Færsluflokkur: Eldgos

Gangurinn undir Vatnajökli

ISORÖll þjóðin hefur fengist að fylgjast með vexti og þróun berggangsins, sem hefur klofið sér leið í gegnum jarðskorpuna norðaustan við Bárðarbungu.  Hvergi á jörðu er jafn almennur áhugi fyrir hegðun jarðar, enda hafa fyrri byltingar íslenskra eldfjalla haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þjóðina.  Nú virðist kvika úr ganginum hafa náð yfirborði í Dyngjujökli.   ISOR hefur birt ágæta mynda af dreifingu jarðskjálfta undanfarið og tengt virknina nú við fyrri eldvirkni á svæðinu.  Þessa mynd má sjá hér: http://www.isor.is/frettir/holuhraun-kvikuflutningar-fra-bardarbungu

ISOR stingur uppá, að eldgosið sem myndaði Holuhraun við norður rönd Dyngjujökuls árið 1797  kunni að vera komið úr Bárðarbungu, á svipaðan hátt og gosið, sem hófst í dag.  Það gos, árið 1797, braust út á yfirborðið utan jökulsins og olli því ekki jökulhlaupi. Jarðvísindastofnun

Þróun nýja kvikugangsins er vel lýst í gögnum, sem Jarðvísindadeild Háskóla Íslands hefur birt. Mynd þeirra er hér sýnd fyrir neðan, en hana má finna hér: http://jardvis.hi.is/uppfaert_kort_stadsetning_jardskjalfta_sil_jardskjalftamaelakerfi_vedurstofu_islands_og_faerslur

 

Hreyfingar mældar af GPS stöðvum umhverfis jökulinn gera kleift að mynda líkan af kvikuinnskotinu eða þróun kvikugangsins.  Þetta bendir til gangs sem er um 1,6 m á breidd og um 20 km langur.  Þá vakna spurningar um það, hvaðan kemur kvikan, sem safnast fyrir í ganginum? Kemur hún út úr grunnri kvikuþró, undir öskju Bárðarbungu?  Er kvikustreymi í gangi undir Bárðarbungu, sem kemur dýpra að?   


Gegnumlýsing eldfjalla

MtSt HelensÞað hefur reynst erfitt að átta sig á virkum eldfjöllum, meðal annars vegna þess, að við höfum takmarkaðar upplýsingar um innri gerð þeirra.  Nú er að gerast framför á þessu sviði, vegna þess að jarðskjálftafræðingar eru farnir að gegnumlýsa eldfjöllin með jarðskjálfatbylgjum. Gott dæmi um það eru rannsóknir á Mount St Helens eldfjalli í Bandaríkjunum. Þar varð frægt sprengigos hinn 18. maí árið 1980 og síðan hafa ýmsar rannsóknir farið fram á því fjalli.  Gregory Waite og félagar settu upp fyrir nokkru nítján jarðskjálftamæla umhvefis og ofaná eldfjallið.  Þeir könnuðu mikinn fjölda af jarðskjálftabylgjum, sem fóru í gegnum fjallið og jarðskorpuna undir.  Með því móti gátu þeir greint svæði, þar sem bylgjurnar fara hægar í gegnum jarðlögin. Þau svæði eru talin vera kvikuhólf eða svæði þar sem kvika er ríkjandi en ekki fast berg.  Beint undir eldfjallinu er svæði í jarðskorpunni, á 2 til 3,5 km dýpi, þar sem jarðskjálftabylgjur fara treglega í gegnum eða hægja á sér. Þetta virðist vera kvikuþró eldfjallsins.  Þar undir er annað svæði á um 5,5 til 8 km dýpi,  sem einnig getur verið kvikuþró.  Myndin sýnir þversnið af eldfjallinu og greinir svæðin, sem eru sennilega kvikuhólf.  Á bleiku svæðunum fara skjálftabylgjur hægar, en á grænu og bláu svæðunum fara bylgjurnar með meiri hraða.  En þessi könnun nær aðeins niður á um 10 km dýpi í jarðskorpunni.   Nú er annar hópur vísindamanna að undirbúa gegnumlýsingu á Mount St Helens, sem mun ná niður á um 80 km dýpi og rannsaka dýpri pípulagnirnar fyrir kvikuna.  Þeir munu nota bæði bylgjur, sem koma frá fjarlægum jarðskjálftum og bylgjur frá dynamít sprengingum á yfirborði til að gegnumlýsa St Helens með 3500 jarðskjálftamælum.  Viðbíðum spennt eftir niðurstöðunum. 


Askja sígur

SturkellAskja er ein stærsta eldstöð Íslands. Í Öskju eru þrjár öskjur eða hringlaga sigdældir, og er sú yngsta frá gosinu 1875: Öskjuvatn.  Það var stórt sprengigos, sem dreifði mikilli ösku yfir Austurland og kann að hafa hrint af stað fólksflótta til Norður Ameríku.  Ekki hefur gosið hér síðan 1961 en Askja er ætíð óróleg undir niðri.   Jarðeðlisfræðingar hafa fylgst með Öskju síðan 1966.  Myndin sýnir hæðarbreytingar í Öskju frá 1966 til vorra daga, eftir Sturkell. Þetta er alls ekki einfalt, því ýmist rís eða sígur öskjubotninn.  Þessar mælingar benda til þess að það séu hreyfingar á kviku á um 2,5 til 3 km dýpi undir miðri öskjunni.  Einnig virðist kvika vera á hreyfingu á um 16 km dýpi, eins og önnur mynd sýnir, eftir Soosalu og félaga.  Þar kemur vel í ljós að jarðskjálftar raða sér á tvö vel aðskilin dýpi í jarðskorpunni undir Öskju og Herðubreiðartöglum. En Askja er einnig á flekaSoosalu et al.mótum og gliðnun og aðrar flekahreyfingar hafa því einnig áhrif á lóðréttar hreyfingar jarðskorpunnar.  Það er reyndar allt nágrenni Öskju sem hefur verið á hreyfingu undanfarin ár.  Ekki má gleyma hinum stöðugu jarðskjálftum, sem herjuðu í jarðskorpunni djúpt undir Upptyppingum árið 2007 og tíðum jarðskjálftum undir Herðubreiðartöglum.  Að öllum líkindum er kvika oft á hreyfingu á flekamótunum í grennd við Öskju.  En það er ekki þar með sagt að eldgos séu í nánd.  Okkur ber að hafa það í huga, að meiri hluti kvikunnar, sem kemur upp úr möttlinum, safnast fyrir í jarðskorpunni sem berggangar og önnur kvikuinnskot, og aðeins brot af kvikunni kemur upp á yfirborðið. Það er því miður engin GPS stöð staðsett í Öskju, en sú næsta er á Dyngjuhálsi, um 40 km fyrir suðvestan og við norður rönd Vatnajökuls.  GPS DYNGJUHÁLSÁ Dyngjuhálsi rís land, sennilega vegna bráðnunar Vatnajökuls.  Bráðnunin kemur vel fram í árstíðasveiflum á GPS ritinu fyrir neðan.


Þegar Bjarnarhafnarfjall var eyja

BjarnarhafnarfjallBjarnarhafnarfjall (574 m) stendur stakt á norðanverðu Snæfellsnesi. Meiri hluti fjallsins er myndaður á Tertíer tíma, mest úr blágrýti eða stafla af basalt hraunlögum, sem eru um 5 til 6 miljón ára gömul.  Í suðvestur hluta fjallsins eru myndanir úr líparíti og andesíti, sem tilheyra hinni fornu Setbergseldstöð í Eyrarsveit fyri vestan. Utan í Bjarnarhafnarfjalli er allstór móbergsmyndun í Kothraunskistu. Hún hefur myndast mun síðar, við gos undir jökli á ísöld. Bjarnarhafnarfjall var áður hluti af samfelldri háslettu blágrytismyndana, sem náðu um Breiðafjörð og Snæfellsnes.  Ísaldarjöklarnir skáru þessa hásléttu í sundur og mótuðu það landslag, sem einkennir svæðið í dag. Þegar ísöldinni lauk var sjávarstaða mun hærri en nú og þá mun Bjarnarhafnarfjall hafa verið eyja, eins og fyrsta mynd sýnir. Það var þá með hæstu og ef til vill stærstu eyjum landsins, yfir 20 ferkílómetrar að flatarmáli.  Fyrir um 3800 árum  opnaðist gossprunga með VNV-ASA stefnu og Berserkjahraun rann, aðallega úr fjórum gígum: Rauðukúlu austast, þá Gráukúlu, Smáhraunskúlum og Kothraunskúlu vestast.  Ekki er vitað hvað gosið stóð lengi, en sennilega var það samfellt. Þó má greina fjögur vel aðskilin hraun. Það fyrsta rann frá Rauðukúlu ( númer 1 á annari mynd)  og er það hraun þynnst, mest þunnfljótandi og ef til vill heitast.  Samkvæmt efnagreiningu virðist Rauðukúluhraun vera mun frumstæðara en yngri hraunin, til dæmis með yfir 13.7% MgO, en hin seinni hraunin eru með um 9.8% MgO.  Næst rann hraun frá Kothraunskúlu, sem er vestast (#2). Það er mun úfnara apalhraun og illt yfirferðar.  Þá rann hraun úr Smáhraunskúlum og fór til vesturs (#3).  Rann það út í Hraunsfjörð og myndaði þrengslin í firðinum, sem nefnd eru Mjósund. Loks kom hraun úr Gráukúlu (#4) og á suður jaðri þess myndaðist Selvallavatn.   Að öllum líkindum var eldvikrni á allri sprungunni frá Rauðukúlu og til Kothraunskúlu í upphafi goss, en síðan þrengdist sprungan og virkni takmarkaðist við þessa fjóra gíga. 

BerserkjahraunÉg tel líklegt að Bjarnarhafnarfjall hafi verið eyja áður en Berserkjahraun rann.  Sennilega var sundið milli fjallsins og Snæfellsness fremur mjótt og mjög grunnt og landslag kann hafa verið líkt og sýnt er á fyrstu myndinni.  


Stutt gos í Etnu

Órói í EtnuEtna eldfjall á Sikiley byrjaði að gjósa síðastliðinn sunnudag, 15. júní. Það er alltaf viðburður þegar Etna gýs, af því að hún er annað virkasta eldfjall jarðar. Kilauea á Hawaíi er númer eitt. Í fyrstu voru sprengingar í  suðaustur gíg fjallsins og síðan tók basalt hraun að streyma niður hlíðar fjallsins.  Lokað var flugvöllum á Sikiley um tíma vegna ösku. Gosið náði strax hámarki næsta dag.  Myndin sýnir línurit fyrir tvær jarðskjálftastöðvar, sem eru staðsettar í hlíðum Etnu. Þetta er órói eða titringur, sem verður beinlínis vegna streymis á kviku upp um gíginn. Það er góður mælikvarði á goskraftinn. Ég fékk útkall frá félaga mínum, sem á stóran bát með tvær þyrlur og tvo kafbáta um borð.  Hann var staddur á Miðjarðarhafi. En ég varð að benda honum á, að þann dag, 17. júní, var þegar byrjað að draga úr goskraftinum og gosið því sennilega komið á lokasprettinn.  Því miður of seint að bregðast við.  Hinn 19. júní var óróinn kominn í venjulegt horf og gosinu að mestu lokið.  Eins og venjulega, þá er goskrafturinn nær alltaf mestur fyrstu tvo dagana og því verða menn að bregðast snöggt við ef skoða skal slíkar hamfarir jarðar. 


Listamaðurinn fundinn!

Heklugos 1970Fyrir um tíu árum rakst ég á þetta sérkennilega málverk í Kolaportinu í Reykjavik.   Það er ekki aðeins mynd af eldgosi, heldur hefur listamaðurinn notað vikur, ösku og gjall í byggingu myndarinnar. Verkið er ekki merkt og hefur því hangið uppi í Eldfjallasafni í Stykkishólmi án þess að listamannsins sé getið. Nú hefur komið í ljós, að það er gert af Lýð S. Guðmundssyni árið 1970.   Lýður sá Heklugosið árið 1970 og safnaði vikri og ösku þá til að setja inn í þessa einstöku mynd. 


Fyrsta myndin af Surtsey

 

 

Surtsey úr hafiNýlega var Eldfjallasafni í Stykkishólmi færð góð gjöf. Það er fyrsta myndin, sem tekin var af Surtsey, þegar hún reis úr hafi hinn 15. nóvember 1963.   Það var Sæmundur Ingólfsson, yfirvélstjóri á varðskipinu Albert, sem tók myndina og færði mér.  Hún mun vera tekin um morguninn, sennilega um tíu leytið. Hér má sjá svarta strönd hinnar nýju eyjar, en gosmökkurinn hylur hana að mestu leyti.  Sæmundur tók mikinn fjölda af merkilegum myndum af fyrstu dögum gossins, og eru þær merkileg heimild. Við færum Sæmundi bestu þakkir fyrir þessa gjöf.  Ég var erlendis við háskólanám í jarðfræði þegar gosið hófst, en var svo heppinn að vera um borð í Albert í nokkra daga í desember 1963 í návígi við gosið, ásamt Þorleifi Einarssyni jarðfræðingi. 


Sangeang Api sprengigosið

Sangeang maí 2014Nú er hafið sprengigos í eldfjallinu Sangeang Api í Indónesíu, en það er á lítilli eyju í austur hluta landsins. Það eru engar stórfréttir að gos hefst í Indónesíu, enda eru ðar 150 virk eldfjöll og gos einhversstaðar á hverjum degi.  En þetta gos er stórt, öskumökkurinn er kominn í yfir 16 km hæð, og bert hratt til suðurs. Askan hefur því truflað flugsamgöngur í Ástralíu norðanverðri og ef til vill víðar. Ég hef oft komið til Sangeang Api, þar sem eldfjallið er í grennd við Tambora eldfjall, en þar hef ég starfað síðan 1986.

Skoðið 60 Minutes á CBS hinn 5. janúar

Sunnudaginn 5. janúar mun birtast í 60 Minutes, fréttaþætti CBS stöðvarinnar í Bandaríkjunum, sjónvarpsefni þar sem Haraldur Sigurðsson kannar Eyjafjallajökul ásamt fréttamanninum Scott Palley.

Kolmónoxíð í eldgosum

EyjafjallajökullKolmónoxíð gas er eitrað.  Það berst sem útblástur úr bifreiðum og öðrum vélum, sem brenna benzíni eða olíu og einnig við bruna á kolum. Kolmónoxíð (CO) var komið í hættulega hátt magn við sumar aðalumferðaæðar í Reykjavík í lok tuttugustu aldar, en þá komu lög og reglugerðir varðandi lögleiðingu hvarfakúta á bíla eftir 1995, og síðan hefur dregið verulega úr kolmónoxíð mengun.  Heilsuverndarmörk á kolmónoxíð eru nú 10 mg/m3.  Hátt magn af kolmónóxíði brýtur niður hemóglóbín blóðsins og veldur dauða.

Kolmónoxíð berst einnig upp á yfirborð jarðar í eldgosum. Það er töluvert magn af bæði CO2 og CO í eldfjallagasi og sennilega er miklu meira af CO en menn gerður sér grein fyrir. Hættulegt CO breytist hratt í tiltölulega meinlaust CO2 í andrúmsloftinu við oxun.

Nú hefur CO í eldgosum verið mælt í fyrsta sinn úr gervihnetti. Það gerðu Martínez-Alonso og félagar í sprengigosunum í Eyjafjallajökli árið 2010 og Grímsvötnum árið 2011.  Þeir beittu Terra gervihnettinum frá NASA við þessar mælingar.   Kolmónoxíð Eyjafjallaj.

Fyrsta myndin sýnir dreifina af ösku og gasi sem barst suður frá Íslandi í gosinu í Eyjafjallajökli hinn 11. maí 2010.  Gosmökkurinn er greinilegt brúnt strik, sem stefnir til suðurs.  Önnur myndin sýnir hins vegar mælingar á kolmónoxíði  frá gervihnetti hinn 19. apríl 2010.   Gulu og rauðu svæðin eru hæstu gildin af CO í mekkinum.  Enda þótt kolmónoxíð sé sjáanlegt og mælanlegt í gosmekkinum, þá er það samt langt undir hættumörkum.  En niðurstöðurnar sýna hvernig tæknin er að valda stórkostlegri byltingu í eftirliti með eldgosum og áhrifum þeirra.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband