Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

Úran námugröftur í nágrenni okkar á Grænlandi

IlimaussaqSést Grænland frá Íslandi? Jón Dúason (1947) taldi að svo sé, en sumir stærðfræðingar eru ekki á sama máli. Stysta vegalengdin milli landanna er aðeins um 280 km, frá fjöllunum við mynni Ísafjarðardjúps (Rytur, Deild, Göltur) og til austurstrandar Grænlands.  Nálægasta austurströndin er Blossevilleströnd, fyrir norðan Kangerlussuaq. Þetta er mikið hálendi, en þar fyrir ofan er Gunnbjarnarfjall, sem er hæsta fjall Grænlands, hvorki meira né minna en 3694 m á hæð.  Gnípurnar við Ísafjarðardjúp eru um 500 m á hæð,  svo ef maður tyllir sér á tá þar í björtu veðri, þá má vel vera að sjáist milli landanna yfir Grænlandssund.  Á landnámsöld rak Gunnbjörn af leið vestan Íslands.  Langt í vestri sá hann það sem hann taldi eyjar í fjarska, er hann nefndi Gunnbjarnarsker og telja má að hér hafi hann séð hæstu toppa austurstrandar Grænlands.  Sennilega varð sögnin um Gunnbjarnarsker til þess, að Eiríkur rauði leitaði lands langt vestan Íslands um 982.  Þótt stutt sé á landakortinu milli Íslands of Grænlands, þá virðist Grænland vera alveg hinu megin á hnettinum í huga flestra íslendinga.  Samskifti þjóðanna eru undarlega lítil, þótt grænlendingar séu okkar næstu nágrannar.  Það eru ýmsar ástæður fyrir því að við ættum að fylgjast betur með þessum nágrönnum okkar.  Ein þeirra er fyrirhugaður námugröftur grænlendinga á úran og öðrum geislavirkum efnum í suður Grænlandi.  Í október árið 2013 kom Hammond forsætisráðherra Grænlands í gegnum þingið nýjum lögum, sem veita heimilt að hefja námugröft á geislavirkum efnum, þar á meðal úran.  tugtupite-lujavrite.jpgAðal ástæðan fyrir þessum nýju lögum er þó ekki úran, heldur fylgiefnin, hin svokölluðu “rare earth elements” lanthanum, yttrium, europium, samarum og þrettán önnur), en þau eru ómissandi í rafeindaiðnaðinum. Kínverjar eru mjög ákafir í að grafa þessi efni úr jörðu á Grænlandi.   En ráða grænlendingar við geislavirk efni?  Getur það valdið mengun, sem jafnvel gæti haft áhrif á Íslandi?  Það er námufyrirtæki í Ástralíu, sem rekur á eftir: Greenland Minerals and Energy Limited.  Þeir vilja hefja úran námugröft í Kvanefjeld, en þar fá þeir einnig þóríum, rare earths of flúoríð.  Bergið er fagurt en hættulegt vegna geislavirkni.  Kvanefjeld er um 1200 km frá Íslandi. Þar er stórt berginnskot af sjaldgæfu tegundinni lujavrite, nálægt bænum Narssaq.  Í Kvanefjeld er úran aðallega í kristöllum af tegundinni steenstrupine, sem inniheldur um 0,5% af úran og mikið magn af þóríum.  En  námugröftur á þessu svæði veldur því að mikið magn af radon gasi losnar út í andrúmsloftið.  Radon er geislavirkt gas og hættulegt á stóru svæði umhverfis.  Hollendingurinn Jan Willem Storm van Leeuwen er einn að þeim fáu, sem hafa fjallað að viti um þær hættur, sem stafa af slíkum úran námum á Grænlandi.  Ég hef ekki enn séð minnst einu orði á grænlensku úrannámurnar í íslenskum fjölmiðlum.  Eigum við eftir að vakna upp við vondan draum einn daginn, þegar það er orðið of seint? 


Rosetta er komin til halastjörnunnar Comet 67P

Comet 67PEftir tíu ára ferðalag úti í geimnum, þá er geimfarið Rosetta loks komið til halastörnunnar Comet 67P.  Nú er geimfarið í aðeins um 130 km fjarlægð frá halastjörnunni og sendir ótrúlegar myndir heim til baka, til Geimferðastofnunar Evrópu.  Hér með fylgir ein slík mynd.  Þetta er stórmerkilegt augnablik í geimrannsóknum Evrópu.  Halastjarnan er um 4 km í þvermál og ótrúlega óregluleg í laginu.  Reyndar er hún eins og tvær kartöflur, sem hafa vaxið saman.  Maður bíður bara eftir því að þær detti í sundur og hver fari sína leið.  Halastjarnan er á hraða um  135 þúsund km á klst. En samt sem áður mun Rosetta senda 100 kg rannsóknatæki niður á yfirborðið til að kanna halastjörnuna nánar.  Menn halda að margar halastjörnur séu eins og drullugir snjóboltar, sem eru samansettir af blöndu af ís og grjóti.  Nú mun hið sanna koma í ljós.  Fylgjumst með!


Særými vex á Íshafinu og öldur birtast

SærýmiÞað er nýtt haf að opnast.  Hnattræn hlýnun er að svifta hafíshulunni af Íshafinu.  Ein afleiðing þess er að nú myndast öldur á Íshafinu, þar sem áður var samfelld breiða af hafís.  Ölduhæð er háð vindstyrk og einnig særými, eða fjarlægðinni, sem vindurinn getur blásið yfir hafið.  Nú vex særými með ári hverju á norðurslóðum, vegna þess að hafísinn er að hverfa. Hafsvæði, sem áður voru hulin hafís mikinn hluta ársins, eru nú opið haf og vindurinn nær að koma af stað miklum öldugangi.  Allt í einu er særými orðið eitt til tvö þúsund km og öldur rótast upp, sjólag versnar þar sem áður var kyrr sjór.  Myndin sýnir til dæmis áhrif storms, sem gekk yfir norðurslóðir árið 2012. Rauðu og gulu svæðin sýna háar öldur, allt að 5 metrar.  Hinar nýju siglingaleiðir í norðri, þar á meðal norðan Íslands,  geta verið erfiðar af þeim sökum, einkum á ágúst og september, þegar hafísinn er minnstur og særými er mest.


Loftsteinaárásin á Hadean tíma jarðar

irkon aldurFyrsta tímabil jarðsögunnar nefnis Hadean, frá um 4 til 4,5 milljörðum ára.   Nafnið Hades vísar á guð forn-grikkja, sem réð ríkjum í undirheimum.   Við vitum lítið um þennan tíma á upphafsárum jarðar, vegna þess að mjög lítið af jarðlögum eða svo fornu bergi hafa varðveist.  Reyndar hefur nær ekkert svo gamalt berg varðveist, heldur aðeins litlir kristallar af  gerðinni zikon, sem finnast inni í yngri berglögum.  Fyrsta myndin sýnir aldur á slíkum zirkon kristöllum.  Þeir yngstu eru um 3,8 milljarðar ára en þeir elstu eru um 4,45 milljarður ára gamlir.  Aldur jarðar er talinn 4,54 milljarðar, og þá vantar okkur enn “aðeins” eitt hundrað milljónir ára til að finna berg jafn gamalt og myndunartími jarðar.   Það finnst sennilega aldrei, því unga jörðin varð fyrir árás stórskotaliðs, sem splundraði og umrótaði yfirborði hennar.  Þetta stórskotalið voru loftsteinar, sumir hundruðir km í þvermál.  Það er talið að um 10% af massa jarðarinnar hafi bætst við þegar þessi loftsteinaárás stóð yfir.  Líkanið bendir til að einn eða fleiri risaloftsteinar (stærri en 1000 km í þvermál) hafi rekist á jörðina á þesum tíma og nokkrir (3 til 7 stykki) sem voru um 500 km.   Simone Marchi og félagar hafa rannsakað þetta fyrsta tímabil jarðar og gert líkön af loftsteinaárásinni. Önnur mynd sýnir líkan þeirra af dreifingu loftsteinagíga á jörðu á þessum tíma.  loftsteinagígarVið notum tunglið til að mæla hvað loftsteinaárasin á jörðina var mikil, hver tíðni loftsteina var og hvað þeir voru stórir.  Á tunglinu er engin veðrun og ekkert rof  og loftsteinagígarnir eru vel varðveittir og þar með sagan um tíðni og stærð loftsteina í jarðsögunni. Síðan má færa þessar upplýsingar yfir á jörðina.   Þá kemur í ljós að 60 til 70% af yfirborði jarðar var rótað upp allt niður á 20 km dýpi vegna loftsteinaárekstra. Jörðin var þá að mestu eins og vel plægður garður, þar sem meiri hluta af ytri jarðlögum var rótað og snúið við.   Loftárásinni lauk að mestu fyrir um 3,8 milljörðum ára. Á meðan á henni stóð hefur jörðin verið dauð, sterilizeruð, brennd, glóandi heit, óbyggileg!  Ekkert líf, ekki einu sinni minnstu örverur, hafa getað lifað hér þá í Hades eða  helvíti.


Olíudraumurinn við Grænland fjarlægist meir og meir

Leiv EirikssonSkoska olíufélagið Cairn Energy er fyrsta og eina félagið, sem hefur gert alvarlega olíuleit umhverfis Grænland. Eftir miklar mælingar á hafsbotninum í nokkur ár, þá tóku þeir það afdrifaríka og kostnaðarsama skref að hefja djúpborun árið 2010 og héldu áfram 2011. Við borun notuðu þeir risaborpallinn Leiv Eiriksson, sem sést á myndinni hér.  Kostnaðurinn er mikill, þegar slík stór tæki  eru tekin á leigu.  Áður en varir var kostnaður við borun kominn upp í $1,9 milljarða.  En engin olía fannst í 5 holum, sem boraðar voru í Baffinflóa, vestan Grænlands.  Nú hefur Cairn tilkynnt að þeir séu hættir í bili.  Nú segjast þeir vera of uppteknir annarstaðar í heiminum.  Sumir halda að Cairn, eins og mörg önnur félög með áhuga á Grænlandi, séu að bíða og sjá hvað setur með þróun stjórnmála á Grænlandi.   Stjórnarandstaðan hefur lýst vantrausti á stjórnina og sumir erlendir fjárfestar telja að nú sé ekki gott ástand innanlands fyrir miklar erlendar fjárfestingar.  En hvað sem stjórnmálunum líður, þá er greinilegt að olíuleit við Grænland hefur ekki heppnast. Hugsanlega er Grænlandssvæðið, eins og Drekasvæðið, dottið út úr olíuglugganum, eins og ég hef áður bloggað um hér:

http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1286368/

og einnig hér:

http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1285658/


Hverjum eigum við að trúa?

makríllÍ dag er þessi fyrirsögn í frétt hjá RUV: “Útbreiðsla makríls við Ísland lítið breyst. Útbreiðsla makríls við Ísland virðist svipuð og síðustu ár að sögn Sveins Sveinbjörnssonar leiðangursstjóra á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni.”

Í sama fjölmiðli er þessi frétt:  Miklar breytingar á lífríki.  Lífríkið í Norður-Atlantshafi hefur tekið miklum breytingum vegna hækkunar sjávarhita. Nýjar rannsóknir norskra sjávarlíffræðinga í sumar sýna að síld og markríll færa sig norður í höf.  Norskir vísindamenn hafa nú í fyrsta sinn kortlagt mörk útbreiðslu makríls til norðurs. Í ljós kom að makríllinn færir sig æ lengra til norðurs meðan norski síldarsofninn hefur nú þrýstst út á ytri kant markílsvæðisins í norðvestri.  Makrílnum heldur áfram að fjölga en ástand síldarstofnsins heldur áfram að versna, lítið finnst af fullorðinni síld.  Við hækkandi hitastig í sjónum flytur átan sig sem makríll og síld lifa á.  Kenningar eru um að þegar makrílnum fjölgi éti hann meira af síldarseiðum og því fækki síldinni. Búist er við hækkun hitastigs sjávar síðsumars og þá er búist við að  makríllin fari enn norðar, allt til Svalbarða. Allt bendi til að hlýnun hafsins haldi áfram næstu árin og makríll og  ýmsar aðrar  fisktegundir fari þá enn norðar.”

 

Hvers vegna sér Hafró engar breytingar, en norðmenn leggja höfuðáherslu á gögn sem sýna miklar breytingar?  Eru þeir kannski ekki á sömu blaðsíðunni? 


Þergar kýrnar valda sprengingu

Hlaðan springurSíðastliðin janúar varð dálítið sérstæð sprenging í fjósi í Rasdorf í Þýskalandi. Níutíu kýr fórust, en orsök sprengingarnar var að það kviknaði í metan gasi í fjósinu.  Loftræsting var lítil eða engin og metan sem kýrnar gáfu frá sér í báða enda safnaðist fyrir, þar til einhver rafmagnsneisti kveikti í  og þakið fauk af.    Myndin sýnir fjósið í ljósum logum.  Já, nautgripir gefa frá sér mikið metan gas, bæði þegar þeir ropa og reka við. Það er talið að venjuleg kýr gefi frá sér milli 100 og 500 lítra af metan á dag, eða sambærilegt við magnið af mengun frá einum bíl.  Útlosun á metan gasi er alvarlegt mál, því þessi gas tegund hefur 21 sinnum meiri áhrif á hlýnun heldur en sambærilegt magn af koltvíoxíði.  Öll dýr, sem eta gras (kýr, sauðfé, geitur, úlfaldar ofl.) hafa fjóra maga, þar sem melting fóðurs fer fram.  Það eru bakteríur eða örverur (methanogens) í maganum, sem stuðla að rotnun.  Afleiðing þess er að mikið magn af metan og koltvíoxíð gasi myndast í maganum, sem kýrnar losa sig við úr báðum endum metlingarvegsins.  Þetta er oft nefnt biogas.  Taflan sýnir efnagreiningu þess.  BiogasÞað er heilmikið gas, sem myndast.  Til dæmis í Ástralíu er talið að nautgripir og skyld húsdýr gefi frá sér rúmlega 13% af öllu gasi, sem berst út í andrúmsloftið. Þar við bætist mikið magn af metan gasi, sem myndast í mykjuhaugum.  Þetta er ekkert grín lengur, þegar við höfum í hug að það eru yfir 1,5 milljarður nautgripa á jörðu.  Sennilega gefur kýrin frá sér um 70 til 120 kg af metan á ári.  Það jafngildir loftslagsáhrifum frá 2300 kg af koltvíoxíði á ári.  Það er jafn mikið magn af koltvíoxíði og það sem losnar úr læðingi við að brenna 1000 lítrum af bensíni.  Ef bíllinn eyðir um 8 lítrum á 100 km, þá samsvara það 12500 km á ári.   Það eru ekki til nákvæmar tölur um biogas, en FAO stofnun Sameinuðu Þjóðanna segir að nautgripir og landbúnaður yfirleitt losi um 18% af öllum gróðurhúsagösum á ári.  Málið er orðið svo alvarlegt, að Hvíta Húsið gaf út skipan í júní um að nú beri að draga úr metan útblæstri frá landbúnaði um 25% fyrir árið 2020.


Hlýnun heldur áfram

Þegar ég er að kenna, þá reyni ég að forðast að endurtaka efni, jafnvel þótt það sé mjög mikilvægt. Mér finnst það sýna lítilsvirðingu gagnvart nemendum, ef maður er að endurtaka.  En auðvitað er það oft gert. Ég minnist til dæmis á Ríkisútvarpið. Þeir kalla endurtekið efni “Útvarpsperlur” og þeim fer nú mjög fjölgandi.  Hér fyrir neðan fylgja nokkrar “perlur” varðandi hlýnun.  Nú þarf ég því miður að endurtaka atriði sem ég hef fjallað um varðandi hnattræna hlýnun, reyndar nokkrum sinnum áður. Mér virðist að lesendur hafi alls ekki tekið eftir þessu.  Ég sé að allmargir lesendur telja að hlýnun á jörðu hafi stöðvast fyrir um tíu til fimmtán árum. Það er rétt, ef þú velur þér viss gögn, eða notar svokallaða “cherry picking” aðferð, en lítur ekki á heildina.   Heildin er meðalhiti í lofthjúpnum á yfirborði jarðar OG meðalhiti í yfirborði og efri hluta heimshafanna.  Reyndar eru heimshöfin miklu mikilvægari mælikvarði á hitafar en lofthjúpurinn.  Skoðið til dæmis efni, sem ég setti inn á bloggið hinn 1. júlí 2014: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1404256/

Þar kemur fram, að meðalhiti, bæði haf og lofthjúpur, hefur verið stígandi ár hvert.   Takið einnig til dæmis færslu mína frá 25. júni 2014: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1402441/  Þar kemur fram að hafið hefur verið að hitna stöðugt, og hlýnun hafsins nær niður á meir en 400 m dýpi.  Takið færslu, sem ég gerði 23. janúar 2013 einnig um hlýnun hafsins: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1278537/ 

En ef til vill er samt athyglisverðast að skoða færslu mína frá 29. nóvember 2012  http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1270732/

Þar bendi ég á þá einföldu staðreynd, að aðeins efstu 260 cm af heimshöfunum innihalda jafn mikinn hita og allur lofthjúpurinn!   Sjórinn er nær þúsund sinnum eðlisþyngri en loftið (1030 kg/m3 á móti 1.20 kg/m3 við 20ºC).  Eitt kíló af vatni getur innihaldið 4,18 sinnum meiri hita en sambærilegur massi af lofti.  Og enn frekar: sama rúmmál af vatni getur innihaldi 3558 sinnum meiri hita en jafnt rúmmál af lofti.  Þessar einföldu staðreyndir kenna okkur, að hlýnun hafsins er mörgum sinnum mikilvægari hvað varðar hnattræna hlýnun en hitafar lofthjúpsins.  Við vitum ekki hvers vegna hafið hlýnar nú hraðar en lofthjúpurinn, en við vitum að þegar á heildina er litið, þá heldur hnattræn hlýnun áfram.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband