Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

"Hvað er súr gúll?"

ÞversniðGK spyr um hinn svokallaða súra gúl undir Goðabungu. Fyrir nokkrum árum var mjög mikil skjálftavirkni undir Goðabungu, sem færðist hægt nær yfirborði. Ekkert gos varð, en sumir jarðvísindamenn telja að kvika hafi verið á ferðinni, og að þessi kvika hafi verið með hátt kísilinnihald, hátt SiO2. Sem sagt líparít kvika, eins og oft hefur komið upp í grennd við Kötlu. Ef sú kenning er rétt, þá er gúll eða stór blaðra af þessarri kviku undir Goðabungu. Ef til vill þarf lítið til að hleypa henni af stað í gos. Ef kvikuinnskot eða kvikuhlaup af heitri basalt kviku verður út frá "jólatrénu" undir Eyjafjallajökli, eins og ég hef sýnt á þversniðinu sem fylgir (upprunaleg mynd frá Jarðvísindastofnun), þá er hugsanlegt að gúllinn fari af stað og gos verði. En skjálftarnir undir Eyjafjallajökli eru nú fáir og smáir. Samt er sjálfsagt að taka allt inn í reikninginn.

Skjálftar að læðast í austur?

Skjálftar í austriUndanfarna tvo daga hefur órói á mælum Veðurstofunnar í grennd við Fimmvörðuháls verið jafn en ef til vill í minna lagi. Hins vegar er það athyglisvert að á þessum tíma hafa jarðskjálftar legið mjög grunnt, flestir innan við 2 km dýpi, og þeir hafa verið að læðast austur á bóginn í áttina að Goðabungu. Það má sjá á meðfylgjandi korti Veðurstofunnar. Gæði staðsetninga á skjálftunum eru ágæt, samkvæmt upplýsingum Veðurstofu. Er þetta hugsanlega kvikuinnskot út frá jólatrénu af kvikufleygum sem nú eru undir Eyjafjallajökli, í áttina að Kötlu? Það er einnig mjög athyglisvert að fornir móbergshryggir og goshryggir á Fimmvörðuhálsi liggja í austur-vestur stefnu. Þetta virðist hafa verið yfirgnæfandi stefna á tektóník eða jarðskorpuhreyfingum á svæðinu áður fyrr, og ef til vill einnig nú.

Nýjasta ferðin á Fimmvörðuháls

topgear-logoVegna fjaðrafoks í fjölmiðlum sem orðið hefur út af ferð minni á Fimmvörðuháls í þetta sinn, er ég ekkert viss um að hann Víðir Reynisson hjá Almannavörnum hleypi mér á Hálsinn aftur. Ferðin á Fimmvörðuháls var nokkuð söguleg í þetta sinn, enda var hún gerð í samfloti með teymi frá BBC sjónvarpsstöðinni í Bretlandi, til upptöku á efni fyrir þáttinn Top Gear. Það mun vera eitt vinsælasta efni sem BBC stöðin sendir út, með um 350 miljón manna áhorfun um heim allan (mér leiðist þetta nýyrði áhorfun… léleg bein þýðing á enska orðinu “viewership”). Undirbúning ferðarinnar annaðist Arctic Trucks í Reykjavík, með ágætum árangri og miklum dugnaði. Hér er ferðasagan, í stuttu máli:6. apríl: Ekið var frá Reykjavík rétt fyrir hádegi með sex breytta jeppa, aðallega frá Arctic Trucks. Nóttina áður höfðu starfsmenn Arcitc Trucks unnið að undirbúningi ferðarinnar. Með í ferð var sjónvarpsmaðurinn James May, sem hefur meðal annars ekið íslenskum “breyttum” jeppa til norður pólsins og víðar. Það vakti töluverða undrun mína að sjá rauða bílinn sem James ók. Ofan á hann var komin bárujárnsplata til varnar gjóskufalli, og fjórar svartar slöngur fluttu kælivatn úr stórri tunnu á pallinum til hjólbarðanna, til að kæla þá við akstur á heitu yfirborði. Alls voru um 15 manns í leiðangrinum, og þar á meðal frábært og duglegt teymi frá Hjálparsveit Kópavogs, en þeir mættu okkur á Mýrdalsjökli með tvo kraftmikla snjóbíla og tvo jeppa. Á leiðinni var stoppað hér og þar til videó myndatöku. Loks komumst við að skálanum við suður rætur Mýrdalsjökuls, skammt fyrir ofan Sólheima, þar sem ferðin á jökulinn byrjaði fyrir alvöru. Það varð strax ljóst að ferðin yrði erfið, því stórhríð og hvassvirði skall á strax og kom upp á jökulinn. Alla leið varði blindbylur á jöklinum, og skyggni var varla meir en tveir metrar á milli afturljósanna á bílunum. Ég var í farþegasætinu hjá James May, en beint fyrir framan okkur var jeppi með opinn afturglugga þar sem ein myndavélin var í gangi allan tímann á jöklinum til að mynda okkur. Þegar á leiðarlok kom var myndatökumaðurinn pikkfastur í snjóskafli sem hafði safnast fyrir innum gluggann aftan a bílnum. Þetta var einmitt veðrið sem Top Gear vildi fá: eins erfitt og hugsast getur. Ekið var eftir GPS leiðum, enda svarta myrkur og útsýni ekki neitt. Nokkrum sinnum þurftu snjóbílar Björgunarsveitarinnar að kippa okkur upp úr djúpum snjósköflum. Fyrst var ekið norður á miðjan Mýrdalsjökul, og þar snúið til vesturs, yfir Goðabungu, og á Fimmvörðuháls. Strax sjást gosbjarminn þegar kom á Hálsinn og loks um kl. 4 að morgni var komið í efri skálann (Fimmvörðuskáli, í eign Útivistar), eftir meir en tíu tíma erfiða ferð. Allir voru uppgefnir og farið var stax í bælið. 7. apríl:Ég vaknaði klukkan sjö að morgni eftir um 3 tíma svefn og fór að líta í kringum mig á Fimmvörðuhálsi. Nú var komið hið besta veður, logn og sólskin, en dálítið frost. Þegar farið var út fyrir húsvegg var eldgosið í fullum krafti og enginn tími til frekari hvíldar. Enda er BBC teymið eitt hið duglegasta sem ég hef ferðast með. Ekki var nokkurn mann að sjá hér á fjöllum þar til seinni part dagsins, og við höfðum eldstöðvarnar alveg fyrir okkur. Það var strax ljóst að “gamli gígurinn” á fyrstu sprungunni var útdauður. Engin eldvirkni var í honum, gufa reis frá toppnum. Hann var þakinn græn-gulri skán af brennisteinsútfellingum, sem leit út eins og rjómaskreyting á súkkulaðitertu. Gamli gígurinnAftur á móti var töluverð virkni á nýju sprungunni, sem myndaðist um 200 m vestar að kvöldi hinn 31. marz. Syðri hluti sprungunnar var mest virkur, og tveir gígar, aðskildir þunnu hafti, vörpuðu upp kvikuslettum og gjóskustrókum sem risu allt að 100 metra í loftið. Hraun rann frá gígunum til vesturs og norðvesturs, niður í drögin á Hvannárgili. Hraunið er úfið apalhraun, og víða meir en 10 m á þykkt. Það stafar nokkur hætta af hraunrennslinu, þar sem hraunkanturinn er mjög brattur og stór glóandi heit björg skríða fram af brúninni fyrirvralaust og geta fallið á ferðamenn sem eru að forvitnast fast við hraunbrúnina. Fólk á það til að hlaupa fast að hraunbrúninni, snúa baki í hraunið og láta taka að sér mynd. Það gæti orðið síðasta myndin fyrir einhvern… Allt svæðið í grennd við gígana er orpið svörtum vikri frá gjóskustrókunum. Ég tók eftir því að öðru hvoru rekst maður á hvíta frauðkennda steina í svarta vikrinum. FrauðlingurÖll áferð þeirra minnir helst á sykurmola sem er dálítið laus í sér, en við nánari skoðun kemur í ljós að efnið er frauðkennt hvítt gler, eins og myndin til hliðar sýnir. Þetta eru svokallaðir frauðlingar, og gamlir kunningjar mínir. Þegar Surtsey gaus, þá rakst ég á samskonar frauðlinga í svörtu gjóskunni í Surtsey og hóf rannsókn á þeim. Árið 1968 birti ég eftirfarandi grein í bresku vísindariti: Sigurdsson, H., l968. Petrology of acid xenoliths from Surtsey, Geological Magazine, l05, 5, 440-453. Frauðlyngar og skyldir hnyðlingar eru aðskotasteinar sem hafa rifnað úr jarðlögum þar sem hraunkvikan fer um á leið sinni upp á yfirborðið.  En frauðlingarnir eru hvítir vegna þess að þeir innihalda mjög mikið af kísil, SiO2, um 70%, og ekkert teljandi járn. Þannig eru þeir með svipaða efnasamsetningu og líðparít, eða granófýr. Eru frauðlingarnir á Fimmvörðuhálsi tengdir innskotum af súru bergi undir Eyjafjallajökli?  Eru þeir skyldir kvikunni sem kom upp í gosinu 1821 til 1823? Bergfræði rannsóknir munu skera úr um það.  Á meða ég var að grúska í frauðlingunum í svörtu gjóskunni og minnast Surtseyjargossins, þá var James May kominn með breytta bílinn að hraunkantinum. Ekið á hrauniðHann skellti sér með framendann upp á hraunbrúnina og lét kælivatnið streyma úr fjórum vatnsslöngum á hjólbarðana til að kæla þá. Mikið gufuský myndaðist umhverfis bílinn þegar vatnið streymdi á heitt hraunið, eins og myndin til hliðar sýnir. Hann bakkaði fljótlega aftur, en hitinn var svo mikill að eitt augnablik kviknaði í einum hjólbarðanum, en það ver stax slökkt. Ragnar Axelsson ljósmyndari Morgunblaðsins var nærri, og hann gerði þessa skemmtilegu mynd, sem sýnir gjósandi gíginn og breytta bílinn að rembast við kanntinn. Þar með var upptöku sjónvarpsefnis fyrir Top Gear lokið. Við komum aftur til Reykjavíkur um klukkan þrjú að morgni hinn 8. apríl, eftir erfitt en spennandi ferðalag. Gosið heldur áfram af svipuðum krafti og fyrr. Ekið á hraunEitt er athyglisvert og nýtt í dag, varðandi grunna skjálftavirkni, sem er nú dálítið austar en fyrr. Skjálftar eru nú mjög grunnt undir Fimmvörðuhálsi, og einnig í átt að Goðabungu. Þeir eru allir grynnra en 2 km. Órói á mælum Veðurstofunnar helst svipaður og fyrrri daga. Að lokum þetta varðandi gasið. Ég fjallaði fyrr um magnið af gasi sem berst út í andrúmsloftið frá eldgosinu á Fimmvörðuhálsi  hér.  Nú hefur hópur jarðvísindamanna gert mælingar á gasmagni og gastegundum yfir gígununum, og eru niðurstöður þeirra birtar hér á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Þær eru í stórum dráttum þær sömu og ágizkanir mínar. Til dæmis taldi ég heildarmagnið af brennisteinsgasi SO2 sem losnar frá kvikunni vera um 50 miljón kg fyrstu tvær vikur gossins. Niðurstöður þeirra eru 3000 tonn af SO2 á dag, sem er 42 miljón kg SO2 fyrstu tvær vikurnar.

haraldur i toppgir

er a leid a fimmvorduhals med bbc top gear

Útbreiðsla Hraunsins á Fimmvörðuhálsi

Kort 31 marzMér hafa borist fyrirspurnir varðandi útbreiðslu hraunsins. Ég vil benda á landakort og myndir sem Eyjólfur Magnússon hefur gert og birtast á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Hér fylgir með kort Eyjólfs frá 31. marz, en það er síðasta kortið sem hann birtir.  Þar kemur vel fram rennsli niður Hrunagil og einnig í Hvannárgil. En þar vantar ennþá nýju sprunguna sem myndaðist rétt fyrir vestan fyrri sprunguna.  Auk þess læt ég fljóta með aðra mynd frá Eyjólfi Magnússyni, en hún er landslagsmynd, séð frá norðri, yfir gilin tvö og hraunið. Þann dag var flatarmál hraunsins orðið 0,95 ferkílómetrar. Nú í dag er það tvímælalaust vel yfir einn ferklílómetri að flatarmáli. Hraun 31. marz

Hvað kemur mikið Gas uppúr Fimmvörðuhálsi, og hver er Efnasamsetning þess?

GjóskustrókarGjóskustrókarnir sem dansa í gígunum á Fimmvörðuhálsi myndast vegna mikils gasútstreymis ásamt kvikunni sem er kringum 1200 stiga heit, eins og ég hef bloggað um hér.

En hvaða gas er þetta og hvert er magnið af gasi sem streymir hér út í andrúmsloftið? Það er eitt erfiðasta verkefni eldfjallafræðinga og jarðefnafræðinga að svara slíkum spurningum. Eins og sjá má af fréttamyndum, þá er ekki auðvelt og alls ekki hætulaust að komast að gjóskustrókum og ná í sýni af gasinu. Auk þess er kerfið svo dýnamískt eða breytilegt að gasið er að breytast mikið og blandast strax andrúmslofti á uppleið. Samt sem áður má koma með nokkuð gáfulegar getgætur um gasið og efnasamsetningu þess. Guðmundur Ernir Sigvaldason

Þegar ég var ungur jarðfræðistúdent, þá starfaði ég á Atvinnudeild Háskólans, sem síðar varð Rannsóknarstofnun Iðnaðarins í grennd við Háskóla Íslands. Þar voru ágætir jarðfræðingar að störfum, svo sem Sigurður Þórarinsson, Þorleifur Einarsson, Tómas Tryggvason og Guðmundur E. Sigvaldason. Ég var aðstoðarmaður þeirra meðal annars í ferðum út í Surtsey, strax og hægt var að lenda á eynni eftir gosið sem hófst 1963.  Meðal annars var unnið við söfnun og greiningu á gasinu sem kom upp úr gígnum og hrauni í Surtsey. Hér til hliðar er mynd af Guðmundi við sýnatöku á eynni.  Oft var þetta hættulegt og erfitt starf vegna hitans og lofts sem blandað var miklu magni af brennisteinsgasi, en ég spyr: hvað gera menn ekki fyrir vísindin? 

Með Guðmundi starfaði Gunnlaugur Elísson efnafræðingur. Árið 1968 birtu þeir félagarnir grein í vísindaritinu Geochemica and Cosmochemica Acta um gasið í Surtsey.  Þetta var lengi ein merkasta vísindagreinin um eldfjallagas og Surtseyjargasið varð heimsfrægt --- meðal vísindamanna. 

Gasið í kvikunni í Surtsey hefur eftirfarandi efnasamsetningu:  80–90% H2O, 1–10% CO2, 2–4% SO2, 1.5–3% H2 0.1–0.7% CO, 0.1–0.9% H2S and 0.01–0.25% S2.   Sem sagt: vatnsgufa er láng hæst.  Ef til vill er hluti af henni þó kominn úr hafinu umhverfis, inn í möbergið sem myndar eynna, og sogast inn í kvikuna í gígnum.  Koltvíoxíð virtist minnka þegar dró á gosið,  eftir 1964 til 1967.   En þessi efnagreining er ágæt til að sýna okkur hlutföllin milli hinna ýmsu gastegunda í kvikunni. Hins vegar segir þetta okkur ekki neitt um MAGN af þessum gastegundum í kvikunni eða heildarmagn gassins.  Er gasið 1 eða 10% af þunga kvikunnar?   Upplýsingar um slíkt hafa komið úr öðrum áttum frá öðrum eldfjöllum.   Ein aðferð, sem ég hef sjálfur beitt mikið, er að efnagreina gastegundirnar í örsmáum glerdropum sem  berast upp á yfirborðið innan í steindum eða kristöllum af ólivín, pyroxen eða feldspati í kvikunni. Hér fyrir neðan er ein mynd af slíku, tekin í gegnum smásjá,  en þetta er grænleit pyroxen steind eða kristall frá gosinu í Tambora í Indónesíu árið 1815. Þarna má sjá fallega brúnleita glerdropa inni í kristallinum.  Glerdroparnir voru áður kvikudropar, sem lokuðust inni í steindinni þegar steindin kristallaðist í kringum kvikudropann  í kvikuþrónni fyrir gosið.  Um leið og steindin kastaðist upp á yfirborð jarðar í gosinu “fraus” heitur kvikudropinn í gler við snögga kólnun.  En glerdropinn varðveitir mjög vel gas innihald eins og það var í kvikunni á miklu dýpi.  Síðan greinum við efnasamsetningu gler dropans með tæki sem nefnist örgreinir.   Þannig höfum við greint til dæmis brennisteinsmagn kvikunnar sem barst upp í Skaftáreldum árið 1783 og mörg önnur gos frá eldfjöllum víðsvegar um heim.   Slíkar greiningar sýna að úthafsbasalt (sem kemur upp við eldgos á úthafshryggjum eins og Mið-Atlantshafshrygg) inniheldur um 0.1–0.2  % H2O, um 0.01 til 0.1 CO2 (allar tölur eru prósent af þunga),  og um 0.01 til 0.03 % SO2.  Einnig er vottur af H2, HF og HC tegundum.   Basalt sem gýs í eldfjöllum fyrir ofan sigbeltin á jörðu hefur allt annað gasinnihald. Þar er vatn til dæmis miklu hærra (H2O allt að 6 til 8 %).  Enda eru gos í sigbeltunum miklu meiri sprengigos af þeim sökum.    En kvikan á Fimmvörðuhálsi er alkalí ólivín basalt, og þvi hvorki lík úthafsbasalti né basalti sem gýs í sigbeltum.  Hins vegar er hún svipuð og kvikan sem kemur upp í sumum eldfjöllum á Havaíí eyjum, og á eldfjallinu Loihi á hafsbotni rétt hjá Havaíí.  Þar inniheldur kvikan 0.38 –til 1.01 %  H2O og  0.001 til 0.63% CO2. Einnig er kvikan í eldfjallinu Kilauea á Havaíí með um 0.65 % CO2.   Ég álít að nýja kvikan á Fimmvörðuhálsi hafi því svipaða efnasamsetningu gastegunda og sú á Havaíí:  Vatn um 1% af kvikunni, koltvíoxíð um 0.1%, og brennisteinsoxíð SO2 um 0.1% af þunga.  Glerinnlyxur í kristalli

Við skulum þá líta á hvað mikið af gasi berst frá gosinu á Fimmvörðuhálsi út í andrúmsloftið, samkvæmt þessum ágizkunum um efnasamsetninguna.  Hraunið í dag þekur um einn ferkílómeter lands. Ég áætla að meðal þykkt þess sé um 20 metrar. Þá er heildarmagn kvikunnar sem hefur borist upp á yfirborð um 0.02 km3 eða tuttugu miljón rúmmetrar. Eðlisþyngd kvikunnar er senilega nálægt 2700 kg á hvern rúmmeter (getur verið allt að 2900 kg), og er þá heildarmassinn um 54 miljarðar kílógramma. Koltvíoxíð CO2 í kvikunni í mesta lagi 1000 ppm eða 0,1 % af þunga kvikunnar. Þá er losun gossins til þessa orðin um 54 miljón kg af CO2.   Eins og ég fjallaði hér um í pistli mínum um efnið “Hvað Kemur Mikið Koltvíoxíð upp í Eldgosum?”  þá er heildarlosun allra íslendinga, bíla og álvera þeirra um 5200  miljón kg á ári.  Koldíoxíð frá Íslandi

Gosið er því á þessu stigi búið að “menga” jafn mikið af koltvíoxíði og eitt prósent af árslosun alls iðnaðar og mannlífs á  Íslandi.  En þetta er ekki mengun, heldur er náttúran sjálf að verki, og hún má gera allt.   Sennilega er magnið af brennisteini sem berst út í gufuholf frá gosinu svipað, eða um 50 miljón kg. Það kemur út sem SO2 gas, en myndar fljótlega örsmáar agnir  eða “ryk”  af H2SO4 brennisteinssýru sem svífa í loftinu. Að lokum falla agnirnar til jarðar sem “súrt regn”.  Hætt er við að bílar ryðgi nú fyrr á Suðurlandi  en á öðrum landshlutum, og ef til vill hefur súra regnið áhrif á gróður á meðan á gosinu stendur.


Órói vex mikið á Hálsinum

 Nú er einhver hinn mesti órói sem ég hef séð á mælinum sem er á Goðabungu, einkum á tíðninni 1-2 Hz. Sjá línuritið frá Veðurstofunni hér.  Sennilega hefur hraunrennsli aukist í kvöld.


Hvað Kemur Mikið Koltvíoxíð upp í Eldgosum?

  Hringrás koldíoxíðsÞað er eitt gas sem allir kannast við, en það er koltvíoxíð.  Bólurnar í kókinu eru til dæmis koltvíoxíð. Mikið af gasinu sem myndar gjóskustrókana nú á Fimmvörðuhálsi er koltvíoxíð.  Þetta er líka gasið í andrúmsloftinu sem kann að vera að valda loftslagsbrytingum.  Þetta er  gasið sem myndast við bruna á eldsneyti af lífrænum uppruna (benzín, kol, dísel, eldiviður), hvort sem það er í vélinni í bílnum þínum eða í kolakynntum raforkuverum í Evrópu eða í verksmiðjum í Kína. 

Koltvíoxíð streymir milli hinna ýmsu hluta jarðkerfisins. Það streymir niður úr andrúmsloftinu og inn í sjóinn, og einnig frá landinu upp í andrúmsloftið, eins og til dæmis myndin fyrir ofan sýnir.  En takið eftir því að eldgos eru aldrei sýnd í slíkum myndum!  Hvernig stendur á því?  Er ekki einmitt koltvíoxíð að streyma upp í gjóskustrókunum á Fimmvörðuhálsi og út í andrúmsloftið  og reyndar í öllum eldgosum?  Jú, vissulega, en hvað mikið magn af koltvíoxíð gasi kemur uppúr eldfjöllum?  Er verið að blekkja okkur með öllu þessu tali um loftslagsbreytingar af manna völdum,  af því að eldgosin eru ekki tekin með í reikninginn?  Við skulum athuga það nánar, og kanna hvort það sé satt, eins og sumir vilja halda fram, að eldfjöllin séu miklu verri mengunarvaldur en sjálft mannkynið, með alla sína bíla og gas-spúandi verksmiðjur. Það er skylt að benda á að Loftslag.is hefur áður bloggað fróðlega um þetta efni.  Útlosun heimsins

Það er nokkuð auðvelt að reikna út heildarlosun eða það magn af koltvíoxíði sem streymir út í andrúmsloftið af völdum mannkynsins um heim allan.  Markaðurinn gefur okkur áreiðanlegar tölur yfir  magna af eldsneyti sem er selt um heim allan á hverju ári, og útkoman er sú, að nú er heildarlosun í heiminum um það bil 30 miljarðar tonna á ári af CO2. Myndin sýnir hvernig það skiptist milli landa, en Kína og Bandaríkin eru auðvitað lang stærst.  Heildarlosun á Íslandi af koltvíoxíði var 4235 þús. tonn árið 2006 en er nú komin yfir 5200 þúsund tonn, samkvæmt spá Umhverfisstofnunar. Koldíoxíð frá Íslandi

Það er ekki eins einfalt að áætla heildarlosun af koltvíoxíði frá eldfjöllum heimsins.  Þess ber að gæta að um 80% af öllum eldgosum eru neðansjávar, á úthafshryggjum, og  þvi tiltölulega óþekkt fyrirbæri. Samt er nú nokkuð gott samræmi á tölum um heildarútlosun koltvíoxíðs frá öllum eldfjöllum, bæði á landi og í sjó. Það er nú talið á bilinu 130 til 250 miljón tonn af koltvíoxíði á ári um allan heim.  Framlag eldfjalla er því aðeins 1/120 til 1/230 af heildarlosun koltvíoxíðs á jörðinni, eða vel innan við eitt prósent.  Sem sagt: það er ekki hægt að kenna eldgosum um loftslagsbreytingarnar, amk. ekki ío þetta sinn.  Hins vegar geta stór sprengigos orsakað mikla kólnun á jörðu, en það er nú önnur saga.

 


Gossaga á Fimmvörðuhálsi

helgi_torfason_og_hoskuldur_b_jonsson.jpgAllir þeir sem gengið hafa Fimmvörðuháls hafa tekið eftir því að slóðin er eins og risavaxin bárujárnsplata, með gárurnar þvert á leið.  Maður gengur upp einn hrygginn, niður í dæld, upp næsta hrygg og svo framvegis.  Landslag einkennist af miklum fjölda goshryggja sem liggja frá austri til vesturs og hafa flestir þeirra gosið undir jökli, eða fyrir meir en um tíu þúsund árum.  Þetta er mjög óvenjuleg stefna jarðmyndana á Íslandi, þar sem flestar gígaraðir og móbergshryggir liggja frá norðaustri til suðvesturs, eða frá norðri til suðurs (ein undantekning er á Snæfellsnesi, þar sem vest-norðvestur stefna er algeng).  Auk hryggjanna eru nokkur yngri basalt hraun, lík því hrauni sem er að renna í dag.  Kíkjum því aðeins á jarðfræði og jarðsögu í Fimmvörðuhálsi og athugum hvort við getum lært af þvi eitthvað um gosið sem nú stendur yfir.   Það er gamall málsháttur eða regla  í jarðfræðinni að nútiminn sé lykillinn af fortíðinni. Þannig getum við túlkað og skilið best það sem gerðist á fyrri skeiðum jarðsögunnar með því að notfæra okkur upplýsingar eða fróðleik á því sem er að gerast í dag.  Þetta á vel við um Fimmvörðuháls, en einnig má nýta hið andstæða:  við getum lært heilmikið um gang gossins í dag með því að skoða fornu eldstöðvarnar á hálsinum.  Oftast er það einmitt þannig í jarðfræðinni að sagan endurtekur sig. 

Árið  2005 birtu Helgi Torfason og Höskuldur Búi Jónsson grein um jarðfræði við norðvestanverðan Mýrdalsjökul.   Þar er jarðfræðikort af Fimmvörðuhálsi, og hefur Náttúrufræðistofnun Íslands nú birt kortið á ný á vefsíðu sinni hér, þar sem nýju eldstöðvarnar eru kærkomin viðbót á kortið.  Reyndar eru upplýsingarnar um úbreiðslu nýja hraunsins nokkra daga gamlar, og sýna því ekki litlu gossprunguna  sem opnaðist 31. marz.

Eitt höfuðeinkenni jarðmyndana á hálsinum eru fjórir eða fimm móbergshryggir sem stefna austur-vestur, eins og kortið sýnir.  Þeir hafa myndast við sprungugos undir jökli.  Milli þeirra eru tíu eða tólf basalt hraun, lítil að flatarmáli, sem hafa komið uppúr stökum gígum eða mjög stuttum gígaröðum.   Drefing gíganna er óregluleg en það virðist einmitt vera einkenni nýju eldstöðvarinnar, þar sem tvær gossprungur með misvísandi stefnu hafa opnast.   Þetta er því ekki eiginlegt sprungugos, eins og þau sem við eigum að venjast í aðalgosbeltum landsins. Slík sprungugos koma upp úr sprungum sem geta verið tugir kílómetra á lengd, eins og t.d. Lakagígar, sem eru amk. 25 km á lengd.  

Hver verður framtíð gossins á Fimmvörðuhálsi?  Ég vil benda á tvo möguleika sem eru jafn líklegir að mínu áliti, og ekki hægt að velja þar á milli á þessu stigi.  Annar er þessi: Endar það fljótt og myndar þá fremur lítið hraun eins og eldri hraungos á hálsinum?  Eða heldur gosið áfram og hleður þá upp myndarlegri nýrri dyngju?  Hraundyngjur eru mjög mikilvæg fyrirbæri í íslenskri jarðfræði, og nægir að benda til dæmis á Skjaldbreið.  Einkenni þeirra er að gosið kemur aðallega upp um eina gosrás, og hraun rennur til allra átta til að mynda dyngjuna sem er auðvitað í laginu eins og skjöldur á hvolfi.  Hafsbotn við Surtsey Á sínum tíma, árin 1963 til 1968, var því haldið fram að Surtsey væri dyngjugos.  Reyndar byrjaði gosið á stuttri sprungu og fjórir gígar eða litlar eyjar spruttu upp: Surstsey, Syrtlingur, Jólnir og Surtla.  Eins og sjá má á kortinu af hafsbotninum umhverfis Surtsey voru virku gígarnir nokkrir, en aðeins Surtsey sjálf varð varanleg.  Ef Surtsey hefði gosið á landi, þá hefði gosið sennilega hlaðið upp dæmigerðri dyngju.  Kvikan sem nú gýs á Fimmvörðuhálsi er einmitt mjög lík þeirri sem kom upp í Surtsey. Framhaldið heldur áfram að vera mjög spennandi!

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband