Færsluflokkur: Ferðalög

Stjórnarmorðin í Grenada voru fyrir 40 árum

Flag_of_Grenada

Hinn 19. oktober, 1983 var Maurice Bishop, forsætisráðherra eyjarinnar Grenada í Karíbahafi, tekinn af lífi ásamt sjö öðrum starfsmönnum í ríkisstjórn eyjarinnar. Þessi hryllilegi atburður hafði mikil áhrif á mig, þar sem ég þekkti persónulega ýmsa aðila sem stóðu báðum megin í þessu máli. 

Árin 1970 til 1974 starfaði ég sem eldfjallafræðingur við University of the West Indies, en háskólinn var staðsettur í Trinidad.  Fyrir norðan mig var löng keðja af eldfjallaeyjum, þar á meðal Grenada, sem voru flestar virkar og þar var aðal starfssvið mitt.  En í háskólanum kynntist ég ýmsu fólki, og þar á meðal var hópur af Marxiskt-Leninistum, sem voru innfæddir Karíbahafsmenn að uppruna, en höfðu allir verið í háskólanámi á Bretlandi. Þar höfðu þeir drukkið í sig þá hörðu vinstri stefnu, sem réði allri stjórnmálaumræðu innan breskra háskóla á þeim tíma og færðu nú þessar róttæku kenningar með sér heim til Karíbahafsins. Ekki má gleyma því í þessu sambandi að þessi vel menntaði hópur innfæddra manna og kvenna þurfti yfir leitt ekki að rekja ættir sínar meir en tvær eða þrjár kynslóðir  aftur í tíma, en þá var komið að forfeðrum sem voru þrælar í ánauð.  Byltingarandinn sauð og kraumaði undir niðri og einnig Black Power hreyfingin. Myndin er af Maurice Bishop. Maurice Bishop

Þegar ég kem fyrst til Grenada, þá er þar einræðisherra við völd, sem hét Eric Gairy. Hann stýrði landinu með harðri hendi og beitti óspart hópi af glæpamönnum, sem nefndist Mongoose Gang, til að myrða fólk eða þvinga til síns máls.  Gairy var í miklu uppáhaldi hjá Ronald Reagan forseta Bandaríkjanna, vegna þess að hann barði niður allar hreyfingar sem prédikuðu sósíalisma. Maður gat ekki hugsað sér betri blöndu til þess að hleypa af stað byltingu á þessum tíma, en að hræra saman Marxiskt-Leninistum eins og þeim sem höfðu sig mikið frammi í háskólum í Vestur Indíum og harðstjórum eins og Eric Gairy í Grenada. 

Maurice Bishop og kunningi minn Bernard Coard voru báðir komnir heim og sestir að á Grenada um það leyti er ég flyt frá Trinidad 1974. Þeir stofna samtök sem heita New Jewel Movement, en var í raun pólitískur flokkur með hreina Marxist-Leninist stefnu.  Þeir tóku þátt í kosningum í Grenada, en harðstjórinn Gairy stjórnaði atkvæðatalningu og réði úrslitum allra kosninga.

Þeir létu til skarar skríða í mars 1979, þegar Gairy var fjarverandi í Bandaríkjunum.  Sveitir sem tilheyrðu New Jewel Movement tóku ríkisstofnanir, herstöðvar, lögreglustöðvar og helstu byggingar, án þess að mótstaða væri gerð. Byltingunni var lokið.  En vandinn var sá, að þetta voru flestir theóretískir Marxistar, sem höfðu enga reynslu af því að sjórna heilu ríki.  Bishop var skipaður forsætisráðherra, en hann hafði mikið persónulegt fylgi í landinu. 

Það ríkti mikil gleði og góður andi í Grenada strax eftir byltinguna.  Frelsissinnar og Marxist-Leninist fólk þyrptist til Grenada til að vinna fyrir byltinguna. Þar á meðal var fyrverandi eiginkona mín, Carol Davis frá Guyana, en hún var hagfræðingur að menntun og tók nú þatt í myndun nýs hagkerfis fyrir Grenada. 

Ég var starfandi í Bandaríkjunum á þessum tíma, en hafði mörg rannsóknarverkefni í Karíbahafi og á eldfjallaeyjunum.  Þar á meðal vann ég mikið við athuganir á virku neðansjávareldfjalli rétt norðan Grenada, sem heitir Kickém-Jenny.  Í einni ferð minni árið 1981 ferjaði vinur minn mig í einkaflugvél sinni frá eynni Mustique til Carriacou, sem er rétt norðan við Grenada.  Þar fékk ég litla trillu til að komast á eynna Isle de Caille.  Eyjan er mjög ungt eldfjall og var þá ókönnuð.  Eftir störf mín þar hélt bátsferðin áfram til norður strandar Grenada. 

Ég átti góða daga á Grenada. Við Carol hittumst og hún lýsti fyrir mér því mikla starfi sem nýji forsætisráðherrann Maurice Bishop og hans fólk væri að gera eftir byltinguna. Hún var á kafi í hagfræðimálum hins nýja ríkis og hægri hönd Bishops á því sviði. En samt fékk ég það á tilfinningunni að hún mundi ekki ílengjast á Grenada.  Sem reyndist raunin, því hún flutti til Jamaika ári síðar í lögfræðinám.  

Einn daginn er ég staddur á veitingahúsi í höfuðstaðnum St. George’s  að snæða máltíð.  Allt í einu er kallað hárri röddu fyrir aftan mig; ´Haraldur!  Are you here working for the CIA!´  Ég snéri mér við í sætinu og horfði á stóran, þrekvaxinn og skeggjaðan mann. Þarna var sjálfur Bernard Coard kominn, varaforsætisráðherra landsins og harðlínumaðurinn.  

Við heilsuðumst hlýlega og drukku nokkra bjóra saman. Hann vissi alt um jaðfræðistörf mín á Grenada og á hafsbotninum umhverfis. Sennilega tókst mér að sannfæra hann um, að ég væri ekki að njósna fyrir CIA, en viðbrögð hans voru alveg eðlileg undir þessum kringumstæðum. Bernard hafði haft fregnir af ferðum mínum og vissi að ég hafði komið inn bakdyramegin til Grenada.

Mín fyrverandi eiginkona Carol rétt slapp frá Grenada, því skömmu eftir brottför hennar sprakk allt í loft upp.  Það er oft sagt að byltingin éti börnin sín, og á það vel við hér.  Deilur höfðu komið upp innan byltingarstjórnarinnar, einkum milli Maurice Bishop og Bernard Coard. Það er enn óljóst hvað gerðist vegna þess að miðstjórn flokksins var lokuð og nær engar upplýsingar bárust af fundum hennar.  Um miðjan október 1983 gerðu Bernard Coard og fylgismenn hans tilraun til að taka öll völd úr höndum Bishops og hnepptu hann í stofufangelsi.  Fylgismenn Bishops streymdu út á götur borgarinnar í tugþúsundatali 19. október, og náðu að frelsa hann úr fangavist. Í raun snéri Bernard Coard nú frá hinni Marxist-Leninist stefnu og tók upp hreinan Stalínisma. 

En hersveitir sem voru undir stjórn Bernard Coard snéru vopnum sínum á mótmælendur, skutu marga til dauða og særðu fjölda manns. Hersveitin tók Bishop og sjö helstu samstarfsmenn hans fasta, færðu þá í gamalt virki í borginni, stilltu þeim upp við vegg og skutu þá til bana. Lík þeirra hafa aldrei fundist. 

Ríkisstjórnir í öllum nágrannaríkjum voru agndofa yfir þessu hryðjuverki en brugðu skjótt við og undirbjuggu strax innrás í Grenada undir stjórn Bandaríkjanna, sem hófst 25. október 1983. Bernard Coard var tekinn fastur, dæmdur til dauða, en siðar var því breytt í fangelsisvist fyrir hann og sjö ódáðamenn hans. Hann sat alls 26 ár í fangelsi, en er nú laus og dvelur á Jamaika.

Bandaríkin, undir stjórn Ronalds Reagan, höfðu alltaf horn í síðu byltingarmanna á Grenada og óttuðust að kommúnista áhrif kynnu að breiðast út umhverfis Karíbahaf. En byltingin át börnin sín og Ameríkanar þurftu ekki fyrir neinu að hafa, nema að gera hreint í lokin.

 

 

 

 


Eru afkomendur Thule fólksins í Ammassalik?

000022074 copyÍ síðasta bloggi fjallaði ég um hvernig heill þjóðflokkur af Thule fólki á norðaustur Grænlandi hvaf árið 1823. Breski skipstjórinn Clovering hitti tólf manna hóp þeirra á eyju þar sem skilyrði til veiða voru best. Næsta dag voru þeir allir horfnir. Héraðið var mannlaust á eftir, í nákvæmlega eitt hundrað ár, þar til Danir fluttu 85 manna hóp af Inuitum, nauðuga -- viljuga, 70 frá Ammasalik og 15 frá vestur Grænlandi, til Scoresbysunds og settu á laggirnar nýja þorpið Ittoqqortomiit.

Hvert fóru þeir, eða dó stofninn hreinlega út vegna sjúkdóma, við smit frá evrópskum hvalföngurum? Fundur á nokkraum dauðahúsum (rústir þar sem mannaleifar finnast innan húss, ógrafnar) bendir til mikilla sjúkdóma eða sults.

Suður mörk þessa svæðis Thule fólksins á norðaustur Grænlandi eru eins og jökulveggurinn í Game of Thrones: nær algjörlega ófær.   Þetta er fjallgarður úr blágrýti eða gömlum basalt hraunlögum. Hann ber nafnið Geikie Plateau, og er þar hvergi lendingu að fá. Austur oddi á Geikie Plateau fjallgarðinum er Kap Brewster. Það beygir ströndin skarpt til suðurs, en samfellt hamrabelti kallað Blosseville ströndin, tekur við í mörg hundruð kílómetra til suðurs. Hvergi er lendingu aða skjól að fá á þeirri strönd. Thule fólk fór þá yfirleitt lítið eða ekkert sunnar en Scoresbysund. Fólksflutningar fóru fram á sjónum eða á hafís, ekki yfir fjöll og firnindi.

Það eru samt heimildir sem sýna að Thulefólk fór búferlum frá Scoresbysundi og alla leið til Ammassalik (Tasiilaq), 850 kílómetra langa leið, og á afkomendur þar í dag. Það var árið 1884 að kaptainn Gustav Holm kom til Ammassalik, fyrstur evrópumanna, en leiðangur hans fór á konubátum (umiaq) frá vestur Grænlandi og fyrir suður odda Grænlands og réru þeir síðan up með norðaustur ströndinni þar til þeir koma til Ammassalik. Þar uppgötvar Holm byggð Inuita sem höfðu verið algjörlega einangraðir frá Evrópumönnum um aldur og ævi.   Þetta var og hafði lengi verið eina byggðin á allri austurströnd Grænlands þar til Ittooqortomit nýlendan var stofnuð í Scoresbysundi árið 1924. Það kom strax í ljós að íbúar Ammassalik voru sérstæðir. Þeir höfðu til dæmis ólíkan framburð Grænlenskunnar.

Trúboðar setja upp búðir í byggðinni árið 1894 og byrjuðu að kristna fólkið. Einnig kemur danska stjórnin upp verslunardtöð það ár. Það var árið 1905 sem danski mannfræðingurinn William Tahlbitzer kemur til Ammassalik og dvelur yfir eitt ár í þorpinu. Þá voru 470 íbúar á Ammassalik svæðinu og nær allir hétu þeir heiðnum nöfnum. Fólkið var enn á steinöldinni hvað snertir menningu og tækni. Verslunarmiðstöð danska ríksins og kirkjan urðu smátt og smátt miðpúnktar þjóðlífsins fyrir íbúana.

Tahlbitzer sýndi fram á að í Ammassaliq ríkir mállýska sem er mjög ólík þeirri sem ríkir á vestur strönd Grænlands. Tahlbitzer gerði mjög merkar athuganir á íbúum og skráði hina ýmsu þætti í menningu þeirra. En hann tók líka myndir. Hér með fylgir ein af myndum Tahlblitzers, sem er tekin af fjölskyldu í sumarbúðum á Kap Dan, á suður enda Kulusuk eyjar. Það er angakokinn eða galdramaðurinn Ajukutoq sem stendur hér fyrir miðju, ber að ofan, með konu sinni Söru til vinstri og hinni konu sinni Helenu og fimm börnum þeirra. Hárgreiðsla kvennana, með stóran topphnút og strengi af hvítum og lituðum glerperlum, er sérstök og einkennandi fyrir þetta svæði. Hnúturinn er mikið tískufyrirbæri, sem hækkar konurnar og gerir þær tignarlegri, eins og íslenski skautbúningurinn gerði. Myndin er algjörlega klassísk sem listræn ljósmynd, en hún gefur einnig innsýn í horfna menningu, sem heyrði steinöldinni til. Galdrakarlinn Mitsuarnianga sagði Tahlbitzer sögur af ferðum forfeðra sinna frá norðaustur Grænlandi og suður til Ammassalik, en langafi hans tók þátt í þeirri ferð, þegar hópar Inuita fóru frá Scoresbysund svæðinu og all leið suður til Ammassalik í lok átjandu aldar eða í byrjun nítjándu aldar. Sennilega sigldu þeir þessa leið á umiaq eða konubátum. Tunu er Grænlenskt orð sem þýðir “hin hliðin”, og vísar það til austur Grænlands, en íbúar austurstrandarinnar eru oft kallaðir Tunumiuts. Ég þakka Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni fyrir aðstoð með myndefni.


Ferðamönnum fjölgar enn

brottförHeyrst hafa raddir um, að ferðamönnum muni fækka á Íslandi á næstunni. Hér er tafla með merkilegar tölur frá Ferðamálastofu, sem sýna fjölgun þvert á móti. Í júní 2017 voru brottfarir ferðamanna frá Norður Ameríku 23% fleiri en í þeim mánuði árið áður. Yfir tímabilið janúar til júní voru brottfarir ferðamanna frá Norður Ameríku frá Íslandi 58% fleiri árið 2017 en árið áður. Það merkilega við þessar tölur eru breytingarnar fyrir ýmiss þjóðerni. Það eru ekki bara kanar, sem eru á ferðinni hér. Það er gífurleg aukning í fjölda ferðamanna frá Spáni, Rússlandi, Ítalíu og Kína. Ef til vill er aðeins að draga úr fjölguninni, enda væri það allt í lagi. Þetta er gott svona. Við ráðum ekki við meiri átroðning í þessu viðkvæma landi. Ísland er eins og mosinn: eitt skref útaf leið skilur eftir sig spor, sem tekur tugi ára að hverfa.


Hvernig er best að raða fólki inn í flugvél?

Það versta við flugferðir er biðin á flugstöðinni. Það næstversta er þröngin við innganginn þegar kallið kemur að fara um borð. Flugfélög hafa ýmsar aðferðir við að fylla vélina, en engin þeirra leysir vandann um troðninginn, bæði í ganginum inn og síðan í flugvélinni, áður en fólk kemst í sæti. Hér eru nokkrar aðferðir sem eru í gangi.

Fyrst aftast: Fólki er hleypt inn í hópum, fyrst þeir sem sitja eiga í fimm öftustu röðunum í vélinni og svo koll af kolli, fimm raðir í senn. Þetta er langalgengasta aðferðin og notuð til dæmis hjá Virgin, American Airlines, JetBlue Airways og US Airways. Mythbusters gerði tilraunir með ýmsar aðferðir varðandi sætaskipan og með þessari aðferð tók það 24 mín. 29. sek. að fylla vélina.

Glugginn fyrst: Þessi aðferð byggist á því að hleypa gluggaröðunum in fyrst, síðan miðsætunum og svo síðast þeim sem sitja við ganginn. Aðferðin er kölluð WilMA í bransanum (window, middle, aisle). United beitir henni og einnig WOW. Ég flaug með WOW nýlega og þessi aðferð virkaði vel. Í tilraun Mythbusters tók aðeins 14 mín. 55 sek. að fylla vélina með WilMA aðferðinni. Vandamálið með WilMA er að fók, sem vill sitja saman fer ekki saman inn í vélina. Það gengur því ekki vel með foreldra og börn.

Frjálst val: Einnig mætti kalla þessa aðferð örtröð, en henni er beitt f Southwest Airlines. Sætin eru ekki númeruð og afleiðingin er algjört öngþveiti, en hún virkar samt nokkuð vel. Fók er ekki að eyða tíma í að leita að sætanúmeri, heldur sest beint í fyrsta laust sæti. Í tilraun Mythbuster tók þessi aðferð aðeins 17 mín. 15 sek. og í annari tilraun 14 mín. 7 sek.

tilraunirAð lokum eru hér niðurstöður úr tilraunum sem Carmona og félagar gerðu (2014), sýndar í línuriti. Tíminn er í sekúndum á lóðrétta ásnum, fyrir átta tilraunir sýndar á lárétta ásnum. Það er greinilegt að frjálst val (“random”) er fljótasta og ef til vill leiðin.

Örtröðin sem ríkir í flugvélinni við sætisleit er afleit, en flugfélög gefa aðeins einn kost til að losna við hana: að borga meira og kaupa sæti i fyrsta farrrymi eða business class.  Það er greinilega mjög í hag flugfélaga að spara tímann. Könnun sýnir að með því að stytta tímann sem fer í að fylla vélina af fólki um eina mínútu, þá sparast 22 evrur á hvert flug. Flugfélag með 300 flug á dag sparar sér þannig 2.409.00 evrur á ári.  En hvernig væri að byrja á því að smíða flugvélar með inngang í miðju? á er hægt að fylla í báðar áttir.  Einföld lausn.

 


Þjófurinn festur á mynd

 img_5522.jpg

Það var hinn 26. mars 2012 að mér bárust fregnir af hvalreka nærri Beruvík undir Snæfellsjökli. Ég flýti mér á staðinn og kom að um fjögur leytið. Þá sá ég stærðar búrhval liggja í fjörunni. Þetta var fremur stórt karldýr, ef dæma má af um tveggja metra löngum tittling, sem hékk utan á bolnum. Þegar nær kom tók ég eftir því að framhluti neðri kjálkans hafði verið sagaður af og blóðið steymdi úr sárinu, eins og önnur mynd sýnir. Í polli rétt hjá lá handsögin, með rautt handfang. Þjófurinn hafði flýtt sér á brott. Búrhvalstennur hafa töluvert verðmæti á svarta markaðnum og eru unnar í minjagripi, skartgripi og aðra smágripi, líkt og fílabein. Þegar heim kom fór ég að skoða myndirnar frá hvalstrandinu. Þá kom í ljós að ég hafði náð þjófnum á tvær myndir, þar sem hann er að hlaupa á brott, með frampartinn af neðri kjálkanum í höndum sér. Þetta er gráhærður meðalmaður á stígvélum, í bláum vinnugalla með rauða hettu, eins og myndin sýnir. Þrjóturinn var fljótur að laumast á brott þegar við komum að og kastar frá sér söginni í poll í fjörunni. img_5537.jpg

Þótt hvalrekinn ætti sér stað inan þjóðgarðsins, þá sýndu yfirvöld hvalnum engan áhuga og létu rotna á saðnum. Þarna var glatað ágætt tækifæri til að eignast heila beinagrind af sjaldgæfri hvaltegund, sem hefði verið merkilegt efni til sýninga í þjóðgarðinum. Ekkert hefði þurt til nema að varpa netdruslu yfir hræið og festa það niður í nokkra mánuði.

Rúmum þremur árum síðar, í byrjun maí árið 2015, var ég á göngu í Búðahrauni. Þá rakst ég á hvalreka í klettafjöru skammt fyrir suðvestan Fremribúðir. Þetta var heillegt hryggjarstykki af mjög stórum hval, eins og þriðja myndin sýnir. Beinin virtust ungleg, með mikið brjósk á milli liða, sem hélt þeim saman á öllum liðamótum.  Grindin var svo ungleg, að hundurinn Snælda vildi hvergi nærri koma að svo stórum beinum. Ég tel að þetta sé hryggurinn úr búrhvalnum, sem rak á land í Breiðuvík, fyrir vestan Búðir. Ef svo er, þá hefur hann rekið um 38 km leið með ströndinni á þremur árum.img_0164.jpg

 


Af hverju er regnboginn svo algengur á Íslandi?

img_1456.jpgÞannig leit regnboginn út hjá Hellissandi nýlega skömmu eftir hádegi. Breiddargráðan hefur áhrif á regnbogann, því það ræður því hvað sólin er hátt á lofti.  Ef sól er mjög hátt á lofti, eins og í hitabeltinu, þá myndast regnboginn ekki um miðjan dag. Regnboginn sést aðeins þegar sólin er nærri sjóndeildarhring. Við hærri breiddargráður, eins og á Íslandi, er sólin nærri sjóndeildarhring mikinn af tímanum og regnboginn myndast oft. Regnboginn er því miklu sjaldgæfari nærri miðbaug en hér norður frá.


Gamla Sæluhúsið í Kerlingarskarði

Nú vex upp kynslóð á Snæfsaeluhu_769_s.jpgellsnesi sem veit varla hvar Kerlingarskarð er. Önnur var nú öldin hér áður fyrr, en þá var Skarðið fjölfarnasti þjóðvegurinn norður yfir Snæfellsnes. Ekki gekk það ferðalag alltaf slysalaust. Í janúar árið 1906 varð til dæmis landpósturinn og aðstoðarmaður hans úti eftir mjög erfiða ferð yfir Kerlingarskarð. Þetta var eitt af mörgum dauðsföllum sem voru tengd Skarðinu. Nú lét stjórn Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu til skarar skríða og veitti 150 krónur til sæluhússbyggingar í Skarðinu. Það var 6 x 10 ánir að stærð. Ári síðar voru veittar 47 krónur til viðgerðar á húsinu.

            Ekki er mér kunnugt um hve lengi húsið stóð uppi, en sennilega var það ekki lengi. Ég rakst á rústir þess nýlega. Það var staðsett í háskarðinu, milli dysja smalanna, og á lagum móbergshrygg rétt fyrir norðan syðri dysina. Hleðslan fyrir grunninn er vel sjáanleg og nokkur spýtnabrot hér og þar.  Annað er ekki að sjá, en nú væri fróðlegt að vita hvort einhverjir hafi frekari heimildir um þetta gamla sæluhús. Mörgum árum síðar var reist myndarlegt sæluhús sunnar í Skarðinu, og stendur það enn.


Ferðamenn í Stykkishólmi

Það fer ekki framhjá neinum að ferðamenn setja svip sinn á Stykkishólm í auknum mæli. Sú holskefla af ferðamönnum, sem hefur undanfarið gengið yfir Suðurland hefur farið framhjá okkur að nokkru leyti, til allrar hamingju, vilja sumir segja.   Samt höfum öll orðið vör við aukinn ferðamannastraum, en okkur hefur skort mælikvarða til að dæma um vöxtinn í ferðamennsku í Hólminum. Auðvitað vita kaupmenn, gestgjafar og þeir sem reka veitingahús í Hólminum vel hvað syngur, en við höfum því miður ekki aðgang að þeirra tölfræði. Það er þó eitt sem lýgur ekki, en það er umferðin. Þá á ég við bílatalningu Vegagerðarinnar, en þeir hafa skráð umferð síðan árið 2000 í tæki sem er staðfest á Stykkishólmsvegi rétt hjá Skildi eða Arnarhóli (vegnúmer 58-01). Línuritið sem fylgir eru niðurstöður þeirra mælinga, frá árinu 2000 til 2015. Hér eru sýndar þrjár línur: rauða línan sýnir meðal fjölda bíla á dag yfir sumarmánuðina, sú bláa sýnir meðaltal bíla á dag yfir árið, og græna línan sýnir meðal fjölda bíla yfir veturinn.myndo_776_1a.jpg

            Það má lesa margt út úr þessu línuriti, en eitt er augljóst: umferðin inn í Stykkishólm hefur rúmlega tvöfaldast á þessu tímabili, á öllum árstímum. Það eru hæðir og lægðir á línunum, sem kunna að vera tengdar kreppunni uppúr 2008, en það er mest sláandi hvað vöxturinn er mikill árin 2014 og 2015. Það virðist ekkert lát vera á þessum vexti í umferð í dag, eins og seinni myndin sýnir. Hún er súlurit frá Vegagerðinni fyrir meðaltal hvers mánaðar árin 2014 til 2016, sem sagt: alveg nýjustu tölur fyrir Stykkishólmsveg. Þar kemur fram að síðan í mars í ár hefur hver mánuðurinn sett nýtt met og stígandinn heldur því áfram, um tíu til fimmtán prósent á mánuði, milli ára.

            Ég hef einnig fylgst náið með aðsókn í Eldfjallasafn síðan það var opnað sumarið 2009. Heildarfjöldi gesta hefur undanfarið oftast verið um 5000 á ári, en aðsókn hefur aldrei verið jafn mikil og nú, sumarmánuðina árið 2016, með til dæmis 1461 gest í safninu í júlí mánuði. Þar af eru erlendir gestir um 75%, mest frá Norður Ameríku. mynd-2.jpg

Hvernig bregðast Hólmarar við þessum aukna straum ferðamanna? Fjárfestar eru önnum kafnir við að veita meiri þjónustu í gistingu og veitingum, en bæjarfélagið virðist því miður ekki hafa tekið við sér. Ferðamenn vilja meir en mat og svefn. Þeir vilja einnig afþreyingu, helst menningartengda. Aðhlynning að söfnum bæjarins er í lágmarki og hefur reyndar dregist saman. Þetta viðhorf Stykkishólmsbæjar hefu mjög neikvæð áhrif á framhald reksturs Eldfjallasafns í þessum bæ.  


Ný Náttúruverndarlög eru mikil afturför

Eitt af höfuðeinkennum íslenskrar hefðar í sambandi við ferðalög er sá almannaréttur, sem ætið hefur ríkt varðandi rétt til ferðar og dvalar á annara manna landi. Almannaréttur þessi er til dæmis varðveittur í Jónsbók frá 1281 og ætið síðan, til dæmis í náttúrverndarlögum frá 1999.   Nú hafa ný náttúruverndarlög verið samþykkt á Alþingi, sem fjarlægja þennan mikilvæga rétt. Nú er landeigendum í lögunum veitt heimild til að banna umferð um óræktað land án þess að þurfa að rökstyðja slíkt bann. Þannig getur landeigandi nú takmarkað eða bannað með merkingum umferð manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi. Það er reyndar óskiljanlegt að ekki hefur verið meira fjallað um þetta atriði, sem er mikil afturför í ferðahefð í Íslenskri menningu.


Hin hliðin á Snæfellsjökli

Snæfellsjökull2015Við horfum á Snæfellsjökul oftast úr austri eða suðri og þá eru Jökulþúfurnar á toppnum áberandi. Í gær gafst mér tækifæri til að skoða Jökulinn að vestan og norðvestan verðu ásamt Ragnari Axelssyni ljósmyndara, en þá blasir við nokkuð önnur sýn, eins og myndin hans Ragnars sýnir. Þá erum við nefnilega komnir niður í aðalgíg eldfjallsins, sem er um 1.5 km í þvermál. Austurbrún gígsins er mikill hamar, og rísa þúfurnar þrjár upp fyrir ofan hamarinn. Það er enn óvenju snjóþungt hér eins og víðast á hálendi Íslands, en samt grillir í hraunlög í klettabrúninni, í gegnum hrímið. Vonandi gefst okkur tækifæri í haust að kanna þetta svæði frekar, þegar bráðnun nær hámarki og meira af berginu kemur í ljós.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband