Molander málar Heklugos

Molander HeklaNýjasta listaverk Eldfjallasafns í Stykkishólmi er eftir Norðmanninn Thorvald Antonius Molander (1903-1975). Þetta olíumálverk er sennilega af Heklugosinu árið 1947. Thorvald Molander (1903 - 1975)  var fæddur í Svíþjóð, faðir sænskur, móðirin finnsk. Þau fluttust til Norður-Noregs og gerðust norskir ríkisborgarar. Hann var að sögn á margan hátt áhugaverð persóna, mikið snyrtimenni og listrænn, spilaði á fiðlu. Hann ferðaðist á sumrin víðs vegar um landið, kynntist fólki og málaði vatnslitamyndir eða skissur, sem hann lauk síðan við á veturna. Ekkert yfirlit er til um þau verk. Árið 1952 sagði hann skilið við Ísland og fluttist til Noregs. Listasafn Reykjavíkur á mynd eftir hann af Snæfellsjökli. Molander deyr í Troms í Norður-Noregi árið 1975.


Brot úr týndu flugvélinni?

bjarnarhafnarfjall.jpgÉg hef áður fjallað um bresku flugvélina, sem brotnaði og sprakk í Svartahnúk fyrir ofan Kolgrafarfjörð, sjá hér:     http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1259456/

Þessi Vickers Wellington tveggja hreyfla sprengjuflugvél fórst hér hinn 28. nóvember árið 1941 með allri áhöfn. Nýlega rakst ég á brot úr flugvél í þröngu gili Fagradals í Bjarnarhafnarfjalli. Þetta eru nokkrar plötur af ál, upprunalega flatar en nú nokkuð beyglaðar, með götum fyrir hnoð, eins og flugvélar eru samsettar (sjá mynd). Þetta brak er í gilinu beint undir tindinum Kothraunskistu í suðvestan verðu Bjarnarhafnarfjalli. Ekki er mér kunnugt um að flugvél hafi farist hér, en helst dettur mér í hug, að Vickers vélin árið 1941 hafi fyrst rekist á Kothraunskistu og misst ef til vill part af væng, en síðan borist áfram stjórnlaus til suðvesturs, um 12 km leið, þar sem hún brotnaði að lokum. Kortið sýnir hugsanlegan feril þessar miklu helreiðar. Vélin hafði sveimað um nokkurn tíma yfir Helgafellssveit í afleitu veðri og engu skygni og er talið að flugstjórinn hafi haldið sig vera yfir Reykjanesi en ekki Snæfellsnesi þegar slysið varð.fluglei.jpg

 


Litla Ísöldin endurtekin?

loftslagLoftslagsbreytingar eru að gerast á jörðu. Það er ekki deilt um þá staðreynd. Hins vegar er deilt um orsökina. Er breytingin af manna völdum eða eitthvað náttúrulegt fyrirbæri? Sumir (þeir eru reyndar örfáir) telja að breytingarnar séu vegna misumnandi geislunar sólarinnar. Auðvitað er sólin stærsta orkulind okkar. Hún gefur ylinn með sólskininu og einnig hefur sólin skapað þá jarðolíu og jarðgas, sem við brennum. Það eru aðeins jarðhitinn og kjarnorkan, sem eru orkulindir óháðar sólinni.   Línuritið hér fyrir ofan sýnir breytingar á meðalhita á yfirborði jarðar frá 1950 til dagsins í dag (blátt). Einnig sýnir myndin hvernig koltvíoxíð hefur risið stöðugt (grátt), á sama hátt og hitinn. Nær allur vísindaheimurinn er á þeirri skoðun að hækkandi hiti stafi af vaxandi magni af koltvíoxíði, sem við mannfólkið losum við brennslu á jarðefnum eins og kolum og olíu. Að lokum sýnir myndin sveiflur í virkni sólarinnar (gult).   Það er ljóst að breytingar á virkni sólar hafa ekki haft nein áhrif á meðalhita jarðar á þessu tímabili.

Nú hefur rússneskur eðlisfrðingur Valentína Zharkova sett fram þá tilgátu að breytingar á sólinni eftir 15 ár muni valda mikilli kólnun á jörðu, jafnvel annari lítilli ísöld. Aðrir sólfræðingar hafa ekki enn birt álit sitt á kenningu hennar, en það verður fróðlegt að fylgjast með því.


Hin hliðin á Snæfellsjökli

Snæfellsjökull2015Við horfum á Snæfellsjökul oftast úr austri eða suðri og þá eru Jökulþúfurnar á toppnum áberandi. Í gær gafst mér tækifæri til að skoða Jökulinn að vestan og norðvestan verðu ásamt Ragnari Axelssyni ljósmyndara, en þá blasir við nokkuð önnur sýn, eins og myndin hans Ragnars sýnir. Þá erum við nefnilega komnir niður í aðalgíg eldfjallsins, sem er um 1.5 km í þvermál. Austurbrún gígsins er mikill hamar, og rísa þúfurnar þrjár upp fyrir ofan hamarinn. Það er enn óvenju snjóþungt hér eins og víðast á hálendi Íslands, en samt grillir í hraunlög í klettabrúninni, í gegnum hrímið. Vonandi gefst okkur tækifæri í haust að kanna þetta svæði frekar, þegar bráðnun nær hámarki og meira af berginu kemur í ljós.


Milljón kúkar úti á túni

við veginnVið fögnum því að erlendir ferðamenn hópast nú til Íslands og eru duglegir að njóta náttúrufegurðar hér á Fróni. En því fylgja óhjákvæmilega ýmis vandamál, sem ekki hefur verið nægilega fjallað um, en munu óhjákvæmilega valda miklum spjöllum á náttúru landsins í náinni framtíð. Eitt af þeim er umgengni ferðamanna, sem velja sér næturstað við þjóðveginn. Þegar ekið er um landið eru litlir sendibílar eða campers við veginn orðin mjög algeng sjón, en þar hafa erlendir ferðamenn komið sér fyrir yfir nóttina. Margar bílaleigur, eins og Kúkú campers, Go Iceland, Happy Campers og fleiri, beinlínis hvetja ferðamenn til að hafa þennan ferðamáta og auglýsa þannig ókeypis gistingu við veginn. En hvar gengur þetta fólk örna sinna? Auðvitað úti í móa við veginn eða á bak við bílinn. Erum við að ef til vill komast á það stig að hér verði gerðir milljón kúkar á dag við veginn? Viljum við lýða slíkan sóðaskap á okkar landi? Í öllum bæjarfélögum eru ágætis tjaldstæði, með salerni og hreinlætisaðstöðu. Er ekki kominn tími til að stemma stigu við þessari þróun og skipa erlendum ferðamönnum að notfæra sér slík viðurkennd og skipulög tjaldstæði? Sumar bílaleigur og netmiðlar hafa skapað andrúmsloft, sem hvetur ferðamenn til að gera allar sínar þafir úti í Íslenskri náttúru. Hér eru nokkur dæmi um slíkt, tekin af netinu:

Passion Passport: “The Law of Survival states that you can stop on any man’s land for a night and eat anything that grows on that land. That means that it’s completely acceptable – and legal – to sleep in your car, whether you’re on private property, in a national park, or at a designated rest stop.“

“By the end of our trip, I felt like I really communed with nature in the sense that (how do I put this delicately?) I peed in every corner of Iceland.”

“You can park the car nearly anywhere in the country and sleep in the back of it.”

Myndin sem fylgir segir sína sögu, en takið eftir skiltinu inni í rauða hringnum, sem bannar tjaldsvæði.

 

 

 


Þá klofnaði fjallið

GeldingaborgÁ síðasta hlýskeiði ísaldar, fyrir 135 þúsund árum, var myndarlegt eldfjall virkt í vestanverðum Hnappadal á Snæfellsnesi. Úr því streymdu allmörg basalthraun, sem nú mynda mikla grágrýtishamra í Geldingaborg og einnig stuðlabergið fagra í Gerðubergi. Þetta hnattræna hlýskeið, sem er nefnt Eemian meðal jarðfræðinga, stóð yfir í um tíu til fimmtán þúsund ár, en svo skall á annað jökulskeið fyrir um 120 þúsund árum, -- hið síðasta.  Grágrýtið í Gerðubergi og Geldingaborg er hluti af mikilli eldvirkni sem varð strax í upphafi Eemian hlýskeiðsins, en það hefur verið aldursgreint sem 135 þúsund ára gamalt af Hervé Guillou og félögum (2010). Sennilega var þá aukin eldvirkni um allt íslenska gosbeltið, vegna þess að þegar fargi jökulsins var skyndilega létt af landinu, þá jókst bráðnun í möttlinum undir jarðskorpunni. Efst í Geldingaborg mynduðust tveir miklir gígar, sem nú eru greinilegir en nokkuð jökulsorfnir.  Á síðasta jökulskeiði gekk jökull aftur yfir Geldingaborg og Gerðuberg og færði þessar jarðmyndanir í núverandi form. Seint á síðasta jökulskeiði myndaðist mikið misgengi þvert í gegnum Geldingaborg, eins og fyrsta myndin sýnir (á þesari innrauðu mynd kemur gróður fram sem rautt). Í Geldingaborg hefur jarðskorpan norðan misgengisins sigið um nokkra metra. saldarinnar, en i r verið virkt el grsgengið skorist . em 2615 kra metra. nni sar jarðmyndanir Misgengið hefur austur-vestur eða VNV-ASA stefnu, sem er einkenni á sprungum, gígaröðum og misgengjum í eldstöðvakerfi Ljósufjalla. Þetta kerfi nær alla leið frá Grábrók í austri og til Berserkjahrauns í vestri, eða um 90 km veg. Misgengið í Geldingaborg er mjög áberandi sprunga, sem má rekja um 10 km til vesturs í Urðardal, rétt norðan Hafursfells.   Rétt fyrir vestan Geldingaborg hefur misgengið skorist í gegnum Nykurhraun og hreyfing á misgenginu hefur skapað hér tjörn. Nykurhraun er nokkuð vel gróið og sennilega meir en fimm þúsund ára gamalt, en hraunið er þvá eldra en þessi síðasta hreyfing á misgenginu. Til austurs liggur misgengið í sömu stefnu og gígarnir fjórir, sem mynda Ytri og Syðri Rauðamelskúlur. Hér á láglendi hefur því basalt kvika streymt upp sprunguna og myndað tvö hraun. Kristján Sæmundsson (1966) hefur aldursgreint Syðra Rauðamelshraun sem 2615 ára gamalt. Sennilega er Ytra Rauðamelshraun jafnaldra þess. Misgengið í Geldingaborg hefur verið virkt á síðasta jökulskeiði Ísaldarinnar, en það hefur sennilega verið síðast virkt fyrir um 2600 árum, þegar eldvirknin varð í Rauðamelskúlum.   Einnig er jarðhitasvæði á Syðri Rauðamel, með allt að 45oC yfirborðshita, á þessu misgengi (Guðmundur Ómar Friðleifsson 1997). Enn austar eru gígarnir Rauðhálsar, sem munu hafa gosið skammt eftir Landnám (yngsta eldstöð Snæfellnsness) og virðist vera á sama misgengi. Ekkert er vitað um sjálftavirkni á þessu misgengi, enda eru engir skjálftamælar staðsettir á Snæfellsnesi.


Kjarval í Eldfjallasafni

KjarvalAð öðrum ólöstuðum er ljóst að Jóhannes S. Kjarval er merkasti listamaður Íslands.   Það er því mikil ánægt að tilkynna að nú er eitt af verkum Kjarvals til sýnis í Eldfjallsafni í Stykkishólmi. Hér er um að ræða mynd af Snæfellsjökli, sem gerð er um haustið 1953. Kjarval er einkum þekktur fyrir myndir sínar af hraunmyndunum og landslagi, sem sýna stórbrotna náttúru landsins. Kjarval byrjaði að mála Snæfellsjökul árið 1910 og fór sinn fyrsta leiðangur á Snæfellsnes árið 1919. Uppúr 1940 fór hann margar ferðir á Snæfellsnes og málaði víða um Nesið. Hann unni landinu umhverfis Jökul svo mikið, að árið 1944 festir hann kaup á jörðinni Einarslón undir Jökli fyrir 20 þúsund krónur. Einarslón er fast við Djúpalón, sem nú er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna á Snæfellsnesi. Myndin í Eldfjallasafni sýnir suður hlíð Snæfellsjökuls og lítur litamaðurinn hér í áttina að Hjartabrekkum fyrir ofan Laugatjörn. Myndin er máluð með vatnslitum á pappír og er í eigu Katrínar Jónsdóttur.

 

 

 

 


Eigum við að afskrifa Helguvík?

Helguvík framtíðar?Atvinnuleysi er nú í vor að þurrkast út í Reykjanesbæ. En það er ekki vegna nýrra starfa í mengandi verksmiðjum, heldur í vaxandi ferðaiðnaði. Í mars í fyrra voru 830 manns (7,5%) á atvinnuleysisskrá í Rekjanesbæ, en 630 núna í mars (5,6%) eða um 200 færri. Það er sagt að meir en helmingurinn af þessum 5,6% séu útlendingar, sem hvorki tala íslensku né ensku og eru því ekki starfshæfir.  Forsvarsmenn Isavia, IGS og fleiri aðila í flugstöðinni hafa þurft að leita út fyrir Suðurnesin eftir starfsfólki. Ferðaþjónustan er nú langstærsti aðilinn á svæðinu.  Samt sem áður er stefna ríkisstjórnarinnar að reisa mjög mengandi stóriðjuver í Helguvík.   Stóriðja og ferðaþjónusta eiga alls ekki leið saman, en það er nú augljóst öllum öðrum landsmönnum en yfirvöldum.  Það er merkilegt að hestamenn á Reykjanesi hafa verið mest áberndi í mótmælum gegn iðnaðarverum í Helguvík.  Hestamannafélagið Máni á skilið hrós fyrir.  Þeir óttast að mengun frá stóriðjuverunum muni hafa áhrif á hestana sína. En er þá ekki ástæða til að óttast að mengun hafi áhrif á börn þeirra, og þeyndar mannfólkið allt? En reynslan sýnir að flúor mengun til dæmis frá álverinu á Grundartanga hefur nú haft alvarleg áhrif á hesta í Hvalfjarðarsveit. En þróunin virðist halda áfram í skjóli iðnvæðingarstefnu núverandi yfirvalda. Norðurál (Century Aluminum) stefnir á að reisa álver hér. Einnig stefnir United Silicon á að reisa hér kísilver. Á Helguvík og ef til vill allur Reykjanesskagi að verða ruslatunnan fyrir stóriðju á Íslandi?  Enn er tími til að stemma stigu við þessari hættulegu þróun.  Það er enginn vafi að bæði álver og kísilver eru mjög mengandi og er það ekki eingöngu flúor, en ýmis önnur óæskileg efni, sem berast út frá þeim.  Eitt og sér er þessi mengun nægileg ástæða til að vísa á brott slíkum sóðalegum iðnaði, en það eru önnur rök nú komin upp á yfirborðið:  það er næg atvinna í boði á Íslandi sem er tengd ferðaiðnaði, og því engin rök  fyrir hendi til að stuðla að uppbyggingu iðnaðar lengur.


Plisetskaya er látin

Maya Plisetskaya, merkasta ballerína allra tíma, er látin í Þýskalandi, 89 ára. Ótrúlegur listamaður, sem var gædd mikilli fegurð og orku. Dans hennar í Carmen þegar hún var 61 árs er orðinn þjóðsögn.


Silicor gerir árás

Ég bloggaði hér um áform Silicor hinn 18. Júlí í fyrra að reisa verksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði. Það vakti töluverða athygli, bæði vegna þess að margir hafa áhyggjur af sölu orku á ódýrasta verði, margir eru á báðum áttum með frekari iðnað og verksmiðjurekstur á Íslandi og einnig vegna hugsanlegrar mengunar frá þessari tegund iðnaðar. En framleiðsla á kísil sólarsellum er fræg fyrir að vera mjög mengandi. Í viðbót er það mín skoðun að efnahagsleg framtíð Íslands líggi ekki í aukinni og vaxandi mengandi stóriðju. Nú er ferðaþjónustan orðin stærsta grein í efnahag landsins. Til að vernda ásynd og nátturu Íslands er mikilvægt að halda iðnaði og mengun í skefjum og draga úr, frekar en bæta við stóriðju.

 Fyrirtækið Silicor hefur frekar ófagran feril í Norður Ameríku og má segja að þeir hafi eiginlega flæmst úr landi. Hvorki Ameríkanar né Kanadamenn vilja lýða mengandi iðnað af þessu tagi og láta því Kínverja um slík skítverk. Ég rakti í blogginu hvernig Silicor, sem hét áður Calisolar, flæmdist frá Kaliforníu, komst ekki inn í Ohio eða Mississippi með verksmiðjur, fór frá Kanada, en virðist nú geta komið sér fyrir á Íslandi. Hér fá þeir ódýra orku og virðast geta mengað eins og þeim sýnist.

 Mér til nokkurrar undrunar svaraði fyrirtækið mér fullum hálsi, með því að gera árás á vefsíðu þá, sem vefritið Wikipedia hefur um mig og mín vísindastörf.   Þar hefur agent eða umboðsmaður Silicor komist inn og skrifað meðal annars að Haraldur Sigurðsson sé virkur í að deila á Banadríkjastjórn, deili á auðveldisstefnu heimsins, á starfsemi Kínverja á Norðurheimsskautinu, og einnig að ég hafi lýst því yfir að ég muni starfa gegn Hilary Clinton, ef hún fer í forsetaframboð.

Þetta virðist skrifað mér til lasta, og Silicor virðist ímynda sér að þessi skrif komi einhverju höggi á mig á þennan hátt. Nú, satt að segja er ég hreykinn af öllum þessum skrifum og tel, sem Bandariskur ríkisborgari til 40 ára að mér sé frjálst og heimilt að koma fram með mínar skoðanir á hverju máli sem er, í riti og í máli. Sem sagt: algjört vindhögg! Ég hef kosið Obama og Bill Clinton, en tel að Hillary sé ekki rétta forsetaefnið nú, vegna spillingar sem hefur komið sér fyrir í herbúðum hennar.  Það eru aðrir ágætir Demókratar sem ég tel hæfari, eins og Elizabeth Warren.

 Ég tel að Íslendingar eigi að vara sig á erlendum fyrirtækjum, eins og Silicor og alls ekki hleypa þeim inn. Ferill þess er ekki glæsilegur, og ferillinn er slíkur að það ætti að vera sjálfkrafa að þeim væri neituð aðstaða til að hefja verksmiðjurekstur hér. Skrif þeirra um mig sýna einnig að viðhorf fyrirtækisins eru fjandsamleg og að þeir muni beita öllum brögðum til að koma sínu fram. Hættulegir. Sennilega verð ég að fara að læsa útihurðinni hjá mér, sem við erum nú ekki vanir að þurfa að gera hér í Stykkishólmi. En varið ykkur Skagamenn: Hvernig líf viljið þið eiga í framtíðinni? Algjört mengandi verksmiðjuhverfi, sem venjulegt ferðafólk mun taka stóran krók á leið sína til að forðast.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband