Hefur Atlantshaf áhrif á Kyrrahafið?

Walkwer cellSíðan á aldamótum árið 2000 hafa óvenu sterkir vindar blásið frá austri til vesturs yfir Kyrrahafið eftir miðbaug (staðvindur eða “trade winds”).   Um árið 2010 var vindstyrkurinn orðinn hærri en nokkru sinni fyrr. Áhrifin voru fyrst og fremst þau að það hlóðst upp mikið magn af heitum sjó umhverfis Filipseyjar, Ástralíu og Indónesíu, eins og Matthew England og félagar hafa sýnt.  Þegar sjórinn hitnaði, þá óx uppgufun, selta hafsins hækkaði.  Saltur sjórinn var þyngri og sökk í djúpið.  Með því barst mikill hiti niður í dýpri lög hafsins.  Þessir vindar eru hluti af hringrásarkerfi loftsins, sem nefnist Walker cell, eins og myndin sýnir.  Hún er þversnið af Kyrrahafinu, frá vestri til austurs. Vindarnir valda ýmsum öðrum breytingum, svo sem mikilli úrkomu í vestri, til dæmis í Indónesíu, en miklum þurrkum í austri, til dæmis í Kalíforníu.  En ef til vill er mikilvægustu áhrifin þau, að mikill hiti flyst nú niður í hafdjúpið og tiltölulega kaldur sjór kemur upp á yfirborðið í austur hluta Kyrrahafs (dökkblár djúpsjór á myndinni).   Það kann að skýra hversvegna hafið hitnar nú yfirleitt hraðar en lofthúpur jarðar.  Önnur mynd, eftir Matthew England og félaga,  sýnir breytingar á styrk staðvinds Kyrrahafsins frá um 1910 til um 2010 og kemur greinilega fram hvað hann hefur breyst síðustu 15 árin.  Takið eftir að vegna þess hvernig gögnin eru set upp, þá er frávikið frá langtíma meðaltalinu síðustu 15 árin reyndar sterkari vindur, þótt línan stefni niður á við á myndinni. 

StaðvindarEn hvers vegna er staðvindurinn yfir Kyrrahafinu svona sterkur og hvað veldur sveiflum hans?  Loftslagsfræðingar og haffræðingar stinga nú uppá, að hlýnun Atlantshafsins undanfarna áratugi hafi orsakað fjöldan allan af breytingum, einnig í Kyrrahafi.  Þar á meðal breytingar staðvinda Kyrrahafs, breytingar á sjávarmáli og fleira. Grein þeirra Shayne McGregor og félaga kom út nýlega í Nature, einu virtasta vísindariti jarðar og hefur valdið miklum deilum.  Þeir telja að orsökina sé að finna í Atlantshafinu.  Þeir benda á að Atlantshafið hefur hitnað mikið í meir en áratug og það hefur valdið lágþrýstingi og uppstreymi í lofthjúpnum yfir.  Þetta loft berst síðan til vesturs,  yfir austur hluta Kyrrahafsins, þar sem það sígur niður og veldur háþrýstingskerfi.  Þessi tengsl Atlantshafs of Kyrrahafs styrkja þannig staðvinda Kyrrahafsins að þeirra sögn.  Þessi hugmynd er byggð á miklum gögnum og nokkuð góðum rökum, en hún þýkir mjög róttæk.  Getur það verið að loftslag í Atlantshafi geti haft svo mikil áhrif í Kyrrahafi?  Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Þegar staðvindurinn hægir á sér, þá mun fyrirbærið sem kallað er El Nino myndast um miðbaug Kyrrahafs.  Það er þegar hiti yfirborðssjávar í Kyrrahafinu hækkar verulega.  El Nino hefur ótrúlega víðtæk áhrif á fiskveiðar, landbúnað, veðurfar í Kalíforníu og víðar.


Barst Jaspis frá Íslandi til Grænlands og Vínlands?

jaspis SnæfellsnesGengu allir fornmenn á Íslandi með jaspis í vasanum eða pyngjunni til að kveikja með eld?  Steinninn jaspis er fremur algengur á Íslandi.  Hann myndast þegar jarðhitavatn berst upp sprungur í jarðskorpunni og ber með sér mikið magn af kísil (SiO2) í upplausn í vatninu.  Við vissar aðstæður fellur kísillinn út úr heita vatninu og myndar jaspis í sprungum og holum í berginu.  Jaspis er nær hreinn kísill, en með dálitlu af þrígildu járni, sem gefur því rauða, brúnleita eða græna litinn.  Jaspis er mjög þétt efni, sem brotnar næstum eins og gler og er með gljáandi og fallega brotfleti.  Hann er mjög harður og mun jaspis hafa hörkuna 7 á Mohs skalanum.   Jaspis er alls ekki gegnsær.  jaspisEf slíkur steinn er gegnsær, þ.e.a.s. hleypir einhverju ljósi í gegn, þá er hann nefndur agat, sem hefur nokkuð sömu efnasamsetningu og jaspis.   Það er margt sem bendir til að jaspis hafi verið notaður áður fyrr til að kveikja eld  hér á landi.  Sennilega er það jaspis sem átt er við, þegar tinna er nefnd.  Til dæmis skrifa Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson (1772) um jaspis í Ferðabókinni og segja hann líkjast  „tinnu að hörku, og eins hrökkva auðveldlega neistar úr honum.“  Jaspis var sleginn með eldjárninu til að mynda neista og kveikja eld.  Árið 2000 kom út mikil bók í Bandaríkjunum (Vikings, the North Atlantic Saga), sem fjallaði um víkingana og ferðir þeirra  til Grænlands og Vínlands. Þar kom Kevin Smith fram með upplýsingar um jaspis mola, sem höfðu fundist í víkingabúðum í L´Anse aux Meadows á Nýfundnalandi í Kanada.  Samkvæmt efnagreiningu taldi hann að fimm þeirra væru frá Íslandi, en fjórir frá bergi á Nýfundnalandi.  Því miður hafa gögnin um þessa efnagreiningu aldrei verið birt, svo við hin getum ekki metið hvaða rök Smith og félagar hafa fyrir því að sumir jaspis steinarnir í L´Anse aux Meadows séu íslenskir.  En það er vissulega spennandi að velta því fyrir sér hvort norrænir menn hafi flutt með sér í vasanum jaspis frá Íslandi, til Grænlands og svo síðar til Vínlands.  En leyfið okkur lesendum að sjá gögnin sem eru á bak við slíkar staðhæfingar!  Árið 2004 fannst fornt eldstæði í Surtshelli.  Hellirinn er í hrauni, sem rann sennilega á tíundu öld. Við eldstóna fundust brot af jaspisflögum, sem er sennilega vitneskja um að jaspis hafi verið notaður við að kveikja eld í stónni.   jaspis KanadaÁrið 2008 fundust fleiri jaspis steinar skammt frá rústum norrænna manna í  L’Anse aux Meadows.  Þeir reyndust vera frá bergi í Notre Dame Bay, þar skammt frá.  Seinni myndin sýnir þann jaspis stein.  Jaspis er nokkuð algengur í elstu bergmyndunum Íslands, eða blágrýtismynduninni frá Tertíer tíma. Jaspisinn myndar holufyllingar í gömlum basalt hraunlögum og finnst oft á Vesturlandi og víðar.  Sumir jaspis steinar geta verið allstórir eða allt að 50 kg, eins og sjá má til dæmis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. 


Íslenska landgrunnið kortlagt af Olex

KolluállTogarar eru útbúnir mjög góðum tækjum, sem ákvarða staðsetningu og botnlag hafsins.  Skipstjórar varðveita slík gögn, sem eru að sjálfsögðu mikilvæg til að kanna miðin og finna þau aftur síðar.  Undanfarin ár hafa margir skipstjórar haft það fyrir reglu, að senda inn slík gögn til norksa fyrirtækisins Olex.  Þar er gögnum safnað til að gera nákvæm kort af hafsbotninum.  Kortin hafa staðsetningu, sem er betri en tíu metrar og hæðartölur, sem eru á milli 0,1 til 1 meter.  Þannig hefur nú verið safnað gögnum af nær öllu (80%)  íslenska landgrunninu.  Árið 2006 kom út ritgerð eftir Matteo Spagnolo og  Chris Clark um íslenska landgrunnið.  Hana má finna hér:  http://www.journalofmaps.com/article_depository/europe/spagnolo_glaciallandforms_1222426647.pdf

Þeir túlka Olex kortið á þessu svæði og sýna fram á að  þar ríkja áhrif jökla ísaldarinnar í myndun botnsins, ásamt myndunum sem tengjast eldvirkni og skorpuhreyfingum hafsbotnsins á gosbeltum neðansjávar. Á ísöld þakti jökulskjöldur allt landgrunnið og jökullinn var botnfastur. Sönnun þess eru jökulgarðar eða endamórenur, sem finnast úti á brún landgrunnsins, til dæmis jökulgarðurinn á Látragrunni út af Breiðafirði, sem ég hef áður fjallað um hér:  http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1400703/

Á þessum Olex kortum kemur margt fróðlegt fram, til dæmis Djúpáll út af Ísafjarðardjúpi. Hann er U-laga í þversniði og um 150 m dýpri en hafsbotninn umhverfis.  Í mynni Djúpáls hefur hlaðist upp mikil keila af seti, þar sem állinn fer fram af landgrunnisbrúninni.  Einnig er myndin af Jökuldjúpi í mynni Faxaflóa merkileg og fróðlegt að sjá hvað landslag á þessu svæði er mikilfenglegt undir hafinu.  Myndin sem fylgir hér með er af Kolluál, norðvestur af Snæfellsnesi. Það er áberandi hvað botninn er skafinn hér og hvað jarðlögin koma greinilega fram sem línur með norðaustur stefnu.  Þetta eru að öllum líkindum forn blágrýtislög, eins og bergið í grunni Snæfellsness og eyjum Breiðafjarðar.  Vestast á myndinni, um 20 km norðvestur af Jökli, er svæði með allt aðra og óreglulega áferð botnsins.  Er það  einfaldlega framhald blágrýtismyndunarinnar eða er það ef til vill ungt gosberg, tengt gosbelti Snæfellsness?  LGM kortEf til vill finna sjómenn “hraun” botn hér?  Rauða línan á kortinu sýnir staðsetningu þversniðs, sem sýnt er efst á myndinni.  Takið eftir hvað botninn er úfinn. Alun Hubbard og félagar (Quaternary Science Reviews 2006) hafa notfært sér upplýsingar um útbreiðslu jökulsins á hafsbotni þegar ísöldin náði hámarki og gert líkan af útbreiðslu jökulskjöldsins yfir og umhverfis Ísland.  Það er sýnt á seinni myndinni, í líkani sem á við Íslandssvæðið fyrir um 21 þúsund árum.  Á myndinni eru sýnd ytri mörk jökulsins á landgrunninu og einnig útlínur Íslands við hæð, sem samsvarar sjávarmáli þá, samkvæmt líkani þeirra.  Það gefur því góða mynd af því hvað jarðskorpan seig mikið undir fargi íssins.  Hvítir blettir á Tröllaskaga og Flateyjarskaga sýna svæði eða jökulsker, sem hugsanlega stóðu uppúr jöklinum.


Útgeislun sólar er nokkuð stöðug

Útgeislun og sólblettirÚtgeislun sólar er samt ekki alveg stöðug.  Getur þessi óstöðugleiki skift máli í hnattrænni hlýnun? Einn mælikvarði um breytileikann í útgeislun er fjöldi sólbletta, sem sjást á yfirborði sólarinnar en fjöldi þeirra breytist nokkuð reglulega á ellefu ára fresti.  Það var víst Galileo Galilei sem byrjaði að telja sólbletti með nýja stjörnukíki sínum  árið 1610 en síðan hafa þeir verið taldir reglulega. Sólblettirnir geta verið allt að 200 á mánuði. Eins og myndin sýnir, þá er góð fylgni milli sólbletta og útgeislunar sólarinnar: fleiri blettir = meiri útgeislun.  Bláa línuritið er fjöldi sólbletta, en rauða línuritið fyrir ofan eru breytingar á útgeislun sólar.  Tímabilið sem er sýnt er frá 1978 til 2004.  Munurinn í ellefu ára sveiflunni er um 2 W/m2 eða tvö wött á hvern fermeter sem sólin skín á. Við könnumst öll við hitann, sem streymir frá venjulegri ljósaperu, sem er oftast um 40 wött, til samanburðar.  En þessi breytileiki á útgeislun sólar er samt aðeins um 0,1% á því tímabili, sem fylgst hefu verið með sólinni.  Er 0,1% nóg til að hafa áhrif á loftslag?  Við sjáum engar ellefu-ára sveiflur í loftslagi, sem gætu verið af þessum völdum.   Sól á móti hitaEn það eru tímabil í sögunni þar sem sólblettum hefur fækkað eða þeir jafnvel horfið.  Lengsta sólblettalausa tímibilið er nefnt Maunder minimum, frá 1645 til 1715. Það gerðist á kuldatímabilinu, sem við nefnum Litlu Ísöldina, en strax skal bent á að Litla Ísöldin var byrjuð löngu áður en sólblettir hurfu, eða um 1400.   Er einhver fylgni milli hnattrænna hitabreytinga og virkni sólarinnar?  Neðra línuritið fjallar um það.  Árlegt hnattrænt meðaltal á hita (rauða línan) er hér borið saman við útgeislun sólar (bláa línan).  Frá um 1880 til um 1950 virðist útgeislun og hlýnun fara hönd í hönd, en síðustu  hálfa öld hlýnar þrátt fyrir minni útgeislun.  Sérfræðingarnir sem hafa skoðað þetta einna mest telja að breytileiki í útgeislun sólar hafi orsakað aðeins um 11% af hnattrænni hlýnun á tímabilinu frá 1880 til 2006 og  aðeins 1,6% af hlýnuninni frá 1955 til 2005.  Breytingar í sólinni skýra því ekki loftslagsbreytingar, eins og þá hnattrænu hlýnun, sem nú ríkir.


Hafið umhverfis Bretlandseyjar er orðið volgt

Hiti hafs BretlandsBretar hafa til þessa ekki gert mikið af því að synda í sjónum umhverfis Bretlandseyjar. Í staðinn hafa þeir helst sótt í Miðjarðarhafið.  En nú kann þetta að vera að breytast: hafið umhverfis Bretlandseyjar er að hlýna.  Línuritið sýnir árlegt meðaltal fyrir hita í yfirborði hafsins umhverfis Bretlandseyjar, frá 1870 til 2007.  Það er gífurlegt magn af gögnum, sem felst í þessu línuriti, sem nær yfir stórt svæði og allar árstíðir.  Meðaltalið fyrir árin frá 1961 til 1990 var 11,09 oC.  Rauða línan er meðaltal sem eyðir litlum sveiflum og sýnir feril hlýnunarinnar vel.  Síðasti áratugurinn sker sig alveg úr.  Hitinn á sjónum hefur hækkað um 1,6 gráður síðan 1980.   Eins og ég hef oft bent á, þá er hiti hafsins mun mikilvægari en lofthitinn. Aðeins efstu 260 cm af heimshöfunum innihalda jafn mikinn hita og allur lofthjúpurinn!   Þessi mikla hlýnun umhverfis Bretland er auðvitað tengd því að þeir fá stóran skerf af Golfstraumnum.  En hlýnunin er einnig vegna þess hvað grunnt er á þessum slóðum, einkum í Norðursjó.  Hlýnun hafsins hefur einnig mikil áhrif á fiskstofna umhverfis Bretlandseyjar.  Nú er rætt um, að fish-and-chips fari út af matseðlinum hjá Bretum.  Alla vega verður fiskurinn í réttinum ekki þorskur, heldur einhver ömmur tegund, sem þolir betur heitari sjó.  Þorskurinn þolir nokkuð vel að svamla í heitari sjó, en hann vill ekki hrygna, nema sjávarhitinn sé á bilinu 1 til 8 oC samkvæmt mælingum í Norðursjó.   Þess vegna færir hann sig norðar, til okkar og áfram til Grænlands.   Kenneth F. Drinkwater og fleiri fiskifræðingar hafa kannað áhrif hlýnunar á fiskstofnana í Norður Atlantshafi.   Síðastliðin 35 ár hafa 15 af 36 tegundum í Norðursjó flutt sig norðar, og að meðaltali hafa þær flutt sig 300 km norðar á þessum tíma.  Þorskur finnst varla umhverfis Bretland en í hans stað eru komnar nýjar tegundir eins og ljóti fiskurinn sem nefnist John Dory (pétursfiskur).  Hvað vitum við hér um áhrif hnattrænnar hlýnunar á fiskstofna og reyndar allt umhverfi okkar á Íslandi?  Ég held að málið hafi ekki verið mikið rannsakað.  Árið 2006 starfaði ég í vinnuhóp á vegum forsætisráðherra, sem fjallaði um áhrif loftslagsbreytinga.  Höfuð niðurstaða okkar var sú, að rannsóknir á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra væri langmikilvægasta verkefni íslenskra vísinda í dag og náinni framtíð.  Skýrslunni var skilað.  Síðan gerðist ekki neitt í þessu máli og hið opinbera virðist ekki hafa neinar áhyggjur né neinn áhuga á rannsóknum á þessu mikilvæga máli. 


Heiti reiturinn undir Íslandi er yfir 1600oC heitur

Heiti reiturinnÍsland rís upp úr hafinu sem allstórt landsvæði og eitt höfuð einkenni þess er mikil eldvirkni.  Ísland er þá það sem jarðvísindamenn kalla “hotspot” eða heitan reit.  Lengi hefur verið deilt um uppruna og eðli heitra reita, en þeir eru nokkrir á jörðu, þar á meðal Hawaii, Galapagos, Páskaeyja og Yellowstone.  Eru rætur heitu reitanna djúpar, langt niðri í möttlinum, jafnvel á mörkum möttuls og kjarna,  eða eru þetta fremur yfirborðsfyrirbæri?  Deilan meðal jarðvísindamanna um það hefur varið í nær fimmtíu ár.  Nú vitum við tvennt um íslenska heita reitinn , sem skiftir miklu máli:  (1) hann nær meir en 660 km niður í möttul jarðar og sennilega mun dýpra, og (2) hann er um 165 oC heitari en venjulegur möttull umhvefis.  Gögn sem jarðskjálftafræðingar hafa safnað undir Íslandi gera kleift að teikna nýtt þversnið af möttlinum undir Íslandi. Það er Yang Shen, prófessor í University of Rhode Island, sem teiknar.  Hann er með skrifstofu á hæðinni fyrir ofan mína skrifstofu í Rhode Island í Bandaríkjunum.   Þversniðið hans Yang nær niður fyrir 660 km dýpi á myndinni.  Í möttlinum eru greinileg skil, sem koma fram á skjálftabylgjum. Þau neðri eru á  660 km dýpi en hin efri á 410 km dýpi undir yfirborði.  Bogar  á þessum skilum sýna staðsetingu heita reitsins.  Hann er sem sé eins og hallandi strókur í möttlinum undir landinu, en honum virðist halla dálítið til norðurs.  Hann er um 200 km í þvermál í möttlinum.  Tökum eftir, að möttulstrókurinn  er fastur og óbráðinn.  Hann er mjög heitur, en vegna þrýstings í jörðu helst hann óbráðinn þar til hann rís grynnra.  Hann byrjar að bráðna og kvika myndast á línunum sem eru merktar “solidus”.     Hiti möttulsBasalt kvikan, sem gýs á yfirborði, getur veitt okkur upplýsingar um hitann í möttulstróknum undir Íslandi.  Keith Putirka  hefur rannsakað basaltið á Íslandi með þetta í huga og hann kemst að þeirri niðurstöðu, að möttulstrókurinn undir okkur sé yfir 1600 oC heitur.  Hann er þá um 165 oC heitari en “venjulegur” möttull jarðar.  Neðri myndin sýnir samanburð á hitanum á "venjulegum" möttli (til vinstri), möttlinum í heita reitnum undir Hawaií (í miðju) og lengst til hægri möttlinum í heita reitnum undir Íslandi.  Þetta er nú gott og blessað, en vakna þá ekki aðrar spurningar?  Hvers vegna er möttullinn heitari hér undir okkur?   Er það ef til vill vegna þess, að möttulstrókurinn, sem rís undir Íslandi, kemur af mjög miklu dýpi, úr heitari lögum jarðar, og jafnvel frá mörkum möttuls og kjarna jarðar?  Hversvegna er strókurinn hallandi, en ekki lóðrétt súla undir landinu?  Eins og venjulega, þá vekja nýjar upplýsingar nýjar og erfiðari spurningar í jarðfræðinni og reyndar í öllum vísindum.  Það er einmitt málið, sem gerir vísindin og alla fróðleiksleit svo dásamlega spennandi.


Úran námugröftur í nágrenni okkar á Grænlandi

IlimaussaqSést Grænland frá Íslandi? Jón Dúason (1947) taldi að svo sé, en sumir stærðfræðingar eru ekki á sama máli. Stysta vegalengdin milli landanna er aðeins um 280 km, frá fjöllunum við mynni Ísafjarðardjúps (Rytur, Deild, Göltur) og til austurstrandar Grænlands.  Nálægasta austurströndin er Blossevilleströnd, fyrir norðan Kangerlussuaq. Þetta er mikið hálendi, en þar fyrir ofan er Gunnbjarnarfjall, sem er hæsta fjall Grænlands, hvorki meira né minna en 3694 m á hæð.  Gnípurnar við Ísafjarðardjúp eru um 500 m á hæð,  svo ef maður tyllir sér á tá þar í björtu veðri, þá má vel vera að sjáist milli landanna yfir Grænlandssund.  Á landnámsöld rak Gunnbjörn af leið vestan Íslands.  Langt í vestri sá hann það sem hann taldi eyjar í fjarska, er hann nefndi Gunnbjarnarsker og telja má að hér hafi hann séð hæstu toppa austurstrandar Grænlands.  Sennilega varð sögnin um Gunnbjarnarsker til þess, að Eiríkur rauði leitaði lands langt vestan Íslands um 982.  Þótt stutt sé á landakortinu milli Íslands of Grænlands, þá virðist Grænland vera alveg hinu megin á hnettinum í huga flestra íslendinga.  Samskifti þjóðanna eru undarlega lítil, þótt grænlendingar séu okkar næstu nágrannar.  Það eru ýmsar ástæður fyrir því að við ættum að fylgjast betur með þessum nágrönnum okkar.  Ein þeirra er fyrirhugaður námugröftur grænlendinga á úran og öðrum geislavirkum efnum í suður Grænlandi.  Í október árið 2013 kom Hammond forsætisráðherra Grænlands í gegnum þingið nýjum lögum, sem veita heimilt að hefja námugröft á geislavirkum efnum, þar á meðal úran.  tugtupite-lujavrite.jpgAðal ástæðan fyrir þessum nýju lögum er þó ekki úran, heldur fylgiefnin, hin svokölluðu “rare earth elements” lanthanum, yttrium, europium, samarum og þrettán önnur), en þau eru ómissandi í rafeindaiðnaðinum. Kínverjar eru mjög ákafir í að grafa þessi efni úr jörðu á Grænlandi.   En ráða grænlendingar við geislavirk efni?  Getur það valdið mengun, sem jafnvel gæti haft áhrif á Íslandi?  Það er námufyrirtæki í Ástralíu, sem rekur á eftir: Greenland Minerals and Energy Limited.  Þeir vilja hefja úran námugröft í Kvanefjeld, en þar fá þeir einnig þóríum, rare earths of flúoríð.  Bergið er fagurt en hættulegt vegna geislavirkni.  Kvanefjeld er um 1200 km frá Íslandi. Þar er stórt berginnskot af sjaldgæfu tegundinni lujavrite, nálægt bænum Narssaq.  Í Kvanefjeld er úran aðallega í kristöllum af tegundinni steenstrupine, sem inniheldur um 0,5% af úran og mikið magn af þóríum.  En  námugröftur á þessu svæði veldur því að mikið magn af radon gasi losnar út í andrúmsloftið.  Radon er geislavirkt gas og hættulegt á stóru svæði umhverfis.  Hollendingurinn Jan Willem Storm van Leeuwen er einn að þeim fáu, sem hafa fjallað að viti um þær hættur, sem stafa af slíkum úran námum á Grænlandi.  Ég hef ekki enn séð minnst einu orði á grænlensku úrannámurnar í íslenskum fjölmiðlum.  Eigum við eftir að vakna upp við vondan draum einn daginn, þegar það er orðið of seint? 


Rosetta er komin til halastjörnunnar Comet 67P

Comet 67PEftir tíu ára ferðalag úti í geimnum, þá er geimfarið Rosetta loks komið til halastörnunnar Comet 67P.  Nú er geimfarið í aðeins um 130 km fjarlægð frá halastjörnunni og sendir ótrúlegar myndir heim til baka, til Geimferðastofnunar Evrópu.  Hér með fylgir ein slík mynd.  Þetta er stórmerkilegt augnablik í geimrannsóknum Evrópu.  Halastjarnan er um 4 km í þvermál og ótrúlega óregluleg í laginu.  Reyndar er hún eins og tvær kartöflur, sem hafa vaxið saman.  Maður bíður bara eftir því að þær detti í sundur og hver fari sína leið.  Halastjarnan er á hraða um  135 þúsund km á klst. En samt sem áður mun Rosetta senda 100 kg rannsóknatæki niður á yfirborðið til að kanna halastjörnuna nánar.  Menn halda að margar halastjörnur séu eins og drullugir snjóboltar, sem eru samansettir af blöndu af ís og grjóti.  Nú mun hið sanna koma í ljós.  Fylgjumst með!


Særými vex á Íshafinu og öldur birtast

SærýmiÞað er nýtt haf að opnast.  Hnattræn hlýnun er að svifta hafíshulunni af Íshafinu.  Ein afleiðing þess er að nú myndast öldur á Íshafinu, þar sem áður var samfelld breiða af hafís.  Ölduhæð er háð vindstyrk og einnig særými, eða fjarlægðinni, sem vindurinn getur blásið yfir hafið.  Nú vex særými með ári hverju á norðurslóðum, vegna þess að hafísinn er að hverfa. Hafsvæði, sem áður voru hulin hafís mikinn hluta ársins, eru nú opið haf og vindurinn nær að koma af stað miklum öldugangi.  Allt í einu er særými orðið eitt til tvö þúsund km og öldur rótast upp, sjólag versnar þar sem áður var kyrr sjór.  Myndin sýnir til dæmis áhrif storms, sem gekk yfir norðurslóðir árið 2012. Rauðu og gulu svæðin sýna háar öldur, allt að 5 metrar.  Hinar nýju siglingaleiðir í norðri, þar á meðal norðan Íslands,  geta verið erfiðar af þeim sökum, einkum á ágúst og september, þegar hafísinn er minnstur og særými er mest.


Loftsteinaárásin á Hadean tíma jarðar

irkon aldurFyrsta tímabil jarðsögunnar nefnis Hadean, frá um 4 til 4,5 milljörðum ára.   Nafnið Hades vísar á guð forn-grikkja, sem réð ríkjum í undirheimum.   Við vitum lítið um þennan tíma á upphafsárum jarðar, vegna þess að mjög lítið af jarðlögum eða svo fornu bergi hafa varðveist.  Reyndar hefur nær ekkert svo gamalt berg varðveist, heldur aðeins litlir kristallar af  gerðinni zikon, sem finnast inni í yngri berglögum.  Fyrsta myndin sýnir aldur á slíkum zirkon kristöllum.  Þeir yngstu eru um 3,8 milljarðar ára en þeir elstu eru um 4,45 milljarður ára gamlir.  Aldur jarðar er talinn 4,54 milljarðar, og þá vantar okkur enn “aðeins” eitt hundrað milljónir ára til að finna berg jafn gamalt og myndunartími jarðar.   Það finnst sennilega aldrei, því unga jörðin varð fyrir árás stórskotaliðs, sem splundraði og umrótaði yfirborði hennar.  Þetta stórskotalið voru loftsteinar, sumir hundruðir km í þvermál.  Það er talið að um 10% af massa jarðarinnar hafi bætst við þegar þessi loftsteinaárás stóð yfir.  Líkanið bendir til að einn eða fleiri risaloftsteinar (stærri en 1000 km í þvermál) hafi rekist á jörðina á þesum tíma og nokkrir (3 til 7 stykki) sem voru um 500 km.   Simone Marchi og félagar hafa rannsakað þetta fyrsta tímabil jarðar og gert líkön af loftsteinaárásinni. Önnur mynd sýnir líkan þeirra af dreifingu loftsteinagíga á jörðu á þessum tíma.  loftsteinagígarVið notum tunglið til að mæla hvað loftsteinaárasin á jörðina var mikil, hver tíðni loftsteina var og hvað þeir voru stórir.  Á tunglinu er engin veðrun og ekkert rof  og loftsteinagígarnir eru vel varðveittir og þar með sagan um tíðni og stærð loftsteina í jarðsögunni. Síðan má færa þessar upplýsingar yfir á jörðina.   Þá kemur í ljós að 60 til 70% af yfirborði jarðar var rótað upp allt niður á 20 km dýpi vegna loftsteinaárekstra. Jörðin var þá að mestu eins og vel plægður garður, þar sem meiri hluta af ytri jarðlögum var rótað og snúið við.   Loftárásinni lauk að mestu fyrir um 3,8 milljörðum ára. Á meðan á henni stóð hefur jörðin verið dauð, sterilizeruð, brennd, glóandi heit, óbyggileg!  Ekkert líf, ekki einu sinni minnstu örverur, hafa getað lifað hér þá í Hades eða  helvíti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband