Færsluflokkur: Eldgos

Hraunkúlur

Hraunkúla RauðakúlaÖðru hvoru rekst maður á risastórar kúlur í grennd við eldfjöll, eins og þessa myndarlegu kúlu á myndinni til hliðar. Þessi kúla, sem er um 5 metrar á hæð og um 10 metra löng, er rétt sunnan við gjallgíginn Rauðukúlu (917 m) eða Miðhraunskúlu í Ljósufjöllum á Snæfellsnesi. Lengi var haldið, jafnvel meðal jarðfræðinga, að slíkar kúlur hefðu kastast eins og risavaxnar fallbyssukúlur upp úr gígum, borist langa leið í loftinu og skollið síðan til jarðar. Einn þekktur eldfjallafræðingur benti á slíkar kúlur í grennd við eldfjallið Arenal í Costa Rica eftir gosið mikla 1968, og reiknaði út að krafturinn sem þurfti til að skjóta þeim út úr gíginum var ótrúlegur. Hann beitti þeim reikningum til að sýna að kúlurnar hefðu verið á hraða sem nemur 600 m á sekúndu, og reyndi að sanna út frá þessu stærð gossins. En þetta er einfaldlega rangt. Kúlur sem þessi í grennd við Rauðukúlu fljúga ekki frá eldfjallinu eins og fallbyssukúlur, vegna sprengikrafts gossins, heldur rúlla þær niður hlíðarnar og er hreyfikraftur þeirra því aðeins þyngdarlögmál jarðar.  Hraunkúla LjósufjöllÞegar líða tók á gosið var gígurinn orðinn mjög hár, en hraun safnaðist saman í gígnum þar til það tók að renna yfir gígbrúnina. Hlíðin sem hraunið rann niður var þá svo brött að hraunið festist lítt eða ekki við hlíðina heldur tók að hrynja niður brattann. Þá tóku hraunflygsur að hlaða meira hrauni utan á sig, alveg á sama hátt og snjóbolti stækkar við að rúlla niður brekku. Að lokum var kúlan orðin risastór þegar hún stöðvaðist við rætur gígsins fyrir utan. Samanburðurinn við rúllandi snjóbolta er einmitt ágætur og skýrir fyrirbærið mjög vel. En stundum rekst maður á tilfelli í hlíðum eldfjalla þar sem risastórar rúllur eru algengari en kúlur af þessu tagi. Besta dæmið um hraunrúllur, sem ég hef séð á jörðu er í hlíðum Hestöldu fyrir norðaustan Heklu. Hér eru risastórar rúllur, í laginu eins og rúllutertur, undir hlíðum öldunnar, og hafa myndast á sama hátt og kúlan á myndinni. Sem sagt: kúlur og rúllur hafa ekkert að gera með sprengikraft gossins, heldur eru tengdar því að hraun berst niður mjög brattar hlíðar gígsins. Reyndar geta þær skoppað og hoppað ef hraði þeirra verður mikill, og þannig myndað litlar dældir eða gígi í landslagið, en þetta eru ekki fallbyssukúlur sem skjótast upp úr gígnum.

Eyjar Salómons: Ferðasaga úr Suðurhöfum

KavachiLaugardaginn 21. apríl flyt ég erindi um ferð mína til Salómonseyja nýlega. Erindið verður flutt í Eldfjallasafni í Stykkishólmi og hefst kl. 14. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis. Upplagt fyrir fólk í höfuðborginni að skreppa vestur og njóta alls þess sem Stykkishólmur hefur uppá að bjóða.

Hættuleg eldfjöll neðansjávar

Myojin-ShoVið erum nú á ferð umhverfis Kavachi neðansjávareldfjall í Salómonseyjum. Fyrir norðan er Kyrrahafið en fyrir sunnan okkur er Kórallahafið. Þegar við siglum í grennd við Kavachi kemur mér streax í hug neðansjávareldfjallið Myojin-Sho í hafinu fyrir sunnan Japan. Þar var eldgos á hafsbotni árið 1952 og öðru hvoru árið 1953. Allt virtist ver með ró og spekt hinn 24. september 1953, þegar japanska hafrannsóknaskipið Kaiyo Maru No. 5 sigldi inn á svæðið. Þeir sigldu yfir gíginn til að mæla dýpið. Allt í einu varð mikil sprenging, og skipið fórst með allri áhöfn. Um borð voru 31 manns, bæði áhöfnin og níu jarðvísindamenn sem voru að rannsaka eldstöðina.  Myojin-Sho kortMyndin sýnir eina af sprengingunum árið 1953, sem líkist mjög virkninni í Surtseyjargosinu 1963.  Þegar leitað var, þá fannst aðeins spýtnabrak úr skipinu, með steinum og vikri sem hafði stungist fast inn í viðinn við sprenginguna.  Seinni myndin sýnir gíginn á hafsbotni, eins og hann lítur út í dag. Ég ætla því að fljúga fyrst yfir Kavachi neðansjáareldfjallið í þyrlu í dag, áður en við siglum inn.

Leirhnúkurinn Garbuna

GarbunaEitt af eldfjöllum Papua Nýju Gíneu er Garbuna, sem er um 564 metrar á hæð. Síðast gaus það árið 2008 og þá kom upp dasít hraun. Efri hluti fjallsins er allt gegnumsoðið af jarðhita, og er því einskonar leirhnúkur. Víða streymir brennisteinsgas út úr berginu, og litar fjallið gult. Einnig vinnur brennisteinssýran á berginu og leysir það upp og breytir því í leir. Hér er eitt stærsta jarðhitasvæði Nýju Gíneu. Við lentum þyrlu á toppnum í dag til að kanna fjallið frekar, og þá var þessi mynd tekin.

Eldfjöll í Nýju Gíneu

TavurvurFurðuleg og fremur einföld eru nöfn sumra eldfjallanna í Nýju Gíneu. Tökum þessi sem dæmi: Blupblup, Bagabag, Bam, Manam, Pago, Lolobau, Loluru og Karkar. Myndin fyrir ofan er af Tavurvur eldfjalli, sem er í jaðri öskjunnar Rabaul. Appelsínu guli liturinn í sjónum er vegna hveravirkni við ströndina. Hér var mikið gos síðast árið 1994.

Þegar Öskjuvatn myndaðist

Myndun ÖskjuvatnsÁrið 1875 hófst eldgos í Öskju.  Það voru bændur í Mývatnssveit sem fyrst tóku eftir eldsumbrotum inni í Dyngjufjöllum í ársbyrjun. Hinn 16. febrúar fóru fjórir menn úr Mývatnssveit yfir Ódáðahraun og komu í Öskju. Þeir sáu stóran gíg í suðri en þá hafði ekki enn sigið sú stóra landspilda sem nú myndar Öskjuvatn.  Skömmu síðar hófst sprungugos í Sveinagjá, um 50 km norðan Öskju, en gjáin er hluti af sprungusveim Öskjueldstöðvarinnar. Gosið í Sveinagjá var vegna kvikuhlaups ofarlega í jarðskorpunni, úr kvikuþrónni undir Öskju og til norðurs, alveg eins og Krafla gerði hvað eftir annað frá 1975 til 1984.  Sennilega hefur landspildan yfir kvikuþrónni í Öskju þá sigið til að mynda Öskjuvatn.  Hinn 20. mars 1875 hófst mikið sprengigos í Öskju, sem dreifði ösku og vikri yfir allt Austurland.  Askan barst einnig til Noregs og Svíþjóðar.  Öskufallið um vorið hafði mikil áhrif á beitarland á Austurlandi, bæir fóru í eyði og gosið ýtti þannig undir flutning vesturfara til Norður Ameríku.

Öskjuvatn er yngsta caldera eða askja á Jörðu og er því mjög merkilegt fyrirbæri fyrir vísindin. Hún er lítil askja inni í stórri öskju.  Við vitum dálítið um gang mála í Öskju og myndun sigdældarinnar sem nú inniheldur Öskjuvatn. Myndin sem fylgir er línurit um myndun Öskjuvatns, byggt á ýmsum kortum og teikningum ferðamanna sem Ólafur Jónsson tók saman.  Myndin er úr nýútkominni bók minni Eldur Niðri (2011).  Lóðrétti kvarðinn er flatarmál nýju öskjunnar, í ferkílómetrum.  Á myndinni kemur fram að sigdældin myndaðist ekki í einum hvelli, heldur hefur hún myndast á nokkrum mánuðum.  Sigið hefur sennilega verið að mestu búið árið 1880, eða innan fimm ára frá gosi. 

Varðandi umræður um það, hvort Öskjuvatn sé að hitna, þá er vert að hafa það í hug að skjálftavirkni hefur verið fremur lítil á svæðinu enn sem komið er.  En næsta blogg mitt fjallar um skjálftana.


Er Öskjuvatn að hitna?

Dýptarkort af ÖskjuvatniÞað vekur athygli í fjölmiðlum, að nú er Öskjuvatn íslaust. Vatnið er um 4,4 km á breidd og um 220 m djúpt, en það myndaðist við mikið ketilsig í kjölfar Öskjugossins árið 1875. Öskjuvatn var mælt af Sigurjóni Rist og félögum árið 1975, en Jón Ólafsson efnafræðingur birti merka grein um eðli og efni vatnsins árið 1980.  Svörtu púnktarnir á kortinu sýna mælistöðvar hans. Kort Sigurjóns af vatnsbotninum er hér til hliðar. Volgrur á botni og við ströndina vestan og suðvestan vatnsins mældust allt að tíu stig og yfirborðshiti vatnsins um 7 stig árið 1980. Á eða við vatnsbakkan eru víða volgrur með allt að 84 stiga hita. Það er því ljóst að vatnið hefur lengi verið óvenju heitt og að jarðhiti er töluverður. Guðmundur Sigvaldason benti á 1964 að sum svæði væru íslaus á vatninu yfir veturinn, en að öðru leyti kortir upplýsingar um ísalög á þessu afskekkta vatni. Það kemur því ekkert á óvart að vatnið sé íslaust nú í byrjun apríl. Nú verður fróðlegt að sjá hvort mælingar sýni hærri hita en árið 1980, eða hvort það er mælikvarði um hlýnandi veðurfar að Öskuvatn er nú laust við ísinn snemma vors. En svarið við spurningunni hér fyrir ofan: Er Öskuvatn að hitna?  er þá þessi: Það hefur alltaf verið heitt frá upphafi.Öskjuvatn

Ný Eyja í Rauðahafinu

NASAÞað er ekki á hverjum degi að ný eyja myndast á Jörðu. Einn þekktasti atburður á tuttugustu öldinni var fæðing Surtseyjar árið 1963, og var eldgosið í hafinu undan Vestmannaeyjum mikil lyftistöng fyrir vísindin á margvíslegan hátt. Ný eyja hefur nú komið í ljós í Rauðahafinu, í kjölfar á eldgosi sem hófst um miðjan desember 2011. Fyrsta myndin er frá gervihnetti NASA og sýnir gosmökkinn yfir nýju eynni. Það sama gerðist hér undan ströndum Yemen og við Vestmannaeyjar: það voru sjómenn sem uppgötvuðu gosið. Nú er eyjan orðin um 530 metrar á breidd og 710 metrar á lengd, og heldur áfram að stækka vegna stöðugra sprenginga, sem hlaða upp ösku umhverfis gíginn. Einnig hefur basalthraun runnið frá gígnum. Þessi tegund af spregigosi er nefnd surtseyjan á máli vísindanna, til heiðurs Surtseyjar, þar sem þetta fyrirbæri var fyrst kannað. Önnur mynd sýnir sprengivirknina og gosmökkinn.  surtseyjanHvers vegna er eldgos í Rauðahafinu? Undir hafinu eru um 2000 kílómetra löng flekamót milli Afríkuflekans fyrir vestan og Arabíuflekans í austri. Flekarnir gliðna sundur á um 20 millimetra hraða á ári, eða svipað og hreyfing flekanna undir íslandi. En hreyfingin er ekki eingöngu gliðnun, heldur flóknari, eins og kortið sýnir. redsea-plates-usgs-285Arabíuflekinn mjakast til norður en Afríkuflekinn til vesturs. Fyrir jarðvísindin er Rauðahafið besta dæmið um það, hvernig meginlandsskorpa rifnar og gliðnar, og úthaf myndast. Það er því gliðnun og samfellt gosbelti eftir botni Rauðahafs endilöngum, en beltið kemur upp á yfirborð hafsins aðeins í suður hlutanum, þar sem það myndar Jebel Zubair eyjar. Nýja eyjan sem kom í ljós í desember 2011 liggur á milli Haycock og Rugged eyja, en í suðri er Saddle eyja, sem gaus á nítjándu öldinni. Fjórða myndin er kort af eyjaklasanum. Gosbelti Rauðahafsins er nátengt eldvirkni í vestur hluta Arabíu og alla leið til Sínaí skaga.  Ég hef bloggað um þau eldfjöll áður hér http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/991740/ZubMap

Haraldur á CBS News

CBS NewsÍ dag sýndi CBS News sjónvarpsstöðin í Bandaríkjunum myndefni sem ég vann að ásamt Scott Pelley. Hann fór með mér ða Eyjafjallajökul á meðan á gosinu stóð í fyrra. Meiningin var að sýna efnið á þættinum 60 Minutes, en nú er Scott fluttur milli deilda og styrir kvöldfréttum CBS. Hér má sjá myndefnið með okkur Scott: http://www.youtube.com/watch?v=xz99nuPURXA

Óróinn á ný undir Kötlu

UppsafnFjöldi2011Undanfarna daga hafa fjölmiðlar fjallað um óróa undir Mýrdalsjökli og margir spurt um líkurnar á Kötlugosi í því sambandi. Ástæðan fyrir vaxandi áhyggjum eru tengdar hlaupóróa og litlu hlaupi í Múlakvísl 6. september, og þó einkum aukinni skjálftavirkni undir Mýrdalsjökli nú seinni part sumars. Línuritið til vinstri sýnir skjálftavirkni undir Mýrdalsjökli frá 1. maí 2011. Þetta er uppsafnaður fjöldi skjálfta á hverju svæði, samkvæmt gögnum Veðurstofu Íslands. Hér er skjálftafjöldinn á hverju svæði sýndur með einkennislit: Mýrdalsjökulsaskja (rautt), Goðabunga (grænt), Eyjafjallajökull (blátt), Torfajökull (fjólublátt). Skjálftafjöldinn undir Mýrdalsjökli byrjaði að vaxa snemma í júlí og hefur sú tíðni á skjálftum haldist nokkuð stöðugt síðan. Hér er um mikla aukningu að ræða í samanburði við árið áður. Önnur mynd sýnir uppsafnaðan fjölda skjálfta tólf mánuðina á undan: maí 2010 til maí 2011. Hér er Mýrdalsjökull með aðeins um 300 skjálfta, samanborið við tæplega 900 skjálfta frá maí til september á þessu ári. Þessi mynd sýnir vel hvernig dró úr skjálftafjölda undir Eyjafjallajökli um mitt sumar 2010, og hefur mjög lítil skjálftavirkni verið þar síðan.  Katla2010 2011Hins vegar var Goðabunga virkust varðandi skjálfta á þessu 12 mánaða tímabili sem lauk í maí 2011, og hefur Goðabunga haldið að skjálfta með svipaðri tíðni síðan. Það eru auðvitað hallabreytingar á þessum línuritum sem skifta mestu máli: brattari kúrva sýnir aukna tíðni skjálfta, en flöt kúrva sýnir lága eða minnkandi tíðni. Eins og áður, þá geta allir lesendur fylgst með skjálftavirkninni á rauntíma á ágætum vef Veðurstofunnar. Slík vöktun almennings á gangi í jarðskorpunni á rauntíma er hvergi möguleg, nema á Íslandi. Íslendingar geta verið hreyknir af þessari ríkisstofnun og það er mjög ánægjulegt að það sé ekki enn búið að eyða henni með einkavæðingu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband