Afdrif víkinga á Grænlandi á miðöldum  

 

Landnám norrænna manna frá Íslandi á Grænlandi á tíundu öld og landkönnun þeirra í vestri er einn af höfuðstólpum norrænnar menningar almennt. Grænlenska nýlendan blómgaðist um skeið á fyrri hluta Miðalda, bæði í Eystribyggð og Vestribyggð, en af einhverjum óþekktum ástæðum leið byggðin undir lok í kring um 1450 e.Kr.  Það hefur lengi verið óstaðfest skoðun fræðimanna (fyrst Hans Egede 1721) að hnignun loftslags hafi ráðið förinni og gert Grænland óbyggjanlegt fyrir bændur, sem stunduðu akuryrkju og búskap að íslenskum sið.  Síðasta lífsmarkið frá norrænum mönnum á Grænlandi er tengt brúðkaupi íslenskra hjóna í steinkirkjunni á Hvalsey árið 1408. 

LasherFig2

Rannsóknir loftslagsfræðinga hafa sýnt fram á að um skeið ríkti tiltölulega mjög milt loftslag á norðurhveli jarðar á Miðöldum (Medieval Climate Anomaly, MCA), frá um 900 til um 1300 e.Kr. , en það byrjaði verulega að kólna og Litla Ísöldin gekk í garð, eins og ískjarnar frá Grænlandsjökli sýna í stórum dráttum. 

Við frekari könnun hefur myndin nýlega tekið að skýrast við rannsóknir á vatnaseti í Eystribyggð, en niðurstöður sýna að í stórum dráttum hafði Hans Egede rétt fyrir sér fyrir tæpum  þrjú hundruð árum.  Nú hafa Everett Lasher og Yarrow Axford  frá Bandaríkjunum greint súrefnissamsætuna O18 í skeljum eða hýði af vatnapöddum  sem finnast í borkjörnum af vatnaseti í Eystribyggð.  Grein þeirra birtist nýlega í tímaritinu Geology. En samsætan eða súrefnisísótópinn O18 er góður mælikvarði á ríkjandi hitastig þegar vatnapaddan var á lífi.  Það tekur um 40 ár að mynda 1 cm þykkt lag af seti í þessum vötnum í Eystribyggð,  sem gerir þá kleift að kanna sveiflur í loftslagi með um 40 ára næmi eða upplausn yfir um 3000 ára skeið. 

Niðurstöður þeirra eru sýndar á myndinni, bæði O18 sveiflur (efra ritið) og hitasveiflan, sem er dregin af O18 gögnum (neðra ritið). Kólnun er um 2 til 3 stig á meðalhita. Það er eftirtektarvert að kólnun í Eystribyggð er strax komin í gang skömmu eftir árið 1000 e.Kr. og hefur náð toppnum í kringum 1300 e.Kr. (bláa línan). Að öllum líkindum hefur sprettutíminn styttst til muna og landbúnaður, sem var hér rekinn á íslenskan máta, féll niður.  Fólksfjölgun skrapp saman og fókið hrökklaðist smám saman á brott.  En einmitt á sama tíma var fólk af Inuit kyni að færa sig suður með vestur strönd Grænlands og nema land.  Inúítar höfðu aðlagað sig mjög vel að aðstæðum, einkum með selaveiðum, og kólnunin á Litlu Ísöldinni hafði engin áhrif á þá.

 


Hafísinn í á Norðurslóðum dregst enn saman  

 

Það er yfirleitt um miðjan mars mánuð ár hvert, að hafísinn umhvefis Norður Pólinn nær sínu hámarki. Svo var einnig í ár, en þá kom í ljós að magn af hafís í norðri (14.5 milljón ferkm.) hefur aðeins einu sinni mælst minna en í ár. Það var árið 2017, en mælingar hófust árið 1979. Það er einnig athyglisvert að fjögur minnstu hafísárin eru einmitt síðastliðin fjögur ár, eins og myndin sýnir. Svo virðist sem ekkert lát sé á hlýnun í norðri. Þetta er því ekki eitthvað augnabliksfyrirbæri, heldur langvarnadi hlýnun.

Figure2_Það er sömu sögu að segja af hafís umhverfis Suðurskautslandið. Þar var lágmarkið í útbreiðslu hafíss í lok febrúar, og var þá 2.2 milljón ferkm. sem er einnig næst lægsta magn af hafís í suðri sem mælst hefur. Minnst var það árið 2017.


Hetjudáð Graah sjóliðsforingja á Austur Grænlandi  

 

GraahPortraitÁ átjándu öldinni kviknaði áhugi meðal fræðimanna á Norðurlöndum um að leysa gátuna um afdrif norrænna manna á Grænlandi. Þar er fremstur í flokki norðmaðurinn Hans Poulsen Egede (1686–1758), sem hefur verið nefndur Postuli Grænlands. Árið 1711 sótti Egede um leyfi hjá Friðrik IV Danakonungi til að stofna nýlendu á Grænlandi, í þeim tilgangi að leita að týndum byggðum norrænna manna þar. Hann sigldi loks frá Bergen til Grænlands tíu árum síðar, árið 1721, á tveimur skipum. Hann kannaði suðvestur strönd Grænlands og fann hvergi norræna menn eða afkomendur þeirra á þeim slóðum. Ekki tókst honum að kanna austur strönd Grænlands vegna ísa, en hann og aðrir voru sannfærðir um að hin forna Eystribyggð norrænna manna væri staðsett þar. Egede helgaði sig þá að trúboðastörfum og hóf nú að kristna Inúita á vestur strönd Grænlands og tók sér í því skyni fimmtán ára búsetu í Godthaab, sem nú er höfuðborg Grænlands, Nuuk. En Egede gafst upp við fekari leit að norrænum mönnum á þessum slóðum.

Eitt hundrað árum síðar vaknar áhugi meðal Dana aftur að kanna málið frekar og reyna að leysa ráðgátuna um hvarf norrænna manna á Grænlandi. Á dögum Friðriks VI Danakonungs var gefið út ítarlegt skipunabréf (sex síður) til Wilhelms A. Graah sjóliðsforingja hinn 21. febrúar 1828, þess efnis að hann skyldi stýra leiðangri konungs til kanna austur strönd Grænlands, frá Hvarfi og allt norður til Scoresbysunds við 69oN.   Höfuðtilgangur leiðangursins var “að leita að vitneskju eða leifum íslensku nýlendunnar”, sem talin er hafa verið á þessum slóðum. Undir skipunarbréfið skrifar A.W. Moltke greifi, stjórnarráðsforseti Danakonungs. Skömmu síðar (1848) varð Moltke greifi kosinn fyrsti forsætisráðherra Danmerkur, en  Moltke var stiftamtmaður á Íslandi 1819-23. Sennilega kom hugmyndin um Grænlandsleiðangurinn frá Moltke sjálfum.

            Þá var vitað, samkvæmt frásögn í Íslendingasögum, að norrænir menn hefðu reist tvær byggðir á Grænlandi: Eystribyggð og Vestribyggð. Af eðlilegum ástæðum álitu menn á nítjándu öldinni að þessar byggðir hefðu verið staðsettar á austur og vestur strönd Grænlands. Margir töldu að hina fornu Eystribyggð væri að finna á suðaustur ströndinni, á því ókannaða svæði sem Danir nefna Kong Frederik VI Kyst. Þar væri því von um að finna ef til vill afkomendur íslensku landnemanna eða einhverjar leifar þeirra. Þessi eðlilega en ranga ályktun leiddi menn í miklar villur á sínum tíma. Kong Frederik VI ströndin nær yfir um 600 km langa strandlengju, sem fjölda af grunnum fjörðum, háum fjallgörðum fyrir ofan og dreif af smáeyjum. Allar aðstæður með suðaustur strönd Grænlands og í hafinu þar undan eru allt aðrar og miklu erfiðari en á vestur Grænlandi. Það stafar fyrst og fremst af Austur-Grænlandsstraumnum, en hann er sterkur straumur úr Íshafinu, sem fylgir ströndinni og ber með sér ógrynni af hafís í suður átt, meðfram austurströndinni. Af þeim sökum er hafið rétt undan suðaustur strönd Grænlands talið mjög erfitt eða jafnvel ófært mikinn hluta ársins.

KonubáturWilhelm August Graah (1793-1863) sjóliðsforingi var reyndur siglingafræðingur og landkönnuður. Hann hafði starfað við mælingar meðfram vestur strönd Grænlands árin 1823 og 1824. Einnig starfaði hann við mælingar umhverfis Ísland árið 1822 og á einu korta hans frá þeim tíma er ágæt mynd eftir hann af eldgosi í Eyjafjallajökli, sem ég hef bloggað um hér: https://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1061162/. Ef til vill hefur hann kynnt sér íslenska menningu og sögu, því í skrifum sínum um norræna landnema Grænlands á tíundu öld kallar hann þá hreint og beint íslendinga, en ekki “Norse” eða “nærræna menn”. Hann er langt á undan sinni samtíð með að eigna Íslendingum landnám Grænlands! Jóni Dúasyni hefði líkað þetta, en hann vildi að Íslendingar endurheimti rétt sinn yfir Grænlandi frá Dönum.

            Graah nemur fyrst land í þorpinu Frederikshåb (nú Paamiut) á suðvestur Grænlandi í lok maí árið 1828. Þaðan er haldið til Julianehaab (nú Qaqortoq). Hér í þessu héraði fréttir Graah af rústum frá tímum hinna íslensku landnema. Þar sem þær eru staðsettar á vestur strönd Grænlands gerir Graah ráð fyrir að þetta muni vera hin forna Vestribyggð íslendinganna, en það kom í ljós löngu síðar að hér var hann reyndar kominn í sjálfa Eystribyggð. Það má segja um Graah, að hann leitar langt yfir skammt. Graah hófst nú handa við að láta smíða konubáta eða umiaks fyrir leiðangurinn í austur. Grindin er úr timbri og bundin saman, en síðan er strekkt vatnsheld húð eða skinn af fimtán til tuttugu selum á grindina. Allt hár er rakað af húðinni og mikið magn af selafeiti borin á alla sauma í lokin, til að gera bátinn vatnsheldan. Bátarnir eru léttir og meðfærilegir en ekki einn einasti nagli fer í smíðina. Umiak bátar hans Graah voru um 10 til 12 metrar á lengd og rúmir tveir metrar á breidd.

Graah skráði upplýsingar um leiðangur sinn í merka bók: “Undersögelses-reise til östkysten af Groenland: efter Kongelig Befaling, ulført i Aaren 1828-31.” Bókin kom út í Kaupinhöfn árið 1832. Þar er að finna mynd af Graah og einnig vandaða og litaða mynd af konubát, sem róið af konum. Ein konan er nakin að ofan, en önnur situr við stýri og með barn í poka á bakinu. Nokkru sunnar á vestur ströndinni er Inuítabyggðin Nanortalik og þangað leitar Graah næst til að fá innfædda leiðsögumenn til fararinnar. Hér hefur Graah vetursetu og undirbýr sig frekar fyrir leiðangurinn til austurs.

Vorið efir leggur Graah af stað, með tvo umiak eða konubáta sína, en áhöfnin var tíu Inuit konur, fimm Inuit karlar, túlkur og náttúrufræðingurinn Vahl. En ferðin gekk erfiðlega í fyrstu vegna hafíss. Þeir þurftu til dæmis að dvela 25 daga á einni eyju til að bíða þess að ísinn færi frá ströndinni. Loks komust þeir af stað í lok apríl og náðu til Aluk syðst á austur ströndinni. Ferðin gekk hægt og erfiðlega, vegna vinda, hafíss og bylja. Hann sendir til baka náttúrufræðinginginn, túlkinn og mikið af Inuítunum frá vestur ströndinni. Graah mannar bátana nú fólki af austur ströndinni. 

Loks náði Graah norður til Dannebrog eyjar (nú nefnd Kivdlak, 65° 15′ 36° N), sem er um 100 km fyrir sunnan Kulusuk. Hér sný Graah aftur og hinn 1. október tekur Graah sér vetursetu á eynni Nugarfik (nú nefnd Imaersivik) við 63° 30′ N. Þar reisir Graah moldarkofa fyrir allan hópinn. Veturinn var harður og kostur lítill. Loks tekur að vora og hinn 5. apríl 1830 leggur hann af stað en verður að snúa til baka í húsaskjól í kofanum hvað eftir annað vegna illveðurs og ísa á hafinu. Í einni tilrauninni neyddust þeir til að hafa viðurvist á skeri í hálfan mánuð fyrir norðan Alikajik, vegna veðurs.   Seinni partinn í júlí var neyðin mest og Graah átti einnig við veikindi að stríða. Þá var allur matarforðinn á þrotum og þeir átu nú hundamat og tuggðu gömul selskinn. Þá eru eftir af áhöfninni aðeins einn maður og tvær konur, auk Graah. Loks komust þau suður á bóginn og Graah nær loks til Nanortalik  í ágúst 1830. Ferðinni var lokið en ein höfuð niðurstaðan var sú, að engar leifar eða minjar fornra Íslendinga var að finna á suðaustur ströndinni. En Graah tókst að gera margar mælingar og safna verðmætum upplýsingum um þetta ókannaða svæði. Einnig eru rit hans sjór af fróðleik um lifnaðarhætti og siði Inúítanna á suðaustur Grænlandi, sem höfðu haft lítil eða engin samskifti við Evrópubúa.

 


Agung bætir í

agungFjórir hindú prestar frá Balí klifu Agung eldfjall í gær í leyfisleysi og tóku þessa mynd.  Við þeim blasti heldur ógnvekjandi sjón þegar litið var niður í gíginn:  mörg hvæsandi gufuaugu, þar sem brennisteinsgas streymdi út af miklum krafti. Prestarnir færðu fjallinu fórnir (sennilega kastað kjúklingum og ávöxtum niður í gíginn) áður en þeir snéru við.  Sennilega er þetta síðasta ferðin á fjallið fyrir gos, sem virðist vera alveg á næstunni. Agung er miðja alheimsins í fornri trú íbúa á Balí. 

Þessi mikli vöxtur á gasútstreymi bendir til að miklar breytingar séu að gerast. Tæknilega séð, þá er gos ekki hafið í Agung, en gos er talið hafið þegar kvika í einhverju formi kemur upp á yfirborðið. Það getur verið í ýmsu formi: sem aska, vikur, gjall eða hraun. Það sem nú er að gerast er að kvika rís undir fjallinu og myndar innskot í jarðlögum undir toppnum. Þetta leiðir til þess að jarðvatn í berglögunum hitnar snöggt og er byrjað að sjóða. Það myndar gufuna sem sést í hvæsandi gufugötum inni í gígnum. Auk gufunnar ferst einnig mikið magn af brennisteini upp á yfirborðið. Kvikan er á leiðinni, en hún er mjög seig eins og deig og tekur tíma að koma sér upp í gíginn.


Það kemur út úr báðum endum á kúnum

ch4_trend_all_glMetan, jarðgas – mýragas – CH4 – er annað mikilvægata gasið, sem hefur áhrif á loftslag, myndar gróðurhúsaáhrifin og veldur hnattrænni hlýnun. Talið er að hver sameind af metan sé um 30 sinnum virkari en koltvíoxíð, eins og ég hef bent á aður hér

http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/2187409/

Metan hefur vaxið stöðugt í andrúmsloftinu, eins og myndin sýnir.   Þegar þið skoðið myndina nánar, takið þá eftir að frá 1984 til 2006 virtist vera að hægja á metan losun í heiminum, en svo byrjar annað tímabil, sem ríkir enn, þar sem metan losun vex í aukandi mæli. Sumir hafa kennt þar um vaxandi borun eftir jarðgasi, en aðrir benda á landbúnað. Nú virðist niðurstaðan vera sú, að þessi voxtur sé mest nautgripum að kenna, samkvæmt nýbirtum niðurstöðum Julie Wolf og félaga. Metan gas er bein afleiðing af meltingu hjá grasætum eins og kúm og þær losa sig við gasið reglulega úr báðum endum. Nautgripastofninn hefur stækkað mikið, bæði hvað snertir heildar fjölda og ekki síður stærð einstaklingsins, vegna kynbóta. Einnig hefur meðferð og nýting mykjuáburðar aukist mikið og allt þetta skýrir meiri útlosun af metan gasi á jörðu. Það sem mér finnst merkilegast er, hvað kerfið er viðkvæmt og hvað tiltölulega litlar breytingar á háttum okkar geta haft áhrif á heimsvísu.


Harmleikurinn í Norður Kóreu

KoreaÞegar við fylgjumst með fáránlegum samskiftum Trumps og Kim Jong-il, þá gleymum við því oft að það er venjulegt fólk sem býr í Norður Kóreu og þessi almenningur ber miklar þjáningar. Samanburðurinn á milli þjóðanna í dag gefur merkilega innsýn í áhrif tveggja mismunandi stjórnkerfa. Landinu var skipt í tvennt árið 1948 og síðan hafa tvær þjóðir þróast hver á sinn hátt, undir einræðisstjórn annars vegar og lýðveldi hins vegar. Áhrifin á efnahag hafa verið sláandi. Línuritið sýnir verga þjóðarframleiðslu í löndunum tveimur, í US$.  Þróunin var svipuð allt til 1973 en síðan hefur hagur í Norður Kóreu staðið í stað eða versnað. Þeir í suðri hafa á mean byggt upp þjóð, sem er einn af stærstu útflytjendum á iðnaðar- og tæknivörum á jörðu. Á meðan Suður Kórea flytur út Samsung and Hyundai, þá eru kol nær eina útflutningsvara Norður Kóreu. En það er annað sem hefur mikil áhrif á afkomu í Norður Kóreu: hervæðing. Þótt Norður Kórea sé númer 52 í heiminum hvað snertir fólksfjölda, þá eru þeir númer fjögur í heiminum hvað varðar stærð hersins. Um fjórðungur af allri vergri þjóðarframleiðslu fer í herbúnað, og nær hver einasti maður hefur hlotið einhverja herþjálfun.


Agung á nippinu

arsip-berita-perkembangan-gunung-agung-minggu-24-september-2017-pukul-0600-wita-9i70dhuFjöldi skjalfta undir eldfjallinu Agung á Balí hefur aukist verulega, eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Núer búist við gosi á hverri stundu, en byrjað er að rjúka úr gígnum, sem er hæsti topur eyjarinnar Bali.  Agung gýs andesít kviku, sem er millistig milli basalts og líparíts, með um 55% kísil.  Þessi kvika er mjög seig, eða meir en tíu sinnum seigari en basaltkvikan sem gýs á Íslandi. Einnig innheldur andesítkvika meira vatn.  Af þeim sökum eru gosin oft sprengigos í upphafi, þegar gasríkasta kvikan kemur upp, en breytast síðan í gos sem hlaða upp seigum og háum hraungúl yfir gígnum. Öðru hvoru falla stórar spildur úr hlíðum gúlsins og mynda heitar gloandi skriður af vikri, ösku og heitu grjóti niður hliðarnar. Stórhættulegt ástand!


Agung á Balí er að ókyrrast

bali_mapAgung eldfjall austast á eynni Balí í Indónesíu gaus miklu gosi árið 1963. Þá fórust meir en eitt þúsund manns í flóðum og gjóskuflóðum. Í dag berast þær fréttir að mikil skjálftavirkni hefur hafist undir fjallinu (676 skjálftar) og allar líkur eru á að gos sé í aðsigi. Stór svæði á eynni hafa verið rýmd, en Agung er eitt mesta aðdráttarafl túrista á þessum slóðum.   Um fimmtíu þúsund manns búa á hættusvæðinu. Sprengigosið árið 1963 var stórgos, og aska og gas frá því gosi barst víða í háloftum og kann að hafa haft loftslagsáhrif (kólnun). Ég vona að vinur minn Rik Stoedman og fjölskulda i þorpinu Ubud séu ekki í hættu.


Mögnun jarskjálftans í Mexíkó

shakemap-desktop-largeJarðskjálftinn sem skók Mexíkóborg var slæmur, og yfir 270 hafa látist. Skjálftinn var meðalstór, um 7,1, en í um 85 km fjarlægð. Ástæðan fyri miklu tjóni á mönnum og byggingum var samt ekki einfaldlega vegna stærðar skjálftans, heldur vegna ástæðna jarðlaga undir borginni. Þegar Spánverjar komu árið 1521 hét borgin Tenochtitlan, höfuðborg Axtecaþjóðarinnar. En Tenochtitlan var staðsett á eyjum og umhverfis stórt stöðuvatn; Texcoco. Eftir komu Spánverja var hafist handa við að ræsa fram og fylla upp í vatnið. Nú stendur því borgin að miklu leyti á allt að 100 m þykku leirkenndu vatnsseti og lausum vatnssósa sandi.   Þegar jarðskjálftabylgjur berast í setið undir borginni, þá hægja þær á sér frá um 2 km á sekúndu, niður í um 50 m á sek. Um leið magnast og hækka bylgjurnar (amplitude) og valda meiri skaða. Myndin sýnir útlínur gamla stöðuvatnsins og svæðið þar sem mögnunin á skjálftum gerist. Mögnunin nemur um hundrað sinnum.  Staðsetning borgarinnar getur því varla verið verri, og mun alltaf vald vandamálum.


Er gullgrafaraæðinu að ljúka?

Það hófst árið 1966, er íslenska ríkið samdi við svissneska fyrirtækið Alusuisse um lýgilega ódýrt orkuverð til álbræðsluvers í Straumsvík. Þar með var alheim gert kunnugt að á Íslandi væri hægt að semja við ríkisstjórn um hræódýra orku og að það væri ríkisstjórn sem hefði engar áhyggjur af mengun og náttúruspjöllum, allt í þágu stóriðjustefnu. Í kjölfarið fylgdu álver Fjarðaál í Reyðarfirði og Norðurál á Grundartanga, en í heild taka álverin um 75% af allri orkuframleiðslu á Íslandi. Græðgin í ódýra orku var svo mikil, að orkuframleiðsla Íslands tvöfaldaðist á aðeins fimm árum, frá 2002 til 2007. En á meðan fóru öll viðskiptin við álframleiðendur fram á leyndu orkuverði, sem ríkistjórnin ein veit um.  

Nú berast okkur fregnir að áform um enn eitt stóriðjuver séu að renna út í sandinn: það er fyrirhuguð sólarkísilverksmiðja Silicor Materials á Grundartanga. Á sama tíma er búið að loka kísilveri United Silicon í Helguvík vegna stórfelldar mengunar. Íslendingar eru loksins að átta sig á að hemjulaus stóriðja er ekki endilega rétta lausnin til velferðar. Það eru ýmsar aðrar og ómengandi leiðir til efnahagslegrar þróunar, eins og ferðaiðnaðurinn hefur bent sterkelga á. Vonandi erum við nú að hætta þessu gullgrafaraæði sem hófst í Straumsvík, enda tími til kominn.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband