Olíuleit á norðurslóðum er hættuleg


 

shells-kulluk-drillship-w-008.jpgÍ janúar strandaði olíuborskipið Kulluk nærri Kodíak eyju í Alaska í miklum stormi, eins og myndin sýnir. Skipið er eign Shell olíufélagsins, sem hefur unnið að mikilli könnun á hugsanlegum olíulindum á hafsbotni umhverfis Alaska.   Í kjölfar strandsoins og svipaðra óhappa hefur Shell nú hætt olíuleit á hafsbotni á norðurslóðum í ár en undanfarin ár hefur Shell eytt $5 milljörðum í olíuleit á botni Chukchihafs og Beauforthafs.

Margir hafa bent á að olíuvinnsla á íshafinu er hættuleg og kann að valda miklum vandamálum fyrir allt umhverfið í norðri. Tíðir stormar, hafís og ýmsar erfiðar aðstæður gera líkur á slysum og óhöppum mun líklegri, alveg eins og íslenskir sjómenn þekkja vel. 

 

Skoska olíufélagið Cairn hefur einnig lent í hrakförum í olíuleit við strendur Grænlands.  Cairn er með 11 svæði frátekin hér á hafsbotni, alls um 80 þús ferkílómetrar.  Undan vestur strönd Grænlands hafa þeir borað árið 2011, þar sem dýpi er um 1500 metrar. Hér var borað  frá júlí til nóvember árið 2011 og engin olía hefur fundist enn, hvorki hér né á öðrum svæðum sem Cairn hefur eignað sér.  Kostnaður við borun Cairn er nú yfir $1,2 milljarðar og hafa þeir nú hætt olíukönnun á hafsbotni við Grænland.  Eitt atriði var mikil áhætta vegna borgaríss og hafíss, en einnig veðurfar á þessum slóðum.   Mesti óttinn meðal náttúrunnenda er þó ekki afdrif skipa olíufélaganna, heldur þau gýfurlegu umhverfisáhrif sem geta orðið þegar bormenn missa stjórn á olíubrunni á hafsbotni, eins og gerðist hjá BP í Mexíkóflóa þegar Deepwater Horizon olíupallurinn sprakk árið 2010 og mengaði allar strendur umhverfis.   Það er greinilegt að olíufélög hafa ekki einu sinni góða stjórn á olíulindum sínum á hafsbotni í hitabletinu, hvað þá heldur í íshafinu. Þetta skal einnig haft í huga þegar rætt er um draumóra varðandi Drekasvæðið.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Íslendingar eitt ríkja sem vinnur ekki olíu er eitt ríkja sem brautryðjandi í olíuvinnslu á íshöfum. Þeir hafa ekki miklar áhyggjur. Norðmenn vissu hvað þeir voru að gera með því að hafa Íslendinga í fararbroddi ef einhvað kemur fyrir.    

Valdimar Samúelsson, 1.3.2013 kl. 18:03

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í fyrirsögn blaðagreinar ráðherra um olíuvinnslu á Drekasvæðinu var ekki minnst á vinnslu, heldur aðeins á það að um væri að ræða leyfi til leitar. Þurfti að fara í smáaleitrið í greininni til að sjá að þetta væri leyfi til leitar og vinnslu. Þetta leyfi var gefið án þess að nokkur marktæk umræða eða upplýsingagjöf hafi farið fram hér á landi. Þrátt fyrir alla varnagla um "ströng skilyrði" o. s. frv. er ljóst, að þeir sem keyptu þetta leyfi munu telja sig eiga kröfu á skaðabótumum upp á tugi milljarða ef Íslendingar makka ekki rétt. Einu rannsóknirnar sem komu fram með einhverjar upplýsingar voru fólgnar í skoðanakönnun þar sem fram kom að 80% spurðra vildu olíuvinnsluna og "málið dautt",- þarf ekki að ræða það frekar.

Ómar Ragnarsson, 1.3.2013 kl. 19:07

3 identicon

Sammála. Í köldum sjónum brotnar olían líka mikið hægar niður en í heitum sjó.

Ástæðan fyrir fyrirhugaðri olíuleit Íslendinga á þessu svæði er annars græðgi og hins vegar hræsni. Græðgin felst í því að hirða ekki um aðstæður á þessu svæði og afleiðingarnar og hræsnin í því heimila olíuvinnslu fjarri heimahögum. Við höfum miklar birgðir af hreinni orku sem veldur ekki gróðurhúsaáhrifum og eigum að nýta þær í mun meira mæli þannig að draga megi úr neikvæðum áhrifum mengandi orkuvera annars staðar í heiminum.

Torfi Hjartarson (IP-tala skráð) 1.3.2013 kl. 20:30

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ómar hittir naglann á höfuðið. Það hefur engin umræða farið fram á Íslandi um kosti og galla á olíuleit á hafinu umhverfis land okkar.  Íslendingar sjá aðeins hugsanlegan gróða en virða að vettugi eð vita ekkert um vandamálin, sem kynnu að fylgja í kjölfarið.  Framámenn eða svokallaðir sérfræðingar eru allir tengdir málinu á pólítiskan hátt og fjalla aðeins um eina hlið málsins.

Haraldur Sigurðsson, 1.3.2013 kl. 20:57

5 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ég held að stjórnvöld hafi klúðrað þessu og leiðinlegt að "grænasti" flokkur landsins hafi verið við stýrið þegar það gerðist..

Höskuldur Búi Jónsson, 5.3.2013 kl. 10:47

6 identicon

Er ekki ráð að halda um þessi mál gott málþing á Íslandi Haraldur? Til að ná eyrum fólks þarf málstaðurinn á vísindamönnum eins og þér að halda.

Sigrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 6.3.2013 kl. 02:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband