Gamla Sæluhúsið í Kerlingarskarði
7.8.2016 | 15:48
Nú vex upp kynslóð á Snæfellsnesi sem veit varla hvar Kerlingarskarð er. Önnur var nú öldin hér áður fyrr, en þá var Skarðið fjölfarnasti þjóðvegurinn norður yfir Snæfellsnes. Ekki gekk það ferðalag alltaf slysalaust. Í janúar árið 1906 varð til dæmis landpósturinn og aðstoðarmaður hans úti eftir mjög erfiða ferð yfir Kerlingarskarð. Þetta var eitt af mörgum dauðsföllum sem voru tengd Skarðinu. Nú lét stjórn Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu til skarar skríða og veitti 150 krónur til sæluhússbyggingar í Skarðinu. Það var 6 x 10 ánir að stærð. Ári síðar voru veittar 47 krónur til viðgerðar á húsinu.
Ekki er mér kunnugt um hve lengi húsið stóð uppi, en sennilega var það ekki lengi. Ég rakst á rústir þess nýlega. Það var staðsett í háskarðinu, milli dysja smalanna, og á lagum móbergshrygg rétt fyrir norðan syðri dysina. Hleðslan fyrir grunninn er vel sjáanleg og nokkur spýtnabrot hér og þar. Annað er ekki að sjá, en nú væri fróðlegt að vita hvort einhverjir hafi frekari heimildir um þetta gamla sæluhús. Mörgum árum síðar var reist myndarlegt sæluhús sunnar í Skarðinu, og stendur það enn.
Leiðsögn um Eldfjallasafn - Enska útgáfan
7.8.2016 | 08:11
Eru Íslendingar aumingjar?
3.8.2016 | 22:01
Nýr forseti var vígður í vikunni og kom að vanda fram á svalir Alþingishússins til að láta lýðinn hylla sig. En skyldi hann nokkurn tíma lyfta höfði þegar hann gengur inn í húsið og líta á skjaldarmerki og kórónu Kristjáns 9 danakonungs, sem trjóna efst á húsinu? Hvernig má það vera að Íslendingar láti við lýðast í öll þessi ár að æðsta stofnun þjóðarinnar sé merkt svo kyrfilega með merki nýlendukúgarans? Maður hefði nú haldið að einhverjir duglegir piltar hefðu klifið hér upp á þak í Búsáhaldabyltingunni og fjarlægt skömmina, en svo fór ekki. Væri ekki best að minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018 með því að fjarlægja þessa skömm?
Ferðamenn í Stykkishólmi
3.8.2016 | 15:17
Það fer ekki framhjá neinum að ferðamenn setja svip sinn á Stykkishólm í auknum mæli. Sú holskefla af ferðamönnum, sem hefur undanfarið gengið yfir Suðurland hefur farið framhjá okkur að nokkru leyti, til allrar hamingju, vilja sumir segja. Samt höfum öll orðið vör við aukinn ferðamannastraum, en okkur hefur skort mælikvarða til að dæma um vöxtinn í ferðamennsku í Hólminum. Auðvitað vita kaupmenn, gestgjafar og þeir sem reka veitingahús í Hólminum vel hvað syngur, en við höfum því miður ekki aðgang að þeirra tölfræði. Það er þó eitt sem lýgur ekki, en það er umferðin. Þá á ég við bílatalningu Vegagerðarinnar, en þeir hafa skráð umferð síðan árið 2000 í tæki sem er staðfest á Stykkishólmsvegi rétt hjá Skildi eða Arnarhóli (vegnúmer 58-01). Línuritið sem fylgir eru niðurstöður þeirra mælinga, frá árinu 2000 til 2015. Hér eru sýndar þrjár línur: rauða línan sýnir meðal fjölda bíla á dag yfir sumarmánuðina, sú bláa sýnir meðaltal bíla á dag yfir árið, og græna línan sýnir meðal fjölda bíla yfir veturinn.
Það má lesa margt út úr þessu línuriti, en eitt er augljóst: umferðin inn í Stykkishólm hefur rúmlega tvöfaldast á þessu tímabili, á öllum árstímum. Það eru hæðir og lægðir á línunum, sem kunna að vera tengdar kreppunni uppúr 2008, en það er mest sláandi hvað vöxturinn er mikill árin 2014 og 2015. Það virðist ekkert lát vera á þessum vexti í umferð í dag, eins og seinni myndin sýnir. Hún er súlurit frá Vegagerðinni fyrir meðaltal hvers mánaðar árin 2014 til 2016, sem sagt: alveg nýjustu tölur fyrir Stykkishólmsveg. Þar kemur fram að síðan í mars í ár hefur hver mánuðurinn sett nýtt met og stígandinn heldur því áfram, um tíu til fimmtán prósent á mánuði, milli ára.
Ég hef einnig fylgst náið með aðsókn í Eldfjallasafn síðan það var opnað sumarið 2009. Heildarfjöldi gesta hefur undanfarið oftast verið um 5000 á ári, en aðsókn hefur aldrei verið jafn mikil og nú, sumarmánuðina árið 2016, með til dæmis 1461 gest í safninu í júlí mánuði. Þar af eru erlendir gestir um 75%, mest frá Norður Ameríku.
Hvernig bregðast Hólmarar við þessum aukna straum ferðamanna? Fjárfestar eru önnum kafnir við að veita meiri þjónustu í gistingu og veitingum, en bæjarfélagið virðist því miður ekki hafa tekið við sér. Ferðamenn vilja meir en mat og svefn. Þeir vilja einnig afþreyingu, helst menningartengda. Aðhlynning að söfnum bæjarins er í lágmarki og hefur reyndar dregist saman. Þetta viðhorf Stykkishólmsbæjar hefu mjög neikvæð áhrif á framhald reksturs Eldfjallasafns í þessum bæ.
Nýjasta mynd Eldfjallasafns
5.6.2016 | 18:17
Eldfjallið er nýjasta mynd Eldfjallasafns í Stykkishólmi. Hún er eftir Amerísku listakonuna Ritu Rogers. Myndin er gerð með svokallaðri encaustic aðferð. Þá er heitu lituðu vaxi smurt á hördúk. Rita Rogers heimsótti Kanaríeyjar árið 2005, og varð hugfangin af eldfjallinu Teide á eynni Tenerife. Síðasta gos eldfjallsins var árið 1909. Vaxmálverk er ein elsta aðferð listmálara. Lit er blandað saman við heitt vax og smurt á hördúkinn með spaða. Elstu myndir forn-Egypta eru af þessu tagi, allt frá um 100 e.Kr. Grikkir beittu einnig þessari aðferð um 400 f. Kr.
Enn nýtt hitamet
15.4.2016 | 19:47
Mars mánuður er sá heitasti sem mælst hefur á jörðu. Línuritið sýnir stöðugt hækkandi meðal yfirborðshita frá 1890 til okkar daga. Lengi hefur hækkunin verið um 0,85 gráður á öld, en hlýnun gæti orðið mun hraðari í framtíðinni, eftir þessum gögnum að dæma.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nation-building er orsök hryðjuverkanna
16.11.2015 | 21:52
Ég var í París hinn 7. janúar 2015, daginn sem hryðjuverkin voru framin í Charlie Hebdo. Ég var EKKI í París nú á föstudaginn, þegar nýju hryðjuverkin voru framin, þar á meðal í Bataclan hljómleikasalnum, aðeins um 300 metrum frá Charlie Hebdo. Reyndar var vettvangur hryðjuverkanna nú á svæði í austur hluta borgarinnar, sem mér finnst lítt spenandi, fyrir utan hinn einstaka Père Lachaise kirkjugarð, þar sem finna má leiði Jim Morrison (The Doors), Maria Callas, Oscar Wilde, Balzac, Delacroix ofl. Í París ríkir nú mikil sorg og allt er nú gert til að komast til rótar í þessu máli. En að mínu áliti eiga hryðjuverkin í París og víðar í heiminum undanfarið rót að rekja til aðgerða heimsveldanna á tuttugustu öldinni og í byrjun hinnar tuttugustu og fyrstu. Uppúr 1990 kom fram ein tegund af heimsveldisstefnu í Bandaríkjunum, sem fékk hið virðulega nafn nation-building. Það voru hugmyndafræðingar, sem störfuðu á vegum George W. Bush, George H W Bush og Tony Blair, sem voru helstu áróðursmenn fyrir nation-building og þeir eru oftast nefndir neocons, eða neo-conservatives. Fremstir þar í flokki voru Paul Wolfowitz, Dick Cheney og Donald Rumsfeld. Æðsta markmið neocons var að reisa Amerískt heimsveldi, þar sem ríkti Pax Americana eða Ameríski friðurinn. Einkum höfðu neocons augastað á mið-austurlöndum, þar sem auðlindir af olíu og gasi eru miklar. Það kemur ekki á óvart að margir neocons og einnig Bush fjölskyldan hafa sterk tengsl í olíufyrirtækjum og félögum tengdum olíuleit, eins og Haliburton, Schlumberger og Hughes Tool Co.
Já, en þú gengur bara ekki inn og tekur yfir landið og allar auðlindir þess? Nei, þeir höfðu aðra og smekklegri aðferð, sem þeir kalla nation-building. Í nær öllum miðausturlöndum var fólkið þá undir hælnum á harðstjóra eða herforingjaráði og lýðræði var af skornum skammti eða ekki neitt. Nú sáu neocons sér leik á borði: þeir lögðu til að Bandaríkin (og fylgifiskar þeirra, þar á meðal Bretar og einnig Ísland undir merki Davíðs og Halldórs í Irak) gerðust einskonar frelsarar eða brautryðjendur í nation-building eða þjóðarreisn, steyptu af stóli harðstjórn, kollvörpuðu mönnum eins og Saddam Hussein og stilltu upp stjórn auðsveipra heimamanna, sem væri þeim velviljuð og boðaði einnig lýðræði að nafninu til meðal fólksins. Við vitum vel hvernig þetta hefur mistekist í Írak, Afghanistan, Libýu og nær alls staðar, þar sem nation-building aðferðinni hefur verið beitt. Það hefur orsakað algjöra upplausn þjóðfélagsins, margra alda gamlar hefðir eru fótum troðnar, þjóðfélagið leysist upp. Undir stjórn harðstjóranna og herforingjaráðsins ríkti áður viss stöðugleiki í þessum löndum. Auðvitað voru mannrétindi þá fótum troðin, en samfélagið virkaði og naglar eins og Hussein gættu þess, að klerkastéttinni væri haldið í skefjum. Nú er efnahagur flestra þessara landa í rústum og öfgahópar múslima hafa náð fótfestu, stjórnin er veikburða og hefur ekki fylgi almennings. Því miður virðist svo að íbúar mið-austur landa séu ekki tilbúnir að leggja út í lýðræðislegt þjóðfélagskerfi. Heimsspekin og hugarfarið sem lýðræði byggir á virðist láta strax í minni pokann, þegar klerkarnir kalla fólkið til bæna, fimm sinnum á dag. Múhammeð trompar allt. Sama sagan er nú að endurtaka sig í Sýrlandi. Bashar al-Assad hafði nokkurn veginn stjórn á landinu, en vegna afskipta vesturlanda og annara erlendra áhrifa er stjórn hans í molum. Enn og einu sinni skapast þá ríkur jarðvegur fyrir hryðjuverkahópa, þegar gamla stjórnarkerfið er hrunið.
Ný Náttúruverndarlög eru mikil afturför
13.11.2015 | 15:08
Eitt af höfuðeinkennum íslenskrar hefðar í sambandi við ferðalög er sá almannaréttur, sem ætið hefur ríkt varðandi rétt til ferðar og dvalar á annara manna landi. Almannaréttur þessi er til dæmis varðveittur í Jónsbók frá 1281 og ætið síðan, til dæmis í náttúrverndarlögum frá 1999. Nú hafa ný náttúruverndarlög verið samþykkt á Alþingi, sem fjarlægja þennan mikilvæga rétt. Nú er landeigendum í lögunum veitt heimild til að banna umferð um óræktað land án þess að þurfa að rökstyðja slíkt bann. Þannig getur landeigandi nú takmarkað eða bannað með merkingum umferð manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi. Það er reyndar óskiljanlegt að ekki hefur verið meira fjallað um þetta atriði, sem er mikil afturför í ferðahefð í Íslenskri menningu.
Hver voru upptök Lissabon skjálftans árið 1755?
9.11.2015 | 18:17
Mestu náttúruhamfarir sem um getur í Evrópu eru tengdar jarðskjálftanum í Lissabon í Portúgal, árið 1755, en þrátt fyrir mikilvægi þessa atburðar í mannkynssögunni, þá vitum við harla lítið um upptök hans. Það var Allraheilagamessa í kaþólska heiminum hinn 1. nóvember, og fólk þyrptist í kirkjur landsins að venju. Allt í einu reið yfir stór jarðskjálfti um kl. 940 um morguninn og skömmu síðar annar enn stærri. Nær allar kirkjur landsins og aðrar steinbyggingar hrundu til grunna, fullar af fólki. Um 40 mínútum síðar skall stór flóðbylgja, milli 7 og 15 metrar á hæð, á hafnarhverfið og byggð nærri sjó í Lissabon. Á sama tíma kviknaði í borginni, sennilega mest út frá kertum og öðrum ljósum sem skreyttu allar kirkjur þennan morgun. Borgareldurinn var algjör og borgin brann í þrjá daga. Lissabon var rúst ein á eftir. Um 90 þúsund fórust í Portugal (íbúafjöldi í Lissabon var þá um 230 þúsund) og flóðbylgjan drap einnig um tíu þúsund í Marokkó. Lissabon var þá ein ríkasta borg á jörðu, en hún hafði safnað auð sem miðstöð hins mikla siglingaveldis Portúgal. Gull og gersemar streymdu til borgarinnar í meir en tvö hundruð ár frá löndum Mið- og Suður Ameríku, þar sem Portúgalar rændu og rupluðu og grófu upp gersemar, sem allar voru fluttar til Lissabon. Allt þetta fór forgörðum í eldsvoðanum og flóðinu og þar á meðal konungshöllin, með sitt 75 þúsund binda bókasafn. Tapið á menningarlegu verðmæti í þessum bruna minnir helst á brunan á bókasafni Alexandríu í Egyptalandi til forna.
Jarðskjálftinn mikli er talinn vera amk. 8,7 að styrkleika. Skjálftinn, var talinn eiga upptök um 200 km fyrir vestan Portúgal, kl. 940 að morgni. Skjálftarnir voru þrír, og sá stærsti í miðjunni. Hans var vart um nær alla Evrópu, til Luxemborgar, Þýskalands og jafnvel Svíþjóðar. Mikið tjón varð einnig í Alsír og Marokkó. Það er reyndar merkilegt, að hvorki staðsetning á upptökum né tegund skorpuhreyfingarinnar er enn þekkt fyrir þennan risastóra skjálfta. Lengi vel hafa jarðvísindamenn verið á þeirri skoðun að hann ætti upptök sín í brotabelti, sem liggur á milli Azoreyja og Gíbraltar og stefnir austur-vestur. Það mikið og langt misgengi á mótum Afríkuflekans og Evrasíuflekans í Norður Atlantshafi, sem nefnist Gíbraltar-Azores brotabeltið. Það liggur í austur átt frá Azoreseyjum og nær alla leið til Gíbraltarsunds. En slík brotabelti mynda yfir leitt ekki svo stóra skjálfta sem þennan. Nýlega hefur komið fram sú skoðun (M.A. Gutscher ofl.), að undir Cadizflóa og undir Gíbraltar sé að myndast sigbelti, þar sem jarðskorpa Norður Atlantshafsins sígur undir jarðskorpu Marokkó og Íberíuskagans. Allir stærstu jarðskjálftar sögunnar hafa einmitt myndast við hreyfingar á sigbeltum sem þessu. En þessi hugmynd um sigbelti undir Gíbraltar er enn mjög umdeild og ráðgátan um upptök skjálftans mikla er alls ekki leyst.
Myndin sýnir hugmyndir um staðsetningu á upptökum skjálftans árið 1755 (stórir brúnir hringir). Einnig sýnir myndin upptök seinni skjálfta á þessu svæði, sem hafa verið staðsettir með nokkri nákvæmni og svo staðsetningu sigbeltisins undir Gíbraltar.
Flóðbylgjan breiddist hratt út um allt Norður Atlantshaf og hefur sennilega náð til Íslands eftir um fimm tíma. En engar heimildir eru til um flóðbylgju hér á landi í tengslum við skjálftann mikla árið 1755. Sveinbjörn Rafnsson hefur frætt mig um hvað gerðist á Íslandi á þessum tíma. Hinn 11. september 1755 varð mikill jarðskjálfti á Norðurlandi sem þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson lýsa í skýrslu til danska vísindafélagsins. Hinn 17. október til 7. nóvember 1755 var eldgos í Kötlu. En einmitt meðan á þessu gosi stóð varð eyðing Lissabonborgar 1. nóvember 1755. Uppástunga Sveinbjörns er sú, að Íslendingar hafi hreinlega ekki tekið eftir Lissabonbylgjunni vegna eldgossins í Kötlu og menn hafi kennt Kötlu um allt saman. Það er engin ástæða til að ætla að nokkuð samband sé á milli eldgossins í Kötlu og skjálftans í Lissabon.
Náttúruhamfarirnar höfðu gífurleg áhrif á hugarfar fólks í Evrópu og ollu straumhvörfum í heimspeki og bókmenntum, einkum hjá raunsæjum pennum eins og Voltaire og Rousseau. En það er nú stór kafli að fjalla um, útaf fyrir sig.
Er Grænlandsjökull botnfrosinn?
6.11.2015 | 00:20
Hér er mynd, sem sýnir hvernig Grænland lítur út, ef allur ísinn er fjarlægður. Þá kemur í ljós, að meiri hluti Grænlands (öll miðjan) er reyndar neðansjávar. Ef ísinn er skyndilega fjarlægður er hér risastór flói eða stöðuvatn, en þessi djúpa lægð hefur myndast vegna þungans eða fargsins, þegar 3 km þykk íshella þrýstir niður jarðskorpunni. Það eru tvö sund, sem tengja djúpu lægðina við úthafið. Annað sundið er í vestri, þar sem Jakobshavnbreen er, nálægt Ilulissat. Hitt sundið er þar sem Petermannjökull sker út í Íshafið, til norðvesturs.
Hvert er ástand Grænlandsíss í dag á botninum, undir þessu mikla fargi? Er jökullinn botnfrosinn, eða er hann vatnssósa vegna þess mikla magns af vatni sem myndast nú við bráðnun á yfirborði? Svar við þessari spurningu hefur tvímælalaust mikil áhrif á hugmyndir okkar um, hvernig Grænlandsjökull hagar sér á næstunni. Er hann botnfrosinn, eða er að myndast krap eða vatnslag í botninum, sem getur orsakað aukið skrið jökulsins?
Við erum vön því að ís bráðni við núll gráður, en það er einungis rétt þegar átt er við lágan þrýsting í andrúmsloftinu. Við aukinn þrýsting, eins og undir fargi þykks jökuls, LÆKKAR bræðslumark íss. Bræðslumark á ís heldur áfram að lækka við aukinn þrýsting allt niður í -22 oC, undir þrýstingi sem nemur um 2000 bar, en svo þykkir jöklar eru auðvitað ekki til. Við þrýsting sem nemur 135 bar lækkar bræðslumarkið um eina gráðu. Í botninum á 3 km þykkum jökli er bræslumark því um það bil mínus 2 stig (Clausius-Clapeyron 0,0742 K MPa).
Boranir í gegnum Grænlandsjökul sýna okkur hver hinn raunverulegi hiti er nærri botninum. Fyrri myndin sýnir hvernig hitastig í ísnum hækkar frá um -32 stigum á yfirborði, upp í um -25 stig á um 2500 metra dýpi, þegar dýpra er borað í meginjökulinn. Það var almennt álitið að hitastig hækkaði vegna uppstreymis af hita úr jarðskorpunni undir. En undir skriðjöklum og undir meginjöklinum í grennd við þá er sagan önnur. Þriða myndin sýnir til dæmis hita í borholum, sem voru gerðar um 50 km inná Jakobshavn jökli á vestur Grænlandi. Þar kemur vel í ljós að botninn er við frostmark eða bráðinn. Eins og vel kemur fram á þversniðinu af jöklinum á síðustu myndinni, er mun hlýrra lag neðar í jöklinum og hann situr víða á vatni (svart). Að hve miklu leyti er þetta vatn, sem myndast við bráðnun frá hita jarðskorpunnar undir, eða þá vatn sem myndast við bráðnun á yfirborði jökulsins vegna hnattrænnar hlýnunar og fellur niður í gegnum jökulinn í sprungum og jökulgöngum? Skrið jökulsins til sjávar verður að sjáfsögðu mun hraðar þegar slíkt botnvatn er fyrir hendi.
Svarið vuð upprunalegu spurningu okkar er því NEI. Grænlandsjökull er ekki botnfrosinn, heldur er mikið magn af vatni rétt við frostmark í neðstu lögum hans. Það mun hafa mikil áhrif á skrið jökulsins.