Orsök skjálftans undir Japan
11.3.2011 | 18:03


Eldur Niðri kemur út!
11.3.2011 | 12:24
Vulkan ehf, Bókhlöðustíg 10, 340 Stykkishólmi vulkan@simnet.is Dreifing og pantanir: Árni Þór Kristjánsson arsig@simnet.is Sími: 862 8551 eða 841 1912
Úr bókarkynningu: Eldur Niðri lýsir ferli eins þekktasta vísindamanns Íslands, eldfjallafræðingsins Haraldar Sigurðssonar. Bókin er einstök heimild um uppeldi, sköpun og þróun jarðvísindamanns, sem hefur unnið brautryðjendastörf á rannsóknum á eldfjöllum víðs vegar um heiminn. Hér fjallar Haraldur á hispurslausan hátt um spennandi og oft lífshættuleg rannsóknaverkefni, um ástir, sigra, áföll og margt annað sem hefur gerst á nær fimmtíu ára ferli. Í frásögn sinni kemur Haraldur til dyra eins og hann er klæddur, þegar hann greinir frá leiðöngrum sínum í Indónesíu, Ítalíu, Haítí, Vestur Indíum, Grikklandi, Afríku og víðar. Brenndandi áhugi hans á leyndardómum jarðar kviknar á æskustöðvunum á Snæfellsnesi og leiðir af sér ævilangt ferðalag um flest stórvirkustu eldfjöll heims, þar til hann lokar hringnum með stofnun Eldfjallasafns í Stykkishólmi. Eftir atburðaríkan feril við eldfjallarannsóknir um heim allan hefur Haraldur Sigurðsson frá mörgu að segja.
Efnisyfirlit:
Réttlætingin .................................................... 7
Þingeyingurinn ................................................ 11
Oddur Val ...................................................... 35
Hjónin í Norska Húsinu ...................................... 47
Fyrstu minningar .............................................. 55
Áfallið ........................................................... 67
Táningur í Reykjavík .......................................... 75
Ameríkuferð hin fyrri ......................................... 81
Sumar á Sigöldu ............................................... 89
Námsárin erlendis ............................................. 95
Doktorsverkefnið .............................................. 105
Vestur Indíur ................................................... 113
Á sundi í eldfjallinu ........................................... 129
Neðansjávargígurinn Kickem Jenny ........................ 139
Ameríkuferð hin síðari ........................................ 147
Kvikuhlaup ..................................................... 157
Aska á hafsbotni ............................................... 163
Vesúvíus og Pompeii .......................................... 175
Banvæn gjóskuflóð ............................................ 189
Gígvötnin í Afríku ............................................. 207
Tambora ....................................................... 215
Eldeyjan Krakatau ............................................ 249
Galapagos Ísland framtíðar? ................................ 261
Loftsteinninn ................................................... 271
Vísindin og klofin menning .................................. 285
Erfiðir tímar .................................................... 291
Að duga eða drepast ........................................... 297
Eldfjallasafn .................................................... 317
Aðrar hliðar á lífinu ........................................... 327
Eldstöðin Yellowstone
10.3.2011 | 19:36


Uppruni eldvirkni í Yellowstone er tengdur heitum reit djúpt í möttli jarðar, meir en eitt hundrað kílómetrum fyrir neðan meginlandsskorpuna. Meginland Norður Ameríku hefur stöðugt rekið til vesturs yfir heita reitinn síðastliðin sautján milljón ár, en heiti reiturinn er kyrrstæður í möttlinum. Hann bræðir meginlandsskorpuna neðan frá og kvikan rís upp til að mynda eldstöðina á yfirborði. Risastórar eldstöðvar á borð við Yellowstone haga sér allt öðru vísi en þau eldfjöll sem við eigum að venjast hér á Íslandi. Gosin í Yellowstone eru mörgum sinnum stærri, og langt á milli þeirra. Þannig geta liðið allt að jafnvel milljón ár milli gosa. Síðasta stórgosið var fyrir 640 þúsund árum. Síðan hafa nokkur hraun runnið, en það hefur ekki gosið neitt að ráði í 70 þúsund ár. Undir Yellowstone er nú kvikuhólf, eða stór tankur af bráðnu bergi, og safnast sífellt meira í hann. Kvikuhólfið tæmdist síðast í stórgosi fyrir 640 þúsund árum, og þá féll þak hólfsins niður, og ný askja myndaðist, sem er 40 sinnum 60 km á stærð. Það er töluvert síðan að vísindamenn tóku eftir því, að yfirborð öskjunnar gengur upp og niður, og eiginlega virðist svo sem að eldstöðin sé að anda að sér kviku úr möttli jarðar og inn í kvikuhólfið. Fyrsta myndin sýnir breytingar sem hafa verið mældar síðan 1923. Á síðustu öld var yfirleitt sig í öskjunni, eins og kemur fram á annarri mynd. En svo snerist ferlið við kringum 2004, og askjan tók að rísa um 7 til 10 sm á ári, sem benti til þess að kvika streymdi inn af miklu dýpi. Gæti þetta bent á gos í aðsigi? Þriðja myndin eru allra nýjustu niðurstöður, sem benda til þess að risið sé hætt, eða alla vega staðnað í bili. Ef til vill getum við andað rólegar nú um tíma.
Þjóðgarðurinn var stofnaður árið 1872, og er hann fyrsti þjóðgarður jarðar. Einn af þeim sem tók þátt í leiðangri til Yellowstone árið 1872 var málarinn Thomas Moran, og listaverk hans höfðu mikil áhrif á þá ákvörðun Bandaríkjaþings að friða svæðið og mynda hér hinn fyrsta þjóðgarð. Þegar myndir hans voru sýndar í Washington DC, þá ákvað foretinn að þetta fagra svæði þyrfit að friða strax. Nafn þjóðgarðsins er dregið af Yellowstone fljóti. Það nefndu indíánar ána fyrir langa löngu, og sennilega er nafnið dregið af ljósleitu og gulu líparít jarðlögunum, sem áin sker sig í gegnum umhverfis eldstöðina. Þeir sem hafa komið inn í Landmannalaugar kannast vel við þennan sama gula lita. Okkur dreymir flest um einhverja draumaferð, sem við viljum komast í á ævinni. Mínar draumaferðir voru: númer eitt Galapagoseyjar, og númer tvö Yellowstone. Ég er svo heppinn að hafa komið oft á bæði þessi stórkostlegu svæði og kynnst þeim náið. Endilega látið þið verða af því að leyfa ykkar draumferð að rætast.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Magnús Blöndal og Surtseyjargosið
25.2.2011 | 08:06
Þar sem ég fjallaði nýlega um eldgosatónlist Jóns Leifs í bloggi mínu http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1142495/, þá ber mér skylda til að minnast á frábæt verk Magnúsar Blöndal Jóhannssonar í tilefni Surtseyjargossins. Þegar Osvaldur Knudsen setti saman fyrstu heimildarkvikmynd sína um Surtseyargosið (1963-1967), þá fékk hann Magnús til að semja tónlist fyrir myndverkið. Myndin nefnist Surtur fer sunnan (1965, 23 mín.), en enska útgáfan ber heitið Birth of an island. Magnús beitti hljóðum úr gosinu sjálfu og blandaði þeim saman við raftónlist sína. Ef til vill er þetta í fyrsta sinn þar sem hljóð úr náttúrunni eru sett inn í tónverk. Magnús Blöndal (1925-2005) er sennilega fyrsti Íslendingurinn sem samdi raftónlist og er því frumkvöður á sviði raf- og tölvutónlistar á Íslandi. Sagt hefur verið að tónverk Magnúsar hafi valdið straumhvörfum í umfjöllun um raftónlist hér á landi. Hann sagði þetta um verkið: "Ég samdi tónlistina með náttúruhamfarirnar í huga og skyndilega gat fólk tengt hana við eitthvað, bæði hljóðrænt og myndrænt." Brot úr tónverkinu og kvikmyndinni má sjá og heyra hér: http://www.youtube.com/watch?v=42H2znxGyhg
Mynd Osvaldar Knudsen er stórkostleg á margan hátt og merkileg heimild um mikilvægt gos. Hér koma fram nokkrir karakterar sem voru nátengdir rannsóknum á gosinu. Sigurður Þórarinsson samdi textann og má sjá honum bregða fyrir öðru hvoru í myndinni, með sitt vörumerki á höfði: rauðu skotthúfuna. Einnig kemur Þorleifur Einarsson fram, til dæmis að fá sér sígarettu úti á eynni, eða að borða kex um borð í varðskipinu á meðan gosið geysar í bakgrunni. Sennilega hefur Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur verið sá sem gladdist mest yfir þessu gosi, þar sem Surtsey færði sönnun á móbergskenningu hans. Á myndinn hér til hliðar er Ósvaldur lengst til hægri, en lengst til vinstri er Guðmundur Kjartansson og Þorleifur Einarsson í bakgrunni fyrir miðju. Ég var erlendis við jarðfræðinám þegar gosið hófst, en komst á vígvöllinn í desember 1963 á varðskipi umhverfis Surtsey í nokkrar ógleymanlegar ferðir. Það var fyrsta eldgosið sem ég kannaði. Árið 1965 tók ég þessa mynd af gosinu í Syrtlingi, en hann var ein af eldeyjunum sem mynduðust umhverfis Surtsey. Syrtlingur hætti að gjósa eftir nokkra mánuði og hvarf skömmu síðar fyrir áhrif hafrótsins.
Fimm hundruð ára gömul eldgosamynd frá Mexíkó
24.2.2011 | 19:14



Jarðskjálftinn undir Christchurch
24.2.2011 | 13:26
Ein mest ógnvekjandi mynd sem ég hef séð nýlega er hér fyrir ofan, en hún sýnir borgina Christchurch á Nýja Sjálandi hinn 22. febrúar síðastliðinn. Rykský rís upp frá borginni, þar sem þúsundir húsa eru að hrynja og grafa hundruðir manna undir rústunum. Jarðskjálftinn var 6,3 að stærð, en þessi stórkostlega eyðing og tjón varð vegna þess að upptök hans voru aðeins 5 km beint undir borginni.
Nýja Sjáland er á flekamótum og það er grundvallarorsök jarðskjálftans sem varð beint undir borginni Christchurch í gær. En hér eru flekarnir á rekast saman, þvert öfugt og á Íslandi, þar sem flekar jarðskorpunnar togna í sundur. Þarna á suðurhveli jarðar er Kyrrahafsflekinn að síga hægt og hægt niður og til vesturs, undir Ástralíuflekann og hraðinn í þessu sigbelti er um 5 til 6 sm á ári. Tengt þessu sigbelti er eldvirknin og nokkur mjög virk eldfjöll á norðureynni. En á suðureynni eru jarðskorpuhreyfingar allt aðrar. Hér er það risastórt misgengi, Alpamisgengið, sem sker eynna endilanga, og hreyfingar á því orsaka jarðskjálfta, eing of 7,1 skjálftann hinn 3. september í fyrra, og 6,3 skjálftan sem nú gerðist. Þannig breytist sigbeltið undir norðureynni í sniðmisgengi undir suðureynni. Stærsta borgin á suðureynni er Christchurch, með um 350 þúsund íbúa. Fyrri skjálftinn var um 45 km fyrir utan borgina, en sá síðari beint undir henni. Talið er að seinni skjálftinn hafi verið eftirskjálfti, eða aftershock, í kjölfar á þeim stóra.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvernig ég drap risaeðlurnar
23.2.2011 | 10:37

Jón Leifs og eldgosið
14.2.2011 | 21:52


Gosið var svo tignarlegt að gefin var út heil syrpa af fallegum frímerkjum. Eitt þeirra, sýnt hjér sem 50 aura frímerkið, var byggt á ágætri ljósmynd sem Pálmi Hannesson tók af gosinu hinn 29. marz 1947. Þá var mökkurinn í tíu km hæð.
Seigja kviku
13.2.2011 | 12:45

Seigja (viskositet) er eiginleiki efnis sem við hugsum oftast ekkert um, en hún er mjög mikilvæg varðandi hegðun allra vökva, eins og til dæmis hraunkviku. Berum til dæmis saman tvö vökva sem þið þekkið vel: vatn og tómatssósu. Seigja tómatssósunnar er einmitt eitt hundrað sinnum hærri en vatnsins, þegar við berum þessa vökva saman með seigjumælingu og notum seigjugildi vísindanna, en það nefnist Pa s eða paskal-sekúndur. Tjara er ótrúlega seigur vökvi, og lengsta tilraun vísindanna er tilraun með seigju tjöru. Þessi tilraun er enn í gangi í Queensland háskólanum í Brisbane í Ástralíu, eftir 84 ár, enda á tilraunin metið í Guinness Book of Records. Prófessor Thomas Parnell setti tjöru í trekt árið 1927 og beið síðan eftir því að dropar af tjöru læku niður úr trektinni. Hann sá fyrsta dropann falla árið 1938, og annan dropann árið 1947, rétt áður en hann dó. Tilraunin er enn í gangi í Brisbane (vonandi hafa flóðin þar nýlega ekki haft nein slæm áhrif) en nú hafa alls átta dropar fallið, sá síðasti í nóvember árið 2000. Seigja tjöru hefur verið reiknuð út á grundvelli þessar tilraunar, og reyndist hún 230 milljörðum hærri en seigja vatns, eða 2,3x108 Pa s. Eðlisfræðideild Queensland Háskóla í Brisbane hefur vefmyndavél á tjörutilrauninni, svo þið getið, kæru lesendur, fylgst með því þegar næsti dropi fellur, ef þið þafið mikla þolinmæði og góðan tíma og yfirleitt nennið að bíða eftir þeim merka atburði. Vefmyndavélin er hér http://www.smp.uq.edu.au/pitch/
Það er annars upplagt að rannsaka seigju einmitt heima í eldhúsinu, og gera sjálfur tilraunir varðandi áhrif hita á seigjuna. Eftirfarnadi gildi eru fyrir seigju ýmissa efna við 20 stiga hita, gefin í pascal-sekúndum eða Pa s: vatn 0,001, hunang 10, tómatsósa 100, bráðið súkkulaði 130, hnetusmjör 250. Myndin til hliðar sýnir seigju á nokkrum tegundum rúðuglers, eða réttara sagt heita vökvans eða kvikunnar sem myndar rúðugler. Svarta kúrvan sýnir áhrif hita á seigju fyrir venjulegt rúðugler, en einingarnar eru í log Pa s. Seigja glerkvikunnar við um 700 stiga hita er sem sagt mörgum milljörðum sinnum hærri en við 1100 stiga hita, samkvæmt línuritinu.
Það sem við köllum föst efni, eins og ís, hafa líka seigjueiginleika, þegar litið er á efnið í nógu miklu magni. Heill skriðjökull af ís rennur, og er seigja jökuls um 1013 Pa s. Möttlull, jarðar, lagið undir jarðskorpunni, er enn seigari. Venjulegur möttull, eins og undir meginlöndunum, er um 1021 Pa s. Möttullinn undir Íslandi er alls ekki venjulegur, þar sem hann er óvenju heitur. Seigja okkar möttuls er um það bil 1018 Pa s og þessi lága seigja hefur þau áhrif að lóðréttar jarðskorpuhreyfingar eru mun hraðari á Íslandi en víðast hvar á jörðu.
En snúm okkur nú að aðalefninu: seigju hraunkviku. Það er gífurlegur munur á seigju á ýmsum tegundum af kviku, en seigjan er háð bæði hita og efnasamsetningu og einnig innihaldi vatns og annara reikulla efna í kvikunni. Seigja kviku getur verið allt frá 100 Pa s fyrir mjög heita basalt kviku, og allt til 1011 Pa s fyrir mjög kísilríka líparít kviku, og nær sviðið á seigju kviku því yfir um ellefu stærðargráður! Auk þess er seigjan háð þrýstingi, og er seigja kviku djúpt í jörðu, undir háum þrýstingi, því enn lægri en á yfirborði. Heitasta og þynnsta kvikan sem við þekkjum er kölluð komatiít, og hefur hún seigjugildi um 0,1 til 10 Pa s, eða álíka og hunang. Komatiít hraun runnu á frumöld jarðar, fyrir meir en 2,5 milljörðum ára. Síðan hefur þessi kvika ekki komið upp á yfirborð hér á okkar plánetu. En hins vegar gýs kómatiít hraunum á plánetunni Io, eins og ég hef bloggað um hér: http://vulkan.blog.is/admin/blog/?entry_id=997761
Ég hef mælt seigju kvikunnar sem kom upp í gosinu á Fimmvörðuhálsi í fyrra, og einnig kvikunnar sem gaus í toppgíg Eyjafjallajökuls. Aðgerðin byggist á efnagreiningu glerdropa, sem finnast inni í kristöllum. Þessir kristallar eða steindir hafa myndast í kvikunni á miklu dýpi, og berast upp á yfirborðið með kvikunni. Þessar mælingar á efnasamsetningu veita upplýsingar um hita, sem ég hef einnig bloggað um hér http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1141566/
og er þá hægt að reikna út seigjuna. Niðurstöðurnar eru sýndar á myndinni til hliðar. Alkalí basalt kvika frá Fimmvörðuhálsi hefur seigju frá 5 til 50 Pa s, og hún er sem sagt lapþunn. Hins vegar er trakíandesít kvikan sem kom upp úr toppgíg með seigju á bilinu 1000 til 4000 Pa s, eða um eitt hundrað sinnum seigari! Þessi mikli munur á seigju er að nokkru leyti skýringin á því, hvers vegna þessi tvö eldgos voru svo gjörólík í hegðun. Alkalí basalt kvikan var heitari, mjög þunnfljótandi og myndaði hraun. Hins vegar var trakíandesít kvikan svo seig, að gasbólur sem mynduðust í kvikunni gatu ekki risið og sloppið út, heldur bárust upp með kvikunni og sprungu á yfirborði. Að sjálfsögðu átti samspil kviku og bráðnandi jökuls og gufusprengingar einnig mikinn þátt í sprengivirkninni í Eyjafjallajökli, en seigja kvikunnar er mikilvægt atriði, sem taka verður inn í reikninginn.
Vísindi og fræði | Breytt 13.7.2011 kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fyrirlestrar Eldfjallasafns
11.2.2011 | 15:39
Nú eru haldnir fyrirlestrar vikulega í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Þeir eru á laugardögum kl. 13, og aðgangur er ókeypis meðan húsrúm leyfir. Haraldur Sigurðsson flytur fyrirlestrana. Fyrirlestrar hafa verið þessir:
1. Sprengigos og áhrif þeirra, 29. janúar, 2011
2. Þrjú gos mynda þrjú vötn: myndun Baulárvallavatns, Hraunsfjarðarvatns og Selvallavatns, 5. febrúar, 2011
3. Drekarnir á Komodo, 12. febrúar 2011
4. Leyndardómar Kerlingarfjalls, 19. febrúar 2011
Vísindi og fræði | Breytt 12.2.2011 kl. 05:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)