Færsluflokkur: Jarðskorpan

Jarðspá og Galapagos

Markmið vísindanna er að kanna og skilja náttúruna. Þegar því takmarki er náð, þá eru vísindin fær um að beita samansafnaðri reynslu og upplýsingum  til að spá um framvindu mála á hverju sviði náttúrunnar.  Við spáum til dæmis í dag bæði veðurfari, þróun hagkerfa, þroskun fiskistofna og uppskeru. Spáin er það sem gefur vísindastarfsemi gildi. Vísindi sem eingöngu lýsa hegðun og ástandi náttúrunnar eru ónýt, ef spágildi er ekki fyrir hendi.  En stóri vandinn er sá, að stjórnmálamenn, yfirvöld og jafnvel almenningur hlusta oft ekki á spár vísindanna. Besta dæmið um það eru nær engin viðbrögð yfirvalda við spá um loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar.  Ef vandamálið er hægfara og kemst ekki inn í fjögurra ára hring kosningabaráttunnar í hverju landi, þá er það ekki vandi sem stjórnmálamenn skifta sér að.  Ég hef til dæmis aldrei heyrt íslenskan stjórnmálaflokk setja loftslagsbreytingar framarlega á stefnuskrá sína.

 

Jarðvísindamenn hafa safnað í sarpinn fróðleik í meir en eina öld um hegðun jarðar, en satt að segja tókst þeim ekki að skilja eðli og hegðun jarðar fyrr en í kringum 1963, þegar flekakenningin kom fram.  Þá varð bylting í jarðvísindum sem er sambærileg við byltingu Darwinskenningarinnar í líffræðinni um einni öld fyrr.  Nú er svo komið að við getum spáð fyrir um flekahreyfingar á jörðu, þar sem stefna og hraði flekanna eru nokkuð vel þekktar einingar.  Þannig er nú mögulegt til dæmis að spá fyrir um staðsetningu og hreyfingu meginlandanna.  Önnur svið jarðvísindanna eru ekki komin jafn langt með spámennskuna. Þannig er erfitt eða nær ógjörlegt ennþá að spá fyrir um jarðskjálfta og eldgosaspá er aðeins góð í nokkra klukkutíma í besta falli. 

 Galapagos

Við getum notað jarðspá til að segja fyrir um breytingar á jarðskorpu Íslands í framtíðinni og um stöðu og lögun landsins.  Ég gerði fyrstu tilraun til þess í kaflanum “Galapagos – Ísland framtíðar?”  í bók minni Eldur Niðri, sem kom út árið 2011 (bls. 261-269).    Þar nýtti ég mér upplýsinar um þróun jarðskorpunnar á Galalapagos svæðinu í Kyrrahafi, en þar er jarðfræðin alveg ótrúlega lík Íslandi, eða öllu heldur hvernig Ísland mun líta út eftir nokkrar milljónir ára. 

Á Íslandi og Galapagos eru tvenns konar hreyfingar jarðskorpunnar í gangi.  Annars vegar eru láréttar hreyfingar, eða rek flekanna, en hins vegar eru lóðréttar hreyfingar, sem hafa auðvitað bein áhrif á stöðu sjávar og strandínuna.  Á báðum svæðunum eru einnig tvö fyrirbæri, sem stýra þessum hreyfingum, en það eru úthafshryggir (í okkar tilfelli Mið-Atlantshafshryggurinn) og heitir reitir eða “hotspots” í möttlinum undir skorpunni.  Á Galapagossvæðinu hefur úthafshryggurinn færst stöðugt frá heita retinum, sem illug undir vestustu eyjunum.  Afleiðing þess er sú, að jarðskorpan kólnar, dregst saman, lækkar í hafinu og strrandínan færist inn á landið. Myndin fyrir neðan sýnir strandlínu Galapagos eyja í dag (til vinstri) og fyrir um 20 þúsund árum (myndin til hægri).  Það er ljóst að eyjarnar eru að síga í sæ vegna þess að jarskorpan er að kólna.  Þetta er bein afleiðing af því, að úthafshryggurinn er smátt og smátt að mjakast til norðurs og fjarlægjast heita reitinn undir eyjunum.  Áður var töluvert undirlendi sem tengdi allar eyjarnar sem þurrt land, en nú eru eingöngu fjallatopparnir uppúr sjó.   Eins og ég greindi frá í bók minni Eldur Niðri, þá tel ég að svipuð þróun eigi sér stað á Íslandi, en hun er komin miklu skemur á veg heldur en í Galapagos.


Óvissustig

Tjörnes brotabletið MetzgerÞá er Ríkislögreglustjóri búinn að lýsa yfir óvissustigi Almannavarna í dag vegna jarðskjálfta fyrir Norðurlandi. Þessi tilkynning kemur reyndar fjórum dögum eftir stóra 5,6 skjálftann hinn 21. október.  Af hverju ekki fyrr?  En tilkynningin kemur daginn eftir dóminn yfir jarðvísindamönnum á Ítalíu, en það er nú auðvitað bara tilviljun.  Aðal ástæðan  fyrir því að setja svæðið á hærra stig er svissnesk kona að nafni Sabrina Metzger.  Þessi jarðeðlisfræðingur og félagar hennar hafa fyrir einu ári birt greinar, þar sem fjallað er um ástand og spennu í jarðskorpunni undan Norðurlandi. Það eru því ekki nýjar niðurstöður, sem kalla á þessi nýju viðbrögð.  Metzger og félagar hafa nýtt sér einkum GPS mælinga á hreyfingum jarðskorpunnar yfir tímabilið frá 1999.  Tjörnes brotabeltið er sýnt á mynd númer eitt.  Á myndinni er mikill fjöldi lítilla rauðleitra púnkta, sem sýna upptök jarðskjálfta.  Jarðskjálftadreifingin teiknar vel fram útlínur Tjörnes brotabeltisins.  Syðri línan af jarðskjálftum er Húsavíkur-Flateyjar misgengið, sem er nú virkt þessa vikuna.  Hin þyrpingin af jarðskjálftum er norðar og teiknar út þann hluta brotabeltisins sem er kennt við Grímsey. Ártöl og svartar stjörnur sýna þekkta stóra skjálfta á svæðinu, ásamt stærð þeirra.  Takið eftir að síðasti stóri skjálftinn á meiri hluta Húsavíkur-Flateyjar misgengisins varð árið 1872.  Síðan hefur spenna hlaðist upp í þessum hluta flekamótanna í 140 ár, en á meðan hafa flekarnir í heild fjarlægst um 18 mm á ári.  Það má segja, að flekarnir séu læstir saman á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu, en á meðan hleðst upp spenna þar til hún yfirvegar lásinn og skorpan rifnar. Metzger og félagar hafa reiknað að spennan samsvari stórskjálfta sem er 6,8 að stýrkleika.  Hann er enn ókominn.  Reyndar hefur töluverð orka losnað úr læðingi nú þegar, eins og önnur myndin sýnir.  Þar eru sýndir skjálftar stærri en 2 á þessu svæði síðan um miðjan október.  Þar á meðal er skjálftinn sem var 5,6 hinn 21. október.  En það er minna en einn þrítugasti af orkunni, sem Metzger of félagar telji vera geymda sem spennu í skorpunni og gæti komið fram sem 6,8 skjálfti, ef öll spennan losnar.  SkjálftarHvað getur gerst, þegar (eða ef) lásinn fer af svona sneiðmisgengi eins og Húsavíkur-Tjörnes misgenginu?  Jú, það verður stór skjálfti, en getur það einnig haft áhrif á norður hluta eystra gosbeltisins, sem liggur í gegnum megineldstöðvarnar Þeistareyki, Kröflu, Öskju og fleiri?  Kynni það að valda gliðnun á gosbeltinu þarna nyrðra, ef til vill með kvikuhlaupi og eldgosi, eins og gerðist í Kröflu árið 1975 og í Öskju árið 1875.  Bíðum og sjáum til. Við lifum í spennandi landi!

Kvikuinnskot undir Eyjafjarðarál?

KvikuinnskotÍ tengslum við jarðskjálftaumbrotin í Eyjafjarðarál hef ég heyrt jarðvísindamenn velta því fyrir sér í fjölmiðlum að hér gæti kvikuinnskot hafa átt sér stað, en annar fræðingurinn benti á að hér eru ekki nein vegsummerki um eldgos á hafsbotni.  Nú ætla ég að reyna að sýna fram á hvað felst í þessum staðhæfingum í sambandi við Eyjafjarðarál.  Dýpi álsins þar sem skjálftarnir koma fram er um  500 metrar, eins og kom fram á korti af Eyjafjarðarál í fyrra bloggi mínu um þetta svæði.  Þar undir er um 3 til 4 km þykkt lag af sjávarseti.  Sennilega er það set mest sandur og leir, sem hefur borist til hafs við rof á landi. Setlögin eru ókönnuð, en þau eru sennilega runnin í sandstein eða leirstein, nema efsti hlutinn, sem er enn sandur og leir.  Eyjafjarðaráll er sigdalur, sem er að gliðna vegna flekahreyfinga.Flekamót Flekamótin ná alla leið niður í möttul og basaltkvika mun því rísa upp um flekamótin og inn í setlögin. En basaltkvika hefur nokkuð hærri eðlisþyngd en setlögin. Þá myndast ástand eins og það, sem er sýnt á fyrstu myndinni fyrir ofan. Á einhverju dýpi er eðlisþyngd basaltkvikunnar svipuð og setsins. Á því dýpi hættir kvikan að rísa og dreifist til hliðanna til að mynda kvikuinnskot, sem er sýnt með rauðri línu á myndinni, eins og lítið eldfjall INNI í setlögunum.  Þetta er fyrirbærið sem jarðfræðingar kalla density filter, og hefur þær afleiðingar að hin eðlisþunga basaltkvika kemst ekki upp á hafsbotninn til að gjósa neðansjávar, heldur myndar kvikuinnskot inni í setinu.  Slíkt kvikuinnskot gerist hvað eftir annað á flekamótunum og myndar þá einskonar jólatré inni í setinu, eins og sýnt er á annari myndinni. Aðal skilaboðin eru þau, að kvikan kemst ekki upp í gegnum setlögin með léttari eðlisþyngd og getur því ekki gosið á yfirborði.  Er þetta að gerast undir Eyjafjarðarál í dag?  Enginn veit, en líkurnar eru miklar, að mínu áliti.  En ef svo er, þá er eitt víst: hitinn frá kvikuinnskotum er svo mikill að hitastigull í setinu verður hár og þar með breytist öll olía í setinu í metan eða jafnvel í gagnslaust koltvíoxíð og vatn.  Ekki gott fyrir þá sem vilja finna olíu hér á landgrunninu.  Eðlisþyngd setlagaFrekari skilningur á slíkum kvikuinnskotum fæst með því að ákvarða með borun hver eðlisþyngd setsins er á hverju dýpi, eins og sýnt er á síðustu myndinni. Þar er eðlisþyngd basalts sýnd með grænu brotalínunni en bláa og svarta línan sýna tvö dæmi um eðlisþyngd setlaganna, sem ávalt minnkar þegar ofar kemur í setinu. Ég tek eftir því að órói hefur verið nokkur á jarðskjálftamælum í grennd við Eyjafjarðarál. Er það vísbending um kvikuhreyfingu? Ég veit ekki.

 


Skjálftar í Eyjafjarðarál

EyjafjarðarállÞað er mjög stórt misgengi rétt undan norðurlandi, sem er kennt við Húsavík og Flatey.  Nú kemur það fram í fréttum vegna mikilla jarðskjálfta þar í nótt og einnig í september mánuði.  Misgengið liggur  frá Húsavík, rétt milli Flateyjar og lands, og inn í Eyjafjarðarál og inn á landgrunnið fyrir norðan Tröllaskaga, eins og fyrsta mynd sýnir.  Á henni eru sýndir skjálftarnir sem urðu í hrynunni frá 14. til 21. september í ár, en myndin er frá Veðurstofu Íslands.  Mér virðist að hrinan sem nú stendur yfir sé á svipuðum slóðum, en þó nokkuð sunnar.  Hreyfingar á þessu misgengi eru þannig að landgrunnið norðan misgengisins færist til suðausturs, miðað við jarðskopruna fyrir sunnan misgengið, eins og örvarnar á fyrstu mynd sýna.  EyjafjarðarállHér erum við þá að fjalla um sniðmisgengi.  Vestur endi sniðmisgengisins virðist enda í vestur brún Eyjafjarðaráls.  Skjálftarnir eru ef til vill tengdir gliðnun Eyjafjarðaráls, eins og hinar örvarnar á fyrstu myndinni sýna.  Þessi áll er stórmerkilegt fyrirbæri. Önnur myndin (frá Orkustofnun) sýnir að það er mikill búnki af setlögum í Eyjafjarðarál.  Svörtu brotalínurnar á myndinni sýna að setlögin í Eyjafjarðarál erum 2 til 3 km á þykkt. Állinn er mikill sigdalur, sem hefur verið virkur í nokkrar milljónir ára, og hér hefur dalurinn sigið stöðugt og set safnast hér fyrir. Setið er það þykkt, að í því gætu verið gas eða olíumyndanir, ef hitastigullinn er ekki of hár til að leyfa olíu að þrífast.  Sigið gerist hér á flekamótum, en það eru flekamót án eldvirkni.  Þeyndar kemur eldvirknin fram nokkuð norðar, þar sem Eyjafjarðaráll grynnist og kemur í ljós sem eldeyjan Kolbeinsey. Þar mun hafa síðast gosið árið 1372. 

 


Uppruni Íslands: möttulsstrókur eða fornir flekar?

LandgrunniðÍsland er ein af stóru ráðgátunum í jarðfræði jarðarinnar. Hvers vegna er hér þessi stóra eyja, mitt í úthafinu, umlukin miklu landgrunni? Eins og fyrsta myndin sýnir, þá er landgrunnið umhverfis Ísland eins og stór kringlótt kaka í miðju Norður Atlantshafinu, tengd við Mið-Atlantshafshrygginn og einnig tengd við neðansjávarhryggi til Grænlands og Færeyja. Allir jarðvísindamenn eru sammála um, að Ísland sé heitur reitur, þar sem mikil eldvirkni hefur myndað nýtt land. En hvers vegna einmitt hér? Ein hugmyndin er sú, að djúpt undir landinu sé heitur strókur af möttulsefni, sem nær ef til vill alla leið niður að mörkum möttulsins og kjarna jarðar.   Þetta er möttulstrókskenningin (mantle plume hypothesis), sem fyrst kom á sjónarsviðið í kringum árið 1971. Hin hugmyndin er sú, að í möttlinum undir Íslandi séu leifar af fornum jarðflekum, sem hafa sigið djúpt í jörðina í sigbelti, sem var í gangi í grennd við Bretlandseyjar fyrir um 400 milljón árum. Skorpan sem kann að hafa sigið niður í möttulinn á þeim tíma gæti bráðnað auðveldlega og framleitt kvikuna sem kemur upp á yfirborðið á Íslandi. Þannig eru tvær andstæðar og gjörólíkar kenningar í gangi varðandi uppruna Íslands, og miklar deilur geisa milli jarðfræðinga varðandi þær. Reyndar er möguleiki að íslenski heiti reiturinn sé af völdum beggja þessara fyrirbæra, sem vinna í sameiningu til að skapa hér sérstakar aðstæður. Möttulsstrókur?Sneiðmyndir af möttlinum undir Íslandi hafa verið gerðar með svipaðri aðferð og sneiðmyndir eru gerðar af mannslíkamanum, en þessar myndir nýta geislana frá jarðskjálftum um allan heim til að “gegnumlýsa” möttulinn. Þessi aðferð sýnir að heiti reiturinn nær að minnsta kosti niður á 660 km dýpi í möttlinum undir Íslandi og að miðja hans er undir Vatnajökli. Önnur myndin sýnir slikan þverskurð af Íslandi og efri hluta möttulsins undir okkur, niður á 400 km dýpi. Gult og brúnt á myndinni sýnir þau svæði, þar sem jarðskjálftabylgjur ferðast 2 til 8% hægar í gegnum möttulinn en í “venjulegum” möttli. Hægari jarðskjálftabylgjur þýða sennilega að möttullinn hér er partbráðinn, þ.e.a.s. það er lítilsháttar hraunkvika inni í berginu, sem hægir á jarðskjálftabylgjunum. En er það vegna þess að möttullinn er heitari, eins og möttulstrókskenningin telur, eða er það vegna þess að möttullinn hér bráðnar frekar auðveldlega, vegna þess að hann er að hluta til gömul jarðskorpa sem hefur sigið niður í sigbelti undir Bretlandseyjum fyrir 400 milljón árum? Í fyrstu fylgdu margir jarðvísindamenn möttulstrókskenningunni, vegna þess að hún kom með einfalda og elegant lausn, sem virtist ágæt. En nú eru margir komnir á aðra skoðun og tilbúnir til að taka til greina að ef til vill er möttullinn undir Íslandi frábrugðinn vegna þess að forn sigbelti hafa smitað hann með gamalli jarðskorpu og þá er auðveldara að bræða hann. Þetta er flókið og umdeilt efni, en ég hef gert mitt besta hér að reyna að skýra það fyrir lesendanum á einfaldan hátt. Auðvitað er uppruni Íslands grundvallarmál, sem skiftir alla máli sem vilja fylgjast með vísindum og menningu. Meira seinna um það…

Demantsgluggin sem sér djúpt inn í Jörðina

MöttulstykkiJarðskorpan undir fótum okkar á Íslandi er um 20 til 40 km á þykkt. Undir henni er möttullinn, sem nær niður á 2900 km dýpi, en þar undir tekur kjarninn við. Við vitum ekki mikið um þessi innri lög jarðarinnar og sjáum þau aldrei. Jafnvel skorpan er ekki vel könnuð. Á Íslandi ná dýpstu borholur aðeins um 3 km niður í skorpuna, og hvergi í heimi hefur verið borað niður í möttulinn. Til allrar hamingju kastast upp stykki af möttlinum í sumum eldgosum, eins og þetta á myndinni til hliðar. Dæmi um það eru möttulstykki sem ég hef fundið í gígum í Kameroon í Vestur Afríku og einnig á Hawaii, en þessi möttulstykki má sjá í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Þar sem borun niður í möttul og kjarna er útilokuð, þá beita vísindamenn öðrum aðferðum til að kanna þessi innri lög jarðarinnar. Það eru tilraunir, þar sem líkt er eftir hita, þrýstingi og öðrum aðstæðum sem ríkja djúpt í jörðinni. Það er hér sem demantar koma við sögu. Fyrir um þrjátíu árum fengu jarðfræðingar þá snjöllu hugmynd að líkja eftir þeim háa þrýstingi sem ríkir djúpt í jörðinni með því að þrýsta tveimur demöntum saman, eins og myndin til hliðar sýnir. DemantspressaDemantar myndast í möttlinum, á um 150 til 300 km dýpi, og eru því vanir miklum þrýstingi. Það er sennilega best að ræða þrýsting í sambandi við einingu eins og kg/cm2 eða kílógrömm á fersentimeter. Þegar 50 kg þung kona stígur niður á annan hælinn á háhæla skóm (þvermál hælsins 1 cm), þá er þrýstingurinn á þann púnkt á gólfinu um 63 kg á fersentimeter. Hins vegar er þrýstingurinn undir einum fæti á 4 tonna fíl aðeins um 2.5 kg/cm2. Þetta minnir okkur rækilega á, að í tilraunum er þrýstingurinn (þ) í hlutfalli við flatarmál (F) yfirborðsins sem þrýst er á: þ = A/F, þar sem A er aflið. Þrýstingurinn í kjarnanum eða miðju jarðar er alveg ótrúlega há en samt vel útreiknanleg tala, sem er um 330 GPa eða 3.3 milljón kg/cm2. Þrýstingur sem hægt er að ná með demantspressu í dag er jafn mikill og þrýstingurinn í miðri jörðinni, eða 364 GPa, og hitinn í slíkum tilraunum getur einnig verið mjög hár, eða allt að 5500 stig Celsíus.  profill.jpgMyndin sýnir hvernig hiti breytist í jörðinni með dýpinu, og einnig mörkin á milli hinna ýmsu megin laga jarðar. Slíkar tilraunir með demnatspressum hafa varpað ljósi á innri gerð jarðar og frætt okkur um hvaða steindir eða mineralar eru ríkjandi innst inni í plánetu okkar.

Hvað er að gerast undir Krýsuvík?

KrýsuvíkEf til vill er ykkur farið eins og mér, að þið hafið heyrt nýlega um jarðhræringar undir Krýsuvík í fjölmiðlum, en verið engu nær. Hér er sumt af því sem ég hef rekist á varðandi þetta merkilega svæði á Reykjanesskaganum. Krýsuvík er megineldstöð, með sprungukerfi eða sprungurein sem teygir sig frá Selatöngum í suðri til Heiðmerkur í norðaustri, eins og fyrsta myndin sýnir. Græna línan á myndinni sýnir mörk háhitasvæðisins. Krísuvíkurkerfið liggur því næst höfuðborgarsvæðinu af öllum virkum eldfjallakerfum landsins. Sprungugos í norðurhluta Krísuvíkurkerfisins geta því hugsanlega komið upp í Heiðmörk eða í grennd við Elliðavatn. Það er því full ástæða til að kynna sér og fylgjast náið með því sem gerist í Krýsuvík. Krýsuvíkureldar geisuðu á 12. öld, en þá rann Ögmundarhraun, Kapelluhraum og Gvendarselshraun sennilega í sömu goshrinu, sennilega árið 1151 og voru eldsupptökin í um 25 km langri sprungu í Móhálsadal. Um þetta svæði má til dæmis fræðast frekar á vef ISOR, þar sem frábært jarðfræðikort er að finna, hér: http://isor.is/efni/ahugaverdir-stadir-jardfraedikort-af-sudvesturlandi    Þær Sigrun Hreinsdottir og Karolina Michalczewska við Háskóla Íslands hafa fjallað um niðurstöður frá fimm GPS mælistöðvum á Krýsuvíkursvæðinu undanfarin ár. Snemma árið 2009 byrjaði landris í Krýsuvík og hélt því áfram til hausts, en þá byrjaði land að síga til vorsins 2010. Í apríl 2010 hófst landris á ný. Þessar skorpuhreyfingar, sem einnig hafa veið mældar með radar, virðast eiga uppruna sinn að rekja niður á um 4 til 5 km dýpi í jarðskorpunni, en landris hefur á tímum verið yfir 5 cm á ári, mest í grennd við Seltún. Samtímis landrisinu hafa jarðskjálftar verið tíðir, en færri þegar landsig verður. Stærsta hrinan var í febrúar árið 2011, þegar átta skjálftar voru af stærðargráðunni 3 og sá stærsti var 4.2.  GPS gögnin varðandi landris má sjá hér:http://strokkur.raunvis.hi.is/~sigrun/KRIV.html   Myndin til hliðar sýnir lóðréttu hreyfinguna í Krýsuvík frá árinu 2007 til þessa árs, eins og fram kemur í GPS mælingum Háskóla Íslands. GPS Sveiflurnar í landrisi koma vel í ljós, en svo virðist sem í heildina sé land að rísa um eða yfir 2 cm í Krýsuvík undanfarin fimm ár. Hver er orsökin? Líklegast er að hreyfingin eða þenslan sé vegna hreyfingar á einhverjum vökva, annað hvort tengdum jarðhita eða hraunkviku, eða þá myndun á gaspúða, eins og þegar suða myndast í jarðhitakerfinu. Einn möguleikinn er því að basaltkvika sé að safnast fyrir undir Krýsuvík. Það væri þá líklegast kvika sem streymir upp frá möttli jarðar, sem til dæmis getur myndað bergganga, eða innskotslög undir Krýsuvíkursvæðinu. Ekki er útilokað að slík kvika geti ratað inn í sprungusveim Krýsuvikurkerfisins, og þannig fundið sér leið í norðaustur átt, eins og gerðist árið 1151, þegar sprungan gaus fyrir ofan Hafnarfjörð og Kapelluhraun rann.

Ítalskir jarðskjálftar

Afríka færist norðurSex eru látnir í jarðskjálftanum sem reið yfir Ítalíu í dag nálægt Bologna. Hann var af stærðinni 6.0. Flestum er enn í minni jarðskjálftinn undir borginni l´Aquila á Ítalíu árið 2009, er 150 manns fórust. Þrjú þúsund fórust einnig í skjálfta í suður Ítalíu árið 1980. Og enn verra var árið 1908, þegar að minnsta kosti 70 þúsund fórust í jarðskjálfta sem jafnaði borgina Messina við jörðu. Hvaða öfl eru það sem hrista Ítalíu með svo miklum krafti og hörmulegum afleiðingum? Það eru vitaskuld flekahreyfingar Afríkuflekans í suðri og Evrasíuflekans í norðri. Fyrir mörgum milljónum ára var mikið haf milli Afríku og Evrópu, sem tengdi Atlantshaf í vestri og Kyrrahafið í austri. Það nefndist Tethyshaf. Síðan hefur Afrikuflekinn stöðugt rekið norður á bóginn á hraða sem nemur um 2 cm á ári, í átt til Evrópu. Flekahreyfingin hefur þannig lokað Tethyshafi og er sú hreyfing nú í þann veginn að þurrka Miðjarðarhafið út, en það eru síðustu leifarnar af Tethyshafi. Fyrsta myndin sýnir hvernig norður strönd Afríku hefur stöðugt mjakast norður á bóginn síðastliðin 175 milljón ár. ÍtalíaEin afleiðing af þessum árekstri Afríku og Evrópu eru Alpafjöllin. Önnur afleiðing er sú mikla felling í jarðskorpunni sem myndar Ítalíu skagann. Mynd númer tvö sýnir helstu þætti í jarðskorpuhreyfingum á Ítalíu. Rauða línan eru mótin þar sem flekarnir mætast, í miklu sigbelti. Þetta eru mjög flókin flekamót, og hlykkjast þau eins og snákur eftir Ítalíu endilangri. Bláu línurnar eru hins vegar svæði þar sem gliðnun á sér stað á flekamótunum, en hafsbotninn rétt fyrir vestan Ítalíu er að gliðna í sundur. Heildaráhrif af þessum flekahreyfingum eru algengir jarðskjálftar og einnig eldvirkni í Vesúvíusi, Strombólí, Etnu og fleiri eldfjöllum.

Farinn til Papua Nýju Gíneu

Papua Nýja GíneaÉg er á förum til Papua Nýju Gíneu í dag. Þar eru um 60 virk eldfjöll og margt að skoða. Kortið til hliðar sýnir hina flóknu myndun jarðflekanna þar í landi. Hér eru virk amk. tvö sigbelti og tveir úthafshryggir, og jarðskorpan á hraðri hreyfingu, eða um 7 til 11 cm á ári. Það er vert að taka það fram, að síðast þegar ég lagði af stað í leiðangur til Nýju Gíneu, þá tók að gjósa í Grímsvötnum. Vonandi missi ég því ekki af Öskjugosi í þetta sinn. En eins og maðurinn sagði: “Alltaf má fá annað gos….” Þar sem ég er bundinn þagnarskyldu um þessa ferð þá get ég lítið sagt um hana, annað en það, að bækistöð mín verður skipið M/Y OCTOPUS.

Þyngdarmælingar spáðu gosi í Öskju 2010

ÞyngdarmælingarÞegar kvika færir sig úr stað eða streymir inn eða út úr kvikuþró undir eldfjalli, þá kunna að verða miklar breytingar á massa, og ef til vill má mæla slíkar breytingar með þyngdarmælingum á yfirborði. Aðdráttarafl Jarðar er breytilegt á hverjum stað, vegna mismunandi bergtegunda og breytilegrar eðlisþyngdar í jarðskorpunni, og þyngdaraflið getur því breytst þegar kvika færist til undir eldstöðinni. Breski jarðeðlisfræðingurinn Hazel Rymer og félagar hafa gert þyngdarmælingar í Öskju síðan árið 1985. Allt til ársins 2007 voru breytingarnar í eina átt. Á þeim tíma minnkaði þyngdaraflið stöðugt undir Öskju, sem þau töldu benda til þess að kvika væri að streyma út úr eða frá kvikuþrónni og inn í jarðskorpuna í kring um Öskju. Árið 2008 breyttist ferlið verulega, eins og myndin fyrir ofan sýnir, en þá byrjaði þyngdaraflið undir miðjunni á Öskju að hækka, sem sennilega var merki um að kvika streymdi nú inn í kvikuþrónna undir Öskju. Þessu hélt áfram árið 2009 og 2010. Það ár spáði Hazel Rymer í fjölmiðlum að gos yrði á næstunni í Öskju. Myndin sýnir niðurstöður Rymer og félaga á þyngdarmælingum, en ekki er mér kunnugt um niðurstöður mælinga á síðasta ári. Það er rauða brotalínan sem skiftir okkur máli, en hún er í miðju öskjunnar. Þar kemur greinilega fram breytingin sem varð árið 2007.  SkjálftarViðbót af nýrri kviku sem steymt hefur inn í kvikuþrónna undir Öskju síðan 2007 er talin vera 70 milljarðar kílógramma, á um 3 km dýpi samkvæmt þyngdarmælingunum. En hvað með jarðskjálftavirkni undir Öskju? Önnur myndin er gerð með gögnum í Skjálftavefsjá Veðurstofunnar, og sýnir tíðni og dreifingu á dýpi jarðskjálfta frá síðustu aldamótum og til dagsins í dag. Eitt virðist vera augljóst: djúpu skjálftarnir voru ríkjandi frá 2007 til 2010 en eru ekki fyrir hendi síðan. Það er ekkert sem bendir til að grynnri skjálftar séu algengari síðustu tvö árin, heldur virðast þeir vera færri. Ég tek það fram að hér eru aðeins sýndir skjálftar af stærðinni 3 og meira.  Að lokum er þess vert að benda á, að óróamælingar Veðurstofunnar í Öskju sýna engar breytingar undanfarna daga.   

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband