Færsluflokkur: Jarðefni
Akstur um Vaðlaheiðargöng mun kosta milljarð á mínútu
24.4.2015 | 10:11
Það er ekki falleg myndin af Vaðlaheiðargöngum, sem birtist hér fyrir ofan og kemur frá RUV. Annar endinn er fullur af 46 stiga heitri gufu og hinn endinn er fullur af köldu vatni. Allar framkvæmdir virðast vera komar í stopp, nú þegar göngin eru hálfnuð. Allt bendir til að Vaðlaheiðargöngum hafi verið algjörlega klúðrað, bæði hvað snertir rannsóknir og undirbúnings verksins. Framkvæmdir hófust í ágúst 2012 og samkvæmt áætlun á gegnumslag að verða í september 2015. Þegar 46 stiga heit vatnsæð kom fram í greftri að vestan verðu í febrúar 2014, þá var verkinu snúið við og gröftur hófst austan frá. Þá kom þar fram mjög mikill leki, sem hefur nú stöðvað verkið.
Draumurinn var að þessi 7,4 km löngu göng spari ferðakostnað á norðurlandi. Eins og Pálmi Kristinsson verkfræðingur hefur bent á í harðri ádeilu sinni á Vaðlaheiðargöng, þá er hinn áætlaði sparnaður ekki á rökum reistur. Vaðlaheiðargöng væru 15,7 km vegstytting og 11 mín tímasparnaður, miðað við akstur um Víkuskarð. Snemma á ferlinu var talað um 9 milljarða krónu kostnað við gangnagerð. Vandræðin sem nú blasa við benda til að kostnaður verði mjög miklu hærri. Ég spái að hann nágist 15 milljárða. Þá kosta göngin okkur milljarð á mínutu, í hvert sinn sem við ökum í gegnum þau. Að spara 11 mínútur í akstri verður því dýrt spaug. Allt bendir til að eldsneytissparnaðurinn verði því mun lægri en kostnaðurinn vegna áætlaðra veggjalda. Eins og Pálmi Kristinsson bendir á í skýrslu sinni, þá hefur undirbúningi verið klúðrað og reiknilíkön um rekstur ekki nægilega vel unnin. Sama má sennilega segja um könnun á svæðinu áður en gröftur hófst. Stófelldur leki og hátt hitastig í fjallinu eru þættir, sem ættu að koma fram við ítarlega rannsókn á jarðfræði fjallsins, en ekki uppgötvast í miðri framkvæmd. Svona fer, þegar stjórnmálamenn og verktakar ráða ferðum. Kostnaður við grunnrannsóknir er skorinn við nögl og verkinu flýtt eftir megni. Það vekur athygli að aðeins fimm kjarnaborholur voru gerðar til að kanna fjallið fyrirfram, samkvæmt skýrslum frá Vegagerðinni og frá Jarðfræðistofunni ehf. Nú verður klúðrið afsakað sem afleiðing af ófyrirsjáanlegum vandamálum. En sannleikurinn er sá, að rannsóknir og forvinna voru alls ekki nægilegar til að hefja þetta verk. Sennilega verður nú þrjóskast við, og göngin kláruð, hvað sem það kostar. Enginn stjórnmálamaður dirfist að segja neitt, meðal annars vegna þess að þverpólítisk eining hefur ríkt um verkið, svipað og um Kröfluvirkjun hér fyrir um fjörutíu árum.
Í skýrsum varðandi ástand bergsins er minnst á að leki sé víða mikill í fjallinu, en það vekur óneitanlega eftirtekt að ekki var leki eða lekt bergsins mæld í neinu tilfelli við borun kjarnaborholanna. Það er tiltölulega auðveld aðgerð og hefði tvímælalaust sýnt fram á að búast mætti við miklu magni vatns í göngunum. Þar sem göngin eru íum 100 metra hæð yfir sjó, og jarðvatnsborð í fjallinu fyrir ofan er í um 500 metra hæð yfir sjó, er vel ljóst að vatnsþrýstingur getur verið gífurlegur og vatnsmagn mikið.
Jarðefni | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Borpallurinn Kulluk á norðurslóðum
7.1.2015 | 06:18
Sumir láta sig dreyma um að finna olíu á norðurslóðum, en aðrir demba sér út í verkefnið og berjast við náttúruöflin. Það er dýrt spaug, eins og olíufélagið Shell hefur komist að nýlega. Árið 2005 keypti Shell olíuborpallinn Kulluk, sem var frekar óvenjulegur í laginu. Hann rís tæpa 80 metra yfir sjó, og er hringlaga, til að standast betur sjó og hafís. Stálið umhverfis borpallinn og í bolnum er um 4 cm á þykkt. Hann getur borað meir en 6 km niður í hafsbotninn. Shell vantaði olíu, sem þá var á háu verði, um $70 tunnan og fór hækkandi. Í dag er tunnan komin niður fyrir $50. Þeir tóku þá ákvörðun að byrja að leita á norðurslóðum, þar sem engin samkeppni var fyrir og Kulluk var hannaður sérstaklega fyrir þær aðstæður. Shell keypti því réttindi til olíuleitar fyrir $73 milljónir í Beuforthafi, fyrir norðan Alaska. Svo settu þeir $300 milljónir í að gera upp Kulluk borpallinn. Svo fóru $400 milljónir í að smíða hjálm til að vernda borpallinn frekar. Svo var hann útbúinn 12 akkerum til að verjast sjó og ís. Svo sigldu þeir með Kulluk norður fyrir Alaska í júní 2012. Margvísleg vandamál urðu á vegi þeirra, hjálmurinn eyðilagðist í hafsjó og áður en varir var komið haust og allt fullt af ís. Kulluk var nú kominn nærri landamærum Alaska og Kanada og hér byrjuðu þeir að bora í Beuforthafi. Kulluk byrjaði að bora í október, en hætti strax aftur vegna veðurs og var dreginn til hafnar í Alaska. Shell vildi koma Kulluk sem fyrst aftur til Seattle til viðgerða, og í desember var lagt af stað. Hér getur oft verið slæmt í sjóinn á þessum árstíma, með ölduhæð 5 til 10 metra. Stundum fór togkrafturinn á vírnum milli dráttarbátsins og Kulluk upp í 228 tonn þegar mestu öldurnar gengu yfir. Hinn 27. desember slitnaði toglínan og Kulluk rak stjórnlaust. Þeir komu annari línu á milli, en skömmu síðar byrjuðu fjórar vélar dráttarbátsins að bila, hver á fætur annari. Það var kominn sjór í díselolíuna. Tveim dögum síðar tókst þyrlum að ná allri 18 manna áhöfn á brott af Kulluk. Nú voru tveir dráttarbátar byrjaðir að draga Kulluk, en fljótlega slitnar önnur línan og hinn dráttarbáturinn hefur ekki undan í 50 hnúta vindi og yfir tíu metra ölduhæð. Þeir berast nær og nær landi og skáru loks á línuna. Kulluk rak upp í fjöru. Tveimur mánuðum síðar tilkynnti Shell að þeir gerðu nú hlé á olíuleit sinni fyrir norðan Alaska. Flakið af Kulluk var dregið til Kína og selt í brotajárn. Nokkrir af forstjórum Shell sögðu af sér, aðrir voru reknir. Enn dreymir þá um að komast aftur á norðurslóðir . Til allrar hamingju gat Kulluk ekkert borað í þessari tilraun. Þið getir rétt ímyndað ykkur olíumengunina og öll vandræðin við að reyna að ráða við virka olíulind undir þessum aðstæðum í norðurhöfum.
Jarðefni | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Súrnun hafsins
5.1.2015 | 08:05
Sjórinn er saltur, en hann hefur einnig annan mikilvægan efnaeiginleika: sýrustigið. Nú er það að breytast, í samspili við hnattræna hlýnun. Hlýnun í lofti og súrnun hafsins eru afleiðingar af vaxandi útblæstri mannkyns af CO2. Fyrir iðnbyltinguna var CO2 í andrúmslofti um 280 partar úr milljón (ppm), en með vaxandi bruna af kolum, olíu og gasi hefur það aukist í nær 400 ppm og fer vaxandi. Til allrar hamingju fer um einn fjórði af þessu koltvíoxíði niður í hafið og leysist þar upp en það hefur þær afleiðingar að hafið er að byrja að súrna. Súrnun er mæld í einingunni pH. Nú er pH heimshafanna 0,1 pH stigi lægri en var fyrir iðnbyltinguna. En pH skalinn er log skali og er því 0,1 breyting jafnt of 30 prósent hækkun á sýrustigi. Fyrsta mynd sýnir vaxandi CO2 í lofti jarðar (brún kúrva), vaxandi CO2 í hafinu (blá) og vaxandi sýrustig í hafinu (lækkandi pH, græn kúrva). Hvaða máli skiftir það fyrir okkur og annað líf á jörðu? Jú, við hækkandi sýrustig leysast til dæmis upp skeljar, kórall, kalkþörungar og önnur efni lífvera, sem eru gerðar úr kalki (CaCO3). Skelin er fyrst og fremst vörn og um leið og hún þynnist er aumingja skelfiskurinn varnarlaus fyrir kröbbum, steinbítum og öðrum gráðugum tegundum. Hækkandi sýrustig veldur því að kórallar geta ekki þrifist. Kóralrif eru gerð úr kalki og er þegar farið að bera á því að kóralrif til dæmis í Karíbahafi eru farin að láta á sjá. En vaxandi sýrustig hafsins hefur ekki einungis áhrif á kalk og skeljar, heldur á allt líf í sjónum. Fyrir lífríkið í hafinu er það eins og einhver væri að fikta við efnasamsetningu blóðsins í líkama okkar.
Það sem verst er, að sennilega mun sýrustig halda áfram að hækka. Mynd númer tvö sýnir spár um losun CO2 eða koltvíoxíðs út í andrúmsloftið (efsti partur). Það eru margar spár, en tökum þá verstu, sem er sennilega næst lagi (rauða línan). Miðmyndin sýnir áhrif þess á pH eða sýrustig hafsins. Samkvæmt þeirri spá væeri pH heimshafanna komið niður í 7,75 um 2100. Neðsta myndin sýnir hvaða áhrif þetta hefur á mettun (saturation) steindarinnar aragonit, sem er aðal kalktegundin í skeljum og öðrum kalklífverum. Samkvæmt því er hafið mettað, þ.e. kalk getur myndast, þar til um 2060. Eftir þann tíma myndast aragonít eða kalk ekki í hafinu og skeldýrin eru orðin skeljalaus. Eins og alltaf, þá er hér um spá að ræða, en hún byggist einfaldlega á því að gera ráð fyrir að við höldum uppi sama líferni, og dælum stöðugt út koltvíoxíði út í andrúmssloftið eins og ekkert sé að gerast.
Jarðefni | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mesti útdauði jarðar markar uppruna Íslenska heita reitsins.
29.12.2014 | 19:40
Eins og ég hef fjallað um hér í pistlum á undan, þá er það álit margra jarðvísindamanna að heiti reiturinn sem nú er virkur undir Íslandi eigi sér langa sögu, sem byrjar undir Síberíu fyrir um 250 milljón árum. Hann er þá langlifasti heiti reiturinn á jörðinni í dag. Enn merkilegra er sú kenning að þegar heiti reiturinn fyrst kom upp á yfirborðið í Síberíu, þá hafi hann orskað mesta útdauða lífríkis á jörðu, á mótum Perm og Trías timabila í jarðsögunni. Það er almennt talið að heitir reitir séu kraftmestir í fyrstu en síðan dragi úr gosmagninu og raftinum. Það getur vel passað í þessu tilfelli.
Lífríki jarðar hefur verið að þróast í um 500 milljón ár. En það hefur ekki alltaf verið dans á rósum, því á þessum tíma hafa orðið fimm stóratburðir, sem hafa eytt nær öllu lífríki á jörðu í hvert sinn. Sá þekktasti varð fyrir um 65 milljón árum, þegar risaeðlurnar og mest allt lífríki jarðar dó út í risastórum loftsteinsárekstri. Fyrsta mynd sýnir fjölda tegunda sem dóu út við hvern útdauða jarðsögunnar. En stærsti og mesti útdauði lífríkis jarðar varð fyrir um 252 milljón árum, þegar um 96% af öllu lífríki fórst. Áhrifin voru svo djúptæk að jafnvel kóralrifin í hafinu dóu og engir kórallar þrifust í um tíu milljón ár á eftir. Allt lífríki sem nú lifir á jörðu eru afkomendur hinna útvöldu 4% sem lifðu þessar hamfarir af. Þessi mikli útdauði markar skilin milli Perm og Trías tímabila í jarðsögunni.
Hvað er það sem gerðist í jarðsögunni á þessum tíma, sem kynni að hafa valdið þessum mikla útdauða? Var það stórkostlegur loftsteinsárekstur, mikil eldgos eða einhverjar aðrar náttúruhamfarir? Vísindamenn hafa lengi velt því fyrir sér og ekki enn komið með nægilega sannfærandi svör.
Það hefur ekki fundist nein vitneskja um stóran loftsteinsárekstur á þessum tíma, en hins vegar verður útdauðinn eiginlega nákvæmlega á sama tíma og mesta eldgosatímabil jarðar tekur yfir, þ.e.a.s. gos blágrýtismyndunarinnar í Síberíu. Þessi blágrýtismyndun nær yfir meir en 2,5 ferkílómetra, er víða meir en 3 km á þykkt og með rúmmál um eða yfir 4 milljonir rúmkílómetra. Myndin til vinstri sýnir hraunstaflann. Ofan á allt saman bætist að þetta ótrúlega magn af basaltkviku gubbaðist upp á mjög stuttum tíma. Steingervingafræðin sýnir að útdauðinn varð á mjög stuttum tíma, sennilega innan 200 þúsund ára. Um 90% af öllum tegundum í hafinu fórst og um 70% af öllum tegundum á landi. Sömu leiðis sýna steingervingarnir að útdauðinn varð samtíma eldgosunum. Það tók meir en 5 milljón ár áður en lífríkið tók að ná sér.
Þetta er nú gott og blessað, en hver eru þá tengslin milli eyðingu lífríkis og eldgosanna ? Eða er það einungis tilviljun? Hraunrennslið hefur auðvitað haft engin áhrif, en þá er að leita skýringa í sambandi við magn og tegundir af gasi, sem kom upp í þessum gosum. Það eru fyrst og fremst gastegundirnar CO2, H2O, SO2 HF og HCl. B,A, Black og félagar (2012) hafa mælt magn þessara gastegunda í kvikunni sem gaus í Síberíu á þessum tíma.
Þeir finna að kvikan sem kom upp í sumum gosunum hefur ótrúlega hátt magn af gastegundum, með allt að 0,5% S (brennistein), upp undir 1% Cl (klór), og nær 2% F (flúór). Magnið af þessum gastegundum sem kann að hafa borist út í andrúmsloftið skiftir þúsundum gígatonna (Gt), en eitt Gt er einn milljarður tonna. Þeir telja að magnið af brennisteinsgasi hafi verið um 5300 til 6100 Gt S, af klóri 100 til 2700 Gt Cl og af flúóri á bilinu 3800 til 5400 Gt Cl. Brennisteinn veldur kólnun á loftslagi jarðar ef gasið berst hátt upp í heiðhvolf. Klór gasið gæti eytt ósón laginu í heiðhvolfi, sem ver jörðina fyrir hættulegum geimgeislum. Það kann þá að orskaka stökkbreytingar og ill áhrif á erfðefni í öllu lífríki. Flúór orsakar gadd eða flúorósis og fall búpenings, eins og við þekkjum vel hér eftir Skaftárelda 1783. Það er því af nógu að taka í þessu dæmi varðandi hugsanlegar hættur út af þessum stórgosum.
Jarðefni | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Huang Nubo tókst það ekki, en CNOOC er komin inn, með Eykons hjálp
20.11.2014 | 22:18
Árið 2011 munaði litlu að Kínverski auðmaðurinn Huang Nubo næði fótfestu á 300 ferkílómetra eign á Grímsstöðum á Fjöllum. Málið vakti mikla athygli og deilur, en flestir Íslendingar voru hreinlega furðu lostnir á þessum áhuga Kínverja á landssvæði inni á öræfum og við fengum aldrei fulla skýringu á hvað Kínverjar væru eiginlega að fara. Það mun hafa verið skelegg mótstaða Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra, sem kom í veg fyrir að svo færi. Nubo er nú horfinn af sjónarsviðinu, en aðrir Kínverskir umboðsmenn eru komnir í stað hans og í þetta sinn hefur þeim tekist að koma sér fyrir í Íslenskri lögsögu, að því er virðist á þess að nokkur taki varla eftir. Sérleyfi var veitt til olíuleitar á Drekasvæðinu í janúar 2014. Leyfið var veitt til CNOOC Iceland ehf. sem rekstraraðila með 60 % hlut, Eykon Energy ehf., með 15 % hlut og Petoro Iceland AS með 25 % hlut. CNOOC er China National Offshore Oil Corporation, risastórt Kínverskt olíufélag, sem er eigandi margra borpalla og ræður yfir miklu fjármagni. Þeir eru færir um að bora margar borholur, en ein slík getur kostað eins og heil Harpa, eða marga tugi milljarða. Orkuleitarfyrirtækið sem nú er skráð inn á Drekasvæðinu er undir nafninu Eykon Energy, en nú vitum við að Kínverski olíurisinn CNOOC er 60% meirihluta hlutafi í Eykon. Þannig hafa Kínverjar náð fótfestu án nokkura mótmæla innan Íslenskrar lögsögu. Drekinn er að verða Kínverski Drekinn. Þetta eru tímamót, ekki einungi á Íslandi, heldur á öllum norðurslóðum: fyrsta Kínverska fyrirtækið, sem kemur sér fyrir í þessum heimshluta, þrátt fyrir mótstöðu Kanada, Bandaríkjanna og Rússa. Sennilega er mikilvægara fyrir Kína að komast inn á norðurskautasvæðið, en að finna hér olíu. Það var sennilega alla tíð markmið Nubos, að komast inn, án þess að hafa áhyggjur af hagnaði eða viðskiftalíkani rekstursins. Loksins komast Kínverjar inn á norðurskautasvæðið, í gengum Ísland, þrátt fyrir mótstöðu stórveldanna. Fáir hér á landi virðast gera sér grein fyrir því, að við erum orðinn leppur í refaskák stórveldanna á þennan hátt. Jú, að vísu gætum við fengið einhverjar tekjur af þessum leik, því skattlöggjöf tryggir Íslendingum hluta af tekjum, allt að 50%, EF einhver olía finnst á Drekasvæðinu. En, eins og ég hef áður bloggað um hér fyrir neðan, þá eru vissar jarðfræðilegar aðstæður, sem benda á að mjög litlar líkur séu á olíu undir Drekasvæðinu. Það skiftir Kínverja ekki miklu máli, af því að alþjóðapólítík, ekki gróðasjónarmið, er aðalmarkmið Kínverja á norðurslóðum. Þeir vilja fyrst og fremst koma löppinni í gættina.
En hvað um CNOOC? Þar kemur margt fremur skuggalegt í ljós. Dagblaðið DV birti í júní 2013 umfjöllun um þennan vafasama Kínverska olíurisa árið 2013. CNOOC hóf fyrir nokkru samvinnu með heróín og opíum baróninum Lo Hsing Han við olíuleit í Burma í fyrirtækinu Goldern Aaron. Frekari fróðleik um CNOOC, samstarf þess við Lo Hsing Han og viðleitni til að komast inn í Grænland og Ísland má finna á vefsíðu Jichang Lulu hér: http://jichanglulu.tumblr.com/iceland-jan-mayen-cnooc
Jarðefni | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Koldíoxíð frá Bárðarbungu
7.11.2014 | 13:16
Nýlega var sagt frá því að tveir verðir laganna hefðu átt í erfiðleikum með að anda í grennd við gosstöðvarnar í Holuhrauni. Ég tel líklegast að það hafi verið koldíoxíð gas sem olli því, en ekki brennisteinstvíoxíð. Koldíoxíð er algeng gastegund í eldgosum. Hún er ekki eitrandi, en ef koldíoxíð eða CO2 er fyrir hendi í miklum mæli, þá dregur úr súrefni í loftinu og af því orsakast vandi við öndun og jafnvel köfnun. Þannig fórst einn maður í kjallara sjúkrahússins í Vestmannaeyjum í gosinu árið 1973.
Þetta verkur spurningar um magnið af koldíoxíði, sem berst upp í gosinu í Holuhrauni. Mér er ekki kunnugt um neinar beinar mælingar á því, en við getum samt farið nærri um útlosun á þessu gasi í gosinu til þessa. Til samanburðar var magnið af CO2 í basalt kvikunni sem gaus á Fimmvörðuhálsi árið 2010 um 0,15%. Magn af koldíoxíði er nokkuð þekkt í basalt kviku almennt, en uppleysanleiki þess er háður þrýstingi eða dýpi. Fyrsta myndin sýnir uppleysanleika á CO2 í kvikum af ýmsum gerðum við mismunandi þrýsting. Lóðréti ásinn sýnir CO2 í ppm (partur úr milljón), en sá lárétti sýnir þrýsting í kílóbörum. Eitt kílóbar er þrýstingurinn á um 3 km dýpi niðri í jarðskorpunni. Það er viðeigandi að álíta að kvikan undir Bárðarbungu, sem nú kemur upp í Holuhrauni hafi verið á um 8 til 10 km dýpi, samkvæmt dýpi jarðskjálfta. Þá er magn af CO2 í kvikunni um 1500 ppm eða 0,15% af kvikunni. Það er á bilinu milli kvikutegundanna basanít og þóleíit, eins og rauði hringurinn sýnir.
Nú er talið að um einn rúmkílómeter af basalt kviku hafi komið upp í Holuhrauni. Það mun vera um 2,8 gígatonn af kviku (gígatonn er einn milljarður tonna). Ef kvikan inniheldur 0,15% CO2, þá er útlosun af koldíoxíði í gosinu því orðin um 4 milljón tonn (0,004 gígatonn). Hvað er þetta mikið, miðað við útblástur allra eldfjalla á jörðu af CO2 á einu ári? Nú er áætlað að heildarútblástur allra eldfjalla á jörðu sé um 300 milljón tonn á ári (0,3 gígatonn). Gosið í Holuhrauni er því búið að losa meir en eitt prósent af árlegum skammti eldfjallanna.
Er þetta mikið magn, í samhengi við útblástur mannkyns af koltvíoxíði vegna bruna á olíu, kolum og jarðgasi? Mannkynið losar um 35 gígatonn af CO2 á hverju ári. Eldfjöllin losa aðeins um eitt prósent af þessu magni á ári hverju, til samanburðar. Þetta er vel þekkt staðreynd, en samt sem áður koma stjórnmálamenn og sumir fjölmiðlar oft fram með alvitlausar staðhæfingar um, að eldgos dæli út miklu meira magni af koldíoxíði en mannkynið. Hvar fær slæikt fólk þessar upplýsingar? Eða eru þær ef til vill einungis heimatilbúnar, til að henta stjórnmálamönnum í hvert sinn?
Seinni myndin sýnir hvernig CO2 hefur vaxið stöðugt (rauða línan) í lofthjúp jarðar, frá 1960 til dagsins í dag. Blái ferillinn sýnir stærstu eldgosin á þessu tímabili, en sýndar eru breytingar á brennisteinstvíoxíði í lofthjúpnum. Er það ekki alveg augljóst, að eldgosin hafa ekki haft nein áhrif á CO2 í lofthjúpnum?
Jarðefni | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Ebóla hefur sett London Mining á hausinn
18.10.2014 | 06:28
Eitt stærsta námuverkefni á Grænlandi er fyrirhuguð járnnáma London Mining í Isua á vestur Grænlandi. Hér er heilt járnfjall, sem inniheldur um einn milljarð tonna af járni. Járngrýtið átti að flytja í 105 km langri pípu til hafnar, um borð í 250 þúsund tonna skip. Síðan fer járngrýtið til Kína í vinnslu. Myndin til hliðar er af Isua svæðinu, tekin úr gervihnetti. Allt bergið er rautt af ryðguðu járni. Til hægri sést jökulröndin. Í fyrra veitti Grænlandsstjórn London Mining 30 ára leyfi til vinnslu á svæðinu. London Mining hefur rekið stóra járnnámu í Sierra Leone í vestur Afríku. Henni hefur nú verið lokað vegna Ebólu plágunar, sem þar geisar. Auk þess hefur verð á járni hrapað undanfarið á mörkuðum, um 40%. Afleiðingin er sú, að verðbréf London Mining hafa fallið frá 95 pence niður í 4,5 pence á einu ári. Félagið er því gjaldþrota og allar framkvæmdir á Grænlandi eru stöðvaðar. Óvíst er því um framtíð járnvinnslu á Greænlandi, eins og allan námugröft þar, yfir leitt.
Jarðefni | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Olíuveslun Bandaríkjanna snýst við
9.10.2014 | 06:53
Nýlega sigldi olíuskipið BW Zambesi frá Houston í Bandaríkjunum til Suður Kóreu, hlaðið um 400 þúsund tunnum af olíu. Það er í sjálfu sér ekkert óvenjulegt við það, nema að hér með eru Bandaríkin aftur orðin útflytjandi af olíu, í fyrst sinn eftir nær fjóra áratugi. Svo virðist sem að hér eftir muni Bandaríkin ekki eyða dýrmætum gjaldeyri í olíuinnflutning og getur þetta haft mikil áhrif á efnahag þjóðarinnar en ekki hjálpar það umhverfismálum, því miður. Á alþjóða olíumarkaðinum er viðbúið að útflutningi Bandaríkjanna á þessu eldsneyti sé einkar velkomin lausn á þeim markaðsvanda, sem til dæmis Evrópuríki eru komin í vegna hegðunar Rússa í Úkraníu.
Aukin framleiðsla á olíu innan Bandaríkjanna er fyrst og fremst vegna nýrrar tækni (fracking), þar sem olía og gas er kreist út úr jarðlögunum undir miklum þrýstingi og með því að dæla niður vökva sem ýtir olíunni upp á yfirborð. Einnig er lóðrétt borun mikilvæg. Olíuframleiðsla hefur aukist um 70% síðustu sex árin innan Bandaríkjanna, sem er alveg ótrúlega mikill vöxtur. Innflutningur frá OPEC löndunum (mest Arabar) hefur af þeim sökum minnkað um helming. Línuritið sýnir hvernig innflutningur á olíu hefur snúist við (rauða línanog hvernig útflutningur á olíu hraðvex (gula línan) . En margir spá því að þetta sé skammvinnur gróði, og að innan fárra ára verði ekki hægt að ná meiri olíu út úr jarðskorpunni undir Bandaríkjunum, jafnvel með fracking aðferð.
Bandaríkin og allur heimur verður að komast út úr þessum slæma vana að treysta á olíu sem mesta orkugjafann. Hnattræn hlýnun og náttúruspjöll vegna olíunnar eru stærstu vandamál okkar allra. Við verðum að taka upp aðra orkugjafa strax, og þurfum ekki að bíða þar til olían er búin. Við eigum að enda Olíuöldina nú, strax, en ekki bíða þar til öll olían er búin í jarðskorpunni. Munið eftir, að Steinöldin endaði ekki vegna þess að menn gátu ekki fundið fleiri steina.
Jarðefni | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Drekkið bjór með Kínverjunum
5.10.2014 | 08:12
Jarðefni | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Efnasamseting kvikunnar úr Bárðarbungu
8.9.2014 | 12:34
Jarðvísindamenn fá miklar upplýsingar um uppruna kvikunnar og innri gerð eldfjalla með því að efnagreina sýni úr hraunum og öðru gosefni, alveg á sama hátt og læknirinn safnar ýmsum vökvum (blóði, þvagi osfrv.) frá sjúklingnum og efnagreinir til að dæma um innra ástand hans. Nú hefur Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands birt efnagreiningar á fimm sýnishornum af hrauni úr hinu nýja Holuhrauni. Það er sýnt í töflunni hér fyrir ofan. Það eru tvö efni, sem segja mikilvæga sögu. Annað er kísill (SiO2), sem er um 50 til 50,8% af kvikunni. Hitt er magnesíum oxíð (MgO), sem er um 6,8 til 7,1%. Þetta er efnasamsetning basalt kviku, sem hefur setið í grunnu kvikuhólfi inni í jarðskorpunni nokkuð lengi og þróast þar. Þetta er ekki efnasamsetning frumstæðrar kviku, sem kemur beint úr möttli jarðar, af miklu dýpi. Þar með er kenning sumra vísindamanna dauð, að gangurinn sé kominn beint úr möttli. Jarðskorpan er ca. 30 til 40 km þykk undir þessu svæði og þar undir er möttullinn, sem er 2900 km þykkur. Frumkvikan myndast í möttlinum og berst upp í jarðskorpuna, þar sem hún þróast. Hver er efnasamsetning kviku í möttlinum? Önnur mynd er tekin frá Kresten Breddam og sýnir dæmi um efnasamsetningu kviku sem kemur beint frá möttlinum. Þetta dæmi er basalt, sem gaus til að mynda stapann Kistufell, sem er rétt norðan við Bárðarbungu. Basaltið í Kistufelli er óvenju ríkt af magnesíum, og er MgO í gleri (kvikunni) á bilinu 10 til 12%. Eins og Breddam sýnir framá er þetta efnasamsetning kviku (blái kassinn á myndinni fyrir neðan), sem er í kemísku jafnvægi við möttulinn og hefur því komið upp beint úr möttlinum. Þetta er gjörólíkt kvikunni, sem nú gýs (rauði hringurinn á myndinni) og er hún greinilega ekki komin beint úr möttli. Hins vegar getur frumstæð kvika, eins og sú sem myndaði Kistufell, borist upp úr möttlinum, safnast fyrir í kvikuhólfi og breytst með tímanum í þróaða kviku, eins og þá, sem nú gýs. Þetta er sýnt með rauðri brotalínu á myndinni. Þessar upplýsingar um efnasamsetningu styðja því eftirfarandi einfalda mynd um virkni Bárðarbungu: (1) Frumstæð kvika (MgO um 10 til 12%) streymir upp úr möttlinum og fyllir kvikuhólf grunnt í jarðskorpunni undir öskju Bárðarbungu. Slíkur straumur er sennilega alltaf í gangi og gerist ef til vill án nokkurra merkja á yfirborði. (2) Frumstæða kvikan breytir efnasamsetningu vegna diffrunar, þegar vissir kristallar skiljast frá kvikunni. Við það verður kvikan þróuð og MgO lækkar í ca. 6 til 7%. Ef til vill er kvikuþróin þá lagskift, með lag af þróaðri kviku ofaná hinni frumstæðu, sem kemur upp úr möttlinum. (3) Kvikuþrýstingur í grunnri kvikuþró fer vaxandi og þróuð kvika brýst út úr þrónni, inn í sprungukerfi, fyrst til austurs og síðan til norðurs og myndar hin margumtalaða kvikugang. (4) Sprungugos hefst þar sem gangurinn sker yfirborð jarðar norðan jökulsins. (5) Streymi kviku úr kvikuþrónni út í ganginn og upp á yfirborð veldur því að þrýstingur fellur inni í kvikuþrónni og þak hennar, eða botn öskjunnar byrjar að síga. Nú nemur sig um 15 metrum. Í dag hefur hraunbreiðan náð 19 ferkílómetrum að flatarmáli. Sennilega var því kvikuhólfið fullt þegar skjálftavirkni hófst. Gosið hófst með fullan tank. Það getur hæglega innihaldið tugi ef ekki hundrað rúmkílómetra af kviku, en sennilega kemur aldrei nema lítið brot af þessari kviku upp á yfirborðið.
Jarðefni | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)