Daginn sem Demöntum ringdi yfir Ísland
24.2.2010 | 18:53


Áður en við snúum okkur að þeirri kenningu, þá vil ég fjalla aðeins meir um þetta merkilega stig í jarðsögunni. Fyrir um 15 þúsund árum var ísöld að ljúka og þá tók við hlýtt stig sem nefnist Bolling/Alleröð, með loftslag svipað og er í dag. En fyrir um 12.900 árum kólnaði mjög skyndilega aftur á öllu norðurhveli jarðar, og yngra holtasóleyjarstigið gekk í garð, með loftslag líkt og á ísöld. Nýjustu rannsóknir á ískjörnum frá Grænlandsjökli sýna að kólnunin var ótrúlega hröð, eins og myndin frá Steffensen og félögum (2000) sýnir. Í gluganum sem er merktur B á myndinni sést að kólnunin þegar holtasóleyjastigið hefst hefur orðið á aðeins einu eða tveimur árum og þá hefur kólnað um tíu gráður.
Gluggi A á myndinni til vinstri er frá Steffensen og sýnir að hlýnun í lok holtasóleyjastigsins var einnig mjög hröð, eða sennilega um þrjú ár. Byrjun og endir á holtasóleyjarstiginu eru dýpstu og hröðustu loftslagssveiflur þem þekktar eru. Á Íslandi gengu jöklar fram á þessu stigi og þá mynduðust jökulgarðar á Suðurlandi sem eru nefndir Búðagarðar og kenndir eru við Búðastig. Skriðjökull mun þá hafa gengið niður Fossárdalinn.
Hvað var að gerast erlendis á þessum tíma? Myndin fyrir ofan sýnir snið af jarðvegi í Arizona fylki í Bandaríkjunum, en jarðvegurinn er frá yngra holtasóleyjarstiginu. Undir svarta laginu fannst hér heil beinagrind af fullorðnum mammút eða loðfíl. Einnig fannst hér eldstóð, örvaroddar og ýmsar minjar frá Clovis fólki sem var uppi á þeim tíma. Um þetta leyti verður mikill útdauði á stóru spendýrunum í Norður Ameríku, og tegundir eins og sverðkettir, loðnir nashyrningar, mammútar eða loðfílar, mastódonar og toxódonar hurfu af sjónarsviðinu. Alls hurfu 35 tegundir af stórum spendýrum á þessum tíma. Orsök þessa mikla útdauða hefur lengi verið mikil ráðgáta. Mannfræðingar héldu fram þeirri kenningu að dýrin hefðu orðið veiðimönnum að bráð þegar menn fluttust fyrst úr Síberíu og yfir landbrúna á Bering sundi milli Alaska og Síberíu í lok ísaldar til Norður Ameríku fyrir um fjórtán þúsund árum. Þarna á ferðinni voru forfeður Clovis manna, en þeir gerðu einhver fegurstu vopn sem um getur. Örvar og spjótsoddar þeirra voru gerð úr tinnu og eru mikil listaverk, eins og myndin fyrir neðan sýnir.
En snúum aftur af myndinni fyrir ofan, sem sýnir jarðvegssniðið í Murray Springs í Arizona. Svarta lagið er áberandi, en það finnst víða í jarðvegi í Norður Ameríku. Rannsóknir sem R.B. Firestone og félagar birtu árið 2007 sýna að svarta lagið er 12.900 ára að aldri, sem sagt frá byrjun yngra holtasóleyjastigsins. Grein þeirra má finna hérna. Svarta lagið inniheldur sót, örsmáar glerkúlur, mikið magn af málminum iridíum, og einnig af örsmáum demöntum. Það er viðat að árekstrar loftsteina eða halastjarna á jörðu geta myndað svo háan þrýsting að örsmáir demantar, eða nanódemantar myndast, og þeir hafa einmitt fundist í seti á mörkum Krítar og Tertíera tímabilsins, þegar risaeðlurnar urðu útdauðar vegna loftsteinsáreksturs. Jöklafræðingurinn Paul Mayewski og félagar héldu næst til Grænlands og tóku sýni af ísnum sem myndaðist á yngra holtasóleyjarstiginu. Viti menn: í ísnum á Grænlandi fundu þeir töluvert magn af nanódemöntum, alveg eins og þeim sem fundust í Norður Ameríku.
Halastjörnukenningin sem er að þróast meðal vísindamanna er því sú, að fyrir 12.900 árum hafi halastjarna rekist á norðurhvel jarðar, sennilega í Norður Ameríku. Efni sem kastaðist upp í andrúmsloftið við áreksturinn dró úr sólargeislun til jarðar og orsakaði mjög snögga kólnun. Við áreksturinn breyttist karbon eða kolefni í halastjörnunni í nanódemanta, sem rigndi niður yfir allt norður hveli jarðar, en samkvæmt því ætti að vera mögulegt að fina slíka nanódemanta í jöklum Íslands. Loftslagsbreytingin og önnur áhrif árekstursins á gróðurfar og umhverfið orsökuðu útdauða stóru spendýranna. Ekki eru allir sáttir við þessa kenningu, langt því frá. Hvar er gígurinn eftir áreksturinn? Var árekstur, sem ekki skilur eftir sig gís, nógu kraftmikill til að orsaka loftslagsbreytingar og útdauða? Vísindamenn eru að eðlisfari íhaldssamir, varkárir og tortryggnir gagnvart nýjum kenningum. Það mun því taka nokkur ár í viðbót að finna gögnin sem kunna að styðja eða þá að rífa niður að grunni halastjörnukenninguna, en þetta er óneitanlega spennandi tími í rannsóknum á þessu sviði. Bloggheimurinn er fullur af heitum deilum varðandi yngra holtasóleyjarstigið og halastjörnuna, til dæmis hérna og hérna.
Vísindi og fræði | Breytt 3.3.2010 kl. 18:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Háhitasvæðin og Grænsteinn
23.2.2010 | 18:49



Þegar ég bloggaði hér fyrir neðan um jarðskorpuna hinn 20. janúar 2010 þá fjallaði ég lítið eitt um myndbreytingu bergs undir Íslandi og hitaferilinn, eða hvernig hitinn eykst eftir því sem dýpra er farið. Myndin hér sýnir aftur hlutfallið milli hita og dýpis í skorpunni, og rauðu breiðu línurnar sýna hugsanlegan hitastigul undir Íslandi. Annar hitastigullinn á myndinni fer einmitt í gegnum reit á myndinni sem er merktur greenschist, eða grænsteinn. Samkvæmt því ætti hitinn á um 2 km dýpi að vera 250 til 400oC, sem er nákvæmlega það sem steindirnar af epídót og klórít segja okkur um grænsteininn á Snæfellsnesi og víðar.
Takið eftir að þar undir, á enn meira dýpi og við hærri hita, ætti að vera mikið belti af bergtegundinni amfibólít, sem er einnig myndbreytt afbrigði af basalti. Ef myndin er rétt, þá er amfíbólít ein mikilvægasta bergtegund Íslands hvað varðar magnið, en samt er hún nær algjörlega óþekkt hér á landi. Ef til vill mun djúpborun varpa ljósi á það í framtíðinni hvort amfíbólít er ein aðal uppistaðan undir landinu.
Vísindi og fræði | Breytt 21.3.2010 kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Parícutín Eldfjall og David Alfaro Siqueiros
22.2.2010 | 02:55




Vísindi og fræði | Breytt 3.3.2010 kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Leyndardómar Búlandshöfða
21.2.2010 | 17:29
Sagan byrjar sumarið 1902. Dag einn reið í hlað í Mávahlíð á norðanverðu Snæfellsnesi ungur og efnilegur jarðfræðingur. Þetta var dr. Helgi Pjeturss (1872-1949), sem hlaut síðar doktorsgráðu í jarðfræði árið 1905, fyrstur íslendinga. Hann fær fjórtán ára pilt frá bænum í fylgd með sér, Helga Salómonsson, sem síðar varð landsfrægur upplesari í Ríkisútvarpinu og rithöfundur, en hann tók sér síðar nafnið Helgi Hjörvar (1888-1965).
Sveitarpilturinn þekkti vel til í Fróðárhreppi og hann mun hafa bent jarðfræðingnum á forn jarðlög með steingerðum skeljum í fjallinu Búlandshöfða, rétt fyrir ofan Mávahlíð. Þeir byrjuðu að grúska í gilinu beint fyrir ofan bæinn Mávahlíð (sjá mynd) en síðar fóru þeir norður fyrir, upp í sjálfan Búlandshöfðann. Þar með hófst rannsókn Helga Pjeturss á Búlandshöfða og nærliggjandi fjöllum, en hér gerði hann eina af sínum merkustu uppgötvunum.
Á bergbrún Búlandshöfða í um 130 til 150 m hæð fann Helgi Pjeturss jökulrispur á yfirborði blágrýtismyndunarinnar, og ofar fann hann steinrunna jökulurð, sem var vitnisburður um fyrsta jökulskeið hér. Enn ofar fann hann setslög með skeljaleifum, sem sýndu að sjávarstaða hafði verið miklu hærri. Þar ofaná kom grágrýtishraunlag sem var jökulsorfiða að ofan, og þar með vitneskja um annað jökulskeið. Síðari aldursgreiningar hafa sýnt framá að hraunið er um 1,1 miljón ára gamalt, en setlögun sem liggja undir eru allt að 1,8 miljón ára. Efst fann Helgi móbergsfjöllin eins og Höfðakúlur, sem hafa gosið á síðasta jökulskeiði.
En skeljategundirnar í setinu gefa miklar upplýsingar um loftslag og hita sjávar á þessum tímum. Neðri hlutinn á sjávarsetinu inniheldur skeljategundir eins og skelina jökultoddu Portlandia arctica sem bendir til þess að sjór hafi verið mjög kaldur. Efri hluti setsins í Búlandshöfða er siltkennt, og inniheldur það nútímaskeljar eins og krækling, kúskel og nákuðung, sem hafa þrifist í heitari sjó. Í þessum sjávarsetlögum koma því vel fram miklar loftslagssveiflur á ísöld. Ári seinna, 1903, birti Helgi Pjeturss niðurstöður sínar varðandi Búlandshöfða: On a shelly boulderclay in the so-called Palagonite formation of Iceland.
Greinin kom út í vel þekktu tímariti Jarðfræðafélags Bretlands, en Helgi var metnaðargjarn, og hafði snemma áttað sig á því að það var nauðsynlegt að kynna verk sín í hinum enskumælandi heimi. Fyrir hans daga höfðu flest jarðfræðirit um Ísland verið á dönsku eða þýsku. Helgi teiknaði tvö þversnið til að skýra jarðlagaskipan, annað í fjallinu fyrir ofan Mávahlíð, en hitt af Búlandshöfða, sem fylgir hér með. Í jarðlagasniðinu koma vel fram tvær mórenur eða jökulbergslög í gilinu fyrir ofan Mávahlíð.Doktor Helgi minnist sérstaklega á sveitapiltinn Helga Hjörvar neðanmáls í grein sinni í riti breska jarðfræðifélagssins árið 1903, og tekur fram að Helgi Salómonsson hafi fundið ýmsar skeljar, þar á meðal Portlandia arctica. Þess ber að geta að bræður Helga Hjörvar voru allir mjög sérstakir menn: grásleppubóndinn Pétur Hoffmann í Selsvör, Lárus Salómonsson, frægasta lögga allra tíma, og Gunnar Úrsus Salómonsson, sterkasti maður Íslands. Forspil rannsókna Helga í Búlandshöfða hefur sína sögu, sem er tengt þróun jarðfræðinnar. Á nítjándu öldinni uppgötvuðu jarðfræðingar ísöldina, aðallega vegna rannsókna svisslendingsins Louis Agassiz, og lengi var haldið að hún hefði verið eitt samfellt jökulskeið.
Myndin vaf mjög einföld: það kólnaði, jökulskjöldur myndaðist yfir norður og suðurhveli jarðar, og varði í langan tíma, en svo hlýnaði og jökulbreiðan hopaði. En þessi mynd var greinilega of einföld. Í bók sinni The Great Ice Age (1874) taldi skoski jarðfræðingurinn James Geikie að ísöldin skiftist í fimm jökulskeið. Í miklu og útbreiddu riti, sem kom út í þremur bindum árin 1901 til 1909 (Die Alpen im Eiszeitsalter) sýndu þýsku jarðfræðingarnir Albrecht Penck and Eduard Brückner framá að ísöldin var ekki einn samfeldur fimbulvetur, heldur skiftist hún í hlýskeið og fjögur jökulskeið, sem þeir skírðu Günz. Mindel, Riss og Würm það yngsta. Við vitum ekki hvað Helgi Pjeturss var vel lesinn á þessu sviði eða hvort hann hafði greiðan aðgang að erlendum vísindaritum, en alla vega vitnar hann í rit eldfjallafræðingsins Archibald Geikie, sem var bróðir ísaldar-Geikie.

Í framtíðinni munu vonandi fara fram ítarlegar rannsóknir á sögu jarðvísindanna á Íslandi, og ég er fullviss um að þær munu sýna að Helgi Pjeturss var langt á undan sinni samtíð varðandi ísöldina. Umhætti dr. Helga í leiðangri á þessum tíma er fróðlegt að lesa nánar hér
http://www.heimaslod.is/index.php/Blik_1969/Sumardvöl_Dr._Helga_Péturss#
Vísindi og fræði | Breytt 3.3.2010 kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Kvikurennsli og Upptyppingar
19.2.2010 | 22:23





Elstu Sæfararnir? - Fyrstu Túristarnir? Stórkostleg Uppgötvun eða Hvað?
17.2.2010 | 22:32



Vísindi og fræði | Breytt 3.3.2010 kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Eldfjöll sem Mótíf í Arkitektúr
17.2.2010 | 19:59





Vísindi og fræði | Breytt 3.3.2010 kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ástir og Eldgos í Bíó
14.2.2010 | 17:26
Það er Valentínusadagur í dag, og viðeigandi að fjalla um ástir, bíó og eldgos, allt í einum pakka. Í Miðjarðarhafi, milli Sikileyjar og Ítalíu, eru nokkrar eldfjallaeyjar, en tvær þeirra komu mikið við sögu kvikmyndanna árið 1950. Það var á eyjunum Stromboli og Vulkano sem leikkonurnar Ingrid Bergman og Anna Magnani börðust um ást ítalsks leikstjóra og gerðu samnefndar kvikmyndir þetta ár. Ég vil sérstaklega benda ykkur á bíóplaköt frá þessum kvikmyndum, sem eru til sýnis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi.
Sagan byrjar dag einn árið 1948 þegar Roberto Rosselini situr í Róm og er að opna póstinn sinn. Hann les þá eftirfarandi sendibréf frá Ameríku: Kæri herra Rosselini: Ég sá myndir þínar "Open City" og "Paisan" og ég varð mjög hrifin. Ef þig vantar sænska leikkonu sem talar mjög góða ensku, og líka þýsku, og er líka sæmileg í frönsku, en kann aðeins ti amo á ítölsku, þá er ég reiðubúin að koma og vinna með þér. Bestu kveðjur, Ingrid Bergman.Svona einfalt var það í þá daga. Rosselini, sem hafði verið í ástarsambandi við Önnu Magnani í nokkur ár og stýrt henni í kvikmyndum (L´Amore 1948), flaug strax til Ameríku til að hitta sænsku leikkonuna sem var nýbúin að hljóta Óskarsverðlaunin og var þá tvímælalausr frægasta kvikmyndastjarna heims.
Hann fór til Hollywood og fundaði með stærsta framleiðandanum, David O. Selznick, og innan skamms var kominn samingur um að gera myndina Stromboli á Ítalíu árið 1950 með Ingrid í aðalhlutverki. Þegar Anna fær fréttir af þessu fer allt uppíloft. Upphaflega átti hún að fá þetta hlutverk, og nú er hún líka að missa elskhugann í klærnar á sænsku stjörnunni. Anna er alls ekki af baki dottin, og byrjar að gera sína eigin eldfjallsmynd með leikstjóranum William Dieterle, ásamt leikurunum Rossano Brazzi og Geraldine Brooks. Það er kvikmyndin Vulkano sem kom einnig út árið 1950. Eins og kortið sýnir, þá er ekki langt á milli Stromboli og Vulkano eyjanna, aðeins um 50 kílómetrar. En þarna störfuðu þau, nýju elskhugarnir Ingrid og Roberto á sínu eldfjalli, og Anna og hennar lið á Vulkano sumarið 1949. Myndin Vulkano fjallar um gleðikonuna Maddalena Natoli, sem er leikin af Önnu Magnani, sem er dæmd í útlegð frá Napólí, til að eyða æfinni heima í þorpinu sínu á eldfjallseynni Vulkano.
Þegar hún kemur heim, þá er henni ekki vel tekið af systkinum sínum. Eini vinurinn er elskuginn, og kafarinn Donato, sem Rosanno Brazzi leikur. Á þeim dögum var litið á kafara eins og við lítum á geimfara í dag: einskonar ofurmenni. Anna fær vinnu á bát kafarans, en hann fær áhuga á yngri systur Önnu. Hún vill bjarga systur sinni frá smabandi við þennan hættulega mann, og einn daginn, þegar hann er í kafi djúpt á hafsbotni, hættir hún að dæla til hans lofti og drepur hann. Í örvæntingu sinni gengur Anna upp fjallið og niður í gíginn þegar gosið hefst. Þetta var ekki besta mynd Önnu, en árið 1956 hlaut hún Óskarsverðlaunin fyrir myndina Rose Tattoo með Burt Lancaster, en handritið var samið sérstaklega fyrir hana af sjálfum Tennessee Williams.
Anna var sögð afskaplega skapmikil og jafnvel stórir karlar á við stjörnurnar Burt Lancaster og Anthony Quinn, sem léku á móti henni, voru sagðir vera dauðhræddir við hana. En hún var ein allra vinsælasta leikkonan um miðja tuttugustu öldina og talin jafnast á við sjálfa Gretu Garbo. Til dæmis má geta þess að það fyrsta sem rússneski geimfarinn Yuri Gagarin sagði þegar hann útvarpaði úr geimnum til jarðar fyrstur mann árið 1961 var þetta: Ég sendi kveðjur mínar til mannkynsins á jörðu, til heims listanna og til Önnu Magnani. Eyjan Vulkano er stórmerkilegt eldfjall, en þar búa nú um 500 manns. Síðasta gosið var árið 1888, en Vulkano var mjög virkt á átjándu öldinni.
Það eru þrír gígar, sá yngsti er Vulcanello sem myndaðist í gosi 183 f. Kr., næst er Fossa sem var virk 1888, og elst er Il Piano askjan. Eyjan er mjög vinsæl meðal ferðamanna, og í næsta gosi verður stórtjón fyrir þá sem hafa byggt hér fjölda af hótelum undanfarið. Gríski guðinn Æolus, guð vindanna, hafði aðsetur sitt í eldfjöllunum á Isole Eolie, Vindeyjum, og þar var að finna uppruna vindanna, samkvæmt grísku goðatrúnni. Reydar er það alveg lógiskt og mjög skiljanlegt, þar sem kenning forngrikkja um eldgos var sú, að þau væru afleiðing þess þegar vindur brýst út úr jörðinni út um lítið op, sem er gígur eldfjallsins. Það var sjálfur Aristóteles sem setti fram þessa kenningu. Um leið og Anna Magnani var að kæfa Rosanno Brazzi í hafinu rétt hjá Vulkano, þá voru þau hjúin Ingrid Bergman og Roberto Rosselini að hafa það gott á Stromboli rétt hjá. Ferðamönnum sem koma til Strombolí er sýnt fallega litla rauða steinhúsið þar sem hjúin bjuggu saman, og marmaraskilti á útvegg lýsir ástarsambandinu. Afrakstur af því var kvikmyndin Stromboli (1950) og svo litla barnið Robertino Rosselini. Kvikmyndin fjallar um unga flóttakonu, Karin, frá Litháen sem giftist ítölskum sjómanni til að sleppa út úr flóttamannabúðum. Hann fer með hana heim til Stromboli.
Það fyrsta sem hún segir þegar til eyjarinar kemur er: Er það alltaf gjósandi? Svarið er já. Hún er mjög óhamingjusöm og reynir að komast í burt með því að ganga yfir eldfjallið til að reyna að komast í annað þorp og sleppa burt frá Stromboli eyju. Kvikmyndin endar þegar hun er að nálgast gíginn, en við vitum ekki um endanleg örlög hennar. Myndin Stromboli orsakaði eitt mesta hneyksli í sögu kvikmyndanna. Bæði Rosselini og Bergman voru gift öðrum þegar ástarsamband þeirra hófst á eynni, og þegar hún fæddi son þeirra Robertino.
Hinn 14. marz árið 1950 tók senator Edwin C. Johnson frá Kolóradó til máls í efri deild bandaríska þingsins. Hann flutti þá langa ræðu um Ingrid Bergman, og spillingu þá sem hún breiddi nú út með hegðun sinni. Kosning í þinginu gerði Ingrid persona non grata í Bandaríkjunum og hún flúði land og settist að á Ítalíu. Loks snéri hún aftur til Bandaríkjanna sjö árum síðar og tók upp þráðinn aftur þar í Hollywood. En Stromboli heldur áfram að gjósa og það má segja að þetta eldfjall sé það virkasta á jörðu. Ekki er að furða að Stromboli eyja sé oft kölluð viti Miðjraðarhafsins, en her hefur gosið stöðugt í meir en 2500 ár. Gosin eru flest mjög lítil, og gera lítinn usla.

Tvö þorp sjómanna hafa þvi þrifist í hlíðum fjallsins í alda raðir. Upphafið á sögunni um Vulkano og Stromboli kvikmyndirnar var það, að fjórir aðalsmenn á Sikiley fundu upp aðferð til að taka kvikmyndir neðansjávar og vildu gera mynd um kafara. Þeir fengu Rosselini og Önnu Magnani í lið með sér til að vinna að kvikmyndinni.

En svo sveik Roberto Önnu sína, og svo framvegis. Hér fyrir neðan fylgja tvö málverk sem ég eignaðist þegar ég heimsótti Strombólí árið 1990 og 1997.

Þær má báðar sjá í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, ásamt fleiri myndum af Strombóli eldeyju.
Vísindi og fræði | Breytt 3.3.2010 kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldgosið á Eynni Montserrat
13.2.2010 | 16:42




Vísindi og fræði | Breytt 3.3.2010 kl. 18:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Elsta Myndin af Heklu er eftir Sebastian Münster
12.2.2010 | 21:58






Vísindi og fræði | Breytt 3.3.2010 kl. 18:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)