallana sem útfellingar úr heitu vatni. Silfurberg er einnig algengt í öðrum löndum og ef þetta er sólarsteinnin frægi, þá var hann fáanlegur víða í Evrópu.

Ný Eyja í Rauðahafinu

NASAÞað er ekki á hverjum degi að ný eyja myndast á Jörðu. Einn þekktasti atburður á tuttugustu öldinni var fæðing Surtseyjar árið 1963, og var eldgosið í hafinu undan Vestmannaeyjum mikil lyftistöng fyrir vísindin á margvíslegan hátt. Ný eyja hefur nú komið í ljós í Rauðahafinu, í kjölfar á eldgosi sem hófst um miðjan desember 2011. Fyrsta myndin er frá gervihnetti NASA og sýnir gosmökkinn yfir nýju eynni. Það sama gerðist hér undan ströndum Yemen og við Vestmannaeyjar: það voru sjómenn sem uppgötvuðu gosið. Nú er eyjan orðin um 530 metrar á breidd og 710 metrar á lengd, og heldur áfram að stækka vegna stöðugra sprenginga, sem hlaða upp ösku umhverfis gíginn. Einnig hefur basalthraun runnið frá gígnum. Þessi tegund af spregigosi er nefnd surtseyjan á máli vísindanna, til heiðurs Surtseyjar, þar sem þetta fyrirbæri var fyrst kannað. Önnur mynd sýnir sprengivirknina og gosmökkinn.  surtseyjanHvers vegna er eldgos í Rauðahafinu? Undir hafinu eru um 2000 kílómetra löng flekamót milli Afríkuflekans fyrir vestan og Arabíuflekans í austri. Flekarnir gliðna sundur á um 20 millimetra hraða á ári, eða svipað og hreyfing flekanna undir íslandi. En hreyfingin er ekki eingöngu gliðnun, heldur flóknari, eins og kortið sýnir. redsea-plates-usgs-285Arabíuflekinn mjakast til norður en Afríkuflekinn til vesturs. Fyrir jarðvísindin er Rauðahafið besta dæmið um það, hvernig meginlandsskorpa rifnar og gliðnar, og úthaf myndast. Það er því gliðnun og samfellt gosbelti eftir botni Rauðahafs endilöngum, en beltið kemur upp á yfirborð hafsins aðeins í suður hlutanum, þar sem það myndar Jebel Zubair eyjar. Nýja eyjan sem kom í ljós í desember 2011 liggur á milli Haycock og Rugged eyja, en í suðri er Saddle eyja, sem gaus á nítjándu öldinni. Fjórða myndin er kort af eyjaklasanum. Gosbelti Rauðahafsins er nátengt eldvirkni í vestur hluta Arabíu og alla leið til Sínaí skaga.  Ég hef bloggað um þau eldfjöll áður hér http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/991740/ZubMap

Uppruni Lofthjúps Jarðar

HadesHades er hið forngríska goð undirheimanna og ríki Hadesar var helvíti. Þannig var Jörðin í upphafi: glóandi heitur bolti, sem var umlukinn miklum hafsjó af bráðinni bergkviku. Hadean er elsta tímabil jarðsögunnar, og nær það yfir tímann frá myndun jarðar fyrir um 4,568 milljörðum ára og þar til fyrir um 3,85 milljörðum ára, þegar fyrsta jarðskorpan, sem hefur varðveist, myndast. Tímabilið frá 3,85 til 2,5 milljörðum ára nefnist Archean eða Upphafsöld. Elsta bergið frá þessum tíma finnst á Grænlandi, Kanada og í Ástralíu. En þótt við höfum ekki berg frá Hadean tíma, þá höfum við samt litlar steindir eða kristalla frá Hades, sem finnast í yngra bergi. 424px-Zircon_microscopeÞetta eru steindir af zirkon, og nú benda rannsóknir til að ef til vill hafi Hades kólnað fyrr og hraðar en áður var haldið. Þessi kristallategund hefur efnasamsetninguna ZrSiO4, og zirkon er nokkuð algengt í íslensku líparíti. Elstu zirkon kristallarnir sem finnast til dæmis í Ástralíu hafa verið aldursgreindir og eru 4,404 milljarðar ára. Það hefur lengi verið deilt um hvenær súrefni hafi orðið ríkjandi þáttur í lofthjúp jarðar. Lengi ríkti sú skoðun að forni lofthjúpurinn hefði verið mjög súrefnissnauður og því ekki beint lífvænlegur. Nú benda rannsóknir á zirkon kristöllum hins vegar í aðra átt. Inni í kristöllunum finnast litlir dropar af kviku, sem nú er gler, en gefur vísbendingu um efnasamsetningu kviku á þessum tíma. Niðurstöðurnar sýna, að súrefnisástand kvikunnar á Hades tíma var svipað og í kviku í dag. Það bendir til að eftir aðeins 150 milljon ar frá myndun Jarðar hafi verið kominn lofthjúpur ekki mjög frábrugðinn þeim sem nú er á Jörðu. AÐEINS 150 milljón ár kann að virðast nokkuð langur tími, en nú lítur málið þannig út, að ótrúlega hröð þróun á jarðskorpunni og lofthjúp hafi átt sér stað á þessu tímabili, og þær aðstæður myndast hér, sem voru einkar hagstæðar fyrir myndun lífs.

Dýpi skjálfta undir Kötlu

DýpiIngþór Friðriksson spyr hvort það hafi orðið breyting á dýpi jarðskjálfta undir Kötlu. Myndin sem fylgir er úr Skjálftavefsjá Veðurstofunnar, og nær yfir tímabilið frá í júní til desember 2011.  Reyndar vantar alla minni skjálfta á myndina, en það breytir sennilega engu. Hún sýnir, að langflestir stærri skjálftarnir eru grynnra en 5,5 km í jarðskorpunni. Ekki get ég séð að það sé nein breyting á dýpinu með tímanum. 

Koltvíoxíð straumar á Mars

figure_S1Mars er töluvert minni en jörðin og nokkuð fjær sólu. Enda er kalt á Mars, og meðal hiti á yfirborði í kringum −55 °C. Á heimskautunum fer kuldinn alla leið niður í −143 °C. En samt sem áður er fjöldi af merkjum á yfirborði Mars um að einhvers konar vökvi hafi runnið hér, myndað gil, gljúfur og margskonar farvegi. Fyrsta mynd sýnir slíkt landslag á Mars. Takið eftir mælikvarðanum. Nú getum við vel séð öll smáatriði á plánetunni. Margir töldu að hér væru merki um að vatn hefði runnið á yfirborði rauðu plánetunnar áður fyrr, en síðan hefði allt frosið. Nýjustu upplýsingar eins og þessi mynd benda til þess, hins vegar, að enn sé rof í gangi á Mars, og jafnvel á heimskautasvæðunum, þar sem fimbulkuldi ríkir. Vísindaritið Physics Today telur að ein af sjö merkustu uppgötvunum ársins 2011 sé fundur af miklu magni af frosnu koltvíoxíði í jörðu á Mars. Getur það verið, að farvegirnir á Mars séu ekki eftir vatn, heldur strauma af koltvíoxíði? co2 phase diagramVið skulum líta á seinni myndina, sem sýnir fasaskifti í koltvíoxíði, þegar breytingar á hita og þrýstingi eiga sér stað. Við erum vön því að fast efni, eins og ís, breytist í vökva við hitun. En eins og myndin sýnir, þá breytist frosið koltvíoxíð í gas undir kringumstæðum eins og þeim, sem nú ríkja á Mars -- sjá rauðu örina á myndinni. Frosið koltvíoxíð breytist beint í gas við lágan þrýsting (minni en 5 loftþyngdir - atm.), þegar hitastig er undir mínus 56 stigum á Celsíus. Ein stórkostleg hugmynd sem nú er vinsæl er sú, að fasaskiftin á koltvíoxíði breyti efninu beint úr frosnu ástandi og yfir í gas á Mars. Við það getur gasið myndað strauma á yfirborði, sem orsaka rof og flytja með sér sand og grjót. Það er rétt að minnast þess, að koltvíoxíð gas er fremur þungt. Á Jörðu er það til dæmis töluvert eðlisþyngra en andrúmsloftið okkar. Það er erfitt að hugsa sér hvernig slíkir straumar líta út. Sennilega eru þeir líkastir gjóskuflóðum á Jörðu, en munurinn er sá, að á Mars eru straumarnir ískaldir.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband