Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014
Stutt gos í Etnu
19.6.2014 | 19:20
Etna eldfjall á Sikiley byrjaði að gjósa síðastliðinn sunnudag, 15. júní. Það er alltaf viðburður þegar Etna gýs, af því að hún er annað virkasta eldfjall jarðar. Kilauea á Hawaíi er númer eitt. Í fyrstu voru sprengingar í suðaustur gíg fjallsins og síðan tók basalt hraun að streyma niður hlíðar fjallsins. Lokað var flugvöllum á Sikiley um tíma vegna ösku. Gosið náði strax hámarki næsta dag. Myndin sýnir línurit fyrir tvær jarðskjálftastöðvar, sem eru staðsettar í hlíðum Etnu. Þetta er órói eða titringur, sem verður beinlínis vegna streymis á kviku upp um gíginn. Það er góður mælikvarði á goskraftinn. Ég fékk útkall frá félaga mínum, sem á stóran bát með tvær þyrlur og tvo kafbáta um borð. Hann var staddur á Miðjarðarhafi. En ég varð að benda honum á, að þann dag, 17. júní, var þegar byrjað að draga úr goskraftinum og gosið því sennilega komið á lokasprettinn. Því miður of seint að bregðast við. Hinn 19. júní var óróinn kominn í venjulegt horf og gosinu að mestu lokið. Eins og venjulega, þá er goskrafturinn nær alltaf mestur fyrstu tvo dagana og því verða menn að bregðast snöggt við ef skoða skal slíkar hamfarir jarðar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Obama ætlar að friða Kyrrahafið
18.6.2014 | 19:05
Við gleymum því víst oftast að Banadríkin stjórna risastóru svæði í mið og vestur hluta Kyrrahafsins síðan 1944. Kortið sýnir þetta svæði, sem er um tvær milljónir ferkílómetra á stærð (tuttugu sinnum stærra en Ísland) og verður nú friðað. Obama forseti tilkynnti þetta í gær á alþjóðaráðstefnuni Our Ocean, eða Hafið Okkar, í Washington um verndun hafsins. Ráðstefnunni er stýrt af utanríkisráðherra Bandaríkjanna John Kerry, og þar er saman kominn mikill fjöldi vísindamanna, áhrifamanna og stjórnmálamanna heims. Höfuð markmið ráðstefnunnar er að kanna ástand hafsins og bæta hvernig mannfólkið umgengur hafið og auðlindir þess, einkum lífríkið. Hollywood stjarnan Leonardo di Caprio er mikill áhugamaður um verndun hafsins og hefur þegar á ráðstefnunni veitt styrk sem nemur $8 milljón dölum til þessa.
Hér eru fulltrúar allra landa saman komnir nema Íslands! Það er smán, skömm og aumingjaskapur að íslenska ríkið skuli halda svo illa á spöðunum að við erum útilokaðir frá slíkum fundum vegna sóðalegra hvalveiða, sem skila nær engum tekjum til þjóðarinnar. Það er reyndar furðulegt að fjölmiðlar skuli ekki gera meir úr þessu máli og krefja ríkisstjórnina skýringar á þessu ástandi. Reyndar slapp einn íslendingur inn á ráðstefnuna, en það er Árni M. Mathiesen, sem vinnur hjá Sameinuðu Þjóðunum, og fékk að fljóta með. Merkilegt hvernig gamlir kreppuvaldar skjóta aftur upp kollinum í útlöndum
Grænland dökknar
18.6.2014 | 10:06
Grænland er auðvitað ekki grænt, og ekki er það heldur hvítt. Myndin sem við berum flest í huga okkar um Grænland er mjallhvít jökulbreiða. Hún er ekki lengur rétta myndin. Ísinn er að verða skítugur, eins og við Rax rákum okkur á í ferð á innlandsísinn fyrir tveimur árum. Fyrst var haldið að yfirborð Grænlandsjökuls væri að verða dökkara vegna bráðnunar, en þá renna ískristallar saman og mynda stóra kristalla, sem virðast dekkri. En nú kemur í ljós að jökullinn er að verða dekkri vegna ryks, óhreininda, mengunar og eldfjallaösku. Þar hafa einnig áhrif aska frá sprengigosunum í Eyjafjallajökli árið 2010 og Grímsvötnum ári síðar. Einnig hefusót frá skógareldum í Síberíu mikil áhrif. Sumt af rykinu kemur frá strandlengju Grænlands, þar sem bráðnun jökla skilur eftir auð landsvæði. Vindar lyfta síðan rykinu og leirnum af þessu nýja landi og bera inn á ísbreiðuna.
Þegar ísinn dökknar, þá drekkur hann í sig meiri hita frá sólargeislum og bráðnar hraðar. Endurskin sólarljóss frá jökulyfirborðinu minnkar. Mælieiningin fyrir endurskin er albedo. Fyrir hreinan og mjallhvítan snjó er albedo nálægt 0.8 eða 0.9. Fyrir dökkt yfirborð hafsins er albedo hins vegar um eða undir 0.1. Myndin sýnir hvernig albedo breytist eftir árstíðum, en einnig hvernig albedo í heild hefur lækkað á Grænlandsjökli frá 2009 til 2013. Talið er að dökknun Grænlands og fallandi albedo jökulsins auki bráðnun hans að minnsta kosti 10% í viðbót við þá bráðnun sem orsakast beint af hlýnun jarðar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hafið inni í jörðinni
17.6.2014 | 11:07
Var þetta rétt hjá Jules Verne? Er stór hafsjór inni í jörðinni? Nýjar rannsóknir benda til að það sé miklu meira vatn í iðrum jarðar en haldið var, en það er ekki í fljótandi formi, heldur bundið inn í kristöllum. Hér er mynd af demant sem fannst í Brazilíu árið 2008. Hann er frekar ljótur, og var seldur á aðeins $10, en hann hefur reynst vera fjársjóður fyrir vísindin. Demanturinn, sem barst upp á yfirborð jarðar í eldgosi, er ekkert sérlega merkilegur að sjá, en innan í honum finnast fagurbláir kristallar af steindinni ringwoodite. Myndin sýnir einn slíkan ringwoodite kristal. Þessi kristaltegund hefur áður verið búin til í tilraunum vísindamanna við mjög háan hita og þrýsting sem er jafn og á 400 til 600 km dýpi inni í jörðinni. Nú er loksins búið að finna ringwoodite í náttúrunni og sú uppgötvun er að bylta mynd okkar um innri gerð jarðar og um magnið af vatni inni í jörðinni. Ringwoodite kristall getur innihaldið allt að 2.5% vatn og þess vegna kann að vera mikill vatnsforði djúpt í jörðu, þar sem þessir kristallar þrífast.
Myndin sýnir þversnið af jörðinni. Vegna flekahreyfinga sígur jarðskorpan niður í möttul jarðar í svokölluðum sigbeltum, einkum umhverfis Kyrrahafið. Bergið í jarðskorpunni er blautt og inniheldur töluvert vatn þegar það sígur niður í möttulinn að iðrum jarðar. Á dýpinu í möttlinum myndast vatns-ríkt ringwoodite í þessari fornu jarðskorpu, á um 400 til 600 km dýpi.
Hingað til hefur vísindaheimurinn haldið að meginhluti vatnsins á jörðu væri í höfunum. Heimshöfin og vatn á yfirborði jarðar eru um 1,36 miljarðar rúmkílómetrar, en það er aðeins um 0,023% af öllu rúmmáli jarðar. Nýju niðurstöðurnar varðandi ringwoodite benda til að þrisvar sinnum meira vatn en öll heimshöfin kunni að vera bundin í ringwoodite á um 400 til 600 km dýpi. Nú munu koma fram nýjar kenningar um hringrás vatnsins í jarðkerfinu, milli bergsins sem inniheldur ringwoodite í iðrum jarðar, og hafsins. Það sem keyrir þessa hringrás eru flekahreyfingar og sigbeltin, og það er einmitt þessi hringrás sem gerir jörðina alveg sérstaka og skapar nauðsynlegar aðstæður fyrir lífríkið sem við þekkjum og elskum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gagngata og vörður í Berserkjahrauni
16.6.2014 | 12:54
Þrjár götur liggja um Bererkjahraun: Skollagata, Berserkjagata og Gagngata. Síu síðarnefnda liggur frá Hraunsfirði og þvert yfir hraunið til austurs fyrir norðan Gráukúlu. Forna gatan er nokkurn veginn eins og þjóðvegur númer 558, sem nú nefnist Berserkjahraunsvegur. Við vestur jaðar hraunsins hefur verið hlaðið upp töluvert mannvirki fyrr á öldum, til að gera kleift að komast upp í bratt hraunið. Vörður eru mjög áberandi í Berserkjahrauni, enda getur hér legið yfir þoka og slæmt skyggni. En eitt er mjög merkilegt við þessar vörður: þær hafa flestar einskonar vegvísi. Það er langur og mjór steinn, sem skagar út úr vörðunni miðri og vísar veginn í áttina að næstu vörðu. Þetta er reyndar mjög skynsamlegt fyrirkomulag. Í blindbyl er ekki nægilegt að komast bara til næstu vörðu. Ferðamaðurinn þarf einnig að vita í hvaða átt hann á að fara til að finna næstu vörðu. Þetta er einkum mikilvægt þar sem vegurinn er krókóttur eins og hér.
Ég hef ekki séð svo merkar vörður annars staðar á ferðum mínum. En vil þó geta þess, að vörður á Skógaströnd hafa einnig vegvísi, til dæmis í grennd við Hvallátur. Þessi vegvísir er á annan hátt. Það er ferhyrnt gat í miðri vörðunni, og með því að sigta í gegnum gatið sér maður næstu vörðu, eða alla vega áttina til hennar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Elsta jarðskorpan er eins og Ísland
13.6.2014 | 21:16
Í norðvestur hluta Kanada eru bergmyndanir, sem eru um 4.02 milljarðar ára að aldri. Þetta berg nefnist Idiwhaa Gneiss og er meðal elsta bergs, sem finnst á jörðu. Til samanburðar er aldur jarðar talinn vera 4.54 milljarðar ára. Mikið af þessu bergi í Kanada er kallað greenstone, eða grænsteinn, en það er ummyndað basalt. Ummyndunin er af völdum jarðhita, eins og gerist í jarðskorpunni undir Íslandi. Reyndar er grænsteinn bergtegund sem er algeng á Íslandi. Við finnum til dæmis grænstein í Hafnarfjalli á móti Borgarnesi og í fjöllunum fyrir ofan Staðarsveit á Snæfellsnesi. Ransóknir á jarðefnafræði og steinafræði þessara fornu myndana í Kanada sýna að þessi jarðskorpa hefur myndast á alveg sama hátt og Ísland. Frumkvikan er basalt, sem hefur myndast við bráðnun í möttli jarðarinnar. Basalt gosin hafa hlaðið upp miklum stafla af hraunum, sem er margir kílómetrar eða jafnvel tugir km á þykkt. Basalt hraunstaflinn varð svo þykkur, að neðri hluti hans grófst djúpt og breyttist vegna jarðhitans í grænstein. Á vissum svæðum í djúpinu bráðnaði ummyndaða bergið og þá varð til líparítkvika. Jarðefnafræði gögnin á forna berginu frá Kanada eru nauðalík niðurstöðum á jarðskorpunni frá Íslandi. Þetta skýrðist allt þegar Kanadískir jarðfræðingar beittu skilningi á myndun Íslands við að túlka Kanadíska fornbergið. Það má segja að myndun Íslands skýri á nokkurn hátt myndun meginlandsskorpu af vissri tegund. Myndin sem fylgir er túlkun Kanadamanna á þeirra elstu jarðskorpu. Takið eftir að jafnvel landakortið, sem þeir teikna á yfirborðið er hermt eftir útlínum Íslands. Það er langt síðan að jarðfræðingar fóru að bera saman gömlu jarðskorpuna í Kanada og Ísland. Robert Baragar var þegar kominn á sporið í kringum 1970.
Ljósmynd Howells af Hrauni
13.6.2014 | 16:10
Ég hef fjallað töluvert um Berserkjahraun hér í blogginu, en hér er ein frábær mynd af gamla bænum. Um aldamótin 1900 tók breski ljósmyndarinn Frederick W.W. Howell yfir 400 myndir á Íslandi. Þær eru nú í safni Cornell Háskóla í Bandaríkjunum og aðgengilegar á netinu. Ein þeirra er merkt þannig í safni Cornell: Hraun. Styr's home. Howell, Frederick W. W. ca. 1900. Styr er að sjálfsögðu Víga-Styrr, sem bjó undir Hrauni eða í Berserkjahrauni. Fjölskyldan raðar sér upp fyrir ljósmyndarann, með pabba og strákinn á aðra hönd og mæðgurnar við bæjardyrnar. Húsmóðirin er búin að setja á sig tandurhreina og hvíta svuntu. Gamli bærinn er að sjálfsögðu alveg eins og á teikningu Collingwoods frá 1897.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Rótað í dys berserkjanna
11.6.2014 | 16:01
Að öllum líkindum hefur verið grafið einhvern tíma í flestar ef ekki allar fornar grafir, dysjar og hauga á Íslandi. Á mestu niðurlæginartímum þjóðarinnar hafa heimamenn sjálfsagt leitað í fornar grafir í von um fjársjóði eða haugfé. Á síðari tímum var það rómantíkin um fornmenn og sögutímann, sem kynti undir, einkum meðal erlendra ferðamanna. Þannig rótaði bretinn W Collingwood í ýmsum gröfum á sögustöðum í lok nítjándu aldar og með fulltingi dr. Jóns Stefánssonar.
Dys berserkjanna hefur einnig orðið fyrir mörgum árásum. Sú fyrsta sem við vitum um er í lok átjándu aldar, þegar Hallgrímur læknir Bachmann (1740-1811) í Bjarnarhöfn fór í dys berserkjanna og kom heim með mannabein. Bachmann, sem var rúmar 3 álnir (yfir 190 cm) á hæð, mældi einn lærlegginn við sig og taldi að berserkurinn hefði ekki verið eins hár og hann. Þetta hefur Ólafur Thorlacíus í Stykkishólmi eftir kerlingunni Prjóna-Siggu, sem var í vist hjá Hallgrími í Bjarnarhöfn.
Ólafur Thorlacius observator (1837-1920) lýsir dys berserkjanna sem 3 álna hárri, og rétt við götuna. Vani er að allir sem ríða framhjá kasta steini í dysina og þessi vegur var mjög fjölfarinn þegar kauptún var í Kumbaravogi hjá Bjarnarhöfn. Sumarið 1875 fór Ólafur frá Stykkishólmi við áttunda mann út í hraun og byrjuðu þeir að rjúfa dysina. Þegar þeir voru um það bil hálfnaðir gerði sunnan rok og rigningu og verkinu var því hætt. Ólafur fór aftur að dysinni og gróf frekar og þá fundu þeir bein, sem Hjörtur Jónsson læknir sagði vera hvalbein. Síðan var dysin hlaðin upp.
Sigurður Vigfússon forni (1828-1892) kannaði Berserkjahraun í ágúst árið 1889. Snæfellski fræðimaðurinn Þorleifur J. Jóhannesson (1878-1944) hefur það eftir Kristjáni Þorleifssyni að Sigurður forni hafi skilið við dysina sundurtætta. Kristján var unglingur í Bjarnarhöfn þegar Sigurður forni var á ferð, en Kristján mun hafa lagfært og endurhlaðið dysina.
Árið 1897 fór W.G. Collingwood hér um, en ekki eru heimildir um hvort hann gróf í dysina. Hins vegar rifu hann og dr. Jón Stefánsson upp gröf Guðrúnar Ósvífursdóttur á Helgafelli í júní 1897 og voru fyrir vonbrigðum með að finna aðeins fúnar spýtur og gömul bein.
Byrgi í Berserkjahrauni
9.6.2014 | 16:49
Eyrbyggja segir svo um þriðju þraut berserkjanna: og gera byrgi hér fyrir innan hraunið. Hvað er byrgi þetta og hvar er það? Björn Jónsson (1902-1987) bóndi á Innri-Kóngsbakka var fróður maður og skráði örnefni í sinni sveit. Björn taldi Krossrétt vera byrgi berserkjanna. Ég tel að svo sé ekki, enda hafði Sigurður forni áður bent á aðrar og miklu líklegri rústir sem hið forna byrgi.
Eyðibýlið Berserkjahraun eða undir Hrauni stendur við austur jaðar Berserkjahrauns, en það hefur verið í eyði síðan árið 1953. Íbúðarhúsið er steypt árið 1944 en er nú komið að hruni. Spörfuglar gera sér nú hreiður uppi í hillum og skápum. Til er teikning frá 1897 af bænum undir Hrauni eftir W.G. Collingwood (1854-1932), sem sýnd er hér fyrir ofan. Bæjarhúsin standa þá á hól við hraunjaðarinn, og umhverfis eru fjögur eða fimm útihús. Í bakgrunni er Bjarnarhafnarfjall, svo myndin er gerð í norðvestur átt. Collingwood var hér í för með dr. Jóni Stefánssyni lækni. Um dys berserkjanna segir Collingwood: Hún var opnuð fyrir nokkrum árum og þar fundust mjög stór bein. Gamli torfbærinn var í notkun allt til 1944.
Á undan Collingwood ferðaðist hér um hraunið sá sérkennilegi maður Sigurður forni Vigfússon (1828-1892). Hann var sjálfmenntaður fornleifafræðingur, sem sá um Forngripasafnið á lofti Dómkirkjunnar í Reykjavík. Hann átti til að bregða sér í fornmannabúning, eins og myndin sýnir. Af hverju gera starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands ekki slíkt hið sama í dag? Of mikill Disney World stíll fyrir þeirra smekk?
Í Árbók Fornleifafélagsins sem kom út árið 1893 skrifar Sigurður um Berserkjahraun. Hann lýsir stórum tóftum (67 og 47 fet á lengd) í grennd við bæinn undir Hrauni og telur aðra þeirra vera kirkju sem Styrr lét reisa og hina rústina af fornum skála. Handan við Hraunlæk er stór kriki inn í hraunið og nefnist krikinn Tröð. Hér telur Sigurður að finna megi gerði berserkjanna. Sennilega á hann hér við byrgið, sem minnst er á í Eyrbyggju. Gerðið telur Sigurður vera meir en 50 faðmar á kannt og ferskeytt. Veggir, sem nú eru fallnir, voru ákaflega breiðir og hlaðnir úr grjóti og torfi.
En Sigurður tekur einnig eftir mikilli grjóttóft í suðaustur horni gerðisins og vil ég draga athygli lesendans einkum að henni. Hún er hlaðin í hraunbrúninni og nýtir að nokkru leyti stór björg í hrauninu sem vegg. Tóftin er um 7 m á lengd og um 4 m á breidd. En tveir veggir tóftarinnar eru hlaðnir úr óvenju stórum hraunbjörgum, eins og myndin sýnir. Ljósa stikan er 1 m á lengd. Hér eru björg sem eru meir en meter í þvermál og hefur þeim verið lyft upp í vegg á einhvern hátt. Er þessi svokallaða grjóttóft í reynd byrgið sem nefnt er í Eyrbyggju? Það er ekki ólíklegt, en Sigurður forni segir að lokum: Hér er auðsjáanlega stórkostlegt mannvirki frá fornöld, og getur enginn efi á verið, að það sé gerði berserkjanna. Var þetta stórskorna byrgi notað sem fiskibyrgi, og hver var tilgangur með hinum miklu hlöðnu veggjum, sem Sigurður greinir frá? Fræðimaðurinn Þorleifur Jóhannesson er sammála Sigurði forna um þessa túlkun í skýrslu, sem hann samdi fyrir Örnefnastofnun.
Það er fleira sem vert er að minnast á í sambandi við býlið undir Hrauni. Uppi á hraunbrúninni rétt fyrir vestan bæinn eru fimm eða sex gömul fiskibirgi. Þau eru hlaðin úr stórum hraunstykkjum, og gisið á milli, eins og venja var í gerð fiskibyrgja. Slík byrgi eru vel þekkt hjá Gufuskálum undir Jökli, þar sem á annað hundrað birgi hafa fundist, og einnig víða á Reykjanesi, til dæmis við Ísólfsskála, Grindarvík og víðar. Fiskibyrgi eiga eitt sameiginlegt: þau eru öll hlaðin á hrauni, þar sem sótt var til sjávar. Svo var einnig hér, því fyrir norðan býlið Hraun er Hraunsvík. Þaðan var róið frá Hrauni á Breiðafjörð til fiskjar. Fiskur var fyrrum verkaður og þurkaður á staðnum. Fiskurinn var flattur eins og saltfiskur, en síðan lagður til þerris á þurrkgarða, helst á hrauni. Síðan var fiskurinn lagður í byrgi og geymdur þannig yfir veturinn. Á vori var fiskurinn tekinn úr byrgjunum og lagður á garðana þar til honum var pakkað til að flytja í skútur sem komu erlendis frá til að kaupa fisk eða skreið. Sennilega hafa slíkar enskar skútur legið í Kumbaravogi (Cumberland Bay?), sem er fyrir framan Bjarnarhöfn.
Minjar í Berserkjahrauni
8.6.2014 | 08:10
Frásögnin um berserkina í Eyrbyggju og Heiðarviga sögu hefur hrifið marga, en er nokkur fótur fyrir þessu? Samkvæmt sögunni eiga að vera þrjú mannvirki af höndum berserkjanna: gatan, hagaveggur og byrgi. Tvö þeirra eru vel þekkt (gatan og veggurinn) en menn greinir á um hið þriðja. Gatan er alls um 1200 metrar á lengd og reyndar mikið mannvirki. Margir telja að hún sé elsta varðveitta mannvirkið á Íslandi og er það sennilegt. Austur hluti götunnar er í landi Hrauns en vestur hlutinn í Bjarnarhafnarlandi. Það var tvímælalaust mikið verk að ryðja stórum björgum og gjallmolum úr vegi, eins og sést á ruðningnum sem er á báða vegu meðfram götunni. Hafur hún verið mikil samgöngubót í sveitinni. Reyndar var fært milli Hrauns og Bjarnarhafnar með því að ganga fjöruna á stórstraumsfjöru, en það er sjaldan svo. Það er skemmtileg ganga að fara Berserkjagötu í dag og er hún ágætlega varðveitt. Oftast hefja menn göngu sína á austur enda götunnar sem byrjar í Hraunvík. Hraunið er allt úfið og mosavaxið umhverfis, en fast við götuna er annar gróður. Þar er lyng, blómstrandi plöntur og janfvel einir. Það er merkilegt hvað gróður er miklu lengra á veg kominn fast við götuna. Sennilega á sauðkindin sem hér fer um einhvern þátt í því að útvega áburð í jarðveginn og að bera annan og fjölbreyttan gróður inn á hraunið við götuna.
Um miðja vegu á götunni er komið að hagagarðinum eða veggnum, sem berserkirnir hlóðu. Hann hefur verið nenfdur Berserkjagarður. Hann nær niður að sjó skammt fyrir austan Blámannavík og liggur nokkurn veginn beint inn í hraunið. Veggurinn er nokkuð sérstök smíði. Austur hlið veggsins er ávalt lóðrétt og allt að 2 metrar á hæð, en víða er vestur brún veggsins aflíðandi, með 45 til 60 gráðu halla. Ég hef alltaf heyrt að smíði garðsins væri gerð á þennan hátt, til að hleypa sauðfé í aðra áttina (til austurs) en ekki til baka. Ekki er mér kunnugt um annan slíkan garð á Íslandi.
Þega Styrr og hanns menn höfðu drepið berserkina í baðinu, þá fluttu þeir lík þeirra út í hraunið. Dys berserkjanna er í dag fast við götuna í dalverpi í miðju hrauninu. Dalurinn er ýmist nefndur Berserkjalág eða Dysjalaut. Dysin er um 7 metrar á lengd, meðfram götunni og um 3 metrar á breidd.
Sigurður Vigfússon forni (1828-1892) kannaði Berserkjahraun í ágúst árið 1889 og ritaði um það í Árbók Fornleifafélagsins (1893). Ekki getur hann þess hvort hann gróf í dys berserkjanna, en Snæfellski fræðimaðurinn Þorleifur J. Jóhannesson (1878-1944) hefur það eftir Kristjáni Þorleifssyni að Sigurður forni hafi skilið við dysina sundurtætta. Kristján var unglingur í Bjarnarhöfn þegar Sigurður forni var á ferð, en Kristján mun hafa lagfært og endurhlaðið dysina. Kristján Þorleifsson (1876-1959) var síðar hreppstjóri og bjó á Grund í Eyrarsveit. Ég man vel eftir honum í Stykkishólmi.
Gatan, garðurinn og dysin hafa nú skilað sér sem áþreifanlegar menningarminjar, en hvar er byrgið? Eyrbyggja segir svo um þriðju þraut berserkjanna: og gera byrgi hér fyrir innan hraunið. Hvað er byrgi þetta og hvar er það? Sumir telja að hér sé átt við Krossrétt, sem er í hraunjaðrinum skammt fyrir norðan bæinn Hraun. Ég tel það ólíklegt, enda eru slíkar réttir algengar og þessi sker sig ekki úr um byggingu. Sigurður forni heldur því hins vegar fram að byrgið sem berserkirnir hlóðu sé í hraunjaðrinum við bæinn Hraun. Um það fjalla ég í næsta þætti.