Er Santorini að rumska?
20.7.2011 | 07:14
Eldstöðin Santórini í austur hluta Miðjarðarhafsins er ein sú stærsta sem um getur. Á Bronzöld varð hér stærsta eldgos Evrópu, þegar um 60 rúmkílómetrar af kviku komu upp á yfirborðið í mjög stóru sprengigosi. Ég hef bloggað um það hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/957294/ Ekki hefur gosið á Santorini síðan árið 1950, en þá rann hraun á eynni Nea Kameni, sem er önnur eyjan sem er að fylla neðansjávar öskju eldfjallsins. Jaðrskjálftar hafa verið tíðir á svæðinu, en allir fyrir utan öskjuna og því ekki tengdir Santorini. Í dag bárust mér fyrstu fregnir af nýjum óróa undir Santórini, og er þetta fyrsti órói hér í marga áratugi. Fylgst hefur verið með Santorini í nokkur ár með GPS mælitækjum. Niðurstöður sýna, að breyting hefur orðið á lögun fjallsins nú fyrstu sex mánuði ársins 2011, eins og fyrsta mynd sýnir.
Askjan hefur breikkað um 5 cm það sem af er árinu 2011. Allar GPS stöðvar hafa færst út frá miðju eldfjallsins og brúnir öskjunnar hafa risið um 5 cm. Það eru vísindamenn við Þessaloniki og Patras háskóla í Grikklandi sem gera þessar mælingar, ásamt hóp áhugamanna sem rekur stofnunina Institute for the Study and Monitoring of the Santorini Volcano (ISMOSAV). Önnur mynd sýnir dreifingu jarðskjálfta undir öskjunni þeta árið. Þeir mynda þyrpingu af sjálftum undir miðju eldfjallinu, þar sem við teljum að gígurinn sem gaus á Bronzöldhafi verið staðsettur. Santorini er einn vinsælasti ferðamannastaður Grikklands og landið hefur miklar tekjur af þeim straum af erlendum gjaldeyri. Enginn hefur enn spáð eldgosi, en nú er líklegt að yfirvöld fari að athuga hvort ekki sé rétt að setja hættuástand á eldeyjarnar tvær, sem eru í miðri öskjunni. Ég tel sennilegast að gos verði á eynni Nea Kameni, svipað og gosið árið 1950, en þá var lítill gjallgígur virkur, og þáðan rann lítið hraun.
Pyttirnir í Álftafirði
19.7.2011 | 16:14
Álftafjörður á norðanverðu Snæfellsnesi er fagur og merkilegur fjörður. Það er engin tilviljun að hann ber þetta nafn, því nær daglega má sjá hundruðir eða jafnvel þúsund álftir á firðinum eða í fjörum umhverfis hann. Það er sennilega mjög góð ástæða fyrir því að fjörðurinn hefur svo mikið aðdráttarafl fyrir álftina, en þar á hafsbotni og á grynningum allt kringum fjörðinn vex mikið magn af marhálmi. Ef til vill er hér stærsta marhálmssvæði umhverfis Ísland og þá óþrjótandi matarbirgðir fyrir álftina. Marhálmur (Zostera marina) er óvenjuleg planta í sjó, þar sem hann er blómstrandi háplanta en ekkert skyld þörungum og þangi. Ég gekk um fjörur Álftafjarðar nýlega með Ragnhildi Sigurðardóttur vistfræðingi og einnig með líffræðingi frá Portugal, sem er sérfræðingur í marhálmi um heim allan.
Það var stórkostlegt að sjá hvað marhálmur þrífst hér vel, á leirunum sem koma í ljós þegar vel fjarar út, og utar í grynningum fjarðarins. Sumstaðar hefur borist mikið magn af leirhálmi upp í fjöruna, þar sem hann rotnar í miklum haugum. Það sem vakti mesta athygli mína voru mjög undarlegir pyttir á yfirborði leirflatanna í Álftafirði. Fyrir framan Krákunes er svæði á hafsbotni, um 200 metrar á breidd, þar sem allur leirbotninn er þakinn pyttum. Þeir eru frá um 50 til 100 cm í þvermál, og um 10 til 30 cm á dýpt. Sumir líta úr fyrir að hafa myndast nýlega, og hafa upphleypta brún, alveg eins og gosgígar eða gígar sem myndast eftir loftsteinsárekstra á jörðu. Brúnin er þá blanda af leir og sandi. Aðrir pyttir eru ellilegir, og öldur hafsins hafa fjarlægt gígbrúnina vegna rofs þegar sjávarfalla gætir. Hvernig myndast þessir pyttir?
Í fyrstu héldum við að hross hefðu farið hér um og skilið eftir hófför sín, en það var fljótlega hægt að útiloka þann möguleika. Þá fórum við að hallast að þeim möguleika, að það væri eitthvað samband milli pyttanna og marhálmsins og annars gróðurs sem vex í firðinum. Leirinn og annað set sem safnast fyrir framan fjöruna í Álftafirði inniheldur mikið magn af dauðum marhálmi og þangi. Víða sekkur maður til dæmis upp í miðjan kálfa í drullu sem er mest rotinn marhálmur og leir. Alla tíð síðan jökultíma lauk fyrir um tíu þúsund árum hafa plöntuleifar safnast fyrir hér í setinu umhverfis og á botni Álftafjarðar. Það getur hugsanlega verið tugir metra á þykkt. Þegar þetta mikla magn af lífrænu efni rotnar í setinu, þá getur myndast jarðgas eða metan gasið CH4 sem brýtur sér leið upp úr setinu. Ef til vill rísa stórar bólur af gasi upp í gegnum setið öðru hvoru, og springa á yfirborði og mynda þá um leið gíg-laga pyttina. Við sáum engin merki þess, að gas væri að rísa nú upp úr setinu, og sennilega myndast pyttir aðeins öðru hvoru, ef til vill einn á dag eða einn á viku, og því erfitt að fá sönnun fyrir þessari kenningu.
En það er vel þess virði að skoða fjöruna í Álftafirði á stórstraumsfjöru, og virða fyrir sér þennan mikla fjölda af hinum dularfullu pyttum. Best er að ganga niður frá bílvegi númer 54, við norður enda Úlfarsfells, niður að höfða þeim, sem háspennulínan liggur á út yfir Álftafjörð: Krákunes. Hér var áður vaðið sem riðið var á yfir fjörðinn. Hér fyrir framan og aðeins norðar sést mikill fjöldi af pyttum á yfirborði leirsins. Ég tek það fram, að kenningin um að pyttirinir myndist af völdum metan gass er aðeins tilgáta. Frekari rannsóknir þarf til að sanna eða afsanna hana. En eitthvað óvenjulegt er að gerast í leirnum í Álftafirði.
Er elsta Jarðfræðikortið frá 1886?
15.7.2011 | 11:28

Hver teiknaði Íslandskortið, og hvaðan komu jarðfræðiupplýsingarnar? Ef til vill var það þýski jarðfræðingurinn Konrad Keilhack (1858-1944) sem síðar fórst í sprengjuárás á Berlin árið 1944. Keilhack var prófessor í Berlín í mörg ár og ferðaðist um Ísland árið 1883 í för með Carl. W. Schmidt. Ef til vill var það einnig sænski jarðfræðingurinn Carl W. Paijkull, sem fór um Ísland árið 1867 og gaf þá út lítið jarðfræðikort af Íslandi. Eð af til vill komu upplýsingar í kortið einnig frá Þorvaldi. Alla vega er hér merkilegt fyrsta framlag af gerð jarðfræðikorts Íslands.
Múlakvíslarhlaupið – eldgos í Kötlu eða jarðhiti?
13.7.2011 | 17:01


Lengi tekur sjórinn við - 2
13.7.2011 | 08:56

Lengi tekur sjórinn við - eða hvað?
12.7.2011 | 21:29

Eldgos í Síle lokar á flugið
12.7.2011 | 06:40



Gosinu er ekki lokið, og er hætt við að áhrifa þess gæti áfram á flugsamgöngur á suðurhveli jarðar um tíma.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 06:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Loftslag á Miðöldum
29.6.2011 | 16:29


Keilugangar í Setbergseldstöð
29.6.2011 | 14:54

Þeir sem kunna að hafa áhuga á að skoða keiluganga er bent á strandlengjuna í botni Grundarfjarðar. Ég mæli með því að ganga í fjörunni (sætið sjávarföllum) frá Grund og fyrir neðan Hamra. Þar eru ágætar opnur í nær samfellda þyrpingu af keilugöngum, bæði af þykkum keilugöngum úr líparíti, og þynnri basalt keilugöngum. Þar sést einnig mjög vel hvað blágrýtismyndunin, gömlu basalt hraunlögin, er mikið ummynduð af háhita hér. Steindir sem finnast hér í blágrýtismynduninni, á milli keiluganganna, eru meðal annars laumontít (hvítir og frekar mjúkir eða jafnvel loðnir kristallar), og einnig epídót (fallega grænir kristallar) og að lokum granat (smáir og rauðleitir kristallar). Þessar steindir benda til þess, að hér hafi verið um 400oC hiti í jarðskorpunni, eða virkt og kraftmikið háhitasvæði. Síðari myndin er hluti af jarðfræðikortinu sem ég birti 1966 af svæðinu.
Keilugangar
27.6.2011 | 16:55
Fyrsta vísindagrein sem ég birti fjallaði um forna eldstöð á norðanverðu Snæfellsnesi, sem ég kenndi við prestssetrið Setberg. Þar rakst ég fyrst á keiluganga. Greinin kom út í riti Vísindafélags Íslands árið 1966, en þetta var lungað úr BSc ritgerð minni við Queens University í Belfast á Norður Írlandi. Þar birti ég fyrstu athuganir á Íslandi varðandi fyrirbærið sem ég nefndi keiluganga. Þegar ég byrjaði að kanna jarðfræði Eyrarsveitar á norðanverðu Snæfellsnesi, þá rak ég strax augun í jarðlög, sem voru eins og berggangar, en höfðu um 20 til 30 gráðu halla, eins og fyrsta mynd sýnir. Þeir eru frá einum og upp í tugi metra á þykkt. Sumir voru úr líparíti en flestir úr basalti, og nokkrir voru andesít að gerð. Það kom fljótt í ljós að þessir hallandi gangar mynduðu samfelldan hring umhverfis Setbergseldstöðina, sem var um 10 km í þvermál. Sumsstaðar voru keilugangarnir svo þéttir að þar var eiginlega ekkert annað berg að finna, en annarsstaðar finnast þunn lög af ummyndaðri blágrýtismyndun milli ganganna. Hringlaga myndun ganganna sýndi að ég var hér að fást við fyrirbærið sem jarðfræðingar nefna cone sheets. Þeir eru einkum þekktir í rótum fornra eldfjalla á Bretlandseyjum, og ég þýddi jarðfræðiheitið cone sheets sem keiluganga. Það var greinilegt að keilugangarnir voru hér í rótum eða undirstöðum Setbergseldstöðvarinnar, sem var virk fyrir um 5 til 10 milljón árum. Rætur eldfjallsins eru nú sjáanlegar og þar á meðal er gabbróið í Kolgrafamúla. Hringlaga myndun keiluganganna var furðu regluleg, eins og jarðfræðikortið sýnir, og mér var ljóst að hér var vísbending um mjög stór öfl að verki undir eldfjallinu. Þetta afl hafði brotið jarðskorpuna eftir keilulaga sprungum, og var broddur keilunnar djúpt undir.
Hér kemur þýzki eðlisfræðingurinn Heinrich Rudolf Hertz (1857 1894) til sögunnar. Eins og Mótzart, þá dó þessi snillingur aðeins 36 ára að aldri, en afkastaði miklu á stuttri æfi. Hann er þekktastur fyrir að sanna bylgjuhegðun rafgeislunar, og er vísindaheitið fyrir tíðni bylgja nefnt í höfuðið á honum. En Hertz var einnig brautryðjandi í faginu sem nefnist contact mechanics, og uppgötvaði að þegar lítilli kúlu er þrýst á sléttan flöt, þá myndast keilubrot í efninu sem þrýst er á. Þannig myndast Hertz-keilur. Hér er mynd af einni slíkri keilu, sem hefur myndast við að slá hrafntinnu með hamri. Myndast keilugangar á svipaðan hátt? Getur það verið að mikill kvikuþrýstingur undir eldfjallinu, til dæmis efst í kvikuþrónni, valdi þeim þrýstingi sem orsakar keilubrot í jarðskorpunni fyrir ofan. Þá streymir kvika upp keilusprunguna, og storknar þar, og myndar þar með keilugang. Ég tók eftir því, að keilugangar sem eru nær miðju eldstöðvarinnar hafa meiri halla, og er keilan þar þrengri, en fjarlægustu keilugangarnir hafa miklu minni halla og nálgast það að vera láréttir.
Það er spennusvið í jarðskorpunni, sem stjórnar hegðun sprungu í bergi. Við erum vanir því víðast hvar á Íslandi, að jarðskorpan sé að gliðna undir fótum okkar, vegna landreks. Þá myndast gjár og sprungur, sem kvikan leitar upp um og myndar lóðrétta bergganga. En sum gosbelti Íslands, einkum þau sem eru á jaðri eða utan aðal gosbeltanna, eru ekki endilega í spennusviði sem einkennist af gliðnun. Ég held að það eigi til dæmis við um Snæfellsjökul í dag, og sennilega einnig um Eyjafjallajökul. Það var mikið rætt um lárétta lagganga undir Eyjafjallajökli þegar kvika var þar á hreyfingu í fyrra. Ég hef þá skoðun að hér hafi einmitt keilugangar verið að myndast í skorpunni undir Eyjafjallajökli. Þar er gliðnun af völdum landreks ekki teljanleg, en hár þrýstingur kvikunnar getur hins vegar leitt til myndunar á Hertz-keilubrotum, og leitar þá kvikan inn í slíkar sprungur í jarðskorpunni og storknar sem keilugangar.
Tilvitnun: Sigurdsson, H., l966. Geology of the Setberg area, Snaefellsnes, Western Iceland. Greinar IV, 2. Vis. Isl. Reykjavik, 53-l25.