Agung bætir í

agungFjórir hindú prestar frá Balí klifu Agung eldfjall í gær í leyfisleysi og tóku þessa mynd.  Við þeim blasti heldur ógnvekjandi sjón þegar litið var niður í gíginn:  mörg hvæsandi gufuaugu, þar sem brennisteinsgas streymdi út af miklum krafti. Prestarnir færðu fjallinu fórnir (sennilega kastað kjúklingum og ávöxtum niður í gíginn) áður en þeir snéru við.  Sennilega er þetta síðasta ferðin á fjallið fyrir gos, sem virðist vera alveg á næstunni. Agung er miðja alheimsins í fornri trú íbúa á Balí. 

Þessi mikli vöxtur á gasútstreymi bendir til að miklar breytingar séu að gerast. Tæknilega séð, þá er gos ekki hafið í Agung, en gos er talið hafið þegar kvika í einhverju formi kemur upp á yfirborðið. Það getur verið í ýmsu formi: sem aska, vikur, gjall eða hraun. Það sem nú er að gerast er að kvika rís undir fjallinu og myndar innskot í jarðlögum undir toppnum. Þetta leiðir til þess að jarðvatn í berglögunum hitnar snöggt og er byrjað að sjóða. Það myndar gufuna sem sést í hvæsandi gufugötum inni í gígnum. Auk gufunnar ferst einnig mikið magn af brennisteini upp á yfirborðið. Kvikan er á leiðinni, en hún er mjög seig eins og deig og tekur tíma að koma sér upp í gíginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband