Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Berserkirnir í Heiðarvíga sögu


BerserkjagataBerserkjagata er alls um 1200 metrar á lengd. Frá austur enda hennar að dys berserkjanna eru 440 metrar (D á loftmynd). Um 100 metrum fyrir vestan dysina er hagagarðurinn sem berserkirnir hlóðu (V á loftmynd). Þar skammt fyrir vestan er vík, sem ber hið sérkennilega nafn Blámannavík (B á loftmynd).  Ekkert er vitað um uppruna þess örnefnis, en í sögum er rætt um berserki sem blánuðu af reiði.

Heiðavíga saga er önnur heimildin um berserkina Halla og Leikni.  Eins og áður segir, þá er fyrri hluti Heiðarvíga sögu glataður, en hann var endursagður eftir minni árið 1728 af Jóni Grunnvíking.  Hún er því lakari heimild en Eyrbyggja.  Þótt lýsingin sé í stórum dráttum eins, þá víxlar Jón berserkjunum varðandi áhuga þeirra á Ásdísi,  dóttur Víga-Styrs.   Einnig minnist sagan ekkert á byrgið, sem var hin þriðja þraut berserkjanna.  Heiðarvíga saga segir svo frá berserkjunum:   Vermundur dvaldi með Hákoni jarli í Noregi. Berserkirnir tveir Halli og Leiknir voru við hirð jarls. Vorið (ca. 984) er Vermundur undirbýr ferð sína heim, þá býður jarl honum að velja sér að gjöf þann hlut sem honum leikur helst hugur á.  Vermundur biður um berserkina og veitir jarl honum það. Þegar til Íslands kemur reynist Vermundi illt að ráða við hina skapmiklu berserki.  Hann tekur þá það ráð að bjóða þá sem gjöf til bróður síns Víga-Styrrs. Verður það af að berserkirnir fara heim með Styr.  Deilur höfðu lengi verið milli Styrs og Þorbjörns kjálka í Kjálkafirði. Nú vill Styr brúka berserkina til að ná rétti sínum á Þorbirni. Þeir koma þar að á nóttu og brjóta upp dyrnar. Síðan brjóta berserkirnir einnig upp rammlega lokrekkju Þorbeins. Koma þeir að Hrauni og líður nú af veturinn.  Leiknir sat löngum á tali við Ásdísi, dóttur Styrs.  Verður nú ljóst að berserkirnir vilja kvænast.  

Um vorið (ca. 985) ríður Styr að Helgafelli til að ráðgast við Snorra goða.  Eftir heimkomuna segir Styr Leikni að nú verði hann að vinna nokkur þrekvirki áður en konumálin verði til lykta leitt.

Styr mælti: "Hér er hraun hjá bæ mínum illt yfirreiðar. Hefi eg oft hugsað að eg vildi láta gjöra veg þar um og ryðja það en mig hefur skort mannstyrk. Nú vildi eg þú gjörðir það."  Leiknir segir það þyki sér eigi mikið fyrir ef hann njóti liðs Halla bróður síns. Styr sagði hann mætti það við hann eiga.   Taka nú berserkirnir að ryðja hraunið að kvöldi dags og að þeirri sýslan eru þeir um nóttina. Vega þeir stór björg upp þar þess þurfti og færa út fyrir brautina en sumstaðar koma þeir stórum steinum í gryfjurnar en gjöra slétt yfir sem enn má sjá. Var þá á þeim hinn mesti berserksgangur. Um morguninn höfðu þeir því lokið. Er það eitt hið mesta stórvirki er menn vita og mun sá vegur æ haldast með þeim ummerkjum sem á eru meðan landið stendur.   Skulu þeir nú gjöra eitt gerði og hafa því lokið að dagmálum. Á meðan býr Styr þeim bað sem þeir skulu í fara þá þeir hafa af lokið gerðinu. En að morgni skal Leiknir hafa brullaup. Baðið var so til búið að þar var felldur stór hlemmur ofan í gólfið með einum glugga á sem vatninu var inn um hellt. Húsið var grafið í jörð og voru dyr fyrir því með sterkum stokkum og húsið allt af nýjum viðum og hið rammbyggilegasta. Skarir voru fyrir dyrunum upp að ganga.   Um morguninn þá þeir eru að gerðissmíðinni lætur Styr Ásdísi búa sig sem allra best en bannar henni að vara berserkina við hvað hann hafi í ráði. Og áður en þeir hafa lokið gerðinu gengur hún burt frá húsunum á svig við berserkina þar þeir eru að sínu starfi. Leiknir kallar til hennar og spyr hvert hún vilji. Hún svarar engu.

Nú hafa þeir af lokið þessu starfi. Gengur Styr í móti þeim, þakkar þeim með fögrum orðum fyrir starfið og segist nú hafa búið þeim bað er þeir skuli í fara. Hafi þeir nú það þrekvirki unnið er sér allvel hugnist og uppi muni verða um alla ævi.   Halli er í fyrstu eigi ráðinn að ganga í bað og spyr ef eigi skuli fleiri ganga í baðstofu með þeim. Styr svarar það muni eigi hent öðrum mönnum að ganga í bað ásamt slíkum afarmönnum sem þeir eru. En Leiknir vill gjöra það að vilja Styrs.

Nú setjast þeir í baðstofu og er hlemmurinn lagður yfir og borið grjót á. Dyrunum er og lokað og borið grjót fyrir sem rammlegast en á skarirnar er breidd blaut uxahúð. Baðstofan er gjörð ákaflega heit. En þá þeir hafa setið í baðinu litla stund lætur Styr bera sem óðast brennheitt vatn og steypa inn um glugginn. Finna nú berserkirnir að eigi er allt heilt við þá. Hamast þeir nú í baðinu og brjótast á hlemminn. Springur Leiknir inni en Halli kemst út. Og er hann kemur á skarirnar verður hönum fótaskortur og fellur á húðinni en Styr er þar fyrir með reidda öxi og höggur á háls hönum so Halli lét þar lífið.  Í næsta þæti mun ég fjalla um mannvistarminjar sem hafa verið tengdar berserkjunum.


Berserkirnir í Eyrbyggju


 

berserkurBerserkjahraun á Snæfellsnesi er óvenju úfið apalhraun og illt yfirferðar.  Það hefur því verið mikill farartálmi á landnámsöld,  sem myndaði eðlileg mörk milli Helgafellssveitar að austan og Eyrarsveitar fyrir vestan.  Mikil samgöngubót varð á Söguöld, þegar Berserkjagata var rudd.  Þessum atburði er lýst í Eyrbyggju og einnig er fjallað um hann í Heiðarvíga sögu.  Frásögnin í Eyrbyggju er mun heilsteyptari, enda er Heiðarvíga saga aðeins til í handritabrotum.  Allur fyrri hluti handrits Heiðarvíga sögu brann í Kaupmannahöfn árið 1728.  Jón Ólafsson Grunnvíkingur hafði lesið söguna fyrir brunann og endursagði þennan glataða hluta hennar eftir minni.  Það verður því tvímælalaust að taka Eyrbyggju sem traustari heimild um þennan þátt.  Ég endursegi hér frásögn Eyrbyggju og síðar Heiðarvíga sögu, en í síðari þáttum mun ég fjalla frekar um mannvirkin þrjú, sem kennd eru við berserkina.

Eyrbyggja segir frá því að Vermundur mjóvi Þorgrímsson bjó í Bjarnarhöfn.  Afi hans var Kjallekur, sem var kominn af merkum ættum í Noregi og eru Kjallekingar af honum komnir. Vermundur var um tíma í miklum kærleikum með Hákoni jarli, sem á þeim tíma réð yfir Noregi.   Með jarli voru tveir bræður af sænskri ætt, Halli og Leiknir.  Þeir voru miklir menn og sterkir og áttu sig engan jafningja af kröftum í Noregi og þótt víðar væri leitað.  Þeir gengu berserksgang í orrustu eða þegar þeir voru reiðir og voru þá eigi í mannligu eðli, fóru galnir sem hundar og óttuðust hvorki eld né járn.  En hversdagliga voru þeir eigi illir viðureignar.  Eiríkur Svíakonungur hafði sent jarli berserkina og sett varnað á, að hann skyldi gera vel til þeirra.

Um vorið bað Vermundur jarl að gefa sér fararleyfi til Íslands.  Jarl veitti leyfið, og bað Vermund þiggja að gjöf  hverja þá hluti sem væru í hans valdi. Vermundur hugsar að berserkinir muni vera miklir eftirgöngumenn fyrir hans hag á Íslandi og biður  Hákon jarl að láta þá fylgja sér til Íslands.   Berserkirnir voru fúsir til utanferðar og fékk hann samþykki jarls.  Vermundur kemur heim í Bjarnarhöfn sama sumar og Eiríkur rauði siglir til Grænlands (um 985).  Brátt kom í ljós að Vermundur réði ekki við berserkina og varð því úlfúð og illska milli þeirra. 

Bróðir Vermundar var Styrr eða Víga-Styrr, en hann bjó “undir Hrauni” eða á býlinu Berserkjahrauni, sem nú er í eyði.  Býður Vermundur nú bróður sínum berserkina og tekur hann við þeim (ca. 983). Þá fóru berserkirnir með Styr verstur um fjörð að drepa Þorbjörn kjálka og settust síðan að með Styr undir Hrauni um haustið.  Þar slóst Halli á tal við Ásdísi, dóttur Styrs, en hún var ung og mikill skörungur, en talin skapstór.  Halli biður Styr að gifta sér dóttur hans.  Styr færist undan og segist vilja ræða málið við vini sína. Næsta dag ríður Styr til Helgafells til ráðagerða með Snorra goða (ca. 963-1031).  Þeir ganga á fjallið og sátu að tali allt til kvölds.  Síðan reið Styrr heim.  Næsta dag segir Styrr við Halla:  “Nú mun ég gera sem fornir menn, at ek mun láta þik vinna til ráðhags þessa þrautir nökkurar.  Þú skalt ryðja götu yfir hraunit út til Bjarnarhafnar ok leggja hagagarð yfir hraunit milli landa várra ok gera byrgi hér fyrir innan hraunit. En at þessum hlutum fram komnum mun ek gifta þér Ásdísi, dóttur mína.”  Halli svarar:  “Eigi em ek vanr til vinnu, en þó mun ek undir þetta játtast, ef ek skal þá auðveldliga komast at ráðahagnum.” 

Eftir þetta tóku þeir at ryðja götuna, ok er þat it mesta mannvirki. Þeir lögðu ok garðinn, sem enn sér merki. Ok eftir þat gerðu þeir byrgit.  En á meðan þeir váru at þessu verki, lét Styrr gera baðstofu heima undir Hrauni og var grafin í jörð niðr, og var gluggur yfir ofninum, svá at útan mátti á gefa, ok var þat hús ákafliga heitt.

Er þeir unnu at byrginu, þá gekk Ásdís Styrsdóttir hjá þeim, en hún hafði tekit sinn besta búnað.  Að loknu verki ganga berserkirnir heim um kveldit ok váru móðir mjök, er af þeim gekk berserksgangurinn. Styrr bað þá fara í bað ok hvíla sik.  Þeir gerðu svá, en er þeir kómu í baðið, lét Styrr byrgja baðstofuna og bera grjót á hlemminn og breiða hráblauta nautshúð  hjá uppganginum.  Síðan lét hann bæta eldivið á ofninn og var þá baðit svá heitt, at berserkirnir þolðu eigi í baðinu ok hljópu á hurðirnar.  Fékk Halli brotit hlemminn og komst upp ok féll á húðinni. Veitti Styrr honum þá banasár.  Einnig drap Styrr Leikni þar.

Síðan voru lík þeirra færð út í hraunit og þeir kasaðir í dal þeim, er þar er í hrauninu, en svá er djúpr, at engan hlut sér ór nema himin yfir sik. Þat er við sjálfa götuna.  Er Snorri goði frétti þetta, reið hann út undir Hraun og sátu þeir Styrr at tali enn allan dag.  Að því loknu fastaði Styrr Snorra goða Ásdísi, dóttur sína.  Snorri eignaðist fjóra syni með Ásdísi Víga-Styrsdóttur: Þórð kausa, Þórodd, Þorstein og Guðlaug munk.   Síðar, þegar kristni var lögtekin á alþingi, létu bæði Snorri og Styrr gera kirkjur á Helgafelli og undir Hrauni.


Listamaðurinn fundinn!

Heklugos 1970Fyrir um tíu árum rakst ég á þetta sérkennilega málverk í Kolaportinu í Reykjavik.   Það er ekki aðeins mynd af eldgosi, heldur hefur listamaðurinn notað vikur, ösku og gjall í byggingu myndarinnar. Verkið er ekki merkt og hefur því hangið uppi í Eldfjallasafni í Stykkishólmi án þess að listamannsins sé getið. Nú hefur komið í ljós, að það er gert af Lýð S. Guðmundssyni árið 1970.   Lýður sá Heklugosið árið 1970 og safnaði vikri og ösku þá til að setja inn í þessa einstöku mynd. 


Fyrsta myndin af Surtsey

 

 

Surtsey úr hafiNýlega var Eldfjallasafni í Stykkishólmi færð góð gjöf. Það er fyrsta myndin, sem tekin var af Surtsey, þegar hún reis úr hafi hinn 15. nóvember 1963.   Það var Sæmundur Ingólfsson, yfirvélstjóri á varðskipinu Albert, sem tók myndina og færði mér.  Hún mun vera tekin um morguninn, sennilega um tíu leytið. Hér má sjá svarta strönd hinnar nýju eyjar, en gosmökkurinn hylur hana að mestu leyti.  Sæmundur tók mikinn fjölda af merkilegum myndum af fyrstu dögum gossins, og eru þær merkileg heimild. Við færum Sæmundi bestu þakkir fyrir þessa gjöf.  Ég var erlendis við háskólanám í jarðfræði þegar gosið hófst, en var svo heppinn að vera um borð í Albert í nokkra daga í desember 1963 í návígi við gosið, ásamt Þorleifi Einarssyni jarðfræðingi. 


Þetta kemur okkur öllum við

 

 

kolakynt orkuverOrkuver í Bandaríkjunum dæla út um 38% af öllum koltvísýringi sem berst út í loftið og veldur neikvæðum loftslagsáhrifum.  Obama vill skera þetta niður um 30% á næstu árum, sem er ekki nóg en spor í rétta átt. Það þýðir að 550 kolakyntar og skítugar orkustöðvar verða að loka og aðrar orkulindir koma í staðinn eða meiri orkusparnaður.  Stóra vonin er að Ameríkanar snúi sér fremur og enn meir að kjarnorkuverum, og þá sérstaklega orkuverum sem keyrð eru af þóríum en ekki úran.  Það er hægt að draga úr mengun frá kolakyntu verunum.  Frá árinu 2005 hefur mengun frá þeim þegar minnkað um 13%.  Obama mun beita sér fyrir svipuðum aðgerðum í öðrum löndum, þegar hann fundar með erlendum ráðamönnum síðar í súmar.   Að sjáfsögðu er Obama nú með þessu að hanna fallegan minnisvarða um valdaskeið sitt og er það hið besta mál.


Obama fer í stríð við loftslagsbreytingar

 

 

Í vikunni lýsti Obama forseti Bandaríkjanna því yfir að stjórn hans muni vinna að því að draga úr losun koltvíoxíðs frá orkuverum sem nemur 30%.   Reynt verður nú að loka sem flestum orkuverum, sem kynt eru með kolum, en kol eru talin allra mesti mengunarvaldurinn hvað snertir bæði koltvíoxíð og brennistein.  Hætt er við að barátta Obama´s við mengunarvöldin verði erfið og pólítísk.  73% Ameríkana trúa nú að loftslagsbreytingar séu að gerast.  En skoðunin á þessu máli er mjög klofin eftir flokkum.  Þannig eru 65% af Demókrötum sannfærðir um að mikil ógnun stafi af loftslagsbreytingum en aðeins 25% af Repúblikönum.  Baráttan gegn mengun og loftslagsbreytingum er ekki talin ´good for business´, en samt sem áður er þjóðin að síga hægt og hægt í rétta átt.  Þetta er stórt útspil hjá Obama og ef til vill stefnir hann á að byggja upp arfleifð sína á þessu sviði áður en kjörtímabili hans lýkur.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband