Færsluflokkur: Hafið
Hver er hitastigull á Drekasvæðinu?
6.3.2013 | 02:29
Eins og ég hef fjallað um hér fyrir neðan, þá er lykilatriði í myndun og varðveizlu á olíu og gasi í setmyndunum, að hitinn í jarðskorpunni sé ekki of hár. Ef svo er, þá brotnar olían fljótlega niður og eyðist, breytist í gas sem streymir upp og út á hafsbotninn. Af þessum sökum er ósennilegt að finna olíu á eldfjallasvæði. Þó er það ekki alveg útilokað. Það finnst til dæmis olía í fornum hraunlögum á Diskóeyju á vestur Grænlandi.
Það eru til tvennskonar upplýsingar um hitann í setlögum, sem koma að gagni. Streymi á hita upp úr setögum á botninum hefur verið mælt víða í Norður Atlantshafi. Mælieiningin sem notuð er fyrir hitastreymi er milliwött á fermeter, eða mWm2. Fyrsta myndin sýnir gögn um mælingar á hitastreymi umhvefis Ísland, en Drekasvæðið er merkt með rauðu strikunum. Íslandssvæðið og gosmyndanir á hryggnum fyrir sunnan og norðan land er að sjálfsögðu heitt svæði, eins og guli liturinn sýnir (með 100 til 150 mWm2). En meiri parturinn af Drekasvæðinu, innan rauðu línunnar, er sýnt hvítt á myndinni, með lægra histastreymi, um 75 til 100 mWm2. Aðeins austasta hornið á Dreka er á grænu svæði, frekar kalt, með 50 til 75 mWm2.
Mynd númer tvö sýnir gögn um hitastreymi í seti sem inniheldur olíu víðs vegar í heimshöfunum. Það er greinilegt að gildi milli 20 og 30 mWm2 er algengast í olíuberandi setlögum, en það er töluvert kaldara en jafnvel köldustu svæðin á Dreka.
Það er til annar og betri mælikvarði á hitann í setinu, en það er hitastigull. Hann gefur hitann með vaxandi dýpi í jarðskorpunni og fæst aðeins með fremur djúpum bornunum. Að mér vitanlega eru ekki til slíkar mælingar á Dreka. Á Íslandi hefur verið mældur hitastigull, sem er allt að 200oC á km, en á landgrunninu, utan virka gosbeltisins, eru til nokkur gögn. Til dæmis er hitastigull í 500 m djúpri borholu á Flatey á Skjálfanda um 50 °C/km. Hitastigull í Vík í Mýrdal er tæpar 50 °C/km og djúp hola í Vestmannaeyjum er með hitastigul milli 50 og 60 °C/km. Hitastigull í setlögum þar sem olía er unnin er yfirleitt mun lægri en þessar tölur umhverfis Ísland, eða á bilinu 20 til 30oC/km.
Drekasvæðið er á mörkum úthafsskorpu (eldgosamyndun) í austri og hugsanlegrar meginlandsskorpu í vestri. Sú síðar nefnda er syðri parturinn af Jan Mayen hryggnum, en hann kann að hafa verið hluti af eystra landgrunni Grænlands. Sennilega er hitastigull á Dreka því töluvert hærri en almennt gerist á svæðum þar sem set inniheldur vinnanlegt magn af olíu, en því miður vantar mig alveg beinar tölur um hitastigul í Drekasvæðinu. Þriðja myndin sýnir þroskun á olíu í jarðlögum, sem hafa hitastigul um 50oC/km, sem kann að vera viðeigandi fyrir Dreka. Þar væri olían aðeins á 1 til 2 km dýpi, sem er mjög óvenjulega grunnt í samanburði við svæði á jörðu, þar sem olía er unnin. Á svo litlu dýpi í setinu væri hætt við að olía og gas sé þegar rokið upp og út úr setinu, en aðeins frekari rannsóknir munu skera úr um það.
Árið 1974 voru boraðar einu holurnar sem til eru á Drekasvæðinu, sýndar á þriðju myndinni. Það var alþjóða borstofnunin (Ocean Drilling Project) sem boraði þessar holur (Leg 38). Þær eru því miður fremur grunnar, og aðeins ein þeirra (hola 350) er innan Dreka, en hinar í næsta nágrenni (348, 349, 907, 985). Hola númer 350 er um 400 metra djúp og er eina holan innan Dreka. Hún er í Tertíer setlögum, en endar í basalti, sem er um 44 milljón ára gamalt og frá Eósen tíma. Hola númer 348, rétt vestan við Dreka, fór í gegnum 500 metra þykk setlög frá Tertíer tíma, en endaði í basalt innskotum sem eru um 19 milljón ára gömul. Innskotin hafa troðist inn í set frá Ólígósen (ca. 30 milljónir ára). Ekki varð olíu vart í þessum borunum, enda var það ekki tilgangur þeirra rannsókna.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Drekasvæðið: hvað er kolvetnið orðið þroskað?
2.3.2013 | 00:15
Olía myndast sennilega í nær öllum tegundum setlaga á hafsbotni. Hvernig hún þróast og hvort olían varðveitist í setinu er háð því, sem jarðfræðingar kalla maturation eða þroskun. Fyrsta myndin sýnir þroskun í setlögum á vissu svæði, þar sem ákveðinn hitastigull ríkir. Takið eftir að hér er olían aðallega á 2000 til 4000 metra dýpi í setinu. Þar fyrir neðan hverfur eða minnkar olían og gas tekur við dýpra. Við hærri hitastigul hverfur þessi olía og í hennar stað kemur metan gas.
Olían myndast úr lífrænum efnum í setinu á milli 60 og 150 stiga hita. Þegar hitinn fer yfir um 150 stig, þá breytist olían og þroskast í metan gas. Olíuglugginn er því lítill og þröngur og algjörlega háður hitastigul í jarðlögunum. Kolvetni í jarðlögunum þroskast því með hækkandi hita. Fyrst eru lífrænar leifar ríkjandi í setinu við lágan hita, en þegar hitinn vex myndast olían í olíuglugganum frá 60 til 150 stigum, og með frekari hitun setlaganna brotnar olían niður í metan og önnur gas sambönd.
Ef hitastigull er hár, þá þroskast olían snemma og breytist hratt í metan gas. Síðan getur gasið haldist í setinu eða risið uppá við og sloppið út í hafið fyrir ofan hafsbotninn. Nú eruð þið sjálfsagt að velta því fyrir ykkur, eins og ég, hve hitastigull er hár í setlögum á Drekasvæðinu. Það er von að þið spyrjið, því hár hitastigull þýðir engin olía og ef til vill eitthvað gas, eða jafnvel ekki einu sinni gas! Ég hef leitað víða, en mér hefur ekki enn tekist að finna neinar upplýsingar um hitastigul á þessu svæði. Ef til vill hefur hann aldrei verið mældur.
Það er alþekkt að hitastigull er hár í grennd við gosbelti og nálægt jarðmyndunum sem hafa myndast við eldgos. Undir Íslandi er til dæmis oft mældur hitastigull sem er um 200oC á km dýpis, en sennilega er hitastigull undir Íslandi víðast hvar um eða yfir 80oC á km. Af þeim sökum er mjög ósennilegt að olía finnist til dæmis í hinni feikna þykku setmyndun, sem fyllir upp Eyjafjarðarál. Setið hefur sennilega hitnað svo mikið, að öll lífræn efni hafa breyst í metan gas eða kolagas og gufað á brott. Í olíuríku setlögunum undir Norðursjó er hitastigullinn hins vegar aðeins um 30°C/1000 m, sem er kjörið fyrir myndun og verndun olíu í setinu. Hætt er við að hitastigullinn sé mun hærri á öllum svæðum í grennd við Ísland. Vonandi fáum við að heyra um mælingar á hitastigul á Drekasvæðinu fljótlega, eða búum við ekki einmitt í þjóðfélagi, þar sem allt er opið og aðgengi greitt að öllum slíkum opinberum skjölum? Ég vona stranglega að svo sé.
Hafið | Breytt s.d. kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Olíuleit á norðurslóðum er hættuleg
1.3.2013 | 16:07
Í janúar strandaði olíuborskipið Kulluk nærri Kodíak eyju í Alaska í miklum stormi, eins og myndin sýnir. Skipið er eign Shell olíufélagsins, sem hefur unnið að mikilli könnun á hugsanlegum olíulindum á hafsbotni umhverfis Alaska. Í kjölfar strandsoins og svipaðra óhappa hefur Shell nú hætt olíuleit á hafsbotni á norðurslóðum í ár en undanfarin ár hefur Shell eytt $5 milljörðum í olíuleit á botni Chukchihafs og Beauforthafs.
Margir hafa bent á að olíuvinnsla á íshafinu er hættuleg og kann að valda miklum vandamálum fyrir allt umhverfið í norðri. Tíðir stormar, hafís og ýmsar erfiðar aðstæður gera líkur á slysum og óhöppum mun líklegri, alveg eins og íslenskir sjómenn þekkja vel.
Skoska olíufélagið Cairn hefur einnig lent í hrakförum í olíuleit við strendur Grænlands. Cairn er með 11 svæði frátekin hér á hafsbotni, alls um 80 þús ferkílómetrar. Undan vestur strönd Grænlands hafa þeir borað árið 2011, þar sem dýpi er um 1500 metrar. Hér var borað frá júlí til nóvember árið 2011 og engin olía hefur fundist enn, hvorki hér né á öðrum svæðum sem Cairn hefur eignað sér. Kostnaður við borun Cairn er nú yfir $1,2 milljarðar og hafa þeir nú hætt olíukönnun á hafsbotni við Grænland. Eitt atriði var mikil áhætta vegna borgaríss og hafíss, en einnig veðurfar á þessum slóðum. Mesti óttinn meðal náttúrunnenda er þó ekki afdrif skipa olíufélaganna, heldur þau gýfurlegu umhverfisáhrif sem geta orðið þegar bormenn missa stjórn á olíubrunni á hafsbotni, eins og gerðist hjá BP í Mexíkóflóa þegar Deepwater Horizon olíupallurinn sprakk árið 2010 og mengaði allar strendur umhverfis. Það er greinilegt að olíufélög hafa ekki einu sinni góða stjórn á olíulindum sínum á hafsbotni í hitabletinu, hvað þá heldur í íshafinu. Þetta skal einnig haft í huga þegar rætt er um draumóra varðandi Drekasvæðið.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Markarfljót og Bakkafjara
1.3.2013 | 15:13
Þakka marar góðar hugmyndir varðandi Landeyjahöfn. Set og annar árframburður fellur til botns þegar straumhraði lækkar. Einnig fellur set til hafsbotns þegar dregur úr ölduhæð. Myndin sýnir ölduhæð undan Landeyjahöfn í austan og suðaustan átt. Gula svæðið er þar sem ölduhæð dettur laveg niður vegna skjóls frá vestmannaeyjum. Þetta er svæðið þar sem dregur úr hreyfingu sets og þar sem set fellur á botninn og myndar rif og setlög. Þessi öldugangsskuggi hefur meðal annars myndað og haldið við sandrifinu sem liggur beint fyrir framan Landeyjahöfn.
Það dregur mikið úr straumhraða þar sem Markarfljót breiðist út yrir áreyrar og mætir hafinu. Staðsetning hafnar á slíkum stað er því sennilega ekki gott ráð. Vonandi fáum við að heyra frekar um niðurstöður dana varðandi strauma og set á þessu svæði, áður en frekari ´kvarðanir verða teknar um að kasta krónum í sjóinn hér.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þeir vilja færa Markarfljót í öfuga átt
28.2.2013 | 11:14
Nú hefur Siglingastofnun sett fram tillögu um að færa farveg Markarfljóts til austurs, um 2,5 km leið, að ráði danskra sérfræðinga. Þetta á að draga úr aurburði inn í Landeyjarhöfn, sem aldrei hefur virkað sem skyldi, eins og ég hef til dæmis fjallað um áður hér http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1092129
Það er ljóst að sandrifið sem myndast vegna aurburðar frá Markarfljóti til hafs er fyrst of fremst fyrir vestan Landeyjahöfn, eins og fyrsta myndin sýnir. Sandrifið er gult á myndinni. Ríkjandi straumar og tilfærsla efnis eru hér frá austri til vesturs, alla jafna, og þessi hreyfing efnis heldur sandrifinu við fyrir sunnan og vestan Landeyjahöfn. Árlegur framburður Markarfljóts er um 100 þúsund rúmmetrar af sandi og aur á ári.
Þetta er og verður alltaf vandræðamál, enda var höfnin upprunalega staðstett með aðeins einu markmiði: að fá styttstu siglingaleið til Vestmannaeyja. Flutningur mynnis Markarfljóts til ausutrs mun aðeins kaupa tíma og seinka fyllingur hafnarinnar, en það verður dýrkeypt. Viturlegri ráðstöfun, ef yfirleitt á að halda þessari höfn við, væri að flytja Markarfljót til vesturs.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Golfstraumurinn hægir á sér?
18.2.2013 | 16:00
Ég ólst upp í þeirri trú, að Golfstraumurinn væri lífæð íslensku þjóðarinnar. Hann færir okkur yl úr suðri, rakt loft og tiltölulega milt loftslag og gerir landið byggilegt hér á nyrstu mörkum norrænnar byggðar. Hnattræn hlýnun sem nú er í gangi ætti að gera loftslag enn mildara, en getur svo farið að hnattræn hlýnun dragi úr Golfstraumnum og orsaki staðbundna kólnun á norðurslóðum í kjölfarið? Hingað til hafa flestir ekki tekið þennan möguleika alvarlega, en þetta er mikið alvörumál, sem þarf að kanna frekar.
Nú eru að koma í ljós ný gögn, sem benda til þess að Golfstraumurinn sé að hægja á sér. Þessar upplýsingar koma frá austur strönd Bandaríkjanna og hafa valdið mikilli umræðu, þar sem hækkandi sjávarborð kann að vera bein afleiðing af hægari Golfstraumi. Málið er svo viðkvæmt, að efri deildin í Norður Karólínu fylki reyndi að banna vísindamönnum að birta gögn um hækkun sjávarborðs. Á sama tíma hafa tveir íhaldssamir sjóðir í Bandaríkjunum, Donors Trust og Donors Capital Fund, veitt $120 milljónir til áróðurshópa sem afneita hnattrænni hlýnun. Það er ekki einungis Norður Karólína, sem verður fyrir áhrifum, heldur hækkar sjávarborð nú þrisvar sinnum hraðar meðfram allri austurströnd Bandaríkjanna heldur en meðal hækkun í heimshöfunum. Flóðin miklu í New York og New Jersey, sem fylgdu fellibylnum Sandy í október 2012 eru tengd þessari hækkun.
En hvernig tengist Golfstrumurinn breytingum sjávarborðs meðfram austurstönd Ameríku? Í sterkum straum er sjávarborð hærra í miðjum straumnum en á jöðrunum. Þannig er miðjan á Golfstraumnum meir en meter hærri en sjávarborð við austurströnd Bandaríkjanna. Þetta sést til dæmis á fyrstu myndinni. En takið eftir að árið 2000 var sjávarborð lægra og straumurinn nær landi og sterkari, en árið 2011 var sjavarborð við ströndina hærra og straumurinn veikari. Hið sama er sýnt á skematískan hátt á næstu mynd. Þegar straumurinn hægir á sér þá rís sjávarborð við ströndina.
En það er ekki aðeins sjávarborð, sem er mælikvarði á straumhraðann, heldur er rennsli Golfstraumsins undan ströndum Flórida mælt á ýmsan hátt. Ein aðferðin er að fylgjast með breytingum á rafstraum í rafmagnsköplum á hafsbotni. Þeir liggja milli Bandaríkjanna og Bahamaeyja.
Til að mæla Golfstraumin og aðra strauma hafsins beita haffræðingar einingunni sverdrup. Mælieiningin sverdrup (Sv) er ein milljón rúmmetrar á sekúndu (0.001 km3/s), en þetta er sennilega stærsta mælieining fyrir rúmmál sem vísindin beita. Hingað til hefur Golfstraumurinn verið að meðaltali um 32 Sv undan ströndum Flórida, en nýlega hefur dregið úr straumnum um 36%, niður í um 20 Sv í nóvember 2012. Þetta er ekki einstakt fyrirbæri og gerðist til dæmis einnig árið 1994.
Þessar mælingar á breytingum á rennsli og magni Golfstraumsins eru gerðar undan austur strönd Bandaríkjanna. Hvað gerist norðar, í Norður Atlantshafsstraumnum, sem umlykur Ísland? Hvaða áhrif hefur það á Ísland? Hvað er það sem veldur þessum breytingum á Golfstraumnum? Sumir segja að það kunni að vera vegna þess að djúpi og kaldi suður straumurinn meðfram hafsbotni milli Íslands og Grænlands sé að hægja á sér.
Hafið | Breytt s.d. kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Áhrif hnattrænnar hlýnunar á fiskveiðar
12.2.2013 | 20:39
Hvaða áhrif mun hnattræn hlýnun hafa á fiskveiðar í norðri? Þetta er stór spurning fyrir íslendinga, en fátt er um svör. Nýlega var haldin ráðstefna í Tromsö, sem var helguð þessu mikla vandamáli, en um fimmti partur af öllum fiskafla heims kemur frá norðurslóðum.
Það eru margar hliðar á þessu vandamáli. Hnattræn hlýnun orsakar mildara loftslag, hitar sjóinn, kann að hafa áhrif á hafstrauma og mun minnka súrefnismagn í hafinu. Hnattræn hlýnun er töluvert meiri á norðurslóðum en annarsstaðar á jörðu. Árin 1951 til 1980 hækkaði til dæmis meðal hiti jarðar um 0,5 stig en 2 stig á norðurheimskautssvæðinu. Það sem við sjáum strax gerast í dag er að hafís dregst saman ár frá ári og hnattræn hlýnun er að svifta íshellunni ofan af Íshafinu. Þá kemur fram í dagsljósið mikið nýtt hafsvæði. Er það vænlegt til fiskveiða? Margir halda að svo sé ekki. Íshafið er mjög djúpt, um 4000 metrar víða, og virðist vera dautt. Lítið um svif og átu og lítill fiskur, helst pólarþorskur.
Hlýnunin hefur mikilvæg áhrif á efnafræði hafsins. Þegar sjór hlýnar, þá minnkar súrefnismagn hafsins, eins og fyrsta myndin sýnir. Sama er að segja um koltvíoxíð, en uppleysanleiki þess minnkar í heitari sjó. Báðir þessir þættir geta haft neikvæð áhrif á lífríkið í hafinu. En málið er ekki alveg svo einfalt, því að hækkandi magn af koltvíoxíð í andrúmslofti getur orsakað hærra magn í hafinu einnig. Það er talið að hafið taki við um fjórða parti af öllum útblæstri okkar mannkynsins af koltvíoxíði og þess vegna er mjög mikilvægt að rannsaka örlög koltvíoxíðs í hafinu. Vaxandi koltvíoxíð gerir hafið súrara og það hefur áhrif á lífríkið, einkum á skeldýr þar sem skelin getur bókstaflega leyst upp í súrari sjó. En sjórinn virðist nú taka við stöðugt minnkandi magni af koltvíoxíði, eins og bláa línan á senni myndinni sýnir.
Hvaða áhrif hafa þessar breytingar á fiskistofna? William W. L. Cheung og félagar hafa gert líkön af þróun um 600 fisktegunda í hafinu við hlýnandi loftslag, þar sem sjávarhiti, minnkandi súrefni og breytingar á koldíoxíð eru teknar til greina. Þeir telja að árið 2050 muni stærð einstaklinga í flestum fisktegundum hafa minnkað um 14 til 24% miðað við árið 2000. Það er minnkandi súrefnisinnihald hafsins sem hefur hér sennilega mest áhrif.
Samt sem áður telja Cheung og félagar að fiskaflinn í norðurhöfum muni vaxa í framtíðinni, eins og sýnt er á síðustu myndinni. Þar er gert ráð fyrir meiri afla á svæðum sem nú eru undir hafís, en það verður smærri fiskur. Þeir spá um 10 til 15% meiri afla fyrir Ísland næstu árin vegna hnattrænnar hlúynunar. Stærra veiðisvæði, smærri fiskar en ef til vill fleiri. Annað sem veldur áhyggjum er að því er spáð, að fisktegundir muni flytja sig norðar í leit að kaldari sjó, og jafnvel um 30 til 40 km norðar á hverjum áratug. Það mun því gjörbreyta fiskstofnunum á Íslandsmiðum, ef sú spá rætist.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Elsta dýr jarðar var íslenskt
30.1.2013 | 17:58
Alþjóð veit, að síðasti geirfuglinn var drepinn á Íslandi árið 1844. Hitt er kannske ekki svo vel þekkt, að íslendingar drápu einnig elsta lifandi dýrið, sem þekkist á jörðu. Það gerðist árið 2007, þegar rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson dró upp trollið af 83 metra dýpi skammt frá Grímsey. Út úr trollinu valt þá brúnleit kúfskel á þilfarið, um 11 cm á breidd. Mynd af henni er hér til hliðar. Hún var greind til aldurs af breskum vísindamönnum með því að telja árhringi í skelinni og með geislakolaaðferð og kom þá í ljós að hún var 507 ára gömul. Það með er, eða öllu heldur var, hún elsta lifandi dýr jarðarinnar.
Kúfskel eða Arctica islandica (Linnaeus 1767) er nokkuð algeng tegund umhverfis Ísland og þekkt fyrir að ná mjög háum aldri. Hún lifir í hafsbotninum þar sem hún grefur sig niður í sand eða leir, þar sem aðeins röndin stendur uppúr og hreyfir sig lítið alla æfina. Þá standa aðeins öndunarfærin uppúr sandinum, eins og þessi ágæta mynd sýnir hér til hægri, eftir Arnodd Erlendsson. Hún andar sjó inn um stærra opið, en út um það minna.
Skelin stækkar hratt yfir sumartímann en lítið eða ekkert á vetrum. Þess vegna koma fram greinilegir árhringir, eins og í trjám. Skelin er mjög útbreidd og töluvert er veitt af henni um allan heim. Í Bandaríkjunum er aflinn af þessari tegund af kúfskel til dæmis um 20 þúsund tonn á ári. Talið er að heildaraflinn af kúfskel í heiminum sé um 150 þúsund tonn á ári.
Þegar fréttin barst út um þennan merka fund við Grímsey, þá vakti það mikla athygli meðal þeirra vísindamanna, sem rannsaka öldrun og elli, einkum í Bretlandi og Þýskalandi. Hvað er það, sem gerir kúfskelinni fært að lifa svona lengi? Er hér að finna lífsins elixír, sem gæti ef til vill gefið okkur eilíft líf, eða alla vega lengara líf?
Rannsóknir á skelinni frá Grímsey hafa þegar sýnt að kúfskelin er að nokkru leyti sérstæð lífvera. Hún inniheldur nefnilega fremur hátt magn af andoxunarefni allt sitt líf. Það eru sameindir, sem draga úr eða koma í veg fyrir oxun og kunna að gefa lengra líf. Þetta passar vel inn í hina vinsælu free-radical theory of aging kenningu, en þar er því haldið fram að lausar jónir eins og O2- flýti fyrir öldrun manna. Annað atriði sem einkennir kúfskelina er, að hún hefur mjög lág efnaskifti (metabolic rate) og virðist því vera hálfsofandi allan tímann, einkum á veturna. Rannsóknir halda áfram, en ekki sýnist mér að kúfskelin gefi okkur lausnina um eilíft líf, nema þá fyrir þá, sem vilja eyða lífinu grafnir í leirinn á hafsbotni, innan við 4 stiga hita og hálfsofandi.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sjórinn hitnar
23.1.2013 | 10:40
Það eru meir en eitt hundrað ár síðan menn fóru að mæla hita heimshafanna. Nú hafa þeir
Gouretski og félagar tekið saman öll gögnin og spyrja: er hafið að hitna? Hafið er lengur að bregðast við loftslagsbreytingum en loftið, en hafið er að sjálfsögðu um eitt þúsund sinnum stærri hitageymir en andrúmsloft jarðar. Myndin hér fyrir ofan sýnir gögnin um meðal hitafar allra heimshafanna. Rauðu línurnar eru fyrir meðalhita við yfirborð sjávar (SST), þær bláu er hiti hafsins á 20 metra dýpi. Græna línan á neðri hluta myndarinnar sýnir feril fyrir hita hafsins á 400 metra dýpi. Þar kemur einnig fram hlýnun, sem sýnir að hlýnunin er ekki einungis yfirborðsfyrirbæri. Niðurstaðan er sú, að heimshöfin hafa hitnað að meðaltali um 0,5 til 0,6 oC á einni öld, frá 1900 til 2000.
Breytingar á hita heimshafanna hafa fjölmargar afleiðingar. Hér eru nokkur dæmi. Sjórinn þenst út við að hitna og sjávarborð hækkar af þeim sökum um heim allan. Áhrifin á lífríki eru mjög mikilvæg en að mörgu leyti óþekkt. Við þekkjum vel í hafinu umhverfis Ísland að sumar fisktegundir færa sig um set þegar sjór hitnar, en aðrar koma í staðinn. Hlýnunin hefur einnig bein áhrif á loftslag vegna eðliseinkenna koltvíoxíðs. Uppleysanleiki koltvíoxíðs í hafinu minnkar nefnilega þegar sjórinn hitnar. Þá streymir CO2 gas upp úr sjónum og vex í andrúmsloftinu, sem eykur þannig hlýnun jarðar. Þannig fer á stað jákvæð hringrás (positive feed-back) sem eykur árhrif hlýnunar.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hvaða áhrif hefur Þverun á Kolgrafafjörð?
18.1.2013 | 23:58
Nýlega barst út frétt frá Umhverfisstofnun í Morgunblaðinu hinn 16.1.2013, þar sem fjallað var aftur um Kolgrafafjörð. Þar er því haldið fram að vatnsskipti í dag séu óbreytt frá því sem var fyrir þverun fjarðarins. Þessi staðhæfing gefur því í skyn að þverunin eigi engan þátt í dauða síldarinnar í firðinum. Þetta er ekki rétt. Árið 2012 kom út fróðleg 23 blaðsíðna skýrsla Vegagerðarinnar um Þverun Fjarða og eru þar einkar gagnlegar mælingar á straumum um fjörðinn.
Árið 2004 var ný brú opnuð yfir Kolgrafafjörð. Vegurinn er að miklu leyti grjótvarin vegfylling þvert yfir mynni fjarðarins, sem er um 1700 metrar á lengd. Við vestur enda grjótfyllingarinnar er brú með vatnsop, sem er um 150 metrar á lengd. Vatnsskipti inn og út úr Kolgrafafirði eru því um op sem er tæplega einn tíundi af því sem áður var. Eitthvað af sjó mun einnig síast í gegnum grjótgarðinn.
Í skýrslunni frá 2012 um þverun kemur í ljós, að vatnsskipti fjarðarins við úthafið eru ófullkomin og ná ekki jafnvægi milli flóðs og fjöru. Munur á sjávarhæð á fjöru innan og utan þverunar er 9 cm í Kolgrafafirði, samkvæmt skýrslunni. Það er að segja að vatn í firðinum stendur hærra og nær aldrei að falla alveg út áður en næsta flóð hefst. Á meðalstórstraum var mesta rennsli á útfalli áður 2710 m3/s en er nú 2830 m3/s. Sjávarfallasveiflan utan þverunar er 4,2 m.
Þessi ófullkomnu vatnsskifti í firðinum geta haft margvísleg áhrif. Þverun fjarða hefur óhjákvæmilega áhrif á eðliseiginleika sjávar, einkum sjávarföll, strauma, öldur, setflutning, súrefnismagn og seltu. Allir þessir þættir eru hluti af vistkerfinu í firðinum og þannig myndast samspil eðlisþátta sjávar og líffræðilegra þátta. Það eru því til gögn, sem sýna léleg vatnsskifti í Kolgrafafirði. Hafa léleg vatnsskifti orsakað lægra súrefnismagn í sjó innan fjarðarins? Er það skýring á síldardauðanum? Þetta er enn tilgáta, en allt virðist benda í þá átt.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)